Stílhrein staða

Nú er hásumar á norðurhveli jarðar. Það er aðeins misjafnt eftir landsvæðum hvenær sumarið „toppar“ og einnig er það misjafnt eftir hæð í lofthjúpnum og sömuleiðis í sjó. Þessir „toppar“ eru þó oft svo óljósir að þeir sjást ekki nema í meðaltölum sem taka til margra áratuga - eða jafnvel enn lengri tíma. Sól er auðvitað farin að lækka á lofti aftur - búin að gera það í nærri fjórar vikur þegar hér er komið. Sjórinn tregðast lengst við - hér við Ísland er sumar í sjó í hámarki fyrri hluta ágústmánaðar - og það er þá hlýjasti tími ársins á útnesjum og eyjum - gætir seinkunarinnar mest austanlands. Í norðurjaðri staðvindasvæðanna er hlýjasti tíminn enn síðar. 

Í miðju veðrahvolfi er styrkur vestanvindabeltis norðurhvels í lágmarki í kringum 10. ágúst og um tíu dögum til hálfum mánuði síðar snýst vindátt úr austri í vestur í miðju heiðhvolfi. Um þær mundir má segja að hausts fari að gæta. Eins og oft hefur verið fjallað um hér á hungurdiskum er lengd sumarsins - árstíðarinnar ekki alveg einhlít - fer eftir því í hversu margar árstíðir menn vilja skipta árinu. Er árið flatbrauð - eða er það rjómaterta? Eru sneiðarnar bara tvær eða fjórar (jafnstórar) eða kannski átta eða tólf - misstórar þá. 

Á þessu ári ber miðsumar að fornu tali upp á 28.júlí - sumarauki var í fyrra (og reyndar rímspilliár) þannig að oftast er miðsumar fyrr en nú. - Samt sem áður hittir þessi dagsetning tímatalsins gamla vel á það sem að meðaltali er hlýjasti tími ársins á landinu. Við höfum smjattað á því áður hér á hungurdiskum - í fyrra var reiknað út að meðaldagsetning hlýjasta dags ársins væri 29.júlí. 

En víkjum nú að stöðunni á norðurhveli um þessar mundir - á venjulegri yfirlitsmynd.

w-blogg170724a

Kortið er úr iðrum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir síðdegis á föstudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og vindátt í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þar sem hún er lítil er kalt, þar sem hún er mikil er hlýtt. Meðalþykkt við Íslandi í júlí er um 5460 metrar (við mörk gulu og grænu litanna). Á föstudaginn á landið að vera í græna litnum - hiti verður undir meðallagi - segir spáin. 

Það sem er sérlega skemmtilegt við þetta kort er hversu reglulega kuldapollarnir raða sér hringinn - flestir nærri 60 gráðum, þeir við Alaska aðeins sunnar. Litlu pollarnir eru nú sjö að tölu - sjö nær reglulegar bylgjur umhverfis „móðurkuldann“ yfir Norðuríshafi - bylgjutala sjö. Hún er talsvert tísku í sumarhamfarafræðaheimum (já, afkimarnir eru margir) um þessar mundir. Ritstjóri hungurdiska nennir eiginlega ekki að fjalla um ástæðurnar - gæti það kannski - en er farinn að rása í brautinni. Þeir sem vilja geta t.d. litið á bakvið þennan tengil.

Móðurpollurinn er öflugur - eins og sjá má, sjö eða átta jafnhæðarlínur og þrjár eða fjórar jafnþykktarlínur hringa sig nærri miðju hans. Þetta er ekki alveg stöðugt - jafnvægisdans á línunni. Við megum taka eftir því að litlu pollarnir eru misöflugir - þeir sem eru yfir Rússlandi og Síberíu eru vægari heldur en hinir (2,3 og 4). Sömuleiðis er langmesti hryggurinn milli þeirra einnig yfir meginlandi (vestanverðu Kanada) - og sömuleiðis er pollurinn sunnan Íslands að dæla hlýju lofti til norðurs (fyrir austan land) og reynir að styrkja hrygginn. Hudsonflóapollurinn er á leið suðausturs og ýtir þá upp hlýju lofti á undan sér líka. Þetta mun leiða til breytinga - en það tekur nokkra daga, að minnsta kosti. 

Það sem helst virðist skipta okkur máli er að pollurinn fyrir sunnan land þokast norður og þær spár sem nú er veifað segja að úr verði nokkuð öflug lægð (miðað við árstíma) fyrir norðan land - og þá upp úr helginni. Þessum flutningum fylgja ákveðin leiðindi - en við gerum þó ekki mikið úr þeim í bili - látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila flytja nánari fréttir - verði ástæða til (sem ekki endilega er ljóst á þessu stigi). 

En hlýindi (að marki) virðast varla í kortunum í bili. Við vitum ekkert um hver verður hlýjasti dagur ársins 2024 - ekki einu sinni hvort hann er þegar liðinn. Í pistlinum í fyrra var bent á að síðustu 75 árin hefur hlýjasti dagur ársins á landinu í heild einu sinni orðið í maí - og einu sinni í október - þannig að meðaltalið segir ekkert um einstök ár.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 83
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 2462
  • Frá upphafi: 2434904

Annað

  • Innlit í dag: 77
  • Innlit sl. viku: 2187
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 73

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband