5.7.2024 | 20:45
Af hitabylgjum
Það er nokkuð síðan við höfum litið á hitabylgjur hér á hungurdiskum. Eiginlegar hitabylgjur eins og þær sem eru oft í erlendum fréttum koma reyndar aldrei hér á landi. Það er svona rétt dag og dag að hiti rétt skríði yfir 25 stigin á stöku stað - og það gerist ekki á hverju ári. Við verðum því í talningum að slá nokkuð af og hefur ritstjórinn (og e.t.v. fleiri) gjarnan miðað talningar á hitum við 20 stig. Það er íslensk hitabylgja slefi hitinn svo hátt - jafnvel þótt ekki sé nema einn stakan dag.
Talningar geta farið fram á ýmsa vegu. Ritstjórinn gerði grein fyrir einhverjum þeirra í alllangri ritgerð sem út kom árið 2003 (Hitabylgjur og hlýir dagar). Þar má einnig finna vangaveltur um veðuraðstæður þessa (fáu) hlýju daga, breytileika milli landshluta og einstakra veðurstöðva, fjallað um tíðnisveiflur í tímans rás - og þar á meðal er reynt að setja fram lista yfir mestu hitabylgjurnar. Auk þess er reynt að svara spurningunni um það hversu hlýtt getur orðið á Íslandi. Þeir sem hafa áhuga á efninu eru hvattir til að lesa þetta grundvallarrit".
En síðan eru liðin rúm 20 ár. Hungurdiskar hafa raunar fjallað um málið allnokkrum sinnum síðan, m.a. rætt hæsta hita sem mælst hefur á landinu - og ritað um það sem ritstjórinn kallar tuttugustigavísitölu
Tuttugustigavísitalan frá því hversu hátt hlutfall veðurstöðva í byggð tilkynnir að hámarkshiti sólarhringsins hafi komist í 20 stig eða meira. Notast er við þúsundustuhluta, vísitalan 1000 segði að 20 stig eða meira hafi mælst á öllum stöðvum, núll að 20 stig hafi hvergi mælst. Talan 500 segir að 20 stigum hafi verið náð á helmingi stöðvanna. Við lítum síðar á hvaða dagar það eru sem hafa staðið sig best hvað þetta snertir.
Það flækir auðvitað málið að alltaf er verið að hringla með veðurstöðvakerfið. Nú eru sjálfvirkar athuganir alfarið komnar í stað mannaðra og stöðvum sem mæla hita hefur fjölgað mjög. Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega hvort vísitölur séu þær sömu í sjálfvirka kerfinu og því mannaða. Saga stöðvakerfisins kemur einnig við sögu. Fyrstu ár sjálfvirkninnar var hlutfall strandstöðva hærra en stöðva í innsveitum - svipað á við fyrstu ár mannaða kerfisins á 19.öld. Stöðvar voru frekar við ströndina heldur en inn til landsins. Hlýir dagar eru mun færri á strandstöðvum heldur en innsveitarstöðvum. Þetta getur haft áhrif á samanburð milli kerfa og milli ára.
Við byrjum á því að reikna vísitölu fyrir alla daga í sjálfvirka kerfinu frá og með 1997 til 2023. Síðan leggjum við saman vísitölu allra daga hvers árs og búum til töflu sem sýnir summuna - og setjum á mynd. Til hægðarauka höfum við einnig reiknað 7-ára keðjumeðaltal.
Þessi 27 ár hafa verið nokkuð misgæf á hitabylgjur. Langhæsta talan er frá sumrinu 2021, en þá var fádæma hlýtt langtímum saman um landið Norðan- og Austanvert. Margir muna einnig hitabylgjurnar miklu í ágúst 2004 og í júlílok 2008. Sumarið 2001 var naumast á 20 stigin (núlíðandi sumar, 2024, er þegar komið upp fyrir það) og 2015 var einnig mjög rýrt.
Við viljum auðvitað komast lengra aftur. Til að það sé hægt þurfum við að gera það sama fyrir mönnuðu stöðvarnar - og sannfæra okkur um að útkoman fyrir þær sé svipuð. Við komumst með góðu móti aftur til ársins 1961, en dagleg gildi allra stöðva eru til frá þeim tíma í gagnagrunni Veðurstofunnar. Frá 1949 eru allar skeytastöðvar þar líka - en ekki svokallaðar veðurfarsstöðvar sem líka mældu hámarkshita. Þær voru heldur fleiri inn til landsins heldur en skeytastöðvarnar. Því er líklegt að tölur áranna 1949 til 1960 séu lítillega vanmetnar í töflunni.
Samanburðurinn við sjálfvirku stöðvarnar nær þó auðvitað ekki nema aftur til 1997.
Jú, tölurnar fylgjast í aðalatriðum að, en samt er dálítill munur frá ári til árs. Árið 2021 eru mönnuðu stöðvarnar orðnar fáar. Samt sýnist að sjálfvirku stöðvarnar vanmeti vísitöluna lítillega - eða að mönnuðu stöðvarnar ofmeti hana. En þrátt fyrir þennan mun eru kerfin tvö samt að sýna það sama - í aðalatriðum.
Við getum því litið á næstu mynd - hún nær aftur til 1949.
Súlurnar sýna vísitölusummur einstakra ára, rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal, en sú græna sýnir 7-árakeðjuna fyrir sjálfvirku stöðvarnar. Þar sjáum við að hún er neðan við þá rauðu fyrstu árin (meðan hlutfall strandstöðva var hæst), en eftir það er meira samræmi. Í heildina litið hefur hitabylgjum fjölgað mjög á þessu tímabili. Þær voru harla fáséðar á uppeldisárum ritstjóra hungurdiska. Fyrsta stóra hitabylgjuár hans tíma var 1976. Síðan er fjöldi gæfra ára allt frá 1997 allt til þess að nokkur rýrð varð á árunum 2014-16. Árið 2021 sker sig úr. Einnig eru tvo sæmileg ár fyrir minni ritstjórans, sumarið 1949 og aftur 1955. Síðara sumarið (rigningasumarið mikla) var mjög hlýtt í nokkra daga á Norðaustur- og Austurlandi. Rýrast var sumarið 1979 (rétt svo að hiti næði 20 stigum einu sinni) og 1961.
En nú vitum við að hlýskeið ríkti hér á landi frá þriðja áratug síðustu aldar og fram á þann sjöunda. Þessi mynd sýnir raunar greinilega að hlýindin miklu náðu ekki til sumarsins - síðasta hluta hlýskeiðsins, það var búið hvað sumarið varðaði. Um það hafa hungurdiskar auðvitað fjallað um áður.
Það flækir einnig málið að til að byrja með voru ekki hámarkshitamælar nema á sárafáum stöðvum. Við vitum því ekki hæsta hita hvers dags á flestum stöðvum, aðeins hita sem mældist um miðjan daginn. Það var þó tiltölulega létt verk að tína upp hæsta hita hvers mánaðar bæði á stöðvum með og án hámarkshitamælis á þessum árum. Hámarkshitamælum fjölgaði síðan eftir að Veðurstofan tók við athugunum og þeir voru komnir á flestar stöðvar fyrir 1940. En svo er einnig við það vandamál að eiga að hámarkshitamælarnir sýndu oft of háan hita í gömlu mælaskýlunum. Oft er óeðlilega mikill munur á hita hámarksmælisins og hita á venjulegum mæli síðdegis. Það er mikið mál að greiða úr því. Hámarkshitamælar eru að auki mun bilanagjarnari heldur en hefðbundnir mælar.
En eitthvað verðum við að gera. Í áðurnefndri hitabylgjuritgerð ritstjórans var gripið til annars hlutfallsreiknings. Reiknað var á hversu mörgum stöðvum hæsti hiti hvers mánaðar hefði náð 20 stigum - og hlutfall þeirrar tölu af heildarfjölda þeirra stöðva sem mældu í viðkomandi mánuði. Til að sannfæra okkur um að eitthvað vit sé í því verðum við að líta á annað dreifirit.
Tuttugustigavísitölusumman eins og hún var kynnt hér að ofan er á lóðrétta ásnum, en á þeim lárétta er hins vegar vísitala byggð á mánaðahámarkinu (hlutfalli eins og lýst var hér að ofan). Þetta getum við gert fyrir árin 1949 til 2023 og okkur til léttis sjáum við að tölurnar fylgjast oftast nokkuð vel að. Mánaðasummuna er hægt - með góðum vilja - að nota sem vitni fyrir hina. Við skulum þó taka eftir rauðu örvunum á myndinni. Sú neðri bendir á árin 1980 og 2002. Þessi ár ná mjög hátt (langt til hægri) á mánaðarvísitölukvarðanum - þá komu mjög öflugar hitabylgjur - en þær stóðu stutt. Þær hafa því mikil áhrif á mánaðavísitöluna, en minni á þá sem byggir á daglegum gildum. Efri örin bendir á árin 2004 og 2008. Mjög stórar hitabylgjur þeirra ára voru lengri - en geta auðvitað ekki gert meir en að nær metta mánaðarvísitölur sínar. Vísitalan sem byggir á mánaðargildum getur því bæði of- og vanmetið árssummuna - það verðum við að hafa í huga.
En sýnum við ákveðna bjartsýnir (og blindu) getum við kannski búist við því að margra ára meðaltöl jafni þetta eitthvað út - því þetta getur verið á báða vegu - og þá er komið að síðustu mynd dagsins.
Hún sýnir mánaðarvísitöluna aftur til 1874 (í algjöru glóruleysi reyndar). Súlurnar sýna stök ár, en rauða línan er 7-árakeðja (vinstri kvarði). Græna línan (hægri kvarði) er tuttugustigasumman - sem byggir á dagsgildum. Við sjáum að hlýskeiðið frá 1925 til 1949 kemur vel fram - og 1939 slær 2021 út. Þá virðast hitabylgjur hafa verið ámóta algengar og er nú á dögum, en afskaplega rýrt skeið á milli. Allmargar hitabylgjur eru einnig fyrir 1920, flestar þær mestu hafa komið við sögu í hinum löngu árapistlum ritstjóra hungurdiska - eða í öðrum sérstökum pistlum.
En það er greinilega harla óheppilegt að byrja hitabylgjutalningar (eða talningar á hlýjum dögum almennt) fyrir 50-60 árum, eins og alloft sést gert (og pirrar ritstjóra hungurdiska mjög).
Til stendur að fjalla frekar um hitabylgjur í fleiri pistlum á næstunni - ef þrek endist. Það er bara svo margt sem fyrir liggur.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 143
- Sl. sólarhring: 371
- Sl. viku: 2522
- Frá upphafi: 2434964
Annað
- Innlit í dag: 131
- Innlit sl. viku: 2241
- Gestir í dag: 127
- IP-tölur í dag: 125
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.