Ekki mjög upplífgandi - en tilefni samt

Veðurspá evrópureiknimiðstöðvarinnar nú í kvöld (fimmtudag 30.maí) er ekki sérlega upplífgandi. Kosturinn þó sá að hún á enn (talsverða) möguleika á að verða röng - sem við auðvitað (flest) vonum.

Háþrýstisvæði vestur af Bretlandi beinir til okkar sterkum háloftavindum. Þeim fylgja úrkomusvæði (tætingsleg flest) og strekkingsvindur sem meginhluti landsins virðist þó ætla að sleppa furðuvel við - nema þar sem fjöll geta „dregið“ vindinn niður - það er helst á Vestfjörðum norðanverðum og á stöku stað fyrir norðan. Aðalháloftastrengurinn fer milli Íslands og Grænlands.

w-blogg290524a

Kortið sýnir stöðuna kl.6 í fyrramálið (föstudag 31.maí) eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða í reikningum nú síðdegis. Við hrósum happi fyrir að sleppa með skrekkinn í þetta sinn - öfugt við það sem var í svipaðri stöðu í fyrravor þegar vindur náði að rífa flest lauf af nýlaufguðum trjánum - svo sá á þeim allt sumarið. 

En þetta fer hjá. Kuldapollurinn sem við töluðum hér um fyrir fáeinum dögum var í dag yfir Grænlandi - en er á morgun nærri miðju háloftalægðarinnar á kortinu hér að ofan. Heldur síðan áfram til norðurs. Einskonar skott fylgir á eftir sem fer yfir landið á sunnudaginn og í kjölfar þess á kuldinn að ná sér á strik með vaxandi norðanátt. 

w-blogg290524b

Síðdegis á mánudag er aðalháloftakerfið komið austur fyrir, þar er djúp lægð, en vestan við hana er kuldastroka úr norðri. Af afstöðu jafnhæðar- og jafnþykktarlína getum við séð að mun hvassara er í neðri hluta veðrahvolfs heldur en þarna uppi í rúmlega 5 km hæð. Hér er aðalvindstrengurinn rétt norðaustan við landið - þar sem jafnþykktarlínurnar (litaskiptin) eru hvað þéttastar. Þessi spá segir að við Vesturland fari þykktin niður í 5220 metra. 

Gagnagrunnur ritstjóra hungurdiska segir okkur að þetta sé óvenjukalt í júní. Hefur gerst svona 5 til 6 sinnum síðustu 70 árin. Í öllum þeim tilvikum var um leiðindahret að ræða og jafnvel hríðarveður um landið norðanvert. 

Þriðjudagurinn er jafnvel enn verri - sé rétt reiknað.

w-blogg290524c

Eindregin norðanátt. Þrýstispönn yfir landið er hér 22 hPa. Við flettingar í gagnagrunni ritstjórans má sjá að það er ekki algengt í júní. Þó ívið algengara heldur en þykktarkuldinn. Þau tilvik sem nefnd eru í gagnagrunninum - í norðanátt - eru langflest eftirminnileg fyrir leiðindi. Bar þó ekki öll eins að. 

Minnt er á að hér er um að ræða spá marga daga fram í tímann. Ekki er hún endilega rétt og reyndin verður ábyggilega nokkuð önnur en reiknað er nú í dag. En ritstjóri hungurdiska er sífellt á ferð í fortíðinni og leikur sér nær daglega með tölur hennar - það eru Legokubbar hans. Trúverðugleiki reiknilíkana er líka áhugaverður - er yfirleitt hægt að trúa þeim? Þau eru oftast mjög sannfærandi - en líka oft mjög röng - svo oft að maður skammast sín stundum fyrir að tala um það. En líkönin eru að sjálfsögðu sálarlaus - og er nákvæmlega sama. 

Stjórnmálamenn eru líka oft mjög sannfærandi - en er yfirleitt hægt að trúa þeim? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nei þeir hafa ekkert í þig þegar kemur að trúa á,svo er maður á fullri ferð að verða að líkani með smá sál.

Helga Kristjánsdóttir, 1.6.2024 kl. 02:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg050724e
  • w-blogg050724d
  • w-blogg050724
  • w-blogg050724b
  • w-blogg050724a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 120
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 2940
  • Frá upphafi: 2372255

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 2649
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband