Um hæsta lágmarkshita

Fréttir af allskonar hitametum eru áberandi þessa dagana, meðalhiti í heiminum er sérlega hár og hitabylgjur virðast hafa slegið sér niður víða. Sé farið í saumana á þessum fréttum virðist meira um að óvenjuhlýtt sé á nóttum heldur en á daginn, sólarhringslágmarkshiti hærri en áður hefur þekkst á veðurstöðvunum. Jú, hámarkshitamet eru líka mörg. Tilfinningin er sú að ein ástæða þessa misræmis sé að gögn um hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita nái að jafnaði talsvert lengra aftur í tímann heldur en gögn um lægsta sólarhringshámarkshita og hæsta sólarhringslágmarkshita. Þannig er því t.d. varið hér á landi.

Þótt við höfum allgóðar upplýsingar um hitafar á landinu í 150 til 200 ár (jafnvel daglega) var (til allrar hamingju) langalgengast að þær mælingar væru gerðar á föstum tímum sólarhrings, að morgni og að kveldi. Lágmarks- og hámarksmælar voru þó á fáeinum stöðvum. Gallinn hins vegar sá að þeir eru mun bilanagjarnari heldur en hefðbundnir mælar (sem bila ekki oft). Lágmarksmælarnir höfðu tilhneigingu til að síga þannig að stórra leiðréttinga varð þörf (mælar voru alltaf bornir saman), sýndu jafnvel 4 til 6 stigum of lágan hita - en langt var í birgðastöðvar í Danmörku og síðar var jafnvel erfitt að koma nýjum mælum út á land frá Reykjavík þegar bilana varð vart. Enn erfiðara var með hámarksmælana - þá þarf alltaf að slá niður eftir hvern aflestur. Líkur á broti margfölduðust við þetta og má segja að hámarksmælar hafi aldrei verið notaðir nema á aðalstöðvum dönsku Veðurstofunnar - og eftir að Veðurstofa Íslands var stofnuð tók mörg ár að fjölga hámarkshitamælum þannig að viðunandi væri.

Þessum mælingum fylgir síðan annað vandamál. Hve oft átti að lesa af þeim? Allt fram yfir 1920 var það aðeins gert einu sinni á dag, kl.8 að morgni (kl.9 að núverandi íslenskum miðtíma). Var þetta aðalregla þar til að stór breyting var gerð á skeytalyklinum árið 1929. Þessi nýi skeytalykill var þó ekki kominn í fulla notkun hér á landi fyrr en 1935. Skeytalykill þessi hafði þann risastóra galla að haldið var áfram að lesa hámark og lágmarkshita einu sinni á dag, en lágmarkið kl.8 (9) að morgni , en hámarkið kl.17 (18). Mælarnir voru hins vegar endurstilltir kvölds og morgna (til að auðvelda samanburð og finna mælarek). Þannig var þetta á skeytastöðvunum. Á veðurfarsstöðvum var staðan misjöfn frá stöð til stöðvar - en langoftast þó lesið einu sinni - og ekki endurstillt nema einu sinni. Þetta ástand þýðir að á tímabilinu 1935 til 1948 gæti vantað skráningu á slatta af réttum sólarhringshámörkum - þegar svo hittist á að þau áttu sér stað að næturlagi.- En einmitt þannig er veðurlag á norðurslóðum - utan hins algengasta í heiminum. Suður í Evrópu - svo ekki sé talað um Bandaríkin eða nýlendur stórveldanna er sárasjaldgæft að hæsti hiti sólarhringsins eigi sér stað í myrkri.

Þessi aflestrarvandi minnkaði með nýjum skeytalykli 1949 - og betri samræmingu mælinga á veðurfarsstöðum. Við eigum sum sé allgóðar hitamælingar 150 ár aftur í tímann (getum teygt það í 200 ár með góðum vilja). Upplýsingar um hæstu hámörk og lægstu lágmörk höfum við allgóðar upplýsingar um á einstökum stöðvum í 130 til 140 ár, en á landsvísu ekki nema tæp 100 ár. En þá kemur að hæstu lágmörkum og lægstu hámörkum. Þar stöndum við ekki eins vel, viðunandi þó frá því um 1960. Þessi mislangi tímarammi veldur því að (í jafnstöðuveðurlagi) er líklegra að þessi síðastnefndu met séu slegin heldur en hin „hefðbundnu“.

Síðan verður að nefna fleiri truflandi atriði. Síðan um 1995 hafa sjálfvirkar hitamælingar smám saman verið að taka við af mönnuðum. Víðtækar samanburðarmælingar hafa sýnt að þær eru í flestu sambærilegar eldri mæliháttum, sérstaklega hvað varðar meðaltöl öll, hvort sem litið er til dægur- eða mánaðameðaltala - eða dægursveiflu hita á athugunartímum. En aftur á móti gegnir aðeins öðru máli með ítrustu met. Við þekkjum skilyrði þar sem hámarkshiti er hærri sé hann mældur í þeim hólkum sem eru staðalbúnaður á sjálfvirkum stöðvum heldur en í mælaskýlum. Munurinn stafar frekar af mismun hólka og skýla heldur en því sem skynjararnir sjálfir sýna. Sé skynjara komið fyrir í hefðbundnu mælaskýli sýnir hann sjaldan annað heldur en kvikasilfursmælir í sama skýli.

Þetta á sérstaklega við um hámarkshita í glampandi sólskini og logni. Sá munur er reyndar vel skiljanlegur. Líklegt þykir að einhver munur komi líka fram í lágmarksmælingu - sjálfvirki mælirinn sýni aðeins lægra lágmark heldur en mælir í skýli. Við vitum hins vegar ekki eins vel hvað veldur - og þetta hefur ekki verið athugað til hlítar - skiptir engu nema þegar nýtt met birtist, eitthvað örlítið lægra heldur en eldra met. Sami vandi liggur auðvitað í eldri breytingum á mæliháttum. Fríttstandandi skýli komu í stað veggskýla. Samanburðarmælingar voru gerðar - og sýndu mun sem þurfti að leiðrétta fyrir. Veggskýlin komu á sínum tíma í stað lítt staðlaðra aðstæðna - slíkar aðstæður geta gefið mjög gagnlegar upplýsingar um meðalhita, en mun síðri um hæstu hámörk og lægstu lágmörk.

Annað atriði sem líka verður að nefna er að á sjálfvirku stöðvunum kjósum við að miða sólarhringshámörk og lágmörk við „réttan“ sólarhring. Vegna kostnaðar við veðurathuganir á miðnætti þurfti áður að slaka á hvað þetta varðaði. Lengi framan af var hitaútgildasólarhringurinn frá kl.8 til 8 (9 til 9 eftir núverandi klukku), en síðan 18 til 18 (á skeytastöðvum) - eða 21 til 21 (á veðurfarsstöðvum). Sé dagur óvenjuhlýr gerist það alloft að hiti kl.18 þann dag verður hærri heldur en hæsti hiti um miðjan dag daginn eftir - hámarkshitinn sem lesinn er kl.9 þann morgun er hærri heldur en hámarkið sem lesið er kl.18 síðdegis sama dag. Hlýindi fyrra dags hafa smitast milli daga. Þetta er furðualgengt. Sé lesið af kl.21 minnka líkur á þessu og tvöföld hámörk (eins og það er kallað) eru sjaldséðari á veðurfarsstöðvum heldur en skeytastöðvum - á sumarhelmingi ársins. Er hér komin ástæða þess að í áðurnefndum skeytalykli frá 1929 var hámarkshiti kl.8 ekki sendur (né lesinn) - menn vildu frekar missa af raunverulegu næturhámarki (enda sárasjaldgæft sunnan Íslands) heldur en að fá þetta smit í skeytin (þau þurftu að vera sem allrastyst).

Með því að fara yfir á réttan sólarhring minnka mjög líkur á tvöföldum hámörkum - nema köldustu vetrarmánuðina. Aftur á móti fjölgar tvöföldum lágmörkum heldur (það hefur sýnt sig). Erlendis þar sem sólin er nánast einráð um dægursveifluna er algengt að skipta sólarhringnum kl. 7 eða 8 að morgni (staðartími). Þar eru tvöföld lágmörk algengari heldur en hér var.

En aftur að upphafi þessa pistils. Vitum við eitthvað um met þegar kemur að hæsta lágmarkshita og lægsta hámarkshita?

Aftur: Ísland er norðarlega á hnettinum. Dægursveifla hita er þó mikil hér á landi og yfirgnæfir oftast hitasveiflur sem eiga sér aðrar ástæður. En - samspil vinds, fjalla og ákafs aðstreymis af hlýju lofti getur stöku sinnum valtað yfir dægursveifluna.

Eftir því sem næst verður komist er hæsti hiti sem lesinn hefur verið af lágmarksmæli hér á landi kl.9 að morgni 20,4 stig. Þetta var á Seyðisfirði 22. júlí árið 2000. Næsta mæling á undan var kl.21 daginn áður. Þetta er hæsta næturlágmark landsins.

En lágmarkshiti beggja daganna 21. og 22. júlí var hins vegar lægri en þetta - hitabylgjan stóð ekki nægilega lengi og hitti ekki nægilega vel í daginn til þess að gera þetta að hæsta lágmarkshita sólarhrings á landinu. Hvað á eiginlega að gera í svona máli?

Hæsta sólarhringslágmarkið sem enn hefur fundist mældist á Vatnsskarðshólum í hitabylgjunni frægu 11. ágúst 2004, 19,5 stig. Á sjálfvirku stöðinni á sama stað var lágmarkshitinn 19,8 stig. Hvor talan á að teljast Íslandsmetið (með greini)? Ekki er víst að raunverulegur munur hafi verið á mælunum tveimur, hann gæti hafa falist í ónákvæmum aflestri lágmarksmælis (mætti athuga nánar).

Hungurdiskar hafa oft minnst á hæsta lágmarkshita Reykjavíkur, 18,2 stig sem mældust 31.júlí 1980. Svo vill til að ritstjóri hungurdiska var á vakt þessa einstöku nótt.

Bætum nú enn við flækjustigið: Í ágústhitabylgjunni miklu 2004 var lágmarkshiti sólarhringsins 10.ágúst 20,1 stig á stöð Vegagerðarinnar við Þrengslaveg. Vegagerðarstöðvarnar mæla hita á 10-mínútna fresti, á stöðvum Veðurstofunnar er slíkt gildi í raun meðaltal mælinga 2 mínútna (til samræmis við ætlaðan viðbragðstíma kvikasilfursmæla). Lágmarkshiti á stöðvum Veðurstofunnar er færður í skrár á 10-mínútna fresti, lægsta tala fimm tveggja mínútna mælitímabila undangenginna 10-mínútna. Á Vegagerðarstöðunum vitum við ekki hvort hiti einhvera hinna fjögurra 2-mínútna bila sem lenda á milli 10-mínútna mælinganna hafa sýnt hærri eða lægri gildi heldur en 10-mínútnagildin til beggja handa hvort um sig. Ákveðnar líkur eru á því. Við vitum heldur ekki hvort Vegagerðarstöðvarnar miðuðu í raun og veru við 2-mínútur árið 2004 - mögulega eitthvað annað. Lágmarkið áðurnefnda í Þrengslum, 20,1 stig, hefði því kannski orðið 20,0 eða 19,9 hefði enga mælingu „vantað“. En þetta er svosem sparðatíningur miðað við fjölmarga aðra óvissuþætti hámarks- og lágmarkshitamælinga.

Miðað við „rétta“ skiptingu sólarhringsins er hæsta lágmarkið sem við vitum um á sjálfvirku stöðvunum 18,7 stig. Það var á Þingvöllum 10.ágúst 2004 (enn þeirri sömu hitabylgju). Hæsti júlílágmarkshitinn á sjálfvirku stöðvunum er 17,2 stig, mældist á Siglufirði 22.júlí árið 2000 (sama dag og metið var á Seyðisfirði).

Metið á Akureyri er 17,2 stig, sett 9.ágúst 2012 (hlýindin þá urðu tilefni eldri bloggpistils). Á Krossanesbrautinni var lágmarkið þá 16,4 stig (en sólarhringurinn frá 0-24).

En höfum þó í huga að ekki hefur verið farið í saumana á öllum lágmarks- og hámarksmælingum einstakra daga á árunum fyrir 1949. Það er vonandi að íslensk veðurnörd reyni að standa sig í því seinlega verki - en það er ekki auðvelt að komast að samanburðarhæfri niðurstöðu - eins og pistill þessi ætti að sýna.

En ritstjóri hungurdiska hefur gert metalista fyrir hæstu lágmörk (og lægstu hámörk) allra mánaða. Við skulum líta á hann.

w-blogg280524a

[Batnar sé smellt á myndina - en enn lesanlegra eintak af lista er í viðhenginu - pdf] Við skulum leyfa okkur að hafa töfluna þrefalda (hún er einkum til fróðleiks). Mönnuðu stöðvarnar eiga enn flest mánaðarmetin (rautt). Við sjáum að flest metin eru sett á stöðvum nærri fjöllum. Í vegagerðarlistanum (neðri tafla) er það Siglufjarðarvegur og stöðvar þar í grennd (Stafá og Herkonugil) sem eru mest áberandi (7 met af 12) - og við getum alveg talið Héðinsfjörð þar með. Metið úr Þrengslunum sem fjallað var um að ofan sker sig úr hvað staðsetningu varðar. 

Á listanum yfir sjálfvirku stöðvarnar standa Skrauthólar sig vel (tvö vormet) og stöðvar við Seyðisfjörð og Vopnafjörð. Seyðisfjörður er einnig áberandi á lista mönnuðu stöðvanna og sömuleiðis Vopnafjarðarstöðvarnar (Skjaldþingsstaðir og Fagridalur). Dalsmynni er í Skagafirði - ekki svo ofboðslega langt frá Fljótunum. 

Nú ættum við að vita í aðalatriðum hvað er óvenjulega hlý nótt á landinu - og við hvaða aðstæður fyrirspurnir kunna að berast okkur frá erlendum veðurnördum sem virðast vera með fingur á heiminum öllum (ótrúleg elja). [Jú, þau spyrja í raun og veru ef eitthvað óvenjulegt á sér stað - eins gott að vita svörin - og verða sér ekki til skammar]. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • laxfoss-vid-bryggju
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 130
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 1887
  • Frá upphafi: 2398277

Annað

  • Innlit í dag: 118
  • Innlit sl. viku: 1723
  • Gestir í dag: 114
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband