Leiðindamegin á veðurrófinu

Hiti það sem af er maí hangir enn í meðallagi í Reykjavík, úrkoma er hins vegar yfir meðallagi og sólskinsstundir færri - allt svona til þess að gera í lagi samt. Hinu megin á landinu hefur verið hlýrra - ekki nein methlýindi auðvitað, en samt með hlýrri maímánuðum það sem af er öldinni og sólskinsstundir fleiri en venjulegt er. 

Ritstjóra hungurdiska er ekkert sérlega vel við að ræða langtímaveðurspár - þær eru ískyggilega oft arfavitlausar - en oft er af þeim einhverjar vísbendingar að hafa. Hvíslað er um vaxandi suðvestanátt hér á landi þegar kemur fram yfir miðja viku. Í langtímaspám hefur hún að vísu verið mjög misleiðinleg - bæði hvað vind og hita varðar. Kannski sleppum við tiltölulega sæmilega - rigningarkast um landið sunnan- og vestanvert, en betra veður og hlýrra norðaustanlands. Enn minna samkomulag er um frekara framhald - en það er hins vegar algengt að suðvestanköstum á þessum tíma ljúki með kaldri norðanátt. Þannig atburðarás hefur sést í mörgum spám undanfarna daga. Slíkt er nokkuð ákveðið leiðindamegin á veðurrófinu - jafnvel þótt engin met séu í hættu. 

Næst er rétt að líta á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis miðvikudaginn 29.maí. 

w-blogg270524a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þær vísa á vindstyrk og vindátt í miðju veðrahvolfi. Lítir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og er allgóður vísir á hita í mannheimum. Lítið er orðið eftir af vetrarhringrásinni. Þó berjast tveir allmyndarlegir kuldapollar enn fyrir lífi sínu. Sá vestari skiptir okkur máli næstu vikuna. Hann á á miðvikudaginn að vera við Vestur-Grænland, veldur sjálfsagt hríðarveðri þar. Þykktin er minni en 5160 metrar, svipuð því sem við vitum minnsta í júnímánuði hér á landi. Yfir Skandinavíu er enn myndarlegur hæðarhryggur sem verið hefur á svipuðum slóðum undanfarnar vikur og valdið þar methlýindum víða. Þykktin í miðju hryggjarins er meiri en 5580 metrar á miðvikudaginn og hefur að undanförnu verið 5610 til 5630 metrar, svipað og mest er vitað um hér á landi í júnímánuði. 

Sú framtíðarsýn sem reiknimiðstöðin býður upp á í dag segir að kuldapollurinn þokist í austur. Grænland þvælist að vísu eitthvað fyrir, en á föstudag á hann þó að vera við Scoresbysund. Reynist það rétt verður allsterkur vindstrengur úr suðvestri í háloftunum yfir Íslandi með tilheyrandi leiðindum - en hita nærri meðallagi. Kuldinn á síðan að halda áfram lengra til norðausturs - og grípa hinn stóra kuldapollinn á kortinu, sameinast honum við Svalbarða - snúast þar í hring og stefna til suðuðvesturs ekki langt fyrir austan land. 

Ekki mjög uppörvandi framtíðarsýn - nema fyrir stöku veðurnörd. Við getum líka huggað okkur við að þetta er ábyggilega rangt. Bandaríska spáin er t.d. gæfari á hita handa austlendingum í suðvestanáttinni fyrir helgina - og lætur kuldapollana stranda við Svalbarða - langt frá okkur. 

Hefur veðrið áhrif á forsetakosningarnar? Sennilega ekki - nema þá að muni sárafáum atkvæðum á efsta og næstefsta frambjóðanda. Þá gæti veðrið ráðið úrslitum - og það á ýmsa vegu. Kjósandi góður - vilt þú það? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg171024b
  • w-blogg171024a
  • w-blogg171024ii
  • w-blogg171024i
  • w-blogg151024c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.10.): 56
  • Sl. sólarhring: 301
  • Sl. viku: 2618
  • Frá upphafi: 2402298

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 2273
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband