19.5.2024 | 21:16
Hugsað til ársins 1945
Tíð var lengst af mjög hagstæð á árinu 1945, nema helst tveir fyrstu mánuðirnir. Árið var hlýtt. Janúar var umhleypingasamur og fremur kaldur. Það var sérlega þurrt um austan- og suðaustanvert landið [úrkoma á Teigarhorni aðeins 3,8 mm]. Nokkur snjór, en mjög mismikill. Slæmar gæftir. Umhleypingar gengu í febrúar og samgöngur voru erfiðar og gæftir tregar. Mars var hins vegar hagastæður og snjór óvenjulítill. Þá var úrkomusamt syðra, en þurrt nyrðra. Hlýtt var í veðri. Apríl var einnig hagstæður og úrkomusamur, jörð greri óvenju snemma enda hlýtt í veðri. Í maí fór gróðri lítið fram vegna hreta. Gæftir voru sæmilegar. Júní var fremur þurrviðrasamur. Júlí var hlýr og hagstæður. Nýting heyja góð. Í ágúst var úrkomusamt og erfitt til heyskapar á Suður- og Vesturlandi, en hagstæð tíð norðaustanlands. Í september var fremur úrkomusamt, en rættist úr heyskap og garðuppskera var góð. Október var bæði hlýr og hagstæður til lands og sjávar. Tíð í nóvember þótti eindæma góð. Blóm sprungu út og kúm beitt fram yfir miðjan mánuð. Fádæma hlýtt. Desember var einnig fremur hlýr, einkum á Suðurlandi, en nokkuð var umhleypingasamt.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu), sömuleiðis eru textarnir oft styttir. Vonandi sætta höfundar sig við það. Illviðri voru ekki sérlega tíð - ekki nema fjögur nægilega útbreidd til að komast á stormdagalista ritstjóra hungurdiska. Árið virðist tíðindaminna er mörg önnur, að einhverju leyti stafar það þó af rýrum fréttaflutningi utan af landi. Morgunblaðið var einna vökulast í veðurfréttum þetta árið og er því langmest vitnað í það hér að neðan.
Við notumst að vanda við tíðarfarslýsingar margra veðurathugunarmanna - setjum þær í upphafi umfjöllunar um veður hvers mánaðar hér að neðan og hefjum leikinn á janúar sem fær nokkuð misjafna dóma:
Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Janúar var yfirleitt góður að veðurfari, þurrviðrasamur og stilltur, en nokkuð frostharður. Seinustu dagarnir voru yndislega góðir. Snjólétt er og hagar góðir. Flest hross ganga úti enn, og eru talin að vera í ágætum holdum.
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir mátt heita stillt og úrkomulítið. Eftir áramótin gerði hvern blotann af öðrum og allt hljóp í svell. Fyrir miðjan mánuðinn gerði þíðu og leysti þá víðast. En hér grynnkuðu bara svellin af því það er svo flatlent. Engir hagar komu hér upp þótt góður hagi sé víðast hér í kring.
Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Mjög óstöðugt og breytilegt. Hörkuveðrátta síðari hluta mánaðarins og jarðlaust. Endurteknar áhleypur og snögg umskipti. Staðföst frostskorpa 16. til 22. Lélegar gæftir. Sérlega mikill hafís á djúpmiðum og gæti fljótt fyllt alla firði ef hvöss norðvestanátt stæði nokkra daga. Óvenjuleg ládeyða meiri hluta mánaðarins.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfar yfirleitt frekar óstöðugt og stormasamt og frostamikið með köflum. Nokkur snjór á jörð, en hagsnapir lengst af nokkrar. Beitarveður stopul.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Þótti erfið veðurátta allan janúar. Þann 16. skall á afspyrnuveður með snjókomu. Þar sem fé var úti náðist það ekki í hús. Þetta olli þó ekki fjársköðum því það stóð svo stutt.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar kalt, en úrkomur ekki miklar. Átt sem oftast norðvestlæg. Hagar litlir síðast í mánuðinum.
Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson) Janúar kaldasti sem komið hefur nú um langt skeið.
Loftþrýstingur var óvenjuhár í janúar, meðaltalið hefur sjaldan verið hærra. Allsterk norðvestanátt var ríkjandi í háloftunum - enda var veðurlag nokkuð órólegt framan af, ekki mikið um stórfelld illviðri, nema um miðjan mánuð. En veðurlag þetta olli áfreðum og var því óhagstætt í beitarsveitum. Lítið var um veðurfréttir í blöðum framan af. Morgunblaðið segir þó frá 3.janúar:
Nú síðustu dagana hefir snjóað mikið og Hellisheiði verið ófær um tíma. Er mikill snjór kominn á heiðina og verður áður en varir komið ágætis skíðafæri.
Ísafirði, þriðjudag. Frá fréttaritara vorum. Veiðarfæratjón báta héðan hefir verið mikið og í desembermánuði var það sérstaklega tilfinnanlegt. 28. desember var tjónið mest, en þann dag töpuðust um 850 lóðir með tilheyrandi uppihöldum, frá Ísafirði og næstu verstöðvum. [Þann dag fór djúp lægð norðaustur um Grænlandssund].
Þann 15. kom snarpt háloftalægðardrag inn á Grænlandshaf úr vestri. Lægð dýpkaði nokkuð ört vestan við land. Henni fylgdi mjög öflugur vestanstrengur í háloftunum. Á árum áður var þetta hættulegt veðurlag við hafnir í innanverðum Faxaflóa - spurning hvernig því varir nú á dögum. Blöðin greina frá tjóni. Morgunblaðið 17.janúar:
Skemmdir urðu miklar á símalínum í ofviðrinu; í gærmorgun var sambandslaust við Akranes, Vestmannaeyjar og Stykkishólm. Símamönnum tókst þó að koma í gær sambandi á við Akranes og Vestmannaeyjar, en sambandslaust var við Stykkishólm, út á Snæfellsnes, svo og við Ísafjörð og mjög slæmt samband var við Akureyri. Bilanir urðu nokkuð víða sem ekki var búið að lagfæra í gær, sakir veðurs; en bilanir þessar stafa að mestu vegna sveiflna er orðið hafa á símalínunum og munu viðgerðarmenn strax og veður leyfir lagfæra þetta.
Í aftakaveðri er hér gerði í fyrrinótt, strandaði m/s Hringur frá Siglufirði í Rauðarárvík. Skemmdir urðu nokkrar á hafnarmannvirkjum og fimm smálesta bátur sökk hér í höfninni, en skemmdir urðu á ýmsum. M/s Hringur lá ásamt öðrum skipum að vestanverðu við Ægisgarð og slitnaði skipið frá garðinum ásamt fleiri skipum. Er veðrið skall á, fóru allflestir skipverja á hinum ýmsu skipum, er hér lágu í höfn, um borð og var í sumum skipunum nær öll skipshöfnin komin, en svo aftur voru aðeins tveir menn í sumum. Er skipin slitnuðu upp, reyndi hver að bjarga sér eftir bestu getu og fluttu sumir skip sín á aðra staði í höfninni. Í þessari skipatrossu urðu nokkrar skemmdir á skipum. Munu þær hafa orðið mestar á Íslending. frá Norðfirði, brotnaði skipið ofanþilja og við að berjast upp við garðinn kom leki að bátnum, sem þó ekki var mikill. Þá sökk einn bátur, um 5 smálestir að stærð. M/s Hringinn bar nú fyrir veðri og vindi út um hafnarmynnið og rak skipið upp í fjöru í Rauðarárvík. Skemmdir á skipinu eru miklar. Er botn þess mjög skemmdur, svo og gat á bakborðssíðu þess. Þar sem Hring rak á land, er allsendið og má það teljast hin mesta heppni, því alt í kring eru klappir og urð. Stórt flutningaskip, er lá að austanverðu við Ægisgarð, slitnaði einnig upp og bar það austur fyrir Faxagarð, en þar eð vindátt breyttist, rak það upp að Faxagarði og munu skemmdir hafa orðið á botni þess.
Nokkrar skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum. Rafmagnsvitinn á Faxagarði brotnaði niður og féll í sjóinn, er taug frá dráttarbát í flutningaskipíð lenti á vitanum. Er hér um að ræða mjög tilfinnanlegt tjón, því slíkir vitar fást nú ekki og má búast við að vitinn sé ónýtur. Þá urðu skemmdir á Ingólfsgarði, en ekki er búið að athuga þær, af óviðráðanlegum orsökum. Svo mikið var hafrótið, að hnullungssteinar bárust upp á Skúlagötu og var gatan alófær fólksbifreiðum f gærmorgun. Veghefill og verkamenn unnu í allan gærdag að því að hreinsa grjótið af götunni, og má geta þess t.d., að upp við húsvegg Landssmiðjunnar var sandlag, er myndast hafði um 5 tommu þykkt.
Alþýðublaðið segir einnig frá 17.janúar - að hluta til því sama og Morgunblaðið, en við lesum allan pistilinn engu að síður:
Afspyrnuveður og fádæma mikill sjógangur olli tjóni á skipum og mannvirkjum í og við höfnina í Reykjavík í fyrrinótt. Veðurhæðin mun hafa verið langmest hér við Reykjavík, því að ekki hefur frést af verulegu tjóni í nálægum kauptúnum og hefur Alþýðublaðið þó haft tal af mönnum í flestum þeirra. Veðrið tók skyndilega að versna hér í bænum klukkan tæplega 1 eftir miðnætti í fyrrinótt og fór æ versnandi er á leið nóttina. Var komið fárviðri um kl. 3:30, en um kl.7 um morguninn tók að lygna. Stórstreymt er um þetta leyti og var háflóð er veðrið var verst. Olli það svo miklum sjógangi að hafnsögumenn, er Alþýðublaðið hefur haft tal af, segjast ekki muna eftir öðrum eins sjógangi á innri höfninni. Fjöldi skipa lá við Ægisgarð og skemmdust mörg þeirra. Sum þeirra slitnuðu frá garðinum og rak þau upp. Eitt þeirra Hringur frá Siglufirði, rak út úr höfninni og lenti hann upp í fjöru við Skúlagötu gegnt Sjóklæðagerðinni. Liggur báturinn mjög hátt í fjörunni. Um skemmdir á skipinu er enn ekki vitað til fullnustu. Þá slitnaði varðskipið Ægir og frá Ægisgarði, en hægt var að koma við stjórn á skipinu og ná því út, svo að hægt var að verja það. Á línuveiðaranum Bjarnarey brotnaði skrúfan og ýmsar smærri skemmdir kunna að hafa orðið á fleiri skipum. Allmiklar skemmdir urðu og á hafnarmannvirkjum, aðallega á Ingólfsgarði, en hversu miklar þær eru, er heldur ekki vitað enn sem komið er. Hafnsögumenn telja að veðrið hafi veríð verst um sexleytið í gærmorgun, þá kastaðist grjót úr höfninni upp á Skúlagötu og þar var sjór í miðja kálfa á hafnarbakkanum og Skúlagötunni. Ekki mun annað tjón hafa orðið hér í bænum en hér er getið.
Í Hafnarfirði urðu ekki skemmdir, en grjót og þari barst upp á Strandgötuna. Kvað svo mikið að þessu, að veghefill vann að því í gær að ryðja götuna. Skemmdir urðu á símalínum svo að um tíma var sambandslaust við Akranes, Kjalarnes og Vestmannaeyjar. Um miðjan dag í gær var þó hægt að gera við línurnar og átti Alþýðublaðið samtal við verstöðvarnar á Suðurnesjum, Akranesi og Vestmannaeyjum. Veður hafði verið mjög slæmt á öllum þessum stöðum í fyrrinótt, en engar skemmdir höfðu orðið.
Þegar lægðin fór austur af gerði snarpa norðanátt og mjög mikinn kulda í nokkra daga - en veður varð ekki mjög vont. Nú varð tíðindalítið um hríð.
Febrúar var erfiður um landið vestanvert, en öllu skárri eystra. Þrátt fyrir órólegt veður var ekki fjallað um tjón fyrr en eftir þann 20. Veðráttan segir þó frá því að um miðjan mánuð hafi bátar lent í hrakningum á Faxaflóa, flugvél fórst í Eyrarbakkabug og önnur varð að nauðlenda í Borgarnesi. Um miðjan mánuð skemmdust viðtæki í þrumuveðri í Mýrdal, dagsetningar ekki getið. Veðráttan nefnir að þ.25. hafi þrjár kindur drepist í skriðu í Mýrdal. Sé dagsetningin rétt er líklegra að um snjóflóð hafi verið að ræða. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:
Síðumúli: Febrúar var ágætur fram yfir þann 20. En síðan hefir eiginlega alltaf verið snjókoma. Snjór er nú svo mikill, að ekki er fært milli bæja með hestvagn. Því síður er bílfært. Mjólkurflutningar hafa því víða stöðvast inn til dalanna nú um tíma. Vegurinn frá Borgarnesi til Reykholts er svo kaffenntur, að mjólkurbílarnir voru í gær allan daginn að komast þessa leið, frá því snemma um morguninn, til kl.5 í nótt að þeir komust niður eftir aftur. Flokkur manna fór á undan og mokaði veginn. Hér eru enn hagar fyrir hross.
Lambavatn: Það hefir verið heldur stirð tíð. Nú á aðra viku síðast í mánuðinum hefir verið einhver harðneskjulegasta veður sem hér koma af vestri og suðvestri. Allt í kafi af snjó. Hér á gjafajörðum má heita óslitin innistaða fyrir allar skepnur, þótt hestum hafi verið rennt út til skemmtunar.
Suðureyri: Illt og örðugt, umhleypingar og rosi, en hlýtt nema síðustu vikuna dálítil frostskorpa, snjóþyngsli og haglaust. Merkilega rólegt í sjó.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt í mildara lagi og frekar úrfellalítið. Talsverður snjór á jörð, ísalög og gaddur í meira lagi. Haglítið víðast.
Nefbjarnarstaðir: Tíð fremur umhleypingasöm. Mild tíð um miðjan mánuðinn með bleytuhríðum. Haglítið allan mánuðinn og sumstaðar alveg haglaust.
Sámsstaðir: Mánuðurinn hlýrri en janúar, en þó að mörgu óhagstæður samgöngum, fénaðarhöldum og útiverkum öllum.
Eins og athugunarmenn nefna brá til verra veðurlags þann 20. Gekk þá yfir sérlega öflug útsynningssyrpa, fyrst fóru krappar lægðir hratt hjá landinu, en síðan kom óvenjukalt loft úr vestri yfir landið og ekki að ástæðulausu að Ólafur á Lambavatni segir veðrið eitthvert það harðneskjulegasta sem komi á þeim slóðum af þessari átt. Krappasta lægðin fór yfir það austanvert þann 21. Gerði þá illvígan hríðarbyl um landið vestanvert, en í kjölfar lægðarinnar gerði fárviðri af norðvestri og norðri á Austfjörðum. Blöðin sögðu reyndar ekki frá því fyrr en meir en viku síðar.
Kortið sýnir ágiskun bandarísku endurgreiningarinnar að kvöldi 21.febrúar. Lægðin er um það bil á réttum stað, en ívið of grunn. Lægðum sem þessum fylgja oft miklir snjókomubakkar sem ganga inn yfir landið sunnanvert - meðan vindur er suðvestlægur í háloftum. Var það þannig að þessu sinni. Við lítum á lýsingar Vísis og Tímans á veðrinu fyrir austan. Vísir segir frá 3.mars:
Fréttaritari Vísis á Norðfirði símar blaðinu mikla skaða af völdum ofviðris sem geisaði um Austurland aðfaranótt hins 22. febrúar. Í ofviðri þessu eyðilögðust bátabryggjur meira og minna og einnig bryggja við síldarverksmiðjuna, sem er eign útgerðarmanna á Norðfirði. Hús stórskemmdust í Neskaupstað. Í byggðinni inn af kaupstaðnum urðu mjög miklar skemmdir. Á sumum bæjum fuku heilar heyhlöður en á öðrum útihús. Í Hellisfirði fauk íbúðarhúsið með öllu því sem í því var, en manntjón varð þó ekki. Í Vöðlavík fauk íbúðarhúsið út á sjó. Samanlagt nemur tjónið af ofviðri þessu tugum þúsunda króna.
Tíminn segir einnig af veðrinu í pistli þann 6.mars:
Miðvikudaginn 21. f.m. og aðfaranótt næsta dags geisaði feikna ofviðri á Norðfirði og nágrenni. Olli það allmiklum skemmdum á húsum og öðrum mannvirkjum. Færeyskt fisktökuskip, sem lá við gömlu síldarbræðslubryggjuna rak upp og tók hana með sér upp í fjöru, en skipið slapp, án þess að verða fyrir skemmdum. Við bryggjuna lá einnig bátur frá Seyðisfirði, sem slitnaði frá og rak á land. Bátur þessi hefir náðst út aftur, en skemmdir á honum urðu allverulega meðal annars brotnaði kjölur hans. Annar bátur, 7 smálestir að stærð, sem lá á höfninni sökk og hefir ekki tekist að ná honum upp. Fjórar bátabryggjur brotnuðu í ofviðrinu. Nokkrar skemmdir urðu á húsum i þorpinu. Þök fuku af íbúðarhúsum og beitingaskúrum. Í Hellisfirði fuku öll hús, sem til voru á staðnum, íbúðarhús, peningshús öll og hlöður ásamt öllum heyjum, nema einu kýrfóðri. Á Norðfirði fuku einnig nokkrar hlöður.
Kannski leynast einhvers staðar ítarlegri lýsingar á þessu voðaveðri. En ekki var tíðindalaust heldur suðvestanlands. Morgunblaðið segir frá 23.febrúar:
Í fyrradag [21.] og fyrrinótt lenti fjöldi manns í hrakningum uppi á Hellisheiði. Urðu margir að hafast við í bílum, þar sem þeir stóðu fastir, um nóttina. Þar á meðal var gamalt fólk, bæði karlar og konur. Eru nú fastir á heiðinni á milli 10 og 20 bílar. Blaðið hafði í gær tal af Skíðaskálanum í Hveradölum og fékk þaðan þær upplýsingar, sem hér fara á eftir: Um fimmleytið á miðvikudag var sæmilegt veður á Hellisheiði, en skyndilega gerði foráttuveður af norðri með feikna fannkomu. Snjóýta var að verki uppi á heiðinni, en um sexleytið var engin leið fyrir hana að halda verkinu áfram vegna fannfergis. Voru þá 10 mjólkurbílar og einn farþegabíll staddir á heiðinni á austurleið. Urðu þeir allir fastir. komust hvorki aftur né fram, að einum undanskildum, sem komst við illan leik niður í Skíðaskála. Voru í honum tveir farþegar auk bílstjóra. Lagt var af stað frá Selfossi um eittleytið á miðvikudaginn í blíðskaparveðri. Voru bílarnir alls um 10, þar af tveir stórir farþegabílar. Voru nokkrir farþegar í þeim, þar á meðal fjórar konur. Hitt voru mjólkur- og vörubílar. Þegar upp í Kambana kom, lá þar mjólkurbíll á hliðinni, hafði runnið út fyrir veginn og flóði mjólkin úr brúsunum. Austarlega á heiðinni varð bílalestin svo að nema staðar vegna snjóþyngsla. Veður hélst enn gott og því haldið kyrru fyrir, í þeirri von, að snjóýta myndi koma og ryðja bílunum braut. Tveir menn lögðu strax af stað niður í Skíðaskála, en þegar líða tók á daginn og farið var að lengja eftir ýtu, lagði Björgvin af stað ásamt öðrum manni, en er þeir höfðu gengið skamma hríð, sneru þeir aftur, vegna þess að þá tók að hvessa og snjóa. Þegar þeir félagar komu að bílunum aftur, hafði þeim þá flestum þegar verið snúið og sumir lagðir af stað austur eftir heiðinni. Þrír bílarnir, sem héldu fyrst af stað, komu að Selfossi um kl.7 um kvöldið. Þeir, sem eftir voru, lentu í blindhríð og gekk ferðin erfiðlega niður að Kambabrún. Var afar erfitt að halda veginum og að átta sig á, hvar bílarnir væru staddir. Þegar álitið var, að bílarnir væru komnir fram að brúninni, fóru tveir bílstjórar og Björgvin út til þess að leita að kofanum, sem þar er, en þeir hurfu aftur til bílanna án þess að finna kofann. Var veðurofsinn svo mikill, að þeir réðu sér varla. Nú var enn haldið áfram, þar til skúrinn kom í ljós. Beið þar stór áætlunarbíll. Voru sex farþegar í honum, en fimm bættust nú við. Var haldið þar kyrru fyrir þar til um kl.10:30, en þá lagði einn mjólkurbíllinn af stað niður og áætlunarbíllinn í för hans. Gekk ferðin niður ágætlega. Það fólk, sem nú var eftir uppi á heiðinni, voru þrír bílstjórar og þrír farþegar. Höfðust þeir þar við í bílunum um nóttina, og komu fyrst til Hveragerðis kl.6 í gærmorgun. Í þessu ferðalagi reyndi að sjálfsögðu mest á bílstjórana og kvað Björgvin þá hafá sýnt í hvívetna hinn mesta dugnað og áræði. Gamlir menn, sem voru með í förinni, kváðust vart muna eftir öðrum eins veðurofsa.
Eins og áður sagði kom nú sérlaga kalt kanadaloft inn á Grænlandshaf.
Kortið sýnir ágiskun bandarísku veðurstofunnar um stöðuna í 500 hPa-fletinum að morgni laugardagsins 24.febrúar. Það er sjaldgæft að sjá svona mikla og kalda háloftalægð á Grænlandshafi. Þykktargreiningar nefna tölur innan við 5000 metra - harla óvenjulegt í útsynningi. Mesta furða að ekki skyldu verða meiri óhöpp en raun varð - en samgöngur lömuðust í nokkra daga. Það virðist hafa skipt minna máli árið 1945 heldur en það myndi gera nú á dögum. Morgunblaðið segir frá 25.febrúar:
Vegna snjóþyngsla og veðurs tepptust allar samgönguleiðir til og frá bænum í gær; einnig urðu allmiklar tafir á ferðum strætisvagna og varð að hætta akstri á sumum leiðum vagnanna. Vegamálaskrifstofan tjáði blaðinu í gærkvöldi, að alófært væri út á vegum og sakir veðurofsa og snjókomu hefðu snjóýtur ekki við og hefði því ekkert verið unnið að því að ryðja leiðirnar í gær. Á Hellisheiði eru að fenna í kaf um 15 bílar. Ferðir til Hafnarfjarðar hættu í gærkvöldi um kl.8:30, en allar bifreiðastöðvar hættu um kl.7. Strætisvagnar gátu ekki haldið áætlun á öllum leiðum og var hætt akstri á leiðunum Skerjafjörður og Sundlaugar, en á leiðunum Kleppur og Sogamýri var ferðum haldið uppi þrátt fyrir mikla erfiðleika, svo og út á Seltjarnarnes.
Íslandskortið sýnir vel hversu óvenjulegt þetta veðurlag var. Það snjóar í sunnanátt í -11 stiga frosti í Kvígindisdal og -9 stiga frost er í Stykkishólmi í suðvestanátt. Snörp smálægð er við Breiðafjörð og fór hún norðaustur. Endurgreiningin nær þessari lægð illa - eins og vænta mátti.
Staðsetning kannski ekki svo fjarri lagi, giska á dýpt í kringum 986 hPa, en rétt er innan við 980 hPa. Ágæt áminning um að taka endurgreiningar ekki allt of bókstaflega þótt gagnlegar séu. Morgunblaðið heldur áfram með ófærðarfréttir 27.febrúar:
Enn má svo heita að nær allar samgönguleiðir til bæjarins séu ófærar sökum snjóa og illviðris, Samgöngur innanbæjar voru aftur á móti sæmilegar í gær. Leiðirnar austur yfir fjall voru í gær enn alófærar og ekki viðlit að reyna að ryðja þær þá vegna skafrennings. Í dag verður reynt, ef veður leyfir, að opna veginn upp að Skíðaskála. Ef það tekst mun ætlunin að flytja mjólk austan yfir fjall á stórum sleðum, sem dráttarvél dregur, í Skálann og síðan í bæinn á bílum. Hafnarfjarðarvegurinn var ófær í gærmorgun, en samgöngur þangað komust á um kl. 1 e.h. Ferðir strætisvagnanna innanbæjar gátu ekki hafist á réttum tíma í gærmorgun vegna þess að þeir komust ekki til bæjarins sökum ófærðar, en þeir eru geymdir inn á Kirkjusandi. Fyrir hádegi í gær höfðu þeir þó hafið akstur á öllum leiðum og að mestu leyti eins og venjulega.
Morgunblaðið segir enn frá 28.febrúar:
Í gær lagði snjóýta af stað austur fyrir Fjall og í gærkvöldi var hún komin nokkuð upp fyrir Lögberg. Veður þar efra var mjög óhagstætt í gær, skafrenningur og hríðarveður. Í gær lagði dráttarvél af stað austur og er henni ætlað að draga mjólkursleða yfir háheiðina, en að austan er fært upp á Kambabrún. Snjóýtan mun svo halda áfram í dag að ryðja leiðina, og mun því væntanlega nokkuð rætast úr mjólkurvandræðunum, þegar bilið milli dráttarvélarinnar og mjólkurbílanna styttist. Vegir allir um nærsveitir eru nú orðnir sæmilega færir. Í fyrradag fóru snjóbílar þeir, er bækistöð hafa í Fornahvammi eftir Norðurlandspósti, allt niður í Borgarnes og er mjög sennilegt, að þeir verði að fara allt norður að Blönduósi, áður en aðrir bílar geta tekið við póstinum.
Marsmánuður var hagstæður og tíðindalítill, nema að vatnavextir urðu um miðjan mánuð á Vesturlandi. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Marsmánuður var ágætur að veðurfari. Febrúarsnjóinn tók hratt upp og get ég ekki talið að síðan hafi komið snjór úr lofti. Nú er auð jörð, sólskin og sumarblíða, og því dásamlegt veður.
Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt og fremur óstöðugt veðurlag, en nær alltaf snjólaust nema fyrstu dagana.
Suðureyri: Breytilegt og grófgert framan af, 6.-12. stórleysing og vatnsflaumur úr hlíðum, annars úrkomulítið og fremur hlýtt. Meiri óróleiki til sjávar en áður.
Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Mánuðurinn hófst með allmiklum frostum og kyrrviðri. Gekk brátt til suðlægrar áttar, hita og rigningu. Gerði hatröm flóð er spilltu vegum og öðrum mannvirkjum. Mátti heita besta tíðarfar til mánaðarloka.
Sandur: Tíðarfar óvenjulega milt og hlákusamt. Leysingar og vatnavexti gerði fyrrihluta mánaðarins, svo ár ruddu sig að mestu. Eftir það lengst af þíðviðri og auð jörð mánuðinn út. [11. Óhemjuvöxtur í Skjálfandafljóti. Flæðir yfir bakka].
Nefbjarnarstaðir: Tíðafar með afbrigðum gott þennan mánuð.
Sámsstaðir: Mánuður sólarlítill, þungskýjað og úrkomusamt í mesta lagi.
Mikil leysing varð fyrir miðjan mánuð þegar hlýnandi. Þann 11. drukknaði maður í Glerá á Akureyri, áin var í miklum vexti. Alþýðublaðið segir frá 11.mars:
Síðustu daga hafa verið miklir vatnavextir í ám víða um land, einkanlega þó í Borgarfirði og Skagafirði. Hafa ár í Borgarfirði flætt langt út fyrir venjulega farvegi og stöðvað samgöngur á nokkrum stöðum. Í Skagafirði hafa einnig verið miklir vextir í ám og hefur brúin á Hjaltadalsá laskast svo að hún er ófær bifreiðum. Alþýðublaðið átti tal af forstöðumanni bifreiðastöðvarinnar í Borgarnesi í gær og spurðist fyrir um vatnavextina í Borgarfirðinum. Skýrði hann svo frá, að mestur væri vöxturinn í Hvítá og Norðurá. T.d. hefir Hvítá flætt svo útyfir bakka sína að hún lokaði veginum á tveim stöðum vestan og austan við Hvítárvelli í gær. Þar flæddi vatnið yfir veginn með klakaburði, svo óvist er nema brúin á Síkinu hafi laskast eitthvað. En hins vegar er ekki hægt að ganga úr skugga um það fyrr en flóðið minnkar. Búast má því við að vegurinn austan yfir Hvítá verði lokaður framyfir helgi. Annars er búist við að flóðið sjatni fljótt eftir að áin er búin að fullryðja sig. En þá fer ekki hjá því, að viðgerðar þurfi á veginum, þar sem jakaburðurinn hefir verið mestur. Í Norðurárdalnum hefir vöxtur verið mikill í Norðurá og Bjarnadalsá og hefir flotið yfir veginn hjá Hraunsnefi og komust bifreiðar ekki lengra en þangað í fyrradag og í gær, en búist er við að vegurinn þar muni verða fyrr fær, heldur en niður við Hvítá. Hafa mjólkurflutningar á þessum leiðum því stöðvast, en fram í Hvítársíðu og upp í Reykholtsdalinn hafa bifreiðar alltaf getað komist.
Þíða er nú víðast um landið og leysingin svo mikil, að árnar flæða langt út fyrir farvegi sína og stíflast af krapi, en ekki hafa borist fréttir um tjón af völdum þessara vatnsflóða nema úr Borgarfirði og Skagafirði.
Þann 12. mars birtist pistill í Vísi undir fyrirsögninni Siglingafært um skíðalöndin:
Skíðafólk, sem dvaldi í skíðaskálanum um s.l. helgi [sunnudagur 11.], hefir tjáð Vísi að mikill vatnagangur hafi verið þar efra. Fyrir neðan Kolviðarhól flæddi vatn á þremur stöðum yfir veginn og á Bolavöllum var komin stærðar uppistaða, á við stórt stöðuvatn, sem var að byrja að fá framrás i gærkveldi, og tekið að flæða yfir veginn. Jósepsdalur var allur fullur af vatni og hafði skíðafólkið aldrei séð annan eins vatnselg í dalnum. Náði vatnið uppundir svokallaðan Einstæðing, sem stendur allhátt. Einn skíðamanna týndi skíðum sínum í vatnið og sá þau ekki meir, en sjálfur fór hann í það upp undir hendur. Töldu Jósepsdælir að auðvelt hefði verið að sigla um dalinn og hörmuðu það að hafa þar ekki bát. Í Jósefsdal gistu um 100 manns um síðustu helgi og á Kolviðarhóli um 90 manns. Fólk var litið sem ekkert á skíðum í gær, og þeir fáu, sem hættu sér út rennblotnuðu, Skíðamótið féll að sjálfsögðu niður í gær.
Vatnavextir voru einnig í Þingeyjarsýslum, þótt úrkoma hafi verið minni. Morgunblaðið 13.mars:
Húsavík, mánudag. Frá fréttaritara vorum. Nú undanfarið hafa verið stöðug þíðviðri og stundum asahláka, sem orsakað hefir mikla vatnavexti í ám hér fyrir norðan. Í nótt hljóp Laxá úr farvegi sínum skammt frá Knútsstöðum og rennur nú kvísl úr henni vestur Aðaldalshraun og yfir veginn svo hann er ófær bifreiðum. Vatnið á veginum er á annan meter að dýpt.
Tíminn segir fréttir af því sama 13.mars - en einkennilegt að hann kallar flóðið í Hjaltadalsá jökulhlaup:
Um seinustu helgi [sunnudagur 11.] var þíðviðri um allt land og olli það miklum leysingum og vatnavöxtum í ám og vötnum. Vatnsföll flæddu langt út fyrir farvegi sína og/umferðatruflanir urðu víða. Skemmdir af vatnavöxtum þessum munu þó hvergi hafa orðið teljandi, nema í Borgarfirði og Skagafirði. Hvítá í Borgarfirði flæddi yfir bakka sína neðan til í héraðinu og lokaði veginum á tveim stöðum vestan og austan Hvítárvalla, þar sem hún flæddi yfir veginn með miklum klakaburði. Hjá Ferjukotssíki flæddi áin yfir veginn og brúin á síkinu skemmdist nokkuð. Í Norðurárdal varð mikill vöxtur í Norðurá og Bjarnadalsá og flæddi yfir veginn hjá Hraunsnefi. Mjólkurflutningar stöðvuðust því á þessum leiðum, en hins vegar var alltaf fært fram í Hvítársíðu og upp í Reykholtsdal. Brúin á Andakílsá hjá Grund skemmdist svo að hún er ekki akfær. Í Skagafirði kom jökulhlaup í Hjaltadalsá nálægt Hólum og sprengdi upp nokkurn hluta af steyptri brú, svo að hún verður ekki akfær um sinn. Í gær fékk blaðið þær upplýsingar hjá vegamálastjóra, að dregið hefði úr flóðunum svo að vegir myndu nú víðast hvar vera orðnir akfærir aftur. Skemmdir hafa þó nokkrar orðið á vegum sem flætt hefir yfir, með því að ofaníburði hefir sópað burt í flóðinu.
Svo er það aurbleytan. Morgunblaðið 28.mars:
Vegna óvenjulegra rigninga að undanförnu hefir vegumálastjóri neyðst til að loka allmörgum vegum hér á Suðurlandsundirlendi, Vegir þessir eru: Landsvegur, Þykkvabæjarvegur, Villingaholtsvegur. Selvogsvegur, Sogsvegur, austan Þingvallavatns, Grímsness- og Biskupstungnavegur og Hreppavegur. Svo fremi að veður batni er búist við að umferð um vegi þessa verði fljótlega leyfð. Ennfremur hefir Fljótshlíðarvegi og Miðdalsvegi verið lokað. Fært er upp í Borgarfjörð og þar um héraðið, ennfremur vestur í Dali og Snæfellsness. Til Norðurlands er nú fært allt norður að Sauðárkróki, en gert er ráð. fyrir að næstu daga verði Öxnadalsheiðin rudd.
Aprílmánuður var hagstæður og tíðindalítill. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Indæl veðrátta, alauð tún og úthagi tekinn að grænka. Túnávinnsla byrjuð. Sumstaðar langt komin. Sauðfé sleppt hér 23. apríl. Víða löngu fyrr.
Lambavatn: Það hefir verið óvenju stillt og oftast kuldalítið. Gróður allstaðar að lifna fyrir sumarmál og einstak stað farið að vinna á túnum síðustu vetrardagana. Nú síðustu dagana hefir verið kuldi.
Suðureyri: Fremur hlýtt. Oftast stillt. Autt að mestu á láglendi og góður hagi.
Sandur: Tíðarfar einmuna gott, milt en nokkuð úrkomusamt eftir hætti. Lengst af alautt í byggð, vötn örísa viku fyrir sumar og tún farin að litkast um sumarmál. Seinustu dagana kólnar þó og frýs.
Nefbjarnarstaðir: Góð tíð þar til undir lok mánaðarins er brá til kulda. Úrkomur litlar. Gróður hægfara.
Sámsstaðir. Plógþítt varð um 10. Mánuðurinn hagstæður öllum útiverkum. Gróður var lítill.
Frétt af veðurfréttum í Morgunblaðinu 6.apríl:
Frá ríkisstjórninni hefir blaðinu borist eftirfarandi: Vegna ummæla í einu dagblaðanna nýlega skal það tekið fram, að samkvæmt tilmælum ríkisstjórnarinnar hefir herstjórn Bandaríkjanna á Íslandi séð um sendingu veðurfregna til verstöðva víðsvegar um landið. Útsending þessara fregna hefir átt sér stað frá því um miðjan febrúarmánuð s.l.
Landsynningsveður gerði að kvöldi þess 5. Tjón varð óverulegt. Morgunblaðið segir frá 7.apríl:
Í ofviðrinu í fyrrakvöld [5.] fauk um koll vinnupallur utan á fjögurra hæða húsi og lokaði umferð um götuna. Hús þetta stendur á horni Hringbrautar og Framnesvegar. Er vinnupallurinn féll sleit hann í sundur rafmagnslínur og urðu hús þar í grenndinni rafmagnslaus. Við það að rafmagnslínurnar slitnuðu, varð neistaflug mjög mikið. Var og talið hættulegt að leyfa umferð gangandi manna. Gatan var svo rudd í gær um þetta svæði og lokaði lögreglan því uns starfsmaður frá Rafveitunni kom og lagfærði það sem hægt var. Nokkrar plötur tók af húsum hér í hænum. Íbúar við Þjórsárgötu urðu að leita aðstoðar lögreglunnar, er stór braggi tók að fjúka. Um miðja nótt tók loftvarnarflauta við Freyjugötu að veina, en því mun hafa verið kippt fljótlega í lag. Ekki er blaðinu kunnugt hver orsök þess varð. Um Laugaveg neðanverðan þótti á tíma ekki vænlegt að fara. Vinnupallur utan á húsi lék allur á reiðiskjálfi, en féll þó ekki. Slys á mönnum vegna veðursins munu ekki hafa orðið.
Morgunblaðið segir fréttir af Heklu 9.apríl - en þetta ár voru 100 ár liðin frá síðasta (opinbera) gosi (stytt hér):
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur gekk á Heklutind á föstudaginn langa [30.mars]. Hann hefir áður rannsakað Heklu mjög grandgæfilega á árnum 1930-32. Hann varð þess var í þetta sinn, að á austurbarmi gígsins er nú svo mikill hiti á nokkrum stöðum að skafl sem er 1 1/2 meter á dýpt, hefir bráðnað að neðanverðu frá á köflum, svo myndast hafa klakahvelfingar undir skaflinum. En göt voru upp úr skaflhvelfingum þessum sem hægt var að skríða niður um. Hin þíða möl undir skaflinum reyndist vera 5 stiga heit. En lofthitinn þar niðri var 3 stig, en annars var 3 stiga frost á tindinum. ... En Guðmundur lítur svo á að naumast hafi verið um slíkan jarðyl að ræða á Heklu þau ár, sem hann rannsakaði fjallið. Þá var hann þar m.a. þegar þar var nýfallinn snjór og var ekki séð að fjallið bræddi nokkurs staðar af sér. ... Eftir að Hekla gaus fyrir 100 árum, gosið hófst í september 1845 og hélt áfram til vorsins 1846, bar allmikið á jarðhita í Heklu næstu ár ef ekki áratugi, svo fannir bráðnuðu með köflum og vikurhrannir voru sjóðheitar. En síðan hefir ekki borið á jarðhita þar á yfirborði. Enda hafa sumir hallast að því eftir gosið 1913 að Hekla kynni að vera slokknuð fyrir fullt og allt. En þá upplukust vær eldstöðvar á Lambafit og undir Mundafelli án þess að Hekla sjálf bærði á sér. ... Á næstu bæjum við Heklu varð vart við jarðskjálftakippi dagana 22.-26. mars. Voru kippir þessir mestir að Næfurholti sem er næsti bær við Heklu. En alls fundust kippir þessir á 5 bæjum. Það er talið víst að jarðhræringar þessar eigi upptök sín í Heklu og nálægt yfirborði vegna þess hver þeir fundust á takmörkuðu svæði. Fólkið á þessum Heklubæjum man ekki til þess að slíkar jarðhræringar í nágrenni Heklu hafi fundist síðan eldur var uppi þar í nágrenninu 1913.
Maí var lengst af hagstæður, en þó gerði snarpt hret um miðjan mánuð, hretið varð þó mun verra um landið vestanvert heldur en eystra. Farið var að kvarta um þurrviðri. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Veðráttan mjög köld. Tún og úthagi gróa lítið. Um miðjan mánuðinn var frost og snjókoma, svo að jörð var alhvít hér niður í byggð. Til fjalla var þá mikill snjór. Bílar tepptust á heiðum. Kýr hafa enn enga haga.
Stykkishólmur (Magnús Jónsson): Köld tíð og snjókoma um miðjan mánuð. Fjárskaðar víða.
Lambavatn: Það hefir mátt heita stilla og blíðviðri yfir mánuðinn. Nema 14. og 15. var hér óvenjuvondur norðanbylur sem stóð í 2 sólarhringa. Var hér allt á kafi af snjó eins og mest vetrardag. Ekki einu sinni hægt að koma skepnum á vatn. Fannst hér eftir veðrið nokkuð af smáfuglum dautt, einkum maríuerlu.
Suðureyri: Hæglátt, stillt, bjart og sæmilega hlýtt, nema 13.-17. 14.-16. var einna stærsti snjóbylur sem kemur. Fannfergi óminnilegt um þetta leyti (90 cm þ.16.). Nokkrar sauðkindur fórust. Gæftir allgóðar.
Sandur: Tíð yfirleitt mild og hagstæð; sjaldan kuldar, en norðan úrkomuköst og stilltir sólskinsdagar voru til skiptis. Gróðri fór allvel fram.
Reykjahlíð: Mislynd veðurátt. Snögg kuldaáhlaup en allvel hlýtt á milli. Seinasti ís fór af Mývatni þann 13. maí.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar þurrviðrasamt og kalt. Gróður mjög hægfara. Vart sauðgróður í mánaðarlok.
Sámsstaðir: Maí sólríkur og í góðu meðallagi hlýr, en óvenju þurrkasamt. Veðurblíða oftast og aldrei hörð veður.
Sunnudaginn 13.maí kom upp nokkuð flókin staða. Kalt lægðardrag kom úr norðvestri yfir Grænland - og kalt loft sótti í neðri lögum suður um Grænlandssund. Hlýrra loft austur undan hélt vel á móti. Lægð myndaðist við vesturströndina og þokaðist austur og suðaustur næstu daga. Mikla hríð gerði á Vestfjörðum, snjódýpt á Suðureyri mældist 90 cm í hríðarlok að morgni 16. og víða snjóaði vestanlands. Á Austurlandi hélst veðrið betra, en um síðir kólnaði einnig þar, en snjókoma var víðast óveruleg í byggð.
Morgunblaðið segir frá hretinu í tveimur pistlum 15.og 17. maí:
[15.] Frá fréttaritara vorum, Ísafirði, mánudag [14.maí]: Norðaustanhvassviðri með mikilli snjókomu hefir geisað hér í norðurhluta Vestfjarða í nótt og í dag. Sex bátar frá Bolungarvík urðu að hleypa hingað inn vegna veðurs í Bolungarvík. Höfðu þeir allir skemmst meira og minna við öldubrjótinn þar. Einn bát rak þar á land. Var það vélbáturinn Flosi. Mun hafa mikið skemmst. Vegna snjókomunnar er búist við að fé fenni, en því hafði verið sleppt.
[17.] Frá fréttaritara vorum Ísafirði miðvikudag [16.]. Í 30 klukkustundir geisaði blindhríð um alla Vestfirði. Seinnipart sunnudags byrjaði að snjóa og slotaði veðrinu ekki fyrr en kl.15 í gær. Bændur hér í héraðinu munu hafa orðið fyrir nokkru tjóni á fé, sem fennt hefir. Í dag voru bændur að smala, en ekki er fullkunnugt um hversu margt fé hafi fennt. Allir vegir tepptust, en unnið er nú að því ryðja leiðirnar. Hér á Ísafirði vann í allan dag mikill fjöldi manna að snjómokstri á götum bæjarins. - Þar sem sjór hefir fallið jafnt niður er dýpt hans um 1 meter. Skaflar eru hinsvegar nokkurra metra djúpir. Hér hefir því verið því sem næst mjólkurlaust í tvo daga. Djúpbáturinn, er flytur mjólkina, gat ekki komist hingað vegna veðurs. Hans er þó að vænta í dag. Þá eru kolaverslanir bæjarins orðnar kolalausar. Er mikil þörf fyrir að fá úr þessu bætt, sem allra fyrst. Í dag hefir veður verið hér sæmilegt, úrkomulaust og hiti 34 stig.
Í hríðarveðri því er geisað hefir um Vestur- og Norðvesturland undanfarið, tepptist Holtavörðuheiðin, leiðin vestur í Dali um Bröttubrekku, leiðin til Stykkishólms um Kerlingarskarð og leiðin til Ólafsvíkur um Fróðárheiði. Í gær ruddu vinnuflokkar Holtavörðuheiðina og leiðina vestur í Dali. Bjóst Vegamálaskrifstofan fastlega við, að hinar leiðirnar yrðu ruddar í dag og næstu daga.
Kortið sýnir veðrið um hádegi mánudaginn 14.maí. Þá snjóar mikið á Vestfjörðum og hraglandi er allt suður á Reykjanes og austur um allt Norðurland. En talsvert hlýrra er eystra, 9 stig á Egilsstöðum (að vísu voru hitamælingar frá Egilsstöðum arfavitlausar um þessar mundir - athugnir þar þjónuðu einkum flugi). Norðaustanáttin seig síðan austur um, en jafnframt dró úr afli hennar.
Alþýðublaðið segir líka frá hretinu 16.maí:
Ofsaveður hefir gengið yfir allan vesturhluta landsins undanfarna tvo sólarhringa. Mun veðrið hafa verið verst við Ísafjarðardjúp og á Ströndum, en einnig verið mjög slæmt sunnar og austar, alla leið til Stykkishólms og austur fyrir Húnaflóa. Engar fregnir var hægt að fá síðdegis í gær frá Ísafirði, því að símasambandslaust var við bæinn. En fyrri hluta dags í gær fréttist að þar hefði verið ofsaveður síðan á sunnudagskvöld og að þá væru háir skaflar um allar götur. Geysimikil snjókoma hafði verið um alla Norður-Ísafjarðarsýslu, Strandir og Vestur-Ísafjarðarsýslu. Var óttast að bændur til sveita þar hefðu orðið fyrir miklum fjársköðum. Veðurstofan skýrði Alþýðublaðinu svo frá síðdegis í gær, að síðan á sunnudag hefði versta veður gengið yfir vesturhluta landsins og oft hefði verið ofsaveður, sérstaklega á Ísafirði og fyrir norðan hann. Heldur dró úr veðrinu þegar sunnar dró, en til dæmis í Bolungavík voru 10 vindstig klukkan 3 í gær og mikil fannkoma. Alþýðublaðið hafði tal af stöðinni á Patreksfirði eftir miðjan dag í gær og var þá þar versta veður, snjókoma og skaflar. Ekkert tjón hafði þó orðið í þorpinu. Allir bátar lágu inni og þaðan, sem til fréttist úr nærliggjandi sveitum, hafði fé tekist að bjarga í hús áður en veðrið versnaði. Þegar blaðið var að tala við Patreksfjörð var bylurinn svo svartur þar og rokið mikið að varla sást milli húsa. Þangað hafði ekki frést um slys eða tjón úr nærliggjandi þorpum. Ríkharð, sem hafði ætlað til Bíldudals, lá veðurtepptur á Patreksfirði.
Þegar Alþýðublaðið talaði við Stykkishólm kl.4 í gær var þar einnig grenjandi hríð. Á laugardagskvöld [12.] gerði þar leiðindaveður, sem versnaði og kyngdi niður miklum snjó. Einnig var veður slæmt í nærliggjandi sveitum, en ekki hafði frést til Stykkishólms um fjártjón. Í þorpinu voru ferðamenn veðurtepptir og ferðafólk, meðal annars nemendur úr Kvennaskólanum hér sem ætluðu þangað, urðu að snúa frá vegna ófærðar. Veðurstofan skýrði blaðinu svo frá síðdegis í gær, að sæmilegt veður væri um allt Austurland og ekki slæmt á Norðurlandi. Þá hefir heldur ekki frést um neitt tjón af vondu veðri á Suðurlandi.
Sömuleiðis Vísir 16.maí:
Á Vestfjörðum hefir kyngt niður snjó síðan á sunnudagskvöld og haldist þar látlaus stórhríð síðan. Heldur var þó lygnara þar í morgun en í gær. Á Horni var veðurhæðin 6 vindstig í morgun með 2ja stiga frosti og allmikilli fannkomu. Í gær var veðurhæðin þar 8 vinstig. Miklar fannir eru komnar víðsvegar um Vestfirði og er hríðarkast þetta eins og norðangarðar gerast verstir um háveturinn. Á Norðausturlandi hefir veður versnað. Síðan í gær hefir verið þar allhvöss norðaustanátt með þokusúld og 2ja stiga hita. Á Suðurlandi er norðanstrekkingur en bjartviðri. Búast má við að herði enn á áttinni, er líður á daginn. Svo sem skýrt var frá í Vísi í gær, hafa ýmsir fjallvegir teppst. Í dag mun verða gerð tilraun til þess að opna Holtavörðuheiði og Kerlingarskarð. Feikna fannkyngi hefir safnast á Fróðárheiði og mun hún verða mokuð strax og tök verða á, en samkvæmt upplýsingum frá Vegamálaskrifstofunni mun verða miklu meira verk að moka heiðina nú heldur en eftir vetrarsnjóinn, er hún var hreinsuð á dögunum. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun eitthvað af fé hafa fennt á Vesturlandi. Enn er þó ekki vitað í hve stórum stíl það er, því að bæði stendur leit að fénu yfir, og í öðru lagi er símasambandslaust við meginhluta Vestfjarða.
Vísir segir af versnandi veðri eystra 18.maí - rétt að taka fram að aldrei var talið alhvítt í Fagradal í Vopnafirði í athugunum mánaðarins - þótt þar hafi vissulega snjóað:
Útlit er fyrir að illviðrahrotan, sem undanfarna daga hefir geisað um vesturhluta landsins færist nú austur með landi, því að á Austurlandi var í morgun norðanhvassviðri með snjókomu. Á Fagradal við Vopnafjörð var allmikill snjór kominn í morgun. Hafði fennt mikið í nótt og í morgun voru þar snjóél. Veður er nú orðið sæmilega stillt á Vestur- og Norðurlandi og hiti þar um eða lítið eitt yfir frostmark. Sunnanlands er aðeins 2ja til 3ja stiga hiti.
Morgunblaðið segir 25.maí frá jarðskjálftahrinu við Ólafsfjörð:
Frá fréttaritara vorum, Ólafsfirði, fimmtudag. Enn á ný hefir orðið vart jarðskjálftakipps hér í Ólafsfirði. Var það um kl.9:03 í morgun. Ekki varð kippur þessi svo harður, að vitað sé um að skemmdir hafi orðið af völdum hans. Þetta er þriðji jarðskjálftakippurinn, sem Ólafsfirðingar verða varir við síðan s.l. föstudag.
Júní var svalur og þurrviðrasamur, en þar sem greri gátu menn hafið heyskap og komið einhverjum heyjum í hús. Þann 11. varð alhvítt á Skriðulandi, en ekki á öðrum stöðvum, þótt snjókomu yrði vart. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Fyrri hluti þessa mánaðar var þurrviðrasamur og kaldur fyrir grassprettuna, en seinnipartinn rigndi nægjanlega mikið. Þá hlýnaði líka í lofti, og nú þýtur upp grasið.
Lambavatn: Það hefir verið stillt tíð, en þurr og köld. Fram yfir miðjan mánuð var af og til frost til fjalla. Gróður hefir verið mjög lítill og er víða mjög slæmt útlit með gras. Nú síðustu dagana er farið að slá á nokkrum bæjum hér á Rauðasandi. Er grasvöxtur langbestur hér, eftir því sem sagt er allt um kring.
Suðureyri: Mjög þurrt og stillt. Vel hlýtt seinni hluta. Úrkoma hverfandi lítil (5,5 mm). Þurrkur háði mjög gróðri og brunnu tún og úthagi grænkaði óvenju seint. Gæftir góðar.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt milt, en lengst af óþerrasamt og úrfellamikið. Hagstæð gróðrar- og sprettutíð.
Reykjahlíð: Kalt og gróðurlítið til 20. Síðan ágæt sprettutíð og jörð orðin vel sprottin um mánaðamót. Kartöflugras skemmdist nóttina milli 15. og 16. þó að mælir færi ekki niður fyrir 0.
Nefbjarnarstaðir: Oftast hægviðri en fremur kalt. Úrkoma ekki mikil. Eftir 20. brá heldur til hlýinda.
Sámsstaðir: Óvenjulega sólrík, þurr og mild tíð. Hiti vel í meðallagi, en úrkoman með allra minnsta móti (25,1 mm). Gróðri fór afar hægt fram svo fénaður var yfirleitt illa haldinn með beit.
Vorið var í þurrara lagi - ekki þó afbrigðilega þurrt. Nokkuð var um gróðurelda. Morgunblaðið segir frá 5.júní:
Á mjög skömmum tíma hefir þrisvar sinnum kviknað eldur í skógum og kjarri í Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Hafa skemmdir af völdum þessa orðið allverulegar, en í eitt skipti tókst að slökkva eldinn áður en verulegt tjón hafði hlotist af. Það þykir fullsannað að eldar þessir hafa kviknað vegna óvarfærni fólks með eld. Hákon Bjarnason, skógræktarstjóri boðaði í gærmorgun blaðamenn á sinn fund. Bað hann þá að reyna að vekja athygli fólks á að gæta þess vandlega að nú er þurrkar hafa svo lengi verið að henda ekki logandi vindlingum, eða eldspýtum, án þess að ganga úr skugga um að eldurinn sé slökktur.
Vegna þess, hversu fólk hefir farið óvarlega með eld, hafa nú síðan 27. maí, s.l. þrisvar kviknað eldar í skógum og kjarri í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, sagði Hákon. Þann 27. maí kviknaði eldur í ofanveðri Nikulásargjá og urðu skemmdir þar allmiklar, áður en tekist hafði að ráða niðurlögum eldsins. Mesti bruninn varð þó s.l. laugardagskvöld [2.], er eldur kviknaði við svonefnda Klifhóla, rétt vestan við Vellankötlu, en nánari atvik eru þessi: Það var um klukkan 7 um kvöldið, að Snæbjörn, bóndi að Gjábakka, tók eftir því, að bíll stóð á veginum skammt frá brunastaðnum, en það sem vakti mesta athygli hans var hversu bíllinn stóð þarna lengi. Það var svo nokkru síðar, að þrír drengir er fóru þarna hjá sáu tvo menn og tvær stúlkur fara inn í bílinn. Skömmu eftir að bíllinn er farinn, sjá drengirnir hvar reyk leggur upp úr Klifhólum. Brugðu þeir þegar við og gerðu Brandt eftirlitsmanni aðvart. Brandt brá þegar við og fór við annan mann, en þar sem ekki eru til slökkvitæki á Þingvöllum, tóku þeir með sér skóflur. Er þeir komu austur eftir var eldurinn orðinn mjög magnaður og breiddist óðfluga út.
Þrír menn, er Guðmundur Ásbjörnsson, forseti bæjarstjórnar sendi, komu nú í bíl til hjálpar. Þar eð sýnt var, að svo fáir menn myndu ekki geta heft útbreiðslu eldsins, fór einn þeirra, Guðmundur Jónsson, birgðavörður hjá Rafveitu Reykjavíkur niður í Valhöll á Þingvöllum til liðsbónar. Ekki einn einasti gestur, eða aðkomumaður á hótelinu gaf sig fram til þess að taka þátt í að verja Þjóðgarðinn fyrir skemmdum. Er Guðmundur kom til baka var eldurinn orðinn svo magnaður, að ekki var við neitt ráðið. Þá kom til hjálpar Símon bóndi að Vatnskoti og með dóttir sína og unnu nú að slökkvistarfi 8 manns, en vindur var enn svo mikill að ógerlegt var að vinna að slökkvistörfum fyrir reyk á stóru svæði, Þá bar að Harald Árnason, stórkaupmann. Var hann beðinn um að aðstoða. Gerði hann slökkvistöðinni þegar aðvart. Um klukkan 10 um kvöldið fór slökkviliðið austur og hafði meðferðis stóra mótordælu. Í för með slökkviliðinu var skógræktarstjóri. Um klukkan 9:30 um kvöldið tók veður að lægja og tókst þá þeim, er svo ötullega höfðu unnið að slökkvistarfinu, að hefta frekari útbreiðslu eldsins, með því að grafa í kringum svæðið. Slökkviliðið kom austur um kl.11 um kvöldið og logaði þá víða innan svæðisins. Var vatni dælt á og um kl.1 um nóttina hafði tekist að slökkva eldinn með öllu. Að lokum gat skógræktarstjóri þess, að brunnið höfðu 3 ha lands og var það hreinasta mildi, að ekki skyldi hljótast meira tjón. Þá gat hann þess einnig, að s.l. sunnudag hefði Jónas Jónsson, formaður Þingvallanefndar, slökkt eld rétt ofan við furulundinn, fyrir ofan vellina. Tókst í þetta skiptið að forða furuskóginum frá stórskemmdum, ef ekki eyðileggingu.
Morgunblaðið segir aftur af gróðureldum 6.júní:
Enn einu sinni hefir kviknað í gróðri. Það var rétt við Heiðmörk, um 200 metra frá suðausturrönd kjarrsins. Slökkviliðsstjóri og skógræktarstjóri fóru þangað uppeftir, eftir hádegi í gær, með um 40 manna hóp til að slökkva eldinn. Vegna þess hversu langt var í vatn urðu þeir að grafa í kringum brunasvæðið, til að hefta frekari útbreiðslu eldsins. Þetta tókst þrátt fyrir erfiða aðstöðu og var slökkvistarfinu nær lokið um kl.7 í gærkvöldi. Um það bil tvær dagsláttur brunnu þarna. Það þykir nær fullsannað að fólk hafi verið þarna á ferli. Vegsummerki sýndu það. Þá kviknaði eldur í mosa á Hellisheiði í gær. Menn er fóru þarna um tókst að hefta útbreiðslu hans, með því að grafa í kringum brunasvæðið.
Morgunblaðið segir almennar fréttir af tíð í Kjósinni 30.júní:
Úr fréttabréfi úr Kjósinni: Frameftir öllu vori var tíðarfar kalt og fram undir miðjan þennan mánuð munu hafa verið frost á hverri nóttu, þegar heiðskírt var loft. Eftir þann tíma fór að skipta um veðurlag, og bregða til vætu og hlýinda, og hefir grasvexti farið ört fram hina síðustu daga, og eru nú sum tún orðin það sprottin, að sláttur mun fara að byrja um næstu mánaðamót. En þó að þurrviðrasamt og kalt væri fram eftir öllu vori, var nokkur gróður komin fyrir fé á venjulegum sauðburðartíma.
Júlí var hlýr og þar sem spretta var góð gekk heyskapur allvel, en svo brá til rigninga vestanlands og útlit varð mun verra. Veðurathugunarmann segja frá tíð:
Síðumúli: Júlímánuður var fremur þurrviðrasamur þar til síðustu vikuna, þá hefir verið sífeld úrkoma, ýmist þokusúld eða rigning. Hér í grennd byrjaði sláttur yfirleitt fyrripart mánaðarins, og hefir nýting töðunnar verið mjög góð þar til nú, að víðast er mikið úti, í ljá, föngum og sætum. Tún eru sæmilega vel sprottin.
Lambavatn: Það hefir verið stillt og gott veður og fremur hlýtt. Heyskapur hefir gengið vel þar til nú síðustu vikuna hefir verið hér nær óslitin rigning, aldrei þornað af steini.
Suðureyri: Mjög kyrrt og hlýtt, en ákaflega þurrt. Úrkoma alls mjög lítil. Tún brunnu víða og spretta víðast undir meðallagi. Gæftir allgóðar.
Sandur: Ágætt tíðarfar, hlýtt þerrisamt og hagstætt. Grasspretta allgóð og nýting ágæt.
Nefbjarnarstaðir: Tíðafar hið hagstæðasta.
Sámsstaðir: Sólríkur með úrkomu yfir meðallag. Mánuðurinn fremur óhagstæður heyskap.
Morgunblaðið ræðir heyskap 22.júlí:
Nú er annatími i sveitum landsins, því að sláttur mun almennt vera byrjaður. En sláttur byrjaði yfirleitt með seinna móti, vegna lélegrar grassprettu. Á einstaka stað byrjaði sláttur um síðustu mánaðamót, en almennt ekki fyrr en 10,15. júlí og sumstaðar eftir 20. júlí. Bændur segja að spretta sé fremur léleg, nema á bestu túnum og á flæðiengi. Í austursveitum Skaftafellssýslu var mikill grasmaðkur í vor, en hann er hin mesta plága fyrir gróður, sem kunnugt er.
Það, sem af er síldveiðitímans hefir veiði verið treg. Heildarveiðin er lakari en í fyrra en þá var hún með minnsta móti á þessum tíma. Síldin hefir til þessa aðeins verið við Horn og Langanes, en lítið sem ekkert á miðsvæðinu, fyrir Norðurlandi. Síldin er óvenju feit, mun feitari en í fyrra á sama tíma. Hitinn í sjónum er 9 til 11° á miðsvæðinu og er það talið fullheitt fyrir síldina. Sjórinn er kaldari fyrir vestan og austan.
Morgunblaðið segir af daufum síldveiðum og óhagstæðu veiðiveðri 25.júlí og ræðir sjávarhita og heyskap daginn eftir - og svo aftur hafís:
[25.] Frá fréttaritara vorum á Siglufirði. Engin síld hefir komið í dag til Siglufjarðar, enda ekkert veiðiveður. Stormur og mikill sjór er á miðunum og mikil úrkoma. Fjalltoppar hér voru hvítir af snjó i morgun.
[26.] Í gær var vart við hafís um 20 sjómílur út af Horni. Sjávarhitinn hefir lækkað að mun við norðurströndina, allt frá Horni til Siglufjarðar. Í Húnaflóa hafði hann t.d. lækkað úr 10,5 stigum í 8,5 stig. Mun það hafísinn, sem er valdur að þessari lækkun hitans.
Heyskapur er nú byrjaður um allt land, en vegna þess hve spretta var yfirleitt léleg í vor, byrjaði sláttur seinna en ella hefði orðið. Suðurland: Spretta var sein og heldur léleg. Í þurrsveitum er sérstaklega illa sprottið, en í neðri sveitum er spretta sæmileg á túnum og áveitum. Bændur munu hafa náð töluverðu af töðu í hlöðu, og var verkun hennar góð. Norðurland: Þar var betri spretta til að byrja með, og hófst sláttur þar nokkru fyrr en á Suðurlandi. Var spretta á túnum orðin ágæt. Hinsvegar ber nokkuð á skemmdum vegna kala, einkum þó í nýrækt. Bændur nyrðra munu hafa náð inn töluverðu af töðu í s.l. viku. Austurland: Þar er spretta sæmileg, og heyskapur hefir gengið allvel.
[27.] Frá fréttaritara vorum á Siglufirði, fimmtudag. Flugvélin fór í síldarleit í morgun. Er flogið hafði verið um það þil 25 kvartmílur út af Horni, var komið að ísbreiðu svo mikilli um sig að hvorki sá út yfir breiðuna til austurs eða vesturs.
Ágúst var hlýr. Úrkoma spillti mjög heyskap á Suður- og Vesturlandi, en hann gekk hins vegar mjög vel norðaustan- og austanlands. Vestanlands var farið að tala um rigningasumar - sérstaklega vegna þess að úrkoma spillti víða heyskap í september líka. Um miðjan mánuð var hægt að tala um óvenjulega vatnavexti á Suðvestur- og Vesturlandi. Veðurathugunarmenn segja frá tíðinni:
Síðumúli: Úrkomukaflinn, sem júlí endaði á, hélst langt fram í ágúst. Taðan varð víða hálfónýt. Síðasta vika mánaðarins var dálítið hagstæð, svo hey hafa þornað og náðst inn. Víða var dregið að slá véltæk stykki í túnum, meðan óþurrkurinn var. Taðan af þeim stykkjum er nú uppsett að mestu leyti.
Lambavatn: Tíð hefir verið mjög óhagstæð fyrir heyskap. Yfir fjórar vikur kom einn einasti þurrkdagur. Oft dag eftir dag þornaði aldrei af steini. En stórrigningar voru ekki nema fyrstu tvo votviðrisdagana. Þar sem seint var farið að slá var ekki farið að koma inn neinni heytuggu fyrr en nú, síðustu daga ágúst. Nú eru flestir búnir að koma inn gömlu heyjunum.
Skriðuland: Fyrri hluta mánaðarins var óhagstæður heyskap vegna tíðra votviðra. Voru töður orðnar hraktar er þær náðust að fullu eftir miðjan mánuð.
Sandur: Tíð hlý og hægviðrasöm. Úrkomur litlar; en þerrar þó stopulir og nýting heyja í tregara lagi síðari hluta mánaðarins.
Nefbjarnarstaðir: Hægviðri og nær stöðugir þurrkar. Mjög hagstæð heyskapartíð. Spretta í túnum vel í meðallagi, en léleg á engjum. Nýting hin besta.
Sámsstaðir: Mánuðurinn hlýr og ákaflega úrkomusamur. Varð þetta tíðarfar mjög slæmt vegna töðuheyskaparins því víðast var meirihluti túna óhirt þar til síðast í mánuðinum. Úrkoman var ekki mjög mikil í einu, en tíð og oft mikið hrakningsveður vegna hita og sólarveðurs sama sólarhringinn. - Taðan var síðast alhirt síðustu daga mánaðarins og hrakin víðast hvar. Mánuðurinn óhagstæður.
Morgunblaðið segir af heyskapartíð á Vestfjörðum 10.ágúst:
Frá fréttaritara vorum á Ísafirði, fimmtudag [9.]: Allmargir bændur alhirtu tún sín um síðustu helgi [sunnudagur 5.]. Hinsvegar hafa nokkrir hændur ekki enn lokið túnaslætti. Heyannir byrjuðu seint hér sökum lélegrar sprettu. Búist er við að töðufengur verði með svipuðu móti og í fyrra. Nýting heyja sem af er, er góð hjá flestum en aðeins sæmileg hjá öðrum. Horfur eru á að garðuppskera verði góð, einnig er gott útlit með berjavöxt.
Síðan segir frá rigningunum. Mjög hlý suðlæg átt var ríkjandi. Vísir 13.ágúst:
Miklar rigningar gengu yfir Suðvesturland um helgina [sunnudagur 12.] og hljóp foráttuvöxtur í ár og læki. Ekki hefir frést um neitt verulegt tjón enn sem komið er af völdum vatnavaxta, nema hvað Laugarvatn flæddi yfir bakka sina á allstóru svæði og yfir hey á nærliggjandi engjum. Heyið var komið í sæti og ekki er vitað hvort nokkuð hefir flætt burtu. Þá braut Botnsá í Hvalfirði skarð í stíflugarð, sem gerður hafði verið meðfram ánni skammt fyrir neðan brúna og komið hafði verið upp í því augnamiði að gera laxi auðveldara að ganga í ána.
Einstök sprettutíð er nú norðanlands, bæði á grasi og garðávöxtum, svo að menn muna tæplega annað eins. Eru garðávextir og kál álíka vel sprottið nú og það er á meðalárum um miðjan septembermánuð. Heyskapartíð er ágæt fyrir Norðurlandi svo að heyafli mun verða þar með besta móti.
Alþýðublaðið segir 15.ágúst frá flóði í Varmá við Hveragerði:
Frá fréttaritara Alþýðublaðsins í Hveragerði. Aðfaranótt s.l. sunnudags [12.] urðu miklir vatnavextir í Varmá og flóði hún langt yfir bakka sína og út um engjar fjölmargra bænda hér eystra. Hafa margir þeirra misst allt frá 100200 hesta af heyi, sem áin hefur sópað burt með sér. Áttu flestir orðið mikið hey úti á engjunum, og mikið af þeim flatt, öllu því ruddi áin burt með sér á því svæði sem hún flóði um. Í gær varð bóndi nokkur að fara í báti að tjaldi, sem hann átti á engjunum sínum til að bjarga því, og því sem i því var. Á mánudag [13.] var hlaupið í ánni að mestu rénað og vatnið farið að síga af engjunum. Algengt er á haustin að hlaup komi i Varmá, þannig að hún flæði langt út fyrir bakka sina, en aldrei, svo að vitað sé svona snemma sumars.
Vísir segir 15.ágúst af flóðum í Borgarfirði:
Norðurá í Borgarfirði flæddi yfir bakka sína í fyrradag [13.], einkum er á daginn leið og mun hafa tekið nokkuð af heyi, þó ekki í stórum stíl, að því er vitað er. Það mun og hafa hjálpað að bændur eru tiltölulega lítið farnir að heyja á engjum. Tilfinnanlegast mun tjón af völdum flóðsins hafa orðið að Veiðilæk í Borgarfirði, en einnig á öðrum bæjum fór einhver slæðingur af heyi. Í fyrrinótt stytti upp og dró þá mjög úr flóðinu. Fádæma óþurrkar hafa gengið í Borgarfirði í heilan mánuð og er naumast hægt að segja að séð hafi til sólar þann tíma. Viðast eru töður stórskemmdar eða jafnvel ónýtar og sárafáir sem hafa getað hirt.
Vísir segir enn, 20.ágúst, frá vatnavöxtum, nú á Mýrdalssandi:
Símasambandslaust er við Suðausturland sem stendur. Hafði síminn slitnað fyrir helgina vegna óvenjulegra vatnavaxta í svokölluðum Þverkvíslum á Mýrdalssandi. Var gert við línuna til bráðabirgða, en í gær slitnaði sambandið aftur. Er von til að samband komist aftur á í dag.
Sunnlenskur bóndi kvartar undan tíð í Tímanum 24.ágúst (mikið stytt hér):
Sunnlenskur bóndi: Þetta sumar, sem nú er senn liðið, hefir í stórum landshlutum verið eitt hið versta óþurrkasumar um langt skeið. Horfir af þeim sökum til stórra vandræða í miðju og grasið lagst í legur. Og þetta versnar líka dag frá degi, ef nú rætist ekki bæði fljótt og vel úr, og er þó orðinn stórmikill skaði, sem ekki verður bættur, hversu góð tíð sem yrði þær sláttarvikur, sem enn eru eftir. Þeir, sem byrjuðu sláttinn nógu snemma, náðu að vísu inn fyrstu heyjunum með góðri verkun. En nú vildi svo illa til að heyskapur mun yfirleitt hafa byrjað í seinna lagi, því að spretta var treg í þessum héruðum í vor vegna þurrviðranna þá. Það er því jafnvel enn minna en ætla mætti að óreyndu, sem bændur í óþurrkasveitunum hafa náð inn. Og það lítið, sem menn hafa tekið í hlöður í þeim fáu og skammvinnu flæsum, er komið hafa, hefir yfirleitt verið mjög illa þurrt og sumt ef til vill hrakið og verður nauðalélegt fóður. Til eru bæir, þar sem ekki er enn búið að hirða nokkurt strá, jafnvel á býlum, þar sem eru yfir tuttugu kýr, og miklu fleiri hafa aðeins náð fáeinum köplum. Ofan á þetta bætist, að sums staðar, þar sem slægjulönd eru á lágum árbökkum eða vatnsbökkum hafa vatnavextir valdið tjóni - sópað heyinu burt.
September var hlýr en votur. Mikil flóð eða hlaup gerði í vötnum við Mýrdalsjökul um og fyrir miðjan mánuð, ollu þau tjóni og vandræðum eins og blöðin rekja. Sömuleiðis kom hlaup í Kolgrímu í Suðursveit, Veðráttan segir það hafa gerst þann 14. og hafi áin ruðst framhjá brúnni og spillt veginum. Einnig kom allmikið hlaup í Skeiðará, ótengt úrkomu væntanlega. Veðurathugunarmenn greina frá:
Síðumúli: September var mjög úrkomusamur og þar af leiðandi erfiður, en mildur. Hey hafa náðst inn. Kartöfluuppskera var sæmileg, en gulrófur eru víð rýrar og trénaðar. Kálmaðkur hefir líka víða gert vart við sig. Kýr ganga enn úti, án heygjafar að heita má.
Lambavatn: Það hafa verið sömu votviðrin yfir mánuðinn, eins og sumarið hefir verið. En alltaf kuldalaust. Heyskapur hefir gengið mjög erfiðlega og hey víða velkt. En að lokum hefir hey orðið í meðallagi að vöxtum.
Suðureyri: [Alhvítt 14. og 15. Borgarís í fjarðarmynni]
Skriðuland: Hey nýttust vel, gras spratt allt fram undir mánaðarlok. Kartöfluuppskera ágæt. Lömb reyndust víða í rýrara lagi til niðurfalls.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt hlýtt og hagsætt, vindasamt og sunnátt tíð. Þó var nokkuð úrkomusamt um og eftir miðjan mánuð. Heyskaparlok voru góð og heyfengur mikill. Garðauppskera ágæt.
Reykjahlíð: Ágæt veðurátta. Kartöflugras grænt í mánaðarlok. Aldrei sést snjór í fjöllum.
Raufarhöfn (Rannveig Lund): Einmuna blíðviðri og tíðarfar með afbrigðum gott, frostlaust og hlýtt. Gróður því óskertur.
Nefbjarnarstaðir: Mjög gott tíðarfar allan mánuðinn. Heyfengur góður og nýting ágæt.
Hallormsstaður (Páll Guttormsson). Það er óvenjulegt hér að frjósi ekki í september.
Papey (Gísli Þorvarðsson). Það hefir verið óhagstætt allan mánuðinn, einstakir óþurrkar. Hey eru hrakin og illa hirt. Liggja enn úti á túni. Gras var mikið og gott í sumar.
Sámsstaðir: Úrkomusamur í mesta lagi, en hlýrri en venjulega. Mánuðurinn óhagstæður öllu verkum yfirleitt.
Þann 11. september kom mikið hlaup í Jökulsá á Sólheimasandi. Jökullinn lá þá talsvert framar heldur en nú og stíflaði dal við jökulinn. Vatn safnaðist fyrir í dalnum og olli nokkuð tíðum hlaupum. Í þessu tilviki bættu miklar rigningar ekki úr skák. Morgunblaðið segir frá 12.september:
Aðfaranótt þriðjudags s.l. [11.] kom mikið hlaup í Jökulsá á Sólheimasandi. Varð feikna vatnsflóð í ánni með jökulburði eins og jafnan er þegar hlaup koma í ána. Í þessu hlaupi hefur meginhluti árinnar brotist fram fyrir austan austasta brúarstöpulinn svo að samgöngur á þessari leið eru nú tepptar með öllu. Þegar komið var að Jökulsá í gærmorgun, var ástandið þannig, að áin hafði brotið um 20 metra skarð í sandölduna austan við brúna og beljaði þar fram af miklum krafti og straumþunga. Hélt áin áfram að brjóta ölduna, jafnt og þétt, svo að alltaf breikkaði bilið milli brúarendans og austurbakkans. Mikill straumþungi lá á austasta brúarstöplinum og byrjað að grafa undan honum. Var stöpullinn farinn að síga talsvert, eða um rösk tvö fet. Vofði yfir sú hætta að brúarstöpullinn félli um, en við það myndi austasta brúin falla í ána.
Jökulsárbrúin var byggð á árunum 19201922. Hún var mikið mannvirki, 232 metrar á lengd, byggð á steinsteyptum stöplum og voru 11 brúaropin. Svo sem kunnugt er, eru jökulhlaup tíð í Jökulsá. Þau myndast með þeim hætti, að skriðjökullinn stíflar framrennsli úr jöklinum og við það myndast lón, sem stækkar jafnt og þétt, uns þunginn verður svo mikill, að vatnið sprengir stífluna og fær framrás. Stærð jökulhlaupanna fer eftir því, hversu mikið vatn hefir safnast fyrir, áður en það fær útrás. Oft eru hlaupin geysimikil og flæðir þá árin yfir alla aura. Það ræður að líkum, að erfitt var að brúa þar sem svona er ástatt, og hvergi traust undirstaða til þess að byggja á. Kom það og fyrir í hlaupum, að hluti af ánni fór vestan við brúna. Var þetta svo lagfært, með varnargarði og grjótfylltum vírvöndlum. Tókst þannig að halda ánni undir brúnni. Um langt skeið hefir mestur hluti árinnar legið undir austasta brúaropinu og sú hætta því vofað yfir, að hún brytist fram fyrir austan. Var sama aðferð höfð þar til varnar, þ.e. malargrjót sett í vírnet og sett í ána. En á stríðsárunum fengust ekki vírnetin og var þá eina ráðið að setja stórgrýti í ána, til varnar, en þar var hvergi annað að hafa en létt mógrýti. Reyndist það ekki eins haldgott til varnar og grjótfylltu vírvöndlarnir. Svo kemur skyndilega þetta mikla hlaup í ána og það ryður öllu burtu, brýtur hina háu malar- og sandöldu fyrir austan brúna. Og nú er svo komið, að mestur hluti brúarinnar er svo til á þurru landi, en áin beljar fram fyrir austan brúna.
Eins og stendur eru allar samgöngur á þessari leið tepptar. Hve lengi það verður, getur enginn sagt um á þessu stigi málsins. Það þarf ekki að lýsa því, hve bagalegt þetta ástand er fyrir íbúa Vestur-Skaftafellssýslu. Aðal haustflutningarnir voru að hefjast, sláturafurðir, fóður bætir o.s.frv. Nú eru allar leiðir lokaðar í bráð. En hvað verður gert? Vegamálastjóri skýrði blaðinu svo frá í gær, að Sigurður Jóhannsson verkfræðingur, sem var við Ölfusárbrúna, hafi verið sendur austur til þess að athuga staðhætti. Með honum fór verkstjóri sá, sem staðið hefir fyrir stíflugerð við Affallið að undanförnu. Einnig var Valmundur Björnsson brúarsmiður kvaddur á staðinn, en hann var byrjaður á brúarsmíði við ána Stjórn á Síðu. Þessir sérfræðingar og kunnáttumenn munu nú kynna sér staðhætti og athuga, hvað tiltækilegast sé að gera. Seint í gærkvöldi bárust þær fregnir að austan, að vatnið væri farið að fjara í Jökulsá.
Bílar komust ekki yfir Mýrdalssand í gær, vegna vatnságangs frá Leirá. Sandvatnið er hefir runnið í Múlakvísl síðan í Kötluhlaupinu 1918, tók í sumar að renna fram fyrir austan Hafursey og í Leirá suður á sandinum. Þetta hefir orsakað hið mikla vatn í Leirá, sem hefir nú lokað bílleiðinni austur. Hinsvegar hefir verið mjög lítið vatn í Múlakvísl í allt sumar. Við það hefir mikill aur hlaðist undir brúna á Múlakvísl, svo að hún er í yfirvofandi hættu, ef Sandvatnið kemur aftur í kvíslina.
Morgunblaðið segir frá rigningum í Kjós 13.september:
Frá fréttaritara Morgunblaðsins í Kjós. Sumri tekur nú óðum að halla, og eru nú aðeins fáir dagar þar til að smalanir og réttir byrja. Það minnka því smám saman vonir bænda, að bæta nokkuð við hinn litla og lélega heyjaforða, sem þeir eru búnir að ná inn í hlöðu. Þó eru enn mikil hey úti, bæði sem búið var að þurrka og einnig mikið, sem liggur flatt víðsvegar út um rennblautar engjar og er töluvert af þessu heyi komið í vatn, og sumt flotið alveg á burt. Eru því hey sem þannig er ástatt um töluverður vonarpeningur úr þessu. Því alltaf rignir. Vorið var kalt og þurrviðrasamt. Spratt því víða gras í seinna lagi, og byrjuðu því margir ekki að slá fyrr en mánaðamótin júní og júlí. En þeir sem fyrst byrjuðu slátt og höfðu dálítinn mannafla sem nú er þó heldur óvíða náðu töðunni lítt skemmdri. En hinir, sem seinna byrjuðu og voru liðfáir, hjá þeim hraktist taðan mjög tilfinnanlega og náðist víða ekki af túnum fyrr en seint í ágúst eða byrjun september. Nú undanfarið hafa bændur verið að slá túnin aftur, og er sá heyskapur hjá allflestum látinn niður í gryfjur jafnóðum, og er ekki um annað að tala í slíkri úrkomutíð, enda engin neyð, og er það mín meining að allt of lítið geri menn að því að notfæra sér þá heyverkunaraðferð, sér í lagi þegar um slíkt veðráttufar er að ræða, er ríkt hefir, nú um langan tíma í sumar. Hér lítur því mjög illa út með heyfeng í þetta sinn, þó að nokkuð sé það misjafnt eftir ýmsum ástæðum. Uppskera í görðum mun vera yfirleitt í meðallagi og sumstaðar ágæt, þar sem að eigi ber tilfinnanlega á skemmdum. En skemmdir virðast vera töluverðar sumstaðar og það svo að ekki þýði eða svari kostnaði að eiga neitt við að taka upp úr sumum görðum. Um rófur er vart að tala, því að maðkurinn sér um að eyðileggja þær og hefur svo verið síðustu árin. Ég held því að telja megi að þetta sumar sé eitt með því lakara, sem komið hefir nú um langt árabil.
Tveimur dögum eftir hlaupið í Jökulsá kom einnig mikið hlaup í Klifandi. Rigningar hafa sjálfsagt átt sinn þátt í því, en nánari tildraga er samt ekki getið. Hugsanlegt er að ítarlegri upplýsingar finnist annars staðar. Morgunblaðið 14.september:
Aðfaranótt fimmtudags s.l. [13.] kom feikna jökulhlaup í ána Klifandi í Mýrdal og braust hún úr farvegi sínum og beljaði fram aurana, fyrir norðan og vestan Pétursey. Stöðvaðist þar öll bílaumferð. Brandur Stefánsson umsjónarmaður þjóðveganna í Mýrdal, varð fyrstur manna var við þessi umbrot í gærmorgun. Hann fór í bíl frá Vík og ætlaði vestur að Jökulsá á Sólheimasandi og athuga hvort nokkur breyting væri á orðin þar. Þegar Brandur kemur vestur að Pétursey, er þar ljótt um að litast. Feikna vatn flæðir þar yfir alla aura og er íshrönn og jakar til og frá á aurunum. Brandur sér strax hvað um er að vera. Áin Klifandi hafði brotist úr farvegi sínum og beljaði nú þarna fram. Var vatnið svo mikið, að ekki var viðlit að komast yfir á bílnum. Brandur heldur nú upp aurana, eins langt og komist verður, til þess að athuga, hvernig umhorfs er, þar sem áin hefir brotist út úr farveginum. Svo stórkostlegt er þar um að lítast, sagði Brandur, að engu er líkara en að vatnsflóð hafi sprengt úr skriðjöklinum, stíflað farveginn og síðan rutt öllu burtu, þ.á.m. öflugum varnargarði, sem byggður var til þess að varna ánni vestur. Stórrigningar hafa verið í Mýrdal að undanförnu. En hér hefir bersýnilega eitthvað annað og meira skeð, áður óþekkt. Annaðhvort, að vatn hefir stíflast inni í jöklinum (líkt og við Jökulsá) og síðan sprengt jökulinn, eða þá að einhver önnur umbrot hafi orðið í jöklinum og orsakað þetta hlaup.
Þegar unnið var að því fyrir nokkrum árum, að koma á akvegasambandi í Mýrdal var horfið að því ráði, að sameina tvær aðaljökulárnar, Hafursá og Klifandi og brúa þær á einum stað, austan Péturseyjar. Með öflugum garði tókst að veita Hafursá í farveg Klifandi. Sú fyrirhleðsla var feikna mannvirki. Í vatnsflóðinu nú braut Hafursá um 30 metra skarð í garðinn, en þó ruddi hún sér ekki braut þar fram. Var það mikið happ, því að erfitt hefði verið að stífla ána að nýju, ef hún hefði grafið sér farveg þar eystra. Hjálpaði það, að farvegurinn ofan garðs var mjög niðurgrafinn og tók hann aðalvatnsflauminn. Í gærkvöldi var mikið farið að fjara í Klifandi. Var hægt að komast á bíl yfir vatnið, enda rennur áin mjög dreift á aurunum. Verður strax hafist handa, að byggja nýjan varnargarð fyrir Klifandi og veita ánni aftur austur. Taldi Brandur Stefánsson að það myndi takast, er áin fjaraði og ef ekki kæmi nýtt hlaup í hana.
Enn er feikna vatn í Jökulsá á Sólheimasandi. Fjarar áin lítið, enda alltaf stórrigningar. Þó hafði minnkað það mikið í ánni í gær, að tveir menn riðu yfir austasta álinn, sem rennur fyrir austan brúna. Var hann á bóghnútu. Ekki var viðlit að komast yfir vestari álana; vantaði mikið á, að þeir væru reiðir. Eftir því sem útlitið var í gær morgun eru horfur á, að lítið vatn verði í álnum austan brúarinnar, ef einhvertíma fjaraði að ráði í ánni. Og ef svo reyndist, myndi verða miklu auðveldara að lagfæra skemmdirnar. Yrði þá fyllt upp austan brúarinnar og lyft upp austustu brúnni, sem er talsvert sigin. Þetta ætti að geta gengið greiðlega. Verst er, að áin er enn svo mikil, að ekki er viðlit að eiga neitt við hana eins og stendur. Meðan svo er, er alltaf hætta á að hún grafi sig niður í álnum austan við brúna og þá yrði allt erfiðara viðureignar.
Á Mýrdalssandi. Þar er enn mikið vatn. Þó tókst Valmundi Björnssyni brúarsmið í gær að komast í bíl austur yfir sandinn, austur í Álftaver. Var þetta mikill og traustur bíll, keyptur af hernum. Ætlaði Valmundur að reyna að komast áfram, upp í Skaftártungu, en ekki hafði frést í gærkveldi, hvort þetta hefir tekist.
Vísir segir af minniháttar hreti 14.september:
Í gærdag og i nótt snjóaði ofan i byggð í Bolungarvík. Ennfremur snjóaði i fjöll á öllu Norðurlandi. Sunnanlands snjóaði í hæstu fjöllin. Aðeins 3 stiga hiti er á norðanverðu Vesturlandi.
Morgunblaðið segir enn af vatnaganginum í Mýrdal 15.september:
Síðasta sólarhringinn hefir fjarað mjög mikið í vötnunum austur í Mýrdal. Tekist hefir að koma fyrir streng frá austurenda Jökulsárbrúarinnar og austur á ölduna. Og er kláfur á strengnum. Verður fólk flutt þar yfir. Mun Brandur Stefánsson hefja ferðir austur í Vík í dag. Í dag verður byrjað á að hlaða fyrir vatnið, sem rennur fyrir austan brúna. Eftir útlitið í gær, var talið að ekki myndi taka langan tíma, að veita vatninu í sinn fyrri farveg. Klifandi er nú orðin vatnslítil aftur. Fóru bílar þar yfir hindrunarlaust i gær.
Morgunblaðið segir 18.september enn frá baráttu við Jökulsá - (stytt hér):
Það ætlar að ganga erfiðlega að beisla Jökulsá á Sólheimasandi og fá hana til þess að renna undir brúna. 80 menn hafa verið að stríða við ána undanfarna daga, en áin hefir á nóttunni eyðilagt jafnharðan allt dagsverkið. Á sunnudag [16.] tókst að teppa í álinn austan við brúna, en áin var þá í hröðum vexti vegna stórrigningar allan daginn. Enda fór það svo, að þegar komið var að ánni á mánudagsmorgun var öllu sópað burtu og flugvatn í álnum austan við brúna, með miklum jakaburði. Var nú enn gengið kappsamlega til verks og ekki hætt fyrr en tekist hafði að stífla álinn á ný. Tókst það loks í gærkveldi ... Brandur taldi útlitið mjög slæmt í gærkveldi. Vöxtur var enn í ánni og stórrigning sýnilega í aðsigi. Ef áin bryti varnargarðinn aftur, vofði sú hætta yfir, að megnið af ánni færi í þennan farveg og þá myndi hún grafa sig þar niður. Myndi þá ekki viðlit að eiga við ána, nema hún fjaraði verulega frá því sem nú er.
Siglufirði, mánudag. Þegar Siglfirðingar vöknuðu í morgun [17.] var jörð alhvít hér í bæ. Eftir hádegi var sólbráð. Snjór er nú niður í byggð.
Morgunblaðið ber sumarið saman við sumarið 1937 í pistli 21.september :
Reykvíkingar hafa mikið kvartað um vætutíð í sumar og víst er það rétt, að mikið hefir rignt, en það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þess, að finna verra rigningarsumar en verið hefir nú. Hér í bænum rigndi meira sumarið 1937 en rignt hefir í sumar.
Nú hófst hlaup í Skeiðará. Að venju voru vangaveltur uppi um hvort eldgos myndi hefjast eins og reynsla var fyrir árið 1934. Morgunblaðið segir frá 22.september. (við styttum pistilinn nokkuð hér):
Hlaup er komið í Skeiðará og eru líkur til að það stafi frá eldsumbrotum í Grímsvötnum í Vatnjökli. Hlaupin í Skeiðará koma nokkuð reglulega, á 58 ára fresti, en þó fylgja því ekki alltaf gos. Síðasta hlaup í Skeiðará var í maí 1938. Enn hefir ekki orðið vart neinna eldsumbrota í jöklinum.
Frá Oddi Magnússyni bónda í Skaftafelli í Öræfum, fékk Morgunblaðið eftirfarandi skeyti sent frá Fagurhólsmýri á föstudag [21.]: Grímsvatnahlaup er komið í Skeiðará. Síðastliðinn sunnudag [16.] var Hannesi á Núpstað fylgt yfir jökul, en hann var í póstferð. Þá var ekkert sérstakt um að vera. Síðan á mánudag hefur lagt megna jöklafýlu frá Skeiðará og áin verið í stöðugum vexti. Í gær var bjargað trjám úti á Skeiðarársandi er voru þar milli vatna. Í sumar hefir nokkur hluti Skeiðarár runnið um 2 km vestur með jöklinum og jökulvegur því lengst að sama skapi. Geysimikið vatnsflóð er nú komið í Skeiðará og bersýnilegt að um hlaup er að ræða. Blaðið átti í gær samtal við Hannes á Núpstað. Hann vissi ekki um þennan mikla vöxt í Skeiðará, en kom fregnin ekki á óvart, að hlaup væri komið í ána. Hannes hafði merkt það á ýmsu, að umbrot myndu vera í jöklinum. Hann kunni ekki við hina megnu jökulfýlu síðustu daga, þar sem rigning og súld var daglega. Það kemur oft fyrir að vart verður jökulfýlu í þurrviðri og norðanátt, en ekki í slíku veðri, sem verið hefir undanfarið. Þá sagði Hannes einnig, að mikið hefði borið á skruggum, sem að vísu væri ekki óvanalegt í slíku tíðarfari. Loks sagði Hannes að um miðjan júlímánuð hefði Sigurðarfitjaráll á Skeiðarársandi þornað alveg og það mjög skyndilega. Síðan hefði þar ekki runnið dropi. Þetta væri óþekkt og bersýnilegt að það stafaði frá umbrotum í jöklinum. Jarðfræðingarnir fá merkilegt verkefni næstu daga, að
rannsaka Skeiðarárhlaupið, og eldsumbrotin við Grímsvötn, ef þau að þessu sinni ná upp úr jöklinum. Skipuleg rannsókn á Grímsvatnagosi og Skeiðarárhlaupi fór fyrst fram 1934, en þá varð þar allmikið gos. Síðan hafa komið hlaup í Skeiðará, síðast allmikið 1938. En þá varð ekki vart við gos. Breytingar urðu þó miklar í jöklinum, myndaðist allstór dalur, sem síðan hefir fyllst af jökli. Síðan hafa jarðfræðingar okkar lagt kapp á að fylgjast með breytingum á Skeiðarárjökli ...
Morgunblaðið segir enn af hlaupinu 23.september (stytt):
Í gærdag um kl.2 var lagt upp í flugferð héðan austur yfir Vatnajökul og Skeiðarársand í Gruminau-flugbát Flugfélags Íslands ... Besta veður var á Vatnajökli og skyggni gott, svo að hægt var að sjá öll vegsummerki á Grímsvatnasvæðinu, eftir því sem um var að ræða úr lofti. Breytingar sáust ekki miklar, en þó var hægt að greina sprungur í ísnum á Grímsvötnum og í jökulinn umhverfis Grímsvatnakvosina svo sennilegt er að jökullinn þar sé byrjaður að síga. Miklir gufustrókar voru úr hverunum við Grímsvötn, en fráleitt að þar sé byrjað nokkuð gos, enda ekki við því að búast ennþá þar sem hlaupið i Skeiðará er ekki mikið. Skeiðará rennur nú aðallega í austustu kvíslinni eins og vant er, en er lítið farin að dreifa sér vestur yfir sandinn, Þó er byrjað að brotna úr jöklinum þar sem aðalútrás árinnar er. Einnig hefir áin sópað símalínunni á burtu á allstóru svæði. Ef þetta hlaup hagar sér svipað því og Skeiðarárhlaupið 1934 þá má gera ráð fyrir að það verði komið á hástig n.k. fimmtudag eða föstudag. Og ef upp úr því kemur eldgos í Grímsvötnum þá má gera ráð fyrir að það byrji um svipað leyti, en alveg eins getur svo farið, að þetta verði eitt af minni hlaupunum í Skeiðará og því fylgi ekkert eldgos.
Morgunblaðið heldur áfram 26. og 27. september:
[26.] Hlaupið í Skeiðará hefir farið vaxandi undanfarna daga. Fregn kom til bæjarins á mánudagsmorgunn [24.] um það að hlaupið væri í rénun. Þess vegna létu jarðfræðingar niður falla að leggja af stað austur þennan dag. Í gær flaug Steinþór Sigurðsson með Sigurði Jónssyni flugmanni austur yfir Skeiðará. Þeir gistu að Kirkjubæjarklaustri í nótt. Þeir sögðu að hlaupið í ánni hefði aukist mikið frá því um helgi. Því.eru horfur á að draga kunni til stærri tíðinda ef áin heldur enn áfram að vaxa í dag. Svo mjög var loftið mengað brennisteinsvatnsefni umhverfis Skaftafell í fyrradag, að féll á málma þar, silfur sortnaði. En bæjarhús, sem voru hvítmáluð dökknuðu mjög. Þetta kemur til af því, að brennisteinninn í hinni loftkennda brennisteinsvatnsefni gengur í samband við blý eða zink í ljósri málningu.
[27.] Mikil umbrot eru enn við Grímsvötn, að því er Pálmi Hannesson símaði Morgunblaðinu frá Hornafirði í gærkveldi, en hann flaug þangað austur í gær ásamt Guðmundi Kjartanssyni. Flugu þeir yfir Grímsvötn í Vatnajökli. Sáu þeir geysimiklar breytingar á jöklinum frá því á laugardag, er þeir flugu þar yfir. Lægðin í jökulinn hefir sigið síðan fyrir helgi um 100 metra og virðist enn vera að síga, því að í jöklinum eru feikimiklar sprungur, galopnar í nýföllnum snjó. Neðanvert í dalsbotninum hefir jökullinn umturnast mest, en einnig mjög mikið í norðanverðum dalnum. Undir Svíahnjúkum eru samfelldar íseggjar með flugbröttum íshömrum að sunnan. Jarðhiti virðist ekki hafa vaxið. Skeiðará er í rénun og Skeiðarársandur er að þorna. Frá Ólafi Magnússyni í Skaftafelli fékk Morgunblaðið eftirfarandi skeyti í gærkveldi: Skeiðarárhlaupið er óðum að fjara út, og er áin nú álíka og mesta sumarvatn. Fjaraði hlaupið nærri eins hægt og það óx. Smávægileg útföll komu hér og þar helst úr gömlum framrennslum en vatnsmagnið mun þó fyllilega svara til þess tíma, sem liðinn er frá síðasta hlaupi 1940. Enginn vottur er um eld eða glæðingar, en féll á málma og útimálningu. Tjón var nokkuð á síma, og að sjálfsögðu hefir allmikill reki flotið af fjöru.
Veðráttan segir frá þrumuveðri (septemberhefti):
Þrumur. Þ.27. var þrumuveður í A-Skaftafellssýslu. Þess var vart frá Hestgerði að Kálfafellsstað (10 km ). Þrumurnar voru svo miklar, að hús léku á reiðiskjálfi. Á Kálfafelli hafði hestur verið heima undir bæ, og var hann dauður, þegar að var komið. Þetta sama kvöld sáust eldblossar frá Höfn í Hornafirði.
Morgunblaðið segir enn af Grímsvötnum 3. og 9.október:
[3.] Á myndum af jöklunum uppi við Grímsvötn má ráða, að jökullinn hafi sigið þar um eina 100 metra, og umturnast mjög og sprungið við þetta sig. En nánari fregnir af því, sem þar hefir gerst, fást með Jóhannesi Áskelssyni og félögum hans. Ef óveður hafa ekki tafið þá, ættu þeir að koma mjög bráðlega til byggða. Hlaup þetta í Skeiðará er með minni hlaupum. En þess er að vænta, að athuganir á því hafi verið nákvæmari en á öðrum hlaupum.
[9.] Allmikil umbrot hafa orðið við Grímsvötn í Vatnajökli. Spilda í Grímsvatnadalnum, sem er 2 km á annan veginn og 4 km á hinn hefir sigið um 105 metra að meðaltali. Í skriðjöklinum, sem fellur niður í Grímsvatnadal inn að norðvestan er gríðarlega mikið sprunginn, enn meira en eftir gosið 1934. Þetta sagði Jóhannes Áskelsson Morgunblaðinu í stuttu viðtali í gærkveldi. En hann og félagar hans komu úr jökulförinni í gærkveldi. Jóhannes sagði, að þeir hefðu hvergi orðið varir við eld en megna brennisteinsfýlu lagði upp úr jökulsprungunum. Skeiðarárjökull hefur sigið og umturnast við Færinestinda, ólíkt því að varð eftir gosið 1934.
Október var almennt talinn hagstæður til lands og sjávar og óvenju mildur. Úrkoma var hins vegar mikil. Veðurathugunarmenn lýsa tíð stuttlega:
Síðumúli: Október hefir verið dásamlegur góður og mildur. Jörðin er auð og þíð, en farin að blikna.
Lambavatn: Það hefir verið stillt og hlýindi yfir mánuðinn. Tvisvar svolítill stirðningur á jörð, aldrei komið snjór á fjöll, aðeins gránað tveim sinnum.
Sandur: Ágætt tíðarfar allan mánuðinn, hlýtt og úrkomulítið, hægviðrasamt og hagstætt. Snjóaði hvorki né fraus að nokkru ráði í byggð.
Raufarhöfn: Tíðarfarið mjög stillt og milt. Blíðviðri eins og best er á sumrin. Segja gamlir menn hér að þeir muni eigi svona gott tíðarfar eða betra.
Nefbjarnarstaðir: Hægviðri og mjög gott tíðarfar allt fram undir lok mánaðarins. Þá brá til kulda með nokkurri snjókomu og rigningu síðast.
Papey: Þann 30. var hér mikið úrfelli og stórsjór. Ég sá að þá gekk yfir vitann á Ketilboðafles. Mun þá hafa slokknað á vitanum nýja.
Sámsstaðir: Hlýr en votviðrasamur í meira lagi. Mánuðurinn hagstæður á marga lund, einkum varð gott fyrir allan beitfénað.
Morgunblaðið ræðir haustrigningar og fleira 21.október:
Það væri synd að segja að haustrigningar hefðu brugðist hér sunnanlands að þessu sinni. Um höfuðdag hafði rignt í einar 6 vikur. Þá vonuðust menn eftir uppstyttu og björtu hausti. Það fór á annan veg. Síðan hefir rignt flesta daga og þykir nýlunda er kemur bjartur dagur. Þegar rignir og hey hrekjast á sunnan- og vestanverðu landinu lifa menn við sól og þurrk á norðanverðum hólmanum okkar. Þannig skipast á skin og skuggar. Þó landið sé ekki stærra en það er. En ekki er allt fengið með sólskininu fyrir norðan, ef satt er, að síldin hafi á sumarferðalagi sínu um norðurhöfin ekki komið hér við, vegna þess að Golfstraumurinn var svo öflugur, að sumarfóður síldarinnar, er hún leitar eftir, kom á móti henni, áður en hún komst á hin venjulegu mið. Þessi kenning gæti staðist, ef rétt reyndist að hin mikla síldarganga, sem fer hér um á sumrin eigi upptök sin við Noregsstrendur. Ef sólskin á að vera á Norðurlandi um sláttinn, má búast við að rosinn eyðileggi heyin sunnanlands. Sé óvenjulega hlýtt í veðri, þá hafa hinir hlýju straumar truflandi áhrif á fiskiveiðar. Högum okkar er yfirleitt þannig háttað, að þegar náttúran skapar einum góð skilyrði, þá verða þau lakari fyrir aðra. Undarlegt er Ísland.
Aðfaranótt 30. október hvessti af austri á Suðurlandi. Morgunblaðið segir frá 31.október:
Í ofviðrinu í fyrrinótt [30.] urðu skemmdir á brúnni yfir Fitjarál, skammt frá bænum Hvammi, undir Eyjafjöllum. Tók af hlera við brúna og feykti honum í burtu. Umferð minni bifreiða tepptist, en stærri gátu komist yfir álinn. Vegna veðurs mun ekki hafa verið hægt að gera við brúna í gær, en í dag, ef veður verður ekki því verra, mun viðgerð á henni fara fram. Í þessu sama veðri fauk heyhlaða í Reynisdal í Mýrdal. Fleiri skemmdir urðu þar eystra, en ekki stórvægilegar.
Vísir segir 1.nóvember frá uppsetningu fyrsta úrkomusafnmælisins hér á landi og lýsir slíkum mælum:
Í gær var lokið við að koma upp úrkomumæli uppi í Bláfjöllum, er mælir heils árs úrkomu, og er þetta fyrsti mælir þessarar tegundar, sem reistur er hér á landi. Mælir þessi er einskonar fat eða tunna, sem fest er á háar stengur og rúmar 230 lítra. Vegna þess hvað opið er mjótt tekur mælirinn við 10 metra regndýpt eða um 2ja ára áætlaðri úrkomu i Bláfjöllum. Í mælinum er klórkalkblanda, sem veldur því að ekki frýs i geyminum við allt að 40 stiga frost, miðað við þá blöndu, sem nú er í geyminum. En eftir því sem úrkoman vex og hækkar i mælinum þynnist blandan, þó ekki meira en svo að hún á að þola þau frost sem hér koma. Mælirinn er smíðaður eftir svissneskri fyrirmynd og teikningu, sem dr. Teo Zingg, er vann hér að veðurathugunum á Snæfellsjökli 19323, lét Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi í té. En það var Jón og Steinþór Sigurðsson mag. scient, sem unnu að því að koma mælinum upp. Í Sviss eru þessir mælar mikið notaðir til að mæla úrkomu til fjalla. Er þetta mjög þýðingarmikið atriði, einkum í sambandi við orkuver og vatnsmiðlun, ennfremur í sambandi við jöklarannsóknir og hafa Svisslendingar lagt fram mikið fé til úrkomumælinga. Hér á landi hafa mælingarnar sömu þýðingu. Þær eru veigamiklar við allar jöklarannsóknir, enda er fyrirhugað að koma upp samskonar úrkomumæli á Mýrdalsjökli innan skamms. Þar er gert ráð fyrir að ársúrkoma sé varla undir 5 metrum af vatni eða rúmlega tvöföld á við úrkomuna í Vík í Mýrdal, sem er úrkomumesta byggð á Íslandi.
Þeir Jón Eyþórsson og Steinþór Sigurðsson hafa undanfarin sumur unnið að jöklarannsóknum á Mýrdalsjökli, en þó að hægt hafi verið að áætla snjómagnið lauslega hefir ekki verið unnt að gera áætlanir um regn og því heldur ekki um heildarúrkomumagn ársins, en það er mjög þýðingarmikið atriði fyrir jöklarannsóknirnar. Þá hafa úrkomumælarnir á ýmsum vatnasvæðum mikla hagnýta þýðingu og það hefir stundum reynst einna erfiðasti þátturinn í áætlunum og útreikningum við byggingu orkuvera, að ekki hefir verið vitað um úrkomumagn á vatnasvæðunum. Á fjárlögum Alþingis frá í fyrra var fjárveiting til úrkomumælinga hér á landi og má því vænta þess, að fleiri slíkum mælum verði komið upp, þar sem þörfin er mest fyrir þá. Annars hefir Menntamálaráð lofað að kosta þessa fyrstu tilraun. Í þessu sambandi má og geta þess, að Bláfjöllin eru á vatnasvæði Elliðaánna og Gvendarbrunna og úrkoman í Bláfjöllum hefir því bein eða óbein áhrif á vatnsmagn þeirra. Úrkomumælirinn í Bláfjöllum stendur skammt frá svokölluðu Himnaríki, skíðaskála, sem nokkrir Ármenningar eiga. Menn sem eiga leið um fjöllin eru vinsamlega beðnir að gera ekki spjöll á mælinum, því að það ónýtir allar rannsóknir og athuganir á þessum stað.
Nóvember var fádæma hlýr, átti engan keppinaut í hlýindum fyrr en 2022 að hlýrra varð á allmörgum stöðvum. Þó kólnaði nokkuð hastarlega undir lok mánaðarins.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í nóvember 1945. Gríðarlega mikið hlýtt þykktarvik við Ísland og hlýindi eftir því. Eindregin suðvestanátt ríkjandi í háloftum. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:
Síðumúli: Nóvember var einmuna góður, svo mildur að fáir eða engir muna slíka tíð. Þar sem skjóla gætti, óx illgresi, og þ.18. fundust nýútsprungnar sóleyjar á túninu hér. En síðustu daga mánaðarins fór að frysta og snjóaði þá svo mikið að fé og hross fennti til dauðs. Núna er mikill snjór hér en þó góðir hagar, en innar í Síðunni er mjög heylítið fyrir fé.
Lambavatn: Það hefir verið óvenju mikil hlýja, nema síðustu vikuna. En alltaf rigningar og fremur stillt veður. Sóleyjar sáust hér blómstraðar eftir miðjan mánuð og leit út eins og gras væri í vexti. Nú lítur út fyrir að skipt hafi um tíðarfar. Síðustu daga hefir verið norðaustan rok og snjókoma með 5-6 stiga frost og allar skepnur hýstar.
Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): Veðurfar í mánuðinum hefur verið sérstaklega hlýtt og milt, allt fram til 24. Þá kólnaði með norðan og norðaustan-átt og nú í lok mánaðarins er norðaustan hvassviðri með frosti og nokkurri snjókomu. Þetta milda og hlýja veðurfar í október og nóvember var hér mjög mikil uppbót á erfitt sumar. Kýr hafa sjaldan bjargað sér jafn lengi úti, sem nú, og sauðfé hefur gengið sjálfala og tekið haustbata.
Skriðuland: Mánuðurinn óminnilega mildur og hægur. Fram til þ.23. var stöðug sunnanátt og góðviðri. Eftir það var mest norðan og norðaustanátt með dálitlu snjófalli.
Sandur: Tíðarfar einmuna gott fram yfir þ.20. Eftir það kólnar og tekur að snjóa og frjósa.
Reykjahlíð: Allan miðhluta mánaðarins var sú mesta blíða. Alauð jörð og þíð. Er það alveg óvenjulegt hér. Ís kom fyrst á Mývatn 25. nóvember.
Nefbjarnarstaðir: Afbrigðatíð fram undir mánaðarlok, þá brá til norðanáttar með töluverðu frosti en úrkomulítið. Annars oftast hægviðri.
Sámsstaðir: Hér sama hlýviðris- og votviðratíð. Þíð jörð og græn svo beitarfénaður hafði hin bestu kjör er svipar til sumarbeitar.
Morgunblaðið segir af vegaskemmdum 7.nóvember:
Vegna hinna stórfeldu rigninga í fyrrinótt [aðfaranótt 6.] og í gær urðu skemmdir svo miklar á Hafnarfjallsvegi og Draghálsleiðinni að öll umferð bifreiða upp í Borgarfjörð stöðvaðist í gær. Vegamálaskrifstofan tilkynnti þetta seint í gærkvöldi. Hafði Leirá runnið yfir bakka sína. Kvísl úr flóðinu rann í læk er liggur að veginum hjá bænum Læk í Leirársveit. Sprengdi flóðið veginn á dálitlum kafla, svo að vegurinn er algjörlega ófær bifreiðum. Þá munu og nokkrar skemmdir hafa orðið á Draghálsleið, af völdum rigningarinnar. Gert er ráð fyrir að viðgerð á Hafnarfjallsvegi muni geta farið fram í dag og verði leiðin því opnuð umferð á morgun, fimmtudag. Ekki hafði Vegamálaskrifstofunni borist tilkynningar um alvarlegar skemmdir á öðrum vegum í gærkveldi.
Morgunblaðið segir 11.nóvember frá dularfullum veðurathugunartækjum á Sléttu:
Raufarnöfn í gærkveldi. Frá fréttaritara vorum. Maður sem var á rjúpnaveiðum á Ormalónsfjallgarði nýlega, fann þar verkfæri og tæki, sem helst gefa til kynna, að þarna hafi verið bækistöðvar ókunnra manna, líklega veðurathuganastöð. Staðurinn er hátt uppi í fjalli, og góð útsýn yfir bæði Axarfjörð og Þistilfjörð og hafið norður af Sléttu. Vegna snjókomu er snjólag yfir dóti þessu, og var ekki hægt að athuga það nákvæmlega, en finnandinn tók með sér nokkur sýnishorn úr aluminium og tréspæni, en taldi munina svo mikla, að einn maður gæti ekki borið þá til bæja. Þessi fundur er settur í samband við hina mörgu njósnara, er Þjóðverjar settu hér á land úr kafbátum og öðrum skipum.
Morgunblaðið segir af minniháttar tjóni í landssynningsveðri í pistli 16.nóvember:
Í ofviðrinu í fyrrinótt [15.] feykti stormurinn rafmagnsstaur, sem stóð í Garðastræti. Þegar staurinn féll, slitnuðu allar rafmagnslínur að honum. Féll ein línan á húsið nr.17 og logaði þakrenna hússins, og varð neistaflug svo mikið, að albjart varð. Engar skemmdir urðu á húsinu. Slökkviliðsmenn klipptu í sundur vírana.
Morgunblaðið birti 27.nóvember yfirlit frá Bíldudal:
Frá Bíldudal. Framan af sumri var veðrátta yfirleitt mjög góð, yfirleitt stillur og blíðviðri. Á vinnuhjúaskildaga (14. maí) gerði þó nokkra snjókomu, sem hélst tvo daga. Í lok júlí byrjaði þykkviðri og rigningar, og hélst það að mestu fram í lok september. Þurrkdagar voru mjög fáir á öllu því tímabili. En flesta daga var þó hlýtt veður.
Í lok mánaðarins komu fáeinir kaldir dagar og um mánaðamótin gerði nokkuð mikla hríð, einkum þó á Vestfjörðum.
Desember var almennt hagstæður, en þó gerði sérkennilegt illviðri eftir miðjan mánuð og olli það nokkru tjóni. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:
Síðumúli: Desember var ágætur að veðurfari, mildur og stilltur, úrkomulítill, sér í lagi seinni hlutinn. Nú má heita alauð jörð. Snjór aðeins í lægðum.
Lambavatn: Tíðarfar yfir mánuðinn hefir verið óstöðugt. En oftast kuldalítið. Oftast austan- og norðaustanátt nema síðustu vikuna hefir verið stillt og blíðviðri. 19. og 20. var hér aftakarok norðaustan með mesta veðri sem kemur. En ekki voru alvarlegar skemmdir í veðrinu.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt milt og spakviðrasamt. Hlákur voru litlar, snjór á jörð allan mánuðinn, grunnur en jafn yfir.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfarið má telja fremur gott. Oftast nær alautt. Snjókoma mjög lítil og engin stórviðri.
Sámsstaðir: Svipar til haustsins en þó fer heldur að kólna í veðri.
Vísir segir 3.desember frá hríðarveðri um norðan- og vestanvert landið, lægð dýpkaði talsvert skammt suðvestan við land og varð tvíátta, suðlæg um landið austanvert, en norðaustanhvassviðri norðvestanlands. Eins og fram kom í Síðumúlayfirlitinu fennti hross og fé í Borgarfirði í þessu veðri:
Fólskuhríð hefir verið um allt Vestur- og Norðurland þrjá undanfarna sólarhringa [frá 30.nóvember og áfram], og hefir hún náð allt suður í Borgarfjörð. Má segja að norðanátt og fannkoma hafi verið fyrir norðan línu dregna frá Garðskaga til Langaness, með allt að 7 stiga frosti. En þar fyrir sunnan hefir verið hiti með 68 stiga hita, þangað til í gær. Á laugardaginn [1.] var 6 stiga hiti hér í Reykjavík fyrir hádegi og austanátt, en á sama tíma norðanátt og 1 stigs hiti í Keflavík á Reykjanesskaga. 1 Borgarfirðinum var þá 3ja stiga frost og stórhríð. Verst mun veðrið hafa verið á Vestfjörðum, Breiðafirði og Húnaflóa. Ekki er vitað um verulegt tjón af völdum veðursins, nema um nokkrar símabilanir, einkum á Vestfjörðum. Þar mun einnig hafa fennt eitthvað af fé, en ekki vitað í hvað stórum stíl. Alvarlegustu símslitin hafa eins og að framan segir, orðið á Vestfjörðum. Talsambandslaust er sem stendur við Ísafjörð, og hefir bilað hæði á norður- og suðurlínunni. Hefir bilað í Steingrímsfirði, en aðalbilunin á norðurleiðinni er fyrir botni Seyðisfjarðar í Djúpinu. Þar hafa brotnað 7 símastaurar og erfitt sem stendur að fá gert við símann vegna þess að bændur eru að bjarga fé úr fönn. Á Barðastrandarlínunni hafa orðið margar bilanir, en yfirleitt smávægilegar. Ritsímasamband við Ísafjörð er i lagi. Ekki er með vissu vitað um færð á vegum norðan- og vestanlands sem stendur. Á föstudaginn komust póstbílar vestur í Dali, en Steinadalsheiði var orðin ófær. Eins var þá fært til Sauðárkróks, en Öxnadalsheiði orðin ófær. Á Austurlandi er afburða góð tíð og aðeins föl i fjöllum. Héraðið er allt autt og þar allir vegir færir. M.a. er Fjarðarheiði fær, en það mun vera einsdæmi á þessum tíma árs.
Nú flutti Veðurstofan úr Landsímahúsinu í Sjómannaskólann. Næsta árið er ákveðið vandræðatímabil í athugunum í höfuðborginni - þótt mælingar hafi að vísu aldrei fallið niður. Morgunblaðið segir frá 19.desember:
Veðurstofan er nú að flytja úr húsakynnum sínum í Landsímahúsinu. Hún verður flutt upp í hinn nýja Sjómannaskóla. Fær Veðurstofan þar til umráða 10 herbergi í fyrstu hæð, í austurálmu. Í Landsímahúsinu hafði stofan aðeins til umráða 2 herbergi og önnur tvö er voru mjög lítil.
Um og eftir miðjan mánuð gerði mikið illviðri af norðaustri og austri. Þetta veður bar að á óvenjulegan hátt og vel þess virði að líta á nokkur veðurkort.
Kortið sýnir hæð 500-hPa flatarins þann 19.desember. Mikil lægð er fyrir sunnan land og austanátt yfir landinu. Braut lægðarinnar næstu viku á undan er sýnd með rauðum stjörnum. Þann 12. var hún yfir Finnlandi - mjög köld (meginlandskuldapollur). Næstu daga þokaðist hún fyrst til norðvesturs og var þann 15. við Lófót í Norður-Noregi. Næstu daga tók hún strikið til suðvesturs fyrir austan land.
Á meðan á þessu stóð gengu lægðir ótt og títt austur um Atlantshaf langt sunnan Íslands. Ein lægðin var þann 15. suður af Nýfundnalandi á leið austnorðaustur og dýpkaði, næstu daga nálgaðist hún Bretlandseyjar og var um hádegi þann 17. um 500 km vestsuðvestur af Írlandi og virtist vera farin að grynnast eftir að hafa orðið um 950 hPa í miðju. Næsta sólarhringinn fór kuldapollurinn hratt til suðvesturs og greip lægðina. Undir kvöld þann 15. var farið að hvessa hér á landi og jókst hvassviðrið síðan jafnt og þétt næstu daga. Um hádegi þann 18. var staðan orðin eins og kortið að neðan sýnir:
Lægðin orðin um 943 hPa í miðju og kerfið allt með tök á nær öllu því svæði sem kortið sýnir. Frost var ekki mjög mikið.
Daginn eftir, þann 19. var þrýstingur í lægðarmiðju kominn niður fyrir 940 hPa - segir endurgreiningin, ofsafengið norðanveður geisar þá um landið vestanvert, en eystra var skárra. Þetta kort gildir á sama tíma og háloftakortið að ofan. Norðaustanátt við jörð, en austanátt ofar - mikið aðstreymi af hlýju lofti, enda hlýnaði verulega í landáttinni í Reykjavík og hiti fór þar í meir en 8 stig þegar hlýja loftið hafði rutt burt því kalda. Nokkuð tjón varð í þessu veðri. Vísir segir frá þann 19.desember:
Eins og kunnugt er hefir fárviðri mikið geisað um allt land að undanförnu. Hefir veður þetta valdið margskonar tjóni, meðal annars á landsímanum. Er Vísir hafði tal af verkfræðingum Landssímans í morgun, var blaðinu tjáð, að bilanir á símanum væru mjög stórfelldar. Algerlega er sambandslaust við Vestfirði og Ísafjörð, bæði um Strandir og Barðaströnd. Hinsvegar mun enn vera samband við stöðvarnar í Búðardal og Stykkishólmi og yfirleitt á Snæfellsnesi. Verið er að vinna að því að koma á sambandi við Akureyri, en að öðru leyti mun vera sambandslítið við stöðvar norðanlands. Algerlega hefir verið sambandslaust við Austurland bæði yfir Mývatnsöræfi og eins um Hornafjörð. Ekki var vitað í morgun um hversu væri háttað um símasamband innan einstakra stöðva á Vestfjörðum og ekki heldur á Austfjörðum. Um Suðurnes hefir verið allsæmilegt samband enn sem komið er og eins um Suðurlandsundirlendi allt að Kirkjubæjarklaustri og um næsta nágrenni Reykjavikur. Einnig hefir tekist að ná slitróttu sambandi alla leið austur að Hornafirði en ekki nema mjög slitróttu. Á þessum svæðum er þó um smávegis bilanir að ræða en ekki mjög alvarlegar. Ritsímasamband er hinsvegar til Ísafjarðar og Seyðisfjarðar. Strax í morgun var brugðið við og farið að rannsaka hvar væri orðið sambandslaust og hversu bilanirnar væru miklar. Ennfremur hafa menn verið sendir út að línunum á mörgum stöðum. Verður hraðað svo sem unnt er að gera við stærstu bilanirnar og koma bráðabirgðasambandi á milli helstu staða, en eins og áður er sagt er ekki unnt að segja um enn hversu tjónið kann að vera mikið vegna þess að ekki hefir tekist að ná sambandi við hina ýmsu staði enn sem komið er.
Í morgun urðu tvívegis truflanir á háspennulínunni hér í nágrenni bæjarins og varð straumlaust í nokkrar mínútur bæði 8:30 og um 9-leytið. Stóð fyrri bilunin yfir í stundarfjórðung en sú síðari í 67 mínútur. Mun særok hafa valdið þessum truflunum. Þá slitnaði rafmagnsstrengur í morgun á Ránargötunni, en var fljótlega komið í lag aftur. Er ekki búist við að menn þurfi að óttast frekari bilanir á rafmagninu, því veður hefir lægt frá í nótt og morgun. Í nótt bar nokkuð á því að braggajárn fyki hingað og þangað í bænum eða við hann, en ekki vitað til þess að það hafi valdið slysum eða verulegu tjóni. Eitthvað mun og hafa fokið niður af búðarskiltum í hænum í nótt og aðrar smávægilegar skemmdir orðið.
Morgunblaðið segir frá tjóni í pistli daginn eftir, þann 20.desember:
Í ofviðrinu í fyrrinótt slitnaði lv. Málmey upp og rak á land. Skipið lá inn við Vélsmiðjuna Keilir, og hafði því verið lagt utan á bv. Baldur, sem þar er til viðgerðar. En Baldur liggur utan á skipsflaki því er vélsmiðjan hefir fyrir viðgerðarstöð. Skemmdir urðu á lv. Málmey. Gat kom á botn þess. Það mun ekki vera erfitt að ná skipinu út aftur.
Stykkishólmur, miðvikudag. Frá fréttaritara vorum. Aftakaveður gerði að kvöldi 18. desember og hefir það staðið einnig í dag. Mótorbáturinn Ægir slitnaði frá bryggju og rak á land. Mun hann talsvert brotinn. Einnig ráku á land þrír trillubátar. Tveir þeirra skemmdust mikið. Skemmdir hafa og orðið á útihúsum, rafleiðslum og innanbæjarsímanum. Kolaskip, sem liggur við hafnarbryggjuna sleit nokkuð af landfestum og var hætt komið. Áætlunarbíllinn tepptist vegna veðurs.
Um háflæði í gærkveldi [19.], um kl.6, var flóð mikið hér í Miðbænum. Af völdum veðurs og flóðs, flæddi upp um holræsisbrunninn við Landsbankann. Mynduðust tvær stórar tjarnir beggja megin Austurstrætis. Ekki er kunnugt um að neinar skemmdir hafi orðið af völdum flóðsins.
Alþýðublaðið segir einnig frá 20.desember:
Síðastliðinn sólarhring hefur geisað mikið ofviðri um mestan hluta landsins, víða með snjókomu, einkanlega þó á Norðvesturlandi. Hámarki mun veðrið hafa náð í fyrrinótt, en þá voru 8 og 9 vindstig viðast hvar á landinu, nema á Blönduósi, þar náði veðurhæðin 11 vindstigum og í Kvígindisdal 10 vindstigum. Í gær var veðurhæðin 8 og 9 vindstig víðast hvar á landinu. Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk hjá Veðurstofunni, er talið að draga muni úr veðrinu á yfirstandandi sólarhring. Stafar veðurhæð þessi af stormsveipum, sem gengu yfir Bretland fyrir nokkrum dögum, en þeir hafa gengið norðvestur á bóginn og náð hér upp undir suðurströndina. Hér í bænum hafa töluverðar skemmdir orðið af völdum roksins, meðal annars hefur fokið járn af nokkrum bröggum, og inni í Kleppsholti hafa eyðilagst braggar, sem búið var í. Þá hefur Skúlagatan skemmst allmikið af sjógangi, en þar hefur sjórinn gengið látlaust upp að húsunum ofan við götuna frá því í fyrrakvöld. Hefur sandurinn runnið úr götunni á kafla svo holur og skurðir hafa myndast í hana. Í gærmorgun urðu tvívegis truflanir á háspennulínum hér í nágrenni bæjarins, og stóðu truflanirnar yfir í nokkra stund í bæði skiptin. Talið er, að særok hafi valdið þessum truflunum. Þá hafa nokkrar skemmdir orðið á landsímalinum víða um land. Í gær var t.d. símasambandslaust við Vestfirði og Ísafjörð, bæði um Strandir og Barðaströnd, sömuleiðis var sambandslaust við Akureyri og fleiri símstöðvar norðanlands, en i gær mun hafa verið unnið að því að koma sambandi á að nýju. Þá var og sambandslaust við Austurland yfir Mývatnsöræfi og um Hornafjörð. Um Suðurnes og Suðurlandsundirlendi hefur hins vegar verið sæmilegt samband, allt austur að Kirkjubæjarklaustri. Í gær var unnið að því að lagfæra flestar þær línur, sem bilað höfðu og koma á sambandi til bráðabirgða milli helstu staðanna, sem símasambandslaust var við. Blaðið átti í gær til við skrifstofu slysavarnafélagsins og spurðist fyrir um skip, sem stödd eru hér við landið og kvaðst skrifstofan ekki hafa fengið aðrar fregnir af þeim, en að allt mundi i lagi með þau, og að engu hafi hlekkst neitt verulega á, svo vitað sé.
Morgunblaðið segir enn frá veðrinu 21. desember:
Ofsaveður hefir undanfarna daga geisað um alla Vestfirði. Símasambandslaust hefir verið þangað vestur s.l. fjóra daga. Vélbáturinn Þröstur frá Suðureyri við Tálknafjörð slitnaði upp af legunni í Suðureyri, og rak á land. Báturinn er 11 rúmlestir. Ekki er vitað hvort takast megi að bjarga bátnum.
Í ofviðrinu sem gekk yfir Vestfirði í fyrradag, rak 3 báta á land í Dýrafirði. Er ekki vitað hvort þeir hafa laskast mikið, því að símasamband var slæmt við Vestfirði i gær. Bátar þessir voru: Hanna, eign Antons Proppé, Glaður, eign Guðmundar Júnis og Eiríks Þorsteinssonar kaupfélagsstjóra og Venus. Ekki hefir náðst til nærri allra staða á Vestfjörðum vegna símaslita. Símabilanir hafa einnig orðið á Norðurlandi, t.d. hafa fallið nokkrir símastaurar í Fljótum.
Vísir segir illviðafréttir frá Blönduósi 21.desember:
Frá fréttaritara Vísis á Blönduósi í fyrradag: Í nótt gerði hér aftakarok af norðaustri. Með morgninum lygndi lítilsháttar aftur en hvessti svo mjög um hádegið. Hríðarveður og allmikil snjókoma hefir verið hér að undanförnu en frostlítið síðan í gærkvöldi. Hér i Blönduósi hafa orðið allmiklar skemmdir. Heil timburhlaða fauk algerlega og járnþök sviptust víða af húsum. Þá hafa orðið miklar skemmdir á landsímanum. Staurar hafa brotnað hér og þar bæði i landssímalinunni sjálfri og einkalínum og því sambandslaust víða um héraðið. Þá var algerlega rafmagnslaust hér í nótt vegna þess að talsvert af staurum mun hafa brotnað í víraleiðslunni frá orkuverinu.
Dagana 21. til 23. kom annar kuldapollur, en veigaminni úr norðaustri og fór til suðvesturs yfir Norðurland (að sögn endurgreiningarinnar). Ekki hreinsaði almennilega til fyrr en á annan dag jóla.
Morgunblaðið segir fréttir frá Siglufirði 23.desember:
Frá fréttaritara vorum. Siglufirði, laugardag [22.]. Ofsaveður var hér í gær [21.] og stóð það frameftir degi, en var harðast um morguninn. Svipti það þökum meira og minna af fjölda húsa, og kom miklu ólagi á rafmagnskerfi bæjarins. Slokknaði á flestum götuljóskerum og í mörgum húsum varð alveg straumlaust og er það mjög bagalegt, þar sem flestir sjóða við rafmagn og margir hita upp með því. Til marks um það, hvað vindur var hvass í verstu hrinunum, má geta þess að tveir snurpinótabátar, sem bundnir voru niður á bryggju Óskars Halldórssonar fuku. Fóru þeir alla leið yfir næstu bryggju og þar í sjóinn. Annar þeirra var stór hringnótabátur. Guðjón
Milli jóla og nýárs bárust viðbótarfréttir, Alþýðublaðið segir 28.desember:
Í ofviðrinu sem geisaði aðfaranótt 18. þ.m. urðu miklir skaðar á Skagaströnd. Sex bátar sukku þar á höfninni, og hefir aðeins einn þeirra náðst upp. Af þessum bátum voru tveir uppskipunarbátar, tveir trillubátar og tveir mótorbátar. Þá urðu einnig skemmdir á húsum. Töluverðar skemmdir urðu á hafnarhúsinu og matarskáli verkamanna fauk. Þá skemmdist eitt íbúðarhús svo, að ekki er hægt að búa í því. Auk þessa fauk nokkuð af heyi.
Og Tíminn bætir lítillega við 29.desember:
Fárviðri geisaði víða um land um jólin og dagana fyrir þau. Frést hefir um nokkurt tjón sem orðið hefir af veðrinu víðs vegar á landinu. Þrjá báta rak á land í Dýrafirði, og breskur togari strandaði þar á firðinum á jóladag. Ekkert manntjón varð og er nú unnið að björgun skipanna. Bát rak einnig upp af legunni í Suðureyri við Tálknafjörð. Miklar skemmdir urðu víða á Norðurlandi. Mun því enn ekki frétt um allar þær skemmdir, sem hafa orðið í ofviðri þessu.
Vísir segir af nýjum veðurfregnatíma 27.desember:
Næturútvarp á veðurfregnum hófst í nótt sem leið. Höfðu komið fram tilmæli um það frá ýmsum aðilum sjómanna, að slíkt útvarp veðurfregna að næturlagi yrði látið fram fara og er það nú hafið með samvinnu Veðurstofunnar og Landssímans. Er útvarpað frá loftskeytastöðinni hér á 1087 metrum og fer útvarpið fram kl. eitt eftir miðnætti hverja nótt.
Vísir segir 3.janúar 1946 af togarastrandi í Dýrafirði í veðrinu mikla fyrir jólin (en strandið varð raunar á jóladag):
Breski togarinn, sem strandaði á Dýrafirði í óveðurskastinu fyrir jólin hefir nú náðst út og kom hann hingað til Reykjavíkur í morgun. Það var vélsmiðjan Hamar hf, sem bjargaði togaranum og tókst að ná honum út fyrir nýárið.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1945. Þakka Úrsúlu Sonnenfeld fyrir uppskrift lýsingar veðurathugunarmanna í Síðumúla og Kvígindisdal. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.1.): 86
- Sl. sólarhring: 338
- Sl. viku: 2853
- Frá upphafi: 2427405
Annað
- Innlit í dag: 68
- Innlit sl. viku: 2556
- Gestir í dag: 66
- IP-tölur í dag: 66
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.