Lægð sem gefa þarf gaum

Í dag hefur slydduhríð gengið yfir höfuðborgarsvæðið, annars staðar hefur ýmist verið rigning eða snjókoma. Heldur hráslagalegt veður. 

w-blogg200324a

Kortið sýnir stöðuna nú síðdegis (kl.18 - spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Lægð er á Grænlandshafi og frá henni liggur úrkomubakki til austurs, sá sem er að fara yfir þegar þetta er skrifað nú um kl.16 á miðvikudag 20.mars. Lægðin sem nefnd er í fyrirsögninni er sú sem á kortinu er suður í hafi, 978 hPa í miðju. Hún dýpkar rösklega og stefnir til norðausturs eða norðnorðausturs og fer á morgun nærri Suðausturlandi eða yfir það. Lægðin ber svipmót illrar ættar þó ekki sé hún þó af allra verstu gerð. 

Hún er ekki alveg „í fasa“ við háloftalægðina vestan við - eins og sjá má af kortinu hér að neðan. Það gildir kl. 6 í fyrramálið (fimmtudag).

w-blogg200324b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum örvum en hiti í fletinum með litum. Lægðin illa er hér við suðurströndina, rétt komin framhjá eldri lægðinni fyrir vestan - „stefnumótið“ tekst ekki alveg (reikni tölvurnar rétt), lægðin lendir því ekki í svonefndum „óðavexti“ sem kallaður er. Henni er nú spáð niður í um 960 hPa síðdegis á morgun, miðjan þá rétt fyrir austan land. Gróflega má segja að hefði stefnumótið tekist fullkomlega hefði lægðin orðið fáeinum hPa dýpri en ráð er fyrir gert - munar um hvað lítið sem er. Það hjálpar líka að hreyfingin er ákveðin - taki lægðin einhverja slaufu um sjálfa sig gerist það austan við land. 

Þrátt fyrir þessar lítillega mildandi aðstæður er full ástæða til að gefa þessari lægð gaum. Norðaustan- og norðanáttin vestan við hana verður mjög hvöss, sérstaklega á Vestfjörðum og þar að auki virðist svo vera sem mjög mikil úrkoma verði um landið norðanvert, aðallega sem snjór í fjöllum. Úrkomuútgildavísar reiknimiðstöðvarinnar eru mjög háir og úrkomutölur í spánum líka, ávísun á veruleg leiðindi. 

Eins og venjulega þá látum við Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila um allar viðvaranir og hvetjum þá sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám þeirra. Það borgar sig. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa rýni. Tók einmitt eftir mjög mikilli ákefð í spánni fyrir Tröllaskaga. Er þetta einhverskonar þverkorinn kuldapollur með háloftalægðina úr fasa fyrir vestan land

Óliver Hilmarsson (IP-tala skráð) 20.3.2024 kl. 18:21

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Nei - ekki dæmigerður slíkur - en mér líst illa á þessa lægð - bæði fok-, snjóflóða- og línuísingarhætta - og allskonar. Hún er þegar orðin um 4 hPa dýpri heldur en spáin sem ég gekk út frá í pistlinum reiknaði með. Sé nú rétt reiknað verður dýpkunarákefðin mest milli miðnættis og kl.3 í nótt - eftir það kemur í ljós hvort spár standast. En við vonum auðvitað í lengstu lög að ekkert fár verði - og þetta bara renni tíðindalaust hjá. 

Trausti Jónsson, 20.3.2024 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 908
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3298
  • Frá upphafi: 2426330

Annað

  • Innlit í dag: 808
  • Innlit sl. viku: 2964
  • Gestir í dag: 790
  • IP-tölur í dag: 727

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband