Hugsað til ársins 1931

Tíð var yfirleitt fremur hagstæð á árinu 1931, en þó út af hafi brugðið í einstökum mánuðum. Vorið var sérlega þurrt og erfitt gróðri. Tíð var talin ónæðissöm en samt heldur hagstæð í janúar, en þó var mjög snjóasamt, einkum fyrir norðan. Tíð var óhagstæði í febrúar, stormasamt var og mikill snjór víða. Gæftir stopular og samgöngur röskuðust vegna snjóa. Kalt var í veðri. Mars var heldur óhagstæður, einkum á Norður- og Austurlandi og suðvestanlands var úrkomusamt. Í apríl var tíð fremur hagstæð, en nokkuð óstöðug framan af á Suðvestur- og Vesturlandi. Maí var hægviðrasamur og sérlega þurr og fór gróðri því lítið fram. Einnig var þurrt í júní og spretta óvenju slæm. Mjög sólríkt var á Suður- og Vesturlandi. Í júlí var góð tíð og þurrkar góðir á Suður- og Vesturlandi, en óþerrisamt á Norðaustur og Austurlandi. Í ágúst var góð og hagstæð tíð. Mjög þurrt í veðri, einkum austanlands. Hlýtt var í veðri. Í september var hagstæð og hægviðrasöm tíð, en brá þó til verulegra votviðra á Suður- og Vesturlandi eftir miðjan mánuð. Nokkuð þurrt norðaustanlands. Mjög hlýtt í veðri. Október var óstöðugur og úrkomusamur, gæftir stopular. Nóvember var hagstæður, sérstaklega norðaustanlands. Snjóþungt var um tíma norðan til á Vestfjörðum. Hlýtt var í veðri. Desember var óhagstæður til sjávarins á Suðvestur- og Vesturlandi, en tíð talin góð til landsins.

Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu). Þótt bæði tjón og ami væri stundum af veðri var ekki mikið um stórviðri á landsvísu - og að því leyti er árið tíðindaminna en mörg önnur. Vorþurrkarnir áðurnefndu eru þó mjög óvenjulegir og ekkert sumar síðustu 100 ára skorar hærra í Reykjavík í einkunnargjöf ritstjóra hungurdiska (en hún er reyndar ekki til umfjöllunar hér). Mjög væna hitabylgju gerði í ágúst og óvenjuhlýir dagar komu líka í júlí (á Suðurlandi) og í september (norðaustanlands). Sólarhringsúrkomumet Reykjavíkur, sett 5.mars stendur líka enn. 

Við lítum á hvað nokkrir veðurathugunarmenn höfðu um janúar að segja. Áfreði var mikill, en ekki mikið kvartað að öðru leyti. Mikla snjóflóðahrinu gerði um og uppúr þeim 20.:

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið oftast vindasamt, snjólétt en oftast kalt. Það hefir aldrei þiðnað neitt nema hlaupið í svell þegar frostlaust hefir verið. Þar af leiðandi hefir hér alltaf verið innistaða fyrir allar skepnur og mjög vont að koma fé í vatn fyrir hálkum.

Þórustaðir (Hólmgeir Jensson): Veðráttan umhleypingasöm. Áfreðar og jarðbönn. Mikill snjór seinni hluta mánaðarins.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Snjóflóð féll á Norðureyri 22. dag mánaðarins. Tók og flutti burtu tvo báta. Bóndinn taldi þessa skriðu mun meiri en þá í fyrra, sem tók húsin. Hefðu nú húsin einnig farið ef verið hefðu á sama stað. En hann endurbyggði fram af íbúðarhúsinu sem er úr steinsteypu með massífri þríhyrnu upp að fjallinu. Klofna snjóskriðurnar á hyrnunni og renna til beggja hliða og varð ekkert að annað en bátstapið. Sjávaralda stór gekk hátt á land af völdum snjóflóðsins hér á Suðureyri, en olli engu tjóni.

Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Veðrið í mánuðinum hefir verið stirt og ónæðisamt oftast. Fremur lítil frost en hríðarveður var oft og einatt.

Bakki í Bakkafirði (Halldór Runólfsson): Veðráttan hefur verið fremur góð. Hagi dágóður og hefði verið ágætur allan mánuðinn nema fyrir svellbræðslu því snjór hefur alltaf verið fremur lítill. Engin ofviðri en hlákur litlar.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar fremur hagfellt og hagar töluverðir fyrir sauðfé fram yfir þann 20.

Fagurhólsmýri. (Ari Hálfdanarson) Veðráttan hefur verið fremur góð og lítill snjór og því oftast hagar.

Hrepphólar (Jón Sigurðsson): Mjög breytileg veðrátta en oftast gott veður. Snjólétt, en ísar og áfreðar með mesta móti á láglendi og mýrum.

Fréttir blaða af veðri eru tiltölulega rýrar árið 1931. Fréttastofa blaðamanna er oft höfð fyrir fréttunum og ekki vitað hvort blöðin birtu allar fregnir hennar. E.t.v. hafa sumar aðeins lent í útvarpi. Morgunblaðinu og Vísi má þó hrósa fyrir að birta nokkuð stöðluð dagleg yfirlit - líklega upprunnin á Veðurstofunni. Í þeim má einnig sjá veðurspár flesta daga. Sem dæmi getum við tekið fyrsta yfirlit ársins úr Morgunblaðinu, laugardaginn 3.janúar:

Veðrið (föstudagskvöld [2.] kl.5); Norðanáttin heldur áfram um allt land, en er yfirleitt mjög hæg. Frostið er nú 8—10 stig um alt Vestur- og Norðurland. Hefir verið lítils háttar snjókoma austan lands fram að þessu, en er nú að létta til. Við Suður-Grænland er loftvog fallandi og áttin orðin suðlæg með 2 st. hita í Julianehaab. Má búast við að vindur gangi einnig til suðurs hér á landi á laugardagskvöld [3.] eða sunnudag. Veðurútlit í Rvík í dag: Stillt og bjart veður til kvölds, en þykknar síðan upp með S-átt.

Umhleypingasamt var fyrstu þrjár vikurnar. Veðráttan segir frá því að þann 17. hafi tveir vélbátar laskast í höfninni í Keflavík (þá hvessti af suðri) og að bátar hafi daginn eftir lent í hrakningum og þá strandaði bátur nærri Garðskaga, en mannbjörg varð. Dagana 21. til 26. var stöðug norðaustanátt. Þá var fannkoma á Vestfjörðum og á Norðurlandi og féllu mörg stór snjóflóð (því í Súgandafirði lýsti veðurathugunarmaður hér að ofan). Flóðin tóku einkum símastaura. 

Vísir segir af snjóflóði á Siglufirði í fréttum 27.janúar og fleiri símabilunum:

Siglufirði 24. janúar. FB. Dimmveðurs stórhríð með mikilli fannkomu þrjá undanfarna daga. Hefir sett hér niður mikla fönn. Brim var talsvert í fyrradag, svo gekk yfir varnargarðinn og flæddi langt suður eftir eyrinni. Flýði fólk úr nokkrum húsum. Síðar: Hríðinni létti upp i nótt. Gríðarmikið snjóflóð hafði farið á laugardagsnótt úr Illveðurshnjúk og niður Skarðdalsdal austan Siglufjarðarskarðsins. Tók það af símann á löngum kafla og er giskað á, að einir fjörutíu staurar séu brotnir og burtu sópaðir á svæðinu, sem snjóflóðið fór yfir. Vegurinn liggur þarna meðfram símanum og hefði hverjum verið bani búinn, sem þar var á ferð, er flóðið fór. Aldrei hefir heyrst, að þarna hafi farið snjóflóð fyrr. — Símastjórinn telur ógerlegt að gera við símann í vetur, en bráðabirgðasamband er þegar fengið með því að strengja ofan á snjónum og mun það bætt eftir föngum, og notast við það til vorsins.

FB. 26. janúar. Sambandslaust hefir verið undanfarna 2—3 daga við ýmsa staði norðanlands og vestan. Seinni hluta dags í dag náðist samband við ýmsar stöðvar, sem sambandslaust hefir verið við, t. d. Siglufjörð. Guðmundur Hlíðdal, settur landssímastjóri, hefir tjáð Fréttastofunni, að snjóflóð hafi orðið á nokkrum stöðum og miklar símabilanir. Úr Illviðrahnúk, sem er norðanvert við Siglufjarðarskarð, féll snjóflóð og brotnuðu fjörutíu símastaurar á tveggja kílómetra svæði. Eigi vita menn til, að snjóflóð hafi fallið áður þarna. Á Lágheiði, milli Ólafsfjarðar og Fljóta, brotnuðu fjórir staurar, en ófrétt af Grímubrekkum, milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, þar sambandslaust, og vafalaust um bilanir að ræða. Milli Súðavíkur og Arnardals, í Sauðadal, tók átta staura þ. 22. eða 23. jan. og sex staura í Fremri-Hnífsdal þ. 23. jan. Sjö staura tók og í snjóflóði á Snæfjallaströnd, en sjö brotnuðu.

Veðráttan segir frá því að í illviðrinu þann 22. hafi norskt fiskitökuskip farist á Þaralátursskerjum á Ströndum. 21 maður drukknaði, þar af 4 íslenskir farþegar. Brim gekk þá yfir varnargarða á Siglufirði og flæddi langt suður eftir eyrinni, fólk flúði úr nokkrum húsum.

Morgunblaðið segir af strandi í Vestmannaeyjum í pistli 28.janúar:

Eftir símtali við Vestmannaeyjar. Kl. um 1 aðfaranótt þriðjudags var Stefán Gíslason bóndi við Stórhöfða í Vestmannaeyjum þess var, að skip strandar á flúð norðan við höfðann. Var aftaka austan veður, svo að varla var stætt úti. Stefán sendi strax tvo sonu sína til bæjarins, til að gera Björgunarfélagi Vestmannaeyja aðvart. Þeim tókst að komast í bæinn í ofviðrinu og vöktu framkvæmdastjóra Björgunarfélagsins, Georg Gíslason kaupmann. Hann brá skjótt við og reyndi að ná sambandi við Óðinn, sem lá við Eiðið. Tókst honum að má sambandi við Óðinn með ljósmerkjum. Óðinn hélt þegar á strandstaðinn. Í gærkvöldi kom skeyti frá Óðni og sagði þar, að togarinn myndi lítið lekur og að hann gæti komist í höfn, þegar slotaði veðrinu. Togari þessi mun vera þýskur.

Morgunblaðið segir af hríð vestra í pistli 5.febrúar:

Þingeyri 24. janúar. FB. Tíðarfar. Það sem af er vetrar hefir verið afar stirð tíð. Sífeldir stormar og umhleypingar. Snjór eigi mikill fyrr en nú síðustu daga. Nú hefir verið fram undir viku norðan hríðarbylur með fádæma fannkomu

Vísir segir 6.febrúar tíðarfregnir úr Þingeyjarsýslu:

Úr Þingeyjarsýslu. FB. Fyrst eftir veturnætur var slæm tíð hér um slóðir. Setti niður mikinn snjó í sumum sveitum, svo að fé var tekið á gjöf þá um tíma. En seinast í nóvember gekk i norðaustanrigningar og þíðviðri og tók þá upp mikinn snjó. Hefir verið gott til jarðar fyrir sauðfé síðan, og má heita, að tíð hafi verið góð hér nyrðra allt til áramóta. Eins og áður hefir verið getið, var ofsaveður af suðvestri um miðbik nóvembermánaðar og brotnuðu þá og sukku bátar á höfninni í Húsavík. Óvíst hvort hægt verður að gera við tvo vélbátana,sem rak upp í fjöru, en þriðji vélbáturinn,sem sökk, hefir ekki fundist, þrátt fyrir mikla leit. Hann var eign Kaupfélags Þingeyinga, en hina bátana áttu þeir Stefán Guðjohnsen verslunarstjóri og Bjarni Benediktsson kaupmaður. Fiskafli hefir verið töluvert góður í Húsavík, þegar hægt hefir verið að róa. En sjór er vart sóttur af eins miklu kappi og áður, vegna þess hve verðið hefir fallið upp á síðkastið.

Vísir 10.febrúar:

31. jan. FB. Tíðarfar. í desember s.l. árs og fram til janúarloka var fremur umhleypingasamt, en ríkjandi áttin austan-suðaustan. Smáblotar, en þó ekki rigningar að mun. Stundum hlaupið í norður, en stóð stutt. Snjóþyngsli ekki mikil, en sumstaðar þó, einkum fram til dala. Um 20. jan. skall á norðangarður með hríð, er stóð til þess 25. Goðafoss var þá á Siglufirði. Var brimasamt og ekki hægt að sinna uppskipun ,en allt lagaðist þá lægði. Gekk vel með afgreiðslu hans á Húnaflóahöfnunum.

Veðurathugunarmenn lýsa tíð í febrúar:

Lambavatn: Það hefir mátt heita óslitin harðindi. Ekki mikill snjór en í blotunum fyrri hluta mánaðarins hljóp allt í svell og nú síðan frostið jókst fraus allstaðar fjara, svo heita má að nú sé allstaðar jarðlaust.

Suðureyri. Hagleysi og hörku veðrátta. Úrkomusamt - snjóþungt - gæftafátt. Mjög óhagstætt.

Hraun. Mjög óstöðugt og hríðasamt og frostharka með köflum. Einu sinni eða tvisvar sá sól. Rosaveður, hríðarhregg / himinn skýjum varinn / hulinn oftast hamraegg / hóllinn frosti barinn.

Grænavatn (Páll Jónsson). Snjóaði flesta daga mánaðarins og komin mikil fönn. Því allstaðar haglaust. - Sannkölluð harðindi.

Raufarhöfn (Árni Árnason). Eftir fyrstu dagana af þessum mánuði má heita sífelld veðurvonska. Stundum aftakabyljir, sem ekki hafa staðið mjög lengi í einu.

Fagridalur (Kristján Wiium). Einlæg ótíð, stórhríðar og stormveður með miklum snjókomum og hagléljum.

Stórhöfði (Gunnar Þ. Jónathansson). Aðfaranótt 15. var afspyrnu rok. Regnmælirinn fauk og fann ég hann síðar en mikið skemmdan.

Hrepphólar. Fyrri hluta mánaðarins mjög breytilega veðurátta er orsakaði áfreða og ísa - algjört hagbann. Síðari hlutann, eða frá 19., stöðug norðanátt og harðindi.

Vont veður gerði um menginhluta landsins þann 3. þegar lægð fór norðaustur um Grænlandssund. Ekki er getið um tjón. Mun meira tjón varð helgina 14. til 15.febrúar. Þá fór djúp lægð yfir landið fyrst gerði sunnanátt og síðan útsynning, en í kjölfarið gerði mjög hvassa norðan- og norðaustanátt. 

Alþýðublaðið segir frá 16.febrúar:

Hafnarfjörður. Klukkan um 4 á laugardaginn [14.] byrjaði að hvessa í Hafnarfirði og var komið afspyrnuveður eftir skamma stund. — Tveir línuveiðarar, „Eljan", eign Lofts Bjarnasonar, og „Namdal“, eign hf „Örninn", lágu í austurkrikanum við gömlu hafskipabryggjuna. Kl. um. 6 losnuðu þeir báðir samstundis og byrjuðu að reka undan veðri. Ráku þeir að hinni nýju hafskipabryggju, sem bærinn er að láta byggja, og skemmdu harla mikið. „Namdal" mun vera alveg eyðilagður. Er allt brotið aftan af honum, bæði möstur í burtu og allt annað brotið og brenglað ofan dekks. „Eljan" er minna skemmd, en þó mjög brengluð, aðallega stjóraborðsmegin. Alþýðublaðið átti tal við bæjarstjórann í Hafnarfirði í morgun. Kvað hann hina nýju hafnarbryggju allskemmda, en þó nothæfa. Kvað hann skip hafa verið bundin ofveðurskvöldið við bryggjuna, en þau alls ekki losnað. Sandgerði. Þar rak einn bát á land. Heitir hann „Vonin“. Enginn bátur var að veiðum, er ofviðrið skall á.

Eyrarbakki. Þar urðu engar skemmdir. Bátar þar er enn ekki farnir til veiða.

Vestmannaeyjar. Klukkan um hálfþrjú á laugardag skall á afspyrnu útsynningsrok með stórhríð. Voru þá átta bátar ókomnir að. „Þór“ og enski botnvörpungurinn „Vin" frá Grimsby fóru bátunum til aðstoðar, ef á þyrfti að halda. Komust allir bátarnir klakklaust til hafnar með aðstoð „Þórs“, fyrrnefnds botnvörpungs og tveggja annarra breskra botnvörpunga. Í óveðrinu sukku tveir bátar á bátalegunni, annar 6—7 smálestir, hinn 8—9, og þann þriðja rak á land, mikið brotinn.

FB. 15. febrúar. Reykjavík. Engar skemmdir urðu hér við höfnina af ofviðrinu, og var það þó ekki minna hér en annars staðar. Veðurathugunarstöðin aðvaraði hafnarskrifstofuna um að ofviðri væri í aðsigi. Gerði hafnarstjóri þær ráðstafanir, sem komu í veg fyrir það, að skemmdir yrðu hér.

Vísir segir frá sama veðri 16.febrúar (stytt hér):

Síðastliðinn laugardag var sunnan strekkingsveður hér fram eftir degi og frostlaust, en djúp lægð þá fyrir vestan land. Um kl.5 síðdegis fór lægðarmiðjan hér framhjá Reykjavík og gekk þá veður til norðvesturs og bráðhvessti. Veðurhæðin varð mest um 10 vindstig, kl. 6—8, en úr því fór heldur að lægja, en þó hélst hvassviðri alla nóttina og fram eftir sunnudegi. Í Vestmannaeyjum varð veðurhæðin 11 vindstig nálægt miðnætti. Þar sukku tveir mannlausir vélbátar á höfninni, en einn rak á land. Grenjandi norðanhríð var um allt Norðurland og Austurland i gær. Hvassast var í Grímsey, 10 vindstig. Í morgun var veðrið gengið niður að mestu vestan lands og norðan, en hríð hélst enn norðaustanlands og á Austfjörðum. Enginn skaði varð af veðri þessu hér í höfninni, en ljósaþræðir slitnuðu víða. Á föstudagskveld og laugardagsnótt var i útvarpsfréttum spáð mjög vondu veðri á laugardag. 

Morgunblaðið 17.febrúar

Talsverður snjór kom hér sunnanlands á sunnudagsnótt [aðfaranótt 15.]. Um morguninn var bílum ófært milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, en um hádegi var búið að moka verstu sköflunum af veginum og eftir það fóru bílar á milli. Mjólkurflutningar austan yfir fjall töfðust mjög vegna ófærðar.

Norðanstórhríð var um allt Norðurland og Austurland á sunnudag. Í gær var veður farið að lægja og upprof á Norðurlandi, en hríð hélst enn á Austfjörðum og frost var með meira móti um land allt, 9 stig í Ísafirði og á Akureyri, 8 stig í Vestmannaeyjum og 7 stig í Reykjavík.

Alþýðublaðið segir 18.febrúar:

Skipverjar af togaranum „Hilmi“ segja að laugardagsveðrið hafi verið með verstu veðrum, sem hér hafi komið, og að það hafi verið eins vont og Halaveðrið illræmda. Var Hilmir 120 sjómílur suður af Vestmannaeyjum þegar veðrið skall á, og var þá á hreimleið frá Englandi. Losnaði vélin í honum, en varð þó ekki að tjóni, en skipið verður að vera hér allt að tíu dögum til viðgerðar.

Mikið kuldakast gerði síðari hluta febrúar. Frost fór í -15,5 stig í Reykjavík þann 21. Fyrir norðan bætti á snjó. 

Morgunblaðið segir af ófærð 26.febrúar:

Bílar frá BSR komust ekki lengra en upp að Baldurshaga í gær, vegna ófærðar. Á sunnudaginn var komst bíll að austan alla leið vestur undir Hveradali, ók á harðfenni.

Morgunblaðið segir af lagnaðarís í pistli 1.mars:

Höfnin var öll lögð í gærmorgun og var ísinn 7-8 þumlunga þykkur. Hafnarbáturinn Magni var látinn brjóta rásir fram úr höfninni svo að bátar gæti komist inn að bryggjum.

Morgunblaðið segir 3.mars:

Borgarnesi, FB. 28. febr. Harðindi eru nú í héraðinu og hafa verið að undanförnu. Hvergi er jörð í lágsveitum, alls staðar svelli runnið, Í uppsveitum mun einhver snöp fyrir hross þar sem best er. Má heita að allar skepnur séu á gjöf, enda gengur nú mjög á hey.

Ísalög eru nú svo mikil á Breiðafirði norðanverðum að eigi verður komist á sjó frá austurhluta Barðastrandasýslu.

Austan Hellisheiðar sæmilegt að undanförnu. Harðindi undanfarnar vikur og má telja, að víðast hafi verið haglaust með öllu síðan um jólaleytið og sums staðar lengur. Skepnuhöld hafa yfirleitt verið góð.

Harðindi voru fyrstu daga marsmánaðar en síðan gerði mikil hlýindi og asahláku í fáeina daga. Eftir það harðnaði aftur á dalnum. Fréttir af þessum veðrabrigðum fyrirferðarmestar veðurfregna á árinu, enda var sett sólarhringsúrkomumet í Reykjavík sem enn stendur, 56,7 mm. Snjódýpt mældist 30 cm í Reykjavík að morgni þess 4. Veðurathugunarmenn segja af mars:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt. 5. og 6. tók upp nær allan snjó í byggð en svo gerði kuldanæðinga. Nú seinni hluta mánaðarins eru sífelldir umhleypingar.

Hraun. Rosasamt. Snjóasamt. Erfitt tíðarfar til lands og sjávar.

Húsavík (Benedikt Jónsson). Óslitin harðindi og hagleysur allan mánuðinn. Blotinn 5.-6. vann ekkert á, en hleypti fönninni í gadd.

Fagridalur. Sífelld ótíð og dimmviðri af og til, en ágæt hláka síðustu dagana.

Fagurhólsmýri. Yfirleitt óstöðugt en frostvægt, oftast hagar en alllengi gaddur á milli þúfna í úthögum. Mjög lítill snjór í allan vetur og því ágætir vegir og færð fyrir ferðamenn.

Stórhöfði. 16. varð regnið ekki mælt. Regnmælir fauk með öllu saman og hefur ekki fundist.

Hrepphólar. Góð veðurátta.

Eins og getið var hér að ofan var sólarhringsúrkomumet slegið í Reykjavík þann 5.mars (56,7 mm) - og stendur enn þegar þetta er skrifað (vorið 2024). Þann 3. mars fór að snjóa í vaxandi austanátt og gerði blindhríð. Síðdegis stytti upp um stund, en fór síðan aftur að herða vind og snjóa. Að morgni þess 4. var snjódýpt orðin 30 cm. Af blaðafregnum að dæma skapaðist vandræðaástand í bænum. Um miðjan dag þann 4. fór hiti upp fyrir frostmark og gerði mikla rigningu. Að morgni 5. var enn 22 cm snjódýpt, en daginn eftir ekki nema 7 og ekki lengur alhvítt. Hvasst var alla þessa daga, 7-9 vindstig, allt fram á kvöld þann 6. að vindur fór að ganga niður. Eins og fram er komi var þessi úrfellis- og ófærðarkafli var endir á óvenjulöngum köldum kafla. Í febrúar var alhvítt alla daga nema einn í Reykjavík, þó snjór yrði aldrei mikill fyrr en í upphafi úrfellisins. Frost voru hörð og var 17 cm ís á Reykjavíkurhöfn 2. mars. Aðfaranótt 2.mars komst frostið í -12,4 stig, en fór í 6,8 stiga hita þann 5. 

Við lítum á fáein kort tengd þessu veðri:

Slide1

Þriðjudaginn 3.mars var vaxandi austanátt á landinu með snjókomu á Suður- og Vesturlandi. Mjög víðáttumikil lægð var suður í hafi og hæð yfir Grænlandi. 

Slide2

Ofan á austanáttinni stöð vindur af suðvestri (öfugsniði). Lægðardrag kom yfir Grænland úr norðvestri og gróf um sig á Grænlandshafi. Kannski var það öflugra heldur en endurgreiningin sýnir hér. 

Slide3

Síðdegis þann 4. var vindur að komast upp fyrir frostmark í Reykjavík og úrhellisrigning tekin við af snjókomunni. 

Slide4

En háloftavindur var enn af suðvestri þannig að úrkomuskýin sáu Bláfjöllin ekki og enginn úrkomuskuggi myndaðist í skjóli þeirra.

Slide5

Þann 5. var vindur hins vegar af suðaustlægri átt í öllu veðrahvolfinu. Þá dró úr úrkomu. Hún mældist samt 15,4 mm að morgni 6. og 9,0 mm að morgni þess 7. Að morgni þess 5. mældist einnig gríðarleg úrkoma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 92,0 mm. 

Slide6

Þann 7. hafði sunnanáttin dælt miklu magni af hlýju lofti norður í höf. Þar myndaðist hlý hæð, en kalt var í sunnanverðri Skandinavíu í austanlofti. Hæðin þokaðist til suðvesturs og vesturs næstu daga og var veður þokkalegt hér á landi á meðan. 

Morgunblaðið segir af ófærðinni 4.mars:

Ófærð er nú svo mikil hér um slóðir, að bílferðir tepptust alveg í gær [3.], nema rétt um götur bæjarins þræluðust bílar gegn um fönnina við illan leik. Ekki var reynt að komast til Hafnarfjarðar með bíla í gær, en ráðgert var að byrja skyldi snjómokstur á Hafnarfjarðarveginum í dag. Til Lauganess varð heldur ekki komist með bíl, eftir því sem sagt var á Litlu bílastöðinni, en sú stöð heldur annars uppi áætlunarferðum þangað.

Mjólkurflutningar tepptust að nokkru leyti til bæjarins í gær, eftir því sem Mjólkurfélag Reykjavíkur skýrði frá. Flutt var mjólk í sleðum úr Mosfellssveitinni og af Álftanesi. Kjalnesingar bjuggust til að hefja snjómokstur snemma í morgun og er búist við að mjólk af Kjalarnesi verði komin hingað um hádegi.

Á Kolviðarhól var iðulaus stórhríð framan af deginum í gær, en frost með minna móti, um 6°. Austanfjalls var lítil fannkoma, og búist við því að bílferðir gætu brátt hafist að nýju um undirlendið.

Morgunblaðið heldur áfram 5.mars:

Veðrahamur hinn mesti hefir verið hér undanfarna daga, stórhríð í fyrradag, sem fyrr er frásagt með óvenjulegri fannkomu þá og aðfaranótt þriðjudags [3.]. Birti hér upp á þriðjudagskvöld, en á miðvikudagsnótt [4.] gerði mikla hríð af suðaustri, með feikna fannkomu. Var í gærmorgun hér ofsarok, er hélst allan daginn. En er fram á daginn kom, hlýnaði og gekk í stórrigningu. Ófærðin á götunum var svo mikil er á daginn leið að menn muna hana vart meiri. Eigi var komist þurrfóta um sum bæjarhverfi nema í hnéháum stígvélum. Bílar komust ekki um göturnar sums staðar. Ristu þeir djúp hjólför og er fram á kvöldið kom var um tvennt að velja fyrir vegfarendur, stika meðfram barmafullum skorningunum ellegar vaða krapið utan við brautirnar.

Símabilanir urðu mjög miklar hér innanbæjar í gær, enda var það auðséð strax í gærmorgun að það gat ekki farið á annan veg. Þegar frostið linaði þegar fram kom á daginn héngu allir þræðir þungir af krapi og var sýnilegt að margir myndu slitna af þunganum og því hve mikið þeir tóku á sig í storminum. Sagði bæjarsímstjóri að mjög sjaldan eða aldrei hefðu eins margir símaþræðir slitnað hér á einum degi. Sum bæjarhverfi voru sambandslaust að mestu. Landsímalínan bilaði milli Reykjavíkur og Álafoss og varð alveg sambandslaust um Norðurlandssímann. En símasamband var óslitið suður um land og austur og norður þá leið alla leið til Borgarness. Símaviðskipti við útlönd óhindruð um Suðurlandslínu.

Bilanir á raftaugum. Ísingin í gær gerði það að verkum, að allmargar heimtaugar í hús slitnuðu hér í bænum. Heimtaugar eru ofanjarðar allvíða í úthverfum bæjarins sem kunnugt er. Tiltölulega lítið var hægt að gera við raftaugarnar hér innanbæjar í gær vegna þess að rafmagnslögn til Vífilsstaða bilaði og urðu menn þeir sem sinna við viðgerðir að sinna því fyrst að koma henni í lag. Hælið varð rafmagnslaust. Viðgerðin gekk seinna en ella vegna þess að ófært var með öllu eftir Hafnarfjarðarveginum og urðu menn því að fara gangandi til viðgerðanna. Mjólkurflutningar til bæjarins urðu erfiðari í gær, en í fyrradag Er nú alveg gefin upp vonin að fá mjólk frá Kjalarnesi fyrst um sinn landveg, og eins sunnan af strönd. Verður mjólk sótt í báðar þessar sveitir sjóveg um leið og storminn lægir. Loftnet loftskeytastöðvarinnar á Melunum bilaði í gær, en þó ekki svo mikið, að stöðin gat haft samband við skip í hafi. Engin tiltök voru að gera við loftnetið vegna óveðurs.

Morgunblaðið segir enn af veðrinu 6.mars:

Í gær fóru símamenn á stúfana til þess að athuga símabilanirnar á Norðurlandslínunni. Komust þeir að raun um, að 45 símastaurar voru brotnir í Mosfellssveitinni. Í fyrramorgun, þegar ísinguna gerði sem mesta, varð hún svo gild á símaþráðunum, að nærri lét að hún væri jafngild og staurarnir. Svo mikið ofsarok var allan daginn í gær, að símamenn gátu lítið aðhafst við viðgerðir, var ekki stætt vegna veðurhæðar meðfram símalínunni. Símasamband var við Hornafjörð í gærmorgun. En er fram á daginn kom, slitnaði síminn austur í Landeyjum, og í gærkvöldi náðist ekki samband nema rétt austur fyrir Hellisheiði. Loftskeytastöðin gat enn ekki afgreitt skeyti til útlanda, og var símasambandslaust með öllu við útlönd í gær. En búist er við að það lagist í dag. Bæjarsíminn er enn mjög í ólagi. Var unnið af kappi að viðgerðum í gær. Bættust við kvartanir allan daginn í gær, og voru hátt á þriðja hundrað símanúmer sambandslaus í gærkvöldi.

Rafmagnsveitan fékk margar kvartanir í gær, út af rafmagn í hús, er slitnað hafa undanfarna daga. Var Morgunblaðinu sagt á skrifstofu rafveitunnar að um 80 hús hafi misst rafmagn vegna slíkra bilana. Tíu menn voru við viðgerðir í gær, en höfðu vart undan. Jafnóðum og nokkur hús fengu rafsamband, slitnuðu heimtaugar annarra.

Leysing var óvenjulega mikil hér í fyrrinótt og í gær, og vatnselgur um allar götur bæjarins. Tjörnin var svo vatnsmikil, að hún flæddi upp yfir Fríkirkjuveginn og norður yfir Lækjargötu. Morgunblaðið hafði í gærkvöldi tal af Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi, og spurði hann um veðurútlitið. Veðurofsi var ekki eins mikill hér um slóðir í gær eins og í fyrradag. Veðurhæðin í Vestmannaeyjum var þá t. d. 11 stig, en 8—10 stíg í gær, og hér hin sama. Helst bjóst Jón við því að sunnanátt myndi haldast hér næstu daga, með hláku og þíðviðri, og storminn myndi eigi lægja fyrst um sinn til fulls, en óslitið stórviðri yrði þó vart lengi hér á eftir.

Veðráttan segir frá því að nokkrir línuveiðarar og bátur hafi skaddast á Reykjavíkurhöfn og bryggja sömuleiðis, einnig strandaði enskur togari í Skerjafirði, en losnaði.

Morgunblaðið segir enn 7.mars:

Kolviðarhóli, FB. 6. mars. Hvassviðri hér í gær og dag og asahláka. Flóabúsmenn komust hingað að austan í gær með sleða. Maður að austan lagði af stað austur yfir heiði í dag með flutningshesta búsins. Annars engin umferð yfir heiðina. Mikill vatnsagi í skarðinu og um Sandskeiðið er ófært vegna vatnsaga.

Bæjarsíminn er enn í miklu ólagi. Hafði Morgunblaðið tal af einum símaverkstjóra í gærkveldi. Sagði hann að alls myndu ein 500 símanúmer hafa slitnað úr sambandi undanfarna daga. Auk þess sem ofanjarðarsímaþræðir slitnuðu, hefir jarðstrengur einn í Suðurgötu skemmst, og við það hafa 60 símanúmer misst samband við miðstöð. Verður byrjað að gera við jarðstreng þenna í dag. Verkstjórinn bjóst við því, að viðgerðum myndi ekki lokið fyrr en í miðri næstu viku. Lét hann þess getið um leið, að mjög fyndu þeir til þess sem ynnu við símaviðgerðirnar, að eigi hefðu þeir bíl til afnota, yrðu að fara allt gangandi með verkfæri og pjönkur sínar um bæinn þveran og endilangan. Taldi hann, sem vonlegt er, að eins mættu þeir njóta þæginda við bílflutninga, og ekki síður, en öll þau pólitísku dindilmenni, sem landsstjórnin hefir hrúgað í bíla ríkissjóðs undanfarin missiri, og fengið hafa hægan og ódýran flutning á sér og sínum. Símasamband við útlönd fékkst í gærkvöldi kl.7. Voru skeyti sem fyrir lágu afgreidd í nótt. Símaviðskiptin fóru um Norðurlandslínuna. Um 70 símastaurar hafa brotnað á svæðinu héðan og til Hvalfjarðar. Eins hefir talsvert brotnað af staurum í nánd við Borgarnes og 10 staurar eru brotnir á Vatnsleysuströnd.

Vísir vitnar í FB 7.mars:

Þjórsá, 6. mars. FB. Hvassviðri hefir verið hér um slóðir i 2 daga undanfarna, en úrkoma lítil. Nokkur snjór mun hafa fallið sumstaðar í Flóanum. Uppi í Hreppum kvað vera þíðviðri og gott veður og úrkomulaust undanfarinn hálfan mánuð. Sæmilegir hagar að koma víðast, bæði vestan og austan árinnar. Nokkrar símabilanir munu hafa orðið austur í Landeyjum.

Þann 5.mars segir Morgunblaðið fréttir af jöklum:

Jöklarannsóknir í Skaftafellssýslu. Það er alkunnugt, að dregið hefir úr skriðjöklum hér á landi á síðustu áratugum. Vísindalegar rannsóknir hafa því verið af skornum skammti um þetta efni. Í sumar tók Helgi Hermann Eiríksson skólastjóri sér fyrir hendur að rannsaka nokkra skriðjökla í Skaftafellssýslu. Rannsakaði hann Svínafells-, Fláa og Heinabergsjökul. Til samanburðar við rannsókn þessa hafði hann uppdrætti herforingjaráðsins, sem gerðir voru 1905. Er hann nú að vinna úr rannsóknum sínum. Um þær ritar hann grein með uppdrátt um í ársrit Vísindafjelagsins. Skriðjöklar þessir eru nú alt að 5—600 metrum styttri en fyrir 25 árum.

Vísir birti grein um samgöngur 6.mars - þar er þessi kafli:

[Úr grein „Nýr vegur austur í Ölfus“] Síðan 1925-26, að byrjað var áð moka snjónum af ófærum köflum á austurleið, hafa fremur mátt heita sumur en vetur að því er snjóalög snertir. Og þó að í vetur sé almenn harðindi og óvenju gjaffelt, vegna sífelldra blota, áfreða og umhleypinga, þá hefir aldrei snjóað mikið og aldrei komið bylur dægurlangt, eða svo að heitið geti því nafni. Enginn snjóavetur hefir komið síðan 1920. Áður voru þeir þéttari (1898, 1903, 1907 og 1913), og má búast við áð svo verði enn. Í slíkum snjóavetrum sem 1920, og þó ennfremur áður, fór allur vegurinn í kaf, þar sem skýlt var á láglendi, t.d. frá Árbæ og allt upp að Hólmsbrú, og var vist nokkurra metra snjódýpi á honum sumstaðar. Þegar svo er komið, er snjómokstur, hvort heldur með skóflum eða plógum, ekki á marga fiska, og síst þá, er svo viðrar sem i febrúar 1903, þegar (í Haga) snjóaði og feykti 22 daga, í þeim eina mánuði. Þó nýi vegarspottinn, sem færður var frá dýpstu sköflunum, milli Hólms og Baldurshaga, kæmi að góðum notum í þessum snjóalitlu vetrum, þá bregst bann alveg, eins og annað aðkreppt láglendi, þegar meira snjóar. Og þar að auki getur Hólmsá þá er minnst varir sett stykki úr honum, eins og háa veginum fyrir ofan brúna, fyrir fáum árum. Áin hefir og fyllt sléttlendið, allt frá Baldurshaga að Rauðhólum og upp undir Hólm, með vatni og íshrönn, svo mjög, að dýpka mundi á veginum á þeim slóðum, og venjulega hverfa undir brota og svell á eftir.

Morgunblaðið segir 8.mars frá skemmdum á hafnargarði í Reykjavík - líklega ótengt veðri:

Á föstudagskvöld, laust fyrir miðnætti, urðu menn þess varir, að dynkir heyrðust alivoveiflegir í hafnargarðinum nýja, sem byggður var síðastliðið ár norður undan Grófinni. Dynkir þessir heyrðust í krikanum, þar sem nýi garðurinn mætir gamla hafnargarðinum. Er frá leið, tók að bera á því, að bólvirkið þarna austan á hafnargarðinum nýja seig niður, jafnframt því sem brún þess þokaðist inn á við. Var þá sýnilegt, að undirstaða Bólvirkisins hafði bilað. Neðri brún þess, sem rekin var niður í sjávarbotninn, hafði eigi nægilega viðspyrnu í botninum utan við garðinn, en seig út á við. Við það opnaðist sandinum innan við bólvirkið útrás, svo skriða af sandi þeim, sem hafnargarðurinn er gerður úr rann nú undir bólvirkið, og myndaðist þarna ferleg gjóta i garðinn innan við bólvirkið, á 20—30 metra svæði. Á laugardagsmorguninn var svo mikil skriða af sandi og mold runnin út undir bólvirkið, að gjótan, sem myndaðist í garðinn, náði inn undir gangstétt þá, sem er eftir garðinum endilöngum um miðju.

Morgunblaðið segir af símamálum 10.mars:

Símaviðgerðunum á Norðurlandslínunni miðar vel áfram, eftir því sem landssímastjóri skýrði frá í gær. Er nú hægt að tala eftir einum þræði um Borganes norður í land. Reistir hafa verið bráðabirgðastaurar á svæðum þeim þar sem staurar brotnuðu í óveðrinu um daginn. En alllangan tíma tekur það að fullgera viðgerðirnar. Bæjarsíminn er sem óðast að komast í lag.

Morgunblaðið ræðir harðindi 11.mars:

Harðindafréttir berast nú víða af landinu. Í fréttum úr Húnavatnssýslu er sagt að í Miðfjarðardölum sé farið að gefa skepnum kornmat á nokkrum bæjum sakir heyskorts, og búast megi við að kornmatargjöf verði þar almenn ef eigi kemur bráður bati.

Á Hellisheiði er nú svo mikið harðfenni, að hún er bílfær.

Morgunblaðið segir af ófærð í pistli 13.mars:

Ótíð mikil hefir verið í Vestur-Skaftafellssýslu í vetur og óvenjulega mikið gefið, einkum á beitarjörðum. Höfðu Skaftfellingar, fyrir milligöngu sýslumanns gert ráðstafanir um kaup á mjöli í stórum stíl til þess að gefa fénaði. En nú hefir tíð batnað eystra, sem annars staðar, og ef framhald verður á því, gera bændur eystra sér vonir um, að fóðurbæti þurfi ekki.

Mjólkurbú Flóamanna hefir undanfarnar vikur orðið að taka upp sleðaflutninga á mjólk og mjólkurafurðum yfir Hellisheiði, því flutningarnir með snjóbílunum hafa reynst of ótryggir, sakir jafnaðarlegra bilana.

Þann 4. varð hörmulegt slys þegar snjóflóð féll vestur við Patreksfjörð. Morgunblaðið sagði fyrst af því 8.mars en þann 13. voru komnar ítarlegri fregnir:

Vatneyri, 5. mars 1931. Hér á Patreksfirði varð sorglegt slys í gær. Tveir menn, Byrgir
Thoroddsen og Brynjólfur Jónsson, fóru í fyrradag frá Vatnsdal og inn að Hvalskeri, til að setja upp viðtæki. — Héldu þeir heimleiðis í gær og lentu í snjóflóði milli Kvígindisdals og Vatnsdals, þar sem þeir áttu heima. Þeir gengu í hlíðinni eftir veginum og komu að gili, innan við Vatnsdal. Veður var þannig, að um morguninn fennti afskaplega mikið en stytti upp um klukkan tvö og byrjaði þá að rigna. Þegar þeir komu að gilinu fannst þeim það óárennilegt, en lögðu þó af stað yfir það. Fór Brynjólfur á undan, en Byrgir hikaði lítið eitt við. Þegar Brynjólfur var nærri kominn yfir um, hljóp snjórinn fram og var þá Byrgir lagður af stað yfir gilið. Hljóp þá snjórinn fram og lentu báðir í flóðinu. Byrgir missti meðvitund stundarkorn, en gat svo rifið sig upp úr snjónum. Var hann að því kring um 20 mínútur. Sá hann hvergi til Brynjólfs, en flýtti sér út að Vatnsdal til að safna mönnum. Var þá stúlka send inn að Kvígindisdal og söfnuðust 7 menn af báðum bæjunum. Nokkru seinna fór Byrgir inn að Kvígindisdal og hringdi hingað til að fá mannhjálp og rekur. Þess má geta Vatneyringum til maklegs hróss, að þeir brugðu fljótt og vel við. Fóru 20 menn eftir skamma stund yfir um fjörðinn og voru komnir þangað kl.5. Snjóflóðið tók yfir svæði, hér um bil 300 metra langt og 30 m breitt, en á dýpt var það kring um 4 metrar. Var nú byrjað að grafa að neðan og höfðu þeir sjö menn sem komu fyrst þá grafið mikið og leitað með hrífusköftum til og frá um svæðið. Var haldið áfram til klukkan 12 í nótt og byrjað aftur kl. 9 í morgun. Eftir skamma stund, fannst fyrir einhverju með hrífuskafti og var svo grafið þar niður. Fannst þar lík Brynjólfs, er lá á grúfu og var það flutt út að Vatnsdal. Ofan á honum var rúmlega metra þykkur snjór. Brynjólfur sál. var rúmlega tvítugur, líklega 23 ára. Var hann duglegur maður og áræðinn. Hann var ókvæntur. Þar eð ekkert var þiðnað frá andliti hans, lítur út fyrir að hann hafi kafnað fljótt.

Morgunblaðið birtir stuttar fregnir af illri tíð: 

[14.] (Einkaskeyti). Seyðisfirði, 13. mars. 1931 Snjóþyngsli talsverð á Austurlandi, hagleysur og heybirgðir allmargra af skornum skammti, fáir aflögufærir.

[17.] Aftakaveður af austri var hér á sunnudaginn og náði langt austur eftir. Á Kolviðarhóli mátti heita óstandandi veður um tíma og blindbylur svo að ekki var ratandi. Svo var hvasst, að ekki festi snjóinn — skóf hann af jafnharðan.

[18.] Siglufirði, 17. mars. Tíð óstillt og snjóasöm. Fannfergi mikið. Ekki gefið á sjó síðustu daga, en allgott veður í landi í gær og í dag.

[19.] Akureyri, FB. 16. mars. Snjókyngi mikil og jarðbönn síðan í nóvember. Heyskortur víða og eru bændur farnir að gefa kornmat skepnum sínum, svo og fóðursíld.

[20.] Í fyrrinótt strandaði enski togarinn „Lord Beaconsfield“ á söndunum rétt austan við Kúðaós. Mannbjörg.

Veðráttan segir að þann 19. hafi bátur sokkið eftir að hafa rekist á lagnaðarísjaka við Arnarnes í Ísafjarðardjúpi. Mannbjörg varð. Sömuleiðis að þann 24. hafi bátur slitnað upp og brotnað á Siglufirði. Franskur togari strandaði og sökk í miklu brimi við Grindavík, áhöfnin bjargaðist naumlega.

Vísir segir af batnandi tíð 24.mars:

Úr Álftaneshreppi er FB. skrifað þ. 18. mars: Tíðin hefir nú batnað og má heita auð jörð hér. Hefir verið blíðuveður undanfarna daga. Útlitið var allskuggalegt um tíma og sjálfsagt hefðu margir orðið illa saddir með fóður, ef harðindin hefðu haldist fram á vor.

Morgunblaðið segir af leysingum 26.mars:

Siglufirði, FB. 25. mars. Sunnan ofsarok í gærdag og nótt og mikil rigning, og hefir snjó tekið mikið upp. Leysingin í nótt var svo stórfeld, að allt flóir hér í krapi og vatni.

Morgunblaðið ræðir fénaðarhöld 1.apríl:

Fénaðarhöld í Skaftafellssýslu. 19. mars, FB. Vetur lagðist að með fyrra móti. Þó héldust hagar fram í desember og á beitarjörðum alt fram að þorra. Síðan hefir verið stöðugt gefið um alla sýsluna, þar til nú, að alls staðar eru komnir hagar, og fénaður víða farinn að létta á og sums staðar kominn af gjöf (fullorðið fé). Oftast hefir verið fremur snjólétt, en svell og áfreðar hulið alla jörð, klaki með meira móti í jörð.

Apríl var almennt hagstæður, en nokkuð óstöðugt var þó framan af. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Lambavatn. Fyrri hluta mánaðarins var breytileg veðrátta og fremur stórgerð. En seinni hlutann hefir verið stillt og hlýtt veður, nema síðustu dagana dálítið frost á nóttunni.

Grænhóll (Níels Jónsson). Góð veðrátta, yfirleitt hægviðri mikil og snjókoma lítil.

Hraun. Oftast fremur gott og stórillindalítið. En góðu veðrin hafa illa notast vegna þess hve snjór var mikill [mældist 78 cm þann 30.]

Húsavík. Veðráttan stórillindalaus en óhagstæð og vorbati lítill.

Nefbjarnarstaðir. Úrkomulítið og fremur stillt tíð. Hagar notuðust vel vegna hægviðra. Annars aldrei nein asa-hláka og vatnagangur því lítill.

Hrepphólar. Veðráttan mjög hagstæð og yfirleitt nægilegur gróður fyrir sauðfé og beitarhross.

Vísir á einu markverðu blaðafregn mánaðarins af veðri 17.apríl:

Siglufirði 16. apríl. FB. Um helgina kyngdi niður allmiklum snjó hér, en hann hefir tekið mikið upp undanfarna góðviðrisdaga. — Í morgun stórhríð með veðurofsa á norðvestan og brimi. Nú rofabjart. Bátar voru nýrónir og sneru aftur flestir.

Morgunblaðið segir 2.maí af fannkomu á Siglufirði og hagstærði skíðatíð syðra:

Frá Siglufirði er símað 1. maí: Fannkomuhríð var hér í fyrrinótt og gerði ökklasnjó.  Dimmviðri en hríðarlaust í dag. Landlega í gær. Almennt róið í dag; hlaðafli.

Skíðafélag Reykjavíkur hefir iðkað skíðaíþróttina af miklu kappi í vetur og heldur enn áfram, þótt sumarið sé komið. Er enn mikill snjór austur á Hellisheiði og verður farið þangað á morgun ef veður leyfir.

Maímánuður var fádæma þurr á landinu, sá þurrasti sem vitað er um. Háði það mjög gróðri. Um miðjan mánuð gerði talsverða snjókomu í Mýrdal. 

Lambavatn. Veðurfar yfir mánuðinn hefir mátt heita óslitin stilla og þurrkur. Sólskin og hlýja á daginn, en kuldi, oftast frost að nóttinni. Gróðri fer því mjög lítið fram.

Suðureyri. Afar þurrt. Bjart. Litlir vindar oftast. Leysir óvenjulítið. Gróður síðbúinn. Gæftir og afli ágætur.

Hraun. Kalt. Aldrei hláka. Gróðurlítið. Kal á túnum talsvert víða. Miklir skaflar í mánaðarlok. Ís leysti ekki af vötnum fyrr en undir mánaðamótin.

Grænavatn. Úrkomulítið en mjög kalt, svo gróður óx mjög lítið. Ríkjandi norðaustanátt, oft mjög þokufullt loft með éljaleiðingum.

Fagridalur. Sífelld ótíð og þurrakuldar, jörð skrælnuð og gróðurlítil með kali.

Vík í Mýrdal. [Snjóaði þann 16. og 17. 5 cm snjódýpt að morgni 17. Síðasta fönnin eftir þessa hríð hvarf úr túninu þann 26.]

Hrepphólar. Veðuráttan hefir að mörgu leyti verið mjög góð, en - sérstaklega síðari hluta mánaðarins hefir úrkomuleysi tilfinnanlega háð gróðri. Er hann því mjög skammt á veg kominn.

Morgunblaðið segir af hægri leysingu 12.maí:

Siglufirði, 10. maí Hægviðri og næturfrost að undanförnu. Tekur því seint upp snjó og jörð grær seint.

Vísir vitna 17.maí í pistil frá FB:

FB. í maí. Tíðarfar. Mars og aprílmánuðir eru venjulega kaldir hér á Norðurlandi, þótt mismunandi séu straumhvörfin í rás veðra og vinda. Þessa mánuðina var ráðandi landátt, suðaustan með smá snúningum i norður. Í lok febrúar voru víða jarðbönn, en snemma í mars kom upp jörð fyrir hesta og sumstaðar fyrir sauðfé, einkum í Víðidal. Seinni hluta aprílmánaðar hlýnaði og tók upp snjó, svo allvíða var um sumarmál búið að sleppa sauðfé til fjalla og hálsa. Gjafatími varð þó alllangur, frá því í nóvember snemma. Seinustu dagana í apríl snerist áttin í norður með snjókomu, en birti næstu daga. Síðan norðankuldar fram yfir mánaðamótin. Lítill gróður.

Vísir segir fregnir af kaldri tíð 30.maí:

Siglufirði 27. maí. FB Tíð afar köld síðustu viku og liggja snjófannir viða í bænum. Enn gróðurlaust að kalla og lambfé á gjöf. Fénaðarhöld góð. Austan stórdrif undanfarna daga. Norsk línuskip lágu hér inni yfir hátíðina og allmargir botnvörpungar. Höfðu þeir aflað vel. Góður afli á mótorbáta.

Borgarnesi 29. mai. FB Góðviðri eru hér stöðugt, en úrkomuleysi er bagalegt. Þó hefir jörð ekki skemmst af þurrkum. Ef til úrkomu brygði myndi gróðri stórfleygja fram og horfur um sprettu verða góðar.

Vísir segir af tíðarfari vetrarins í S-Þingeyjarsýslu 2.júní:

[S-Þingeyjarsýsla] Í maí. FB. Veturinn síðasti var með þeim hörðustu, er hér hafa komið lengi. Í sumum sveitum, t.d. Bárðardal, Fljótsheiði og nokkrum bæjum í Mývatnssveit, var fé tekið á gjöf viku fyrir vetur og var ekki beitt svo teljandi sé fram yfir sumarmál. Gengu því hey mjög til þurrðar hjá mönnum, en um sumarmál voru fáir orðnir heylausir, og bjuggust menn við, að flestir mundu komast af, ef vorið yrði ekki því harðara. Seinustu vetrardagana var sunnanátt og hlýindi og snjó tók mikið. Kom upp jörð fyrir sauðfé víða i sveitum. — Eftir sumarmálin kom hér allgóður bati. Samt hefir vorið verið þokufullt og kalt og snjóinn tekið mjög seint og hægt. Er hann mikill enn í afréttum og sumum byggðalögum. Flestir búnir að sleppa geldfé sinu (17. maí), en ær hýstar og þeim gefið.

Vísir segir 3.júní maífregnir úr Skaftafellssýslu:

Úr Vestur-Skaftafellssýslu. 15. maí. FB. Veðrátta var óstöðug og ill hér síðastliðinn vetur, vorið kalt og í dag er norðaustanstormur með snjókomu. Kominn er þó sæmilegur sauðhagi og allir hafa sleppt sauðfé. Einstaka bændum hafa þrotið hey, en allflestir komist af, en í flestum sveitum sýslunnar eru hændur, sem áttu hey umfram eigin þarfir og sumir mikið. Fóðurbætir var og nokkuð notaður.

Júní var kaldur og þurr - og spretta því slæm. Hret af verstu gerð gerði þó ekki. Veðurathugunarmenn segja frá:

Stykkishólmur. (Magnús Jónsson): [22. fennti niður í miðjar hlíðar].

Lambavatn: Það hefir verið þurrt og kalt. Þurrkur hefir dregið svo úr grasvexti að víða lítur út fyrir að hún verði ekki ljáberandi. Þar sem engjar eru raklendar eða áveitublettir lítur út fyrir sæmilegan grasvöxt.

Suðureyri: Að mestu óslitinn þurrkur. Oftast norðaustanátt fremur hæg. Ekki vel hlýtt. Spretta mjög slæm, annars hagstætt.

Hraun: Hefir verið þurrt lengst af og kalt, oft frost á nóttum, sérstaklega fyrri hluta mánaðarins og til fjalla hefir tekið seint. Gróðurleysi mikið. [21. gránaði að túni].

Húsavík. Afskaplega þurr og köld veðrátta að undanteknum fáum dögum. Gróður afar rýr. Hæstu fjöll alhvít.

Nefbjarnarstaðir: Óvenju köld tíð allt fram um sólstöður (eða 23.) en úrkomulítið. Engar stórhríðar. Sauðgróður sem kallað er ekki fyrr en um miðjan mánuð. Tún víða kalin í lautum og hinir langvarandi kuldar tafið mjög mikið gróður.

Fagurhólsmýri: Fyrri hluti mánaðararins var fremur kaldur og þurrveðrasamur með austlægri átt, en síðari partinn hlýnaði með skúrum svo að jörð og kálgörðum hefur farið vel fram, samt er grasvöxtur ekki enn í meðallagi.

Hrepphólar: Veðurátta með afbrigðum köld og þurrviðrasöm. Grasspretta næstum óminnilega léleg. Allt til þess 24 var næstum úrkomulaust. Gróður var þá orðinn mjög óhollur og enda loft vegna stöðugra þurrka og vinda.

Morgunblaðið ræðir þurrkana 5.júní:

Vegna hinna sífeldu þurrka, er orðinn ískyggilegur vatnsskortur í Vestmannaeyjum. Þar er jafnan lítið um vatn og nota eyjaskeggjar mestmegnis rigningarvatn til allra þvotta og einnig í mat. Er safnað saman öllu því regnvatni, sem af húsþökum kemur, og hefir ekki af veitt, en nú hefir ekki komið dropi úr lofti í margar vikur, og flestir brunnar munu tæmdir eða þornaðir upp.

Siglufirði, FB. 5. júní Kuldar og næturfrost eru stöðugt. Gróður nær enginn. Jörð héluð í morgun. Gæftir einmuna góðar og afli.

Engin teljandi úrkoma í Reykjavík síðan um sumarmál. Í fyrra dag var hér skýjað loft, og útlit rigningarlegt. Ekkert varð þó úr rigningu frekar en fyrri daginn. Jörðin skrælnar af þurrki, og svo er víða um land, eftir því sem Veðurstofan segir. Hér hefir engin teljandi úrkoma komið síðan um sumarmál, í 6 vikur varla dropi úr lofti, og svo er í flestum sveitum kringum Faxaflóa og Breiðafjörð. Austanfjalls rigndi á sunnudaginn var, einkum í lágsveitum, og á Suðausturlandi og Austfjörðum hefir verið úrkoma öðru hverju — og þá stundum snjóað niður í byggð síðustu vikurnar. Á Norðurlandi hafa og þurrkar verið mjög miklir. Úrkoma í maímánuði hér í Reykjavík mældist 0,3 mm. Meðalúrkoma þess mánaðar hér er 49 mm, þ.e.a.s. um 150 sinnum meiri en í ár. Regn sem svarar 0,3 millimetrum gerir gróðri ekkert gagn. Allt frá því um sumarmál hefir haldist norðlæg átt hér á landi, háþrýstisvæði verið norðan við ísland og eins yfir Grænlandi, en lágþrýstisvæði um Bretlandseyjar. Norðanáttin hefir náð suður um alla Skandinavíu, og köld tíð hefir þar verið fram á þennan dag. Í Lofoten t.d. var snjókoma um hádegi í gær, og suður í Stokkhólmi var nokkrum gráðum kaldara en hér í Reykjavík. Þó vorkuldar hafi verið hér miklir, einkum á Norður- og Austurlandi, hafa kuldar þessir ekki stafað af því, að hafís sé hér í nánd. Öðru nær. Frá norskum veiðiskipum hafa borist fregnir um það norðan úr höfum, að ís sé óvenjulega lítill í ár, og víða íslaust, þar sem vant er að vera hafþök. Við Svalbarða er svo lítill ís, að annað eins hefir ekki þekst í manna minnum, og við austurströnd Grænlands segja veiðimenn óvenju lítinn ís. Frá Newfoundlandi er sögð sama sagan. Hafísinn sem oft berst þar langt suður í Atlantshaf, einkum á vorin, er með langminnsta móti. Íslensku togararnir, sem veríð hafa að veiðum óvenju langt undan landi, á „Hornbanka“, hafa við engan ís orðið varir, fengið þar bjartviðri, sem bendir til þess, að ís sé þar ekki nálægur.

Veðráttan segir að þann 6. júní hafi verið snjókoma austanlands og alhvítt um morguninn á Vattarnesi. 

Morgunblaðið ræðir enn kulda 14.júní - og bendir á að lágmarkshita var þá ekki getið í veðurskeytum (þó hann væri allvíða mældur):

Næturfrost munu hafa verið mjög tíð á Norður- og Austurlandi fram til þessa tíma, eftir því sem fregnir herma. Veðurstofan fær ekki daglegar mælingar á lágmarkshitastigi, og er það í raun og veru bagalegt, því án þeirrar vitneskju er erfitt að gera sér grein fyrir gróðrarfari í sambandi við veðráttuna.

Vísir segir kuldafréttir 17.júní:

Til marks um kuldann nyrðra er þess getið, að Steingrímur læknir Matthíasson hafi 7. þ.m. gengið á skíðum yfir Vaðlaheiði (milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals). Var þá nýfallinn snjór á gamlan gadd. — Á Siglufirði lá snjór á túnum um síðustu helgi.

Morgunblaðið 21.júní:

Siglufirði, FB. 20. júní. Tíðin köld og þurrkasöm hingað til. Í nótt rigndi þó talsvert. Má það kallast fyrsta regnskúrin hér á sumrinu. Þokur síðustu dagana. Sprettuhorfur slæmar. Gæftir allgóðar.

Að kvöldi 21. hvessti talsvert af norðri og þá skemmdist flugvélin Veiðibjallan í Reykjavík:

Morgunblaðið segir frá þessu óhappi 24.júní:

Í fyrramorgun [22.] snemma urðu menn varir við það að Veiðibjöllunni hafði hvolft um nóttina. Hún lá við dufl fram af flugskýlinu, þar sem hún er vön að vera, en sjálfsagt hefir komið sviptivindur, náð sér undir annan vænginn og hleypt henni um. Veiðibjallan var dregin á land í fyrrakvöld og i gær var verið að athuga skemmdir þær, sem á henni hafa orðið og kom i ljós að hún þarf svo gagngerða breytinga við, að hún verður vart ferðafær í sumar.

Kalt var fyrstu viku júlímánaðar með allmikilli úrkomu sums staðar um landið norðan- og austanvert - krapi jafnvel nefndur, en síðan hlýnaði, margir mjög hlýir dagar komu þá á Suðurlandi sérstaklega eftir þann 20. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Fyrstu viku mánaðarins var norðankrapagarður. En annars hefir verið stillt veður og oft fremur hlýtt. Sláttur hefir víðast byrjað með seinna móti og grasvöxtur slæmur.

Suðureyri: Fremur hlýtt. Þurrt og bjart. Þokuslæðingur á fjöllum. Úrkomulítið. Óhagstætt til sjávar.

Hraun: Yfirleitt fremur gott tíðarfar; hægviðri oftast, aldrei stormur. Úrfelli sjaldan en þokur með tíðara móti. Hey þornuðu þó vel og hröktust lítið. [1. Snjór hvarf af túni. 2. Snjór hvarf undir vatnsbökkum].

Húsavík: Veðrátta yfirleitt köld og sólarlítil; stöðug norðan- og norðaustanátt. Þurrkar afarlitlir.

Nefbjarnarstaðir: Mánuðurinn fremur óhagstæður. Tíðin heldur köld og óþurrkasöm - rigningar tíðar, en samt hægviðri. Sláttur byrjar almennt 20.júlí. Ekkert hirt í þessum mánuði.

Fagurhólsmýri: Oftast still og hægviðri, lítið rignt, en þurrkdagar fáir svo seint hefur tekist að hirða töður, samt hafa þær náðst inn áður en fölvað hafa því lítið hefur rignt í þær flatar.

Vík í Mýrdal. (Haraldur Jónsson): [3. Um nóttina snjóaði langt fram á heiðar. Uppi á Höttu (500 m) sást nýr snjór kl.15].

Hrepphólar: Veðurfar allan mánuðinn sérstaklega hlýtt og sólríkt, en úrkoma mjög tilfinnanlega lítil vegna grassprettu. Töðubrestur sjáanlegur í mjög stórum stíl. Oft nokkuð voru hér skúrir, en svo smáar að úrfelli mældist ekki.

Morgunblaðið segir frá 5.júlí:

Snjóar á fjöll. Í fyrrinótt festi snjó á hæstu fjöllum hér í grennd, en sums staðar fyrir norðan gránaði niður undir byggð.

Morgunblaðið ræðir heyskaparhorfur 10.júlí:

Borgarnesi FB. 9. júlí. Heyskaparhorfur. Sláttur byrjar sennilega ekki almennt fyrr en 15. til 20. júlí jafnvel meiri líkur til ,að sláttur byrji ekki almennt fyrr en undir þ. 20. Tún eru yfirleitt illa sprottin, þótt undantekningar séu, t.d. eru nokkur tún sæmilega sprottin í Reykholtsdal. Útjörð er einnig illa sprottin, áveituengi eru best sprottin, áveituengjarnar einar bregðast ekki í ár.

Morgunblaðið segir af sjóböðum og sandbyl 11.júlí - eyjan er Örfirisey:

14 stiga hiti var í sjónum í gær hjá Sundskálanum og veðrið afbragð, enda komu óvenju margir út í eyju í gær. Notið hlýja- sjóinn og sólskinið meðan það helst. Sandbylur var í fimm daga samfleytt á Rangárvöllum fyrir og eftir seinustu helgi, föstudag [3.], laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag. Gróður er þar afarlítill enn, því að alltaf hafa verið kuldar og varla komið deigur dropi úr lofti í alt vor.

Vísir vitnar í fréttastofuna 15.júlí:

[V-Skaftafellssýsla] Skrifað 8. júlí. FB. Veðrátta hefir í allt vor verið óvenjulega köld og þurrviðrasöm, langoftast norðaustan næðingur með krapahríðum öðru hverju, einkum í Mýrdal austan til. Grasspretta því afar treg, einkum á túnum. Mýrar, en þó einkum áveitur og flæðiengi mun betri. Nú fyrir nokkrum dögum brá til hlýinda með vætu öðru hverju og fer gróðri nú allvel fram.

Morgunblaðið segir 17.júlí fréttir úr Vopnafirði:

Bréf úr Vopnafirði. Vorið þetta eitt með þeim köldustu er hér hafa komið lengi, eða síðan 1922. Annars má heita að tíð hafi verið mjög stirð það sem af er árinu. Snjóar óvanalega miklir 3 fyrstu mánuði ársins, og jarðbönn lengst af þeim tíma, Hey reyndust léleg víða, mikilgæf og létt fóður. Samt varð afkoma penings sæmileg og ekki fóðurskortur að mun, en til þess hjálpuðu fyrningar, er allvíða voru nokkrar. Sauðburður hefir gengið mikið betur en ætla mætti, jafnkalt og verið hefir, og gróðurlaust til þessa. Hjá almenningi eru kýr nú fyrst að ganga út, og þó á litla haga enn, og er það hið lengsta sem hér þekkist, að kýr standi inni, allt að sólstöðum. Tún eru ekki mikið kalin, þau sem þurrlend eru, og gætu því sprottið alt að meðallagi enn, ef hagstætt viðraði hér eftir. En hálfdeigjumýrar, uppþornaðar af langvarandi norðankuldum og næturfrostum hljóta að verða sprettulitlar.

Vísir segir af heyskaparhorfum í Húnaþingi 20.júlí:

Bréf úr Húnaþingi. Í júlí. FB. Tíðarfar. Veðráttan í maí til júníloka óvenjulega þurrkasöm. Austan og norðaustanátt með næturfrostum. Grasspretta því með minnsta móti, ber á kali í túnum, einkum í vestursýslunni. Ennfremur hefir brunnið af harðlendum túnum vegna hinna miklu þurrka. Sauðburðartíð var hin besta og víðast góð afkoma með sauðfé. Um mánaðamótin júní og júlí var fé rúið og rekið til fjalla. Virðist þar betri gróður en i sveitum. Fyrstu dagana í júlí hvessti hér af norðri með nepju, kulda og hreggi, á takmörkum að vinnandi væri útivinna. Stóðu kuldar þessir fram yfir 6. þ.m. Menn búast ekki við að heyskapur byrji fyrr en um miðjan mánuðinn.

Meðan hlýju dagarnir komu á Suðurlandi rigndi fyrir norðan Dagur á Akureyri segir frá 30.júlí:

Óþurrkar hafa verið allmiklir síðastliðna viku. Rigndi látlaust að kalla 23., 24. og fram á 25. þ.m. Síðara hluta laugardags og á sunnudag var þurrt veður, en tók að rigna af nýju á mánudagsnótt og ekki komið þurr dagur síðan.

Morgunblaðið segir einnig af óþurrkun fyrir norðan í pistli 1.ágúst:

Sífelldir óþurrkar hafa verið á Norðurlandi undanfarið, einkum austan til. Í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum liggja hey undir skemmdum.

Vísir segir af þurrkum á Snæfellsnesi 2.ágúst:

Bréf úr Grundarfirði. 17.júlí. FB. Veðrátta hefir verið hér óvenjulega köld og þurrkasöm. Kom til dæmis aldrei úrkoma frá sumarmálum til 8. júní. Oft í júní aðeins 3 stiga hiti á nóttum. Grasbrestur allstaðar mjög tilfinnanlegur. Tún hafa víða kalið. Engjar eru almennt taldar skárri en túnin. Sláttur er að byrja. Fyrirsjáanlegt er að flestir verði að fækka fénaði í haust.

Ágústmánuður var mjög hagstæður um nær allt land, hlýtt, úrkoma fyrir gróður, en þurrkkaflar nægilegir fyrir heyskap. Mjög væna hitabylgju gerði dagana 11. til 15. Inn til landsins fór hiti víða yfir 20 stig og yfir 25 stig þar sem best lét. Þann 12. fór hiti í Stykkishólmi í 21,2 stig og er slíkur hiti óvenjulegur þar á bæ. Endurgreining bandarísku veðurstofunnar segja þykktina hafa farið yfir 5600 metra tvo daga (11. og 12.) en við svo mikla þykkt má telja óheppni fari hiti hvergi á landinu yfir 25 stig. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Lambavatn. Það hefir verið fremur hagstætt fyrir heyskap. Dálítil væta með köflum, en veðurfar alltaf fremur stillt.

Suðureyri: Hlýtt. Mjög hagstætt heyskaparveður Frá 13. ládauður sjór 3 vikur og stillt.

Grænhóll: Hlýindi og blíðviðri undantekningalítið allan mánuðinn. Einmunagóð heyskapartíð, þerrar hagstæðir og spretta góð.

Hraun: Tíðarfar hefir verið ágætt í mánuðinum. Einu sinni, þann 3., var stormur og fauk þá dálítið af heyi sumstaðar. Regn hefir aldrei verið til skaða. Besta nýting á heyjum.

Húsavík: Mjög þurr og hagstæð veðrátt. Nýting heyja afburðagóð. Heiðagróður ágætur. Berjaspretta mikil.

Grænavatn: Fágætt tíðarfar yfir mánuðinn, svo heitt og þurrviðrasamt.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar mjög gott og sérstaklega hagstæð tíð fyrir heyvinnu.

Hrepphólar: Tíðarfar mjög hlýtt og gott enda grasspretta óvenjumikil á þessum tíma árs. Þurrkar helst í það knappasta til heyþurrka, nema dagana 17. til 24., en þá var standandi þurrkur.

Vindar ofsóttu flugvélar landsmanna sumar. Morgunblaðið segir frá 5.ágúst:

Akureyri FB 4. ágúst. Hvirfilbylur hvolfdi Súlunni um sexleytið í gærkvöldi, þar sem hún lá fyrir festum á hinum venjulega legustað sínum á Akureyrarhöfn, í króknum norðan við ytri bátakvína. Vegna óhagstæðs veðurs hefir enn ekki verið gerð tilraun til að koma henni á réttan kjöl aftur, er öll yfirbyggingin, vél og vængir á kafi í sjó. Búist við talsverðum skemmdum. Sunnanstormur undanfarna daga og hiti hafa orsakað vatnavexti í Eyjafjarðará. Hefir áin sumstaðar flætt yfir bakka sína og gert talsverðar skemmdir á heyjum og engjum, sérstaklega á Hólmunum inn af Akureyri. Mikið heyfok víða. Bátur, sem síldareinkasalan á, kostaði 10 þúsund kr., sökk hér á höfninni nótt.

Alþýðublaðið segir einnig frá 5.ágúst:

Í gær lágu báðar flugvélarnar, „Súlan“ og „Álftin“ á Akureyrarpolli. Lágu þær í Bótinni, þar sem þær eru vanar að liggja. Sólskin var og sunnanvindur, en allhvasst, einkum milli kl. 6—7 síðdegis. Kl. 6 1/2 kom að sögn hvirfilvindskast og hvolfdi „Súlunni“, en „Álftina" sakaði ekki. Var bifreið send norður í gærkveldi með áhöld til þess að hægt verði að taka hreyfilinn tafarlaust í sundur og gera menn sér von um að hann skemmist ekki. Hins vegar er víst, að hraðamælir og önnur mælitæki o.fl. hefir orðið ónýtt. Hafa tæki þessi verið pöntuð frá Þýskalandi með hraðskeyti, en hvernig sem fer, þá verður „Súlan“ frá verki að minnsta kosti í hálfan mánuð. Hreyfillinn verður sendur með fyrstu ferð hingað til Reykjavíkur og kemur hingað 6. ágúst. Súlan var vátryggð.

Akureyri, FB. 3. ág. Sunnanstormur undanfarna daga og hiti hafa orsakað vatnavexti í Eyjafjarðará. Hefir áin sumstaðar flætt yfir bakka sína og gert talsverðar skemmdir á heyjum og engjum, sérstaklega á Hólmunum inn af Akureyri. Mikið heyfok víða.

Akureyri, FB. 3. ágúst. Bátur, sem síldareinkasalan á og kostaði 10000 kr sökk hér á höfninni í nótt.

Dagur segir einnig frá því sama 6.ágúst - en greinir einnig af vatnavöxtunum:

Vatnavextir gríðarlegir eru nú þessa dagana, Eyjafjarðará hefir flætt yfir engi neðan til í firðinum, og þverárnar einnig gert talsverðan usla. Tíðin hefir verið ágæt undanfarið, hiti og sólskin, einkum fyrra hluta þessarar viku. Ofsarok gerði á mánudaginn á suðvestan, og stóðu sumstaðar skaðar af, og ekki litlir, t.d. á Glerá, Þrastarhóli,Krossastöðum, Hálsi í Fnjóskadal og viðar. Fauk talsvert af töðu, sumstaðar áætlað allt að 100 hestum. Er það tilfinnanlegt tjón. — Flugan gamla, Súlan, lá hér á höfninni, og í snörpustu vindhviðunni tók hana á loft, og kom hún niður á hvolfi, en hefir nú verið reist við og er mikið skemmd. Lystisnekkja Síldareinkasölunnar fékk sömu útreið, en er nú komin á kjöl.

Vísir birti „heimsósómagrein“ 10.ágúst - þar er einnig fjallað um veður:

[Úr pistli „Langviðri og lagaleysi“. Dagsett 20.júlí, „Gamli“ kvittar fyrir]. Í gömlum spádómi íslenskum Standa þessi orð: „Af langviðrum og lagaleysi mun land vort eyðast.“ Sumum finnst sem þessi spádómur gæti nú verið að byrja að rætast. Langviðrin eru nú orðin mjög tíð og bagaleg. Í fyrra sumar rigndi að kalla mátti daglega hér á Suðurlandi. Urðu hey víða úti af þeim sökum, en það sem inn náðist var meira og minna skemmt. Svörður og sauðatað þornaði ekki um vorið, sakir sífelldra rigninga. Um miðjan júní og jafnvel síðar mátti vegurinn til Þingvalla heita ófær, vegna bleytu. Voru sumstaðar kafhlaup og spilltist jafnóðum, þó að allt af væri verið að bera ofan í verstu vilpurnar. Nú í vor og sumar er annar langviðrakaflinn hér á Suðurlandi. Vikum og jafnvel mánuðum saman kemur ekki dropi úr lofti, og af þeim sökum horfir nú til vandræða um grasvöxt og heyfeng bænda í sumar. Kveður svo rammt að þessum þurrkum og úrkomuleysi, að jafnvel uppsprettuvötn eru tekin að þverra til muna. Má þar til nefna Gvendarbrunna, vatnsból Reykvíkinga. Segja kunnugir menn, að það sé mjög áberandi, hversu vatnið standi nú lægra í þeim en að vanda. Og nú er hver spræna þurr, sú er þornað getur og menn vita dæmi til að þorni með öllu.

Íslendingur á Akureyri segir frá 14.ágúst - geta verður þess að hámarkshitamælingar voru ekki gerðar á Akureyri árið 1931 - hæsti hiti sem mældist á athugunartíma var 21,0 stig, þann 11. 

Óvenju miklir hitar hafa gengið síðustu dagana. Heitast hefir orðið 28 stig í forsælunni. Englendingur, sem hér er staddur, ber sig mjög illa undan hitanum og segir, að það hafi verið aumi aulinn, sem valdi landinu nafnið Ísland.

Þónokkrir jarðskjálftar urðu á Hengilssvæðinu. Alþýðublaðið segir frá 24.ágúst:

Allmargir jarðskjálftakippir fundust í gær, aðallega fyrir austan fjall. Í Reykjahverfi í Ölfusi fundust 4 kippir klukkan að ganga ellefu, en klukkan liðlega þrjú kom snarpasti kippurinn, og duttu þá glös niður úr hillum og fleiri smáskemmdir urðu. Síðan varð hlé fram á kvöld, en þá byrjuðu hræringar, sem héldust í alla nótt, og kom síðasti kippurinn í morgun. Í Grímsnesi fundust allsnarpir kippir, en ekki hefir heyrst að neinar skemmdir hafi orðið þar. Í Hveradölum á Hellisheiði varð vart við sex kippi, 5 í gær og 1 í nótt. Mestu kippirnir voru þar kl. um 9 og kl. 3. Á Þingvöllum varð lítilsháttar vart við jarðskjálfta. Fundu hann menn, sem stóðu úti, en inni í Valhöll fannst ekki neitt, því þar hristist allt allan daginn af hurðaskellum og gestagangi. Á Eyrarbakka og Stokkseyri fannst allsnarpur kippur kl. 9 í gærmorgun. Annar kippur kom kl.1, en var hægari. Þriðji kippurinn, mjög snarpur, kom kl.2:50. Hrundu þá myndir af veggjum og fleira því líkt, t.d. stöðvaðist stór Borgundarhólmsklukka, sem á Oddur Oddsson rithöfundur á Eyrarbakka. Blaðið hefir fengið þær fréttir, að grjóthrun hafi orðið nokkuð úr Ingólfsfjalli, en mun þó ekki hafa valdið tjóni.

Morgunblaðið segir einnig af jarðskjálftunum 25.ágúst:

Á sunnudaginn [23.] fundust þrír jarðskjálftakippir hér og í Hafnarfirði. Sá fyrsti kom kl. 9:05. Annar kl.12:57 og sá seinasti kl.14:53. Munu þeir hafa átt upptök sín einhvers staðar nærri Henglinum, eða um 40 km. frá Reykjavík. Fyrir austan fjall vorn jarðskjálftar miklu harðari og fleiri. Í Hveradölum fundust 6 kippir, sá seinasti í gærmorgun. Í Ölfusi og Grímsnesi voru jarðskjálftarnir einna snarpastir, en gerðu þó ekki neinn skaða. Í Henglinum varð talsvert mikið grjóthrun. Austur í Laugardal kvað minna að kippunum. Stærstu kippanna varð vart í Kjósinni og á Akranesi.

Vopnafirði, 16. ágúst. FB.
Tíðarfar ágætt að undanförnu. Spretta orðin sæmileg. Menn hafa náð inn allmiklu af heyjum. Nýting ágæt. Aflabrögð sæmileg. Síld veiðst með allra mesta móti, fram að þessu, en er nú horfin.

Morgunblaðið segir fregnir af Golfstraumnum 27.ágúst - Sandström þessi er mjög þekktur í sínu fagi:

Kaldur Golfstraumur. Sænskur veðurfræðingur, Sandström að nafni, kom hingað til Reykjavíkur ekki alls fyrir löngu, í þeim erindum að athuga sjávarhitann hér um slóðir. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að Golfstraumurinn er í sumar með allra kaldasta móti. Ekki telur veðurfræðingur þessi, að ganga megi að því vísu að veðrátta verði hér með kaldara móti af þessum ástæðum, því hitar og úrkomur hér á landi fara frekar eftir því hvar lægðir eru, heldur en eftir hitastigi sjávar, þ.e.a.s. eftir því „hvaðan vindurinn blæs“. En hitt telur hann líklegt, að óvenjulega kaldur Golfstraumur leiði af sér óvenjulega stillt veður. Úrkomur hafa verið með langminnsta móti hér sunnanlands á þessu sumri. Mun láta nærri, að úrkoma öll hér í Reykjavík síðan í apríl hafi ekki verið meiri, en jafnaðarlega kemur hér úr loftinu á einum mánuði.

Morgunblaðið segir enn af jarðhræringum 29.ágúst:

Jarðskjálftahræringar hafa fundist austan fjalls á hverjum degi alla þessa viku, en hvergi komið að sök, svo frést hafi um, nema hvað veggur einn hrundi á sunnudaginn var hjá Höyer í Hveradölum. Frá Reykjahverfi í Ölfusi hafa menn oft heyrt undirgang og þyt í lofti í áttina til Hengilsins.

Og einhver kvittur kom upp um eldgos (eins og stundum vildi verða) - þetta voru þó falsfréttir að því best er vitað:

Alþýðublaðið segir frá 31.ágúst:

Á laugardagskvöldið [29.] stóð vindur að austan, sem ekki er í frásögur færandi. En þegar birti af degi á sunnudagsmorgun mátti sjá að vindurinn hafði fært með sér eldfjallamóðu, er lá yfir öllu landinu. Loft var skýjað, en ekki mjög þungt, en holt og hæðir voru i einkennilegri móðu, sem gerði að alfar fjarlægðir sýndust helmingi meiri en þegar loft er eðlilegt. Eins og kunnugt er berst oft sandrok af láglendinu fyrir austan fjall, hér út yfir Faxaflóa. En slíkt skeður ekki nema eftir langvarandi þurrka, enda sé bálhvasst austanveður. En hér var hvorugu til að dreifa, því nokkurra daga rigning var búin að bleyta vel sandana eystra, og austanvindurinn hafði ekki verið hvass. Mistrið, sem hvíldi yfir landinu á sunnudaginn, var líka allt annars eðlis, miklu gagnsærra og fíngerðara en það, er stafar af sandroki. Á sunnudagskvöldið kom svo fregn um, að eldur hefði sést á laugardagskvöldið í austurátt frá Rangárvöllum, en fregnin er ógreinileg, og getur verið um að ræða marga staði, en sögumaður Alþýðublaðsins hélt gosið hafa verið norðan við eða norðantil í Mýrdalsjökli.

Morgunblaðið segir einnig af þessu 1.september:

Kviksaga gekk unn það um bæinn í gær, og Hekla væri farin að gjósa. Fylgdi það með, að hún væri búin að bræða af sér jökulinn. Sem betur fer er saga þessi gripin úr lausu lofti, en tilefni hennar mun vera það, að um miðja fyrri viku snjóaði á Heklu, en sá snjór bráðnaði í hitunum á föstudaginn og laugardaginn. Þá daga hefir verið mikil sólbráð inn til jökla, því að vöxtur kom í árnar hér sunnanlands. Jarðskjálftakippirnir undanfarna viku hafa orðið til þess að menn hafa óttast eldgos. Jarðskjálftanna hefir mest orðið vart í Ölfusinu. Mistur var óvenjulega mikið í lofti hér sunnanlands allan sunnudaginn, og mun það hafa aukið tilgátur manna um eldgos.

Veður var lengst af hlýtt og hagstætt í september. Mjög hlýir dagar komu á Norður- og Austurlandi með yfir 20 stiga hita. Djúp lægð olli illviðri þann 17., henni fylgdi stroka af köldu útsynningslofti - en það gekk undrafljótt hjá. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Fram til 10. var sífelldur þurrkur, en síðan má heita að hafi verið óslitin rigning nema á milli skúra. Þeir sem áttu þá hey óþurr eiga þau úti enn. En það hefir verið hlýtt og fremur stillt veður. Ég man ekki eftir því að kartöflugras hafi verið hér algrænt eins og nú þegar kartöflur voru teknar upp kringum 20. mánaðarins. Heyskapur hér hefir yfirleitt orðið í meira lagi og nýting ágæt.

Þórustaðir (Hólmgeir Jensson): [Alhvítt að morgni þ.18.]

Suðureyri: Óvenjuhlýtt. Þurrt og still fyrri hluta mánaðarins. Vætur og ókyrrara síðari hlutann. Aflabrögð léleg. Gæftir miklar.

Hraun: Tíð ágæt til lands og sjávar fyrri hluta mánaðarins, en heldur óstilltari síðari hlutann, einkum frá 15. til 20. Í ofsarokinu sem var 17.-18. slitnaði vélbátur upp á Mýrnavík og hefir hans hvergi orðið vart síðan. Heyskapur hætti víðast um mánaðamótin og náðust öll hey með ágætri nýtingu. Í áðurnefndu roki fauk þak af hlöðu á Heiði í Sléttuhlíð, heyfúlgur fuku sumstaðar og þak af heyjum og fleira gekk af göflunum.

Húsavík: Allan mánuðinn hagstæðasta veðrátta bæði til lands og sjávar.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin mjög hagstæð fyrir landbúnað. Fyrri hluta mánaðarins nokkur næturfrost. Annars óvenjumild tíð og þerrisöm. Nýting heyja hin besta.

Fagurhólsmýri: Hagstæð heyjatíð. Góð nýting. Brá til vætu síðustu vikuna.

Hrepphólar: Fyrri hluta mánaðarins eða til 13. var sérstaklega góð og skemmtileg veðurátta og mjög sjaldgæf hér á þessum tíma árs. Síðan hefur verið næstum óslitin rigning og suma daga mjög illt vinnuveður. Er enn úti mikið af heyjum og töluvert af jarðávöxtum.

Sums staðar varð næturfrost fyrst í mánuðinum. Morgunblaðið 4.september:

Frost var í fyrrinótt [3.], og mátti víða sjá þess merki í kálgörðum í gær.

Morgunblaðið segir 5.september frá ísleysi í norðurhöfum:

Hvaðan sem fregnir koma, ber þeim saman um það, að óvenjulítill hafís hafi verið í norðurhöfum í vetur og sumar. Norsku vetursetumennirnir, sem voru á Jan Mayen í vetur til þess að starfrækja loftskeytastöðina þar, segja, að hjá eynni hafi enginn ís verið, og ísbrúnir venjulega um 40 sjómílur norðan við eyna. Norskt skip sigldi umhverfis Spitsbergen og Karlsland í fyrra mánuði, og komst norður á 81,5 gráðu N, og var þar enginn ís. Sagðist skipstjórinn vel mundu hafa getað siglt norður á 83. gráðu. Rússar segja, að algerlega hafi verið íslaust hjá Franz Josefslandi í ágúst og er það nýtt, sem sjaldan skeður.

Morgunblaðið segir af einmunatíð 8.september:

Siglufirði, 4. sept. 1931. Einmunatíð síðasta hálfan mánuð, þurrkur og stillur. — Hlaðafli af fullorðnum þorski og síldveiði afar mikil og skammt sótt, en lítið hægt við síldina að gera því flest eða öll skip eru nú búin með veiðileyfin og þrær ríkisverksmiðjunnar fullar, svo skip bíða nú dögum saman eftir losun. 10—12 tonna bátar hafa farið út með snyrpinót lánaða af skipum, sem bíða losunar og komið fullfermdir eftir litla stund. Reknetaveiði hefir einnig verið ágæt.

Morgunblaðið segir af göngum 10.september - og fyrirhuguðum veðurathugunum úr flugvélum á Íslandi (í tengslum við Alþjóðaheimskautaárið):

Þingeyingar hafa ákveðið að fresta fjallgöngum um 6 daga, svo þeir geti sinnt heyskap sem lengst. Heyskapartíð hefir verið þar góð allan engjasláttinn.

Stórfeldar veðurathuganir hér í Reykjavík. Hingað kom í gærmorgun hollenskt eftirlitsskip „Nautilus“ að nafni. Eru með skipi þessu flugmenn tveir úr hollenska hernum, sem eiga að athuga hér flugvöll og önnur flugskilyrði. Eins og kunnugt er, er alþjóðasamstarf komið á laggirnar, um það að gera kerfisbundnar rannsóknir næsta ár á veðurfari og öðrum náttúrufyrirbrigðum um allt Norðuríshafið. Í sambandi við rannsóknir þessar á að gera veðurathuganir hér á Íslandi og hafa Hollendingar að sögn tekið að sér að annast þær athuganir hér í Reykjavík. Í sambandi við þær á að rannsaka hitastig og raka uppi í loftinu svo oft sem flugfært er. Eiga hinir hollensku flugmenn að fara allt upp í 5000 metra hæð, til þessara athugana. Hollenskur veðurfræðingur Cannegieter að nafni, á að hafa yfirumsjón með athugunum þessum. Hann er einn helsti veðurfræðingur Hollendinga, og ritari í alþjóðasambandi veðurfræðinga. Flugmenn þeir sem hingað komu í gær heita Vish og van Giesen. Þeir fóru hér um umhverfið í gærdag með Þorkeli Þorkelssyni veðurstofustjóra. Búist er við, að þessar veðurathuganir Hollendinganna byrji hér þ.1. ágúst að sumri. Nautilus fer héðan um næstu helgi.

Jarðhræringar héldu áfram í Henglinum, Morgunblaðið segir frá þeim:

[11.] Jarðskjálftahræringar hafa fundist í Ölfusi við og við undanfarið, og nokkurra frekari breytinga hefir orðið vart á hverunum.

[13.] Jarðskjálftahræringar þær, sem fundist hafa í Ölfusinu undanfarið hafa ekki náð hingað til þess að hafa áhrif á jarðskjálftamælana hér. Er því aðeins um hverakippi að ræða, sem hafa mjög litla útbreiðslu, og eiga upptök sín skammt frá yfirborði jarðar.

Slide8

Kortið sýnir illviðrislægðina síðdegis þann 17. Um kvöldið og nóttina fór hún til austnorðausturs rétt undan Norðurlandi og grynntist síðan. Veðrið var verst ýmist síðdegis eða um kvöldið þann 17. eða um nóttina, aðfaranótt 18. Hún olli minniháttar foktjóni. Endurgreiningin vanmetur dýpt lægðarinnar lítillega, hún var um 970 hPa í miðju. Alþýðublaðið segir frá 21.september:

Svo hvasst var á Akureyri síðdegis á fimmtudaginn [17.] og á föstudagsnóttina, að þak fauk af svonefndu Sæmundsenshúsi og barst langar leiðir og bifreiðaskúr frá Kristneshæli fauk langa leið og gerónýttist. Hey fuku víða, þar sem þau voru enn úti. (FB.)

Dagur segir af sama veðri 24.september:

Ofsarok gerði hér á Norðurlandi síðastliðna föstudagsnótt [18.]. Olli það nokkrum skaða á heyjum hér í Eyjafirði og ef til vill viðar. Veðráttan hefir verið hin ákjósanlegasta að  undanförnu, flesta daga suðlæg átt og sterkur hiti. Heyskaparlok eru nú þessa dagana. Hér um sveitir mun heyfengur víðast vera sæmilegur eftir ástæðum og sumstaðar í betra lagi, og verkun heyjanna sérlega góð.

Morgunblaðið hefur áhyggjur af þurrkum 27.september, einnig segir af vatnavöxtum:

Rafmagnið. Mbl. hafði tal af rafmagnsstjóra í gærkvöldi og spurði hann um hvað Elliðaánum liði og rafspennunni. Hafði hann ekkert gott um það að segja. Byrjað var að safna vatni á Elliðavatnsengjar í ágúst. En vatnsnotkunin hefir verið meiri en aðrennslið i september, og er nú vatnssafnið þar efra þrotið. Úrkoma hefir fram að þessu í september verið hér 52 millimetri, en meðalúrkoma í öllum september er um 80 mm. Þó talsvert hafi rignt hér undanfarna daga, hefir ekkert vaxið í Elliðaánum

Nýlega [líklega kringum þann 14.) gerði stórrigningu undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, og varð þá vatnavöxtur mikill. Hljóp þá Bakkakotsá undir Eyjafjöllum úr farvegi sínum og tók sér farveg nokkru austar, en brúin er á þurru landi, eða því sem næst. Hefir þetta orðið til stórbaga bílaumferð á leið þessari og má búast við að leiðin teppist alveg í haust, ef ekkert verður að gert.

Október var mildur en úrkomusamur. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn. Það hefir verið fremur hlýtt, en úrkomur töluverðar. Jörð alltaf auð nema nú síðustu dagana snjóhræringur. Fjöll hafa eins verið alltaf má heita auð þar til nú að þau eru mikils til hvít. Jörð alltaf þíð.

Suðureyri: Mjög úrkomusamt og umhleypingar. Frekar hlýtt og snjólaust. Gæftafátt. Aflatregt.

Hraun: Tíðarfar hefir mátt heita dágott til landsins en lakara til sjávarins vegna óstillinga. Var t.d. mjög byljasamt þ.2. og 14. Hlýindi hafa lengst af verið og auð jörð að mestu allan mánuðinn.

Húsavík: Veðráttan yfirleitt mild en allhvikul, lítt fölvaði í byggð en snjóaði í fjöllum.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson). Tíðin í þessum mánuði fremur góð en umhleypingasöm. Kom nokkur snjór 2.-3. en fór strax og óvenjuheitt um miðjan mánuðinn.

Nefbjarnarstaðir: Má heita gott tíðarfar, nokkuð úrkomusamt síðari hluta mánaðarins.

Fagurhólsmýri: Tíðin var hlý og rigningasöm fram í miðjan mánuð. Gekk illa að smala fjöll vegna rigninga. Eftir miðjan mánuð var þurrviðrasamara en kaldara.

Hrepphólar: Allt til 20. verður hann að teljast mjög votviðrasamur er kom sér sérstaklega illa vegna garðávaxta og heyja hér í hærri sveitunum. Var heyvinnu ekki lokið fyrr en þá og garðurinn lítið fyrr. Garðávextir mjög vel sprottnir en nokkuð skemmdir vegna bleytu.

Veðurstofan stóð í flutningum frá Skólavörðustíg í Landsímahúsið. Við þetta varð nokkuð hnik í mælingum. Samanburður var þó gerður. Úrkoma mældist betur á fyrri staðnum heldur en þeim síðari. Morgunblaðið segir annarri röskun vegna flutninganna í pistli 3.október:

Vegna flutninga á Veðurstofunni hafa engin útlend skeyti náðst síðan á miðvikudagsmorgun, svo að veðurfregnir byggjast þessa daga eingöngu á innlendum skeytum ásamt skeytum frá Grænlandi.

Dagana 2. til 3. gerði norðaustanillviðri með hríð á Norðausturlandi. Úrkoma mældist 112,2 mm í Fagradal í Vopnafirði þann 2. Alþýðublaðið segir 5.október:

„Goðafoss" fékk mjög vont veður á Húnaflóa. Brotnuðu hurðir og skilrúm í honum af sjógangi og tók út tunnur af þilfari (síldar- og olíutunnur).

Morgunblaðið fjallar um heyskap 9.október, en greinir líka frá vatnsskorti:

Talsvert er enn úti af heyjum víða á landinu, og má búast við, að þau náist ekki úr þessu, eða þá stórskemmd. Þrátt fyrir þetta mun heyskapur bænda yfirleitt vera í góðu meðallagi og sumstaðar ágætur, enda var sumarið eitt hið besta, sem komið hefir.

Vatnsskortur mikill hefir verið i Hafnarfirði undanfarnar 2 vikur. Var svo um skeið, að mörg heimili voru vatnslaus allan daginn og urðu að ná sér í neysluvatn langt að. Síðustu tvo dagana hefir þetta lagast talsvert, þó ekki sé það gott enn þá. Talið er, að vatnsskortur þessi sé afleiðing hinna langvarandi þurrka í sumar.

Morgunblaðið segir fréttir frá Siglufirði, fyrst af blíðu, en síðan hríð:

[13.] Siglufirði, FB 11. okt. Gæftir stopular upp á síðkastið, en afli allgóður, þegar gefur á sjó. Tíð er góð, snjólaust og varla komið frostnótt enn.

[15.] Siglufirði. FB. 14. okt. Norðanhríð í gær, og gerði alhvítt, í dag suðaustan stormur og rigning. Hefir snjóinn frá í gær alveg tekið upp.

Alþýðublaðið segir af vatnsskorti í Stykkishólmi 17.október:

Í sumar var svo mikill vatnsskortur í Stykkishólmi, að vatnstunnan var seld þar á 1 kr. 50 aura, enda var vatnið sótt í tunnum á bifreiðum 10 kílómetra leið, í Bakkaá í Helgafellssveit.

Mikið úrhelli gerði einnig þann 14. Alþýðumaðurinn segir frá 17.október:

Á miðvikudaginn [14.] var stórrigning og hryðjuveður víða um land. Hlutust skaðar af víða. Aurskriða féll úr fjalli hjá bænum Skarði í Lundarreykjadal, drap tvö hross og gerði spjöll á engjum. Ár og lækir uxu svo að yfir flæddu bakka sína og gerðu usla á túnum og engjum. Á Siglufirði var hríðarveður, svo alhvítt varð niðri í byggð. Þá tók þann snjó nóttina eftir. Bátar sem réru frá Siglufirði misstu lóðir, en öfluðu annars vel.

Vísir segir af sumri 22.október:

Úr Árnessýslu er Vísi skrifað: Sumarið hefir verið eitt hið þurrviðrasamasta, sem ég man eftir. Jörð spratt því seint og víða var grasbrestur á harðvelli, en góð spretta mun hafa verið á áveitusvæðunum. Þurrkar voru miklir og mátti heita, að alt þornaði af ljánum. Samt er enn eitthvað lítilsháttar úti af heyjum og má telja óvíst, að það náist héðan af.

Morgunblaðið segir af góðu sumri 25.október (fær hæsta einkunn Reykjavíkursumra að mati ritstjóra hungurdiska):

Gunnólfsvík, í október. FB. Sumarið hefir verið hér sæmilega gott, bæði til lands og sjávar. Úrkomulítið og allgóðar gæftir. Nú að undanförnu hafa verið vestlægar golur, mistur og steikjandi hitar. Heyfengur bænda er yfirleitt mikill og hafa hey náðst með ágætri hirðingu. Útengi voru vel sprottin og tún í meðallagi.

Fyrsta vetrardag. Í dag heilsar veturinn, með stilltu og mildu veðri. Hér sunnanlands, og víst í flestum héruðum landsins, verður hins liðna sumars minnst sem einhvers hins sólríkasta og skemmtilegasta, sem núlifandi menn muna, að því er tíðarfar snertir og árgæska til lands og sjávar í þeirri merkingu þess orðs, sem hingað til hefir tíðkast.

Morgunblaðið segir frá  hríð á Hellisheiði í pistli 31.október, alhvítt varð í Reykjavík:

Tíu bílar tepptust að Lögbergi mikinn hlutá dags í gær, vegna ófærðar. Var stórhríð á Hellisheiði fram eftir deginum; þó komust bílar að austan, við illan leik.

Þetta veður var slæmt á Snæfellsnesi, Tíminn segir frá 7.nóvember:

Illviðri mikið gekk yfir Snæfellsnes fyrra föstudag [30.október], og fennti þá fé á sumum stöðum og hrakti fram af klettum. Í Neshreppi utan Ennis, voru fundnar er síðast fréttist, 19 kindur dauðar, en víða vantaði fé, og bjuggust menn við að það lægi í fönn dautt eða lifandi. Allmikið tjón varð á bátum í sama veðri og símalínur slitnuðu og lögðust niður á allstóru svæði.

Nóvember var mildur og úrkomusamur. Talsvert var um óhöpp á sjó. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt en kuldalítið svo jörð hefir oftast verið alþíð og sjaldan snjókoma en töluverð úrkoma.

Suðureyri: Óstöðugt og úrkomusamt. Oftast austan og norðaustanátt. Snjóþungt fyrri hluta mánaðar. Óhagstætt til lands og sjávar.

Hraun. Mánuðurinn byrjaði með nokkurri snjókomu, (en) festi skamma stund svo talið geti. Um miðjan mánuðinn var nálega alautt og jörð lítið frostin. Þann 29. féll talsverður snjór sem von bráðar bráðnaði aftur og var alautt til mánaðamóta. Áttin var lengst af austlæg ýmist norðaustan eða suðaustan, þá oftar suðlæg, jafnaðarlega hæg og mjög hlý. Allmikið brim gerði fyrrihluta mánaðarins í 3-4 daga. Hiti var oft óvenjumikill, fáum sinnum yfir 10° og einu sinni 14,6°. Þessi mánuður má heita óvenjugóður í þessu byggðarlagi þar enn flest fé gengur úti gjaflaust um alla sveitina en hún annars með snjóþyngstu sveitum landsins.

Húsavík: Veðráttan yfirleitt mjög mild en fremur óstillt og tvísýn.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar mjög milt og hagstætt allan mánuðinn. Hægviðri og engar stórfelldar úrkomu. Sauðfé og hross ekki hýst.

Hrepphólar: Veðráttan reyndist nokkuð umhleypingasöm og úrfelli allmikið. Sökum þess að oftast var frekar hlýtt var sauðfé ekki gefið og leið því sæmilega vel.

Fyrstu daga mánaðarins var hvöss norðanátt og varð tjón af sjávargangi á Siglufirði. Vísir segir frá 6.nóvember:

Siglufirði, 5. nóv. FB. Norðaustan rok og bleytuhríð með allmiklu brimi í fyrradag [3.]. Bryggjan á Bakka brotnaði öll og gekk sjór yfir flóðgarðinn norðan á eyrinni og flutti með sér timburbrakið úr bryggjunni suður að Ránargötu, sem er nýlögð, og allhá gata í norðanverðum bænum og ætluð til þess meðfram að verja flóðum suður yfir bæinn. Þar stöðvaðist flóðið, svo skemmdir urðu ekki í bænum. Nokkrar kindur tók út undan Strákum og rak dauðar hér inn. Er þar vogur einn og forvaðar beggja vegna, en ókleift bjarg fyrir ofan. Hafa þar oft farist kindur og oft verið talað um að sprengja veg í bergið, svo skepnum yrði hættulaust, en aldrei komist í framkvæmd. Hægviðri og frostkaldi í dag, en ekki róið. Í Fjörðum er að mestu auð jörð niður við sjóinn.

Líklega er hér að neðan átt við illviðrið 30. og 31. október, en illviðri var líka þann 7. nóvember - þá af suðaustri. Hugsanlega er átt við þann dag. Dagur segir frá 12.nóvember:

Ofsarok gerði víða um land fyrra laugardag, einkum vestanlands. Í Ólafsvík urðu skaðar á sauðfé og bátum, en manntjón ekki.

Þann 12. nóvember drukknaði maður, einn á báti, á leið frá Naustum til Ísafjarðar í mjög byljóttu veðri að sögn Veðráttunnar.

Morgunblaðið segir af góðri tíð til landsins 22.nóvember:

Siglufirði, FB. 21. nóv. Öndvegistíð til landsins og snjólaust að kalla, en ógæftir til sjávarins. Sauðfénaður gengur sjálfala enn víðast hvar.

Þingeyingar lofa sumarið. Vísir 24.nóvember:

Fréttabréf úr Suður-Þingeyjarsýslu. 21. nóv. FB. 30. okt. — Tíðarfar. Sumarið var með þeim bestu, að því er veðráttu snertir sem hér hafa komið lengi. Sífeldir þurrkar og góðviðri að heita má og ekki nema 2-3 rigningardagar allan ágústmánuð. Líkt var í september. Menn heyjuðu vel yfirleitt, því allt var að kalla má hirt af ljánum. Spretta varð líka sæmilega góð um það er lauk, þótt sprettuútlit væri slæmt í byrjun heyskapartímans. Tún spruttu mikið upp aftur og nýrækt var góð víðast hvar.

Morgunblaðið segir frá órólegri tíð til sjávarins 27.nóvember:

Norðfirði, fimmtudag. Tíðarfar hefir verið umhleypingasamt að undanförnu og þess vegna lítil sjósókn.

Morgunblaðið segir 5. og 11. desember frá vatnavöxtum í Austur-Skaftafellssýslu:

[5.] Stórrigningu gerði í Austur-Skaftafellssýslu um miðjan nóvember s.l., og breytti þá Jökulsá á Breiðamerkursandi um farveg; tók hún sér farveg nokkru austar en hún hefir runnið undanfarið. En síðan hefir áin verið ófær yfirferðar, bæði vegna þess, hve vatnsmikil hún er og vegna þess hve farvegur hennar er nú þröngur. Er það annars óvenjulegt, að Jökulsá sé vatnsmikil um þenna tíma árs, venjulega er hún fær alltaf á vetrum og þarf þá ekki að fara á jökli, eins og jafnan verður að gera á sumrum. En nú hefir einnig sú breyting orðið á jöklinum, að ekki er hægt að komast yfir hann. Vatnselgur er svo mikill meðfram jöklinum austan við ána, að ómögulegt er að komast þar niður. Eru samgöngur því algerlega tepptar um Breiðamerkursand sem stendur.

[11.] Þess var nýlega getið hér í blaðinu, að Jökulsá á Breiðamerkursandi hafi breytt um farveg eftir stórrigningar, sem gerði um miðjan nóvember og að áin hafi orðið ófær yfirferðar um skeið; jökullinn var einnig ófær, svo að samgöngur um Breiðamerkursand tepptust algerlega um þriggja vikna tíma. Síðustu fregnir að austan herma, að nú sé Jökulsá orðin slarkfær aftur, þótt enn sé hún vatnsmikil.

Óstöðug tíð var í desember og stormasamt vestanlands. Til landsins á Norðausturland viðraði betur. Kólnaði um jólin. Veðurathugunarmenn segja frá tíð:

Lambavatn: Það hefir verið mjög óstöðugt og stórgert svo þó hagi hafi verið hefir hann ekki notast vel fyrir stórviðrum og úrkomum. Nú milli hátíðanna hefir verið töluverður kuldi og snjór allur freðinn vegna blota sem gerði þann 26. og er hér nær haglaust. [20. Fauk járnþak af hlöðu á Hvalskeri].

Suðureyri: Óstöðugt og oft hvassviðri. Frostvægt til jóla en þá kalt. Úrkomusamt allan mánuðinn. Slæmir hagar til jóla, eftir það haglaust og snjóþungt. Gæftafátt. Óhagstætt yfirleitt.

Hraun: Veðráttan í þessum mánuði hefir yfirleitt verið mjög hagstæð til landsins þar til um jól að nokkuð spilltist og var vonskuhríð á 2. og 3. í jólum og gamlársdag. Jörð nálega snjólaus til jóla, en þá gerði nokkurn snjó sem rak þá í skafla svo beit fyrir fé hélst allgóð. Dálítil frost voru fyrri hluta mánaðar, en oftast stillt veður. 7.-8. brá til landáttar og hlýinda sem hélst allt til jóla og nær allstormasamt stundum. 21. varð hiti 15°. Úrkoma mjög lítil til jóla. Jörð öll var nálega þíð 24. desember og alþíð á láglendi. Miklavatn hefir aldrei orðið hestfært í vetur, en manngengt um tíma, en 21. desember braut af því allan ís og varð landahreint nema lítillega nyrst og mun það fágætt um sólstöður.

Húsavík: Snjólétt og jarðsælt en óstillt veður.

Nefbjarnarstaðir: Yfirleitt gott og hagfellt tíðarfar. Þann 7. kom óvenju mikill snjór á jafnstuttum tíma sem hélst allt til hins 19. Aftur brá til ótíðar þ.26 sem hélst út mánuðinn.

Fagurhólsmýri: Umhleypingasamt og oft hrakviðri því oftast vot veðrátta, en oftast auð jörð á láglendi og aldrei haglaust því jörð varð aldrei hulin snjó, nema grátt í rót.

Hrepphólar: Veðráttan töluvert úrkomu- og vindasöm en frostvæg. Oftast sæmilegir hagar fyrir kvikfénað. 24. desember fór ég með bifreið héðan að heiman og til Reykjavíkur. Var þá hvergi vottur af snjó á þeirri leið, þ.e.a.s. á veginum og mun vera langt síðan að svo snjólétt hefur verið á þeim tíma.

Morgunblaðið segir enn af tjóni á Siglufirði í pistli 16.desember:

Siglufirði, FB. 14. des. Norðaustanrok og stórhríð í gærkvöldi. Nokkrar skemmdir urðu á ljóslögnum bæjarins. — Nokkrir staurar brotnuðu og vírarnir slitnuðu, einnig brotnuðu sex símastaurar og símaþræðir skemmdust og loftnet útvarpsnotenda. Var allur bærinn rafljósalaus frá kl.8 í gærkvöldi til kl. 4 í dag. Veðurofsinn braut rúður allvíða og reif nokkrar þakjárnsplötur af sjóhúsinu „Baldri“.

Þann 21. gerði eitt versta veður ársins samfara hlýindum. Morgunblaðið segir frá 23.desember:

Aftakaveður gerði á Vesturlandi á mánudaginn var [21.]. Á Bíldudal urðu stórfelld skriðuhlaup — þrjú alls — og ollu þau talsverðum skemmdum á húsum; fólk flúði úr húsum, en engin slys urðu. — Tveir bátar slitnuðu upp af höfninni og sökk annar, en hinn rak til hafs og hefir ekkert spurst til hans síðan. Skemmdir af ofviðrinu. Í ofviðrinu mikla á mánudag fauk þak af íbúðarhúsi í Hellnafelli í Grundarfirði. Bóndinn var ekki heima þennan dag; konan ein heima með börn og gamalmenni; slys varð ekki.

Slide10

Lægðinni fylgdi mjög hlýtt loft langt úr suðri. Hiti komst í 15,0 stig á Hraunum í Fljótum og í 10,4 í Reykjavík. Stormur var á nærri helmingi veðurstöðva, hæsta hlutfall á árinu. Lægðin grynntist fljótt og vindur gekk yfir í suðvestur og það kólnaði. 

Morgunblaðið segir af vatnavöxtum í frétt 24.desember:

Stórfeldir vatnavextir hafa orðið víða á landinu undanfarið. Í Austur-Skaftafellssýslu hafa vötnin verið svo mikil, að ekki hafa aðrir en þaulvanir vatnamenn komist yfir þau. Hlaup kom í Skjálfandafljót á þriðjudagsmorgun [22.] og olli það talsverðu tjóni. Á Austurlandi gerði einnig stórhlaup í vötn og ollu sums staðar skemmdum.

Íslendingur segir 24.desember: „Afspyrnuveður af suðri hefir verið undanfarna daga“.

Alþýðumaðurinn segir af hlaupinu í Skjálfandafljóti í frétt 30.desember:

Á þriðjudaginn var [22.] kom hlaup í Skjálfandafljót, eins og mest á vordag. Flæddi það yfir bakka sína og gerði spell á engjum. Litur vatnsins, samfara því að hlaup á þessum tíma árs eru dæmalaus benti til að vatnavextir þessir orsökuðust af jökulhlaupi í sambandi við eldsumbrot. Annars hefir þetta ekki verið rannsakað nánar.

Dagur segir af hríð 31.desember:

Hríðarveður með nokkru frosti hefir verið þessa síðustu daga ársins. Áður urðu menn vetrarins lítið varir, þótt tíðin hafi verið óstillt og umhleypingasöm.

Morgunblaðið birti 3.janúar 1932 greinargóðan tíðarfarspistil af Fljótsdalshéraði:

Af Héraði er blaðinu skrifað: Vorið var óvenjulega kalt og gróðurlaust, en illviðralítið þar til seinni partinn í júní Um mánaðamótin júní og júlí gerði fárviðrishríð með kulda og snjókrapa til fjalla. Þá drápust nýrúnar ær víða um Úthérað, sem vitanlega voru magrar orðnar, eftir að hafa fleytt. sér og lambi sínu yfir hið kalda og gróðurlausa vor. Annars gekk sauðburður víðast hvar vel, og sumstaðar ágætlega í landgóðum sveitum, til dæmis í Jökuldal. Þar líður ánum vel, þótt lítt grói, ef veður eru þolandi. — Fjárhöld máttu heita sæmileg eftir atvikum, nema á stöku stað þar sem bar á pest. Sláttur byrjaði um miðjan júlí og eftir það. Þá voru stöðugar vætur, og mátti heita að enginn baggi væri inn kominn í ágústbyrjun. Þá skipti alveg um tíðarfarið. Síðan hafa verið sífeldir þurrkar að heita má. Þeir voru helst til sterkir og langvarandi síðast á slættinum; átti margur erfitt með að losa hána rekjulaust. Rótin var orðin svo hörð og þurr. Auðvitað varð nýting heyja hin ákjósanlegasta og heyfengur í betra lagi að vöxtum til líka. Það hjálpaði til að fjallgöngum var frestað um eina viku, og bætti það upp hversu seint var byrjaður sláttur. Sauðfé mun vera með rýrara móti til frálags í haust í hinum landléttari sveitum, einkum lömb. Það fer svo í köldu og gróðurlausu vorunum, að ærnar geldast fljótt eftir burðinn þótt sæmilega hafi júgrast. Þá fitna þær í betra lagi á sumrin, en lömbin verða í verra lagi. Annars var tíðin seinni part sumars, ágæt á fénu og það hélst i kyrrð og næði í afréttum fram í göngur. Enda hefi ég sjaldan séð heiðalöndin jafn fagurgræn og þau voru nú í lok september. Uppskera úr görðum varð með altía rýrasta móti í haust; liggja þar til ýmsar orsakir. Fyrst og fremst var seint sáð, og svo fór engu fram vegna kuldans lengi vel. Í byrjun september komu nokkrar snarpar frostnætur í röð, þá lét jarðeplagras mjög á sjá. Aðalorsök uppskerubrestsins eru samt blessaðir þurrkarnir, einkum í sendnu jörðunum, sem flestir sækjast mest eftir fyrir jarðepli. Gulrófur spruttu víða í meðallagi, þar sem garðar eru ekki mjög þurrir.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1931. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 213
  • Sl. sólarhring: 363
  • Sl. viku: 2511
  • Frá upphafi: 2414175

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 2315
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband