Órólegt - en ekki illkynja

Nú (laugardag 17.febrúar) hefur hlýnað talsvert á landinu og útlit fyrir hláku á láglendi viðast hvar á landinu í fáeina daga. Mjög djúpar lægðir eru á ferð, en svo virðist sem þær missi afl áður en þær ná til landsins - úrkomu- og vindakerfi þeirra fara þó hjá. Þegar þetta er skrifað er úrkomusvæði einmitt að fara yfir landið - það rignir talsvert sums staðar á Suðurlandi, en vindur er ekki verulegur nema rétt á stöku stað. Lægðin grynnist svo ört að hún verður alveg horfin á morgun - en þá á svipað að gerast.

w-blogg170224a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á morgun (sunnudag). Þá er ný lægð á Grænlandshafi og úrkomusvæði hennar að koma upp að landinu. Lægðin grynnist hins vegar mjög ört og verður alveg horfin fyrir hádegi á mánudag. Á kortinu er mjög öflug lægð við Nýfundnaland. Fárviðri er spáð sunnan lægðarinnar og á þrýstingur í miðju hennar að fara niður undir 950 hpa á mánudaginn. - En það er sama með þessa lægð og þá fyrri að úr henni verður mestallur kraftur þegar kerfið nær hingað. Það á að gerast síðdegis á mánudag. 

Snemma á þriðjudagsmorgun segir evrópureiknimiðstöðin að staðan verði sú sem sýnd er á kortinu hér að neðan.

w-blogg170224b

Lægðin er risastór, um 952 hPa í miðju, en vindur hér á landi samt lítill og veður meinlítið, sennilega skúrir eða slydduél, snjóél til fjalla. Oft er staða sem þessi mjög varasöm og hér fyrr á árum hefði ritstjóri hungurdiska verið mjög órólegur yfir henni. Örvarnar benda á tvö kerfi. Það yrði hið versta mál féllu þau saman - en spár allra reiknimiðstöðva fullyrða að svo verði ekki. Nú er svo komið að þriggja daga veðurspár reiknimiðstöðva hafa langoftast rétt fyrir sér í málum sem þessu. Ritstjórinn ætti því að vera rólegur. 

Sé farið í smáatriði framhaldsins kemur reyndar í ljós að samkomulagið er ekki algjört. Þessi ákveðna reikniruna reiknimiðstöðvarinnar lætur nyrðra kerfið renna til norðausturs og síðan norðurs rétt við vesturströndina - án verulegra vinda þó. Bandaríska veðurstofan lætur kerfin tvö ná lítilsháttar samspili - þannig að nyrðra kerfið dregst aðeins í suður og dýpkar meira - og fer síðan sem allkröpp lægð til norðausturs skammt vestur af Færeyjum. Aðrar spár má finna með einhverri blöndun þessara tveggja lausna. 

En alla vegar er rétt að fylgjast vel með - ekki má miklu muna. Frekara framhald er svo heldur óljóst - en samt virðast stórviðri ólíkleg - þetta sé ekki illkynja. Vonandi er það rétt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki verð eg hissa þó enhvert veðurgarg verði næstu sólarhrnga. Í gær16/2 var dágóður gíll á lofti. Það breggs vart að þá er úrkomusamt veður í námd. En á móti kemur að Öskudagurinn lofaði hæglátum Öskudags bræðrum. Takk fyrir góða pissla, Trausti.

jakob jónsson (IP-tala skráð) 17.2.2024 kl. 20:47

2 identicon

Sæll Trausti,

Ég var að spjalla um veðrið við gamlan sjómann í lauginni um daginn, og hann lýsti hvernig lægðagangurinn hefur breyst.  Veðrin sem áður komu hingað úr suðvestri, færu nú tíðar suður fyrir landið.  Gott dæmi er óveðrið sem fór yfir Færeyjar nýlega með skipskaða, þetta var óþekkt.  Og ástæðan er hlýnunin undanfarin 30-40 ár.

Mér fannst þetta athyglisvert og væri gaman að fá þína mat.

Takk fyrir pistlana,
Finnur

Finnur Bragason (IP-tala skráð) 19.2.2024 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 19
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 981
  • Frá upphafi: 2421081

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 859
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband