Hugsað til ársins 1949

Tíð var talin óhagstæð árið 1949, nema um haustið. Þetta var almennt talið harðasta ár eftir 1920. Þegar vart varð við hafís undir vor var spurt hvort hlýskeiðinu væri lokið. Vorið var sérlega kalt og veturinn ákaflega umhleypingasamur og snjóþungur, sérstaklega sunnanlands. Úrhelli ollu flóðum og skriðuföllum, sömuleiðis gerði eftirminnilega hitabylgju í júní og hitamet voru slegin í janúar og september. 

Byrjum á grófu yfirliti.  

Fyrstu fjóra mánuði ársins var vestanátt háloftanna óvenjustríð. Hefur ekki orðið stríðari síðan séu allir mánuðirnir fjórir teknir saman. 

Slide1

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í janúar 1949. Kanadakuldinn hefur lagst að Grænlandi og útsynningur ber lægðir, snjókomu og él til Íslands.  

Janúar var óhagstæður, fremur kalt var í veðri, stormasamt og snjóþungt. Samgöngur voru erfiðar og gæftir tregar. Febrúar var svipaður, en heldur hýrri en janúar. Mars var snjóþungur nema á Austurlandi. Vindar voru þó lengst af hægir og gæftir góðar. Í apríl var snjóþungt um mestallt land og fádæma snjóþyngsli á Suður- og Suðvesturlandi. Samgöngur erfiðar. Gróðurlaust og kalt.Tíð var mjög óhagstæð og köld í maí. Gróður nær enginn. Snjóþyngsli óvenjuleg í uppsveitum syðra. Heyleysi var víða. Gæftir tregar. Í júní var tíð mjög óhagstæð fram í miðjan mánuð, en þá batnaði verulega og var einmuna tíð úr því og tók gróður þá loks við sér. Júlí var óhagstæður á Suður- og Vesturlandi sökum rigninga, en fyrir norðan og austan var hagstæð tíð. Grasspretta þótti góð, nema hvað kal var víða fyrir norðan. Tíð var lengst af óhagstæð í ágúst, þó voru góðir þurrkar vestanlands framan af. September var óhagstæður um allt sunnan- og vestanvert landið. Um landið norðanvert var yfirleitt góð tíð. Uppskera garðávaxta fremur léleg. Tíð var hagstæð október og nóvember, snjólétt var og fremur hlýtt. Desember var óhagstæður norðaustanlands, en í öðrum landshlutum þótti tíð fremur hagstæð.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Miklar stjórnmálaerjur gengu yfir. Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið og um haustið var kosið til Alþingis. Mikið fór fyrir þessu í fjölmiðlum. Vöruskömmtun var við líði. Þar með var pappírsskortur viðloðandi, færri bækur gefnar út og hiksti kom í útgáfu tímarita. Kannski hafði hann einnig áhrif á fréttir af veðri. 

Í janúar urðu nokkrir eftirminnilegir veðuratburðir. (i) Nýtt mánaðarhitamet var sett þegar 17,0 stig mældust á Dalatanga þann 9. Gamla metið [15,2 stig] var níu ára gamalt, sett í Fagradal þann 10. árið 1940. Það liðu 43 ár þar til þetta met var slegið (1992). Núgildandi janúarmet er einnig frá Dalatanga [19,6 stig, sett þann 15. árið 2000]. (ii) Ofsaveður var á Dalatanga þegar metið var sett. Að morgni 17. fór vindur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum í 17 vindstig (gömul) eða meir en 56 m/s og (iii) þann 25. var sett met sem enn stendur þegar loftþrýstingur á Dalatanga steig um 33 hPa á 3 klukkustundum. 

Við lítum nú á janúarumsagnir nokkurra veðurathugunarmanna. Illviðrið þann 25. er nefnt eystra, en blaðafregnir af tjóni í því voru furðutakmarkaðar - hafið það í huga þegar þið lesið blaðapistlana hér að neðan. 

Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir) Janúarmánuður var mjög slæmur í veðurfari, sífeldir rosar, snjókomur og rigning á víxl, eða skúrir og él. Varð hér óvanalega mikill snjór og óvanalega lengi, sem hann lá, því hér liggur sjaldan til lengdar mikill snjór. Eina líknin var, að frosthörkur vöruðu aldrei lengi, en oft var þó voðalega kalt.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Ákaflega óstöðug tíð yfir mánuðinn og seinni hluta hans óvenjumikil snjókoma, en oftast fremur hægviðri. Snjódýpt var hér meiri en komið hefir síðan veturinn 1919 og 1920. 26. og 27. fennti svo mikið í logni að varla var fært milli bæja, því það var svo jafnt yfir allt [mest 73 cm, 29. og 30.]

Suðureyri (Þórður Þórðarson): Mjög slæmt tíðarfar og áberandi umhleypingar og hitabreytingar.

Núpsdalstunga (Jón Ólafsson). Miklar hríðar. Af 93 athugunum var hríð 47 sinnum.

Sandur (Friðjón Guðmundsson). Tíð rosafengin og umhleypingasöm. Hvorki var þó mjög snjóþungt né frostsamt, en byljir alltíðir. Haglítið var.

Hof í Vopnafirði (Jakob Einarsson): Óvenjulega umhleypinga- og illviðrasamur mánuður. Þótt jarðir væru góðar hafa þær ekki notast fyrir veðrum. Fé hraktist oft talsvert í veðrum þessum. Einkum afleitur hrakningur í stórhríðinni miklu 25. 9. til 10. janúar fauk þak af hlöðu hér og í F.. dal og ef til vill víðar. Mánuðurinn allt yfir einhver hinn veðraversti sem lengi hefur komið hér.

Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir): [25. Iðulaus stórhríð frá kl.10 til 17:30, menn villtust, fé hrakti víðsvegar frá húsum, eins fuku þök af húsum og hlöðum.

Hallormsstaður (Páll Guttormsson) Það skipti mjög oft um átt, en snjóar voru litlir og aldrei hörð veður, að undanteknu mjög hvössu norðvestanveðri er skemmdir urðu töluverðar á húsum hér á Héraði. Var það 25.dag mánaðarins. 

Papey (Gunnþóra Gísladóttir): Tíðarfarið í mánuðinum var mjög óhagstætt. Þann 25. gekk hér yfir vestan fárviðri og fylgdi krapahríð með. Stóð það yfir frá því um kl.15:30 - 16:10.

Teigarhorn (Jón Lúðvíksson): 25. janúar gerði aftaka vestanrok kl.2:40. Vindhraði 11-12 með slydduéli. Stóð yfir aðeins rúmar 40 mínútur. Urðu smávægilegir skaðar, bát rak á land á Djúpavogi, brotnaði þó lítið.

Mánuðurinn hófst með ákafri og kaldri norðanátt sem þó gekk fljótt niður. Morgunblaðið segir frá þriðjudaginn 4.janúar:

Um helgina hefur verið norðanátt um allt land með allmiklu frosti, eða allt að 10 til 15 stig sumstaðar. Snjókoma fylgdi norðanáttinni á Norður- og Austurlandi, en lítil snjókoma á Vestfjörðum og Suðurlandi. Á sunnudag komst veðurhæðin upp í 9 vindstig á Norðausturlandi og var snjókoman mikil. Nokkrar símabilanir urðu. Á nýársdag bilaði fjölsímasambandið við Ísafjörð, en ritsímasamband hélst. Er sú bilun á Steingrímsfirði. Talsímasambandslaust hefur verið við Siglufjörð. Erfitt var að ná sambandi við ýmsa staði á norðaustanverðu landinu í gærdag og samgöngur eru þar viða tepptar sökum snjókomu. Ekki hefur heyrst um slysfarir af völdum þessa veðurs. Nokkrir fjallvegir eru tepptir sökum snjóa, einkum norðanlands, en erfitt er að fá upplýsingar um það til fullnustu. Mjólkurflutningar hafa farið fram um Hellisheiði og Þingvallaveg og Holtavörðuheiði hefur verið fær stórum áætlunarbílum. Fært er bílum austur undir Eyjafjöll, en í Mýrdal eru vegir tepptir.

Gosinu mikla í Heklu var nýlokið, enn rauk úr fjallinu. Tíminn segir frá 5.janúar:

Samkvæmt símtali er tíðindamaður blaðsins átti við bóndann að Ásólfsstöðum í gærdag, voru óvenju miklir gufustrókar upp úr Heklugígnum í gærmorgun. Kyrrt veður var og frost og sást gufustrókurinn greinilega stíga hátt í loft upp. Ekki var þó um neitt gos að ræða, en meiri reykur en sést hefir úr Heklu nú um langt skeið.

Afgang mánaðarins (og æ ofan í æ til vors) voru stöðugar fréttir af ófærð í blöðunum. Í þessu kuldakasti var líka mikið álag á hitaveitu Reykjavíkur. Vísir segir frá 5.janúar:

Umferð mun hafa spillst víða i nótt vegna kafalds og skafrennings og áttu mjólkurbílar að fara um Þingvelli i dag. Voru bílarnir ókomnir til bæjarins um kl. 11. Þingvallaleiðin var kosin, þar sem snjór hafði lagst á láglendi í Ölfusinu og vegir orðið illa eða ekki færir. Í morgun sá varla milli húsa á Selfossi. Mjólkurbíllinn frá Kjalarnesi komst að Brautarholti í morgun, en situr þar fastur. Mun því ekki von mjólkur úr Borgarfirði, enda skýrði fólkið á Ferstiklu svo frá í morgun, að þar væri svo mikil hríð, að ekki sæi frá bænum til bensíngeymanna, sem þar eru við veginn. Umferð verður erfiðari eftir því sem austur eftir suðurlandsundirlendi dregur og víða er ófært. Í gær var fært austur á Hvolsvöll og í Fljótshlíðina, að því er Vegamálaskrifstofan tjáði Vísi í morgun, en þaðan er talsverður snjór allt austur til Víkur.

Búast má við, að hitaveitugeymarnir tæmist um fjögurleytið í dag, enda var ekki nema 5 m borð á geymunum á Öskjuhlíð vegna allt of mikils vatnsrennslis nú, eins og fyrri daginn. Að því er forstjóri Kol & Salt h.f. tjáði Vísi í morgun, hefir sala á kolum aukist mjög undanfarna daga vegna kuldans, sem verið hefir. Hefir Kol & Salt afgreitt að meðaltali um eitt hundrað smálestir af kolum á dag til notkunar til upphitunar hér í bænum.

Morgunblaðið segir líka frá ófærð 6.janúar - einnig var krapastífla í Laxá:

Í gærkvöldi var talið, að mjólk mundi verða með alminnsta móti hér í Reykjavík og Hafnarfirði í dag, í stórhríðinni, sem geisaði í fyrrinótt og fram eftir degi í gær, tepptust vegirnir um sveitirnar fyrir austan Fjall. Mjólkurbúðir verða ekki opnar fyrr en á hádegi í dag, að því er Mjólkursamsalan tilkynnti í gærkvöldi.

Svo að segja rafmagnslaust hefir verið á Akureyri frá því á sunnudaginn og þangað til í gærkveldi, að vonast var til að nægur straumur fengist á ný fyrir allan bæinn. Rafmagnsleysið stafaði af því, að krapastífla varð, þar sem Mývatn fellur í Laxá og það svo, að ekkert vatn rann í ána. Keraur það oft fyrir í frostum, að vatnið stíflast þarna og kemur ekki rennsli í ána á ný, fyrr en svo mikið hefir hækkað í vatninu, að það annaðhvort flýtur yfir stífluna, eða brýst fram úr henni.

Morgunblaðið segir fréttir af sjóslysi í desember 7.janúar:

Óttast er nú að breski togarinn Goth frá Fleetwood, haíi farist hér við land skömmu fyrir jól, með allri áhöfn. En giskað er á, að áhöfnin hafi verið 14—16 menn. Flugvélar leituðu togarans í gær. en sú leit bar ekki árangur. Togarinn Goth leitaði vars á Aðalvík í norðaustanofviðri er geisaði milli 14. og 16. desember s.l. Þá hafði breski togarinn Lineon City samband við Goth og virtist þá allt vera með feldu um borð. Síðan hefur ekkert til togarans spurst.

Tíminn segir 8.janúar af fannfergi á Siglufirði:

Óvenjumikið fannfengi er er nú í Siglufirði, svo að annar eins snjór hefir ekki komið þar í mörg herrans ár. Þegar fólk kom á fætur í fyrramorgun sást rjúka á einum stað upp úr hjarninu og er betur var að gáð kom í ljós, að heilt hús hafði fennt þarna í kaf með öllu sem því var.

Lægð fór norðaustur um Grænlandssund þann 9. Henni fylgdi illviðri - og skammvinn hlýindi austanlands (sem áður er getið). Snögglega skipti í norðanátt daginn eftir:

Morgunblaðið segir frá vandræðum 11.janúar:

Húsavík, mánudag. Frá fréttaritara vorum. Á sunnudaginn [9.] strandaði hér í ofviðri norska kolaflutningaskipið Fulton frá Bergen. Skipið mun enn vera óskemmt og hefur skipshöfnin látið fyrirberast í skipinu síðan það strandaði. Fulton var lagt þannig, að það vísaði upp með bryggjunni og ekki var því lagt við legufærin. Á laugardag var unnið við losun skipsins og fram til hádegis á sunnudag. Þá versnaði veðrið. Rok gerði af suðvestan. Þótti mörgum þá. að hætta bæri við affermingu skipsins og láta skipið fara frá bryggju. Um klukkan 2 síðdegis á sunnudaginn hvessti enn meira og náði veðurhæðin 12 vindstigum í verstu vindhviðunum. — Þá slitnaði skipið frá bryggju, en tveir vírar úr skipi í bryggju slitnuðu þó ekki. Skipverjar reyndu nú að bakka skipinu út úr höfninni, en þá munu vírarnir tveir hafa lent í skrúfu skipsins, án þess þó að slitna, enda hafði vél skipsins ekkert á móti veðurofsanum og þar er engin legufæri voru úti, reyndist ókleyft fyrir skipverja, að snúa skipinu við inni í höfninni. Tilraunir þessar við að ná Fulton aftur á bak út úr höfninni stóðu í fulla klukkustund. Þá var það í einni vindhviðunni, að vírarnir tveir, er haldið höfðu skipinu í réttu horfi, slitnuðu og rak skipið á nokkrum augnablikum undan veðrinu hátt upp í fjöru.

Alþýðublaðið segir einnig frá fannfergi á Siglufirði 11.janúar:

Mikið fannkyngi er nú á Siglufirði, og hefur umferð bifreiða um þorpið svo að segja stöðvast. Hafa sleðar, dregnir af hestum, komið í þeirra stað við nauðsynlega flutninga, til dæmis mjólkurflutninga. Nokkru fyrir helgina varð snjórinn þó svo mikill, að hestarnir komust ekki leiðar sinnar með mjólkina og var þá leitað hjálpar tækninnar á ný og jarðýta fengin til aðstoðar. Þetta tíðarfar hefur orðið til þess, að mikil kyrrstaða er í öllu atvinnulífi Siglufjarðar. Bátar hafa ekki getað róið og útivinna hefur verið lítil sem engin. Hafa þetta því verið kyrrstöðudagar fyrir Siglfirðinga. Um síðustu helgi hlánaði nokkuð, en í gær var aftur skollinn á bylur, og hlóð niður snjó.

Við leyfum fréttum af illviðri í desember að fylgja (flytjum þær síðar í 1948-pistilinn). Tíminn 11.janúar:

Hinn fyrsta desember gerði aftaka veður af norðaustri á Vestfjörðum sem víða annars staðar á landinu. Í fréttapistlum frá Steingrímsfirði segir, að þá hafi fennt og farist allmargt fé við Steingrímsfjörð, aðallega frá einum bæ, Hafnarhólmi í Kaldrananeshreppi. Veðrið var geysihart með frosti og fannkomu, að var fé víða úti, þegar stórhríðin brast á. Fennti fé sums staðar, en þó aðallega á einum bæ, og urðu þar allmiklir fjárskaðar. Var það frá Hafnarhólmi í Kaldrananeshreppi, sem er norðan megin Steingrímsfjarðar. Vantaði 30—40 fjár þaðan eftir hríðina. Sumt af því mun hafa farið í fönn, og hefir ekki fundist enn þá, en allmargt hrakti í fjörðinn og fórst. Rak kindur yfir fjörðinn á fjörur hinum megin. Hefir það stundum komið fyrir áður, að fé hefir hrakið í sjóinn á þessum slóðum í norðaustanveðrum, því að þau verða þarna oft geysilega hvöss. Fé fennti á nokkrum öðrum stöðum í þessu áhlaupi, en ekki svo, að teljandi fjárskaðar yrðu að.

Sviplegt slys varð á Kleifarvatni. Morgunblaðið 12.janúar:

Sá hörmulegi atburður gerðist árdegis í gær [11.], að ungur Hafnfirðingur drukknaði í Kleifarvatni. Hann var ásamt tveimur mönnum öðrum í bíl, sem ekið var út á ísilagt vatnið. —

Morgunblaðið segir enn af slysi 14.janúar:

Ungur maður varð úti í norðan stórhríð síðastliðinn mánudag [10.]. Þessi sviplegi atburður gerðist að Stað á Reykjanesi á Barðaströnd. Maðurinn, sem úti varð, hét Snæbjörn Gunnar Hafliðason verkamaður, að Stað á Reykjanesi. Lík Snæbjarnar fannst í fyrradag í flæðarmáli eyjarinnar Melflögu. Nokkru fyrir hádegi síðastliðinn mánudag fór Snæbjörn Gunnar ásamt unglingspilti til að smala fé í girðingu skammt frá bænum. Þeim félögum sóttist ferðin vel og um hádegisbil eru þeir lagðir af stað með féð heim að Stað. Mjög snögglega skellur á þá norðan stórhríð og var hríðin svo svört, að ekki sá handaskil. Í veðrinu varð Snæbjörn Gunnar viðskila við féð og unglingspiltinn, er komst heim að Stað heilu og höldnu. Talið er að Snæbjörn hafi hrakið undan veðrinu út á ísinn, en við Melflögu er hann ekki landfastur og hafi Snæbjörn gengið fram af ísskörinni og drukknað.

Skammvinnt illviðri gerði þann 15. Vísir segir af því sama dag: 

Þrír bátar slitnuðu frá bryggju í Reykjavíkurhöfn í óveðrinu í nótt. Ekki munu hafa orðið alvarlegar skemmdir á bátum þessum, en hinsvegar er hætt við, að þeir hafi laskast eitthvað. Bátarnir, sem slitnuðu frá, heita Hvítá, Steinunn gamla og Jón Valgeir. Einnig slitnaði v.b. Sigríður frá bryggju að aftan, en vírarnir, sem báturinn var bundinn með að framan, héldu.

Alþýðublaðið segir af sama atviki daginn eftir, 16.janúar:

Í ofviðrinu í fyrrinótt rak vélbátinn „Jón Guðmundsson“ á land í Keflavík. Báturinn mun ekki vera mikið skemmdur, og mun verða reynt að ná honum út þegar veðrið batnar.

Slide2

Lægð kom úr suðvestri og dýpkaði verulega ekki langt undan Suðurlandi. Hún hreyfðist hratt til austurs rétt við suðausturströndina. Greiningin hér að ofan sýnir stöðuna kl.9 að morgni mánudagsins 17.janúar. Gríðarlegt vestanveður fylgdi éljagarði sem lá vestur úr lægðinni. Skall hann seint um nóttina inn á suðurströndina og síðan Reykjanes, kom yfir Reykjavík eftir kl.9 (að okkar klukku). Vestanáttin náði síðan varla upp í Borgarfjörð og fór lítt inn á landið austar. Lægðin er lítillega vanmetin í greiningunni - en ekki alvarlega. 

Slide3

Veðurkortið að ofan sýnir stöðuna á hádegi. Þá er glórulaus hríð í Reykjavík og snjókoma um mestallt land - nema að nánast heiðskírt er á bletti á Suðausturlandi. Takið eftir því að einnig er hvasst á Dalatanga, en þar af norðaustri. Enn er mjög hvasst í Vestmanneyjum. Milli kl. 7 og 8 um morguninn (6 og 7 á þeim tíma) voru talin 17 vindstig af vestri a Stórhöfða (>56 m/s) og í athugun kl. 9 voru enn 14 vindstig (44 m/s). Þetta er auðvitað með fádæmum. Þann 1.janúar hafði nýr alþjóðlegur skeytalykill tekið gildi.   

Morgunblaðið segir frá veðri í pistli 18.janúar:

Aðfaranótt sunnudags [16.] og í gær [17.] var yfirleitt suðlæg átt og snjókoma um land allt. Hefur því kyngt niður talsvert miklum snjó. Víða er nú ófærð mikil á vegum. Mjólkurflutningarnir hingað til bæjarins gengu frekar erfiðlega í gær. Bílarnir fóru Krísuvíkurleiðina og voru frá 7—9 klst. á leiðinni. Ófært var yfir Hellisheiði og suður til Keflavíkur. Hér rétt fyrir innan bæinn var færðin svo þung, að leigubílar gátu ekki komist leiðar sinnar. Í gær var báðum flugvöllunum lokað vegna veðurs. Nokkrar skemmdir munu hafa orðíð á símakerfinu, t.d. bilaði fjölsíminn til Akureyrar, en hann var kominn í lag í gærkveldi. Ýmsar aðrar truflanir urðu á langlínukerinu. Um helgina varð mikill fjöldi bílaárekstra og taldist rannsóknarlögreglunni þeir vera einir 20—25. Slys munu engin hafa orðið á mönnum. Veðurstofan gerir ráð fyrir, að sunnan átt muni ganga hér snögglega yfir árdegis í dag og ekki talið ósennilegt, að síðari hluta dags í dag verði komin norðanátt á ný.

Rafmagni var skammtað í Reykjavík, Hafnarfirði og Suðurnesjum á sunnudag og í gær vegna bilunar, sem varð á Sogslínunni aðfaranótt sunnudags. Brotnaði staurasamstæða, eða svonefndur „Tvístaur“ á Sogslínunni í óveðri, rétt austan við Jórukleif í Grafningi. Síðan hefur Rafveitan ekki haft til umráða nema um þriðja hluta þeirrar raforku, sem Reykjavík, Hafnarfjörður og Suðurnes þurfa og er sú orka framleidd í Elliðaárstöðinni og eimtúrbínustöðinni, alls um 10 þúsund kW. Það gefur nokkra hugmynd um óveðrið, sem braut línustaurana tvo, að þeir eru 45 cm að þvermáli. Ein lína af fimm slitnaði, en hinar liggja niðri. Staurarnir brotnuðu á öðrum tímanum á sunnudagsnóttina. Um morguninn fór maður frá Rafveitunni með flugvél austur með Sogslínu, en þá var búið að finna með mælingum, hvar bilunin hafði orðið. Úr flugvélinni sáust verksummerki og voru þá sendir viðgerðarmenn austur á sunnudag. Komu þeir á staðinn klukkan 4 e.h. á sunnudag, en gátu ekkert aðhafst sökum veðurs og sneru til byggða aftur. Var þá beðið birtu á mánudagsmorgun og fóru þá flokkar viðgerðarmanna frá Reykjavík og frá Sogsstöðinni. Frá Sogsstöðinni var farið með kranabíltraktor, en ýtu frá Reykjavík. Um kl.3:30 í gær komu viðgerðarmenn á staðinn, en þá var veður svo slæmt, stormur og hríð, að þeir gátu ekki hafið viðgerð. Héldu þeir í sæluhús, sem Rafveitan á þarna skammt frá og biðu þar, að veðrinu slotaði og að þeir gætu hafið vinnu en fréttir símuðu þeir með ferðasíma, sem þeir hafa með sér.

Alþýðublaðið segir af illviðri og veiðarfæratjóni vestra í pistli 19.janúar:

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins. Ísafirði. Aðfaranótt laugardagsins [15.] gerði aftaka veður úti fyrir Vestfjörðum, en þá voru á sjó milli 25 og 30 bátar víðs vegar af Vestfjörðum, og urðu þeir fyrir miklu veiðarfæratjóni, auk þess sem tveimur bátanna hlekktist á. Engin slys urðu þó á mönnum. Alls er veiðarfæratjón bátanna talið nema um eða yfir 40 þúsund krónum, og er þá ótalið beitu- og aflatjón.

Frá Ísafirði eru nú gerðir út 9 bátar, frá Hnífsdal 4, frá Bolungarvík 8 og frá Súðavík 4, og fór allur þessi floti í róður á föstudagskvöldið, en þá var veður hið besta. Þegar leið á nóttina tók að hvessa af suðri og jafnframt skall á dimmur hríðarbylur. Bátarnir, sem flestir höfðu róið á djúpmið, urðu margir að yfirgefa lóðir sínar fyrri hluta laugardagsins sökum veðurofsans og dimmviðrisins, og sumir fengu á sig brotsjói. V.b. Bryndís frá Ísafirði varð fyrir áfalli og brotnaði mikið ofan þilja og allt lauslegu skolaðist fyrir borð. Bátinn hálf fyllti af sjó, lóðaflækjur fóru í skrúfuna, fiskur, sem kominn var í lestina kastaðist til og hallaðist báturinn mikið á aðra hliðina eftir áfallið. Menn sakaði ekki, en vélin stöðvaðist. V.b. Flosi frá Bolungarvík var þarna nærstaddur og hélt hann sig hjá Bryndísi, þar til vélbáturinn Finnbjörn kom á vettvang og dró hana að landi. Lóðatjón ísfirðinga og Súðvíkinga þann dag nemur 730 lóðum með tilheyrandi uppihöldum og mun verðmæti þessara veiðarfæra vera um 40 þúsund krónur, og er þá ótalið beitu- og aflatjón. Þennan sama dag voru bátar vestan af fjörðum einnig á sjó, og munu hafa orðið fyrir til finnanlegu tjóni, en hve miklu er ókunnugt. Einn bátur, Mummi frá Flateyri varð fyrir brotsjó og var hætt kominn, en komst þó hjálparlaust að landi. Birgir.

Mikil ófærð var nú á Suðurlandi. Fregnir tíðar af mjólkurskorti, og ferðum bíla um Krýsuvíkurleiðina. [Einhver undirliggjandi stjórnmálamerking í þessum orðum - sem við náum illa]. Morgunblaðið segir frá ófærð í bænum 20.janúar:

Rafmagnsleysið og ófærðin hér í bænum, hefir haft í för með sér margvíslega erfiðleika fyrir fólk. Í gærkveldi átti t.d. að halda brennu á íþróttavellinum, en henni varð að aflýsa vegna þess hve mikil fönn er á vellinum. Ýmis félög höfðu boðað fundi, og var þeim ýmist frestað vegna rafmagnsskorts, eða veðurs. Fresta varð og handknattleiksmótinu að Hálogalandi. Þegar mest var að gera í gær, gátu strætisvagnarnir ekki haldið áætlun. Sogamýrarvagninn varð að hætta ferðum um Grensásveg vegna ófærðar og um tíma var Laugarásvegurinn tepptur. Næturakstur féll niður hér í bænum í nótt.

Morgunblaðið segir enn af bilun og viðgerð Sogslínunnar í pistli 21.janúar:

Í gærkvöldi var allt útlit fyrir. að eldsnemma í fyrramálið (það er í dag) verði lokið viðgerðinni á háspennulínunni frá Ljósafossi, er bilaði í fyrradag. Einn af þrem vírum línunnar slitnaði skammt fyrir vestan Jórukleif. Búist var við að viðgerðarmenn Rafmagnsveitunnar yrðu komnir til starfa um miðnætti í nótt.

Undanfarna daga hefur snjóað svo mikið hér í Reykjavík, að öll umferðin um götur bæjarins hefur orðið erfið. Margir bílar hafa setið fastir og suma hefur alls ekki tekist að hreyfa vegna snjóþyngslanna.

Um klukkan 10 í gærmorgun slitnaði vélbáturinn „Grindvíkingur“ frá Grindavík frá nýju bryggjunni í Hafnarfirði, en hann var bundinn við hana, og rak á land. Báturinn lenti á uppfyllingunni við Strandgötuna á móts við húsið nr.50 og brotnaði mjög mikið. Enginn var um borð í bátnum, þegar hann slitnaði frá og varð þess ekki vart fyrr en hann var kominn upp í fjöru.

Gæftir voru slæmar í þessari illviðratíð. Morgunblaðið 22.janúar:

Vegna ótíðar undanfarið hafa bátar ekki farið almennt á sjó enn sem komið er. Einstaka bátur úr verstöðvum við Faxaflóa hafa róið. Flestum þeirra hefur gengið illa og orðið fyrir veiðarfæratjóni. Meðal þeirra eru tveir bátar héðan úr Reykjavík, sem misstu því nær öll veiðarfæri sín í fyrsta róðri fyrir nokkrum dögum síðan.

Næstu daga sögðu helstu blöð nokkuð ítarlega frá vandræðum við Markarfljót. Við leyfum okkur að lesa frásagnir bæði Tímans og Morgunblaðsins af atvikum: 

[Morgunblaðið 25.janúar] Í síðustu viku, og einkum um síðustu helgi, hefir Markarfljót bólgnað svo upp af ísalögum og krapi, að við liggur, að það flæði yfir allan varnargarðinn, sem gerður hefir verið suður af Seljalandsmúla, til að varna vatnságangi á Vestur-Eyjafjallasveit. Hefir flætt austur eftir veginum sunnan undir múlanum, þar sem hann liggur við enda garðsins. En á mánudaginn brotnaði skarð í garðinn. um 1500 metra frá múlanum, og féll þar vatnsflaumur austur á eyrarnar. — Verkfræðingur frá Vegagerð ríkisins fór austur í gær, til þess að athuga hvort ekki myndi vera hægt að stemma stigu fyrir frekari skemmdum á garðinum, m.a. með því að setja á hann sandpoka, þar sem flóðhættan er mest. Varnargarðurinn við Seljalandsmúla mun hafa verið byggður skömmu eftir aldamótin síðustu. Áður en hann var gerður, flóði Markarfljót iðulega austur með Seljalandsmúlanum á vetrum, austur eftir farvegum, sem liggja með fjallsrótunum m.a. í hinn svonefnda Fitjaál, sem liggur austur hjá Hafurshól. Varð mikill farartálmi af flóðum þessum, og óþægindi fyrir fólkið á bæjunum á flatlendinu vestan Holtsóss. Þá þurfti ekki nema stuttan garð við múlann, til þess að komið yrði í veg fyrir þessi vetrarflóð. Nokkru öðru máli er að gegna eftir að allt vatnsmagnið, sem áður hafði framrás í Þverá og Affalli, hefir nú verið veitt í Markarfljót. Því var varnargarðurinn lengdur og hækkaður samtímis, sem fyrirhleðslurnar voru gerðar, er juku Markarfljótið. Nær garðurinn nú 2,3 km. fram á sandana. Skarðið, sem brotnað hefur í garðinn, er 1,5 km. frá múlanum. Er hætt við, að talsverður vatnsflaumur brjóti sig þar austur yfir lendur vestustu bæjanna, austan við fljótið, svo um Seljalandssel, Helgusand og Nýabæ. En í Fitjaálinn, sem liggur uppi við hlíðina, kemst sá flaumur ekki. Haldi sama veðráttan áfram og Markarfljót bólgni upp af ísalögum og krapi meira en orðið er, getur það lagst í sinn gamla vetrarfarveg upp við múlann, eyðilagt garðinn og gert nú meiri usla en til greina kom fyrr á árum, þegar minna vatns magn var í fljótinu. Hætt er þá við, að bæirnir á flatlendinu verði umflotnir af vatni, svo samgöngur teppist, eða torveldist mjög, um lágsveitina. En naumast er líklegt, að svo mikið kveði að flóðinu, þó allt fari sem verst með varnargarðinn, að t. d. hús spillist af vatnagangi. Því vatnsflaumurinn hlýtur að breiða svo úr sér, þegar austur á flatlendið kemur. Sauðfé er að sjálfsögðu haft í húsum á láglendisbæjunum þarna, svo það lendi ekki í flóðum ef til kemur. Og í gær fréttist, að farið hafi verið á brott með börn og gamalmenni frá þeim bæjum, sem lægst standa og næstir eru fljótinu. Í fyrri fregnum hefir verið talað um að vatnsaginn við varnargarðinn stafi af því, að stíflur hafi komið í Markarfljót. En það er á misskilningi byggt. Fljótið hefir bólgnað upp á kafla og vatnsborðið hækkað vegna þess svo það er sem sagt álíka hátt og efra borð garðsins. Væri um takmarkaðar líkur að ræða, myndi vera hægt að sprengja þær og veita fljótinu þannig framrás.

[Tíminn 25.janúar]: Síðastliðna viku hlóð krapa í Markarfljót og tók að hækka í því. Á miðvikudaginn var myndaðist svo krapastífla í fljótinu undan Seljalandsmúla og Dalseli. Féll þá aðalvatnsþungi fljótsins að Seljalandsgarðinum svonefnda, en hann er hlaðinn til varnar bæjum og engjalöndum Vestur-Eyfellinga á ská frá Seljalandi niður að fljótinu. Á föstudag hafði vatnsborðið hækkað um 160 cm frá því sem venjulegt er, og tók þó að renna yfir garðinn á 50 metra löngu bili um 1500 m neðan við Seljaland. Um svipað leyti fór að flæða yfir þjóðveginn og varð vatnið um 60 cm djúpt á honum. Hafði þá gert hlákublota þar eystra. Á laugardaginn lækkaði nokkuð í fljótinu eftir blotann, en tók að hækka á ný á sunnudaginn. Í fyrrinótt braut svo flóðið skarð í varnargarðinn á 70 metra löngu bili allneðarlega og féll þar mikill vatnsflaumur í gegn og yfir garðinn báðum megin við skarðið. Hélst það þannig í gær, en þó stækkaði skarðið frekar. Þeir bæir, er voru í mestri hættu af völdum flóðsins fyrst í stað, voru Helgusandar og Seljalandssel, svo og Ytri-Rot. Fólk allt frá Helgusöndum flutti í gær burt af bænum og einnig var kvenfólk og börn flutt frá Seljalandsseli. Fór fólkið að Seljalandi og dvelur nú þar. Búfé var ekki flutt burt af þessum bæjum í gær, en gert er ráð fyrir því, að það verði gert í dag, hafi ekkert um skipast. Mikil hætta var talin á, að flóðgáttin, sem er nokkru ofar á garðinum, léti undan síga, og hefði það haft mjög aukna hættu í för með sér. Unnið var því að því í gær að treysta flóðgáttarlokurnar og garðinn beggja megin hennar með því að hlaða þar sandpokum. Einnig verður hlaðið sandpokum á garðinn við skarðið, ef líkur benda til, að það muni stækka á morgun. Verkfræðingur  vegamálastjórnarinnar fer austur. Vegamálastjórnin sendi Sigurð Jóhannsson verkfræðing austur í gær til þess að leggja á ráðin með heimamönnum um auknar varnir, en hann var ekki kominn austur að Seljalandi i gærkvöldi, þegar blaðið átti tal þangað. Mun ferðin hafa gengið seint, því að færð er slæm. Í ráði er að reyna að sprengja krapastífluna í fljótinu á morgun. Fjarri fer því enn, að allt vatnsmagn fljótsins falli um skarðið í garðinn. Þegar blaðið átti tal við Ólaf Kristjánsson á Seljalandi í gærkveldi, var þar suðaustanátt með þíðu og rigningu. Hafði það í för með sér, að fljótið var ört vaxandi og hafði til dæmis hækkað svo á veginum við Seljaland, að vatnið þar var - orðið 60 cm djúpt eða svipað og var á dögunum. Bílfært var þó enn um veginn að kalla. Þeir bæir, sem næst eru í mestri hættu, eru Fitjarmýri, Nýibær og Ytri-Rot. Er fólk á þeim bæjum að búa sig til brottfarar, ef nauðsyn krefur. Enginn bær er þó ennþá umflotinn, en Helgusandar munu verða það bráðlega, ef sama heldur fram.

Elsti hluti þessa varnargarðs mun vera um 40 ára gamall, en síðar hefir hann i verið styrktur, hækkaður og lengdur. Var það fremsti og nýjasti hluti garðsins, sem bilaði. Garðurinn er alls um 2300 metrar á lengd og hið mesta mannvirki, og elsti hluti hans er fyrsta fyrirhleðsla að marki, sem gerð var hér á landi. Hefir hann aldrei bilað fyrr. En fyrir nokkrum árum var Þverá veitt austur í Markarfljót og hækkaði þá mjög í því og mæddi meira á garðinum. Töldu bændur þar eystra, að af þessu gæti stafað hætta og orðið garðinum ofraun. — Enginn getur að svo stöddu giskað á, hve það tjón verður mikið, sem af flóðinu hlýst, sagði Ólafur á Seljalandi. Enn sem komið er ber flóðið ekki fram mikinn aur en það getur breyst. Engjalönd nær 40 jarða eru i hættu. Hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps kom saman á fund í gær til þess að ræða um þá miklu hættu, sem sveitin er nú í. Við sveitarauðn mun liggja, ef flóðið nær að leggja undir sig þau lönd, er það getur kafið, ef fram heldur sem nú horfir.

[Tíminn 26.janúar}: Í fyrrinótt braut Markarfljót tvö ný skörð í Seljalandsgarðinn og fellur nú allt fljótið um annað þeirra og flæðir yfir láglendið. Fólk og fénaður hefir nú verið flutt burt frá þrem bæjum, Seljalandsseli, Efri-Rotum og Helgusöndum. Í dag var reynt að styrkja garðinn og flóðgáttarlokurnar með sandpokum, en í dag verður reynt að sprengja gamla fyrirhleðslu í gömlum farvegi, er nefnist Fauski, og veita nokkrum hluta vatnsmagnsins í hann og þaðan í Markarfljótsfarveginn. Fellur nú allt um eitt skarð. Blaðið átti tal við Ólaf Kristjánsson á Seljalandi aftur í gærkveldi og spurð hann um flóðið. Í fyrrinótt braut fljótið tvö ný skörð í garðinn, og fellur nú allt gegnum annað þeirra út yfir láglendið. Er það skarð 30—40 metra breitt og er um 150 metrum sunnan við flóðgáttina, en hún er á móts við Fitjarmýri, en þó aðeins norðar. Flóðið hafði i gærkveldi algerlega umkringt bæina Seljalandsel og Efri Rot, en búist við, að það næði heim að Helgusöndum þá og þegar. Það féll einnig bæði sunnan og norðan við Fitjarmýri, en ekki heim að bænum. Norðan við bæinn féll það í farvegi með allmiklum jakaburði. Fólk er ekki enn flutt þaðan, enda var bærinn ekki talinn í hættu meðan flóðgáttin heldur. Aðrir bæir eru ekki taldir í yfirvofandi hættu. Í gær var unnið að flutningi fólks og fénaðar frá Seljalandsseli, Efri-Rot og Helgusöndum. Hjálpuðu sveitungar til við þá flutninga og var fénu skipt niður á bæina. Fólkið skipti sér einnig niður á bæina. Voru flutningarnir erfiðleikum bundnir vegna snjóa og ófærðar. Í gær var unnið að því að treysta garðinn og flóðgáttina með sandpokum. Ef flóðgáttin bilar vex hættan enn meir. Eru þá níu bæir í vegi flóðsins til viðbótar þeim, sem þegar eru taldir. Fellur flóðið þá austur með Fjöllum og getur komist alla leið austur í Holtsós og lagt undir sig allt undirlendið á þessum slóðum. Gera menn sér vonir um að geta treyst flóðgáttina svo að hún haldi. Vestan við Fitjarmýri var áður áll í fljótinu, sem nefndist Fauski. Fyrir nokkrum árum var hlaðið fyrir þennan ál og hann þurrkaður. Í dag var ætlunin að reyna að sprengja fyrirhleðsluna og veita nokkru af vatnsmagninu í þennan farveg og síðan eftir honum í Markarfljótsfarveginn neðan krapastíflunnar. Er það nokkur hjálp, ef tekst. Er Sigurður Jóhannsson verkfræðingur Vegamálaskrifstofunnar þarna eystra og stendur fyrir því verki. Í gærkvöldi var allmikil snjókoma þarna eystra með dálitlu frosti en vatnsmagnið í fljótinu var enn svipað í gærkvöldi. Flæðir það enn yfir þjóðveginn, en hann er samt fær. Stíflan í fljótinu hefir ekki rótast enn og litlar líkur taldar til, að vatnið brjóti sér leið undir hana. Er farvegurinn ein íshrönn á löngu svæði. Taldi Ólafur að stíflan mundi ekki fara fyrr en eftir miklar hlákur. Ekki eru taldar líkur til, að flóðið skemmi hús eða bæi þá, sem það umkringir nú.

[Morgunblaðið 26.janúar]: Í fyrrinótt sprengdi Markarfljót annað skarð í Seljalandsgarðinn. Það myndaðist 150 m fyrir sunnan flóðgáttina. Svo fór sem menn þar eystra grunaði, að flytja þyrfti allt fólk af Sandhólabæjunum þrem og var svo gert í gær. Ennfremur var búpeningur allur fluttur af bæjum þessum. Stórt landflæmi var undir vatni í gær og giskaði Ólafur á að það myndi vera 3—4 ferkílómetrar. Væru það engjar og beitilönd. Til þess að létta á þeim mikla vatnsþunga er hvílir á Seljalandsgarði, verður í dag reynt að veita vatni úr Markarfljóti til vesturs yfir í gamlan farveg Markarfljóts, sem Fauski heitir. Fyrir nokkrum árum var hlaðið fyrir kvísl þessa, en fyrirhleðsluna á að sprengja í dag.

[Tíminn 27.janúar] Þegar blaðið átti tal við Ólaf Kristjánsson á Seljalandi í gærkveldi, var allt með sama hætti um flóðið. Vatnsmagnið í fljótinu hefir þó minnkað mjög, en það fellur um sama skarðið og áður. Hætt var við að sprengja fyrirhleðsluna í Fauska, og er ekki búist við, að neitt verði hægt að gera til þess að beina flóðinu í farveginn aftur. Í gær var norðvestan hríð og allmikil snjókoma og var því erfitt um allar athafnir þar eystra. Reynt var þó að styrkja flóðgáttina í Seljalandsgarðinum, en hins vegar hætt við að sprengja fyrirhleðsluna í Fauska. Vatnsmagnið í fljótinu minnkaði allmikið í fyrrinótt og gær og var ekki orðið nema tveir þriðju þess, sem það var, er flóðið var mest. Vegurinn er nú þurr að kalla. Fólk er nú allt flúið frá Seljalandsseli, Helgusöndum 1 og Efri-Rotum eins og fyrr segir, en ekki af fleiri bæjum. Í gær var unnið að því að skipta fénu niður á bæi undir Fjöllunum, en það er auðvitað allmiklum erfiðleikum bundið, þar sem það er allmargt og húsrúm ef til vill takmarkað fyrir nautpening og sauðfé. Auk þess veldur veðurfarið nokkrum erfiðleikum við þetta. Flóðið nær nú yfir allstórt svæði, eða 4—5 km., og landareign Seljalandssels er að mestu undir vatni. Um tjón af völdum þess er ekki hægt að gera sér neina grein enn. Horfur eru því illar, þar sem engar líkur eru til, að takast muni að bægja flóðinu frá eða veita því í eðlilegan farveg, þótt ekki sé hægt að segja um, hve mikið landsvæði það kefur. Klakahrönnin, sem myndaðist í farvegi fljótsins, þegar krapastíflan kom og vatnið seig síðan undan, er um metra, á þykkt og engar líkur til, að vatnið brjóti sér leið undir hana né heldur, að hún muni þiðna nema i langvinnum hlákum og leysingum. Bráðar leysingar gætu hins vegar haft mjög aukna hættu í för með sér.

Tíminn segir 27.janúar einnig af ísalögum á Hvammsfirði - og við látum hrakningasögu fylgja:

Hvammsfjörður er nú allur ísi lagður eins langt og sér frá Búðardal, og hefir svo verið nú um hríð. Þetta er þó óvanalegt, og er Tímanum tjáð, að slíkt hafi ekki borið við síðan frostaveturinn 1918.

Það voru oft kröggur í vetrarferðum í gamla daga. En ekki verða vetrarferðir síður sögulegar nú á dögum en áður var, þótt með öðrum hætti sé. íslenskur útgerðarmaður, sem ætlaði heim frá Osló í síðastliðinni viku, komst til dæmis til Írlands, Asóreyja og Ameríku. Ferðamaður þessi var Jón Franklínsson útgerðarmaður. Átti tíðindamaður frá Tímanum stutt tal við hann í gær. Jóni sagðist svo frá þess ari ferð sinni: — Ég keypti í Osló flugfar til Keflavíkur með flugvél frá ameríska flugfélaginu. Við lögðum af stað frá Osló á þriðjudaginn var, og var fyrst farið til Kaupmannahafnar. Þar fór ég í aðra flugvél, og klukkan fjögur um daginn var haldið af stað áleiðis til Íslands. En þegar kom undir Reykjanes, bárust þær fregnir, að ólendandi væri í Keflavík, og var þá tekið það ráð að fljúga til Írlands, og var lent á Shannon-flugvelli. Snemma næsta morgun var enn búist til íslandsferðar. En sagan endurtók sig: Þegar kom undir Reykjanes, var snúið við til Suður-Írlands. Og nú var ákveðið að fljúga vestur um haf. En veður var vont, svo að ráðlegast þótti að fara til Asóreyja, og var komið þangað snemma morguns. Þaðan var svo haldið áfram til Gander á Nýfundnalandi. Nú var gert ráð fyrir að ég yrði eftir á Sydney, sunnan við Nýfundnaland, og færi þaðan beint til Keflavíkur, ásamt einum Ameríkumanni, er komið hafði í vélina í Kaupmannahöfn. En flugvél sú, sem við áttum að fara með, kom ekki, sökum veðurs, svo að við héldum enn áfram ferðinni, og að þessu sinni til New York. Í New York var ég síðan frá því á fimmtudag, þar til á sunnudag, og átti góða daga, því að flugfélagið lét mér í té gott gistihúsherbergi, mat og drykk og auk þess vasapeninga. Á hádegi á sunnudag var svo enn einu sinni búist til íslandsferðar. Í þetta skipti gekk allt að óskum, og við komum til Keflavíkur eftir fjórtán stunda flug.

Þriðjudaginn 25.janúar fór sérlega kröpp lægð til norðurs um Austurland og önnur daginn eftir. Fyrri lægðin var snarpari og mun hafa valdið nokkru foktjóni - en ekki bárust miklar fréttir af því í blöðum þótt flestir veðurathugunarmenn eystra minnist á slíkt (sjá hér að ofan): 

Slide4

Klukkan 15. var lægðarmiðjan ekki langt frá Hornafirði. Þrýstingur í Hólum er 949,2 hPa. Frost og snjókoma er norðanlands, en á Austurlandi ákveðin sunnanátt og rigning. 

Slide5

Endurgreining bandarísku veðurstofunnar nær staðsetningu lægðarinnar allvel, en mjög mikið vantar upp á dýpt hennar - hátt í 20 hPa. „Móðurlægðin“ er vestast á Grænlandshafi, en bylgjur ganga hratt til norðausturs og norðurs í austurjaðri hennar, milli hlýja loftsins að sunnan og þess kalda að vestan.  

Slide6

Kuldapollurinn kanadíski er við Suður-Grænland og er ekki algengt að sjá hann svona öflugan. Við getum séð votta fyrir austfjarðalægðinni þar sem smáhnykkur er á jafnhæðarlínum þar um slóðir. Væru bæði þetta kort og hið fyrra rétt, væri þykktin í lægðarmiðju um 5240 m, en hiti á Austfjörðum bendir til þess að hún hafi verið talsvert meiri, sennilega að minnsta kosti 5380 m. Sú þykkt gerði lægðarmiðjuna um 15 hPa dýpri en greiningin segir - þar með ekki fjarri raunveruleikanum. 

Slide7

Árið 1960 birti Eysteinn Tryggvason „nótu“ í tímariti bandaríska veðurfræðifélagsins. Ástæðan var sú að þar hafði skömmu áður birst nóta um miklar þrýstisveiflur í Alaska. Eysteinn sá að þær voru þó minni en áttu sér stað í þessu tilviki. Myndin sýnir myndina af þrýstiritanum á Dalatanga sem birtist í blaðinu (frumritið skilaði sér ekki aftur á sama stað). Ritstjóri hungurdiska hefur bætt við örvum sem sýna afburði, en tölurnar í græna kassanum eru frá Eysteini. Við vitum af fáeinum ámóta tilvikum varðandi klukkustundarbreytingu, þar á meðal frá Keflavíkurflugvelli 3.febrúar 1991, en þriggjaklukkustundabreytingin er enn íslandsmet - að því best er vitað. Kortaklippan er fengin af forsíðu tímaritsins Veðrið, 1962. Sýnist vera með hönd Páls Berþórssonar. 

Slide8

Við skulum smjatta aðeins meir á þessu. Í Hólum í Hornafirði má sjá svipaðar hreyfingar. Þrýstingur stígur um 21 hPa á klukkustund, en kringum 29 á 3 stundum. Sveiflan í næstu lægð (daginn eftir) er ekki alveg jafnstór og á Dalatanga. 

Slide9

Hún er það hins vegar í Fagradal í Vopnafirði. Þar er spönn síðari lægðarinnar 28 hPa, og fallið á undan henni er um 20 hPa á 4 klst. 

Slide10

Þessi síðari lægð fór aðeins vestar en hin fyrri, en miðjan týndist dálítið yfir landinu - veðurathuganir gisnar í tíma og rúmi. Auðveldara væri nú að fylgja svona kerfi eftir. Klukkan 15 var norðan hvassviðri á Stórhöfða og eins stigs frost, en á sama tíma nærri 5 stiga hiti í sunnanátt á Loftsölum í Mýrdal. Lægðin þaut svo yfir landið - án þess að gera vart við sig vestanlands.  

Eins og áður sagði voru fréttir af veðrinu þann 25. heldur rýrar í blöðum. Alþýðublaðið  segir þó frá 28.janúar:

Mikið óveður hefur geisað á Reyðarfirði undanfarna daga, og hafa orðið þar töluverðar skemmdir á húsum, og fé hefur lent í hrakningum.

Þann 3.febrúar birti Tíminn frétt af illviðri eystra. Greinlega er átt við veðrið þann 25.janúar - en tjónið var samt í Veðráttunni talið hafa orðið þann 1. febrúar (sem var líka þriðjudagur). Við reynum að krafsa í bakkann og neglum dagsetninguna:

S.l. þriðjudag [25.janúar] gerði afspyrnurok i Hornafirði. Stóð veðrið þó aðeins skamma stund eða um eina klukkustund. Í veðri þessu fauk þakið af flugskýlinu í Höfn í Hornafirði og þak tók af stórri hlöðu í Lóni. Víðar fuku járnplötur af íbúðarhúsum og ýmsar smávægilegar skemmdri urðu aðrar. Afli hefir verið góður hjá Hornafjarðarbátum þótt gæftalítið hafi verið og umhleypingasöm tíð.

Vísir segir 28.janúar frá ófærð í Reykjavík, en nefnir einnig hríð nyrðra - í kröppulægðarveðrinu:

Fannkoman undanfarna daga hefir kostað Reykjavíkurbæ ærið fé. Hafa allt að 200 manns unnið við að hreinsa snjó af götunum, auk 40 bíla, veghefla, vélskóflna og jarðýtna, er mest hefir verið. S.l. föstudag og hálfan laugardaginn unnu 200 menn að snjóhreinsuninni, enda gerði mikið fjúk þá daga. Kostaði snjóhreinsunin bæinn t.d. 30 þús. kr. s.1. föstudag.

Síðastliðinn þriðjudag [25.] gerði hríðárveður mikið norðanlands. Þórhallur Jónsson, bóndi í Möðrudal, fór heiman að frá sér um tvöleytið á þriðjudag til þess að leita kinda á Möðrudalsfjallgarði. Skömmu eftir að Þórhallur hafði lagt af stað skall á hríðarveður svo dimmt, að bann vissi ekki hvert hann fór. Hann hélt áfram göngunni, þar til hann gat áttað sig hvar hann var staddur. Sneri bann þá við og hélt til bæja. Kom hann heim til sín eftir 36 tíma göngu og telst mönnum til, að hann hafi gengið 80—100 km.

Morgunblaðið er líka í ófærðarfregnum 28.janúar:

Frá því um miðjan janúar hefir innanlandsflugið alveg legið niðri vegna veðráttunnar, en í gær komst ein flugvél til Akureyrar.

Svo mikil ófærð er nú í sveitum austan Fjalls, að aðeins lítill hluti þeirrar mjólkur, er til Mjólkurbús Flóamanna er fluttur, komst þangað. — Af þessum ástæðum verður mjólk skömmtuð hér í Reykjavík og Hafnarfirði í dag. Dagskammturinn er 3 desílítrar gegn afhendingu mjólkurskömmtunarreitsins nr.46.

Vísir segir líka af ófærð 29.janúar:

Allar samgönguleiðir við Reykjavik á landi eru þungfærar og torsóttar eins og sakir standa, en þó brjótast bílar bæði austur í sveitir og eins upp i Borgarfjörð. Krýsuvíkurleiðin var mjög þungfært gær, og af 4 mjólkurbílum sem lögðu að austan og hingað til bæjarins i gær brotnuðu 3 þeirra.

Morgunblaðið segir 29.janúar - hér er síðari lægðin krappa á ferð:

Sá hörmulegi atburður skeði norður í Þistilfirði s.l. miðvikudag [26.], að Björn Jóhannesson frá Flögu varð úti í kafaldsbyl, er hann var aö leita að fé.

Morgunblaðið fjallar um ótíðina í Reykjavíkurbréfi 30.janúar:

Þessi vetur ætlar að verða óvenjulegur snjóavetur hér sunnanlands, svo ekki hefur lengi komið annar eins. Fannkoma hefur verið hér dag eftir dag, með litlum hlákublotum, en þó það miklum, að talsverð ísalög hafa myndast, sem nú eru undir fönn. Fannkyngi þessi og ísar hafa m.a. orðið til þess, að Markarfljót hefur gert þann usla, sem lýst hefur verið í fréttum, er það hefur bólgnað upp svo fyrirstöðugarðurinn, sem lengi hefir staðið fram undan Seljalandsmúla, og til þess er gerður að verja Vestur-Eyjafjallasveitina fyrir áhlaupum fljótsins, hefur bilað, og flæðir fljótið nú, eins og oft á fyrri tíð, austur yfir láglendið. Má segja, að ekki sé ein báran stök fyrir bændum þessarar sveitar er þeir fengu öskufallið úr Heklu fyrir tveim árum, og nú þennan gamla vágest Markarfljót yfir sig. En fyrr á öldum á meðan Þveráin var eins og fjallalækur, hefur fljótið vafalaust oft brotist svona austur yfir sveitina.

Tíminn heldur áfram að segja frá Markarfljóti 30.janúar:

Vatnsmagnið í Markarfljóti var hið sama í gær og undanfarna daga og hefir flóðið ekki breiðst meira út. Unnið hefir verið að því undanfarna daga að hlaða sandpokum ofan á garðinn og hafa unnið við þetta 20—30 menn. Er nú búið að hlaða tvöfaldri sandpokaröð ofan á garðinn mest allan. Er höfð jarðýta til þess að moka upp sandinum. Mikill snjór er þár eystra og veður hefir verið óhagstætt til þessara starfa.

Febrúar varð einnig umhleypingasamur og erfiður. Talsvert skárri tíð var þó á Austurlandi - eins og gjarnan í útsynningsmánuðum. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Febrúarmánuður hefir verið slæmur að veðurfari, nema fyrsta vikan, þá var hláka og janúarsnjórinn hvarf að mestu. Síðan hefir verið afleit tíð, sérstaklega nú upp á síðkastið, ýmist suðvestan éljagangur, eða norðan snjókoma og skafrenningur. Snjór er nú meiri en verið hefir um mörg ár,og vegir víðast ófærir bílum. Hér er þó enn hagi fyrir dugleg hross.

Lambavatn: Veðurlagið hefir verið svipað yfir þennan mánuð eins og það var í janúar. Sífelld snjókoma og umhleypingar. Það þiðnaði snjór að mestu fyrstu daga mánaðarins, en svo fennti strax aftur.

Sandur: Tíð vindasöm, en frosta- og úrfellalítil. Fremur snjólítið á láglendi, en hjarnfannir og allmikil ísalög.

Gunnhildargerði: Mjög snjóléttur var mánuðurinn, en óvenjumikil svellalög.

Papey: Tíðarfarið í þessum mánuði var mun betra en síðastliðinn mánuður.

Sámsstaðir: Svipar mjög til fyrri mánaðar, kalt tíðarfar og vindasöm veðurátta.

Morgunblaðið segir 2.febrúar frá erfiðri færð í Skaftafellssýslu:

Mikil snjóalög eru nú um alla Skaftafellssýslu. Mestur er snjórinn í Mýrdal og má heita að samgöngur hafi verið tepptar þar síðan fyrir áramót. Hafa mjólkurflutningar að mestu fallið niður þennan tíma. Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Jóni Kjartanssyni, sýslumanni í Vík, en hann kom hingað til bæjarins s.l. mánudagsnótt. Hvernig var færðin að austan?

— Hún var mjög þung. Við lögðum af stað í stórum áætlunarbíl kl.2 á laugardag og voru farþegar 17. Það tók okkur 6 1/2 klst. að komast frá Vík í Mýrdal út að Pétursey. En það er í venjulegu færi aðeins rúmlega 20 mínútna ferð. Þegar að Pétursey var komið var numið staðar og skiptu farþegarnir sér niður á bæina til gistingar. Kl.8 á sunnudagsmorguninn skyldi svo lagt af stað á ný. Var þá komin snjóýta til þess að ryðja veginn. Varð það úr að hún drægi áætlunarbílinn og tvær flutningabifreiðar, sem einnig voru á vesturleið. En vegna þess að ekki voru við hendina nægilega góðar dráttartaugar til þess að ýtan gæti dregið allar bifreiðarnar var hún látin ýta öðrum vörubílnum á undan sér en draga hina tvo. Þannig komumst við vestur allan Sólheimasand og vestur yfir Jökulsá. En ferðalag þessarar lestar gegnum ófærðina gekk seint eins og að líkum lætur. Eftir að komið var vestur fyrir Jökulsá komumst við hjálparlaust en ekki vorum við komnir til Reykjavíkur fyrr en kl.2 aðfaranótt mánudags. Þessi frásögn Jóns Kjartanssonar sýslumanns Skaftfellinga sýnir greinilega, hvílíkum erfiðleikum hin óvenjulegu snjóalög valda fólkinu út í héruðunum í ferðalögum þess og afurðaflutningum.

Vísir segir 4.febrúar frá krapastíflu í Hvítá í Árnessýslu - en ekki varð mikið úr.

Krapastífla hefir myndast í Hvítá í Árnessýslu skammt fyrir ofan Brúnastaði í Hraungerðishrepp. Í fyrrinótt var stíflan orðin svo mikil að Hvítá var tekin að flæða yfir Brúnastaðaflatir og' yfir flóðgáttina fyrir ofan Brúnastaði. Fyrir bragðið flæddi yfir þjóðveginn hjá Skeggjastöðum á 2 stöðum auk þess sem flæddi yfir Brúnastaðaafleggjarann. Ekki varð vatnsmagnið samt svo mikið að það teppti umferð um veginn. Í gær var vatnið komið niður að Bár í Flóa.

Það var víðar mjólkurskortur en í Reykjavík. Tíminn segir frá 4.febrúar:

Fólk á Patreksfirði hefir átt við tilfinnanlegan mjólkurskort að búa upp á síðkastið, og bændur á Rauðasandi eru sumir hverjir orðnir matvöru- og fóðurbætislitlir, þar eð ófært hefir verið þaðan úr byggðinni yfir að Hvalskeri. Á Patreksfirði búa um 900
manns, og fær kauptúnið mjólk úr Örlygshöfn og af Rauðasandi, sinn daginn úr hvoru byggðarlagi. Upp úr miðjum janúar hlóð niður svo miklum snjó á fjallið milli Rauðasands og Hvalskers, að allar samgöngur tepptust, og hefir það nú verið ófært hestum í hálfa aðra viku. Hafa Patreksfirðingar enga mjólk fengið af Rauðasandi þann tíma, og bændurnir sunnan fjallsins eru sumir orðnir matvöru- og fóðurbætislitlir, þótt nægjanlegt sé af þeim vörum á Hvalskeri. Er meiri snjór á fjallinu en dæmi eru um í áratugi. Það er hins vegar helmingur af þeirri mjólk, sem notuð er á Patreksfirði, er kemur af Rauðasandi. Yfir fjallið milli Rauðasands og Hvalskers liggur vegur, sem ruddur var fyrir meira en áratug, og hefir lítt verið haldið við síðan. Er hann þó slarkfær á bílum á sumrin.

Í fréttarpistlum úr Strandasýslu segir, að tíðarfar þar nyrðra hafi verið mjög óhagstætt síðan 1. des í vetur. Megi næstum segja, að gengið hafi látlausar veðurhörkur, og algert jarðbann hefir verið síðan. Er fénaður allur í innistöðu. Heyfengur bænda þar er i meðallagi þrátt fyrir fremur slæmt sumar.

Morgunblaðið segir líka frá krapa í Hvítá 5.febrúar:

Aðfaranótt s.l. miðvikudags [2.febrúar] hlóðst mikið klakahröngl og krapi upp í Hvítá, rétt fyrir neðan flóðgátt Flóaáveitunnar á svonefndum Kríutanga, sem er skammt fyrir ofan Brúnastaði. Blaðið átti í gær tal við Ingólf Þorsteinsson, eftirlitsmann á Selfossi. Skýrði hann svo frá að við stíflun þessa hafi vatnið hækkað svo í Hvítá, að hún hefði runnið yfir varnargarð, sem þarna er og hlaðinn var um s.l. aldamót. Rann vatnið niður hjá Ölvaðsholti yfir Skeggjastaðaengjar og var farið að renna yfir þjóðveginn milli Hvítár og Þjórsár fyrir austan Skeggjastaði. Í gær hafði vatnsrennslið minkað þarna að mun, og virtist áin hafa fengið framrás án þess þó að hafa rutt sig. Heldur hafi hún lyft klakahellunni.

Vísir segir af hafís 5.febrúar - og að flóðið í Hvítá sé að réna:

Nokkrar fregnir hafi verið á kreiki um, að hafís hafi grandað veiðarfærum báta út af Vestfjörðum, en sem betur fer, eru minni brögð að þessu, en talið hefir verið. Vísir átti í morgun tal við Björgvin Bjarnason, útgerðarmann á Ísafirði og innti hann fregna um þetta. Hann sagði, að sér væri kunnugt um eitthvert hafíshröngl út af Djúpinu, en ekki í stórum stíl, og hefði einn bátur, Gunnbjörn, misst lóðir sínar völdum íssins.

Það er varla talin hætta á að Hvítá flæði frekar yfir bakka sina, í gærkveldi hafði dregið svo mikið úr vatnsmagninu, að hún var hætt að flæða yfir þjóðveginn. Eins og skýrt var frá í Vísi í gær hafði krapastífla myndast smám saman í Hvítá móts við Brúsastaðaflatir er olli því að áin flæddi yfir bakka sina. Féllu úr henni tvær meginkvíslar, önnur niður svokallaðan Sorta, en hin til suðausturs og yfir þjóðveginn fyrir austan Skeggjastaði. Var um það bil ökkladjúpt vatn á veginum þegar það var mest, en seint í gærkveldi var hætt að renna yfir hann. Við Markarfljót er allt stórtíðindalaust. Áin fellur enn sem áður gegnum skarðið, sem hún braut i varnargarðinn. Hrönnin í aðal farveginum er mjög tekin að síga og þess má vænta ef hlákan heldur áfram með álíka móti, að Markarfljót falli áður en varir i sinn gamla farveg. Eru líkur taldar til að vatn sé þegar byrjað að renna þar að einhverju leyti á ísnum, en ekki er samt vitað um það með nokkurri vissu. Ef frekari breytingar til hins verra eiga sér ekki stað um helgina, tekur fólkið að flytja aftur með bústofn sinn á jarðirnar, sem það flýði frá, en þeir voru þrír.

Vísir segir 7.febrúar frá illviðri í Ólafsvík þann 2.:

Einkaskeyti til Vísis. Ólafsvík í fyrradag. Annan þessa mánaðar gerði hér afspyrnurok af suðvestri. Fauk þá fjárhús og heyhlaða. Í Innri Bug í Fróðárhreppi missti bóndinn Þorgils Þorgilsson allmikið af heyi, sem var i hlöðunni. Engin meiðsl urðu á mönnum eða skepnum. Fréttaritari.

Þann 8. fór djúp lægð yfir landið, þrýstingur á Dalatanga fór niður í 947,5 hPa - Alþýðublaðið 9.febrúar:

Ofviðri með krapaéljum gekk yfir mest allt Suðausturland og Suðurland í fyrrinótt og gærmorgun, en eftir hádegi í gær snerist til sunnanáttar og tók heldur að [lægja. Það var Lægð sem] gekk yfir austanvert landið, sem olli þessu hvassviðri, og var hún í gær ut af Austfjörðum á austurleið, svo búist var við að í nótt myndi lægja, enda var þegar mikið farið að draga úr veðrinu í gærdag. Hvassviðrið byrjaði í fyrrakvöld, og um klukkan þrjú um nóttina var komið stórviðri síðast á Suðausturlandi og Suðurlandi, mest varð veðurhæðin í Vestmannaeyjum 11 vindstig, í Keflavík voru í gærmorgun um 10 vindstig og í Reykjavík voru 9 vindstig. Að því er Slysavarnafélagið skýrði blaðinu frá í gær, voru flestir bátar úr verstöðvunum hér sunnan og vestan lands á sjó, þegar ofviðrið skall á, og munu margir hafa lent í hrakningum, en ekki var félaginu kunnugt um að neitt slys hefði orðið, þegar blaðið átti tal við það síðdegis í gær, Heyrst hefur að allmikið veiðarfæratjón hafi orðið hjá bátum.

Morgunblaðið segir líka frá lægðinni 9.febrúar:

Lægðin sem gekk yfir landið í gær, var óvenju djúp, Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mældist hún 710 mm [946,6 hPa]. Lægðin gekk snögglega fyrir. Þegar hún gekk hér yfir Reykjavík var veðurhæðin um 11 vindstig þegar hvassast var rétt fyrir hádegi.

Morgunblaðið segir frá 11.febrúar

Í fyrradag [9.] fundu menn frá Bjarnastöðum á Hvítársíðu, aldraða konu lærbrotna milli bæjanna Sigmundarstaðir og Stóri-Ás Kona þessi hafði legið úti í nær þrjá sólarhringa samfleytt og gat enga björg sér veitt vegna brotsins. Kona þessi er frú Kristín Kjartansdóttir, ekkja Guðmundar bónda að Sigmundarstöðum í Hálsasveit, en nú er hún 78 ára að aldri. Þrátt fyrir háan aldur hefur Kristín farið allra sinna ferða ein. Hún er alveg óvenjulega ern og ekki þótt ástæða til að fylgja henni þó hún bregði sér bæjarleið. Og ein var hún er þetta óhapp vildi til.

Lægðagangurinn hélt enn áfram af fullum þunga og olli ófærð og vandræðum. Alþýðublaðið 17.febrúar:

Síðustu þrjá daga hafa allir mjólkurflutningar farið fram um Krýsuvíkurleiðina, og var hún enn greiðfær í gær. Hins vegar voru báðar heiðarnar orðnar ófærar um helgi. Hellisheiðin á sunnudag, og Mosfellsheiðin í fyrradag. Myndu bæjarbúar því nú vera algerlega mjólkurlausir, ef Krýsuvíkurvegarins nyti ekki við, og er þetta ekki í fyrsta sinn á þessum vetri, sem allar aðrar leiðir til bæjarins austan yfir fjall teppast dögum saman. Úr nærsveitunum kringum bæinn kom mjólkin eins og venjulega, en eini staðurinn, sem engin mjólk kom frá í gær var Borgarnes, en Hvalfjörðurinn mun hafa teppst, í fyrrakvöld, en þá kom síðasti mjólkurbílinn frá Borgarnesi, og hafði verið mjög lengi á leiðinni vegna ófærðar. Í gærkveld var hins vegar von á mjólk úr Borgarnesi með Laxfossi. Að því er Ferðaskrifstofan skýrði blaðinu frá, fóru áætlunarbílarnir áleiðis norður á þriðjudagsmorguninn, en komust ekki nema til Akraness.

Vísir segir sama dag (17.febrúar) frá ófærð í Reykjavík:

Í morgun voru allar strætisvagnaleiðirnar ófærar að meira eða minna leyti. Komust strætisvagnarnir tæplega út af viðgerðarverkstæðinu á Kirkjusandi. Ofsaveður var i Reykjavík í nótt og kyngdi niður snjó. Er strætisvagnarnir lögðu í seinustu ferðina kl.12 í gærkveldi var mikil hríð og háir skaflar á götunum og festust bílarnir viða í þeim. Strætisvagnar þeir, er halda uppi ferðum inn í Sogamýri, Fossvog, inn að Kleppi og út á Seltjarnarnes festust og komust hvorki aftur á bak né áfram. Þá festist Sólvallabíllinn vestur í hæ og eins Njálsgötu-Gunnarsbrautarvagninn á Snorrabraut. Starfsmenn strætisvagnanna voru önnum kafnir í alla nótt við að ná vögnunum úr snjósköflunum og komu þeir með seinasta vagninn inn að Kirkjusandi kl.8 í morgun. Var „kranabíll“ notaður við að draga vagnana ú sköflunum. Í morgun voru flestar leiðirnar ófærar að einhverju leyti. Snorrabraut var á kafi í snjó, svo að ógerlegt var að aka eftir henni. Þá var mikil fönn á Reykjanesbraut, Sóleyjargötu, Lönguhlið og Silfurtúni. Voru allar þessar götur ófærar. Loks var allt á kafi í snjó umhverfis Miklatorg og á Hringbraut fyrir vestan Bræðraborgarstíg. — Urðu strætisvagnarnir að fara ýmsar krókaleiðir til þess að komast á leiðarenda, en í sumum tilfellum komust þeir alls ekki. Fjöldi annarra bíla festist og víðs vegar um bæinn í nótt.

Alþýðublaðið segir einnig frá sama hríðarkasti 18.febrúar:

Í snjókomunni undanfarna daga hafa flestar samgönguleiðir til Reykjavíkur teppst nema leiðin að austan um Krýsuvíkurveginn. Fyrir austan fjall er hins vegar snjólétt, og náðist mjólk af öllu svæðinu þar í gærmorgun, og voru mjólkurbílarnir komnir til bæjarins klukkan rúmlega 10 í gærmorgun og hafði ferðin gengið greiðlega og þurfti hvergi að moka á allri leiðinni. Hér innanbæjar urðu miklar samgöngutruflanir í nótt og í gærmorgun og urðu tugir bifreiða fastir í snjó víða á götunum. Á vegunum hér í kringum Reykjavík var einnig mjög mikill snjór og fyrst í gærmorgun var ófært upp að Reykjum í Mosfellssveit og upp í Mosfellsdalinn. Þó munu mjólkurbílar af Kjalarnesinu og úr Kjósinni hafa komist til bæjarins um hádegið. Hvalfjörður varð ófær í fyrradag og hefur mjólkin frá Borgarnesi komið með Laxfoss. Til Grindavíkur var einnig ófært í gærdag.

Kröpp lægð fór yfir þann 21. Alþýðublaðið segir frá 22.febrúar:

Í fárviðrinu í fyrrinótt brotnuðu 53 símastaurar á Rangárvöllum og í Landeyjum, og er nú símasambandslaust þar fyrir austan og sömuleiðis við Vestmannaeyjar. Talið er að viðgerðinni verði ekki lokið á einum degi. Á öðrum stöðum á landinu urðu engar stórvægilegar bilanir á línunni, að því er skrifstofa Landssímans tjáði blaðinu í gær, en á löngu svæði á Rangárvöllum og í Landeyjunum hefur línan margslitnað vegna ísingarinnar, sem hlaðist hefur á hana, og enn fremur hafa 33 staurar brotnað í Landeyjum og 20 staurar á Rangárvöllum, og er því algerlega sambandslaust við Vestmannaeyjar og Suðausturland. Í gær var blindhríð og stórviðri fyrir austan og ekki hægt að hefja viðgerðir, en vinnuflokkur fór þó austur með efni til viðgerðarinnar, og verður byrjað á henni jafnskjótt og veðrinu slotar. Þá er talið, að ekki verði nærri hægt að ljúka viðgerðinni á einum degi, en þó kann ,að vera, að unnt verði að koma sambandinu á áður en fullnaðarviðgerð hefur farið fram. Í dag mun þó ekkert samband verða, fyrr en þá seint í kvöld, ef viðgerðarmennirnir hafa getað byrjað í morgun.

Morgunblaðið segir 23.febrúar frá tveimur miklum þrumuveðrum sem gengu yfir Skaftafellssýslu: 

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var skýrt frá óvenjulegu þrumuveðri, sem gengið hefur yfir Skaftafellssýslur og valdið þar tjóni og á einum bæ varð elding sauðfé að bana. Þrumuveður gekk fyrst yfir dagana 18. og 19. þ.m. Náði það, að því er virtist, allt frá Hornafirði að Kirkjubæjarklaustri. Á allmörgum bæjum í Öræfum og Fljótshverfi urðu skemmdir, rafmagnsöryggi sprungu, símalinur slitnuðu, raftaugar eyðilögðust, útvarpstæki og rafmótorar urðu fyrir skemmdum og ýmsum minniháttar búsifjum olli þrumuveðrið. Í fyrradag [21.] gekk þrumuveður enn yfir. Að Kálfafelli í Fljótshverfi, laust eldingu niður í fjárhús. Drap hún tvær kindur af 12, sem í húsinu voru.

Tíminn segir einnig af þrumuveðrunum 23.febrúar:

Að undanförnu hafa mikil þrumuveður gengið yfir Skaftafellssýslur á svæðinu frá Hornafirði að Kirkjubæjarklaustri. Hafa eldingar valdið tjóni á ýmsum stöðum. Mest kvað að eldingunum í Öræfum og Fljótshverfi. Í þessum þrumuveðrum biluðu öll rafmagnsöryggi í þremur bílum á Svínafelli í Öræfum, tvö útvarpstæki biluðu að Skaftafelli og öryggi sprungu, rafmagnsvél bilaði að Núpsstað og níu símastaurar á þessum slóðum rifnuðu eða klofnuðu af völdum eldinga, sem sló niður í þá. Seint í fyrradag gerði enn þrumuveður mikið, og sló þá eldingu niður í fjárhús að Kálfafelli í Öræfum og drap tvær ær af tólf, sem þar voru inni. Þá skemmdist einnig útvarpstæki að Rauðabergi.

Og enn varð mikil ófærð þegar lægð fór hjá þann 25. Vísir 26.febrúar:

Í nótt snjóaði og skóf svo að vegir í næsta nágrenni bœjarins urðu ýmist illfærir eða ófærir. Þannig varð Suðurlandsbrautin nær ófær inn að Elliðaám og illfært til Hafnarfjarðar. Hvalfjörður lokaðist að nýju og í Mosfellssveit og á Kjalarnesi spilltust leiðir verulega. Nú er unnið að því að opna allar höfuðsamgönguleiðirnar við bæinn, bæði suður á Reykjanes, fyrir Hvalfjörð og annarsstaðar í nærsveitum bæjarins. Mjólkurflutningar hafa gengið erfiðlega og engin mjólk komin um hádegi.

Mars varð heldur skárri en mánuðirnir á undan. Veðurathugunarmenn eru þó ekki samála, en greinilegt þó að illviðri voru ekki jafnskæð. Seint í mánuðinum hlánaði talsvert og jafnvel gerði gott veður um stund.

Síðumúli: Marsmánuður þótti frekar erfiður og umhleypingasamur að veðurfari. Jörð var lengi alhvít og vegir illfærir og alveg ófærir inn til dala. Nú er tíðin mildari og betri, og jörðin að meirihluta auð hér neðra, en frammi í Síðunni, nær fjöllunum, er snjórinn mikið meiri.

Lambavatn: Það hefir verið sæmileg veðurátt. En hér hefir verið jarðlaust og jarðlítið allan mánuðinn. Fyrstu daga mánaðarins gerði hér þíðu og komu þá víða góðir hagar, en hér er svo láglent að snjórinn sem þiðnaði hljóp í krap og fraus svo allt saman. Eins var nú síðustu daga mánaðarins að töluvert þiðnaði af snjónum, en hér var sama að allt fraus svo nú er hér með verstu svellalögum sem koma. Slétt yfir allt bara á hæstu börðum sést strá upp úr svellunum.

Suðureyri: Veðrátta hæglát í mánuðinum. Fremur sjaldgæfir stormar og vestanátt, en þó eigi stormasöm. Sjógæftir með allra mesta móti og afli mjög sæmilegur.

Sandur: Tíð stóráfallalítil og lengst af mild. Snjólétt var víðast og hagar allgóðir.

Gunnhildargerði: Tíðin var köld og fremur ónæðisamt fyrir búfé til beitar, þó kalla mætti snjólétt.

Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Ísinn sem kom á Lagarfljót seint í febrúar hélst allan mánuðinn, var hann 6-9 tommur á þykkt, en var oft ótraustur því þíðviðri var af og til.

Sámsstaðir: Eins og undanfarnir mánuðir kaldur, en oftast stillt veður.

Tíminn segir 1.mars að snjólétt sé nyrðra:

Óvenju snjólétt hefir verið norðanlands upp á síðkastið. Í gær og fyrradag snjóaði talsvert á Akureyri og í Eyjafirði, en þó ekki svo, að vel fært er um héraðið og Akureyrarbæ og allt út í Höfðahverfi og til Dalvíkur. Áður en snjóa tók í fyrradag var að heita snjólaust við Eyjafjörð, aðeins föl á jörð, á sama tíma og illfært er um götur Reykjavíkur fyrir snjó. Var farið yfir Vaðlaheiði á jeppabíl fyrir nokkrum dögum, sem er óvenjulegt á þessum tíma árs, nema á harðfenni.

Morgunblaðið lýsir samgönguerfiðleikum 1.mars:

Hin óvenju miklu snjóalög hér sunnanlands, valda nú miklum samgönguörðugleikum. Í Laugardalnum hafa ferðir bíla alveg lagst niður og eingöngu notaðir sleðar og hestar. Ekki munu mjólkurflutningarnir hafa gengið öllu verr en í gær. Mjólkurbílarnir voru nær 11 klst. á leiðinni frá Selfossi.

Það mun ekki vera ofmælt, að síðan um áramót, hafi snjóað meira og minna nærri því dag hvern. Í fyrrinótt og í gærmorgun snjóaði mjög mikið hér og í fyrstu ferðum komust strætisvagnarnir ekki á áætlunartíma inn í Sogamýri og að Kleppi, er ekið var um Laugarnesveg og Kleppsveg. Einnig mun ferðin vestur á Seltjarnarnes, hafa verið erfið. Suður í Hafnarfjörð var sæmilegt. Í gærmorgun fóru póstbílarnir af stað frá Akranesi. Ráðgert hafði verið að taka farþega, en frá því var horfið, þar er búist var við að ferðin myndi sækjast seint. Var því einungis póstur sendur með bílunum og varahlutir í snjóbílana tvo, sem eru í Fornahvammi. Holtavörðuheiðin er svo snjóþung, að leiðarmerkin eru öll á kafi. Snjóbílana á að nota við flutninga yfir heiðina.

Fréttaritari Morgunblaðsins á Selfossi símaði í gærkvöldi, að svo mikill snjór sé í austursveitum, að það sé á takmörkum, að hægt sé að halda uppi mjólkurflutningum til Flóamannamjólkurbúsins. Á sunnudaginn voru mjólkurbílarnir frá Hvolsvelli 16 klst til Selfoss. Svipaða sögu er að segja um bílana, sem flytja mjólk af Skeiðunum, Hreppunum og víðar. Vegurinn frá Selfossi að Eyrarbakka, er alófær orðinn. Bragi Ólafsson, héraðslæknir á Eyrarbakka, var fimm klst að heiman frá sér að Selfossi, er hann var á leið austur á Skeið, í læknisvitjun í fyrrakvöld. Ófært er orðið fyrir nokkrum dögum að Laugarvatnsskóla og bæjanna innar í Laugardalnum, Allir flutningar til og frá bæjum þessum og skólanum fara nú fram á hestum og sleðum. Bílarnir komast ekki lengra en að Apavatni. Frá skólanum og þangað eru milli 10—15 km. Loks eru það svo mjólkurflutningarnir frá Selfossi til Reykjavíkur. Sem fyrr fara þeir fram um Krýsuvíkurveginn. Oft hafa þeir gengið erfiðlega, en aldrei eins og í gær. Mjólkurbílarnir lögðu af stað að austan um kl. 8 í gærmorgun og komu hingað um kl. 7 í gærkvöldi. Þeir voru með 25.000 lítra alls. Eins og venja er þegar lítið er af mjólk, verður hún skömmtuð í dag.

Alþýðublaðið segir einnig af snjóþyngslunum 1.mars:

Snjóþyngslin eru nú orðin geysimikil á Suðurlandsundirlendi öllu, að því er blaðinu var tjáð frá Selfossi í gær. Mestur mun snjórinn vera í Laugardalnum, og segja menn þar, að hann sé orðinn jafnmikill og snjóaveturinn mikla 1920. Eru girðingar allar í kafi í dalnum. Alger jarðbönn eru nú allsstaðar austanfjalls. Krýsuvíkurleiðin er ennþá fær alla leið austur, og annast ein ýta hreinsun á rúmlega fimm km kafla við vatnið. Ein ýta er á leiðinni þaðan til Hveragerðis, en hún lá aðgerðalaus um helgina og fram til kl.4 á mánudag, Mjólkurbílar brutust þó leiðina, og voru 25.000 lítrar sendir frá Selfossi í gær. Fyrir austan má nú heita ófært í þessar sveitir: Laugardal, Biskupstungur, Land, á Rangárvelli alla, en Hreppar og Skeið eru að lokast. Mun ætlunin að brjótast til þessara sveita með ýtum annan hvorn dag, meðan snjóþyngslin haldast. Víða er nú svo komið, að bændur treysta sér ekki með mjólkina á hestum, þar sem lengst er, vegna fannfergi.

Alþýðublaðið segir af tíð 2.mars - og erfiðleikum í flugi:

Janúar og febrúar þetta ár hafa verið hinir mestu úrkomumánuðir í Reykjavík, að því er Veðurstofan hefur skýrt blaðinu frá, og flestir bæjarbúar munu raunar hafa gert sér grein fyrir. Skýrslur Veðurstofunnar sýna, að frá áramótum hafa aðeins verið fimm dagar, þegar ekki hefur verið úrkoma, og mun það vera einsdæmi um margra ára skeið. Það leiðir af líkum, að flug hefur verið með minnsta móti þessa úrkomumánuði. Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk í gær hjá Flugfélagi Íslands, hafa flugdagar aðeins verið 12 þessa tvo mánuði, en voru 36 á sama tíma í fyrra. Í janúar voru hjá félaginu 7 flugdagar, 17 í fyrra, en flogið var með 268 farþega, 558 í fyrra. Í febrúar voru flugdagar 5, 19 í fyrra, farþegar 310, 604 í fyrra, Gullfaxi hefur frá því um áramót flutt 127 farþega milli landa, þar af 49 frá Damaskus til Caracas.

Enn varð samgönguteppa um miðjan mars, fremur grunn lægð fór austur með Suðurlandi. Morgunblaðið 16.mars:

Í norðaustanroki og snjókomu í fyrrinótt, tepptist Hellisheiðin, Mosfellsheiðin og Krísuvíkurvegur. Meðfram Kleifarvatni dró í mikla skafla og varð snjóýta að ryðja veginn. Af þessum orsökum töfðust mjólkurflutningarnir til bæjarins í gærmorgun. Hvalfjörðurinn varð og ófær, en unnið var að því að ryðja hann í gær og mun því hafa verið lokið í gærkveldi. Þá dró í skafla austast á Kjalarnesvegi og voru þeir mokaðir. Þá varð Brattabrekka í Dölum ófær, en nú nýverið var hún rudd.

Vísir tíundar ófærð 18.mars:

Ófærð er nú mikil á leiðunum frá Reykjavík og út um landið, að því er Vísi er tjáð í gær. Hellisheiði hefir verið ófær síðastliðna daga, en þar er óvenjulega mikill snjór. Í gær átti að reyna að ryðja heiðina, en hætt var við það vegna mikillar fannkomu. Krýsuvíkurleiðin var svo til snjólaus í gær, en vegurinn yfirleitt slæmur vegna bleytu. Í morgun átti bifreið að fara héðan til Akureyrar, en ferðinni er frestað vegna ófærðar. Um langt skeið hefir verið ófært bifreiðum vestur um land, en hinsvegar verður leiðin rudd er tök verða á því.

Vísir 22.mars:

Ófærð er enn mikil á vegum úti um land og hafa vegirnir spillst allmikið síðustu daga. Eru bæði Hellisheiði og Mosfellsheiði ófærar, en Krýsuvíkurvegurinn er snjóléttur og fara mjólkurflutningar fram eftir honum Leiðin norður er mjög þung og vafasamt hvort fært er, en samt lögðu áætlunarbílar Póststjórnarinnar af stað frá Akranesi í morgun.

Tíminn segir ótíðarfregnir af Snæfellsnesi 22.mars:

Frá því fyrir nýár hefir verið einstaklega snjóþungt á öllu Snæfellsnesi, svo að slík eru ekki dæmi í fjölda mörg ár. Hefir fénaður bænda staðið allur á gjöf að heita má óslitið frá því í desember. Kerlingarskarð hefir verið algjörlega ófært síðastliðin hálfan mánuð, en annars hefir verið bílfært milli Stykkishólms og Borgarness lengst af í vetur, þrátt fyrir snjóþyngslin. í viðtali sem tíðindamaður blaðsins átti í gær við Sigurð Steinþórsson kaupfélagsstjóra í Stykkishólmi eru þar nú ágætar gæftir og afli sæmilegur. Bændur á Snæfellsnesi hafa átt óvenjulegum harðindum að mæta í vetur og hefir ekki verið jafn snjóþungt á Snæfellsnesi í mörg ár og nú í vetur. Tíðarfarið hefir verið frámunalega umhleypingasamt og þó að blotað hafi öðru hvoru hefir jafnan snjóað aftur, svo að jörð hefir aldrei náð að verða auð. Er nú meiri snjór en nokkru sinni áður og snjókoma alltaf öðru hvoru. Fyrir hálfum mánuði varð vegurinn um Kerlingarskarð ófær vegna snjóa og hefir ekki þótt tiltækilegt að gera ráðstafanir svo að sú leið yrði aftur fær. Eins og áður er sagt hefir allur búpeningur bænda á Snæfellsnesi staðið inni vegna snjóanna síðan í desember og er það orðinn óvenjulega langur innistöðutími. Það sem af er þessum mánuði hafa verið góðar gæftir hjá Stykkishólmsbátum og afli sæmilegur. Í janúar var hins vegar ekki róið og sárafáir róðrar í febrúar vegna gæftaleysis.

En eystra var betra. Tíminn 25.mars:

Á Seyðisfirði hefir að undanförnu verið ágætt tíðarfar eins og viðast hvar á Austfjörðum. Á þetta þó ekki við um allan veturinn, en þó lengst af í vetur, þar til um síðustu mánaðamót, en frá þeim tíma hefir tíð verið góð. Yfirleitt hefir verið snjólétt eystra lengst af í vetur. Þó að snjóað i hafi talsvert, hefir hann aldrei legið lengi. Samt er nokkur snjór á jörðu nú, meira að segja á láglendinu við sjóinn. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær viðtal við Hjálmar Vilhjálmsson sýslumann á Seyðisfirði og spurði hann frétta að austan. Hjálmar sagði, að tíðarfar í vetur hafi verið ákaflega umhleypingasamt eystra, eins og raunar víðast hvar á landinu. En frá því um síðustu mánaðamót hefir tíðin þó verið bærileg, nema hvað nokkur snjór er, sem þó getur ekki talist mikill um þetta leyti árs. Hefir yfirleitt ekki náð að festa snjó við firðina í vetur, en meiri snjór mun þó hafa verið upp til landsins.

Lauslegt vertíðaryfirlit birtist í Tímanum 26.mars;

Landssamband íslenskra útvegsmanna hefir sent blaðinu yfirlitsfréttir um vertíðina það sem af er. Eins og sjá má af þessu yfirliti, eru einkenni þessarar vertíðar, það sem af er, stopular gæftir, slæm sjóveður og fáir róðrar. Aftur á móti virðast hafa verið miklar fiskgengdir á miðum, þótt ekki hafi notast af því sem skyldi vegna erfiðleika við sjósóknina. Það virðist þó mega slá því föstu, að vonir standi til, að þessi vertíð geti orðið sæmileg, hvað aflabrögð snertir, ef veður batnar fljótlega og fiskurinn breytir ekki vana sínum á miðunum. Hin mikla loðnugengd, sem yfirleitt hefir verið á miðunum undanfarið og spillt fyrir veiði er ekkert nýtt fyrirbrigði, en gengur yfir, ef að vanda lætur. Á þá veiðin að aukast aftur, svo allt getur farið vel.

Slide11

Ní fór mikið fyrir fregnum af inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Málið kom til afgreiðslu á Alþingi 30.mars. Þann dag var besta veður og nær heiðskírt um landið suðvestanvert (og víðar) eins og kortið hér að ofan sýnir. Afskaplega ódæmigerður dagur þennan vetur. 

Nú kom eitt hið versta vor sem menn minntust, bæði kalt og snjóþungt. Stóðu harðindin allt fram undir miðjan júní. Þegar ritstjóri hungurdiska var ungur var sífellt vitnað til þessa vors sem hins versta (ásamt 1914). Varð viðmið heillar kynslóðar - og rúmlega það - þar til vorið 1979 komst í keppnina. 

Slide12

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktarinnar (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í apríl 1949. Skiptust á norðankuldar og svellkaldur útsynningur. Veðurathugunarmenn segja frá. 

Síðumúli: Aprílmánuður var svo slæmur að veðurfari, að elstu menn muna ekki slíka tíð og snjóþyngsli svo lengi. Sauðfé, og þau hross, sem hýst hafa verið, eru enn á gjöf, sem um hávetur væri, slíkt er fágætt með sauðfé í Borgarfirði.

Lambavatn: Það hefir verið jöfn kuldatíð yfir mánuðinn og nú síðustu vikuna stórgerðir umhleypingar. Í byggð hér lítið þiðnað, því þó tekið hafi í af sól hefur fennt á það alltaf aftur. Á fjöll hefir alltaf fennt svo snjó er þar alveg óvenju mikill. Sumstaðar hér er alveg haglaust enn og er það óvenjulegt viku af sumri. Ég man aldrei hér á Lambavatni eftir að hafi verið jafnhaglaust veturinn frá nýári eins og nú í vetur.

Grímsey (Víkingur Baldvinsson): Ísinn kom fyrst 7.apríl en fór svo aftur. Svo á sumardaginn fyrsta kom hann á ný og var þangað til 26. Lóan kom hingað 16.apríl, en hvarf aftur sökum harðinda.

Sandur: Tíðarfar kalt allan mánuðinn og frosthart með köflum. Lengst af var snjólétt á láglendi en mikill snjór til heiða og hásveita. [30.cm snjódýpt þ.28. og 29.].

Hallormsstaður: Það lifnaði enginn gróður og sterkur ís hélst á Lagarfljóti.

Tíminn segir 1.apríl frá tíð í Dýrafirði:

Eiríkur Þorsteinsson kaupfélagsstjóri á Þingeyri er staddur í bænum um þessar mundir og leit inn á skrifstofu blaðsins í gær. Sagði hann að sjósókn hefði gengið erfiðlega hjá Dýrfirðingum í vetur. Róðrar hefðu byrjað seint, og gæftaleysi verið með einsdæmum, svo að varla hefði gefið nokkurn tíma á sjó í febrúar, svo að fært hafi verið út fyrir fjarðarmynni.

Morgunblaðið segir 6.apríl frá miklum frostum:

Síðustu sex sólarhringana hefur veríð norðanátt og kuldi um land allt og víða hefur snjóað, mest þó á Norðurlandi. Frost á láglendi hefur verið um 5—8 stig, en á Grímsstöðum á Fjöllum hefur það komist niður í 10 eða 12 stig. — Hér í Reykjavík hefur frostið orðið mest 7,8 stig og komst niður í það í fyrrinótt.

Undir miðjan mánuð fór að bera á hafísfregnum. Óhug sló á menn, en til allrar hamingju var meira gert úr heldur en ástæða var til. Morgunblaðið  segir 14.apríl:

Í gærkvöldi bárust Veðurstofunni hafísfréttir. Strandferðaskipið Esja, sem er á leið til Reykjavíkur frá Akureyri, sendi í gærkveldi skeyti um, að samfellt hafíshröngl væri alla leið frá Reykjafjarðarál að Horni. Er ís þessi á siglingaleið og taldi skipstjórinn hann vera hættulegan skipum að fara í gegn eftir að dimmt væri orðið. Esja hélt ferð sinni áfram óhindrað. Þá .Skýrði vitavörðurinn á Hornbjargsvita frá því í skeyti, að talsverður hafís væri í 10—15 km í norður frá vitanum.

Páska bar upp á 17.apríl og sumardaginn fyrsta 21.apríl Á milli þeirra gerði útsynning af allra kaldasta tagi. 

Slide13

Kortið sýnir veðrið kl.18 síðdegis þriðjudaginn 19.apríl. Frost er í vestanáttinni um nær allt land - eins og um hávetur. 

Slide14

Háloftakortið sýnir hreint óvenjulega öfluga kalda lægð við austurströnd Grænlands. Ritstjórinn man ekki eftir slíku á þessum tíma - nema sárasjaldan, helst þá 1990. 

Slide15

Og daginn eftir gekk á með dimmum hríðaréljum suðvestanlands. Morgunblaðið segir frá á sumardaginn fyrsta (21.apríl):

Í vestanofviðri og iðulausri stórhríð urðu um 300 ferðamenn að láta fyrirberast í bílum í allt að níu klst í fyrrakvöld og nótt. Bílalest þessi var aðeins í um kílómetersfjarlægð frá Kolviðarhóli, en vegna veðurofsans og fannkomu, var ekki nema á færi hraustustu manna að brjótast heim að Kolviðarhóli. Í fyrradag fóru allmargir bílar héðan úr bænum og ætluðu flestir þeirra austur yfir Hellisheiði, en fyrri hluta dags var heiðin sæmilega fær stórum bílum. Auk þess lögðu nokkrir bílar af stað áleiðis til Reykjavíkur. Um klukkan 4 um daginn tók veður að spillast og fóru menn þá að hugsa til heimferðar, er staddir voru á Kolviðarhóli. Líklega munu þá um 20 bílar, þar á meðal nokkrir stórir almenningsvagnar, hafa verið á Kolviðarhóli. þegar lagt var af stað til Reykjavíkur. Skammt höfðu bílarnir farið, er svo óheppilega vildi til. að mjög stór bíll, sem fór fyrir lestinni brotnaði. Ekki var hægt að komast fram hjá honum og stöðvaðist því öll lestin. Þegar tekist hafði að gera við bílinn, en það tók um tvo tíma, var komin grenjandi stórhríð og stórviðri af vestan. Var veðrið svo óskaplegt, að allur fjöldinn varð að láta fyrirberast í bílunum, og giskað er á að alls hafi þeim verið um 300 manns. Iðulaus stórhríð hélst alla nóttina. Um kl. 2 kom stór snjóýta neðan úr Svínahrauni og fór hún upp fyrir bílalestina, en sneri síðan við. Um kl.4 í fyrrinótt var ýtan komin fram fyrir fyrsta bílinn og var þá lagt af stað til Reykjavíkur. Farið var þá að draga af mörgum og var líðan fólksins af eðlilegum ástæðum ekki sem best. Fólkið rómaði mjög dugnað snjóýtustjórans og bílstjóranna, sem sýndu mikinn dugnað og reyndu að halda fólkinu í góðu skapi, með að láta brandara fjúka. Eftir að ýtan lagði af stað, á undan lestinni, gekk ferðin allvel til Reykjavíkur, en bílarnir komu til bæjarins eftir þriggja klukkustunda ferð, eða um klukkan 7 í gærmorgun. Hafði fólkið þá setið í bílunum um 12 klst. samfleytt.

Tíminn segir frá sama veðri 21.apríl:

Í fyrradag gerði versta veður víða um land, með stormi og snjókomu. Urðu af því ýmis samgönguvandræði og bifreiðar, sem voru á leið yfir Hellisheiði, lentu í miklum hrakningum, og fólk var á leiðinni yfir heiðina alla nóttina. Jarðýtur fóru til aðstoðar bílunum á Hellisheiði og reyndu að ryðja frá þeim eða draga þá yfir verstu torfærurnar. Mjög djúp snjógöng eru nú víða á heiðinni og fyllir þau fljótt, þegar hvasst er og snjókoma. Fólk það, sem var á leiðinni austur, kom ofan í Hveragerði um klukkan 6 í gærmorgun, en það, sem var á leið til Reykjavíkur, kom þangað kl. 7—8. Nokkrar bifreiðar varð þó að skilja eftir á heiðinni og þar á meðal fjóra mjólkurbíla. Eru ekki líkur til, að hægt verði að ná þeim fyrr en hlánar eða vegurinn hefir verið ruddur, en heiðin er nú gersamlega ófær.  Krýsuvíkurvegurinn eða Mosfellsheiði voru ekki farnar í fyrradag vegna þess, að þær leiðir voru taldar nær ófærar, aðallega vegna aurbleytu. Í gær var Krýsuvíkurvegurinn hins vegar farinn aftur og voru bifreiðar hálfa fimmtu klukkustund þá leið. Er aurbleytan mest á Selvogsheiði. Bílar komust norður yfir Holtavörðuheiði við illan leik í fyrradag og fóru með fólkið til Skagastrandar, því að ófært var i Skagafjörð.

Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Veturinn hefir verið mjög slæmur í Vestur-Skaftafellssýslu sem víða annars staðar, og fannfergi mikið. Hefir ekki verið fært á bifreiðum austur yfir Mýrdalssand síðan um nýár og eru líkur til, að skortur fari að verða a vörum þar eystra, þar sem engir flutningar hafa átt sér stað síðan um jól. í Skaftártungu er fannfergið einna mest og hefir verið innistaða þar síðan í janúar. Undanfarna daga hefir verið hið versta veður þarna eystra og fer útlit að verða alvarlegt, ef ekki skiptir um tíð hið fyrsta. Í Skaftártungu, sem venjulega er snjólétt og gjafmild sveit, hefir fannfergið verið geysimikið og innistaða síðan um hátíðir. Hafa bændur nú mjög gengið á heyjaforða sinn og má búast við heyskorti þar, ef ekki skipast. um tíðarfarið bráðlega. Ófært hefir verið austur yfir Mýrdalssand síðan um nýár og er nú svo komið, að hætta er á alvarlegum vöruskorti þar eystra, ef lengi verður ófært enn.

Alþýðublaðið sömuleiðis 21.apríl:

Allir fjallvegir á Suður- og Vesturlandi eru nú ófærir vegna snjóa, og hafa verið það meira og minna frá því fyrir páska. Hefur snjókoman undanfarna sólarhringa verið ódæma mikil, og muna menn ekki eftir jafnmikilli snjókomu um þetta leyti árs, og telja aldrei hafa verið annan eins snjóa vetur á þessari öld, og í vetur.

Næstu vikuna rúma bar nokkuð á hafísfréttum. Við látum eftir okkur að líta á þessar fregnir. 

Morgunblaðið segir frá 23., 26. og 27. apríl:

[23.] Í gær bárust Veðurstofunni fregnir af hafís frá Hrauni á Skaga, Siglufirði og Kálfshamarsvík. Frá Hrauni sáust hafísjakar skammt undan landi og nokkrir jakar voru orðnir landfastir. Í skeytinu frá Siglufirði var skýrt frá því að hafísjakar hefðu sést bæði djúpt og grunnt og væru þeir á siglingaleið. Í gærkvöldi kl.6 kom svo skeytið um hafíshroða út af Kálfshamarsvík og var hann á reki inn í víkina. — Um hve mikinn ís var að ræða, gátu menn þar ekki áttað sig á, sakir þess hve dimmt var vegna snjókomu. — Í gærkvöldi sást frá Hofsósi hafís á reki inn Skagafjörð.

[26.] Hafíshroði og ísspangir eru nú á reki fyrir öllu Norðurlandi alla leið vestur fyrir Horn og suður og vestur fyrir Rit. Víða á Hornströndum er jakastangl alveg uppi í flæðarmál, en rétt undan virðist ísinn vera þéttari. Grímsey var í gær umflotin hafíshroða og norður af henni er sagður vera mikill rekís. Ekki hefur hafísinn valdið neinum töfum á siglingum skipa, að því er frést hefur.

[27.] Eftir fregnum að dæma í gær virðist enn vera allmikill ís fyrir öllu Norðurlandi. Ísinn hefir þó ekki enn orðið landfastur svo vitað sé og ekki teppt siglingleið. Kl.9 í gærmorgun barst Veðurstofunni skeyti frá Skjaldbreið. þar sem sagt var, að talsverður sundurlaus ís væri á siglingarleið frá Ingólfsfirði til Kögurs, þéttastur út af Geirólfsgnúpi og Horni. Annað skeyti barst Veðurstofunni kl.10 í gærmorgun frá Hvassafelli. Þar var sagt að strjálir ísjakar væru frá Eyjafirði að Hraunhafnartanga og að allþétt ísbreiða væri norðvestur af Rauðanúp. Var þaðan að sjá samfeldur ís í norður.

Tíminn ræðir hafís og nefnir breytt viðhorf til hans 27.apríl:

Tíðindamaður blaðsins átti í gær tal við Ólaf Einarsson, bónda á Þórustöðum í Bitrufirði, en hann er staddur hér í bænum þessa daga. Harðindi hafa verið mikil í Strandasýslu í vetur, og hefir að mestu verið innistaða síðan í byrjun desember. Bændur eru þó vonum fram heybirgir, þótt ekki sama tíðarfar standi langt fram á sumar, ef vel á að fara. Annars langar unga fólkið að sjá hafísinn og hlakkar hálft í hvoru til komu hans. Það er nú orðið svo langt síðan hafís hefur orðið landfastur, að upp er vaxin kynslóð ungs fólks sem ekki hefir séð hafís svo að nokkru nemi og hlakkar nú til að sjá þennan „landsins forna fjanda“ sem feður þeirra og mæður óttuðust flestu meira fyrr á árum.

Frá fréttaritara Tímans í Húsavík. Ís hefir ekki sést inn í Skjálfandaflóa enn sem komið er, að því er fréttaritarinn í Húsavík tjáði blaðinu í gær. Í Mývatnsveit hefir þó verið nokkuð snjóaþungt en aftur sæmilega snjólétt fram í Bárðardal. Vetrarríki hefir aftur verið mikið í Norður-Þingeyjarsýslu einkum í uppsveitum.

Nútímatækni (flugvélar) gerði mönnum nú kleyft að kanna útbreiðslu íssins. Ríkisstjórnin fór einnig að huga að mögulegum alvarleika málsins. Morgunblaðið 29.apríl:

Sérfróður menn verða sendir í flugvél til að kanna hafísinn. sem verið hefur á reki úti fyrir Norðurlandi að undanfornu. Markmið leiðangursins er að kanna hve mikil hafþök séu fyrir Norðurlandi, þannig að hætt sé við að ís reki snögglega upp að ströndinni, ef vindstaðan breytist þannig að hún þrýsti ísnum suður á bóginn. Komi í ljós að sjálf ísbreiðan sé skammt undan, mun og hætta á að hún kunni að koma upp að landinu og valda hafnbanni, mun ríkisstjórnin hafa í huga að grípa til nauðsynlegra ráðstafana varðandi birgðaflutninga til þeirra hafna, sem hætt er við að ísbreiðan myndi loka.

Maímánuður varð afburðakaldur og óhagstæður með endurteknum hríðarveðrum. Hríðin undir lok mánaðarins var þó óvenjulegust. Snjódýpt varð þá svipuð á fáeinum stöðum norðanlands eins og á vetri - og nýsnævi í mörgum tilvikum. Aðeins þremur árum síðar gerði einnig mikið hret í maílok (sjá gamlan hungurdiskapistil). Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Maímánuður var nístandi kaldur og bætti lítið upp fyrirrennara sinn, aprílmánuð. Samt er hér á láglendi að kalla má auð jörð, en lítið grær fyrir skepnurnar. Víðast er allt fé hýst og gefinn mikill matur, og þar sem hey er til, er það líka gefið. Sauðburður er langt kominn. Í hlaðvarpa sést aðeins grænn litur. Heyleysi er víða, en einstöku bóndi er svo heybirgur að geta hjálpað þeim nauðstöddu. Gamlir menn muna ekki slíka tíð hér. Á fjöllum og hálsum eru miklar fannaþiljur, en þær minnka fljótt, ef þíða helst og sólfar.

Lambavatn: Það hefir verið óslitin kuldatíð yfir mánuðinn og seinni hlutann alltaf úrkomulaust og stöðugt frost að nóttinni vo gróður hefir ekkert lifnað og því nál sem kom undan klakanum dáið og skrælnað.

Sandur: Tíðarfar var óvenjulega kalt og hretviðrasamt. Stórhríðarhryðjur gerði tvisvar, þ.3.-6. og frá þ.22 og út mánuðinn. Var sú seinni langtum verri með dæmalausu fannfergi. Féllu þá farfuglar hrönnum saman. Á milli hríða var jörð flekkótt af gaddi, freðin og gróðurlaus með öllu. Ís lá á stöðuvötnum allan mánuðinn. [30. snjódýpt 55 cm]. 

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Einn sá versti maímánuður sem hér hefur komið. Sérstaklega er það í frásögur færandi að allar ær skuli standa inni 5 síðustu daga mánaðarins.

Tveimur árum síðar (1951) birtist sagan „Á vordægrum“, eftir Þórodd Guðmundsson frá Sandi í Tímariti þjóðræknisfélags Íslendinga. Hún virðist fjalla um tíðarfar á Sandi vorið 1949.

Morgunblaðið ræðir hafís 1.maí - og rifjar upp síðustu stóru hafískomu að vorlagi (1915):

Sé hafísinn það mikill norður í hafinu, að hætta sé á, að firðir fyllist, þá getur slíkt átt sér stað hvenær sem er fram að fardögum. Árið 1915 fylltist t.d. Eyjafjörður af ís á einni nóttu, aðfaranótt 1.júní eins og menn muna, og kom þá mjög að óvörum, því vor hafði verið gott fram til þess tíma. En eftir því sem ísinn rekur upp að landi seinna á vori, eftir því er hættara við, að hann staðnæmist. Enda var ís það sumar fyrir Norðurlandi fram í ágúst, og tíðarfarið eftir því. Í blaðafregn frá vestanverðu Norðurlandi, sem eitt af Reykjavíkurblöðunum flutti fyrir nokkrum dögum, er frá því skýrt, að unga fólkinu þar um slóðir leiki nokkur hugur á, að fá tækifæri til að sjá og kynnast hafísnum. Því þeir sem ungir eru, þekki það náttúrufyrirbrigði aðeins af afspurn. Það hefði þótt einkennilegt til frásagnar um síðustu aldamót ef norðlensk æska hefði litið til þess með nokkrum snefil af tilhlökkun, að sjá þann „landsins forna fjanda“ koma upp að landinu. En svona geta tímarnir breyst og mennirnir með.

Tíminn segir af stöðunni í Árnessýslu 4.maí:

Snjóþungt er enn i efstu sveitum Árnessýslu. Eiríkur bóndi í Vorsabæ á Skeiðum leit inn til Tímans í gær og kvað hann fannir mjög miklar í uppsveitum þar eystra ennþá. Væri öll jörð þakin af fönn á efstu bæjum og alger innistöðugjöf síðan í desember. En einmitt á efstu bæjunum til fjallanna er vant að vera beit góð og oft lítið gefið. Bændur þar úr efri byggðunum væru allmikið farnir að fá hey neðan úr Flóa og flytja til sín. til að reyna að bjarga búpeningnum. Í lágsveitunum væri orðin alauð jörð, kvað Eiríkur.

Og á Ísafirði og Norðurlandi Tíminn 5.maí:

Undanfarið hefir verið hríð á Vestur- og Norðurlandi. Hefir orðið að ryðja göturnar á Ísafirði með jarðýtu og í gær var skafrenningur á götunum á Akureyri og víða hríðarveður á Norðurlandi. Fyrir fáum dögum var mokað af veginum i ofanverðum Norðurárdalnum í  Borgarfirði, svo að bílfært varð upp að Fornahvammi. En í gœr skóf svo mikið í brautina, að ill- eða ófært varð bifreiðum. Skafrenningur var víða í fjallabyggðum í gær og eru harðindin að verða ískyggilega langvinn og erfið.

Vísir segir 6.maí frá sérkennilegum flugleiðangri:

Svo sem Vísir greindi frá gær, var Douglas-vél Loftleiða, Helgafell, send austur í Grafning með birgðir til bóndans að Nesjum. Vélin fór frá Reykjavik laust fyrir klukkan ellefu í gærmorgun með tvær smálestir af heyi, fóðurbæti og matvælum og var komin austur að Nesjum stundarfjórðungi síðar. Gekk.greiðlega.að varpa flutningnum út úr vélinni, en það tók um hálfa klukkustund. Flugvélinni var rennt nokkrum sinnum yfir bæinn og í hverri atrennu var nokkrum heypokum varpað útbyrðis. Bóndinn að Nesjum vissi ekki um, að birgðir þessar væru væntanlegar, þar sem enginn sími er á bænum, en sá fljótlega hvers kyns var og tók til óspilltra málanna að safa því saman, sem varpað var úr flugvélinni. Sást til hans úr Helgafelli með sleða á fleygiferð um nágrennið. Bóndinn að Nesjum var orðinn heylaus, átti aðeins hey til dagsins í gær. Kom sér mjög vel fyrir hann að fá þessar birgðir eins og að líkum lætur. Hefir hann á fóðrum um 200 fjár og marga nautgripi og besta og vegna fannkyngi eystra hefir orðið að gefa gripum þessum i allt vor. Er öllum birgðunum hafði verið varpað úr flugvélinni var snúið við og haldið til bæjarins. Lenti Helgafell kl.12 á Reykjavikurflugvelli og hafði ferðalagið þá tekið röska klukkustund. Þetta var i fyrsta sinn, sem slíkum birgðum og þessum er varpað úr flugvél hér á landi, en oft áður hefir þurft að grípa til þess ráðs erlendis, þegar harðindi hafa barið að dyrum. Í sambandi við.þessa ferð má geta þess að er flogið var yfir Hellisheiði sást hvergi á dökkan díl sökum fannkyngi. Eins var mikill snjór umhverfis Þingvallavatn og vatnið var ísi lagt, en sumstaðar voru litlar vakir á því.

Tíminn segir 6.maí af rafmagnsskorti á Ísafirði:

Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Hér er Stöðug ótíð, norðan- og norðvestanátt með snjókomu eða slyddu síðan fyrir páska, svo að snjór er nú með meira móti, og er lítið hægt að fara um nema á skíðum. Gæftir hafa engar verið, en þó hafa bátar úr Hnífsdal og Bolungavík farið á sjó en afli er tregur. Heyforði bænda gengur nú mjög til þurrðar, og hafa forðagæslumenn verið á þönum við mælingar og að fastsetja allt hey, sem fáanlegt er. Og hafa nú hreppsnefndir sett bann við sölu á heyi, hver úr sínum hreppi. Hér á Ísafirði er nú mjög mikill rafmagnsskortur, svo til stórra vandræða horfir. Rafmagn var skammtað frá því í desember þar til í febrúar en þá gerði dálítinn hlákublota og hækkaði nokkuð í Fossavatni og Nónvatni og var þá skömmtun afnumin, og því borið við að hún væri rafveitunni of kostnaðarsöm. Hinn 1.apríl var skömmtun tekin upp að nýju og 3. þ.m. þraut Vatnsforðinn alveg svo að ísfirðingar hafa ekki annað rafmagn en 1 klst um hádegið og annan um 8-leytið á kvöldin.

Tíminn lýsir 7.maí tíðarfarið á Snæfellsnesi:

Vestur á Snæfellsnesi hefir veturinn í vetur verið með þeim illviðrasömustu og hörðustu í manna minnum, eins og reyndar víða. Enda er nú komið svo að víða er orðið heylítið, og hafa bændur á fjallajörðum á sunnanverðu nesinu gripið til þess ráðs að flytja sauðfé sitt til beitar á jörðum, sem eru við sjóinn, þar sem beit er að finna. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær viðtal við Þórð Ólafsson bónda og kennara að Ölkeldu í Staðarsveit og spurði hann frétta að vestan, en hann er alveg nýkominn til bæjarins. — Við urðum fyrir vonbrigðum á dögunum, þegar við héldum, að vorið væri að koma. Hlýindi héldust aðeins í tvo daga, en þá gekk aftur til norðanáttar og meiri kulda. En annars hefir að heita má verið hin mesta ótíð allt frá því um hátíðar í vetur, segir Þórður. — Öðru hvoru hefir hlaðið niður miklum snjó, en þess á milli hefir blotað, sem þó aðeins hefir orðið til þess að þétta klakann og gera harðindin ennþá meiri. Í Staðarsveit er talsverður klaki á jörð, svo að hagar eru víðast hvar litlir sem engir. Verst er ástandið þó á þeim jörðum, sem mest eru til fjalla, því þar er viða um algert hagleysi að ræða.

Fólk á Snæfellsnesi, það sem er um og yfir tvítugt man ekki jafn harðan vetur, og eldra fólk varla heldur. Frostaveturinn mikli 1918 var að vísu harður og harðari en nú; en þá voraði fyrr. Þá breytti um í annarri viku sumars, en nú er komið fram i þriðju viku sumars, og norðangarður og kuldi um land allt.

Vísir greinir 9.maí frá niðurstöðum ískönnunarflugs:

w-1949-iskort

Í fyrradag var farið norður fyrir land á Katalínuflugbát til þess að athuga hafísinn. Hafði rannsóknarráð ríkisins forgöngu um ferðina, og var Pálmi Hannesson fararstjóri. Meginbrún íssins er um 70 km. norður af Horni á mjög svipuðum slóðum og venjulegt er í aprílmánuði. Þaðan hallar ísbrúninni í norðaustur og virðist hún nokkru dýpra út af Skagatá en í meðalári. Milli ísbrúnarinnar og lands er dreifður rekís, mjög strjáll næst landinu (jakastangl), en mun þéttari er utar dregur (íshroði). Vestur af Kögurnesi var sjór hreinn og íslaus og' mun vera íslaust á djúpmiðum út af Vestfjörðum. Myndin hér að ofan sýnir legu íssins í aðalatriðum, en þó hefur ekki verið fyllilega unnið úr þeim athugunum, sem gerðar voru. Þríhyrningalínan á að sýna, hvar ísbrúnin liggur að jafnaði í aprílmánuði. Hefur Jón Eyþórsson gert myndina og leyft Vísi að birta hana.

Morgunblaðið ræddi hafísinn almennt 8.maí við Jón Eyþórsson í kjölfar ískönnunarflugsins:

Er Morgunblaðið  átti tal við Jón Eyþórsson um niðurstöður þessara athugana [ískönnunarflugsins] komst hann m.a að orði á þessa leið: Að sjálfsögðu hafa menn ekki greinilegar fréttir af því hvernig hafísinn hagaði sér áður, en hann rak upp að landinu og inn á firði, hér fyrr á árum. En af þeim athugunum, sem til eru á ísreki hér fyrir norðan land, og skýrslur eru til um, verð ég að telja að suðurrönd hafíshellunnar sé nú ekki nær landinu en hún hefur verið að meðaltali á því tímabili, sem veðurfræðin nær yfir. En að sjálfsögðu, má ætla, að stundum á hlýviðristímabilum síðastliðna tvo áratugi hafi ísröndin verið norðar um þetta leyti árs, en hún er nú. Að þessu athuguðu er ekki ástæða til að ætla, að yfirvofandi hætta sé á að ísinn reki inn á firði. En vitaskuld er ekki hægt að fortaka neitt um það, ef svo illa skyldi vilja til að þrálát norðvestan átt yrði hér á landi næstu vikur. En hitt er það, að vel getur hið strjála hafíshröngl, sem nú er fyrir Horni og Hornströndum rekið inn á firði og borist austur með landinu. En það ísmagn er svo lítið, að það getur ekki út af fyrir sig valdið neinu meini.

Vísir segir 11.maí frá flóði í Norðurá í Borgarfirði - en ekki varð mikið úr (vegna kulda):

Í gær bárust fregnir um þó hingað til bæjarins, að vöxtur allmikill mundi hafa hlaupið í Norðurá, og væri hún farin að flæða yfir veginn, og horfði óvænlega um umferð á hann, ef áframhald yrði á mikilli úrkomu. Vísir átti tal við Sverri bónda Gíslason í Hvammi í morgun, en hann var þá staddur í Fornahvammi. Kvað hann ána hafa vaxið talsvert, einkanlega s.l. mánudag og hefði hún flætt yfir veginn nálægt Dalsmynni og Hvassafelli. Þar var Vísi tjáð að farið væri að sjatna í ánni aftur og ekki hægt að segja að um neina teljandi vatnavexti væri að ræða. Nokkuð mikill snjór er í dalnum, sagði Sverrir Gíslason. Veturinn var harður og erfiður, og einkum ollu hagleysurnar erfiðleikum. Það væri fyrst nú, að sauðfé væri farið að fá fylli sína í haga.

Tíminn segir 12.maí frá hagstæðri tíð í gróðurhúsum:

Mikið hefir verið rætt um harðindi víða á landinu að undanförnu og flestum staðið ógn af þeim. Nú hefir brugðið til betri tíðar, og vonandi eru harðindin að mestu úr sögunni að þessu sinni. Við eina grein landbúnaðarins hefir þetta harðindatíðarfar þó ekki reynst mjög óhagstætt, að minnsta kosti hér sunnan lands, en það er við gróðurhúsaræktina. Þótt veðurhörkur hafi verið, hefir verið sólríkt sunnanlands og gróðurhúseigendur eru ekki óánægðir með árangurinn af gróðurhúsaræktinni í vor. Tíðindamaður blaðsins átti tal við bónda úr Biskupstungum i fyrradag, en þar eru nú að líkindum flestir gróðurhúsaeigendur i einni sveit á Íslandi. Sagði hann, að veðráttan hefði reynst gróðurhúsaræktinni hagstæð þar og væri útlit gott í þeim efnum.

Morgunblaðið fylgdist með ótíðinni:

{14.] Á Siglufirði var í gær [13.] blindhríð og hvassviðri, svo ekkert var hægt að vinna úti. — Var hríðin svo svört að vart mátti sjá milli húsa. Allmörg skip leituðu hafnar á Siglufirði gær vegna veðurs.

{16.] Á föstudaginn [13.] var náði norðanáttin sér upp enn, og gerði hríð á norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi allt til Austfjarða. Frost var þó ekki mikið. Það hret helst enn þegar þetta er skrifað. — Samkvæmt fregn, sem kom til Veðurstofunnar frá skipi, sem var nokkuð vestur af Grímsey, var ísinn þá sem svaraði 25 km norður af Sauðanesi vestan Siglufjarðar. Og í dag sést til hans frá Hrauni á Skagafirði.

{17.] Síðdegis á sunnudag barst Eimskipafélagi Íslands skeyti frá skipstjóranum á „Goðafossi“, en skipið var þá á leið frá Horni inn Húnaflóa, þar sem sagt var að ís væri svo mikill út af Óðinsboða, að hann taldi ekki vera hægt að halda ferð þess áfram austur með landinu til Akureyrar. Virtist ísinn vera óslitinn eins langt út og séð var, en fyrir innan hann voru grynningar það miklar, að skipstjórinn taldi leiðina ekki örugga. Var því snúið við, haldið fyrir Horn aftur og suður og austur fyrir land til Akureyrar. Þótt nokkuð hafi orðið vart við ís fyrir norðurströndinni á þessu vori, er þetta í fyrsta sinn sem siglingarleið teppist svo, að skip hafi orðið að snúa við af völdum hans.

{20.] Í gær fékk Skipaútgerð ríkisins flugvél sem stödd var á Ísafirði, til þess að fljúga norður fyrir Strandir til athugunar á hafísnum, og komust flugmennirnir að raun um, að siglingaleið norður fyrir Strandir mundi þá vera algerlega ófær stórum skipum.

{26.] Útlit er nú orðið mjög uggvænlegt í fóðurbirgðamálum í mörgum sveitum landsins. Undanfarna, daga hefur víða verið snjókoma á Norðurlandi og Vestfjörðum. Eru bændur víða að verða uppiskroppa með hey, en sauðburður stendur nú sem hæst. Ef ekki bregður fljótlega til betri veðráttu má búast við vaxandi vandræðum af völdum fóðurskorts, þótt ekki sé líklegt að til fellis komi á fénaði.

Slide16

Aðfaranótt 25. maí kyngdi niður snjó í Vestmannaeyjum þannig að um morguninn mældist snjódýptin á Stórhöfða 20 ca. Þessarar snjókomu varð ekki vart í Vík í Mýrdal - eða annars staðar á Suðurlandi svo fréttir bærust af. Trúlega hefur hér verið um staðbundinn éljabakka að ræða. Þessa nótt var frost um nær allt land. Árið áður hafði kaffennt á Stórhöfða í byrjun maí (sjá gamlan hungurdiskapistil).

Næstu daga herti á norðanáttinni. Allmikil lægð var fyrir austan land, en hæð yfir Grænlandi. Mikið hríðarveður gerði um mikinn hluta landsins. Síðdegis föstudaginn 27. náði snjókoman til Suðvesturlands og varð þá alhvítt í Reykjavík um stund - en eftir snjóhuluathugun morgunsins. Daginn eftir, þann 28. var jörð enn flekkótt á athugunartíma. Snjór hefur aldrei legið á jörðu í morgunathugun svo seint að vori allan þann tíma sem snjóhula hefur verið athuguð í Reykjavík (frá 1821). Snjó hefur fest síðar, en ekki á athugunartíma. 

Slide17

Kortið sýnir stöðuna síðdegis 27.maí þegar hríðin var hvað útbreiddust. Hún hélt svo áfram fyrir norðan. 

Morgunblaðið segir frá 28.maí:

Í gær var snjókoma um land allt, nema í Skaftafellssýslum og sunnan til á Austfjörðum. Iðulaus stórhríð var á norðanverðum Vestfjörðum og á Norðurlandi. Á Siglufirði var snjóþófið svo mikið, að ekki sást á milli húsa. Á Ísafirði gerði veginn út í Hnífsdal ófæran. Þangað er venjulega 10 mín akstur, en vegurinn liggur allur meðfram sjónum. Á Vestfjörðum var frostið 1 stig, svo og víða í uppsveitum norðanlands. Annars staðar var hitinn um frostmark. Talsverð veðurhæð var samfara snjókomunni Mest mældist hún á Keflavíkurflugvelli, 10 vindstig. Hér í Reykjavík voru 8 vindstig árdegis í gær.

Háspennulínan frá Sogi bilaði í gærkveldi. — Það var skömmu eftir að krapahríðina gerði um kl.4 að tók að bera j á truflunum á rafmagninu. Kl. rúmlega 6 bilaði háspennulínan og voru hin ýmsu hverfi bæjarins rafmagnslaus í allt að tvær klst.

Vísir segir einnig frá sama dag, 28.maí:

Snjókoma var víðast um landið, mest á Norðurlandi og einnig á Vestfjörðum og Austurlandi. Talsverð snjókoma var og hér á Suðurlandi og i nærsveitum Reykjavikur varð jörð nær því alhvít á skömmum tíma. Útlit er fyrir, að norðanáttin haldist enn i dag. Snjóþyngsli eru nú mikil á Norðurlandi og jarðbönn víðast hvar. Hafa bændur orðið að gefa fé sínu inni eiginlega í allt vor og eru nú heybirgðir þeirra á þrotum. Sauðburður stendur nú sem hæst og munu einhver brögð hafa verið að því að lömb hafi króknað i kuldanum, en bændur reyna yfirleitt að gefa fé sínu inni eftir því sem tök eru á. Enginn gróður er enn svo heitið geti, enda þótt maímánuður sé senn liðinn, en þrátt fyrir það má gera ráð fyrir, að gróðurinn komi fljótt þegar tíð batnar og hitnar í veðri. Í gær var stórhríð til fjalla í Borgarfirði. Bændur víðast í Borgarfirði eru nú orðnir heylitlir.

Þrír áætlunarbílar frá póststjórninni fóru frá Akranesi i gærmorgun og ætluðu til Akureyrar, en komust ekki lengra en í Fornahvamm vegna illveðurs og ófærðar. Iðulaus stórhríð geisaði í allan gærdag og varð vegurinn yfir heiðina ófær á nokkrum klukkustundum, enda var hríðin svo mikil sem um hávetur væri. Um sextíu manns voru í áætlunarbílum póststjórnarinnar og hafðist fólkið við að Fornahvammi, en nokkur hluti þess var fluttur niður á Akranes eða Borgarnes, þar sem eigi var hægt að hýsa allan þenna fjölda að Fornahvammi. Í gærmorgun fór bíll á vegum póststjórnárinnar úr Hrútafirði til þess að athuga veginn yfir Holtavörðuheiði. Komst sá bíll aðeins suður að Miklagili, varð þá að snúa við vegna illveðurs og slæmrar færðar. Ekki hægt að beita ýtum vegna illveðurs. Snjóýta er til taks í Fornahvammi og mun ráðast í að ryðja áætlunarbílunum leið þegar óveðrinu slotar, en í gær var veður svo slæmt, að ekki var viðlit að senda ýturnar af stað til þess að ryðja veginn. Í gær tepptist einnig vegurinn um Bröttubrekku vestur í Dali. Var sama óveðrið á þeim slóðum og efst í Borgarfirði, ekki viðlit að senda ýtur til þess að ryðja veginn. Ekki er vitað um að bílar séu fastir á leiðinni vestur í Dali. Mikið snjóaði á Hellisheiði í gær, en heiðin mun þó enn vera fær bifreiðum, en hins vegar mátti búast við, að hún yrði seinfær í nótt og morgun ef snjókomunni linnti ekki. Mikill snjór var fyrir á Hellisheiði og á köflum voru gríðarmiklar snjótraðir við veginn.

Það mun vera einsdæmi hér á landi, að minnsta kosti nú á seinni árum, að slík óveður hafi geisað síðustu dagana í maímánuði.

Tíminn 28.maí:

Tvo síðustu daga hefir verið illviðri, kuldi og snjókoma um allt land að heita má. Kemur þetta hret sér ákaflega illa einkum fyrir bændur, þar sem sauðburður stendur nú víðast sem hæst og er sums staðar langt kominn. Er fénaður er viðast í húsum, en sums staðar hafði fé þó verið sleppt fyrir þetta áhlaup. Norðan lands og vestan hefir snjóað allmikið í gær og fyrradag en á Suðurlandi snjóaði dálítið í gærdag. Í Reykjavík snjóaði til dæmis svo mikið síðdegis í gær, að krapaelgur varð á götum bæjarins, en víðast hvar snjóaði enn meira. Mest mun snjókoman hafa verið fyrir norðan og vestan, en þar mun víða hafa fallið ökklasnjór og meira þessa tvo daga. Á Ströndum var í gær mikil snjókoma. Þegar tíðindamaður blaðsins átti viðtal við Jónatan Benediktsson á Hólmavík síðdegis í gær, var þar kafaldshríð, svo varla sást út úr augum og ökklasnjór á götunum í þorpinu. Hafði þá verið öðru hverju kafaldshríð með frosti síðustu tvo sólarhringana. Ekki var með öllu haglaust sunnan til á Ströndum en á Norður-Ströndum og víða á Vestfjörðum er haglaust, jafnvel þó að sæmileg veður væru. Á Vestfjarðakjálkanum hefir búfénaður nú að heita má staðið inni í hálft ár, eða 26 vikur þar sem innistöðurnar hafa verið lengstar. Á Ströndum urðu bændur að taka allan búpening í hús um miðjan desember, og síðan hefir verið um algjöra innistöðu að ræða viðast hvar. Þar sem blaðið hafði fregnir af Norðurlandi var um svipaða veðráttu að ræða og fyrir vestan. Í gær var til dæmis mikil snjókoma í Húsavík og ökklasnjór á götum þar en meiri snjór til sveita.

Tíminn segir af samgönguerfiðleikum í hríðinni 29.maí:

Í hríðarveðrinu í fyrradag tepptust fjallvegir vegna snjóa. Til dæmis varð sextíu manns veðurteppt í Fornahvammi, þar sem vegurinn yfir Holtavörðuheiði hafði lokast þá um daginn en fólk þetta var á leið norður í land. Dvaldi fólkið i Fornahvammi i fyrrinótt, en i gærmorgun var komið kyrrt veður og þá farið að ryðja snjónum af veginum með ýtu. Hafði tekist að gera fært nokkuð upp í heiðina. Áttu áætlunarbílarnir að aka fólkinu þangað þá síðdegis og síðan átti að flytja fólkið yfir ófærðina á snjóbílum en fyrir norðan heiði biðu aðrir langferðabílar til að taka við fólkinu.

Vísir segir enn af illviðrinu 30.maí:

Í gœr var norðan átt um land allt með mikilli fannkomu á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Sumstaðar var stórhríð, eins og t.d. á Siglufirði. Mikið hefir snjóað þar undanfarna daga og er mikill snjór á götunum svo illfært er fyrir bifreiðar. Í fyrrinótt gerði mikla stórhríð með tveggja stiga frosti á Akureyri. Er talið, að hríð þessi hafi verið ein harðasta og mesta, sem komið hefir þar á þessu ári og reyndar á öllum s.l. vetri.

Aðfaranótt sunnudagsins [29.] gerði afspyrnurok hér á Suðurlandi og var veðurhæðin mæld mest 10 vindstig hér í Reykjavik, hiti var um frostmark. Hvassviðrið lægði heldur eftir því sem leið á daginn í gær. Veðurstofan tjáði Vísi í morgun, að þá hefði verið snjókoma um allt Norðurland frá Ísafjarðardjúpi til Vopnafjarðar. Þó hefði snjókoma ekki náð inn til dala. Hiti var víðast hvar um frostmark á þessu svæði.

Morgunblaðið enn, 31.maí:

Í heila viku undanfarið hefur verið norðan stormur og snjókoma á Vestfjörðum, Norðurlandi og verulegum hluta Austurlands. Er nú mikill snjór á öllu þessu svœði og víðast algerlega haglaust fyrir allan búpening. Hey eru nú allsstaðar svo að segja þrotin en sauðfé verður að bera inni. Er sumstaðar farið að skera lömbin nýfædd til að bjarga ánum. Verst mun ástatt með fóðurbirgðir í sumum hlutum Norður-Þingeyjarsýslu og nyrstu sveitum Vestfjarða, þar sem ekki sér á dökkan díl og mikil fannkyngi er frá fjalli til fjöru. Minnast menn ekki slíkrar- veðráttu í marga áratugi. Blaðið átti í gær samtal við Ísafjörð og hafði þá verið svo að segja samfelld hríð og snjókoma þar í 7 daga. Götur voru ófærar fyrir bifreiðar í bænum enda þótt þær hafi undanfarið verið mokaðar með vélskóflum. Mikill fóðurskortur er nú orðinn vestur þar. Verst er ástandið í Grunnavíkur- og Sléttuhreppi. Ennfremur eru bændur í nágrenni Bolungarvíkur og i Eyrarhreppi orðnir svo að segja heylausir.

Á Siglufirði var í gær lítil snjókoma en þar hefur einnig verið stöðug snjókoma s.l. viku. Skaflar eru þar orðnir tveggja metra háir og illfært um bæinn á bifreiðum. Inn með austanverðum Skagafirði er mikill snjór og þungfært milli bæja. Þykja þetta eindæma harðindi. Mjög heylítið er orðið víðast hvar á þessum slóðum. T.d. mun kúabú Siglufjarðarbæjar nú alveg að verða heylaust. Blaðið átti í gærkveldi stutt símtal við Þorbjörn Björnsson bónda á Geitaskarði í Langadal og kvað hann veðurfar hafa verið svipað í Húnavatnssýslu og annarstaðar á Norðurlandi, hríð og storma undanfarna daga. Fóðurskortur væri þar hins vagar ekki almennur. Aðeins einstaka bóndi væri þar heylaus Nokkuð hefði verið selt af heyi úr sýslunni vestur að Ísafjarðardjúpi og til annarra héraða. Fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri kvað nú svo að segja jarðlaust í Eyjafirði. Í Svarfaðardal væri mikill snjór. Heybirgðir væru mjög litlar en ennþá væri þó ekki hægt að tala um almennt heyleysi. Mikill snjór væri austur í Þingeyjarsýslum og fóðurskortur töluverður. Hefur sumstaðar orðið að skera nýfædd lömbin undan ánum. Á Akureyri er töluverður snjór í götum og slæmt færi. Mjólkurflutningar til bæjarins hafi ekki enn teppst og svo virtist sem ekki væri mikill snjór á Öxnadalsheiði. Komu áætlunarbifreiðir að sunnan yfir heiðina í gær.

Blaðið átti í gær stutt samtal við Steingrím Steinþórsson búnaðarmálastjóra og skýrði hann frá því að óskir hefðu borist frá nokkrum byggðarlögum um aðstoð við öflun fóðurs. Væri nú unnið að því að reyna að leysa vandræði þeirra, sem verst væru staddir. En nú væri þó varla hægt að segja að eitt héraðið væru öðru birgara með hey. Veðurstofan tjáði blaðinu í gærkvöldi að líkur væru fyrir áframhaldandi Norðaustanátt um allt land. Í gær hefði veður þó verið heldur hægara og mildara en undanfarið. En háþrýstisvæði væri ennþá yfir Grænlandi, en lægðir austur af Íslandi. Í gær kl.18 snjóaði norðan til á Vestfjörðum og víða á Norðurlandi. Á Austurlandi var þó nokkru hlýrra en undanfarna daga. Var tekið að rigna. Kaldast var í Möðrudal, hiti um frostmark en hlýjast á Kirkjubæjarklaustri, 12 stiga hiti. Í gær var nokkuð tekið að hlýna á Jan Mayen og gæti það bent til þess að norðanáttin væri í rénun.

Siglufirði 30.maí. Síðdegis í dag brotnaði niður þak á nýju húsi hér í hænum af snjóþunga. Ennfremur hefir þakið á Sjómannaheimilinu sigið nokkuð af sömu ástæðum, snjónum var mokað af því áður en meiriháttar skemmdir urðu.

Tíminn 1.júní:

Eftir hin miklu harðindi hér á landi í vetur og vor og þó einkum áhlaupið undanfarna viku, er nú svo komið, að til stórvandræða horfir, einkum austan lands og vestan og eru nú heilar sveitir og héruð komin í heyþurrð. Tíminn átti í gær tal við Steingrím Steinþórsson búnaðarmálastjóra um ástandið og þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið og verið er að gera til úrbóta með hjálp Búnaðarfélags íslands. Þessa dagana er verið að safna því heyi, sem bændur geta látið í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu og verður skip sent með það vestur og norður um land til þeirra staða, sem verst eru staddir. Veður fór þó fremur batnandi í gær, norðanáttin var minni og ekki gert ráð fyrir snjókomu í dag.

Snjórinn vestan lands og norðan er viða mjög mikill. Í Grunnavíkurhreppi var klofsnjór í gær, er blaðið átti tal þangað, og gerðu menn sér vonir um að geta fleytt búfénaði fram yfir hvítasunnu, en heldur ekki lengur. Á Siglufirði er feikna snjór, svo að götur eru með öllu ófærar bílum og skaðar hafa orðið á húsþökum vegna snjóþyngsla. Á Þórshöfn, þar sem algert heyleysi er nú að kalla, hafa menn sums staðar gripið til þess óyndisúrræðis að farga lömbum nýfæddum til þess að bjarga ánum.

S.l. laugardag [28.] gerði mjög hvasst veður með snjókomu í Barðastrandarsýslu, sem víðar á landinu. Í veðri þessu brotnuðu um 60 símastaurar á símalínunni milli Gilsfjarðar og Kinnarstaða. Varð því símasambandslaust við vesturhluta sýslunnar.

Harðindin héldu áfram fyrri hluta júní, en þá skipti algjörlega um og gerði margra daga eftirminnilega hitabylgju, en í henni fór hiti yfir 20 stig víðast hvar á landinu nema á útskögum. Í hinni fornu ritgerð ritstjóra hungurdiska (2003) má sjá að hún var ekki jöfnuð eða slegin út fram til 1976 - var eiginlega síðasta stóra hitabylgja hlýskeiðsins fyrir miðja öldina. Minnist ritstjóri hungurdiska sér eldra fólk tala um þessi einstöku umskipti. En við hlustum á fáeina veðurathugunarmenn:

Síðumúli: Júnímánuður bætti úr neyðinni sem ríkti í byggðum landsins, er maímánuður kvaddi. Seinni hluta mánaðarins spratt ótrúlega mikið, enda var eins og hitabylgja gengi hér yfir nokkra daga, með 20-23 stiga hita. Sláttur mun byrja nokkru seinna en vanalega. Kýr voru látnar út hér yfirleitt um miðjan mánuðinn, og hefir verið gefinn matur og hey til skamms tíma.

Sandur: Tíðarfar var kalt og úrkomusamt farm að miðjum mánuði, en síðan hlýtt og þurrt. Snjór var mikill fyrstu dagana og í fönnum framundir þ.20. Gróðurleysi og ís á vötnum í miðjum mánuði. Eftir það greri allvel. Fénaðarhöld urðu vonum betri eftir óminnileg vorharðindi.

Reykjahlíð: Síðasti ís fór af Mývatni 21.júní.

Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson): Síðastliðinn vetur og vor er það harðasta er komið hefur hér á Hólsfjöllum síðan 1920.

Gunnhildargerði: Fyrsta vika mánaðarins var erfið, en hlý og góð tíð eftir það, en tún eru yfirleitt mjög skemmd af kali. Jökulvötnin urðu svo ægileg að menn muna þess ekki dæmi.

Morgunblaðið ræddi en við Jón Eyþórsson 4.júní:

Þegar veðráttan er eitthvað frábrugðin venju hér á landi, verður hún eðlilega daglegt umræðuefni manna. Á köldum vorum, eins og að þessu sinni, tala menn um önnur köid vor, til samanburðar. Þó er slíkur samanburður ekki annað en ágiskanir einar, nema vitað sé um nákvæmar veðurathuganir. En veðurathuganir hafa nú farið fram hér á landi að staðaldri og reglulega á nokkrum stöðum í nálega 80 ár. En veðurathugunarstöðvum hefur að sjálfsögðu fjölgað mikið síðustu áratugina. Ég spurði Jón Eyþórsson veðurfræðing að því í gær, hvað liði samanburði á meðalhita hér í Reykjavík í maí í ár, og undanfarin ár. Það kom í ljós, að hinn nýliðni maímánuður er þriðji kaldasti maímánuður, sem komið hefur hér, síðan veðurathuganir hófust fyrir nálega 80 árum. Meðalhiti maímánaðar hér í Reykjavík hefur verið 6,1 stig, þegar tekið er tímabilið frá aldamótum. En síðan farið var að athuga veðrið hér í Reykjavík um 1870 hafa tvisvar komið kaldari maímánuður en nú. Sá langkaldasti var árið 1914. Þá var meðalhitinn hér 2,0 stig eða 4,1 stigi fyrir neðan meðaltalið eins og það hefur verið frá aldamótum. Svo er það maímánuður 1888, er var svipaður og nú, með meðalhita 3,5 stig. En nú var maí með ívið hærri meðalhita, eða 3,6 stig. Útreikningarnir á veðurathugunum dragast alltaf nokkuð. En samt gat Jón frætt mig á, hvernig maí var á Akureyri. Þetta er langkaldasti maímánuður, sem þar hefur komið síðan um aldamót. Meðalhiti mánaðarins var að þessu sinni 0,2 stig. Er það 4,8 stigum lægra, en meðallagið. En hvað sá mismunur getur valdið miklu sést m.a. á því, að ef meðalhiti ársins hér á landi lækkaði álíka mikið eða um 5 stig, þá væri hér gróðurlaus ísöld, að því er jarðfræðingar hafa reiknað út. Næstkaldasti maí mánuður á Akureyri á þessari öld var árið 1906. En þá var meðalhiti mánaðarins þar 1,5 stig. Það var ísavor. Maí í ár hefur því verið miklu kaldari. Vel má vera að frávikið frá meðalhita í maí hafi sumstaðar á Norðurlandi verið meira en á Akureyri, einkum á Vestfjörðum eða á útkjálkum Norðanlands. Meðalhiti hvers mánaðar er reiknaður út, með því að athuga hitastigið með vissu millibili yfir sólarhringinn, svo sem á tveggja eða þriggja tíma fresti, og síðan reiknað meðaltal þeirra mælinga hvern sólarhring. Og síðan meðaltal daganna.

Eins og öllum er kunnugt, sem jafnaðarlega hlýða á veðurspár, hefur nú um langan tíma alltaf verið sagt svo frá, að lægð sé suður á móts við Færeyjar, eða þar um slóðir og kyrrstæð að kalla. En háþrýstisvæði yfir Grænlandi. Þessi lægð hefur verið sögð og hefur verið mikið til kyrrstæð. En eins og menn vita fer veðurlag mjög eftir því, hvaðan vindurinn blæs. Og séu lægðirnar fyrir sunnan landið, þá er hér norðanátt. Sunnanátt getur ekki náð sér upp nema lægðirnar komi norður fyrir, eða norður undir landið. Er ég spurði Jón Eyþórsson, hvaða ástæður veðurfræðingarnir kynnu að telja fyrir því, að lægðirnar kæmust ekki lengra norður á bóginn, en hann sagði, að veðurfræðin hefði litlar og óljósar skýringar á því. Menn yrðu að láta sér nægja að horfa á staðreyndirnar. Hann lét mig hafa veðurkort frá 30. maí, sem hann sagði að væri mjög svipað og veðurkortin hefðu verið mikinn hluta mánaðarins. Og sýnir kortið aðalvindstöðuna. sem skapast af lægðinni, og hæð yfir Grænlandi. Lét Jón fylgja eftirfarandi skýringu: Þetta veðurkort frá 30. maí, kl.18, er dæmi um, hvernig loftþrýsting og veðurlag hagaði sér hér við land í maí síðastliðnum. Loftþrýsting er lægst milli Íslands og Skotlands, um 995 mb. En um 1030-35 mb hærri á Grænlandi. Vindar blása andsælis umhverfis lægðina — eins og örvarnar sýna. Er því norðaustanátt hér á landi, en suðvestan um Bretlandseyjar. Hiti var þenna dag 1 stig hér norðanlands, 3 stig á Austfjörðum en 8 stig á Suðurlandi. Var því tekið að hlýna nokkuð, frá því sem áður var. Engar stórvægilegar breytingar höfðu þó orðið á veðurskilyrðum og hefur ekki orðið enn. Lægðarmiðjan hefur aðeins færst dálítið suðvestur á bóginn, svo að sæmilega hlýtt loft frá Vestur-Noregi hefur náð hingað, að sunnan og austanverðu landinu. Hitinn var þó ekki nema 9—10 stig í Noregi og Skotlandi og er það kalt eftir árstíðinni. Eftirtektarvert er það að hitinn á Jan Mayen er orðinn 5 stig, þegar kortið er gert, en ekki nema 1 stig hér norðanlands. Má vafalaust kenna það hafís og köldum sjó úti fyrir Norðurlandi. En það, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi er hvort þetta óvenjulega kalda vor verður einstætt í sinni röð, ellegar ástæða er til að ætla, að það sé fyrirboði þess, að hlýviðristímabilið, sem verið hefur undanfarinn aldarfjórðung sé nú að fjara út og við megum búast við, að veðráttan bregði aftur til hins kaldara. Út í þá sálma get ég ekki farið að þessu sinni. Valtýr Stefánsson.

Tíminn segir 10.júní frá heldur skánandi veðri:

Í gær var hlýrra í veðri um norðan og austanvert landið landið. en verið hafði síðan fyrir áhlaupið, sem gerði fyrir hálfum mánuði. Ef til vill er þess að vænta að lát sé nú loks á hinum þrálátu og linnulausu harðindum, sem haldið hafa mestum hluta landsins í heljargreipum þar til nú, átta vikur af sumri. Eru slík harðindi að líkindum með öllu einstæð, þegar ís er ekki landfastur. Snjór er þó enn á láglendi víða um Vestur- og Norðurland og heyforði víðast hvar með öllu til þurrðar genginn. Víða er fé enn á gjöf en annars staðar hafa menn reynt að sleppa því, þótt hagar séu nær engir enn og jörð varla nokkurs staðar tekin að grænka. Blaðið átti í gær tal við nokkra menn austan, norðan og vestan lands um ástandið. Blaðið átti í gær tal við Pál Hermannsson á Eiðum. Hann sagði snjólaust að mestu í byggðum á Héraði en ekki er tekið að grænka svo heitið geti. Menn hafa þó reynt að sleppa sauðfé sums staðar, enda hey upp gengin. Kýr er hvergi farið að láta út svo heitið geti og ekki er enn farið að setja niður í garða. Næturfrost hafa verið að undanskildum nokkrum síðustu nóttum. — Mikill bagi er að því einkum á Héraði, hve vegir eru illa farnir. Er búið að fara þá illfæra af brýnni nauðsyn undanfarið og hafa þeir spillst svo, að ófærir mega kallast víða, enda er mikill holklaki í þeim. Undanfarna daga hefir verið norðaustan átt og hráslagi og oft úrkoma, sem nálgast hefir krapahríð. Hey austan lands eru nú með öllu til þurrðar gengin að kalla, enda hefir þeim verið miðlað mjög milli manna. Búfénaður hefir þó ekki liðið mikinn skort, enda hefir Kaupfélag Héraðsbúa haft mikinn fóðurbæti, svo að ekki hefir komið til þurrðar á honum.

Á Langanesi og Sléttu er nokkur snjór á jörðu og snjóað hefir af og til undanfarna daga. Var þar heyþurrð, einkum á Þórshöfn, en skip héðan að sunnan flutti þangað ofurlitla úrbót eins og kunnugt er og einnig til Húsavíkur. Hefir því bjargast af til þessa. Á Húsavík og Tjörnesi er nokkur snjór og snjóaði þar síðast í fyrradag, sagði fréttaritari blaðsins þar í gær. Þangað komu um 60 hestar af heyi, sem dreift var um þorpið og Tjörnes. Minni snjór er aftur á móti þar frammi í dölum um miðbik sýslunnar, og hafa menn reynt að sleppa þar einlembdum ám. Á Hólsfjöllum og i Mývatnssveit eru aftur á móti linnulaus harðindi enn og mikill snjór, bæði gamall og nýr. Er Mývatn enn undir ís svo að hestheldur hefir verið til þessa. Er það með öllu einsdæmi, að Mývatn hafi allt verið undir ís átta vikur af sumri. Gróður er enn hvergi sjáanlegur á þessum slóðum. Um miðbik Norðurlands mun snjór ekki vera í lágsveitum nema helst á annesjum, en þrálátir kuldar hafa gengið þar sem annars staðar og er enginn gróður kominn að kalla. Hafa menn þó reynt að sleppa sauðfé eitthvað, en hvergi er farið að láta út kýr né sá í garða, enda hafa næturfrost verið þar til þessa.

Blaðið átti einnig tal að Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp í gær. Er þar snjór víða á jörðu, svo og á Ströndum. Farið er þó að sleppa fé en gróðurlaust með öllu og engin vorverk byrjuð að kalla, Sömu sögu mun að segja um Dali og suður á Snæfellsnes, að enginn teljandi gróður er kominn.

Morgunblaðið birti 17.júní fregnir að vestan:

Ísafjörður fimmtudag [16.]: — Þó nokkrir dagar séu liðnir síðan hér brá til sunnanáttar og hlýju, þá er varla farið að vora hér um slóðir. Víða í byggð er enn talsverður snjór. Svo virðist, að þrátt fyrir vorharðindin, muni lambahöld hér við Djúp vera yfirleitt sæmileg. Þess eru þó dæmi, að einstaka bændur hafi misst fjölda lamba og því orðið fyrir miklu tjóni. Ástandið á Ströndum er mjög slæmt. Þar eru snjóalög enn í sjó fram. Í samtali við Benjamín Eiríksson bónda í Furufirði, hefur Benjamín skýrt frá því að lambadauði bænda hafi verið mjög mikill. Þess eru dæmi, að bændur hafi misst um helming af lömbum sínum og má öllum verða ljóst hve bændur hafa orðið fyrir gífurlegu tjóni. Ekki vottar þar fyrir gróðri ennþá. Talið er ólíklegt að kúahagar verði komnir upp þar nyrðra fyrr en einhverntíma í júlí. Bændur á Ströndum segja það ekki vera ofmælt, að á þessum slóðum hafi ekki í þeirra minni komið kaldara vor.

Tíminn segir af leysingum og hlýindum 21.júní. Mikil skriða féll í Sölvadal og nokkrum dögum síðar í Svarfaðardal - og víðar varð tjón af skriðuföllum, m.a. nefnt að allmikið jarðvegshlaup hafi orðið við Reyki í Fnjóskadal:

Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Geysilegar leysingar eru víða um land, og eru vatna vextir miklir í mörgum ám og skriðuhlaup hafa orðið. Í fyrradag varð mikið jarðfall úr fjallinu fyrir ofan Draflastaði í Sölvadal í Eyjafirði og tók það öll útihús jarðarinnar og eyðilagði mikinn hluta túnsins. Fénaði var búið að sleppa og varð því ekki tjón á honum. Bærinn slapp einnig óskemmdur og fólk sakaði ekki. Einnig skemmdi skriða tún nokkuð í Hleiðargerði í Eyjafirði.

Nú má segja að komið sé vor og sumarveðrátta um allt land og bændur líti bjartari augum á framtíðina, þótt eftirköst harðindanna eigi að sjálfsögðu eftir að koma fram að miklu leyti. Fullyrða má, að harðindin hafi valdið bændum geysilegu tjóni, þótt fé hafi gengið betur fram en á horfðist um skeið. Erfiðleikar þeir, sem bændur hafa orðið að leggja á sig eru líka með fádæmum. Mikil verðmæti hafa farið forgörðum bæði i tímatöfum og fóðureyðslu. Fullorðið fé mun víðast hafa gengið sæmilega fram en lambadauði orðið nokkur einkum á Norðausturlandi, þar sem voraharðindin urðu langvinnust og illvígust. Mun allt að helmingi lamba hafa farist á sumum bæjum. Annars urðu harðindin mest á svæðinu milli Jökulsár á Brú og Jökulsár á Fjöllum og einnig á Ströndum norðanverðum og Vestfjörðum norðan Djúps.

Fullyrða má að harðindi þessi séu hin mestu, sem komið hafa hér á landi á þessari öld. Að vísu urðu vorharðindin 1910 eins langinn fram eftir sumri en voru nokkuð með öðrum hætti og vorið 1914 var mjög slæmt og verra suðvestan lands en nú.

Morgunblaðið segir af hitabylgjunni 21.júní:

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni, er það ósvikin hitabylgja, sem veldur þessari einstöku veðurblíðu, sem var hér á landi um helgina og í gær, en það var heitasti dagur ársins. Suðlæg átt var um allt land í gær og mun hitinn hvergi hafa verið undir 12 stigum. Mestur var hitinn í gær 23 stig. Það var hann á Síðumúla í Borgarfirði, Hæli í Hreppum, Stykkishólmi og í Skagafirði. Hér í Reykjavík komst hitinn upp í 20 stig í gær. Í gær mátti vel greina mistur í lofti, en það er hið hlýja meginlandsloftslag, sem það flytur hingað.

Morgunblaðið segir af vatnavöxtum 23.júní:

Allmargar ár víðsvegar á landinu, hafa í hitunum undanfarna daga, vaxið nokkuð og sumar mikið, en tjón af völdum vatnavaxtanna mun ekki hafa orðið, svo kunnugt sé. Norðurá flæddi t.d. í gær yfir bakka sina. Hjá Bakkaseli flæddi hún yfir veginn, en ekki höfðu borist fregnir af skemmdum á veginum og bílar komust leiðar sinnar þrátt fyrir vatnselginn. Hvítá í Borgarfirði var í nokkrum vexti í fyrradag, en samkvæmt viðtali við Hvanneyri í gær, þá virtist flóðið vera í rénun. Þjórsá er einnig í vexti. Fréttir hafa og borist úr Skagafirði um vöxt í ám.

Hitinn hér í Reykjavík komst í gærdag í 20,4 stig og mun ekki hafa verið jafnmikill í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna.

Tíminn lofar tíð 23.júní:

Frá fréttaritara Tímans í Húsavík. Undanfarna daga hefir verið afbragðs veður í Suður-Þingeyjarsýslu sem víðast annars staðar á landinu. Hiti hefir verið um 20 stig á daginn og döggfall um nætur, svo að gróðurinn hefir þotið upp. Tún eru þó eitthvað kalin eftir frostin um daginn, einkum í miðdölum sýslunar, þar sem snjórinn var minnstur í kuldakastinu þá. Leysingar hafa verið mjög miklar í héraðinu undanfarna daga, enda geysileg fannkyngin á fjöllum. Hefir mikill vöxtur verið í öllum vatnsföllum jafnvel svo að sums staðar hefir orðið að farartálma. Skjálfandafljót er nú vatnsmeira en menn muna eftir í vorleysingum á undanförnum árum. Þá hafa engir skaðar hlotist af svo vitað sé.

Vegir í sýslunni eru mjög illa farnir eftir vorið, enda orðið að fara um þá illfæra. Vaðlaheiði hefir verið nær ófær og oft bönnuð að undanförnu, en nú er hún farin á jeppum. Eru skemmdir á vegum mjög miklar og þurfa þeir mikillar viðgerðar við í vor.

En hitabylgjan tók enda. Morgunblaðið 24.júní:

Heita þurra loftið, sem valdið hefir hlýindum hér á landi undanfarna daga er nú farið framhjá og hefir þokast austur á bóginn. Í staðinn hefir gömul lægð komið upp að landinu og önnur ný er á leiðinni austur yfir hafið. Búast veðurfræðingar Veðurstofunnar því við suðaustanátt með rigningu í dag og er það vota suðaustan áttin, sem við eigum að venjast hér sunnanlands. — Er því hætt við að góðra veðrið sé búið í bili.

Tíminn segir enn af vatnavöxtum 30.júní:

Undanfarna daga hafa verið geysilegir vatnavextir viða um land vegna leysinga á fjöllum og hefur foraðsvöxtur hlaupið í margar stærstu ár landsins svo að nokkrir skaðar hafa hlotist af á vegum og löndum. Engir stórskaðar á brúm eða vegum hafa þó orðið, að því er vegamálaskrifstofan tjáði blaðinu í gær, og má það telja mikla mildi í þessum miklu vatnavöxtum. Blaðið átti í gær tal við nokkra menn víðs vegar um landið og spurði frétta af þessum vatnavöxtum.

Undanfarna daga hefir verið mikill vöxtur í Lagarfljóti og var gamla brúin hjá Egilsstöðum talin í mikilli hættu, því að flóðið náði alveg upp undir brúna. Vegir fóru einnig undir vatn og engjalönd og tún nokkurra jarða. Skaði mun þó ekki hafa hlotist af svo teljandi sé. Í gær var aftur farið að lækka mjög í fljótinu, svo að hættan var talin liðin hjá a.m.k. í bili.

Skjálfandafljót hefir og verið svo mikið, svo að menn muna ekki eftir því eins miklu í vorleysingum. Flóði það víða yfir bakka, en skaðar munu ekki hafa hlotist af. Í Svarfaðardal hljóp mikill vöxtur í allar ár. Smáá hljóp þar yfir tún tveggja býla svo að allmikið tjón varð að. Voru það býlin Grund og Brekka skammt frá Dalvík. Unnu margir menn að því að bægja flóðinu frá húsum og mannvirkjum. Lækur þessi, sem nefnist Grundarlækur, kemur úr tjörn uppi í fjalli, en á vetrum heftir fönn oft rennsli úr tjörninni og hækkar þá mjög í henni. Síðan hefir hengjan sprungið fram nú í leysingunum og stafar flóð þetta af því. Nokkrar skemmdir urðu einnig á vegum í Svarfaðardal.

Héraðsvötn í Skagafirði flæða mjög yfir Hólminn og yfir veginn þar, svo að bifreiðar áttu örðugt þar yfirferðar í fyrradag; en í gær hafði lækkað i vötnunum, og vegurinn ekki skemmst svo teljandi sé. Í Vatnsdal og Hópi flæddi sums staðar yfir engi og tún, en skemmdir urðu ekki teljandi.

Í Dölum urðu nokkrar skemmdir á vegum og ræsum af vatnavöxtum og skriðuföllum, og í Gílsfirði tepptist vegurinn á einum stað af skriðufalli. Var þar ýta nálæg svo að hægt var að ryðja veginn fljótt aftur. Þótt vatnavextir þessir hafi verið miklir eru þeir síst meiri en búast mátti við eftir hinn snjóþunga vetur, þegar svo seint tók að leysa. Má teljast mikil heppni, að ekki skuli hafa orðið mikil og stórfelld tjón á vegum og löndum vegna vatnavaxta. „Við teljum líka að við höfum verið heppnir með veðurfar þennan leysingatíma að því er vegina snertir", sagði Ásgeir Ásgersson, skrifstofustjóri á Vegamálaskrifstofunni í gær í viðtali við blaðið.

Nú hófst barátta við óþurrka. Ekki er hægt að segja að sumarið 1949 hafi fallið í hóp eiginlegra rigningasumra, en erfitt varð það sumum. Kom misjafnt niður og oftast ekki vel um það talað. Veðurathugunarmenn segja af júlímánuði:

Síðumúli: Nú er öll jörð vafin grasi. Tún fara að spretta úr sér. Óþurrkar miklir, og það sem búið er að slá, er orðið gult og hrakið. Heyskapur er því ekki glæsilegur. Engin tugga komin inn og það lítið sem sett hefir verið er orðið blautt af regni.

Lambavatn: Það hefir verið hér stöðugur óþurrkur. Einn þurrkdagur komið síðan byrjað var að slá og var það sunnudagur. Grasspretta allstaðar góð og sumstaðar ágæt. [22. Klukkan 15 1/2 gerði hér þrumuskúr sem stóð í 15 mínútur og rigndi þá 11,5 mm. Var eins og hellt úr fötu og hver þruman rak aðra].

Blönduós (Þuríður Sæmundsen): [22. Mjög mikil skúr í 12-15 mínútur milli kl.15-16].

Sandur: Tíðarfarið var hlýtt og þurrt. Gras spratt seint og víða var tilfinnanlegt kal í túnum.

Hallormsstaður: Það sama tíðarfar sem var seinnihluta júní hélst fram eftir júlímánuði svo að gras kom á ótrúlega skömmum tíma, svo hægt var að fara að slá tún fyrir 20.júlí.

Fréttir í júlí eru aðallega tengdar heyskap. En einnig eru blöðin full af síldarfréttum, mjög neikvæðum framan af, en síðan heldur skárri.Síldarvertíðin var mjög mikilvæg gjaldeyrislind á þessum árum viðvarandi gjaldeyrisskorts - og mátti lítið út af bregða. 

Morgunblaðið segir frá 3.júlí:

Svo fljótt og vel hefur sprottið hér í nærsveitum, að bændur vonast eftir því að túnasláttur geti hafist fyrir miðjan júlí. Svipaðar fréttir berast úr öðrum sveitum. Svo mikil fönn hefur verið til fjalla, og á öllu hálendinu, að stórár hafa um tíma verið í óvenjulega miklum vexti. Úr Skagafirði hefur blaðið t.d. frétt, að þar flói Héraðsvötn brekkna á milli, og hafi svo verið samfleytt í hálfa aðra viku. En þeir sem eiga flugleið yfir hálendið, segja, að heiðalöndin næst byggð séu hálfþakin snjó, en snjóbreiðan sé samfelld er nær dregur jöklum. Svo enn má búast við langvarandi vatnavöxtum. Það væri fróðlegt og gagnlegt, ef einhver stofnun, sem hefði á því góð tök, safnaði saman áreiðanlegum og nákvæmum fregnum og frásögnum af þessu einstæða vori. Líklega stæði það Veðurstofunni næst með allar hennar athuganastöðvar.

Í fyrrinótt skemmdist hinn rúmlega kílómeters langi varnargarður, Stóri-Dímon við Markarfljótsbrú. Fjöldi manns vann að því í gær, að lagfæra garðinn. Eftir því sem Morgunblaðið frétti síðast hafði fljótið ekki flætt yfir garðinn þar sem skemmdirnar urðu á honum. Undanfarna daga hefir verið mikill vöxtur í Markarfljóti, vegna mikilla rigninga, En í fyrradag og nótt virtist flóðið vera í rénum, enda var lítil úrkoma þar um slóðir í fyrradag. Í gærmorgun veitti heimilisfólkíð við Markarfljót því eftirtekt, að Stóri-Dímon-garðurinn hafði brotnað niður á um 60 m kafla. Markarfljót flæddi þó ekki í gegnum skarð þetta. Því varð skjótlega veitt eftirtekt að áfram hélst að molast niður úr garðinum og eftir því sem síðast fréttist var skarðið orðið um 100 m breitt. Garður þessi liggur frá Markarfljótsbrú upp að fjallinu Stóri-Dímon. Vegavinnumenn og bændur unnu að því af fullum krafti fyrripart dags í gær, er Morgunblaðið hafði síðast fréttir að austan að hlaða sandpokum í skarðið og ennfremur var jarðýta komin á staðinn. Kunnugir menn telja að takast megi að verja síðasta vegspottann að brúnni að vestanverðu, en hann yrði í mestri hættu, ef fljótið myndi vaxa á ný og ná að flæða í gegnum varnargarðinn.

Miklir vatnavextir hafa verið í Skagafirði í vor, en eru nú loks í rénun. Það eru aðallega Héraðsvötnin, sem flætt hafa yfir bakka sína. Hefir mestallt láglendið í Hólminum og eylendið þar fyrir framan legið undir vatni í margar vikur. Einnig hafa þverár vaxið mikið og valdið erfiðleikum, þótt ekki sé um beint tjón að ræða. Tjón af vatnavöxtum er ekki bersýnilegt, en þó má gera ráð fyrir, að með vatninu hafi borist talsvert af leir á tún og engi, en það kemur ekki í ljós hve mikil brögð eru að því fyrr en betur þornar um. Vegýtur hafa aðstoðað bifreiðar við þær þverár, sem ekki eru brúaðar og með þeirri aðstoð hefir tekist að halda samgönguleiðum opnum. Fréttaritari Morgunblaðsins á Sauðárkróki símar, að elstu menn í Skagafirði muni ekki aðra eins vatnavexti og þar hafa verið á þessu vori.

Morgunblaðið 5.júlí:

Sjöunda landsmót Ungmennasambands Íslands fór fram í Hveragerði s.l. laugardag [2.] og sunnudag. Óhagstæð veðurskilyrði settu að allverulegu leyti svip sinn á mótið.

Morgunblaðið segir af Austurlandi 9.júlí:

Seyðisfjörður 8. júlí. Vestur-íslensku gestirnir Vilhjálmur Stefánsson og frú og Guðmundur Grímsson og frú lögðu sem kunnugt er af stað með Esju austur á land fyrir nokkru. Í gær var farið frá Reyðarfirði í Hallormsstað. Þar var 25 stiga hiti í skugganum, en rúmlega 30 stig í skóginum og hefur svo verið undanfarna daga. Skógurinn er í sínu besta skrúði. Tók hann svo fljótt við sér, þegar tíðin batnaði, að fólk sagði, að hann hefði orðið grænn á einni nóttu. Frá Hallormsstað átti að fara í bílum til Seyðisfjarðar, en Fjarðarheiði var alófær vegna stórskafla og var þó reynt að ryðja veginn. Var því snúið við og náðum við Esju á Eskifirði.

Vísir ræðir færð á fjallvegum 9.júlí:

Allar líkur benda til þess að Möðrudalsöræfin verði fær bifreiðum hvað úr hverju og að fyrstu bílarnir muni komast til Austurlandsins eftir helgina. Um Fjarðarheiði er ekki vitað hve langt verður að bíða þar til hún opnast, en sennilega verður veðráttan látin hafa fyrir því að mestu að ryðja snjónum burtu. Breiðdalur á Austurlandi er í þann veginn að verða fær, en Breiðadalsheiði á Vestfjörðum er verið að opna þessa dagana.

Vísir segir 13.júlí af köldum sjó fyrir norðan:

Sjórinn á síldarmiðunum fyrir Norðurlandi er óvenju kaldur og er talið, að síldarleysið stafi af því. Að því er fiskifræðingur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, tjáði Vísi í morgun var hitastigið í sjónum við Langanes á 25 metra dýpi undir 0 gráðum þann 7. þ.m. og á sama tíma var hitastigið mælt i sjónum undan Siglufirði. Reyndist það vera 7  gráður á yfirborðinu, en ekki nema 2 gráður á 50 metra dýpi. Kunnugir telja, að sjórinn sé of kaldur fyrir síldina en að þetta geti breyst á skömmum tíma. Menn eru þó yfirleitt bjartsýnir, enda þótt síldin sé ekki komin, telja, að þegar hún loksins komi komi hún vel.

Loksins farið að opna Siglufjarðarskarð. Morgunblaðið 16.júlí:

Norður á Siglufirði, er nú byrjað á að ryðja veginn yfir Siglufjarðarskarð, Þar er enn gífurlega mikill snjór og mun það taka nokkra daga að gera það fært bílum. Giskað er á að verkið muni verða unnið á næstu sjö dögum.

Alþýðublaðið segir af Veðurstofunni 24.júlí - flutningur átti sér þó ekki endanlega stað fyrr en í janúar 1950:

Sú deild Veðurstofunnar í Reykjavík, sem hefur með höndum veðurspárnar, mun innan skamms verða flutt í nýtt húsnæði í varðturninum á Reykjavíkurflugvelli, sagði Theresía Guðmundsson veðurstofustjóri í viðtali við blaðið í gær. Er í alla staði heppilegra, að veðurathuganirnar fari þar fram, vegna flugstarfseminnar og auk þess hefur alþjóðaflugmálastofnunin mælst til þess, að Veðurstofan annaðist veðurathuganir á Reykjavíkurflugvelli. Veðurstofustjóri sagði enn fremur, að hvimleitt væri þó að þurfa að skipta oft um stað fyrir veðurathuganir, þar eð samanburður fengist varla réttur ár frá ári, nema þær væru gerðar alltaf á sama stað. Starfsskilyrðin við sjómannaskólann væru að vísu góð, en haganlegra væri að koma þessari starfsdeild fyrir þar, sem hún gæti verið til frambúðar, en vegna flugsins þarf að vera veðurstofa á Reykjavíkurflugvelli. Frúin taldi hins vegar, að skilyrði fyrir veðurathuganir á þaki Landssímahússins, þar sem þær voru gerðar áður en flutt var í sjómannaskólann, hefðu verið óhagstæð, gerðu alþjóðlegar reglur til dæmis ráð fyrir því, að hitamælingar væru gerðar í 1,25 til 2,00 m hæð yfir jörð, en það hefði auðvitað verið óframkvæmanlegt þar. Það er raunar mikill ókostur, sagði frúin einnig, að Veðurstofan getur ekki fengið húsnæði fyrir allar deildir sínar á sama stað. Kostar slík skipting bæði mikla fyrirhöfn og nokkur aukaútgjöld, og viðunandi lausn á húsnæðismálum Veðurstofunnar fæst ekki fyrr en hún hefur fengið hús fyrir allar deildir sínar á Reykjavíkurflugvelli, enda var þegar gert, ráð fyrir því í lögum frá 1926, að reist yrði bygging fyrir Veðurstofuna á stað, sem er hentugur fyrir þá starfsemi, sem hún hefur með höndum eða kann að verða falin.

Þá skýrði veðurstofustjóri frá því, að sá tími hlyti að nálgast, að Veðurstofa Íslands tæki alveg að sér veðurþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Mun veðurstofan í náinni framtíð hafa nægilega mörgum veðurfræðingum á að skipa til þess, og ætti hún þá að geta teyst starfið af hendi með betri árangri og minni tilkostnaði en nú er gert, og vitað væri, að Bandaríkjamenn mundu hvenær sem er fallast á að íslendingar tækju við þessari þjónustu. Hins vegar snerti veðurþjónustan á Keflavíkurflugvelli svo mjög hagsmuni annarra þjóða, en væri ekki nauðsynleg fyrir Ísland, að íslendingar yrðu að fá greitt fyrir hana af alþjóðafé, enda er það mál nú til athugunar. Átta veðurfræðingar starfa nú á veðurstofunni auk veðurstofustjóra. Vinna fimm menn á vöktum allan sólarhringinn alla daga, og einn veðurfræðingur, tveir aðstoðarmenn og tveir loftskeytamenn eru á hverri vakt. Auk þeirra er svo starfslið á skrifstofu Veðurstofunnar. Veðurstofan gerir fjórum sinnum á sólarhring veðurkort, sem nær yfir svæðið frá Klettafjöllum að vestan, suður til Asóreyja, austur  um Eystrasalt og norður að norðurströnd Grænlands og Svalbarða. Auk þess eru gerð tvö kort tvisvar á sólarhring, sem sýna loftþrýsting, hita og vinda í um það bil 3000 m og 5000 m hæð.

Morgunblaðið segir af langþráðum sólardegi 29.júlí:

Eftir margra vikna sólarleysi skein sól í heiði á ný hér í Reykjavik og nærliggjandi sveitum í gærdag. Hér í bænum var 17 stiga hiti kl.6 í gærkvöld og mældist ekki jafn mikill hiti annarstaðar á landinu. Í Borgarfirði var 15 stiga hiti, 16 bæði á Þingvöllum og á Kirkjubæjarklaustri. Bæjarbúar nutu veðurblíðunnar í eins ríkum mæli og hver gat. Margir brugðu sér út fyrir bæ. Á Arnarholi var mikill mannfjöldi og á götunum var fólk sumarklætt og ánægt i skapi og allir töluðu um veðrið. Í gærkvöldi um kl. 10 var komin rigning. Veðurstofan telur líklegt, að seinnipartinn í dag verði skúraveður hér.

Morgunblaðið segir af óþurrkum 30.júlí:

Óvenjulangvinn óþurrkatíð um Suðurland allt og Suðvesturland, er farið að valda bændum áhyggjum. Nú í lok júlímánaðar er ástandið þannig á flestum bæjum, að mjög lítil taða er komin í hlöðu. Morgunblaðið hefur átt tal við bændur í Árnessýslu og telja þeir þetta sumar öllu óþurrkasamara en árið 1947. Þá höfðu bændur yfirleitt náð einhverju af heyjum sínum inn í júlílok. Í sumar hafa hinsvegar verið svo fáir þurrkdagar, að yfirleitt hafa bændur ekki náð í hús nema örlitlu af heyi sínu. Öðru máli gegnir auðvitað um þá bændur, sem komið hafa sér upp súgþurrkunartækjum.

Veðurathugunarmenn segja af ágústmánuði:

Síðumúli: Ágæt heyskapartíð til 18. í mánuðinum. Síðan hefir ekkert strá þornað. Meirihluti töðunnar er komið inn með sæmilegri verkun, en mikið er úti í sætum og flötum flekkjum. Einnig mikið úthey.

Lambavatn: Fyrstu 10 daga mánaðarins var hagstæð tíð. Óslitinn þurrkur. Síðan hefir aldrei komið þurrkdagur og verst nú seinni helming mánaðarins. Óslitnar rigningar og nú síðustu dagana rok og rigning.

Sandur: Fyrstu 9 dagar mánaðarins voru kaldir og óþurrkasamir. Einnig óþurrkar og úrfelli síðustu dagana. Annars mátti teljast fremur hagstæð tíð til heyskapar og þurrkar og nýting í meðallagi.

Vísir kvartar um óþurrka á Suðurlandi 2.ágúst:

Samfeldir óþurrkar hafa verið hér á Suðurlandi i nærfellt heilan mánuð. Bændur austanfjalls eru komnir í hin mestu vandræði vegna óþurrkanna, eiga allflestir liggjandi úti mikið af töðu, sem er orðin stórskemmd af rigningunum. Ef veður batna ekki má búast við, að bændur verði fyrir gífurlegu tjóni, þar sem hey eru yfirleitt orðin mjög hrakin.

Morgunblaðið segir 7.ágúst frá gríðarlegu úrfelli í Þjórsárdal 1. ágúst:

Ólafur Þorvaldsson hefir sent blaðinu ítarlega lýsingu á rigningunni miklu í Þjórsárdal, sem meðal annars hafði í för með sér skriðuföll, sem lokuðu akveginum víða á þessum slóðum. Má það teljast mildi, að verra tjón skyldi ekki hljótast af, en raun varð á. Hér fer á eftir lýsing Ólafs:

Í gærdag 1. ágúst, um kl. þrjú e.h. dundi yfir stórkostleg rigning, sem stóð svo til sleitulaust nokkuð á þriðja klukkutíma. Þetta úrfelli var ekki líkt neinni venjulegri stórrigningu, svo stórfellt var það og þétt, en sem næst í logni Þegar þetta úrfelli hafði staðið í 5—10 mínútur fóru allir lækir að vaxa, og uxu með svo ótrúlegum hraða, að enginn mundi trúa, sem ekki sá. Þannig hélt vöxtur þeirra áfram, þar til að t.d. smá lækjarsytra var orðin með öllu ófær yfirferðar, þar sem í nokkrum halla var sökum straumþunga og grjótframburðar. Þannig var um bæjarlækinn hér í Haga. sem stafar frá uppgöngusamdráttum í fjöllum upp af bænum og venjulega er svo lítill að leita verður lags, að sökkva í hann fötu. Hann óx svo gífurlega á fáum mínútum, að enginn maður hefði staðið ef út í hann hefði farið meðan hann var mestur. Þessi litli lækur, bar mikið grjót og sand, yfir bakka sína innan túns, og á stóra spildu í túninu, þar til hann braust fram yfir veginn, sem meðan vatnið var mest, fór undir vatn á nokkrum kafla. Vegurinn milli Haga og Ásólfsstaða liggur austan undir Hagafjalli, inn yfir Gaukshöfða og austan undir Bringu. Á þessari leið er Hagafjall mjög bratt, og skiptast þar á grasbrekkur allbreiðar, sem ná víða að hömrum upp og melskriður. Það má segja, að á allri þessari leið, — eða frá Haga — inn fyrir Bringu, hafi orðið stórspjöll. Áætlunarbíll með fólk, var ófarinn frá Ásólfsstöðum þegar þetta úrfelli datt yfir, en fór á stað, þegar upp tók. en varð brátt að snúa aftur, þar eð vegurinn var ófær svo langt sem sást. Í sama mund fór Haraldur, bóndi í Haga, á 10 hjóluðum herbíl. austur með fjalli og komst með herkjubrögðum inn á Gaukshöfða, og taldi hann að ófært væri þaðan innúr svo langt sem hann sá.

Ráðstafanir munu hafa verið gerðar frá Ásólfsstöðum, strax þegar áætlunarbíllinn var kominn þangað aftur, að fá úr þessu bætt, svo fljótt, sem unnt væri svo umferð gæti hafist aftur, þar eð fólk átti bíla bæði fyrir innan og framan, sem komast þurftu leiðar sinnar, svo og flutningur á mjólk, frá Ásólfsstöðum og Skriðufelli, auk gistihússtarfseminnar á Ásólfsstöðum. Í gærkvöld seint fór Brynjólfur Melsted, með menn og ýtu, hér inn hjá, og kom Brynjólfur hingað í morgun og taldi hann það mundi verða tveggja daga verk, að gera veginn aftur sæmilegan. Brynjólfi taldist til að 100 skriður hefðu hlaupið úr Hagafjalli austanverðu. Ég gekk í morgun inn undir Gaukshöfða og þótti ljótt umhorfs. Á einum stað, frá svonefndum Líkneyjarbrekkum og inn undir Lækjarholt, sem er framan Hagalækjar á Hagasandi, er, þegar niður fyrir bröttustu brekkurnar kemur, um 300 metra samfelld skriðubreiða, sem á upptök í mörgum alardjúpum, en þröngum farvegum ofan frá hömrum, en hafa svo runnið saman, þegar úr hallanum dró. Vestan í Hagafjalli, er talið frá Fossnesi, þaðan blasir Hagafjall við að vestan, að mikið skriðuhlaup hafi þar orðið. — en það hefi ég ekki séð enn þá. Sennilegt er, að skriður hafi fyrr fallið úr Hagafjalli, enda bendir margt þar til, en fyrrverandi húsfrú hér, Margrjet Eiríksdóttir, sem búin er að vera hér í 39 ár, segist aldrei hafa séð úrfelli neitt því líkt, sem þetta í gær og skriður hafa sýnilega ekki fallið úr Hagafjalli í marga tugi ára. Þótt segja megi, að hér hafi undur skeð, hefir ekkert orðið að fólki eða stórgripum. svo enn sé vitað, en um hitt er ekki hægt að segja, hvort sauðfé, sem í fjallinu var, hafi allt sloppið óskemmt eða lifandi.

Nú hefi ég gengið inn með Hagafjalli að vestan, og eru þar ekki minni jarðspjöll, en að austan. Þar er meir um það, að breiðar jarðspildur hafi fallið í heilu lagi, frá brún og niður. Sú breiðasta sem ég sá, yfir um 100 metra breið. Það lítur helst svo út, sem vatnsmagnið hafi á svipstundu orðið svo gífurlegt að jarðvegurinn hafi ekki borið það. Víða er jörð sprungin frá brúnum, en hefur ekki farið af stað. Annars er það einkennilegt, við allar hinar mjóu skriður, hve vatnið hefur grafið sig djúpt ofan í snarbrattar skriður og brekkur. Ég held, að margir þessir skurðir eða gjár, séu ekki að vídd nema 1—2 m., en víða jafnvel nokkru dýpri, en barmarnir mjög lóðréttir, og sumstaðar holbekkt undir. — Þegar horft er upp eftir þessum skurðum. er líkast sem horft sé eftir röð af djúpum hraun- eða jökulgjám.

Staddur í Haga í Gnúpverjahreppi 2. ágúst 1949. Ólafur Þorvaldsson.

Tíminn segir 11.ágúst af þurrki sunnanlands, en óþurrkum nyrðra:

Síðustu dagana, eða í hálfa aðra viku, hefir verið þurrkur um allt Vestur- og mestan hluta Suðurlands. Hafa bændur á þessu landssvæði getað á þessum tíma rétt við heyskap sinn, sem kominn var i óefni eflir langvarandi rigningar og óþurrka. Norðanlands hefir hins vegar verið minna um þurrka og heyskapur þar dregist á langinn nema í Húnavatnssýslu og Skagafirði, þar sem heyskapurinn hefir gengið vel upp á síðkastið. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær stutt viðtal við Steingrím Steinþórsson, búnaðarmálastjóra og spurði hann frétta af heyskap og grassprettu. Austanfjalls hefir heyskapurinn gengið heldur verr. Þurrkur kom þar síðar en vestanfjalls og úrkoma hefir verið þar öðru hvoru. Í Árnessýslu hefir þó verið að kalla stöðugur þurrkur í rúma viku og heyskapur gengið að óskum þann tíma. En er austar dregur í Rangárvallasýslu hefir verið úrkomusamara en bændur þó getað þurrkað og hirt nokkurn veginn hindrunarlaust.

Vísir segir af hagstæðri tíð í Borgarfiðri 13.ágúst:

Heyskapur hefir gengið vel í Borgarfirði og verkun heyja er góð. Tíð hefir verið frekar stöðug, ýmist langvarandi þurrkar eða rigningar um nokkurn tíma. Bændur hafa getað hirt mikið undanfarið, en hjá þeim, sem byrjuðu slátt fyrstir, hröktust hey nokkuð. Þegar besti kaflinn kom í byrjun þessarar viku, tókst mönnum að ná miklu inn, en sumir — og víðar en í Borgarfirði — létu sér nægja að ná heyjum saman i sæti á túnum, til þess að geta haldið sem kappsamlegast áfram við sláttinn. Verkun heyja hefir verið góð og lítið hrakist, nema hjá þeim, sem fyrstir urðu til að hefja slátt, eins og þegar er sagt. Lítið hefir verið í vötnum undanfarið og kom það sér vel fyrir marga bændur. Hefir það meðal annars orðið til þess, að hægt hefir verið að slá engjar, sem eru svo votlendar. að þær verða ekki slegnar nema í mjög miklum og langvarandi þurrkum. Hafa sumir meira að segja látið slíkan engjaslátt sitja fyrir túnstætti. til þess að nota þurrkana að þessu leyti og treysta því, að þeir nái heyi af túnum siðar.

Vísir 26.ágúst frá misjafnri heyskapartíð:

Heyskapur hefir gengið mjög misjafnlega í sumar, að því er Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri hefir tjáð Vísi. Á Norðurlandi er léleg grasspretta, enda kól jörð þar mjög í vor. Hér sunnanlands hefir grasspretta aftur á móti verið sæmileg, en óþurrkar hafa þar aftur á móti dregið úr heyfeng bænda, a.m.k. sumstaðar. Á Vesturlandi er grasspretta yfirleitt sæmileg og allvíða góð. Þurrkar hafa gengið þar að undanförnu. Yfirleitt má fullyrða að töður verði ódrjúgar, einkum fyrir þá sök hve seint sláttur hófst og þar af leiðandi verður háarspretta viðast hvar lítil eða engin. Búnaðarmálastjóri kvað óþarft að gylla vonir manna um garðuppskeru í ár. Í vor var með langsíðasta móti sett niður í garða og af þeim sökum verða menn líka að treysta venju fremur á haustveðráttuna til þess að uppskerubrestur verði ekki. Undir henni er uppskeran komin og að svo komnu máli því ekki unnt að spá neinu endanlegu um horfur. Þess má þó geta, sem ekki er beinlínis uppörvandi, að norðanlands hafa nú þegar víða orðið skemmdir í görðum af völdum frosts.

Morgunblaðið segir frá mikilli rigningu í pistli 30.ágúst:

Gífurleg rigning, sem stóð svo að segja látlaust, frá því á laugardagskvöld [27.] og þar til í gærkvöldi [29.], hefur valdið allmiklum skemmdum á götum bæjarins og á vegum í nágrenni hans. Var úrfellirinn alveg óvenju mikill og mældist ekki annars staðar á landinu meiri. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni, þá mun frá því á laugardagskvöld og þar til í gærdag kl.5, eða í um það bil tvo sólarhringa, hafa rignt um 35 millimetra hér í Reykjavík. Mest á sunnudagskvöld. Mest var rigningin á tímabilinu frá klukkan 5 síðdegis á sunnudag til klukkan fimm árdegis í gær. Á þessum hálfa sólarhring rigndi hvorki meira né minna en 16,7 mm, en jafnmikil úrkoma mun ekki hafa mælst hér í Reykjavík um langt skeið. Ef samsvarandi úrkoma hefði verið logndrífa, í frosti, myndi snjódýptin hafa geta orðið allt að 32 cm. Afleiðing þessa mikla úrfellis varð sú, að götur hér í bænum, sem ekki eru malbikaðar hafa orðið fyrir meiri og minni skemmdum. Sumar götur, einkum þó í úthverfunum, sem mikil umferð mæðir á, voru mjög slæmar yfirferðar í gærmorgun. Viðgerð gatnanna sem skemmst hafa í þessari rigningu mun verða mjög kostnaðarsöm, en hún hófst í gærmorgun og var haldið áfram allan daginn, en göturnar sem mikil umferð er um og heflaðar voru í gær, munu í gærkvöldi hafa verið orðnar slæmar aftur, vegna þess, hve jarðvegurinn er gegnblautur og lætur því fljótlega undan þunga umferðarinnar.

September bjargaði málum á Norðurlandi, en var erfiður syðra sökum rigninga. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Heyskapartíð var mjög erfið. Sumstaðar er hey úti enn og kartöflur niðri í görðum, Víða er kartöfluuppskera mjög rýr. Heyskapur er einnig talinn minni en í meðallagi.

Lambavatn: Það hefir verið mjög óhagstætt fyrir heyskap. Aldrei komið reglulegur þurrkur. Og nú seinni hluta mánaðarins má heita að hafi verið óslitin úrkoma, nema rétt á milli skúra. Hey er víðast úti meira og minna.

Sandur: Fyrstu 8 dagana voru óþurrkar, en annars var tíðin mjög hlý og þurrkasöm. Hey hirtust vel og varð heyskapur víða sæmilegur að lokum, víðast þó undir meðallagi að vöxtum.

Reykjahlíð: Frá 10. september til mánaðarloka besti kafli sem komið hefur á þessu ári. Sláttarlok urðu því óvenjulega góð og heyfengur betri en á horfðist lengst af í sumar.

Alþýðublaðið segir af óþurrkum 9.september:

Um þriggja vikna skeið hafa sífelldir óþurrkar verið um allt land. Mun mikið hey vera úti víðast hvar, en þó einkum á Suðurlandi og útlit ískyggilegt um björgun þess. Aðeins þar, sem horfur eru bestar, er útlit fyrir að heyfengur bænda verði í meðalári, en allvíða minni en bað, að því er Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri skýrði blaðinu frá í viðtali i gær.

Það er einkum á Suðurlandsundirlendinu, sem útlitið er uggvænlegt Þar hefur tíðarfarið verið einna óhagstæðast. Nokkuð af því heyi, sem þegar er komið undir þak, er hrakið, og eins og sakir standa, er lítil von til þess, að heyafli verði þar í meðallagi. Betri horfur eru í Borgarfirði og héruðunum norðanlands í Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði. Þar hafa óþurrkar verið minni í sumar, og vænta má, að heyfengur verði þar í meðallagi. Hins vegar var spretta slæm á Norðausturlandi, og fyrir þær sakir er heyafli þar lélegur. Á Vestfjörðum hafa miklir óþurrkar verið undanfarið, en framan af sumri voru allgóðir kaflar. Heyskapur hófst í sumar allmiklu seinna en venja er til, mun hafa byrjað 10—14 dögum seinna en venjulega, og olli því hin óvenjulegu og þrálátu harðindi í vor. Þá voru kalskemmdir á túnum miklar þar, sem snjór lá lengst á jörðu í vor, einkum í þeim sveitum, sem hæst liggja yfir sjó, svo og á útkjálkum norðan lands, norðaustan lands og á Vestfjörðum. Af öllum þessum orsökum má búast við ýmsum erfiðleikum í sambandi við ásetningu búfjár í haust, ef ekki batnar nú bráðlega og það hey, sem nú er úti, næst fljótlega. Oft hefur heyskap verið lokið víða um land um þetta leyti sumars, en nú hefur sumstaðar verið farið fram á það að fresta göngum vegna heyanna.

Slide18

Þann 10.september fóru leifar fellibyls yfir Nýfundnaland. Þetta var árið áður en farið var að gefa fellibyljum og hitabeltisstormum nöfn. Kerfin voru aðeins aðgreind með raðnúmerum, þessi númer fjögur. Hann komst eiginlega aldrei hingað til lands, en beindi til okkar mjög röku og ákaflega hlýju lofti langt sunnan úr höfum. Kannski hefur hitabeltisstormur sex einnig komið við sögu. Mjög mikið rigndi um landið sunnan- og vestanvert, sértaklega á Snæfellnesi og sunnanverðum Vestfjörðum og hiti fór upp úr öllu valdi austanlands. Kortið sýnir endurgreininguna síðdegis þann 10.

Nýtt septemberhitamet var sett á Dalatanga þegar hámarksmælirinn þar sýndi 26,0 stig síðdegis þann 12. Slegið var 8 ára gamalt met sem sett var á Hallormsstað þann 15. 1941. Þetta met á Dalatanga fékk að standa í 68 ár, þar til 1.september árið 2017 þegar hiti á Egilsstöðum fór í 26,4 stig, núverandi septembermet. Þann 14.september 1988 fór hiti á Dalatanga í 25,8 stig, ómarktækt lægra en aflesturinn 1949. Enginn hámarkshitamælir var á Seyðisfirði 1949, en hiti kl.15 var 24,0 stig og meiri en 20 stig bæði kl.9 og 22. 

Slide19

Kortið sýnir endurgreiningu síðdegis sunnudaginn 11.september. Þá er eindregin sunnanátt með mikilli rigningu vestanlands. Nokkuð hvasst var um landið norðanvert.   

Tíminn segir af þurrkum norðaustanlands - og heyfoki í pistli 13.september:

Á Norðausturlandi hafa verið miklir þurrkar undanfarna daga og hiti óvenjulega mikill. Suðvestan stormur hefir verið, og síðustu dægrin fremur hvasst til þess að þægilegt væri að eiga við hey. Í fyrrinótt mun eitthvað af heyi hafa fokið í Suður-Þingeyjarsýslu, að minnsta kosti norðanverðri i nánd við Húsavík og á Tjörnesi. Ekki var þó vitað með vissu í  gærkveldi, hve miklu þessir heyskaðar nema.

Vísir segir 13.september frá úrkomu og vegarskemmdum:

Ákafar rigningar hafa gengið yfir Suðvesturland og nokkurn hluta Vesturlands síðustu dagana. Hafa af völdum þeirra orðið skemmdir á vegum og hey sumstaðar flætt burtu. Hefur rigningin víða verið svo mikil að vatnsaugu á vegum hér suðvestanlands hafa naumast haft við að flytja vatnið og hefir því allvíða flætt yfir vegi og sumstaðar myndað í þá ræsi eða jafnvel skörð. Umferðartruflun hefir þó ekki orðið alvarleg neinstaðar nema á leiðinni til Ólafsvíkur á Snæfellsnesi. þar hefir vegurinn skemmst víðar en á einum stað og það svo að hann er sem stendur lokaður allri umferð. Í Grundarfirði flæddi Kverná yfir bakka sína, braut skarð í varnargarð sem á að hlífa veginum og reif síðan burt uppfyllingu við brúna á Hvammsá í Dölum flæddi yfir bakka sína og braut skarð i þjóðveginn undan Akri. Í Norðurárdal í Borgarfirði flæddi Norðurá langt yfir bakka sína og er þetta eitt með mestu flóðum, sem í ána hefir komið um þetta leyti árs. Fyrir 15 eða 16 árum kom þó flóð í Norðurá sem var miklu stórkostlegra en þetta og olli þá óhemju tjóni á heyjum. Að þessu sinni flæddi nokkuð burtu af heyjum, en þó litið annað en það sem slegið var síðustu dagana fyrir helgina. Í vikunni sem leið var þurrkur svo að bændur náðu heyjum sínum heim og forðaði það þeim frá gífurlegu tjóni. Norðurá mun einnig hafa flætt upp á veginn hjá Dalsmynni, en ekki þannig að verulegum spjöllum hafi valdið, enda stöðvaðist ekki umferð um veginn. Flóðið varð hvað mest um miðjan dag í gær, en farið síðan sjatnandi. Í morgun var þó enn mikil rigning í Norðurárdal og áin í foráttuvexti. Í viðtali sem Vísir átti við Ferjukot i morgun var talið að flóðið i Hvítá hefði aldrei verið meira en í morgun. Þar neðra flæðir áin vítt yfir hakka og eru allar engjar sem ná að bökkum Hvítár og Norðurár undirlagðar af flóðinu. Sums staðar hefir stórtjón orðið á heyjum, m.a. i Stafholti, þar sem mikið var úti af sæti.

Morgunblaðið segir frá flóðunum í pistli 14. september:

Frá fréttaritara Morgunblaðsins, Ólafsvík, 13. september. — Síðari hluta sunnudagsins gerði aftakaveður af suðaustri með stórrigningu á Snæfellsnesi. Á sunnanverðu nesinu hljóp feikivöxtur í allar ár og læki. Þessir vatnavextir ullu miklum spjöllum á vegum og brúm, svo að samgöngur tepptust. Áin Stórafura í Staðasveit braut stórt skarð í veginn vestan við brúarstöpulinn, og brotnaði hann svo að. brúin seig þeim megin. Bjarnarfossgil ruddist yfir veginn beggja megin við brúna sem á því er, braut báða stöpla hennar svo að hún féll niður í vatnsflauminn. Brú tók af Hraunlæk af veginum. Grafará í Breiðuvík braut skarð í veginn vestan brúar, en brúin sem var smíðuð í sumar, skemmdist ekki. Mjög miklar skemmdir urðu víða á vegum annars staðar. Bílstjóri frá Dagverðará varð að skilja bíl sinn eftir við Stopagil, en það óx svo mjög að það gróf undan bílnum svo að hann féll á endann niður í gilið.

Þannig stóð á að skemmtun stóð yfir að Breiðabliki í Miklaholtshreppi á sunnudagskvöldið [11.]. Bílstjóri úr Ólafsvík ætlaði með fólk á skemmtunina. Kom hann að Stórufuru, er árin var að byrja að brjóta skarð í veginn. Hann komst ekki yfir, en beið við .brúna alla nóttina til þess að vara fólk við að fara á brúna. Allt fólk, sem á skemmtuninni var, úr Ólafsvík, Staðasveit og Breiðuvík, var því teppt fyrir sunnan ána. Fékk það húsaskjól á Vegamótum í Miklaholtshreppi, og var þar alla nóttina og mestallan mánudaginn. Síðari hluta mánudags, er plankar höfðu verið lagðir yfir vegaskarðið við Stórufuru, sem jeppar komust yfir, var fólkið flutt í jeppum að Bjarnarfossgili. Fólkið úr Ólafsvík varð að ganga frá gilinu upp á miðja Fróðárheiði vegna vegarskemmda sunnan í heiðinni.

Valdastaðir Kjós 13. september. Bændur hér í Kjósinni, urðu fyrir nokkru heytjóni s.l. sunnudagsnótt. Eftir að rigningin hætti gekk vindur til suðurs og suðvesturs og hvessti þá svo mikið að vindurinn feykti um allmiklu af uppsættu og yfirbreiddu heyi, sem bændur höfðu þurrkað rétt fyrir síðustu helgi. Laxá í Kjós flæddi yfir bakka sína, þessa nótt og varð almikið af heyi á túnum næst ánni umflotið.

Alþýðublaðið segir líka af vatnavöxtunum 14.september:

Úrhellisrigning var á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Borgarfirði síðdegis á sunnudag og á mánudagsnótt. Urðu vatnavextir svo miklir að þrjár til fjórar brýr stórskemmdust og ein eyðilagðist með öllu, en vegir spilltust mjög. Þá hljóp feikilegur vöxtur í Norðurá í Borgarfirði, flæddi hún yfir engjar fjölmargra bæja í Norðurárdal, Stafholtstungum og Borgarfirði og sópaði burt heyi, sem úti var á engjunum. Munu um 409 hestar heys hafa flætt á einum bæ, en á mörgum bæjum 100—200 á hverjum. Er þetta talið mesta flóð í ánni síðan 1933. Fréttaritari Alþýðublaðsins í Ólafsvík símaði í gær, að í rigningunni í Staðarsveit hafi tvær býr að heita má eyðilagst, önnur á Stóru-Furu, en hin á svokölluðu Bjarnarfossgili, sem er á nýja veginum fyrir ofan Búðaós. Þá gróf frá brúnni á Grafará í Breiðuvík og gerði skarð í veginn þar, smábrú á veginum heim að Búðum skemmdist og loks urðu skemmdir á nýrri brú á Kverná í Grundarfirði. Leiðin úr Staðarsveit til Ólafsvíkur er nú ófær, en í ráði er að lagfæra gamla veginn að Búðaós, en þar verður ekki farið yfir nema sætt sé sjávarföllum. Brúin yfir Bjarnarfossgil féll alveg. Hins vegar gróf undan stöplum brúarinnár á Stóru-Furu og skarð fór í veginn, en reynt mun verða að gera við veginn að gömlu vaði, sem er þar skammt frá. Vatnavextirnir voru geysibráðir. Tveir bílar fóru á sunnudagskvöldið frá Ólafsvík með fólk á skemmtun í Staðarsveit. Komust þeir hindrunarlaust leiðar sinnar yfir brúna á Bjarnarfossgili, en urðu að snúa við við Stóru-Furu. Þegar þeir komu aftur að Bjarnarfossgili, var brúin þar fallin og komst fólkið ekki heim til sín fyrr en í gær.

Bændurnir í Borgarfirði hafa orðið fyrir alvarlegu tjóni. Hey liggur nú víða í stórum hrönnum eftir að flóðið sjatnaði, en það er talið geri ónýtt eftir þeirra reynslu, sem fékkst af slíku flæddu heyi árið 1933.

Tíminn kvartar mjög undan óþurrkum 14.september - og segir af flóðinu í Norðurá:

Eins og frá hefir verið skýrt hér í blaðinu hefir heyskapur gengið mjög illa sunnan lands í sumar, sökum nær sífelldra óþurrka. Eru engar líkur til þess, að heyfengur geti héðan af náð meðallagi nema þá hjá einstaka bændum, sem hafa súgþurrkun eða stórar votheyshlöður. Er ástandið þó mun betra í Vestur-Skaftafellssýslu en í Árnes- og Rangárvallasýslum. Hefir þetta sumar verið litlu eða engu betra en sumrin 1947 og 1937. Við þetta bætist, að engar fyrningar eru nú frá fyrra ári, því að allt var gefið upp í vorharðindunum.

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi Enn er ekki að fullu vitað, hversu miklu heytjóni flóðin í Norðurá hafa valdið bændum í Norðurárdal og Stafholtstungum, en talið er, að tvö þúsund hestburðir heys eða jafnvel meira hafi flotið burt eða ónýst á annan hátt, og það, sem eftir kann að vera verður ónýtt, ef ekki gerir góðan þurrk mjög fljótlega. — Eru þetta mestu flóð, er þarna hafa komið að sumarlagi síðan 1933. Fréttaritari Tímans í Borgarnesi átti í gær tal við Þórð Ólafsson bónda á Brekku í Norðurárdal, Bjarna Valen bónda að Svarfhóli í Stafholtstungum og símstöðina í Svignaskarði. Sagðist þessum aðilum svo frá að enn væru mikil flóð þar efra, en þó heldur í rénun. Sumt af heysætunum sem flóðin náði til standa enn og eru nú að koma uppúr, en hvort tveggja er, að Norðurá hefir borið með sér mikið af leir sem sest hefir í heyið svo að það er mjög illa til reika, og svo hitt að það ónýtist fljótlega með öllu þótt talsvert af því hangi uppi í sætum ef ekki gerir góðan þurrk innan fárra daga. Engi, sem ekki var farið að slá eru nú ósláandi vegna leirs og sands. Alls er talið að yfir tvö þúsund hestburðir heys hafi ónýst frá bæjum í Stafholtstungum, mest frá Svarfhóli og Sólheimatungu, en minna frá Svignaskarði, Hofsstöðum, Stafholti, Melkoti, Munaðarnesi, Hlöðutúni og Haugum. Í Norðurárdal er talið að um átta hundruð hestburðir hafi eyðilagst. Þar af voru yfir eitt hundrað hestburði frá Laxfossi, Hreðavatni og Glitsstöðum, en minna frá Brekku, Hraunsnefi, Hvassafelli, Klettstíu, Hreimsstöðum, Sanddalstungu og Skarðshömrum.

Tíminn segir fréttir að austan og af Ströndum 15.september:

Vonir standa til, að heyfengur bænda á Fljótsdal verði fram að því í meðallagi, og þykir það betra en áhorfðist framan af sumri. Sums staðar varð þó til baga, að engjar blotnuðu mjög í ágústmánuði, svo að erfitt var að nýta þær, einkum þó í Hjaltastaðarþinghá. Fyrir nokkru áttu bændur talsvert úti af heyi, en nú nýlega gerði hinn besta þurrk, mikla hita með allsnörpum vindi, og munu þá allir hafa náð því, sem þeir áttu úti, vel þurru. En sumt af því mun þó hafa verið orðið nokkuð hrakið. Nú hefir verið ákveðið að fresta göngum þar eystra um eina viku, svo að menn geti lengt sláttinn fram á haustið, sem því nemur, og getur orðið að því talsverð búbót, ef vel viðrar.

Talið er að heyfengur bænda á Ströndum verði að þessu sinni yfirleitt stórum minni en verið hefir undanfarið. Eru jafnvel til bæir, þar sem engar líkur eru til, heyist nema þriðjungur miðað við venjulegan heyfeng. Eru orsakir þessa einkum hve mikil brögð eru þar að kali í túnum, eins og raunar mjög víða norðanlands, og svo og slæm heyskapartíð, einkum síðari hluta sumarsins.

Tíminn segir enn af flóði 16.september, í þetta sinn á Skarðsströnd:

Ferðamaður, sem ætlaði yfir Búðardalsá á Skarðsströnd síðástliðið sunnudagskvöld, festi jeppann sinn í ánni, sem var í foraðsvexti. Komst hann á síðustu stundu út úr jeppanum og ætlaði að sækja mannhjálp, en er hann kom til baka, var bíllinn horfinn með öllu og fannst degi síðar ónýtur langt neðan við vaðið. Síðastliðið sunnudagskvöld Jón Hákonarson, gestgjafi í Bjarkarlundi við Þorskafjörð, á leið norður um frá Skarði á Skarðsströnd. Var þá komin úrhellisrigning og ár og lækir í miklum vexti. Jón var á jeppa, og er hann kom að Búðardalsá, ók hann viðstöðulaust út i hana, enda áin þá ekki orðin svo mikil, að hún væri ófær. Er Jón var kominn nær alla leið yfir ána, varð steinn fyrir hjóli, og stöðvaðist jeppinn. Dvaldist Jóni í jeppanum um stund, en kom honum ekki upp úr ánni, sem var í mjög örum vexti. Sá hann sér bann kost vænstan að vaða til lands, og mátti ekki tæpara standa, að hann kæmist yfir. Virtist honum sem yfirborð vatnsins hefði hækkað um 60—70 sentímetra þær tuttugu mínútur, sem hann dvaldi við ána. Jón hraðaði sér til bæja eftir hjálp til þess að ná jeppanum upp. En er hann kom aftur á vettvang, að einni klukkustund liðinni, var jeppinn horfinn. Hafði þá vatnsborðið hækkað á annan metra. Hagar svo til þarna, að vaðið, sem er mjög viðsjált og breytingum undirorpið, er rétt ofan við streng, sem endar i flúðum og fossum nokkru neðar. Hafði vatnsflaumurinn sogað jeppann með sér fram í strenginn, eftir að Jón yfirgaf hann. Jeppi Jóns fannst daginn eftir, alllangt neðar i ánni. Náðist hann upp, en var allur brotinn og bramlaður, svo að ekki annað var heilt en hjólin og vélin. Viðsjál á. Búðardalsá er hið viðsjálasta vatnsfall, þótt lítil sé að jafnaði og munu hafa drukknað í henni nær tuttugu manns, svo að kunnugt sé. Lega vaðsins á henni er með þeim hætti, að hið mesta háskaspil getur verið að fara hana í miklum vexti, og eru uppi eindregnar óskir um það, að húm verði brúuð hið fyrsta.

Í stórviðri því, sem gekk yfir Vesturland, um síðustu helgi, urðu talsverðir heyskaðar við Gilsfjörð. Veðrið var mest á sunnudagskvöldið, og fauk þá víða nokkuð af heyi, einkum í Saurbænum. í Stórholti í Saurbæ hafði til dæmis verið nýbúið að sæta allmikið af heyi, er veðrið skall á, og hurfu að kalla gersamlega tuttugu galtar af tuttugu og fjórum, sem úti voru. — Víðar urðu talsverðir heyskaðar af völdum veðursins. Undir Tjaldanesfjalli hafa vegavinnumenn verið að störfum. Fuku tjöld þeirra í veðrinu, og munir ýmsir, er vegagerðarmennirnir áttu.

Tíminn segir enn fréttir af vatnavöxtunum 17.september:

Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Um síðustu helgi urðu miklir vatnavextir á Vestfjörðum. Ollu þeir miklu tjóni á vegum, einkum þó veginum yfir Kleifaheiði úr botni Patreksfjarðar inn á Barðaströnd. Féllu skriður á veginn, svo að hann varð með öllu ófær bifreiðum.

Hlaup varð í Súlu, en ekki mjög mikið. Vísir 19.september:

Súluhlaupið er í stöðugum vexti, að því er Hannes bóndi á Núpsstað símaði Vísi i morgun. Hefir mikið brotnað framan af jöklinum og borist fram á aurana, austan við Lómagnúp. Á aðalflóðasvæðinu eru 11 símastaurar, og eru þeir nú allir umflotnir vatni, án þess að nokkur eyri standi uppúr á milli þeirra. Í nótt hafði vatnsmagnið enn aukist til muna og tók þá að flæða umhverfis símastaura á sandinum sunnan og vestan við Núpinn. Símasamband er enn austur yfir Skeiðarársand, enda eru símastaurarnir styrktir með stálskífum. Verði þeir hins vegar fyrir jakaburði svo nokkru nemur, má gera ráð fyrir að þeir brotni og sambandið rofni. Súla er enn ekki komin i þann vöxt sem hún var í hlaupinu 1946, Það hófst á nýársdag það ár og hélst allan janúarmánuð og nokkuð fram i febrúar. Hannes á Núpsstað býst hins vegar við að áin eigi enn eftir að vaxa, en hins vegar ekki hægt að segja hve mikið né hve lengi.

Tíminn segir einnig af hlaupinu 20.september:

Í s.l. viku tók Súla á Skeiðarársandi að vaxa og hefir vatnsmagn hennar farið vaxandi til þessa. Er því sýnt að um hlaup úr Grænalóni í Vatnajökli er að ræða. Grænalón hljóp síðast fram 1946 og gerir það venjulega á þriggja ára fresti. Vatnsmagnið á sandinum er nú orðið allmikið og flóðið um fjögurra km breitt. Nokkur jakaburður er fram á sandinn og er talið að símalínan geti verið í hættu. Flóðið fór fremur vaxandi í gær.

Dagur á Akureyri endursegir 21.september grein sem birtist í Landvörn (ekki enn á timarit.is). Þar fjallar Jón um hafísinn:

Jón Eyþórsson veðurírœðingur hefur ritað athyglisverða grein í Landvörn um hafísinn við Grænland og hættu þá, sem okkur hér er búin af hafís, þegar þannig árar á Grænlandi. Grein Jóns er sérstaklega athyglisverð fyrir Norðlendinga — og stjórnarvöldin — og leyfir Dagur sér því að endurprenta hana. Jón segir þannig frá:

„Margir danskir Grænlandsfarar hafa komið hér við i sumar á leið sinni til Grænlands og heim. Lauge Koch jarðfræðingur hefir mikla bækistöð í Óskarsfirði, og vinnur leiðangur hans jöfnum höndum að rannsóknum og málmleit. Annar leiðangur er í Pearylandi, nyrst og austast á Grænlandi og höfðu átta menn þar vetursetu síðasta vetur. Þangað verður ekki komist á skipi vegna íss, og varð því að fljúga með leiðangursmenn og allan útbúnað þeirra um 1000 km langa leið frá Klaveringsey norður með ströndinni. Mörg skip og flugvélar hafa starfað þarna að flutningum í sumar. Hinn kunni Grænlandsfari, Ejnar Mikkilsen, sem nú er umsjónarmaður á Austur-Grænlandi, lagði af stað frá Angmagsalík til Scorebysunds, 29. ágúst s.l., á 300 lesta vélskipi. Hreppti hann aftakaveður milli Vestfjarða og Grænlands, svo að skipið laskaðist, en komst til Reykjavíkur um síðustu helgi. Öllum þessum mönnum, sem margir eru þrautreyndir Grænlandsfarar, ber saman um, að óvenjulega mikill og erfiður ís sé nú meðfram austurströndinni, úr því að kemur norður um Scoresbysund. Hafa nokkur skip setið föst í ísnum að undanförnu og óvíst, hvernig afdrif þau hljóta. Til Danmerkurhafnar, sem fræger úr för þeirra J.P. Kochs og Vigfúsar Sigurðssonar, hefir ekki tekist að koma skipi í sumar. Munu þar sitja nokkrir menn í sjálfheldu, og hætt við, að þeir verði að hafa þar vetursetu.

Aukin hætta á ís við Ísland. Þessar ísfregnir hljóta að vekja eftirtekt okkar, sem hér búum. Því meiri sem ísfúlgan er á hafinu hér norður undan, því meiri hætta hlýtur okkur að vera búin af hafís. Að vísu getur veðurlag og straumar ráðist þannig, að ísinn reki suðui' með austurströnd Grænlands, án þess að taka hér land, en slíkt er þó undir heppni komið. Og það ættu menn að hafa í huga, að allur er varinn bestur og síst af öllu ráðlegt að „setja á guð og gaddinn“, þegar vitað er af slíkum vágesti á næstu grösum. Ekki væri það nema réttmæt varfærni af stjórnarvöldum að hlutast til um, að matarbirgðir yrðu í ríflegra lagi í kauptúnum norðan lands í haust. Ekki er vitað, hvernig á hinum mikla hafís stendur við Grænlandsströndina. Þar getur verið um óvenjulega mikinn lagnaðarís að ræða frá síðasta vetri, en hitt er öllu líklegra, að straumar og vindar frá Norðurskautshafinu hafi þrýst óvenjulega miklu ísreki suður um gapið milli Norður-Grænlands og Svalbarða.“

Tíminn segir af kali 23.september:

Eftir hin miklu harðindi á s.l. vori var allmikið um kal í túnum og sums staðar mjög mikið einkum í uppsveitum Þingeyjarsýslna. Á Hólsfjöllum fékkst ekki helmingur töðu af túnum og í Mývatnssveit, fremri hluta Reykjadals og í Bárðardal varla meira en þriðjungur þess sem meðalár gefa. Af þessum sökum hefir heyfengur bænda á þessum slóðum orðið rýr og horfir sums staðar til vandræða í þessum efnum.

Tíminn segir 25.september af erfiðum heyskap í Borgarfiðri:

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Enn eru mikil hey úti víða í Borgarfirði, og hefir enginn þurrkdagur komið um langt skeið. Eru þau mjög tekin að léttast og liggja undir algerri eyðileggingu. Hey þau, sem lentu í flóðunum í Norðurárdal og Stafholtstungum, en flutu þó ekki brott, eru nú ekki lengur til neins nýt.

Sérstaklega gott tíðarfar er nú víða norðan lands, sagði Kristján Karlsson, skólastjóri á Hólum, í símtali við tíðindamann frá Tímanum, og mikil hlýindi dag hvern.

Nokkuð kólnaði í lok mánaðar og bárust þá fyrstu fréttir af snjóum. Vísir 29.september:

Snjókoma var á Vestfjörðum i nótt og viða fyrir norðan, að því er Vísi er tjáð. Í morgun var versta veður á Siglufirði, slydduhríð og stormur. Hafði snjóað þar í fjöll i nótt og voru þau nær alhvít.

Tíð þótti góð í október og var áberandi tíðindaminni heldur en annars á árinu. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Október var góður að veðurfari, sérstaklega seinni hlutinn. Þá var svo þurrviðrasamt. Öll hey náðust inn, og rófur og kartöflur upp úr görðum.

Lambavatn: Það hefir mátt heita góð tíð. Fyrri hlutinn votviðri en seinni hlutinn þurrviðri og stilla. Þau hey sem voru úti fyrir göngur komust ekki inn fyrr en í síðustu sumarvikunni.

Sandur: Tíð var lengst af mild og hagstæð til útivinnu. Dilkar fremur rýrir til frálags.

Reykjahlíð: Október mildur og góður hér að þessu sinni. Mývatn lagði 24. október, ísinn fyrst genginn þann 29.

Tíminn segir af uppskeru úr görðum 1.október:

Blaðið átti í gær tal við Sigurð Elíasson, forstöðumann tilraunarstöðvarinnar að Reykhólum. Aðallega voru þar ræktaðar rófur, kál og korn í sumar, og hefir uppskeran orðið mjög léleg. Miklar rigningar hafa gengið þar að undanförnu og tafið lok heyskapar. Rófnaræktin, sem er mikil að Reykhólum gekk illa í sumar. Mun uppskera rófna ekki verða meiri en þriðjungur meðaluppskeru. Klaki var í jörð langt fram eftir sumri, og veðrátta ekki sem hagstæðust í sumar. Hvítkálið er í löku meðallagi og annað kál eftir því. Á Reykhólum er einnig nokkur kornrækt, en í sumar mun hvorki bygg ná hafrar ná þroska þar. Kemur þar bæði til stutt sumar og óhagstæð veðrátta. Miklar rigningar hafa gengið þar að undanförnu.

Morgunblaðið segir af góðviðri 8.október:

Óvenjugott veður var um allt Suðurland í gær, en logn var og sólskin allan daginn. Það sást varla ský á himni. Töldu sumir daginn hafa verið einn þann besta, sem komið hafi á þessu ári.

Morgunblaðið segir enn af blíðu 15.október:

Akureyri, 17. október. Mesta blíðskaparveður hefur verið hér að undanförnu. Eyjafjörður hefur verið baðaður í sólskini svo að segja hvern dag. Heyskapur er fyrir löngu hættur, og hefur heyfengur yfirleitt reynst í góðu meðallagi, sérstaklega í innsveitum héraðsins, og nýting í besta lagi. Kartöfluuppskera er og allgóð víðast hvar.

Vísir segir 17.október frá strandi:

Á ellefta tímanum í gærkveldi strandaði færeyska skipið „Havfruen“ rétt við svokallaða Almenninga á Haganesvík. Hríðarveður var og mikið brim við ströndina, er skipið strandaði. Áhöfn á Havfruen var átján manns og gekk greiðlega að bjarga þeim. Var hún komin i land fyrir birtingu í morgun.

Vísir segir 29.október frá sjávarkulda:

Frá því er hitamælingar í hafinu norður af Íslandi hófust, hefir hitastigið aldrei verið jafn lítið sem í sumar. Eftir þeim gögnum, sem búið er að vinna úr, hefir komið í ljós að hitinn á þessu svæði virðist vera mun minni en í fyrra. Er þetta kaldasta sumar í sjónum frá því er mælingar hófust.

Hvassviðri gerði í lok mánaðar. Vísir segir af því 1.nóvember:

Í gærkveldi og í nótt gekk mikið hvassviðri yfir suðvesturhluta landsins, samfara óvenjumikilli úrkomu. Að því er Veðurstofan tjáði Vísi í morgun mældist vindhraðinn mestur 11 stig og úrkoman 15 mm. frá kl.5 síðdegis í gær til kl. 8 í morgun og er það óvenjumikið. Illviðri þetta var sunnan lands og vestan, en veðurhæð var ekki eins mikil annars staðar á landinu. Þótt undarlegt megi virðast hefir ekki frést um alvarleg spjöll af völdum óveðursins, hvorki hér i Reykjavík né í nærsveitum, að því er Vísi var tjáð hjá ýmsum aðilum í morgun. Hins vegar urðu þær skemmdir á byggingu Blóðbankans, sem er í smíðum við Rannsóknarstofu Háskólans við Barónsstíg, að öll mótin á fyrstu hæð hússins, sem búið var að slá upp, fuku í nótt. Engin spjöll munu þó hafa orðið á nærliggjandi húsum.

Nóvember þótti hagstæður, einkum um landið vestanvert. Einu stórtíðindin voru af skriðuföllum í Neskaupstað - eftir mikla úrhellisrigningu. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Nóvembermánuður var fádæma góður, mild veðrátta og úrkomulítil. Auð jörð fram í síðustu viku. Fé gengur enn sjálfala, en jörðin er hvít yfir að sjá af lausamjöll.

Lambavatn: Það hefir verið góð tíð yfir allan mánuðinn. Sauðfé allstaðar gengið um hirðingarlítið. Aldrei fennt að heitið geti á fjöll eða í byggð.

Sandur: Tíðarfarið var milt og hægviðrasamt. Jörð snjólaus og þíð að heita má allan mánuðinn. Sauðfé gekk að mestu úti.

Vísir segir af slæmum gæftum 5.nóvember:

Tíðarfar hefir verið með eindæmum slæmt i Grindavik og hefir ekki gefið á sjó þar í hálfan mánuð eða svo.

Vísir segir af góðri tíð í Reykjavík 14.nóvember:

Haustveðráttan hér í Reykjavík hefir verið með afbrigðum góð allt til þessa, og miklu betri en venja er til.

Morgunblaðið segir 24.nóvember frá skriðuföllum í Neskaupstað:

Frá fréttaritara vorum í Neskaupstað. Skriðufall hefur valdið hér stórtjóni í dag og er ekki séð enn, þegar þetta er sent, hve mikið tjónið kann áð verða. Aur og vatn hefur svo að segja fyllt kjallaraíbúð í fógetahúsinu og mikill aur komst i sundlaugina.

Undanfarna daga hefur verið hér úrhellisrigning og um 7-leytið i morgun (miðvikudag) kom hlaup úr fjallinu fyrir ofan bæinn og stefndi á bæjarfógetahúsið. Skriðan felldi steinsteyptan garð, sem er fyrir ofan húsið og fylltist kjallari hússins af aur og vatni, en í kjallara bjó Einar H. Pálsson skrifari bæjarfógeta. Varð þarna hið mesta tjón á húsbúnaði og íbúðinni og litlu sem engu bjargað úr henni. Fleiri íbúðir munu og hafa orðið fyrir verulegum skemmdum. Skriðan rann áfram og komst mikill aur í sundlaug kaupstaðarins, sem er þarna fyrir neðan hús bæjarfógeta. Steinveggir, sem urðu á vegi skriðunnar hrundu og víða eru hús í hættu, þar sem leðjan hefur grafið undan þeim. Í allan dag hefur verið reynt að stöðva skriðuna og beina henni frá húsum, sem í hættu voru. Hefur það borið nokkurn árangur. Rafstöð bæjarins var í hættu um tíma. Stórgrýti rann niður fjallið, en ekki hefur það valdið tjóni til þessa. Norðfirðingar áttu þá von í gærkvöldi. að veður mundi batna, því það var eina hjálpin, sem að verulegu gagni gat komið, því lítið lát er á skriðunni á meðan stórrigning eins og í dag er. Fréttaritari símaði í gærkvöldi, að svo virtist, sem frekari hætta af skriðuhlaupum væri hjáliðin. Enn er óljóst hve miklar skemmdir hafa orðið á mannvirkjum, en aðalgatan er mjög mikið skemmd. Eftir henni hefur myndast djúpur skurður, sem sumstaðar er um tvær mannhæðir á dýpt. Menn, sem minnast skriðunnar miklu á Eskifirði um árið, segja að þessi skriða sé enn meiri og ferlegri en sú, er þar rann og olli miklu tjóni.

Vísir segir einnig af skriðuföllunum 24.nóvember:

Í gærmorgun um sjöleytið féll aurskriða í Neskaupstað og olli miklum skemmdum á húsum og öðrum mannvirkjum. Vísir átti í morgun tal við héraðslækninn í Neskaupstað, Þorgeir Gestsson, og sagði hann að nú væri stytt upp og naumast ástæða til að óttast frekari spjöll af völdum skriðufalla. Úrhellisrigning hefir verið undanfarna sólarhringa á Norðfirði og m.a. var stórrigning í alla fyrrinótt. En í gærmorgun, um sjöleytið, féll skriða ofan úr fjallinu og kom niður í miðjan kaupstaðinn. Lenti skriðan aðallega á þremur húsum og fyllti kjallara þeirra allra. Í öllum kjöllurunum var að einhverju leyti búið, en þó ekki íbúð nema í einum þeirra. Fólkið sem þarna svaf eða bjó bjargaðist sjálft naumulega og missti aleigu sína undir aurleðjuna. Hvort nokkru af þessu tekst að bjarga eða ekki er alsendis óvíst. Líkurnar eru a.m.k. eins miklar að allt hafi eyðilagst. Einna verst varð Einar H. Pálsson skrifari bæjarfógeta úti, en íbúð hams og fjölskyldu hans var í einum kjallaranum og flæddi skriðan inn um suðurgluggana og út um norðurgluggana. Auk þessa brotnuðu garðar í hænum, sundlaug kaupstaðarins, sem er ein fegursta útisundlaug á landinu barmafylltist af aurleðju, en jafnframt kom vatnsflóð úr lauginni og niður á götuna fyrir neðan. Lækur braut sér farveg eftir einni götunni, og er þar nú mannhæðardjúp vatnsrás. Ýmsar fleiri meiri og minni skemmdir urðu þarna á mannvirkjum, og hefir enn sem komið er ekki fengist fullkomið heildaryfirlit yfir það. Rafmagnið var tekið af bænum i gær, því óttast var að leiðslur kynnu að rofna og valda íkviknunum. Vatnsleiðslur skemmdust og er nokkur hluti bæjabúa nú vatnslaus. Í allan gærdag var unnið að því að reyna að koma í veg fyrir frekari spjöll af völdum vatns og aurs og í nótt átti að standa vörð ef ekki hefði dregið úr rigningunum. En sem betur fór stytti að mestu leyti upp i gærkveldi og óttast menn nú ekki frekari skemmdir af völdum skriðufalla. Héraðslæknirinn sagði að það væri alls ekki óvenjulegt að skriður féllu úr fjallinu ofanvert við Neskaupstað, en hins vegar hafa þær ekki valdið tjóni sem nú.

Alþýðublaðið fjallar einnig um skriðuföllin 24.nóvember:

Samkvæmt símtali við Neskaupstað í gærkvöldi. Svonefndur Konráðslækur hljóp úr farvegi sínum í svokallaðan Hólslæk í gær, vegna skriðufalla, sem stífluðu farveg læksins. Við þetta myndaðist skriðuhlaup, sem flæddi um bæinn, einkanlega miðbæinn, og skall þar með miklu afli á íbúðarhúsunum. Varð hús bæjarfógeta einna verst leikið; myndaðist uppistaða við steinvegg ofan við lóðina, en veggurinn brast undan þunganum og skriðan féll að húsinu og fyllti neðri hæð þess af aur og vatni. Fógetaskrifarinn hafði íbúð á neðri hæðinni, gereyðilagðist búslóð hans öll, og sjálfur gat hann með naumindum bjargað sér og fólki sínu upp á efri hæðina. Þá fylltist sundlaugin í bænum af aur og grjóti, síðan féll skriðan meðfram rafstöðvarhúsinu, en lækirnir brutu sér farveg, meir en tveggja metra djúpan, á svonefndum Rafstöðvarvegi, yfir þvert bæjartorgið og niður í sjó. Rótuðu þeir upp rafleiðslum og vatnsleiðsluæðum, er lágu í götunni, og er mikill hluti bæjarins vatnslaus, en rafleiðslur skemmdust ekki. Fossa lækirnir enn eftir þessu gili, og verður enn ekkert um sagt með vissu upp á hverju þeir kunna að taka, því að enn er úrhellisrigning austur þar, en stórrigningar hafa staðið þar látlaust síðustu þrjá sólarhringa. Enda þótt skemmdir og jarðrask hafi orðið mest í miðbæn um, eru flestar, götur þar, tún og garðar annaðhvort upptætt eða undir aur og grjóti, og kvað fréttamaður útlit bæjarins mest líkjast því, sem maður gæti hugsað sér að væri eftir stórkostlegar hernaðaraðgerðir. Ekki urðu þessar náttúruhamfarir neinum mönnum samt að slysi, svo um sé vitað. Ekki er enn neitt vitað hversu mikið fjárhagslegt, tjón hefur af hlotist, en fullyrt er að það sé geysimikið.

Morgunblaðið fer yfir tjón í skriðuföllunum í pistli 25.nóvember:

Norðfirði, fimmtudag. Tjón það, sem skriðufallið hefur orsakað hér í bænum og utan við hann, mun vafalaust nema nokkrum hundruðum þúsunda. Í dag var unnið að því að hreinsa út úr bæjarfógetahúsinu og fleiri húsum. Neðri hæð fógetahússins fylltist af aurleðju og grjóti. Þar bjó Einar Pálsson fógetaritari með fjölskyldu sinni, ungur maður og kona. Varð Einar fyrir miklu tjóni á innbúi sínu, sem jafnvel hefur eyðilagst alveg, og hitt fólkið, er bjó á sömu hæð, einnig. Mjög mikið mun það kosta bæinn að gera við skemmdir þær, er orðið hafa á Stekkjargötu. Eftir henni liggur 200 til 300 m langur skurður og rörleiðslur og skolpræsi hefur skemmst, sem vatnselgur rótaði upp. Í dag var byrjað að hreinsa sundlaugina, en búningsklefana fyllti, en síðan rann út úr þeim í sundlaugina sjálfa. Fjölmargar lóðir við hús manna skemmdust, en sennilega engin eins mikið og lóðin við fógetahúsið. Þar var aurinn í mitt læri í dag, er verið var að hreinsa út úr húsinu. Lagfæringin á lóð hússins kostaði á sínum tíma kringum 100 þúsund kr. Túnið fyrir ofan bæinn hefur skemmst mikið af grjóti og aur á stóru svæði. Það mun taka mörg dagsverk að lagfæra alt það tjón, sem skriðufall þetta hefur valdið hér í bænum, en framkvæmdum við það á að hraða eins og föng eru á. — G.

Desember var hagstæður vestanlands, en á austanverðu landinu var kvartað um jarðleysi. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Desembermánuður var þurrviðrasamur, mildur og yndislega góður. Jörðin er auð og þíð á láglendi en nokkrir skaflar til fjalla.

Lambavatn: Það hefir mátt heita góð tíð. Alltaf snjólétt og stundum alautt og frostlítið nema tvo eða þrjá daga, eins var nokkuð úrkomulítið og ekkert er farið að gefa fé enn þar sem útbeit er.

Sandur: Tíðarfarið var hægviðrasamt og snjólétt. Hagar víðast góðir.

Reykjahlíð: Vond stórhríð 7.desember. Fennti víðast eitthvað af kindum. Allan mánuðinn fremur stirð tíð og haglítið um áramót.

Grímsstaðir: Vond tíð, miklar snjókomur og allmikil frost. Einhver versta stórhríð sem hér hefir komið til margra ára kom 7.-8. desember með frosti og fannkomu. Fennti nokkuð af fé en fannst flest lifandi, eitthvað um 30 kindur sem vantar. Er að mestu haglaust síðari helming mánaðarins.

Gunnhildargerði: Veðrátta mánaðarins var mjög erfið og því sem nær alger jarðbönn síðari hluta mánaðarins og hefur hann reynst mjög gjafafrekur.

Sámsstaðir: Kaldur og snjósamur svo gefa varð öllum fénaði fulla gjöf. Ófærð á vegum, einkum fyrri hluta mánaðarins, en 21. brá til leysinga og vætu.

Morgunblaðið segir af snjókomu 3.desember:

Þrátt fyrir mikla snjókomu um Suður- og Suðvesturland í gær, höfðu vegir hvergi teppst vegna fannkomunnar. Í sveitunum fyrir austan Fjall, var talsverður snjór á vegunum. Á Hellisheiði einnig, en þar uppi var hitinn, sem annarstaðar um frostmark.

Vísir segir af ófærð 8.desember:

Bæði Hellisheiðar- og Krýsuvíkurvegirnir ófærir orðnir. Flóavegurinn var einnig ófær í morgun og er nú unnið að því að opna hann, ef tök eru á því fyrir skafrenningi. Í gær var þetta líka reynt, en án árangurs, því það skóf jafnharðan i brautina. Fyrir austan Þjórsá er vegurinn aftur á móti talinn sæmilega fær, og sömuleiðis eru ekki miklar samgönguhindranir i uppsveitum Arnessýslu svo vitað sé. Hins vegar eru miklar tálmanir í niðursveitunum og við sjávarsíðuna. Bæði Hellisheiði og Krýsuvíkurleiðin eru ófærar, en aðalfannirnar á síðarnefndu leiðinni eru á milli Hlíðarvatns og Grímslækjar í Ölfusi. Sömuleiðis voru miklir skaflar austanvert í Ölfusinu, einkum vestantil við Kögunarhól, en samt brutust bílar í gegnum þá í gær. Ekki hefir frést annað en að Hvalfjarðarleiðin væri fær enn sem komið er, en aftur á móti var komið versta veður á Holtavörðuheiði í gær og því tvísýnt hvort hún muni vera fær.

Tíminn segir 9.desember af símabilunum og svo ófærð - og hitaveituraunum:

Blaðið átti í gær tal við póst- og símamálastjóra og spurði hann um símabilanir er orðið hefðu í þessu áhlaupi. Hann kvað þær vonum minni, því að víða hefði veður verið mjög hvasst, og eins vildi brenna við, að allmiklar bilanir yrðu í fyrstu áhlaupum haustsins og kæmu þá fram veilur á símalínunum, sem verið hefðu að myndast að undanförnu. En í sumar hefir mjög mikið verið unnið að endurbótum á símalínum, þar sem þær voru mjög illa farnar eftir síðasta vetur. Er það því að þakka, hve bilanir hafa orðið litlar í þessu fyrsta áhlaupi. Í Skaftafellsýslum var mjög hvasst í nótt sem leið, allt að 10—11 vindstigum. Þar urðu einu bilanirnar sem heitið geta. Slitnaði lína einhversstaðar milli Kvískerja og Kálfafellsstaðar. Verið var að gera við þá bilun i gær, og stóðu vonir til, að viðgerð lyki í gærkveldi. Einnig slitnaði línan yfir Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu og var gert við hana síðdegis i gær.

Hitaveitan hefir alveg brugðist í þessum fyrstu frosthörkum vetrarins, svo að mjög kalt var í mörgum húsum á hitaveitusvæðinu í Reykjavík í gær og fyrradag. Vatnsnotkunin var mjög mikil í fyrrinótt og tæmdust geymarnir um hádegi í gær. Síðari hluta dags í gær var því vatnslaust að kalla og mjög kalt. Rafmagn hefir verið mikið notað til hitunar svo að skort hefir til suðu fyrir hádegið. Fólk ætti sem allra minnst að nota heita vatnið á nóttunni. Ef allir eru samtaka um það, tryggir það jafnari hita að deginum. Hitaveitustjóri vakti athygli á því í útvarpstilkynningu í gærkveldi, að samkvæmt samþykkt bæjarráðs væri notkun heita vatnsins að næturlagi bönnuð og væri hengt fyrir, fyrsta brot með því að loka fyrir heita vatnið einn sólarhring en fyrir ítrekið brot með 7 daga lokun. Undanfarnar nætur hefir heita vatnið verið mjög misnotað.

Í Skaftafellsýslum var mjög hvasst í nótt sem leið, allt að 10—11 vindstigum. Þar urðu einu bilanirnar sem heitið geta. Slitnaði lína einhversstaðar milli Kvískerja og Kálfafellsstaðar. Verið var að gera við þá bilun i gær, og stóðu vonir til, að viðgerð lyki í gærkveldi. Einnig slitnaði línan yfir Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu og var gert við hana síðdegis i gær.

Alþýðublaðið segir af hvassviðri 13.desember:

Mikið afspyrnuveður varð á Vesturlandi síðastliðinn laugardag. Þá var veðurhæð svo mikil við Hafnarfjall, að vörubifreið með farm af grjóti fauk út af veginum og hvolfdi við veginn. Ekki sakaði bílstjórann. Allmargir bílar héldu kyrru fyrir á Holtavörðuheiði á laugardagsnótt.

Tíminn segir frá hrakningum og fannfergi syðst á landinu í pistli 18.desember:

Fólk, sem ætlaði austur að Hólmi til að vera við jarðarför Runólfs heitins Bjarnasonar á dögunum, lenti í miklum erfiðleikum á leiðinni vegna fannfergi og komst raunar aldrei alla leið. Komst það að lokum frá Herjólfsstöðum til Víkur í Mýrdal og þaðan gangandi vestur að Pétursey. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær tal við Stefán Runólfsson rafvirkja, sem var með í förinni. Bað hann blaðið að færa Álftveringum þakkir ferðafólksins fyrir framúrskarandi viðtökur og bílstjóranum fyrir hinn mikla dugnað, er hann sýndi. Við lögðum af stað austur snemma morguns í sterkum 16 manna bíl með drifi á öllum hjólum. Ferðin austur í Vik gekk vel- Með bílinn var duglegur bílstjóri, Ingimar Ingimarsson, sem jafnframt er vanur ferðamaður. Frá Vík var haldið að Herjólfsstöðum. Síminn var bilaður í Vík, en þegar að Herjólfsstöðum kom var hægt að tala í síma austur í Skaftártungu. Frétti ferðafólkið þá, að þar var stórhríð og mjög mikil fönn komin. Samt var tilraun gerð til að komast áfram, en snúa varð við aftur að Herjólfsstöðum. Næstu tvo daga var verið þar um kyrrt sökum illviðris. Komst vindhraðinn upp í 10 stig með 15 stiga frosti í Álftaveri. Að þessum tveimur dögum liðnum reyndum við aftur að komast áfram. Sú tilraun var árangurslaus, enda hvessti þá aftur og gerði sterkan skafrenning, og fórum við þrjá kílómetra í þeim leiðangri, sem tók okkur tíu klukkutíma. Þó voru vanir fylgdarmenn með okkur, sem voru leiðinni kunnugir. Dvöldum við um kyrrt á Herjólfsstöðum til föstudagsmorguns og sýndist kunnugum mönnum, að eini möguleikinn til að komast til baka væri að fara suður að sjó á hestum og til Víkur yfir vötnin við útfall. Fjórir gengu þó vestur Mýrdalssand og óðu sumar árnar, en komust yfir aðrar á ís. Gistu þeir í Fagradal. Þeir sem fóru með sjónum ríðandi komust til Víkur samdægurs. Færi var gott með sjónum og vötnin töfðu ekki ferðalagið, enda voru kunnugir ferðamenn með, Brynjólfur Oddsson frá Þykkvabæjarklaustri og Júlíus Jónsson, sonur Jóns Gíslasonar alþingismanns. Þegar komið var til Víkur var snjór svo mikill þar. að bílar urðu ekki hreyfðir og raunar talið ófært fyrir hesta líka. Var því lagt af stað næsta morgun og gengum við alla leið vestur undir Pétursey, en þaðan gekk ferðin greiðlega með bílum. Við söknuðum þess sérstaklega, að ýtur og önnur tæki voru engin þarna austur frá í notfæru standi til þess að hjálpa ferðamönnum, sem þurfa nauðsynlega að komast leiðar sinnar, og til að halda almennum samgönguleiðum opnum.

Alþýðublaðið segir af góðri jólafærð 28.desember:

Fjallvegir voru yfirleitt færir um jólin. Fært var í fyrradag austur um Hellisheiði allt til Víkur í Mýrdal. Hvalfjarðarvegurinn var einnig fær og sömuleiðis var fært í Dali, til Stykkishólms og Norðurlands. Í hlákunni, sem gerði rétt fyrir jólin, urðu vegir í uppsveitum Árnessýslu færir bifreiðum.

Tíminn lofar hausttíðina 28.desember:

Víðast hvar á landinu var einmuna tíð fram í desember svo að fé gekk úti og bændur gátu unnið að margs kyns framkvæmdum. Úr Bárðardal er skrifað, að tíð þar hafi verið einmuna góð, og hafi það bætt mjög fyrir hart vor og stutt og slæmt sumar. Fé gekk úti fram í desember og var þess mikil þörf, þar sem hey eru víða með minna móti. Mikill fóðurbætir var keyptur í haust og fé þó fækkað. Á s.l. vori varð að fresta ýmsum brýnum framkvæmdum vegna harðindanna og hefir nú verið reynt að bæta úr því í haust. Unnið hefir verið að byggingum og landbroti til ræktunar með jarðýtu og dráttarvél og hömluðu frost ekki þeirri vinnu fyrr en komið var fram í nóvember. Einnig var unnið að byggingum hér og þar fram undir desemberbyrjun.

Morgunblaðið segir af slysum ársins 31.desember:

Sjóslysum hefur fækkað og segir í skýrslu Slysavarnafélagsins, að ekki sé vitað um nema þrjá menn, sem hafi drukknað við vinnu sína á árinu. Tók þá alla út af skipum, einn af vélbát, annan af árabát og þann þriðja af togara. En alls drukknuðu í sjó eða vatni 13 manns á árinu, þar af hafa 9 drukknað við land og í höfnum og ein kona í Ölfusá. 

Þann 30.desember fórst rjúpnaveiðimaður í snjóflóði. Tíminn segir frá 3.janúar 1950

Föstudaginn 30. des. s.l. fór ungur maður, Þórhallur Frímannsson, að Austara-Hóli í Flókadal í Fljótum að heiman frá sér til rjúpnaveiða í Austara-Hólsfjall. Var þetta árdegis en þegar leið á daginn og Þórhallur kom ekki heim, var farið að óttast um hann og leit hafin. Nokkuð hafði verið gengið þarna við rjúpur í fjallinu undanfarna daga og því illt að átta sig á slóðum, en þó komu leitarmenn um siðir að nýföllnu snjóflóði. Að því lá ein slóð en engin frá, og var því farið að grafa í fönnina. Fundu menn Þórhall þar örendan fyrir miðnætti um kvöldið. Læknir taldi, að hann hefði látist þegar flóðið féll á hann, og úr hans hafði stöðvast klukkan að ganga tólf um morguninn, og er búist við, að þá hafi flóðið fallið. 

Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1949. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. Ábendingar um villur í staðanöfnum eru vel þegnar.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b
  • w-blogg071224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.12.): 516
  • Sl. sólarhring: 516
  • Sl. viku: 2143
  • Frá upphafi: 2418897

Annað

  • Innlit í dag: 453
  • Innlit sl. viku: 1890
  • Gestir í dag: 406
  • IP-tölur í dag: 391

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband