Hugsað til ársins 1935

Árið 1935 var umhleypingasamt - og fór nokkuð öfganna á milli. Eins og venjulega á þessum árum urðu miklir mannskaðar á sjó, erlendir togarar urðu illa úti. Fáein illviðri urðu eftirminnileg.

Tíð var hagstæð með köflum, úrkoma og hiti yfir meðallagi. Í janúar var hagstæð tíð á Norður- og Austurlandi, en óstöðug og stormasöm suðvestanlands. Hlýtt var í veðri. Febrúar var bæði umhleypingasamur og kaldur. Þetta er kaldasti febrúar á landinu í heild eftir 1920. Gæftir slæmar. Mars óstöðugur og úrkomusamur, en hlýr. Gæftir voru slæmar. Tíð var óhagstæð á Norður- og Austurlandi vel fram yfir miðjan mánuð, en var annars yfirleitt hagstæð. Mjög þurrt víðast hvar. Tíð í maí var sérlega góð og hlý. Lengst af var þurrt. Maímánuður er sá hlýjasti sem vitað er um á landinu í heild, var það þó ekki alls staðar. Í júní var tíð óhagstæð norðaustanlands, en annars talin allgóð. Úrkomusamt var. Júlí var votviðrasamur og óhagstæður nema helst austanlands. Í ágúst gengu votviðri vestanlands, en skárra var annars staðar, einkum á Norðausturlandi. Í september var tíð góð á Vesturlandi, en slæm austanlands. Uppskera úr görðum undir meðallagi. Í október var óstöðug úrkomutíð. Talsvert snjóaði norðanlands um miðjan mánuð. Í nóvember var tíð hagstæð til landsins, en gæftir voru stopular. Í desember var tíð lengst af hagstæð á Suður- og Suðvesturlandi, en slæm á Norður- og Austurlandi með miklum snjó. 

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Textar úr Morgunblaðinu verða mjög fyrir valinu þetta ár. Blöðin vitna mjög oft í Fréttastofu útvarpsins (FÚ) og mikið af fréttum Morgunblaðsins raunar þaðan runnar. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar og umsagnir veðurathugunarmanna úr skýrslum þeirra sem varðveittar eru á Veðurstofunni. Talnasúpu má finna í viðhenginu. 

Við byrjum á nokkrum umsögnum veðurathugunarmanna um hinn umhleypingasama janúarmánuð sem var mun betri um landið austanvert en vestanlands:

Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Í janúar hefir veðurfar verið mjög breytilegt. Fyrstu dagana var svo milt og hlýtt, sem um (sumar? Ú.) var. Úr því varð mjög umhleypingasamt. Ýmist snjókoma með talsverðu frosti eða asahláka með regni og miklum vatnavöxtum.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir oftast verið hlýtt, en miklar rigningar, jörð hefir verið af og til alveg klakalaus og litkað í kringum hús.

Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): Rétt fyrir kl.12 á hádegi hinn 9.þ.m. skall á vestanrok, veðurhæð 10-11 með blindhríðarveðri. Þetta var svo skyndilegt áhlaupsveður að á 7 mínútum var úr logni orðið rok með fullri veðurhæð. Rokið stóð um 3 klst. Þrír menn frá Patreksfirði lentu hér í Kvígindisdal á vélbát og settu bátinn upp, líklega 20 mínútum áður en rokið skall á, fóru svo strax að gæta bátsins, en hann var horfinn. Hafði rokið kastað honum á sjó út og fannst hann síðar mölbrotinn norðanvert við Patreksfjörð. Veðrið lægði fljótt. Þann.22 gjörði vestan ofsarok, veðurhæð 10-11 með hríðaréljum. AÐ kvöldi þess daga mun togarinn Jería frá Grimsby hafa farist undir Látrabjargi, 13 menn í áhöfn. Mánuðurinn hefir verið mjög úrkomu- og stormasamur. 

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Umhleypingasamt. Snöggar og tíðar veðra- og hitabreytingar. Úrkomusamt. Óvenjuhlýtt með köflum. Jörð grænkaði. Skriða féll á Suðureyrartún [21.] og eyðilagði 1 til 1 1/2 dagsláttu. Þann 9. fórst mb Njáll með 4 mönnum.

Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Mánuðurinn sérstaklega mildur og fremur þurr. Algengust sunnan og vestanátt með tíðum hvassviðri og óstillingum svo að beit hefir fyrir það notast fremur illa. Loft oftast mikið skýjað og aldrei logn daglangt. Fjöll orðin svo snjólítil í mánaðarlokin að fá dæmi eru um það leyti vetrar.

Húsavík (Benedikt Jónsson): Veðuráttan einmuna blíð og hlý og þurr. Sjaldan hvassviðri. Til marks um blíðuna er það að túnblettir grænkuðu, blóm sprungu út í görðum.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Fremur hæg vestan- og suðvestanátt sem oftast. Úrkomulaust að kalla og jörð nær alltaf alauð. Má tíðin teljast fremur mild og hin hagstæðasta.

Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Mánuðurinn í meira lagi umhleypingasamur. Veðurfar hlýtt en úrkomusamt. Bílfært yfir Hellisheiði allan mánuðinn.

Reykjanesviti (Jón Á. Guðmundsson): Mjög rosasöm tíð. Stormar og umhleypingar. En hlýindi og góð beit.

Svo virðist sem eldsumbrot hafi enn haldið áfram í Grímsvötnum framan af ári, en þeirra varð þó lítið vart í byggð. Hvort sá eldur sem minnst er á um áramótin hefur átt uppruna sinn þar - eða hvort öflug þrumuveður hafi gengið yfir hálendið skal ósagt látið, en Morgunblaðið  segir frá 3.janúar (og vitnar í Fréttastofu útvarpsins (FÚ):

Eldsýnir. Frá Blönduósi er símað, að með birtingu 30. des. hafi sést af hálsinum vestan Blöndudals rísa reykjarmökkur í suðaustri. Endurtók þetta sig þrívegis. Reykinn bar við suðausturhorn Brúnafells og suðvesturhorn Bláfells. Á nýársdag sást frá Blönduósi greinilegur eldbjarmi í sömu stefnu. (F.Ú.).

Tíminn segir fréttir að austan 7.janúar:

Sífelldar rigningar hafa verið á Austfjörðum undanfaríð. Snjólaust er í byggð og sauðfé gengur víðast úti. Í Vopnafirði hafa undanfarið verið fádæma rigningar og óvanalega heitt í veðri á þessum tíma árs. Jörð er alþíð í sveitum og blómhnappar springa út í görðum.

Djúp lægð fór norðaustur Grænlandssund. Morgunblaðið segir frá 10.janúar:

Suðvestanrok gerði hér í fyrrinótt [aðfaranótt 9.] og hélst fram á miðjan dag. — Tveir línuveiðarar, Nonni og Sigríður, sem lágu við norður hafnargarðinn drógu festar sínar og rak upp í hafnargarðinn um kl.10 í gærmorgun. Dráttarbáturinn Magni náði línuveiðaranum Sigriði út og mun skipið ekki mikið skemmt En þegar fjaraði út rann Nonni af garðinum og sökk til hálfs. Skipið hallast mikið, þar sem það liggur, og á flóðinu í gær féll sjór yfir það allt. Líkur eru þó taldar til að hægt verði að ná skipinu, en það er mikil og erfið vinna og mun skipið all-skemmt.

Fleiri fréttir af sama illviðri. Morgunblaðið 11.janúar:

Ísafirði, 10. jan. FÚ. Klukkan 6-7 í gærkvöldi var loftskeytastöðinni hér á Ísafirði tilkynt að Njáll frá Súgandafirði vantaði. Bátar liggjandi í Prestá1bugt voru beðnir að tilkynna ef Njáll kæmi þar. K! 22 náðist samband við togarann Sindra, er var staddur ut af Horni á leið til Ísafjarðar. Leitaði hann á leið sinni, en Hávarður, sem stöðin einnig hafði samband við, leitaði frá Ísafirði til Skálavíkur. Í dag kl.14:30 hafði vélskipið Freyja samband við stöðina og tilkynnti að hún hefði fundið rekald úr bátnum, lóðabelgi og kolakassa úr hásetaklefa, og fleira sem benti til að báturinn muni hafa farist.

Enn eru fréttir af sama veðri. Morgunblaðið 13.janúar:

Ólafsvík, 12. jan. FÚ. Ofsaveður af suðvestri með mikilli fannkomu geisaði í Ólafsvík
8. þ.m. Þak reif af heyhlöðu Björns Jónssonar, en heymissir var lítill. Tveir fiskhjallar fuku og þök skemmdust á íbúðarhúsunum Valhöll og Dvergasteini. Á Sandi reif þakið öðru megin af heyhlöðu Bárðar Jónssonar en heymissir var sama sem enginn. Tveir hjallar fuku þar. Ekki er kunnugt um aðrar skemmdir.

Akranesi í gær. [12.janúar] Hér hefir undanfarna daga verið ofsaveður af vestri með miklu brimi. Rákust nokkrir bátar saman. Eru þeir farnir til Reykjavíkur til viðgerðar. Aðrar skemmdir urðu ekki. Bátarnir voru nýkomnir úr viðgerð, tilbúnir til veiða. Eru það þungar búsifjar vagna hafnleysis, að eiga þess von í hverjum stormi, að þessi tæki sem hér hvílir allt á, eyðileggst meira og minna.

Morgunblaðið segir frá 16.janúar - væntanlega er enn átt við sama illviðri:

Norðurgarður hafnarinnar laskaðist allmikið í ofveðri og brimi fyrir nokkru. Nú hefir hafnarstjóra verið falið, samkvæmt tillögu borgarstjóra, að undirbúa sem fyrst tillögur og kostnaðaráætlanir um viðgerð á garðinum með það fyrir augum að garðurinn megi hækka um að minnsta kosti 1 meter.

Morgunblaðið segir af þíðu fyrir norðan 17.janúar:

Þá segir fréttaritari útvarpsins á Víkingavatni, að veður sé þar hagstætt. Þó setti niður nokkurn snjó fyrir síðustu helgi en í gær var aftur komið þíðviðri. Annars hefir verið nær snjólaust þar í sveitum síðan í nóvember, en meirihluta desembermánaðar voru vegir ófærir bifreiðum vegna of mikilla þíðviðra.

Morgunblaðið segir af miklum hlýindum í pistli 22.janúar:

Hlýindi. Það er til marks um hlýindi í vetur, að félagsíshúsi Keflvíkinga hefir enn eigi tekist að ná nema, litlu einu af ísi og aldrei komið svo mikill snjór, að tilvonandi þætti að safna honum í snjógeymslu hússins. Hefir verið sætt hverju tækifæri sem gefist hefir til að ná í ís.

Jarðskjálftatryggingar. Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri hefir samið skýrslu um jarðskjálftahættu í Reykjavík. Hefir verið ákveðið að þýða skýrsluna á ensku og leggja hana til grundvallar við eftirgrennslanir um jarðskjálftatryggingar

Jarðabætur. Að Varmalæk og Bæ í Bæjarsveit í Borgarfjarðarhéraði hefir verið unnið að greftri framræsluskurða í allan vetur, allt til þessa dags. Fyrir því verki hefir staðið Þorsteinn Jakobsson frá Hreðavatni. Síðan í byrjun septembermánaðar hefir hann einn stungið 4000 teningsmetra í skurðum. Eina tvo daga í vetur hefir kann verið frá verki veðurs vegna. (FÚ).

Úr Vestur-Húnavatnssýslu. Síðan í byrjun jólaföstu hefir tíðarfar verið mjög gott í héraðinu, hægviðri og hlýindi næstum óslitið. Jörð er marauð í byggð, og tún hafa grænkað. Í veturnáttahríðinni var sauðfé víðast hvar tekið í hús, og hefir það verið hýst síðan, allstaðar nema á nokkrum bæjum á norðanverðu Vatnsnesi.

Mikið vestanillviðri gerði þann 22. og fram eftir nóttu 23. Morgunblaðið segir frá 23.janúar:

Í gærkveldi sendi togarinn Jeria frá Grimsby út neyðarmerki í gegnum talstöð skipsins. Togarinn var staddur nálægt Látrabjargi. Hafði hann samband við annan enskan togara, en gat ekki heyrt til hans sökum þess að móttakari skipsins var í ólagi. — Var togarinn þá staddur á Breiðafirði, að hann hélt ca. 4 sjómílur frá Látrabjargsvita. Sagði hann að ef þá ræki þarna á land, eins og líkur væri til — væri lítil eða engin von um að þeir kæmust lífs af. Kl.18:20 heyrðist síðast til hans. Var skipið þá orðið ljóslaust, reykháfur og mest af yfirbyggingu skipsins hafði sjórinn sópað burt. Skipið stjórnlaust og vindur þannig að það rak til lands. Þrír eða fjórir togarar leituðu að skipinu í gærkvöldi en urðu einskis vísari, enda blindhríð og versta veður á þeim slóðum. Skipið þar að auki ljóslaust og ekki fært um að gefa frá sér nein merki. Þegar síðast fréttist var ekki vonlaust um að skipið myndi reka að landi svo austarlega að það ræki ekki upp í björg. Slysavarnafjelagið sendi út tilkynningu um þetta í útvarpið í gær, og bað menn á Rauðasandi hafa gát á skipinu og vera til taks á strandstaðnum, til að reyna að bjarga skipshöfninni. Seint í gærkvöldi voru 4 enskir togarar komnir á þessar slóðir. En ekkert var hægt að gera vegna óveðurs.

Morgunblaðið staðfestir togarastrandið 24.janúar og segir meira af veðrinu:

Togarinn „Jeria“ mun hafa farist undir Látrabjargi í fyrrinótt með allri áhöfn. Fjögur leitarskip voru á þessum slóðum í fyrrinótt og í gærdag en urðu einskis vísari um togarann. En leitarmenn í landi fundu margskonar rekald úr honum. Skipverjar senda hinstu kveðju þegar þeir sjá sér bana búinn. Talið er nú víst, að enski togarinn

Í fyrradag og fyrrinótt var aftaka veður um allt Suðvesturland, með hríðardimmviðri á köflum. Æsti fljótt sjó og gerði haugabrim. Varð sjógangur svo mikill hér, að togararnir, sem lágu í Reykjavíkurhöfn, þorðu ekki að hafast þar við, og fluttu sig allir út á ytri höfn. Meðal þeirra var þýskur togari, sem leitað hafði hér hafnar daginn áður. Þegar skipin voru komin út á ytri höfnina, varð árekstur milli hans og togarans „Ver“ og skemmdust báðir nokkuð. Enskur togari, Welbeck, kom hingað í gærmorgun. Hafði hann tekið niðri innan skerja á Vatnsleysuströnd í ofviðrinu í fyrrinótt, fengið þar á sig hvern brotsjóinn á fætur öðrum, en losnað þó aftur og komst af eigin rammleik til hafnar. Í gær var kafari fenginn til þess að skoða þær skemmdir, sem á skipinu höfðu orðið við strandið. Annar enskur togari, Wambery, sem var hér vestur í flóanum, fékk stór áföll í fyrrakvöld, og eitt þeirra skolaði stýrimanni skipsins fyrir borð. Togarinn kom hingað í gær, og er ekki mikið skemmdur. Í fyrrakvöld náði hann seinasta loftskeytinu, sem togarinn „Jeria“ sendi frá sér, eins og getið er um á öðrum stað í blaðinu.

Sandgerði 23.jan. FÚ Ofsarok að vestan með aftaka brimi var hér í gær, og hélst fram á nótt. Með flóðinu í gærkvöldi rak á land vélbátinn Brúarfoss. Er hann töluvert brotinn en mun þó líklega nást út aftur. Ennfremur rak hér á höfninni 5 báta en ekki varð tjón að því.

Þak fýkur af húsi í Keflavík. 23. jan. FÚ. Úr Keflavík símar fréttaritari útvarpsins, að þar hafi verið mikið hvassviðri síðdegis í gær. Fauk þar nokkur hluti af þaki af húsi í smíðum og skall á húsi Jóns Guðbrandssonar og skemmdi mæni þess. Margir útlendir togarar komu inn á höfnina í Keflavík í gærkvöldi til þess að leita skjóls fyrir veðrinu. Í morgun var gott veður og fóru togararnir út í flóann til veiða, en sneru aftur til Keflavíkur því sjór var úfinn. — Nokkrir útilegubátar liggja einnig í Keflavík.

Akranesi 23. jan. FÚ Í gærdag var vestan rok og stórbrim. Klukkan 15 ætluðu 4 menn að bjarga bát frá bryggju, en brotsjór fór yfir bryggjuna og tók 3 menn út. Björgun tókst. Kl. 21 í gærkvöldi fór vélbáturinn Víðir að draga legufærin. Rak hann þá á klappir og sökk um kl.23. Báturinn er ónýtur. Bátur þessi kom hingað til Akraness nýr frá Danmörku 1930. Eigendur voru Ólafur Björnsson o. fl. Báturinn var vátryggður hjá Sjóvátryggingarfjelagi Íslands. Þrjá aðra báta rak áleiðis til lands en sakaði ekki. Ysti endi hafnargarðsins er seig í haust, seig enn á ný. Gömul trébryggja skemmdist talsvert.

Hlýindin náðu hámarki þann 21. og var þá gríðarleg úrkoma á Vestfjörðum. Morgunblaðið  segir frá 25.janúar:

Hrafnseyri, 24. jan. FÚ. Síðastliðinn mánudag féllu skriður úr fjallinu fyrir ofan Sólbakka í Önundarfirði. Sex túnskikar í Flateyrarbúi urðu fyrir mjög miklum skemmdum. Hlaup kom fram úr tveimur giljum nálægt verksmiðjunni á Sólbakka og ollu miklum skemmdum. Bílabrú ónýttist, báðir síldarpallarnir skemmdust og ræsti fylltist. Innsta síldargryfjan fylltist grjóti og auri. Smiðjan sligaðist, og barst í hana aur og grjót. Grjótið nær í glugga að ofanverðu við verksmiðjuna. Talsvert af síldarmjöli befir skemmst.

Hvammstanga, 24. jan. FÚ. Þorsteinn Gíslason að Geitalandi — áður í Stóruhlíð varð úti skammt frá heimili sínu á Miðfjarðarhálsi í fyrradag.

Í gærmorgun [24.] hljóp skriða úr fjallinu fyrir ofan Villingadal á Ingjaldssandi. Stefndi hún fyrst á bæinn en breytti svo um stefnu og rann ekki á bæinn. Skriðan fór yfir túnið og eyddi miklu af því. Skriðan er um tvo metra, á þykkt í sporðinn. Alt fólk er flutt úr bænum. Fénaður hefir og að mestu verið fluttur burt. Í gær var skriðan um 200 metrar á breidd. Skriðan jókst í nótt. Bær og peningahús eru talin í hættu. [Í bókinni „Skriðuföll og snjóflóð“ (2.bindi, s210 í 2.útg) er ítarlega fjallað um þennan merkilega atburð við Villingadal. Þar er sagt að skriðan hafi byrjað þ.24. og verið virk í sex daga]. 

Frá þriðjudagsveðrinu [22.]. Í Vestmannaeyjum tók þak af fiskiskúr. Togarinn Black Prince, sem strandaði hér á eiðinu fyrir tveim árum, og legið hefir að mestu í sjó, skolaðist upp á háeiði, með vél og öllu, og var þegar í gær byrjað að losa úr honum það sem nýtilegt var. (FÚ.). Í ofsarokinu á þriðjudag, slitnaði vélbáturinn Hafsteinn upp á Stokkseyrarhöfn. Hann rak á land og kjölurinn brotnaði undan honum, en að öðru leyti var hann lítið skemmdur. Gert verður við bátinn þar, austur frá. (FÚ.).

Alþýðublaðið segir frá 27.janúar - ekki er ljóst hvort þetta tjón varð 9. eða 23.janúar:

Ísafirði í gærkveldi. Illviðri hafa verið í Norður-Ísafjarðarsýslu nærri því dag eftir dag. Á Sæbóli fauk í þessum mánuði skúr með matvælum og fatnaði, en skúrinn var áfastur við bæinn. Fólk alt flúði á næstu bæi. Í Þverdal fauk þak af íbúðarhúsi og um þrír hestar af heyi. Víða annars staðar urðu smærri skemmdir.

Dýpkandi lægð fór yfir landið 25. og olli norðanroki, sérstaklega austanlands. Morgunblaðið 26.janúar:

Norðfirði í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Ofsarok var hér í Norðfirði í nótt á norðaustan. Vélskipið „Sleipnir“ hrakti frá festum og lenti það á bryggju fóðurmjölsverksmiðjunnar. Við áreksturinn brotnaði það nokkuð ofan þilja og skemmdi bryggjuna talsvert. Þakjárn reif veðrið af nokkrum húsum, þar á meðal húsi bæjarstjórans og húsi Lifrarbræðslunnar. Hjallur, sem Ingvar Pálmason alþingismaður átti, fauk og var ekki neitt eftir af honum. Ýmsar skemmdir urðu einnig i öðrum húsum.

Austur yfir fjall er nú ágætis færð og segja bifreiðastjórar veginn óvenjugóðan á þessum tíma árs.

Vatnsskortur í Hrísey. Í Hrísey eru nú allir brunnar að þorna, sem nothæft vatn er í, svo til vandræða horfir verði ekki að gert sem fyrst. Álitið er að þverrun vatnsins stafi af sprungum neðan jarðar, vegna jarðskjálftanna síðastliðið sumar, enda hafa jarðskjálftakippir fundist þar öðru hvoru langt fram á vetur. FÚ

Dýpkandi lægð kom enn að landinu aðfaranótt 29. og olli fyrst sunnanhvassviðri - en síðan mjög vaxandi vestanátt og varð úr hið versta veður. Morgunblaðið 30.janúar:

Keflavík 29. jan. FÚ. Í gærkvöldi [28.] var logn og blíðviðri og veðurspá þannig, að verulegra veðurbreytinga var ekki að vænta fyrr en í dag. Róðrartími báta úr Keflavík er 45 mínútum eftir miðnætti, og fyrr en á þeim tiltekna tíma mega bátar ekki leggja úr höfn til fiskveiða. Reru þá allir bátar sem tilbúnir voru, en þrem stundum síðar, eða kl.4 í nótt, skall á sunnan rok, er hélst fram undir miðaftan. Við bryggjuna hér í Keflavík lá flutningaskipið Varhaug, sem hefir verið undanfarið að afferma salt til útvegsbænda hér í Keflavík og Njarðvíkum. Lítið eitt var eftir í skipinu af farminum í gærkvöldi, og lá það við bryggjuna eins og að undanförnu. Veðrið skall á í nótt öllum að óvörum, og komst skipið ekki frá bryggjunni vegna þess að það var næstum tómt, og mikill hluti skrúfunnar upp úr sjó, en sjór og rok stóð þvert á bakborðshlið skipsins. Kl.17 í dag lá skipið enn við bryggjuna. Hefir það skemmst á stjórnborðshlið Bryggjan hefir einnig skemmst en hvorugt tjónið er metið.

Morgunblaðið segir af sama illviðri 31.janúar - en nú hafði áttin snúist til vesturs:

Akranesi í gær. Vélbáturinn Svalan á Akranesi strandaði í nótt [aðfaranótt 30.] í Lambhúsasundi, þegar hann var á heimleið úr róði. Þetta gerðist milli klukkan tólf og eitt í nótt, og voru þá allir hinir hátarnir komnir heim. Báturinn fór upp á syðri Flösina, en þar eru sker. Brim gekk viðstöðulaust yfir bátinn, og héldu mennirnir sér sem fastast í hann þar til hjálp kom úr landi, en það var um fimmleytið. Var þá vaðið út í bátinn með taug, og bátverjar bornir í land. Þeir voru fimm. Björgun reyndist erfiðari vegna dimmviðris og myrkurs. (FÚ).

Veðráttan segir frá því að þann 31. hafi tveir bátar skaddast í Ísafjarðarhöfn, og að um mánaðamótin hafi maður orðið úti á Digraneshálsi [kannski 2.febrúar].

w-1935vv-a

Febrúar var sérlega kaldur. Kortið sýnir ágiskaða stöðu í háloftunum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt er sýnd með daufum strikalínum og þykktarvik í lit. Að þessu sinni kom kuldinn úr mest úr vestri en ekki norðri. Veður var því skárra austanlands heldur en á Vesturlandi. Mikla hláku gerði 6. og 7. en annars var lengst af snjór. Í kjölfar hlákunnar gerði mikið illviðri. Veðurathugunarmenn lýsa tíð í febrúar:  

Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): Aðfaranótt þess 8. gjörði vestanrok, 10 vindstig með slyddubyl og þrumuveðri. Að kvöldi þ.8. gjörði hér hríðarveður og hvassviðri á austan með mikilli snjókomu. 

Þórustaðir (Hólmgeir Jónsson): Veðurfarið hefir verið áhlaupa- og úrkomusamt. Hlaupið upp með hríðarveðri norðan og norðaustan. Fyrstu daga mánaðarins kom nokkur snjór, en tók upp þann 6.-7. svo að alautt varð í byggð. Laust eftir miðjan mánuð hlóð niður miklum snjó og helst hann enn.

Víðidalstunga (Aðalsteinn Teitsson): Tíðin var köld og mikill snjór, en stórhríðar engar. Hagi var alltaf nægur en notaðist illa vegna frosta og óstillu. Í sunnanrokinu mikla að kvöldi þ.8. fauk þak af járnhlöðu í Vallarási (næsti bær) og partur af fjárhúsþaki í Deildarhól. Á einum bæ í sveitinni, Jörfa, fauk örlítið af heyi.

Sandur í Aðaldal (Heiðrekur Guðmundsson): Tíðarfar var óvenjukalt í þessum mánuði, en snjólétt. Fárviðri nóttina milli 8. og 9. Gerði víða nokkurn skaða hér um slóðir. Þök fuku af húsum sumstaðar og víða fuku hey.

Raufarhöfn (Rannveig Lund): Tíðarfarið í mánuðinum hefur verið mjög óstillt, mikil norðvestanátt, stórveður og stilltara á milli. Frost hafa verið mikil seinnipart mánaðarins og snjór fallið lítill. Telja má einstakt að ekki sést svell einu sinni í mýrum um þetta leyti. Fárviðri gerði hér nóttina 9. og olli lítilsháttar skemmdum, bátar slitnuðu pp en skemmdust þó ekki. Þök fuku af húsum og fleiri smáskemmdir.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin hefir verið sem oftast köld, en má teljast fremur úrkomulítil og því nægir hagar þegar gefið hefir að beita. Snjólétt allt til mánaðarloka.

Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur harður og snjóasamur.

Reykjanesviti: Kuldar og snjóþyngsli, einnig talsvert rosasamt. Beitarlítið eða nær því jarðlaust.

Morgunblaðið segir 2.febrúar frá skriðu í Mýrdal:

Rafstöð skemmist. Kl. 7 í gærmorgun [1.febrúar - kannski 31.janúar] slokknuðu rafljósin í Bólstað í Mýrdal. Markús, bóndinn á bænum, gekk þá niður að rafstöðvarhúsinu, sem er nálægt 100 metra frá bænum. Fyrir ofan húsið er snarbrött brekka um 27 metra há, og hafði skriða hlaupið þar á nálega 180 fermetra svæði og sópað rafstöðvarhúsinu að mestu leyti í burtu niður að Kerlingardalsá. Húsið var úr steinsteypu, og stóð á klöpp. Rör og vatnshreyfill virðast óskemmd og óhögguð, en rafvélin er lítilsháttar skemmd, þó eigi meira en svo, að gera má við hana. Vélarnar stóðu óhaggaðar á gólfi stöðvarhússins eftir hlaupið. Rúmmál hlaupsins er á að giska 150 til 200 teningsmetrar. Rafstöðin var reist 1931 og gat framleitt 5 til 6 hestöfl. Hún kostaði nálægt 2800 krónur með raftaugum og áhöldum. Skaðinn er aðallega á stöðvarhúsinu, en óþægindi fólksins eru tilfinnanlegri, því ekkert eldstæði er í íbúðarhúsinu til upphitunar eða eldamennsku. Orsakir skriðunnar telja menn hinar óvenju miklu rigningar í vetur, (1.febr. FÚ).

Bát rak upp í rokinu í fyrrinótt [aðfaranótt 1.]. Var það vélbáturinn Fortuna. Lá hann við Hauksbryggju, en slitnaði frá festum um flóðið og rak upp í fjöruna vestanvert við bryggjuna. Báturinn var mannlaus.

Þann 1.febrúar fór dýpkandi lægð austur með suðurströndinni. Morgunblaðið 5.febrúar:

Aftaka stórhríð var um efri hluta Árnessýslu á föstudaginn var [1.febrúar]. Segir Páll Stefánsson bóndi á Ásólfsstöðum að í Þjórsárdal, hafi þann dag verið álíka stórhríð og verst getur orðið á Norðurlandi, veðurhæð feikileg og fannkoma mikil.

Mikið illviðri gerði um mikinn hluta landsins þann 8. og 9. og olli tjóni - Austurland slapp þó að mestu. Mjög kröpp og ört dýpkandi lægð fór til norðausturs um Snæfellsnes og Húnaflóa í kjölfar annarrar sem olli vestanstormi á Vestfjörðum nóttina áður. Endurgreiningar hafa enn ekki náð þessari lægð - hún varð mun dýpri en þær gefa til kynna. 

Slide1

Myndin sýnir klippu úr þrýstirita sem staðsettur var í Rafmagnsstöðinni við Elliðaár. Þrýstingur fór að falla að morgni þess 8. Skil fara yfir um kl.15 (brot í þrýstifallinu), en loftvogin heldur áfram að hríðfalla allt þar til hún fór niður í um 962 hPa um kl.20. Þá steig þrýstingur skyndilega, um 23 hPa á 3 klst. Lægðarmiðjan fór um það bil yfir Stykkishólm og varð þrýstingur þar lægstur um kl.21, 957,1 hPa, og víkur meir en 20 hPa frá ágiskun bandarísku endurgreininganna. 

Slide2

Þótt endurgreiningin nái afli lægðarinnar ekki sýnir hún þó hvere eðlis hún var - það er gagnlegt. 

Vísir segir frá 9.febrúar:

Fárviðri af suðaustri skall á hér í bænum um kl. 5—6 í gær og var rokið svo mikið, þegar verst var, að ekki gat heitið stætt á götunum. Olli því stormsveipur, sem kom suðvestan af hafi með mjög miklum hraða og var við Reykjanes kl.5. Fór hann norðaustur yfir land í nótt og var í morgun yfir Jan Mayen. Á Vestfjörðum var, þegar stormurinn skall á norðaustan hríð og á Snæfellsnesi norðan megin var frost og hríðarveður af norðaustri. En sunnanlands var þíðviðri og sumstaðar svo hlýtt sem á sumardegi. Mestur hiti hér sunnanlands var 8 stig (kl.7), á ýmsum stöðum. Á Norðurlandi var frá 3—4 stiga frost og hríð um alt Norðurland og Norðausturland (kl.17). Á miðnætti s.l. var norðanhríð í Bolungavík, en þá var sunnanrok og 5 stiga hiti á Akureyri. Kl.8 í morgun var veður kyrrt um mestan hluta lands.

Tjón af völdum ofveðursins hér í bænum. Hér í bænum gerði ofviðrið talsverðan usla. Þannig losnuðu járnplötur á húsum og voru mest brögð að því á húsi Júlíusar Björnssonar við Austurstræti, en það stendur milli húsa þeirra Stefáns Gunnarssonar og Jóns Þorlákssonar. Þeyttust plöturnar af þakinu og lentu sumar í Austurstræti og gerði umferðina þar stórhættulega, enda stöðvaði lögreglan umferðina þarna, meðan mest hætta var á ferðum. Slökkviliðsmönnum tókst að negla þær plötur, sem eftir voru á þakinu, og voru að byrja að losna, svo rammlega að dugði. Umferð öll um bæinn var erfið meðan veðrið var mest, en ekki urðu nein alvarlega umferðarslys af völdum þess. Bilanir urðu talsverðar á ljósaleiðslum, en ekki varð tjón af. Einnig kviknaði í nokkrum reykháfum, en hvarvetna tókst að slökkva í tæka tíð. Bilanir á símalínum o.fl. Bilanir á símalínum urðu nokkrar á Suðaustur- og Vesturlandi og í gærkveldi náðist ekki samband austur frá Reykjavík nema til Ölfusár. Loftnetsleiðslur útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð biluðu í gær og var því ekki hægt að halda áfram að útvarpa. Viðgerð fer fram í dag. Loftnet loftskeytastöðvarinnar á Melunum slitnaði, en stöðin hafði áfram stuttbylgjusamband við skip. Þessi bilun er komin í lag. Vísir átti viðtal við landsímastjóra í morgun og spurðist fyrir um símabilanirnar. Kvað hann bilanirnar ekki mjög miklar. Væri þær mestar milli Ölfusár og Miðeyjar. Hafa viðgerðarmenn verið sendir af stað, en nákvæma skýrslu vantar, þar sem aðeins er samband að Ölfusá. Nokkrir staurar munu þó brotnir á fyrrnefndu svæði. Nokkrar bilanir hafa orðið á línum vestanlands og norðan, en hvergi sambandslaust með öllu.

Grimsby botnvörpungurinn Langanes hefir að líkindum farist með allri áhöfn. Kl.6:50 í gær síðdegis sendi botnvörpungurinn „Langanes" frá Grimsby út neyðarskeyti, og kvaðst hafa strandað við Dýrafjörð. Mun það hafa verið annar enskur botnvörpungur, „Green Howard“, sem náði í skeyti þetta, en talstöðvar í landi hlustuðu á fregn „Green Howards“ um strandið. Ekki var meiri upplýsingar að fá um þetta en það, að Langanes hefði strandað við Dýrafjörð. Á strandstaðnum var niðamyrkur og brim. Komu nokkur skip á vettvang, en þorðu ekkí mjög nálægt landi. Eigi höfðu borist nánari fregnir af þessu í morgun snemma og vissu menn þá ekki enn, hvar skipið hefði strandað. En Dettifoss var kominn að Skaga við Dýrafjörð, þar sem líklegast er talið að skipið hafi farist, snemma í morgun fyrir birtingu og lýsti upp ströndina þarna við fjörðinn. Sáust menn í landi, en það er talið líklegt, a& það hafi verið menn frá Núpi, sem sendir voru á strandstaðinn. Þangað mun vera nálega 4 klst ferð frá Núpi. Höfðu þeir mat meðferðis og ýmislegt, til þess að geta hlynnt að strandmönnunum, hefði þeir komist af. Síðari fregnir Botnvörpungurinn strandaði á Sléttunesi. Samkvæmt frétt, sem Slysavarnafélaginu barst í morgun frá Þingeyri, strandaði „Langanes" á Sléttunesi, vestan fjarðarins, milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Botnvörpungur var á leiðinni frá Þingeyri með vélbát í eftirdragi og var búist við, að þeir yrði komnir á vettvang kl. 11 1/2. Vegna brims er ekki unnt að gera björgunartilraun úr landi. En reynt verður að skjóta línu af vélbátnum til „Langaness“. Hefir vélbáturinn línubyssu meðferðis. Gera menn sér vonir um, að takast muni að bjarga mönnunum. Hafa þeir klifrað upp í reiðann og sjást þeir greinilega frá togarum þeim, sem eru þarna fyrir utan. Eigi er vitað hvort allir skipsmanna eru enn á lífi. Brim er enn mikið á strandstaðnum, en veður er batnandi. Mest óttast menn að skipbrotsmenn verði svo máttfarnir og kaldir, að þeir geti ekki dregið til sín björgunarstólinn.

Seinustu fregnir herma, að mjög litlar líkur sé til, að skipshöfninni af Langanesi verði bjargað. Togarinn, sem fór í morgun, hafði og árabát, og var reynt að fara á honum að skipinu. Sá bátur missti út 3 menn, þar af drukknaði einn, enskur stýrimaður. Mennirnir á bátnum sáu engan mann í reiða „Langaness“.

Morgunblaðið segir líka frá 9.febrúar - að einhverju leyti sömu fregnir:

Um miðaftanleytið í gær skall hér á ofsaveður af suðaustri. Stormsveipsmiðjan var um það leyti skammt suðvestur af Reykjanesi. Var stormsveipurinn krappur mjög og fór hratt yfir til norðausturs. Um það leyti var rokið skollið á um allt Suðurland. En veðrabrigði voru svo snögg og misvindi mikið á litlu svæði, að þá var t.d. rok af suðaustri með 7° hita í Síðumúla, en í Stykkishólmi og á norðanverðu Snæfellsnesi var norðaustan hríð með frosti. Á Vestfjörðum var um líkt leyti skollin á blindhríð af norðnorðaustri.

Þegar veðrið var sem mest urðu menn þess varir að járnplötur voru að losna af húsi Júlíusar Björnssonar, Austurstræti 12. Hús þetta stendur sem kunnugt er, milli tveggja stórhýsa, húss Jóns Þorlákssonar og Stefáns Gunnarssonar. Þegar stormur er af suðri myndast mikill strengur í skarðinu milli stórhýsanna. Þegar járnplötur fóru að losna á þakinu, leið ekki á löngu þar til plöturnar þeyttust út í veður og vind. Var um skeið lífsháski að vera á ferli í Austurstræti fyrir járnplöturegni, enda lokaði lögreglan alveg götunni á nokkru svæði, og tókst þannig að afstýra slysum. Slökkviliðsmenn voru fengnir til þess að fara upp á húsið. Tókst þeim að negla þær plötur sem eftir voru á þakinu. Á nokkrum stöðum öðrum í bænum losnuðu plötur af húsum, en hvergi stórvægilegt og ekki vissi lögreglan til þess, að nein slys hefðu af hlotist. Samkvæmt upplýsingum er blaðið fékk hjá slökkvistöðinni urðu engir alvarlegir brunar í bænum í ofveðrinu. Á nokkrum stöðum kviknaði í reykháfum og var slökkviliðsmaður strax sendur á vettvang og tókst á þann hátt að stöðva frekari eldsvoða. Rafmagnsþræðir slitnuðu á nokkrum stöðum, en rafveitumönnum og slökkviliðsmönnum tókst að einangra þræðina áður en tjón varð af. Allir símar slökkvistöðvarinnar (brunasímarnir) slitnuðu og var því ekki hægt að ná til slökkvistöðvarinnar nema gegnum bæjarsímann. Talsverðár bilanir urðu á rafleiðsluslætti víða um bæinn. Leiðslan til Vífilsstaða slitnaði og var ljóslaust á hælinu í 2 tíma Götuljósin slokknuðu víða í bænum, þar sem stauraleiðsla var. Vesturbærinn, Grímsstaðaholt og Skildinganes voru að heita má ljóslaus, einnig talsverðar bilanir á götuljósum í Austurbænum. Miðbærinn var elni bæjarhlutinn, sem hélt óskertum sínum götuljósum, enda er jarðleiðsla um hann allan. Til merkis um fárviðrið hér á götunum í gærkvöldi má geta þess, að um 7 leytið feykti veðrið konu um koll í Hafnarstræti, féll konan í ómegin og var flutt heim til sín í bíl. Um svipað leyti kom bíll hlaðinn fólki eftir Vonarstræti. Allt í einu heyrir fólkið í bílnum átakanlegt neyðaróp frá konu. Sér það þá hvar kona stendur þar skammt frá og heldur dauðahaldi í símastaur og var kápa hennar rifin frá henni og flaksandi út í veðrið. Var konan svo örmagna orðin, þegar fólkið kom, að hún gat ekki hreyft sig. Var hún tekin upp í bílinn og flutt heim.

Um símabilanir út um land var ekki hægt að segja, en þær hafa sjálfsagt orðið all-víða, einkum hér á Suðurlandi. Eftir kl.8 náðist ekki samband á Suðurlandslínunni nema til Ölfusár, því þar fyrir austan voru brotnir símastaurar. Í nágrenni Reykjavíkur voru víða brotnir staurar, en hve mikil brögð voru að því, gat landssímastjóri ekki sagt um, vegna þess, að ekki náðist til stöðvanna. Sambandið norður á land var sæmilegt, en slitrótt til Vestfjarða. Klukkan um 7 1/2 slitnaði loftnet Útvarpsstöðvarinnar á Vatnsenda, eða réttara sagt leiðslan upp í loftaetið. Stöðvaðist því útsending frá útvarpinu. Strax og veðrið lægir verður gert við loftnetið, svo að væntanlega verður hægt að útvarpa aftur strax í dag. Einnig slitnaði stóra netið á loftskeytastöðinni á Melunum en stöðin gat eftir sem áður haft samband við skip á stuttbylgjum.

Næstu daga bárust smám saman fregnir utan af landi. Morgunblaðið 10.febrúar:

Nokkur brögð urðu að símabilunum í ofviðrinu. Um 100 númer urðu sambandslaus vegna slita á línum, aðallega í útjöðrum bæjarins. Flestar línur biluðu þannig, að loftnet féllu niður á símalínur, slitu þær niður og flæktu. Allar símabilanir í bænum komust í lag í gær.

Rafmagnskerfi bæjarins slapp furðu vel, og er því að þakka, segir rafmagnsstjóri, að ekki fylgdi snjór með hryðjunni. Mest brögð urðu að bilunum í Sogamýri. Þak fauk af heyhlöðu bæjarins við Hringbraut og lentu járnplötur úr því á rafleiðslum, sem liggja við Barónsstíg og Bergþórugötu og varð ljóslaust um tíma á þessum götum. Bilunin á leiðslunni til Vífilsstaða varð ekki í mestu hryðjunni og voru ljós hælisins komin í lag fyrir myrkur. Furðu fljótt tókst að gera við bilanir og var að mestu búið að gera við skemmdir kl.10 í gærmorgun. 

Grindavík í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Hér var aftakaveður í gærkvöldi [8.] og nótt, en þó varð minna tjón að því heldur en búast hefði mátt við, eftir veðurhæðinni. Tvo fiskskúra, sem stóðu fram við sjóinn fyrir neðan Hóp tók upp og feykti ofviðrið þeim alla leið heim að hlaði í Hópi og lágu þeir þar mölbrotnir. Annan skúrinn átti Gunnlaugur Stefánsson kaupmaður í Hafnarfirði, en hinn Guðlaugur Guðjónsson bóndi á Hópi. Lítið mun hafa verið í skúrunum, nema eitthvað af áhöldum og fór það auðvitað allt út í veður og vind. Tvo trillubáta tók upp, fuku þeir og brotnuðu. Annan þeirra átti Guðjón Jónsson í Höfn. Þenna bát tók veðrið upp, fleygði honum tvær veltur og við það brotnaði úr honum skuturinn. Hinn bátinn átti Guðmundur Benjamínsson á Þorkötlustöðum. Sá bátur brotnaði einnig nokkuð. Mikið sjávarflóð varð, en olli þó ekki miklu tjóni. Sjór gekk upp á Akurhúsatún og bar grjót og möl á það. Í Staðarhverfinu varð flóðið mest og flæddi þar inn í skúr hjá Húsatóftum, en tjón mun ekki hafa orðið mikið. Ekki hefir neitt frést um það að fjárskaðar hafi orðið af flóðinu.

Akranesi í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Hér var aftakaveður í gærkvöldi og í nótt, en engin slys munu þó hafa orðið af því hér eða í næstu sveitum svo að teljandi sé. Helst er að telja það, að vélbáturinn „Frigg“ rak á annan bát á höfninni og skemmdist lítilsháttar við áreksturinn. Aðra báta og hafnarbryggjuna sakaði ekki. Litlar eða engar skemmdir munu hafa orðið á síma hér á næstu slóðum.

Ölfusárbrú í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Óminnilegt rok var hér í gærkvöldi og nótt og olli það tjóni mjög víðá hér um næstu sveitir. Er þó óvíst hvort allar fréttir um það eru komnar, vegna þess að síminn hefir verið bilaður. 11 símastaurar, sem voru milli útbús Landsbankans og Mjólkurbús Flóamanna brotnuðu allir í einu vetfangi og þar að auki 5 aðrir símastaurar í Flóanum. Í dag er verið að gera við þessar skemmdir. Samband er héðan til Mið-eyjar í dag á einni línu, og frá Miðey til Vestmannaeyja er samband. Önnur símalínan til Víkur var biluð í morgun, en þó virðist svo sem veðrið hafi verið hægara þegar austar dró, og skemmdir minni á símanum austan Miðeyjar en vestan. Rokið hefir gert miklar skemmdir á húsum víðsvegar um Suðurland. Í Oddgeirshólum fauk þak af stórri hlöðu og tók veðrið það allt, en ekki mun hey hafa fokið. Á Eyrarbakka fauk þak af gömlu húsi. Þar fauk einnig skúr eða byrgi og þak.af hlöðu. Að Laugum í Hraungerðishreppi fauk þak af hlöðu. Að Tungu Í Flóa fauk þak af fjósi og fjárhúsi. Að Túni í Hraungerðishreppi fauk þak af fjósi. Á Eystri-Loftstöðum fauk þak af hlöðu. Að Seljatungu í Gaulverjabæjarhreppi fauk þak af hlöðu. Að Hömrum í Holtum fauk þak af hlöðu. Á ýmsum Öðrum stöðum munu hafa orðið minni skemmdir af völdum stólveðursins.

Ólafsvík, 9. febrúar. FF. Ofsarok a£ norðvestri gerði í austurhluta Breiðuvíkurhrepps í nótt. Í Öxl fauk fjós, fjárhús og skúr og bærinn skekktist. Fólkið flýði í heyhlöðu. Mikið fauk af heyi er úti stóð. Fólkið — þ.e. hjón með 2 börn, eru nú á Búðum í Staðarsveit. Á Búðum reif einnig þak af heyhlöðu. Um fleiri skemmdir er ekki kunnar.

Sauðárkróki 9. febr. FÚ. Í ofsarokinu síðastliðna nótt slitnuðu síma- og ljósaleiðslur og einnig loftnet. Húsþök skemmdust. Beituskúr fauk í sjóinn og hey sem var í skúrnum tapaðist. Bátar fuku til, en litlar skemmdir urðu á þeim. Skaði er minnst alls 700 krónur.

Siglufirði í gær. Einkaskeyti Morgunblaðsins. Ofsalegt sunnanrok gerði gerði hér á ellefta tímanum í gærkvöldi og stóð það til kl.3 í nótt. Muna menn varla annað eins veður. Skemmdir urðu miklar. Ljósa pg símakerfi bæjarins slitnuðu og járnþök fuku af mörgum húsum. Nokkrir geymsluskúrar fuku alveg. Tveir litlir vélbátar brotnuðu við hafnarbryggjuna en öðrum bátum tókst að bjarga frá skemmdum. Varla mun ofsagt að hver fullorðin manneskja í bænum hafi verið á fótum þar til veðrinu slotaði, því mjög óttuðust menn að mörg hús myndu fjúka.
... Hlaða og nokkuð af heyi fauk á Staðarhóli og fleiri skemmdir urðu þar.

Kópaskeri 9.febrúar FÚ. Í nótt var aftaka rok af suðvestri. Skemmdir urðu nokkrar einkum í Skógum í Axarfirði. Fauk þar þak af íbúðarhúsi. Einnig tók plötur af þaki íbúðarhúss á Þverá. Víða urðu nokkrar skemmdir á heyjum.

Vísir segir líka frá veðrinu 10.febrúar:

Siglufirði, 9. febr. FÚ. Hér á Siglufirði í gærkveldi var vestan ofsarok til kl. 2 í nótt. Veðurhæð var mest 12 vindstig. Miklar skemmdir urðu á síma- og ljósaneti. Símastaurar brotnuðu sunnan við bæinn. Járn sleit víða af húsaþökum og þakpartar sviptust í burtu. Kvistþak á síldarhúsi Edvins Jakobsens fauk á suðurgafl hússins Frón og braut það allmikið. Mótorbáturinn „Bjarni“ brotnaði ofan þilja og sökk. Ljósstaur neðarlega á Aðalgötu féll og laust þá saman leiðsluþráðum á verslunarhúsi Margrétar Jónsdóttur kaupkonu, Vetrarbraut 8. Kviknaði samstundis í húsinu, í austurenda uppi, og var það mikið bál. Slökkviliðinu, er kom samstundis á vettvang tókst, þrátt fyrir afskaplegan veðurofsa, að slökkva eldinn fljótlega og dáðust menn mjög að framgöngu þess. Húsið gjörskemmdist af eldi og vatni. Sömuleiðis skemmdust vefnaðarvörubirgðir verslunarinnar. Viðbúið er að stórtjón hefði orðið af eldi, ef eigi hefði tekist að slökkva. Húsið var vátryggt á 14 þúsund krónur og vörur fyrir 8 þúsund. Innbú var óvátryggt og ónýttist að mestu.

Grindavík, 9. febrúar. FÚ. Ofsaveður af landsuðri gerði hér í gærkvöldi, og var vindur mestur frá klukkan 6—8. Vindhæð var alt að 12 stigum. Tjón af ofviðrinu er þó ekki mikið. Tveir bátar fuku og brotnuðu nokkuð, og fiskskúra tók upp af grunnum og brotnuðu þeir mikið. Allmikið brim var en samt varð ekki tjón af völdum þess.

Vísir 11.febrúar. Ystafelli, 10. febrúar. FÚ. Fádæma veðurofsa gerði af suðaustri nóttina milli 8. og 9. þ.m. Víða um. sýsluna fuku járnþök af íbúðarhúsum, hlöðum og peningshúsum. Sumstaðar feykti veðrið sérstæðum heyjum og svipti víða torfi af bæjum og varð nokkurt heytjón. Jörð er næstum auð og bílfært um byggðir og heiðar.

Húsavík, 10. febrúar. FÚ. í rokinu mikla í fyrrakveld slitnuðu raftaugar Húsavíkur, svo að ljóslaust varð til næsta dags. Þök fuku af nokkrum skúrum. Köstuðust þau á önnur hús og ollu skemmdum.

Akureyri, 10. febrúar. FÚ. Í ofviðrinu í fyrrakveld urðu hér á Akureyri ýmsar minni háttar skemmdir. Þakhluta tók af húsum, bátar fuku til og löskuðust og brotnaði einn smábátur til fulls. Í Hólshúsum í Eyjafirði er steinhús í smíðum og var stofuhæðin komin upp. Brotnaði inn suðurhlið hæðarinnar og löskuðust viðir. Á Hvassafelli fauk járnþak af annarri hlið íbúðarhússins. Miklar skemmdir urðu á verksmiðjuhúsum í Krossanesi. Braut þar reykháf og stór saltskúr fauk. Tjón er ekki metið en það nemur þúsundum króna.

Enn eru fregnir af veðrinu í Morgunblaðinu 12.febrúar:

Þak fauk af íbúðarhúsi í Borgarnesi í föstudagsveðrinu [8.]. Húsið á Guðrún Steingrímsdóttir. Í óveðrinu síðastliðna laugardagsnótt urðu miklar skemmdir á húsum og heyjum víða í Kelduhverfi. Á Eyvindarstöðum fauk í einu lagi þak af hlöðu. Á Austurgörðum og Grásíðu fauk nokkur hluti af hlöðuþökum. Í Nýabæ fauk framhlið undan gömlu timburhúsi. Á Bakka reif torf af öllum heyjum og þak af bílskúr. (FÚ).

Frá Stykkishólmi. Línuveiðarinn Aldan fór á fiskveiðar í dag. Skipið hefir legið í höfn undanfarið vegna veðra. í veðrinu mikla síðastliðinn laugardag varð ekki verulegt tjón hér í Stykkishólmi eða nágrenni. (FÚ).

Alþýðumaðurinn á Akureyri segir af veðrinu í pistli 12.febrúar:

Hér á Akureyri fuku til bátar og löskuðust, og einn bátur brotnaði í spón Járnplötur sleit af húsum og símaþræðir slitnuðu, Í Krossanesi fauk saltskúr og reykháfar verksmiðjunnar brotnuðu.

Tíminn segir 20.febrúar frá tjóni í sama veðri - austur í Biskupstungum:

Í ofviðrinu aðfaranótt 9. þ.m. fuku í Biskupstungum 6 heyhlöður, á Iðu, Skálholti, Spóastöðum, Tjörn, Efri-Reykjum og Haukadal, þar að auki fauk fjós á Iðu, svo að kúnum varð nauðuglega bjargað út. þá fauk þakið af baðstofunni á Spóastöðum og loks fauk kirkjan í Útihlíð. í viðbót við þetta urðu hér og hvar nokkrar skemmdir á heyjum og húsþökum en smávægilegri. — FÚ.

Morgunblaðið segir 23.febrúar frá skipsskaða:

Bátur ferst úr Grindavík. Þrír menn drukkna en tveimur var bjargað. Í fyrradag [21.] reru 16 bátar úr Grindavík. Gerði versta veður á þá og stórsjó. Náðu þó allir bátarnir landi, nema einn. Þann bát átti Einar kaupmaður Einarsson í Garðhúsum.

Veðráttan segir að þann 6.febrúar hafi orðið tjón á bátum í höfnum á Vestfjörðum og að þann 27. hafi Vestmanneyjabátar orðið fyrir sköðum og veiðarfæratjóni. 

Mars var hlýrri og hagstæðari en febrúar. Veðurathugunarmenn lýsa tíð - og sýnist sitt hverjum:

Lambavatn: Jörð hefir oftast verið auð. Aðeins föl við og við. En sífelldur vindur, oftast austan og norðaustan svo skepnur hafa lítið haft not af útbeit á gjafajörðum.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var mjög hagstætt, úrkomulítið og hagasamt.

Sandur: Tíðarfar milt. Fremur snjólétt en jafnfallið og hagi því ekki góður seinni hluta mánaðarins vegna bleytusnjóa. Þ.8.-15. voru hlákur og hlýindi og tók þá upp allan snjó og ísa leysti sumstaðar af vötnum þótt þykkur væri eftir frostin í febrúarmánuði.

Nefbjarnarstaðir: Síðari hluta mánaðarins var tíðarfar heldur slæmt. Snjókoma talsverð. En yfirleitt frostlítið og sem oftast hægviðri. Frá 19. má teljast algjörlega haglaust hér á utanverðu Héraðinu.

Reykjanesviti: Mjög stormasöm og rosasöm veðrátta. Gæftalítið en góður afli á djúpmiðum. Til landsins var aftur sæmileg veðrátta og góðir hagar því hlýtt var í veðri.

Enn voru erlendir togarar í vandræðum. Morgunblaðið segir frá 3.mars:

Í fyrrakvöld var símað til Slysavarnafélagsins frá Holti undir Eyjafjöllum og tilkynt að verið væri að skjóta rakettum við sandana. Var þegar byrjað að safna mönnum til björgunarstarfs. Kl. 5 1/2 í gærmorgun var svo símað frá Seljalandi að þýski togarinn Dúseldorf frá Cuxhafen hefði strandað á söndunum og að búið væri að bjarga allri skipshöfninni, 13 að tölu, og væru þeir komnir heilu og höldnu til Seljalands.

Jörð skalf nokkuð á árinu. Fyrst í Borgarfirði. Morgunblaðið segir frá 5.mars:

Jarðskjálftar. Á laugardagskvöldlið [2.mars] kl.18:35 og kl.22;15 urðu snarpir jarðskjálftakippir í efri byggðum Borgarfjarðar. Á sunnudaginn komu aftur tveir kippir.

Morgunblaðið segir enn af jarðskjálftum í pistli 9.mars:

Jarðskjálftakippir, sumir allsnarpir, hafa gert vart við sig við og við alla þessa viku í efri hluta Borgarfjarðar. Í fyrrakvöld, klukkan 20:30 og í gærmorgun klukkan 8:37 komu snarpir kippir. Mest bar á jarðskjálftunum í Reykholtsdal, neðri hluta Hvítársíðu, og Þverárhlíð. Í Lundareykjadal og Skorradal gætir þeirra minna. Ekki hafa hús skekst eða fallið Þessu svæði, svo kunnugt sé. FÚ.

Veðuráttan segir í marsheftinu frá tjóni sem varð í kringum þann 11., en þá gekk mikil sunnanátt með hlýindum á landinu:

Að kvöldi þ. 11. strandaði frönsk skonnorta á Meðallandsfjörum. Skipsmenn björguðust í land af eigin rammleik, að þrem undantekningum, sem drukknuðu, en 2 létust er í land kom. Sama dag fékk færeysk skúta á sig brotsjó fyrir sunnan land. Laskaðist hún mjög, svo að skipshöfnin yfirgaf skipið og bjargaðist um borð í aðra færeyska skútu. Þá misstu og bátar úr Reykjavík nokkuð af lóðum, og línuveiðarar urðu fyrir miklum lóðartöpum. Nóttina eftir sökk vélbátur á legunni í Sandgerði. Þá fauk og þak af íbúðarhúsi á Skarðsströnd.

Í þessum sömu hlýindum urðu miklir vatnavextir í V-Skaftafellssýslu - Veðráttan segir af þeim í marsheftinu:

Vegna stórrigninga þ.12.—13. og leysinga til fjalla urðu miklir vatnavextir í Vestur-Skaftafellssýslu. Brúin á Tungufljóti í Skaftártungu skemmdist og einnig vegurinn hjá brúnni á Eldvatni, og brú yfir kvísl austar í hrauninu varð fyrir skemmdum. Skaftá flóði út fyrir brúna hjá Kirkjubæjarklaustri.

Morgunblaðið segir frekari strandfréttir 20.mars:

Allmikið af strandgóssi hafði rekið á fjörurnar í Meðallandi úr frakkneska seglskipinu, er þar strandaði á dögunum. Þetta strandgóss var dregið saman og staflað upp á fjörukampinum, all-langt frá sjó, og varðmenn hafðir þar við, til þess að gæta góssins og hirða jafnóðum, það sem rak. Meðal þess sem rak voru nokkrar rauðvínstunnur. Eftir nokkrar bollaleggingar um það, hvað gera skyldi við drykk þenna, sem að vísu er ekki forboðinn lengur, lögðu valdhafarnir hér syðra svo fyrir, að víninu skyldi helt niður og var það gert. En þessa hefði reyndar ekki þurft með, því í fyrrinótt gerði svo stórfellt sjávarflóð þar eystra, að allt strandgóssið, sem rekið hafði, sópaðast burtu og út í sjó, svo ekki fannst einn einasti hlutur eftir. Svo var flóðið stórkostlegt, að varðmennirnir, sem voru við strandstaðinn, gátu með naumindum bjargað sér undan flóðinu. Þeir reyndu að flýja upp á sandinn, en þar var þá svo mikill vatnselgur og sjór fyrir, að þeir gátu með miklum erfiðismunum komist til byggða. Skipsflakið er enn marandi í hálfu kafi all-langt úti í sjó og hefir ekki tekist að komast út í það ennþá.

Alþýðublaðið segir frá illviðri í Vestmannaeyjum í pistli 20.mars:

Ofsaveður af austri var í fyrrinótt í Eyjum [18. til 19.], og olli það nokkrum skemmdum. Á Eystri-Búastöðum hjá Guðrúnu Magnúsdóttur, fauk fjós og hlaða og nálægt helmingi heys þess, er í hlöðunni var. Kúnum var bjargað ómeiddum út úr fjósinu. Vélbáturinn Leó slitnaði frá bryggju og rak á land, en er álitinn óskemmdur. — Nokkrir smábátar hafa brotnað.

Morgunblaðið segir 22.mars enn af jarðskjálftum í Borgarfirði:

Jarðskjálftamir í Borgarfirðinum halda áfram, en ekki eins snarpir. Harðastir hafa kippirnir orðið í Örnólfsdal í Þverárhlíð. Frá 2. til 18. mars hafa fallið úr tveir dagar, sem ekki hefir orðið þar hræringa vart, eftir því sem bóndinn þar, Guðmann Geirsson, skýrir frá. FÚ.

Alþýðublaðið segir þann 23. mars (og hefur eftir útvarpinu):

Úr Hornafirði símar fréttaritari útvarpsins, að þar sé versta tíð og vegir ófærir sökum snjóskafla, og engar sjógæftir. Í ofsaveðrinu síðastliðna miðvikudagsnótt [20.mars] urðu bátarnir, sem gera út frá Álaugarey, að flýja þaðan inn að bryggjum kaupfélagsins. Tveir þeirra, Hafalda og Hafþór, skemmdust ofan þilfars. Bryggja, sem þeir lágu við brotnaði nokkuð.

Apríl var tíðindalítill lengst af, kalt og snjóþungt var víða norðaustan- og austanlands. 

Síðumúli: Fram yfir miðjan aprílmánuð var norðanátt og kuldi, en alltaf auð jörð. Þann 24. (síðasta vetrardag) brá til sunnanáttar og hlýnaði.

Suðureyri: Kalt og vindasamt fram eftir mánuðinum. Skipti snögglega um í sumarmálum um 25.apríl með hlýindum og blíðviðri.

Sandur: Tíðarfar fremur slæmt þar til 25. Gerði þá ágætan bata. Snjór var þó ekki mjög mikill en jafnfallinn og víðast því jarðlaust.

Nefbjarnarstaðir: Fannkoma afarmikil svo algjör jarðbönn var allt að fjórum síðustu dögum mánaðarins. Frostlítið og sem oftast fremur hæg tíð. Áttin nær einlægt austan og norðaustlæg. Með 25. (sumardag fyrsta) brá til hagstæðrar þíðu og suðvestanáttar.

Eiðar (Erlendur Þorsteinsson): Þessi mánuður verstur á vetrinum. Gríðarmikill snjór og nokkuð frost. Algjört jarðbann um allt Úthérað. Í Fljótsdal og Skógum lítill snjór.

Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur kaldur en góðviðrasamur.

Morgunblaðið segir af tíð fyrir norðan 30.apríl:

Frá Húsavík er blaðinu skrifað seint í þessum mánuði: Héðan er ekkert að frétta nema harðindi og vesöld. Inflúensa gengur hér, og eru margir lasnir. Hey eru víða að þrotum komin og ef ekki batnar nú úr sumarmálum, má búast við að fé gangi illa undan vetri, einkum í útsveitum, því að þar eru snjóþyngsli mikil og meiri en fram í dölum.

w-1935vv-b

Mikið hlýnaði á sumardaginn fyrsta og síðan kom hlýr maí, á landinu í heild sá hlýjasti frá upphafi mælinga - og hefur ekki orðið hlýrra í maí síðan. Kortið sýnir hin miklu þykktarvik mánaðarins, en líka að þau voru nokkuð staðbundin. Veðurathugunarmenn voru ánægðir.

Síðumúli: Maímánuður hefir verið ein samfeld veðurblíða, svo að gamlir menn muna ekki slíka tíð. Sama er að segja um jarðargróður. Hann er ómunagóður.

Lambavatn: Það hefir verið óslitin stilla og hlýindi allan mánuðinn. Og er gróður hér orðinn svo mikill að bestu bletti í túnum mætti fara að slá. Og það er víst óminnanlegt hér.

Suðureyri: Stillt, bjart, óvenju hlýtt. Hófleg úrkoma. Góðar gæftir. Hagstætt til lands og sjávar.

Skriðuland: Tíðarfarið einmunagott svo að elstu menn muna ekki eins góðan maí.

Sandur: Tíðarfar yfirleitt mjög hagstætt, hlýtt og úrkomulítið. Þó gerði hret um miðjan mánuðinn - sem oft um það leyti - og kulda fyrir og eftir. Og svo kólnaði aftur í veðri síðast í mánuðinum og fylgdu miklar þokur. Gróðri fleygir fram.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar hefir í einu orði sagt verið hið allra besta. Frostnæturnar 17. og 18. hnekktu dálítið gróðri. Annars er þessi mánuður hinn ákjósanlegasti sem komið hefir að því er tíðina snertir nú í fjölda mörg ár.

Papey (Gísli Þorvarðsson): Þetta mun ver sá veðurblíðasti maímánuður til sjós og lands sem ég hef lifað síðan ég man fyrst eftir mér á Fagurhólsmýri og að þessum tíma.

Reykjanesviti: Yfirleitt góð og hagstæð tíð til lands og sjóar.

Morgunblaðið segir 26.maí frá gróðureldi í Axarfirði - menn héldu fyrst að um jarðeld væri að ræða. Sýnir e.t.v. að gróðureldar hafa verið óvenjulegir á þeim slóðum?

Seint í gær barst hingað fregn um það, að jarðeldur hefði komið upp í Öxarfirði skammt frá Skinnastöðum. Morgunblaðið náði tali af síra Páli Þorleifssyni á Skinnastað um kl.7 í gærkvöldi og sagðist honum svo frá: Um kl.4 í dag [25.maí] varð Einar Sigfússon á Ærlæk var við reyk í skóginum suður af Ærlæk og austan við Skinnastaði. Fór hann að forvitnast um þetta og kom þá á eldsvæði um 300 metra langt, rétt austan við Brandslæk. Virtist honum þar vera sprunga, sem glóandi leðja kæmi upp um. Kom eldurinn upp á ýmsum stöðum og þegar sljákkaði í honum á einum stað magnaðist hann á öðrum. Var Einar ekki í vafa um að hér væri um jarðeld að ræða, og símaði þegar skýrslu til sýslumanns um það. Eldsvæðið er fyrir austan svo kallaðan Hámundarstaðaás, sem gengur norður úr Skinnastaðahæð, og eru þar lyngmóar þaktir rauðvíðiskjarri. Er um kílómeters leið frá Skinnastað þangað en um tveir km frá Ærlæk. Eldsvæðið hefir stefnu frá norðvestri til suðausturs. Engra jarðskjálfta hefir orðið vart í sambandi við þetta. En á eldsvæðinu hefir lyng brunnið og skógarkjarr sviðnað, en eldurinn breiðist ekki út um skóginn vegna þess hve mikill gróður er kominn í hann.

Ekki jarðeldur — en Skógarbruni. Klukkan rúmlega 10 í gærkvöldi átti blaðið aftur tal, við síra Pál Þorleifsson. Höfðu þeir Einar á Ærlæk þá farið til eldstöðvanna, og voru nýkomnir þaðan. Sagði síra Páll þá svo frá, að eldurinn væri dottinn niður, en brunnið væri mjótt belti um 300 metra á lengd, og ryki alls staðar úr því. Ekki hefði þeir getað séð nein ótvíræð merki þess að hér hafi verið um jarðeld að ræða, ekki séð neina sprungu í jarðveginum, og væri því sennilegast að hér hafi verið um ofanjarðareld að ræða, þótt mönnum sé ráðgáta hvernig hann hafi kviknað. Enginn maður var þarna á ferð um daginn, og skógurinn og lyngið alls ekki eldfimt vegna hins mikla nýgræðings, sem þar er. Engar drunur hafa heyrst í jörð, sagði síra Pall og engir gosblossar sést. Stefna eldsins er öfug við vindáttina og ef aðeins er um skógareld að ræða, þá hefir hann farið móti vindi. Lyngið er brunnið, en rauðavíðiskjarrið stendur eftir sviðið, en ekki kolbrunnið. -Jörðin er öll heit umhverfis brunasvæðið. Ekki var hægt að rannsaka svæðið nákvæmlega og verður það ekki gert fyrr en með morgni.

Morgunblaðið segir 1.júní fregnir af leiðangri á Vatnajökul, m.a. til eldstöðvanna í Grímsvötnum:

Jóhannes Áskelsson jarðfræðingur símaði Morgunblaðinu í gærkvöldi frá Núpsstað. Komu þeir félagar dr. Trausti Einarsson og hann til Núpsstaðar í gær úr Vatnajökulsferð sinni. Höfðu þeir fengið ágætisveður á jöklinum, og ferð þeirra gengið mjög vel. Vísindalegan árangur af ferðinni telja þeir mjög mikilsvirði. Um árangur ferðarinnar, sagði Jóhannes Áskelsson m.a.: Það merkilegasta er við urðum varir við í ferðinni var það, að enn er eldur í gígnum er gaus í fyrra. Hafa yfirleitt mjög litlar breytingar orðið á eldstöðvunum síðan við dr. Niels Nielsen vorum þarna í fyrra. Reyk leggur sífellt upp úr gígnum. En vikurhrannirnar upp á barmi Svíagígs, en svo er gígdalurinn venjulega nefndur, eru svo heitar, að vart er hægt að taka á vikrinum með berum höndum.

[Í blaðinu 4.júní er síðan framhald - hér er smávegis úr því]: Er þeir nálguðust gosdalinn sáu þeir mökkinn úr gígnum við og við leggja upp yfir dalbrúnina. Og er þeir komu á dalbrúnina sáu þeir, að þar var allt með mjög svipuðum ummerkjum og var í fyrravor, er þeir dr. Nielsen og Jóhannes voru þar, að öðru leyti en því, að nú var ís á vatninu í gígnum, en vatnið var autt í fyrravor. En gosmökkurinn kemur upp á svipuðum eða sama stað og þá, upp úr sprungu sem er í jaðri eyjarinnar eða hólmans, sem er í vatninu. Í mökknum er aska og gosgufur. Er þeir félagar töluðu við Skaftfellinga um gosmökkinn, þá könnuðust þeir við það að gosstrókurinn hefir við og við sést í vetur úr byggð, þó menn hafi ekki sett þetta í samband við gosið í fyrra, fyrr en vitað var með vissu að þarna eru eldsumbrot enn.

Gróðureldur varð einnig sunnan við Hafnarfjörð. Morgunblaðið 1.júní:

Í gærdag [31.maí] urðu menn þess varir að eldur var uppi í svonefndu Kapelluhrauni í Hafnarfjarðarhrauni. Var þetta tilkynnt á skrifstofu bæjarfógeta kl. um 3. Sendi hann þegar Stíg Snæland, lögregluþjón, til að athuga af hverju eldur þessi stafaði. Fór Stígur þegar af stað við þriðja mann. Fóru þeir fyrst á bíl, en gengu frá þjóðveginum og var það um hálftíma gangur. Þeir sáu þegar að eldurinn hafði verið kveiktur af mannavöldum. Hafði brunnið mosi á um 30 fermetra svæði. Var nú grafið fyrir eldinn svo hann breiddist ekki meira út og síðan var gengið í að slökkva hann. Tókst það vel og komu þeir félagar aftur til Hafnarfjarðar kl. 7 1/2 í gærkvöldi.

Eftir hlýindin í maí tók heldur svalur júní við. Sérlega slæmt hret gerði um hvítasunnu [9.júní], en veður var betra síðasta þriðjung mánaðarins - en þá varð lakara suðvestanlands. 

Síðumúli: Í júnímánuði hefir yfirleitt verið köld og leiðinleg veðrátta. Var á tímabili frost um nætur. Sérstaklega inn til dala og upp til fjalla. Jarðargróðri hefir því víða lítið farið fram, þar til síðustu dagana að rigningin kom. Kartöflugras hefir sumstaðar fallið og orðið svart. Grasspretta er samt talin að vera í betra lagi. Tún eru víða að verða slæg.

Lambavatn: Það hefir verið gott. Til 20. kom aldrei dropi úr lofti nema lítilsháttar krapi einu sinni. Síðan hefir verið vætutíð.

Þórustaðir: Það hefir verið frekar hagstætt. Áttin oftast austan og og norðaustlæg. Þann 8. gerði hér snjóhret svo að alhvítt varð í byggð norðaustan fjarðarins. Þ.10. fór snjóinn að taka upp.

Suðureyri: Sæmilega hlýtt. Hófleg úrkoma. Hranalegt hvítasunnuhret.

Kollsá í Hrútafirði: [9.] Hvítt að sjó.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var óhagstætt að því leyti að gróður gekk seint vegna þess hve þurrkar voru miklir. Í hretinu um hvítasunnuna varð snjór svo mikill víða í fjöllum og fremstu dölunum að sauðfé fennti. Af sömu orsökum, bleytunni og kuldanum varð allmikill lambadauði.

Sandur: Tíðarfar mjög slæmt fram yfir miðjan mánuð. Sífelld norðaustanátt kuldar og oft úrfelli. Gróðri fór ekkert fram. Fjallshlíðar misstu sinn gróðurlit og kartöflugras sölnaði. Þ.19. brá til hlýinda og var besta tíð til mánaðamóta og gróðri fleygði fram.

Nefbjarnarstaðir: Norðaustlæg átt með kulda og úrkomu þar til þ.18. Hnekkti það mjög grassprettu. Síðan hlýindatíð og hagstæð.

Reykjanesviti: Framan af mánuðinum var yfirleitt stillt og gott veður, gott til sjávarins en allt of þurrt til landsins. Síðast í mánuðinum skipti svo um til úrkomu en samfara því raki og frekar kalt í veðri. Spratt því sáralítið í þessum mánuði, þó að horfur væru ágætar með sprettu í maílok.

Slide3 

Slæmt hret gerði um hvítasunnuna. Snjóaði þá víða um landið norðanvert. Lægð var á sveimi austan við land og á sama tíma kom kuldastrengur norðan úr höfum til landsins. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins að morgni hvítasunnudags, 9.júní. Þá er hvöss norðanátt á landinu og víða slydda eða snjókoma. 

Slide4

Íslandskort að morgni hvítasunnudags 9.júní 1935. Heldur kuldalegt. Alvarlegasti atburðurinn varð á Ólafsfirði og er þessi dagur þar enn í minnum hafður. Þá gerði þar óvenjulegt brim sem olli miklum sköðum á bátaflota heimamanna. Morgunblaðið segir frá þessu 12.júní:

Ólafsfirði, 10.júní. Aðfaranótt hvítasunnudags, um klukkan 5, herti snögglega á norðaustan veðri sem hafði staðið undanfarið, og rokhvessti með krapahríð. Flestir bátar lágu þá á höfninni hér í Ólafsfirði, eða alls um 18 trillubátar og 9 stærri vélbátar. Þegar leið á morguninn herti stöðugt á veðrinu og brimið jókst. Á níunda tímanum sukku fyrstu trillubátarnir, en stærri báta tók að reka, og áður en langt um leið hafði 5 stærri báta rekið á land og 13 trillubátar sokkið. Einn stærri bátanna, Sævaldur, er gerónýtur, og tveir aðrir, Þór og Kári, mikið brotnir. Allmörgum trillubátum var bjargað á land. Sumir eru gerónýtir, en aðrir mikið brotnir. Mörgum hafði ekki verið bjargað síðast er fréttist, en búist við að þeir séu ónýtir. Öll fjaran við kauptúnið er þakin rekaldi. Tjónið er feikna mikið og margir hafa misst aleigu sína. (FÚ.).

Morgunblaðið átti tal við Þorvald Friðfinnsson í Ólafsfirði í gær til þess að fá nánari fregnir af þessum atburði þar, sem valdið hefir svo stórkostlegu og sviplegu tjóni, að helst er líkjandi við jarðskjálftana í Dalvík og sjávarflóðið í Siglufirði, nema hvað tjónið í Ólafsfirði kemur hlutfallslega harðar niður og almennar. Þorvaldur sagði að flestir trillubátarnir, sem sukku, myndi vera ónýtir. Hefði þeim tekist í gær og fyrradag að ná nokkrum þeirra og þeir eru allir eyðilagðir. Stóru bátarnir liggja í fjörunni og eru tveir þeirra lítið skemmdir, en talið að hægt muni að gera við tvo þeirra. Stormur var enn í Ólafsfirði í gær og brim mikið svo að lítið var hægt að gera. Óðinn kom þangað í fyrradag og ætlaði að reyna að bjarga bátunum, en gat ekkert aðhafst fyrir veðri og brimi, og hvarf því frá við svo búið. En hann kemur þangað aftur þegar lægir. Ekkert tjón varð á húsum né mannvirkjum í landi og ekki á öðrum stöðum þar í grennd. Þorvaldur sagði að þetta væri svo alvarlegur atburður fyrir Ólafsfirðinga, að þeir myndi seint bíða hans bætur. Nær allir bátarnir voru óvátryggðir. En þó er það ískyggilegast um þetta leyti árs, þegar bjargræðistíminn er að byrja, hvílíkt atvinnuleysi stafar af því að missa bátana.

Morgunblaðið segir meir af veðrinu í pistli þann 13.júní:

Siglufirði í gær. Engar skemmdir urðu hér í Siglufirði í rokinu um hátíðina. Alhvítt var á Hvítasunnumorgun, en tók af er leið fram á daginn. Hafði verið bleytuhríð alla nóttina og er hætt við að eitthvað hafi drepist af lömbum. Hér er enn ólundarveður, norðanstormur og rigning.

Morgunblaðið segir frá þurrkum og illa útlítandi trjágróðri 14.júní:

Þurrkarnir hér sunnanlands tefja mjög grasvöxt um þessar mundir, svo mikill bagi er að. Hér í bænum sjást þess víða merki í trjágörðum, að lauf er hálfvisið á trjánum vegna þurrka og sífelldra skakviðra. Þeir, sem hafa tök á því að vökva garða sína, ættu að leggja áherslu á að vökva þá sem best, meðan þurrkatíðin helst.

Morgunblaðið segir af líklegum upptökum gróðureldsins í Axarfirði í pistli 18.júní:

„Eldurinn“ í Öxarfirði. Júlíus Havsteen sýslumaður hefir sent útvarpinu skýrstu um athuganir sínar á ,,eldinum“ í Öxarfirði á dögunum. Athugaði hann eldsvæðið þ.7.júní og gekk úr skugga um, að kviknað hafði þarna í sinu. Mjög var heitt þann dag, er sinueldur þessi kviknaði. Rétt áður en vart varð við sinueldinn hafði Skarphéðinn nokkur Guðnason smiður, gengið þarna um. Er ekki talið útilokað að hann hafi ef til vill fleygt frá sér eldspýtu þarna eða hrist glóð úr pípu sinni.

Morgunblaðið kvartar undan þurrkum 23.júní:

Hér í Reykjavík og nágrenni hafa verið meiri þurrkar á þessu vori en menn eiga að venjast. Í apríl var úrfelli hér aðeins 1/6 af meðalúrfelli 10 millimetrar, því meðallag þess mánaðar er 61 mm. Í maí var úrfellið 18 mm, meðalúrkoma þess mánaðar er hér 49 mm. Í júní, fram til 20., hafði hér varla komið dropi úr lofti, úrfelli aðeins einn dag, svo að mælt yrði 1/2 mm. Meðalúrfelli í júní er hér 48 mm. En í fyrradag brá til sunnanáttar með úrkomu nokkurri. Síðan hvítasunnuhretið skall á, laugardaginn fyrir hvítasunnu og þangað til nú síðustu daga, mun gróðri hafa farið mjög lítið fram um land allt, þangað til nú síðustu daga. Sums staðar hefir gróður alveg staðið í stað, ýmist vegna kulda, æða óvenjulegra þurrka.

Í júlí brá til óþurrka, einkum um landið sunnan- og vestanvert.

Síðumúli: Júlímánuður hefir verið mjög erfiður hvað veðráttu snertir. Sífeldar rigningar. Taðan hefir hrakist til stórtjóns. Um síðastliðna helgi náðist þó meirihluti af henni upp í sæti, en sem hafa þá drepið og runnið vatn undir síðan.

Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt og óhagstætt fyrir heyskap. Þegar hefir komið norðanátt hefir fylgt henni væta og hvassviðri. Heyskapur gengur því ekki vel, en ekki hafa samt hey hrakist að mun.

Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): Milli kl.14 og 16 þann 17. var norðanrok, veðurhæð 10. Þetta ofsarok skall á allt í einu og byrjaði að lægja kl.16. Í þessu roki tók reykháf af húsi á Patreksfirði. Heyi var ekki hægt að sinna. 

Suðureyri: Versti óþurrkur. Töður almennt mjög skemmdar. Hæglátir vindar. Sæmileg hlýindi. Grasspretta í góðu meðallagi.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var mjög óhagstætt. Þurrkar litlir og gekk heyskapur því illa.

Sandur: Tíðarfar mjög úrkomusamt og litlir þurrkar nema þ.9.-14. Þann 15. gerði óvenju stórfellda úrkomu.

Nefbjarnarstaðir: Yfirleitt góð tíð, en dálítill óþurrkakafli 15.-28. Tíðin mjög mild.

Fagurhólsmýri (Helgi Arason): Votveðrátta fyrstu 2 vikur, síðan hentug heyjatíð svo töður hafa hirst vel og óhraktar eftir hendinni.

Sámsstaðir: Mánuðurinn kaldur og rigningasamur. Tíðin yfirleitt vindasöm og lágur hiti á nóttum.

Reykjanesviti: Mjög köld og vætusöm veðrátta.

Morgunblaðið segir af vatnavöxtum í Mýrdal 13.júlí:

Klifandi. Talsverður vöxtur hefir komið í Klifanda í Mýrdal rigningardagana síðustu og var kvísl úr ánni farin að renna fram fyrir vestan Pétursey, hefir brotist gegn um stíflu, sem gerð var í hitteð fyrra, þegar áin braust þarna fram í flóðunum miklu, sem þá voru. Verður nú þegar hafist handa að styrkja stífluna, því að Klifandi getur orðið hinn versti farartálmi, ef áin nær sér þarna fram nokkuð að ráði, því að brúin á Klifanda er fyrir austan Pétursey, sem kunnugt er.

Morgunblaðið segir af slagviðri í pistli 16.júlí:

Álafosshlaupið fórst fyrir á sunnudaginn [14.] vegna veðurs, sem þá var hvasst á suðvestan og úrhellisrigning. Sögðu ferðamenn, sem fóru austur yfir fjall, að þeir hefði aldrei séð aðra eins úrkomu beggja megin fjallsins og í Svínahrauni á heimleið. Var það engu líkara en skýfalli, en veðrið svo mikið að hvítskóf allan veginn.

Morgunblaðið segir 17.júlí tíðarfréttir að norðan - og sunnan:

Úr Suður-Þingeyjarsýslu. Sjö vikur af sumri 1935. Hér og Norðanlands hafa verið hálfsmánaðar norðankuldar og allt vorið hefir verið kalt, svo að norðausturhelft landsins hefir haft hálfu lægra hitamagn en suðurhlutinn, að því er útvarpið hefir tilkynnt. Nú með hvítasunnu gerði norðan illviðri í lágsveitum með krapahríð, en í innsveitum snjó, svo að nærri mun hafa stappað, að lömb hafi fennt. Vorið hefir verið þurrt til þessa, svo að aldrei bleytti í rót til muna. [úr löngu bréfi Guðmundar Friðjónssonar]

Í Flóanum er sláttur byrjaður fyrir nokkru, en vegna óþurrkanna liggja hey undir skemmdum. Ógæftir hafa verið á Eyrarbakka og Stökkseyri nú í 10—12 daga, svo að hvorki hefir verið ýtandi né lendandi. Hefir allan þennan tíma verið sunnan- og suðvestan átt, brim mikið, kuldatíð og rigningar. Í samtali við Eyrarbakka í gærkvöldi, var blaðinu sagt, að nú væri nokkuð breytt um veður, vindátt komin á norðaustan og sjó að lægja. Vélbáturinn frá Vestmannaeyjum, sem átti að vera í föstum ferðum milli lands og eyja, en hefir ekki komist síðan garðurinn byrjaði, var þá að koma, og var talið útlit fyrir að hann myndi geta lent á Stokkseyri.

Morgunblaðið segir 19.júlí af jarðskjálfta í Noregi - látum þá frétt fylgja með til gamans:

Kaupmannahöfn í gær. Mikill jarðskjálfti varð í nótt í Þrándheimi í Noregi. Gluggarúður skulfu og hús hristust. Fólk þaut óttaslegið upp úr rúmum sínum um miðja nótt. Stórar öldur gengu langt á land upp þótt veður væri stillt. Álitið er, að jarðskjálftarnir stafi frá eldsumbrotum á hafsbotni, fyrir utan ströndina. Páll.

Tíminn 31.júlí af vatnagangi í Axarfirði - og þurrkdögum:

Engjaskemmdir í Axarfirði. Bændur á svokölluðum Sandsbæjum í Öxarfirði hafa nú í sumar orðið fyrir þungum búsifjum vegna vatns á engjum. Er þar flæðiengi víðlent og mikið véltækt með lónum fram niður undir sjó. Hleður sjórinn á hverjum vetri sandi fyrir framan lónin, stíflar afrennsli þeirra og hækkar þannig vatnið og flæðir yfir engjarnar. Á vori hverju hafa svo bændur grafið ósinn fram og tekist þangað til í vor, en brimin miklu í fyrravetur hafa hlaðið upp óvenjumiklum sandi. Nú hefir Sveinbjörn Jónsson, byggingameistari á Akureyri, tekið að sér að framkvæma verkið með það fyrir augum, að varanlegt verði, á þann hátt, að grafa niður tréstokk, er vatnið renni um og lækka sandkambinn, svo að sjór gangi ekki yfir hann á vetrum. Kostnaður við verkið er áætlaður um 6000 kr. En hér eru í húfi engjar, sem gefa af sér 2—3 þúsund hesta af töðugæfu fóðri. Fjórar jarðir eiga engjarnar: Skógar, Ærlækjarsel, Akursel og Hróastaðir, og eru tvær þessara jarða opinber eign.

Þurrkur mun hafa verið um mestallt landið s.l. sunnudag og mánudag [24. og 25.júlí]. Hefir sá þurrkur áreiðanlega komið að góðum notum, enda full þörf fyrir hann, því að fram að þessu hafði sláttur verið óþurrkasamur og töður viða farnar að hrekjast til muna, einkum á Suðurláglendinu. Norðanlands voru að vísu þurrkar ágætir fyrrahluta júlímánaðar, en urðu að minni notum en ella sökum þess, hve gras var síðsprottið. Um miðjan mánuð tók að rigna og var þá sláttur hjá mörgum aðeins nýbyrjaður, en ýmsir þeir, sem sláttuvélar hafa, þó nýbúnir að slá allmikið og hefir sú taða hrakist. Ritstjóri Tímans kom s.l. sunnudagskvöld landveg norðan um land og leit nokkuð eftir því, hvernig ástandið myndi vera í einstökum sýslum á þeirri leið. Í þingeyjarsýslum mun láta nærri, að hirtur hafi verið um fjórði hluti túna fyrir óþurrkana og hvergi virtist þar hrakið til mikils tjóns. Í Eyjafirði var meira hrakið og i Skagafirði og sérstaklegu vestast i Húnavatnssýslu virtist ástandið vera verst. Í Borgarfirði aftur mun meira hirt en á Norðurlandi.

Þrátt fyrir breytilegt veðurlag í ágúst tókst víðast hvar að heyja:

Síðumúli: Hagstæð veðrátta fyrir heyskapinn. Regntímar voru reyndar nokkuð langir, en þurrkakaflar aftur svo góðir að hey þornaði vel og náðist inn með góðri verkun.

Lambavatn: Það hefir verið sífelldar vætur og aldrei komið þurrkdagur þar til nú síðustu dagana hefir verið blíðviðri, logn og heiðríkja. Hafa nú allir náð inn þeim heyjum sem þeir áttu. Voru víða orðin vandræði með hey því aldrei þornaði svo að hægt væri að koma þeim undan skemmdum. [13.] Skaflar sem vanalega eru öll sumurin undir Skörðum eru nú alveg horfnir.

Keflavík við Súgandafjörð (Þorbergur Þorbergsson): [5.] Sunnanrok um nóttina, fauk taða, einnig úr sætum er lengi höfðu staðið.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var óhagstætt, úrkomur tíðar og lítið um þurrka. Þ.26. festi snjó á fremstu bæjum svo að grasfyllir var.

Sandur: Tíðarfar fremur óhagstætt til heyskapar, úrkomur tíðar, en ekki ýkja stórfelldar.

Nefbjarnarstaðir: Yfirleitt hagstætt tíðarfar nema síðustu vikuna var votviðrasamt. Tíðin stillt og mild.

Reykjanesviti: Mjög úrkomusamt og kalt fram undir mánaðarlokin, en þá komu bestu og hlýjustu dagar á sumrinu.

Í Morgunblaðinu 8.ágúst segir af hrakningum og mikilli villu ferðamanna í þoku og rigningu vestan Þingvallavatns helgina áður [sunnudaginn 4.]. Morgunblaðið segir fréttir að vestan 9.ágúst:

Frá Dýrafirði er símað: Tíðarfarið hefir verið mjög votviðrasamt nú undanfarið eða síðan sláttur byrjaði, að undanteknum nokkrum dögum seint í júlí. Náðu þá margir inn hluta af töðu sinni annars liggja þær nú undir skemmdum. Margir bændur, einkum í Mýrahreppi, hafa ýmist stækkað eða byggt nýjar votheyshlöður og látið talsvert af töðu í þær. Eykst votheysgerð hér hröðum skrefum.

Morgunblaðið segir 10.ágúst af hagstæðri heyskapartíð austanlands:

Frá Seyðisfirði símar fréttaritari útvarpsins, að síðasta hálfan mánuð hafi verið þar ágæt heyskapartíð, og mörg tún séu alhirt, og hafi taðan fengið ágætis verkun. Aflabrögð segir hann fara batnandi, og hafa veiðst 3 til 8 skippund á stærri báta af góðfiski; gæftir eru þó nokkuð óstöðugar. Sjómenn telja mjög mikla síld af öllum stærðum austan Langaness til Glettinganess og jafnvel lengra. FÚ.

Morgunblaðið segir 27.ágúst af erfiðri tíð við Breiðafjörð:

Heyskapartíð er erfið en grasár í meðallagi við Breiðafjörð, þurrkdagar aðeins einn og einn í einu, og þá helst um helgar. Mikið hey er nú úti víða um eyjar, bæði þurrt, í göltum, og blautt í föngum og á ljá. Hafa menn lítið getað flutt heim enn, sökum óþurrka. (F.Ú.).

Morgunblaðið segir 30.ágúst af veðurbreytingu  um höfuðdaginn:

Höfuðdagurinn var í gær. Veður hér sunnanlands var upp á það besta, glaða sólskin allan daginn. Er það gömul trú manna að uppbirta á höfuðdag boði góða tíð fram á haust. Fjöldi fólks fór úr bænum í berjamó og annað, til þess að nota góða veðrið. Flest starfsfólk Ísafoldarprentsmiðju fór í skemmtiferð til Þingvalla.

September var almennt hagstæður - nema hvað um miðjan mánuð gerði mjög miklar rigningar á Norður- og Austurlandi með óvenjumiklum skriðuföllum. 

Síðumúli: Veðráttan hefir verið hagstæð, þurrviðrasöm og fremur hlý, en nokkuð stormasöm. Hey voru hirt með góðri verkun eftir hendinni.

Lambavatn: Það hefir verið fremur hlýtt og þurrt en frá 11. sífelldir austan- og norðaustanstormar. Hér hefir heyskapur orðið í meðallagi. En óvenju mikið fokið af heyi í sumar.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var mjög hagstætt, enda gekk heyöflun vel fram um miðjan mánuðinn, en norðaustanhvassviðrin um og eftir miðjan mánuðinn gerðu nær ókleyft að eiga við hey enda var þá víðast hætt að slá.

Skriðuland: Mánuðurinn óminnilega þurr hér um slóðir.

Sandur: Tíðarfarið óhagstætt til heyskapar. Þurrkar litlir en úrkomur tíðar, en þó ekki stórfelldar hér. Hey hirtust seint og eru víða úti meira og minna.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Votviðrasamt en oftast hægviðri. Rigningin um miðjan þennan mánuð var minni hér heldur en inn til dala, og er það heldur sjaldgæft. Inni í sveitinni urðu dálítil jarðspjöll og skemmdir á vegum, ekki þó stórvægilegt.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin góð fram um miðjan mánuð. Síðan stórrigningar og hin óhagstæðasta tíð, en ekki köld. Víða stórskemmdir á heyjum og eldsneyti. Torfhús er léleg voru féllu víða og skriður gerðu víða tjón. Skemmdu á sumum stöðum tún og engi.

Reykjanesviti: Yfirleitt þurrt og gott veður.

Morgunblaðið segir af bátbroti 10.september:

Bátur brotnar. Vélbáturinn Leo brotnaði talsvert í fyrrinótt, þar sem hann lá við bryggju í Njarðvíkum. Dráttarbáturinn Magni fór í gær suður eftir til að sækja bátinn og kom með hann. hingað í gærkvöldi.

Morgunblaðið segir 11.september af miklu jökulhlaupi í Súlu. Hlaupið kom úr Grænalóni:

Jökuláin Súla, sem kemur undan Skeiðarárjökli vestanverðum og fellur í Núpsvötn, hljóp í fyrrinótt. Vatnsflóð mikið og jakaburður var kominn fram á sandinn í gær, og síðast er fréttist hafði þriðji símastaur austan Núpsvatna brotnað og símasamband slitnað. Póst- og símamálastjóra barst skeyti, sent kl. 17 úr Öræfum, þess efnis, að flóðið virtist þá óbreytt. Mjög er það talið sjaldgæft að Súla hlaupi án þess jökulhlaup komi samtímis í Skeiðará. (FÚ).

Morgunblaðið segir meira af hlaupinu 12.september:

11. sept. F.Ú. Síðustu fregnir af jökulhlaupinu eru þær, að í dag fór Hannes á Núpsstað að tilhlutun póst- og símamálastjóra austur að Núpsvötnum, til að athuga verksummerki, og virtist honum hlaupið enn hafa vaxið að miklum mun. Auk hlaupsins í Súlu er annað hlaup komið fram úr Blautukvísl, sem fellur undan Skeiðarárjökli talsvert sunnar og austar en Súla, og hefir jökullinn brotnað fram á stórum svæðum við upptök beggja þessara jökulvatna. Símalínan. er gjöreydd á alllöngum kafla og jökulhrönn um allan sandinn. Telur Hannes að mjög örðugt muni verða þar yfirferðar í haust, þó að flóðið sjatni og jökulhlaup þetta telur hann vera hið mesta sem komið hafi á þessum slóðum um langt skeið. Vitað er til að tvívegis áður hafi svipað hlaup komið í þessi vötn, nálægt tveim árum eftir Skeiðarárhlaup. Þá voru hlaupin talin af því, að Grænalón hafi hlaupið, en Grænalón er við upptök Núpsár, í jökulkrók milli Vatnajökuls og Skeiðarárjökuls.

Undir miðjan mánuð gerði miklar úrkomur á Norður- og Austurlandi. Sólarhringsúrkoma á Seyðisfirði mældist 109,7 mm að morgni þess 15. Heildarúrkoma dagana 14. til 18. mældist 370,4 mm á Seyðisfirði. Því miður voru úrkomustöðvar fáar á landinu og mældist hvergi afbrigðilega mikil nema á Seyðisfirði. Á Vattarnesi mældist úrkoman þó 131,9 mm þessa fimm daga og 60,2 mm á Akureyri. Mikil lægð suðaustan og austan við land beindi lofti af suðlægum uppruna inn á landið úr norðaustri og norðri - hefðbundið þannig séð, 

Morgunblaðið segir fyrst af þessu 14.september:

Einkaskeyti. Siglufirði í gær. Norðanstormur var hér í dag og engir síldarbátar úti. Vélskipið Liv frá Akureyri, sem lá á firðinum rak á land á Skútufjöru í morgun. Skipið liggur á sandbotni og er talið óskemmt og líklegt að það náist út aftur. Columbus, flutningaskip, var búið að taka flutning á þilfar. En þegar stormurinn skall á, tók skipið að hallast svo mikið, að flutninginn varð að taka í land aftur.

Morgunblaðið segir ítarlegar frá 17.september:

Seyðisfirði sunnudag [15.]. Einsdæma rigning hefir verið á Seyðisfirði og þar í grennd síðan á föstudag [13.september]. Á Seyðisfirði hafa orðið miklar skemmdir vegna skriðuhlaupa, aðallega úr Strandartindi. Í gærkvöldi [14.] seint, hljóp skriða á íbúðarhús og geymslu hús Einars Einarsson útgerðarmanns, og olíuport Olíuverslunar Íslands. Neðri hæð íbúðarhússins skemmdist allmikið og geymsluhúsið fylltist af auri og grjóti. Í geymsluhúsinu var ein kýr og varð henni með naumindum bjargað, en nokkur hænsni fórust. Skriðan hljóp fyrir dyr hússins, svo íbúarnir urðu að bjargast út um glugga. Skemmdir urðu einnig mjög miklar á veiðarfærum, fiski, heyi, fatnaði og innanstokksmunum. Olíuport Olíuverslunar Íslands gerónýttist og eitthvað af olíu fór í sjóinn. Aurskriða féll einnig að geymsluhúsi Fisksölufélagsins, svonefndri Pöntun, en virðist ekki hafa valdið þar skemmdum. Önnur aurskriða féll í nótt á fiskverkunarstöð Þóris Jónssonar, útgerðarmanns á Fjarðarströnd. Færði hún í kaf fiskreiti og fiskstakka, braut efri hlið úr fiskskúr, og flóði inn um dyr á fiskkjallara þar sem geymdur var allmikill óverkaður fiskur. Urðu af þessu miklar skemmdir á veiðarfærum, fiski og útgerðaráhöldum. Smærri aurskriður féllu og víðar, en ollu ekki verulegum skemmdum. Þá urðu og af hlaupum þessum miklar skemmdir á vegum. Tjónið hefir ekki verið metið.

Skriðuhlaup á Norðfirði. Fréttaritari útvarpsins í Norðfirði segir, að þar hafi gengið stórrigningar sem orsakað hafa skriðuhlaup, er valdið hafa stórum skemmdum á engjum og túnum á nokkrum bæjum í sveitinni svo sem: Skorrastað, Skálateigsbæjunum og Mýbæ. Á Skorrastað eyðilagði hlaupið 30—40 hesta af heyi. FÚ.

Nýja dagblaðið segir líka frá rigningu og sömu skriðuföllum í pistli 17.september:

15. september. FÚ. Eindæma rigning hefir verið á Seyðisfirði og þar í grennd síðan á föstudag. Á Seyðisfirði hafa orðið miklar skemmdir vegna skriðuhlaupa, aðallega úr Strandartindi. Í gærkvöldi seint hljóp skriða á íbúðarhús og geymsluhús Einars Einarssonar, útgerðarmanns og olíuport Olíuverzlunar Íslands. Neðri hæð íbúðarhússins skemmdist allmikið og geymsluhúsið fylltist af auri og grjóti. Í geymsluhúsinu var ein kýr og varð henni með naumindum bjargað, en nokkur hænsni fórust. Skriðan hljóp fyrir dyr hússins, svo íbúarnir urðu að bjargast út um glugga. Skemmdir urðu einnig mjög miklar á veiðarfærum, fiski, heyi, fatnaði og innanstokksmunum. Olíuport Olíuverzlunar Íslands gerónýttust og eitthvað af olíu fór í sjóinn. Aurskriða féll einnig að geymsluhúsi Fisksölufélagsins, svonefndri Pöntun, en virðast ekki hafa valdið þar skemmdum. önnur aurskriða féll í nótt á fiskverkunarstöð Þóris Jónssonar, útgerðarmanns á Fjarðarströnd. Fœrði hún í kaf fiskreiti og fiskstakka, braut efri hlið úr fiskskúr og flóði inn um dyr á fiskkjallara þar sem geymdur var allmikill óverkaður fiskur. Urðu af þessu miklar skemmdir á veiðarfærum, fiski og útgerðaráhöldum. Smærri aurskriður féllu og víðar, en ollu ekki verulegum skemmdum. Þá urðu og af hlaupum þessum miklar skemmdir á vegum. Tjónið hefir ekki verið metið.

En það rigndi einnig mikið í Eyjafirði og þar féllu skriður - sömuleiðis á Eskifirði. Morgunblaðið 18.september:

Sífelldar stórrigningar hafa gengið í Eyjafirði undanfarna daga og valdið miklum vatnavöxtum og skriðuhlaupum. Síðasta sólarhring féllu skriður miklar úr fjallinu norður og upp frá Möðruvöllum í Eyjafirði og hafa þær valdið stórkostlegum landspjöllum á jörðunum Guðrúnarstöðum, Helgastöðum, Fjósakoti, Möðruvöllum og Skriðu. Fjósakotsland hefir aleyðst að undanteknum hluta túnsins. Skemmdir hafa ekki orðið á húsum, en fólk hefir flúið bæina í Fjósakoti og Helgastöðum. Ein jarðspildan gekk alla leið fram í Eyjafjarðará og stíflaði hana og hefir áin breytt farvegi sínum og rennur nú út um Melgerðisnes sem er engi og veldur þar miklum landskemmdum. Skemmdirnar hafa ekki verið rannsakaðar til fullnustu og tjón hefir ekki verið metið. Dauðar sauðkindur hafa fundist í skriðunum, en ekki er vitað hve mikil brögð hafa orðið að því að fé hafi farist.

Fréttaritari útvarpsins í Eskifirði símar að þar hafi verið aftakarigningar síðan á sunnudagskvöld [15.] og hafa þær valdið stórskemmdum, bæði í kauptúninu og á ýmsum stöðum í Helgustaðahreppi. Rignt hafði og nokkuð síðastliðinn föstudag [13.] og laugardag. Í gærkvöldi féll 40-60 metra breið skriða á Hlíðarenda yst í kauptúninu og gjöreyddi þar tvo túnskika sem gáfu af sér um 40 heyhesta. Hlaup kom í Grjótá, vestarlega í kauptúninu síðastliðna mánudagsnótt. Flúði fólk þá úr næstu húsum, en skemmdir urðu ekki til muna enda veittu minn ánni frá til að koma í veg fyrir skemmdir. Skriða hljóp á túnið á Svínaskála og eyddi þar 40 heyhesta völl, braut hjall sem stóð neðst á túninu og fyllti hann auri. Önnur skriða féll fyrir vestan túnið og tók af helming Litlu-Eyrar sem var gott beitiland. Á Innstekk, næsta bæ fyrir austan Svínaskála urðu allmiklar skemmdir. Þar stíflaðist Stekksá upp í brúnum. Breytti hún farvegi sínum og hljót á túnið. Við þessa á voru tvær rafstöðvar. Braut hlaupið aðra en fyllti hina, svo að raflýsing á bænum er stórskemmdi. Hlaupið skemmdi bæði tún og kálgarð á Innstekk. Hætta er á meiri skemmdum ef rigningin helst, sem er útlit fyrir. Smáhlaup hafa komið á Hólmaströnd svo að bílvegurinn er þar ófær.

Vísir segir skriðufregnir frá Norðfirði þann 19. og sömuleiðis af skemmdum í Stykkishólmi:

18. september (FÚ) Stórrigningunum hefir látlaust haldið áfram austanlands, samkvæmt símskeyti, sem fréttaritari útvarpsins á Norðfirði sendi þaðan kl.10:15 í morgun. Hefir hún valdið frekari skemmdum í sveitinni, sérstaklega á Kirkjubóli og Skálateigsbæjunum. Milli Kirkjubóls og Skálateigsbæja hefir fallið stór skriða, sem eyðilagt hefir engi á Kirkjubóli, og orðið fé að fjörtjóni. Kindur hafa sést dauðar í hrönnum af völdum Kirkjubólsár, og hefir túnið þar skemmst allmikið, og einnig rafstöðin. Tún og engi á Skálateigsbæjunum hafa einnig orðið fyrir miklum skemmdum af hlaupinu. Heytjón hafa orðið allmikil. Þá hafa vegir um sveitina stórskemmst. Enn hafa ekki fengist gleggri fréttir af tjóninu.

18. september (FÚ) Frá Stykkishólmi símar fréttaritari útvarpsins þar, ... síðan s.l. fimmtudagskvöld [12.] hefir verið að heita má stöðugt rok við Breiðafjörð, og hefir sjór gengið á land í Stykkishólmi þegar verst hefir verið,og valdið nokkrum skemmdum á bryggjum.

Morgunblaðið segir enn af skriðutjóni 20.september:

Fjórtán kindur hafa fundist dauðar í skriðunum og í Eyjafjarðará, neðan við skriðurnar. Óvíst er hve margt fé kann að hafa farist þannig. FÚ.

Verkamaðurinn segir allítarlega frá skriðuföllum í Eyjafirði í pistli 21.september:

Stórfeldar rigningar hafa gengið hér að undanförnu. Hafa þær skemmt bæði eldivið og hey, því hús með torfþökum hafa lítið viðnám veitt og er því víst að öll hey, sem ekki voru undir járnþaki, hafa skemmst meira og minna. Stórfelldastir hafa þó skaðarnir orðið í Möðruvallasókn fram í Eyjafirði. Tók að rigna þar mjög mikið síðastliðinn laugardag [14.] og herti á rigningunni á mánudagsnótt [16.] svo að með fádæmum varð. Hélst þessi stórrigning alla nóttina og mánudaginn, var sem vatni væri helt úr fötum og lækir urðu stórir sem ár, var til að sjá sem öll fjallshlíðin væri nær eitt vatnshaf. Tóku og þá að gerast hinir ægilegustu atburðir, því um miðjan dag fóru að falla skriður og jarðföll í hlíðinni og fylgdu dunur og dynkir, er heyrðust langar leiðir, en jörðin skalf og nötraði. Hélt þessum ægilega leik áfram með litlum hléum fram undir morgun á þriðjudag. Flúði fólkið úr þeim bæjum er í mestu hættu voru á aðra bæi, en varð ekki svefnsamt. Er það skemmst af að segja að á þessum tíma valt jörðin fram og munu jarðföllin og skriðurnar ná yfir 1/2 hluta af fjallshlíðinni frá Guðrúnarstöðum að Finnastöðum. Eyðilagðist bithagi, tún og engjar. Heyi og girðingum sópaði burtu og sauðfé gat ekki forðað sér, en liggur dautt hrönnum saman við skriðurnar og undir þeim, en óvísst er enn hvað margt hefir farist, því ekki hefir verið hægt að smala því sem eftir er, en það er óhætt að fullyrða, að þarna hefir farist fjöldi fjár. Eyjafjarðará færðist úr farvegi sínum og rennur nú vestur yfir Melgerðisnes og Gnúpá stöðvaðist um tíma. Fara hér á eftir nánari frásagnir af skemmdum og atburðum á hverri jörð.

Á landamærum Guðrúnarstaða og Möðruvalla féll gríðarmikið jarðfall. Eyðilagði það allmiklar engjar á þeim jörðum og nýrækt frá Guðrúnarstöðum um hektar að stærð. Þetta jarðfall fyllti upp farveg Eyjafjarðarár og renndi sér yfir á Melgerðisnes og eyðilagði þar á annað hundrað hesta véltækt engi. Rennur áin nú vestur með þessum tanga og vestur fyrir hann. Fólkið á Helgastöðum flýði úr bænum, nema tveir karlmenn; þar hljóp og skriða mikil á túnið, og klofnaði hún á bænum, en skemmdi hann þó ekki. Eyðilagði skriðan um 1 kýrfóðurvöll. Bóndinn þar var svo heppinn, að eiga allt sitt fé vestur f Djúpadal og mun hann vera eini bóndinn á þessu svæði er ekki hefir misst fé í jarðföllin. Kálfagerðisland er óskemmt og er það eina jörðin í hlíðinni, sem ekkert hefir fallið á. Þá kemur hið mikla jarðfall, er spennir greipar nær því að bænum á Möðruvöllum, um Fjósakotsland allt og suður fyrir bæ í Skriðu. Hefir það rifið upp um 30—40 hesta tún á Möðruvöllum og stóran part af kartöflugarði. Allt graslendi Fjósakots, bithagi, tún og engi, er undir þessu jarðfalli, að undanskildu ca. 30 hesta túni. Bóndinn þar var nýlega búinn að flytja sig í íbúðarhús, er hann var að byggja í sumar, jörðina keypti hann fyrir fáum árum, verður hann því fyrir afarmiklu tjóni. Átti hann hey og allmikið úti, er auðvitað varð undir jarðfallinu. Húsin sakaði lítið, þó brotnaði rúða á gamla bænum og fór sletta þar inn. Fólkið flýði úr bænum fyrir nóttina, enda var þá byrjað að falla fyrir ofan bæinn. Þetta jarðfall náði, eins og áður er getið, suður fyrir bæinn í Skriðu; skemmdi það, ásamt skriðu er féll sunnar á túnið, engjarnar og eyðilagði rúmlega helminginn af túninu. Talið er af kunnugum, að þessi bær hafi verið í mestri hættu, en ekki varð flúið úr bænum, því skriðurnar voru á tvær hendur, enda 2 gamalmenni í bænum, sem erfitt var að flytja og má nærri geta hvernig fólkinu hefir liðið um kvöldið og nóttina. Fyrir sunnan Stekkjarfleti féll afarbreitt jarðfall og mun það hafa stíflað Gnúpá, eins og áður segir, og f það jarðfall má telja víst að mikið fé hafi farist. Fyrir sunnan Björk, sem nú er í eyði, féll einnig stórt jarðfall, er sópaði burtu um 50 hestum af heyi, er bóndinn á Stekkjarflötum átti. Þá fór og allmikið jarðfall fyrir sunnan Finnastaði.

Að svo komnu máli er erfitt að áætla hvað mikið tjón hefir hlotist af þessum jarðföllum, en það er víst, að það hefir veitt bændum á umræddum jörðum þungar búsifjar. Væri ekki nema sanngjarnt að þessum bændum yrði bætt tjónið með framlagi úr bjargráðasjóði eða ríkissjóði. Bóndi.

Morgunblaðið segir af Súluhlaupi og orsökum þess 21. september [rétt að taka fram að síðari tölur um heildarrúmmál hlaupvatns eru lægri heldur en hér er tilgreint]:

20. september. FÚ. Orsakir jökulhlaupsins í Súlu og Blautukvísl hafa nú verið rannsakaðar. Grænalón, í jökulkróknum milli Vatnajökuls og Skeiðarárjökuls, um 20 ferkílómetrar að flatarmáli og um 200 metrar að dýpt hefir horfið, og þar er nú djúpur dalur, sem vatnið var. Jóhannes Áskelsson, er rannsakaði orsakir hlaupsins, símaði í dag frá Kálfafelli í Fljótshverfi frásögn þá, er hér fer á eftir:

„Ég fór austur s.l. þriðjudag og kom að Núpsstað á miðvikudag. Hannes bóndi Jónsson á Núpsstað fylgdi mér í gærmorgun upp á Eystrafjall, og gengum við í gær alla  leið norður að Grænalóni. Þegar þangað kom brá okkur í brún: Þar sem við Trausti Einarsson mældum vatnið í vor var nú ekkert vatn, en óhemju íshrönn huldi vatnsbotninn. Hefir lónið brotist fram undir Skeiðarárjökul, austan Eystra-fjalls og valdið síðasta hlaupi í Súlu og Blautukvísl. Frá Grænalóni að útfalli Súlu eru 13 km, en að útfalli Blautukvíslar eru 16 km. Við útföllin hefir flóðið brotið geysiskörð í jökulröndina. Súla er nú algerlega horfin þaðan sem hún áður var, en Blautakvísl er í vexti. Vegna þess að við Trausti Einarsson mældum upp Grænalón í vor, verður nú hægt að segja með allmikilli nákvæmni, hve mikið vatn hefir flætt fram á sandana — virðist það við fljótlega athugun nema þrem til fjórum teningskílómetrum. Vatnsstæðið er rúmlega 200 metrar á dýpt frá strandlínu niður að botni og vatnsyfirborðið var nálægt 20 ferkílómetrum. Enginn hér austur hefir orðið var við eldgos, og má telja víst, að eldsumbrot hafi ekki að þessu sinni átt neinn þátt í jökulhlaupinu. Grænalón hefir áður hlaupið fram. Var það laust fyrir síðustu aldamót. Tók þá þrjá áratugi að fylla dalinn aftur.

Skeiðarársandur er nú aftur fær yfirferðar. Guðmundur Hlíðdal fór austur yfir sandinn í fyrradag ásamt Skúla Sigurðssyni símaverkstjóra og rannsökuðu þeir skemmdirnar á sandinum. Alls brotnuðu um 40 símastaurar. Hlaupið hafði komið fram á þremur stöðum í Súlu, Blautukvísl og á milli þessara vatna. Allur sandurinn milli Lómagnúps og Blautukvíslar hefir lagst undir sand. Eru jökulhrannir alt frá jökli og fram allan sand, svo langt sem augað eygir, að því er hermir í símskeyti til F.Ú. frá G. Hlíðdal.

Morgunblaðið segir af breytingum á hveravirkni í Ölfusi 25.september:

Fyrir ofan bæinn í Reykholti í Ölfusi, í gili einu, hefir að undanförnu orðið vart við lítilsháttar jarðhita. En á útmánuðum síðastliðinn vetur fór að rjúka þar mikið úr jörðu og hefir þessu farið þar fram síðan. Nú eru myndaðir þar miklir gufuhverir. Hverirnir liggja í hinum svonefndu Rjúpnabrekkum, mættu því vel heita Rjúpnahverir. Þeir koma fram í lausum mel, sem liggur í brattri brekku neðan við kletta. Í fyrstu virtist gufan koma upp úr melmum á víð og dreif, en síðan fóru að myndast smá hveraop á þrem stöðum. Nú er eitt þeirra stærst, vellur þar og sýður í sífellu blágræn leðja. Svo er og í flestum hinum hveraopunum. Kringum hveraopin eru að myndast smá hólar af leðju þeirri, sem þeir spúa sí og æ upp yfir barmana. Upp af hverunum stendur stöðugt gufumökkur, sem í kyrru veðri nær hátt í loft upp. Þar eru ávallt brestir og dynkir sem heyrast alllangt í burtu og virðist sem jörð skjálfi í námunda við hverina. Fyrir vestan Rjúpnabrekkur liggur Grænidalur, inn á milli  Brennisteinstinda og Dalafells. Það er einkennilegur dalur með mjög breytilegu landslagi og jarðvegsmyndunum. Þar er mikill jarðhiti. Hveramóhverir eru mest áberandi, en auk þess rýkur þar úr jörðu á fjölda mörgum stöðum, sumstaðar brennisteinsfýla, einkum í hlíðinni niður af Brennisteinstindum. Myndast þar einkennilegar rásir af brennisteini á yfirborðinu. Á ýmsum stöðum virðist nýr jarðhiti vera að koma í ljós. Þetta þyrfti allt nánari athugana og rannsókna. S.S.

Morgunblaðið birti 2.október loks fréttir af skriðuföllum í Bárðardal - þau urðu á sama tíma og skriðuföllin á Austfjörðum og í Eyjafirði:

Akureyri í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Í rigningunum, sem gengið hafa undanfarið hér Norðanlands, féllu um 20 skriður, stærri og smærri í Bárðardalnum. Þá féllu einnig margar skriður í Timburvalladal, á afrétt Fnjóskdælinga, svo þeir gátu ekki gengið á venjulegum tíma. Eitthvað af fé hefir farist í skriðunum, og hafa nokkrar dauðar kindur þegar fundist. Á Hlíðskógum í Bárðardal liggur hálft túnið undir aurskriðu og flutti fólkið burt af bænum meðan mest gekk á. Á Stóruvöllum féllu margar skriður og skemmdu engjar og bithaga. Vegurinn fram Bárðardal, vestan Fljótsins, er ófær, vegna skriðuhlaupa. Kn.

Október var óstöðugur, en fékk samt sæmilega dóma. 

Síðumúli: Veðráttan hefir verið fremur óstöðug, sér í lagi hvað hita snertir. Þó má kalla að tíðin hafi verið góð. Aldrei komið snjór, nema lítið eitt.

Lambavatn: Það hefir verið fremur óstöðugt en kuldalítið. Aldrei hefir snjóað nema él sem strax hefir tekið upp aftur.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var hagstætt en breyttist með vetrarkomu. Þá byrjaði að snjóa og jörð var alhvít til mánaðamóta.

Sandur: Tíðarfarið óstillt og mjög úrkomusamt. Setti niður mikinn snjó til fjalla og um miðjan mánuðinn gerði jarðbönn fram inn til sveitar vegna bleytusnjóa og mun þar hafa verið jarðlaust til mánaðarloka. Flestir tóku hey sín til fulls 7.-8. Þó er mér kunnugt um tvö heimili sem eiga úti talsvert af heyjum.

Nefbjarnarstaðir: Tíð afar óstillt og úrfellasöm. Hey úti á stöku stað. Hvassviðrið 26.-27. gerði sumum bæjum á Héraði tjón á húsum. Þök fuku.

Reykjanesviti: Frekar rigningasamt og hrakviðri talsvert oft og nokkuð stormasamt. Samt var mánuðurinn frekar hlýr eftir því sem við er að búast.

Morgunblaðið segir af jarðskjálftum 10.október:

Kl.10 mín. yfir 9 í gærkvöldi [9.] kom allsnarpur jarðskjálftakippur hér. Er talið að hann hafi staðið yfir í 10 sekúndur. Hrikti talsvert í timburhúsum og steinhús hristust. — En ekki var hristingurinn svo mikill að munir færðust úr stað. Hæsta lagi að myndir skekktust á veggjum. Svo um engar skemmdir eða tjón var hér að ræða. Útbreiðsla jarðskjálftans. Þegar þetta gerðist voru flestar símastöðvar lokaðar hér nærlendis, svo ekki var hægt að fá nákvæmar fregnir um það, hve kippur þessi hefir náð yfir langt svæði. En þegar ber á jarðskjálfta hér í Reykjavík, verður fyrst fyrir að grennslast um það, hvort kippurinn hafi náð austur fyrir Fjall. Blaðið náði tali af Ásgarði í Grímsnesi. Þar hafði kippurinn verið mjög svipaður og hér. Og frá Eyrarbakka frétti blaðið að hann hefði þar fundist, en jafnvel verið minni en hér í Reykjavík. Þá náði blaðið og tali af stöðinni suður í Vogum. Þar var kippurinn einnig álíka og hér. Af þessu sést að hann hefir náð yfir æði stórt svæði. Úr því jarðskjálftinn var svipaður bæði austan fjalls og vestan, bentu líkur til þess, að upptökin hafi verið í fjallgarðinum vestan Suðurlandsláglendisins, enda kom það á daginn, að hann var snarpastur í Hveradölum. Blaðið náði símasambandi við Skíðaskálann. Urðuð þið mikið varir við jarðskjálftann þarna efra? Já, hér hristist húsið, svo við héldum að allt ætlaði um koll að keyra. Leirtau í búr og eldhússkápum hentist fram á gólf og brotnaði. Jurtapottar duttu niður úr gluggum, og allt lauslegt færðist úr skorðum. Við vorum að fernisera veggina í kvennaskálanum, og höfðum olíulampa standandi á borði. Lampinn valt niður á gólf og kviknaði í olíunni, sem flaut um gólfið. En okkur tókst að slökkva eldinn með þykkri gólfábreiðu, er við höfðum við hendina. — Hafa komið fleiri kippir þarna efra? — Annar minni kippur kom rétt á eftir stóra kippnum. — Urðu nokkrar skemmdir á húsinu. — Ekki höfum við orðið varir við það. Skriða dálítil féll hér úr fjallinu í stóra kippnum. Kl.ll í gærkvöldi hafði blaðið aftur tal af forstöðumanni Skíðaskálans. Hann sagði, að kippirnir héldu þar áfram, voru komnir einir 20, en allir minni en sá fyrsti. Í fyrsta kippnum féll stórt bjarg úr hlíðinni ofan við skálann og stefndi beint á skálann. En til allrar hamingju stöðvaðist bjarg þetta í brekkunni ofan við skálann, er það átti ófarna 40—50 metra til skálans. Hefði bjargið ekki stöðvast þarna, en lent á skálanum, hefði hann stórskemmst.

Enn af skjálftahrinunni. Morgunblaðið 11.október:

Jarðskjálftakippurinn á miðvikudagskvöldið var hér snarpur, en olli þó ekki skemmdum. Skömmu á eftir aðalkippnum, fundust hér þrír kippir minni. Það eftirtektasta var, að hverauppsprettur nálægt mjólkurbúi Ölfusinga, sem ekki gjósa venjulega, tóku allt í einu að gjósa og heldu áfram gosum við og við fram á fimmtudagsmorgun. Gosin vorn 2—3 metra há. Jarðskjálftakippir hafa fundist við og við hér eystra nú undanfarið. Í Hjallahverfi í Ölfusi var kippurinn snarpari. Landskjálftakippurinn á miðvikudagskvöldið mun hafa verið snarpari suður í Hjallahverfi, heldur en hér í Hveragerði. Frést hefir t.d. að á einum bæ, þar sem fólk sat við kaffidrykkju valt kaffikannan og bollarnir. Á nokkrum bæjum hrundi grjót úr veggjum útihúsa, en eigi hefir frést um neinar verulegar skemmdir nema hvað fjós skemmdist á einum bæ í Hjallahverfi. Talsvert hrundi úr vörðum við Hellisheiðarveginn, alt frá Hveradölum og austur á Kambabrún. — Ber mest á því hruni vestan til á heiðinni, en minnkar er austar dregur.

Morgunblaðið segir af illviðri á sjó 13.október:

Síldveiðibátar úr verstöðvunum við Faxaflóa lentu í hinu versta illviðri í fyrrakvöld [11.] og fyrrinótt. Margir bátar misstu eða urðu að skera frá sér net sín og hafa margir beðið geysimikið tjón vegna veiðarfaratapa. Óttast var um afdrif nokkurra báta í gærdag, en þeir komu allir fram fyrir kvöldið. Einna mest varð tjónið á veiðarfærum hjá Keflavíkurbátum. Morgunhlaðið átti tal við fréttaritara sinn í Keflavík í gærkvöldi. Kvað hann þá alla báta vera komna að. Tjón útgerðarmanna vegna veiðarfæratjóns var ekki hægt að segja um að svo stöddu, en giskað var á að tapið mundi nema tugum þúsunda króna. Til Hafnarfjarðar komu margir bátar í gærdag. Lögðust þeir allir við festar úti á höfn, því ekki var viðlit að leggjast upp að bryggju vegna óveðurs.

Morgunblaðið 15.október segir af enn einum kipp:

Allsnarpur jarðskjálftakippur fannst hér í bænum og um allt Suðvesturland í gærmorgun, um hálftíuleytið. Kippurinn stóð yfir í 30 sekúndur. Hann var ekki eins snarpur og jarðskjálftakippurinn sem fannst hér s.l. föstudag, en stóð heldur lengur yfir. ... Blaðið átti tal við forstöðumann Skíðaskálans í Hveradölum og spurði hvort hræringanna hefði orðið vart þar. Kvað hann svo vera. Hefði kippurinn sem kom kl. 9 1/2 verið svo snarpur að hann hefði skekkt reykháf skálans. ... Aðalkippurinn í gærmorgun fannst víða á Suðvesturlandi en mun hafa verið snarpastur í Hveradölum og í Hveragerði í Ölfusi.

Tíminn segir tíðarfréttir að austan 23.október:

Fréttir af Héraði. September hefir verið mjög slæmur. Rigningar miklar og stórviðri. Sláttur hætti almennt um miðjan mánuðinn, þá mikið sökum ofviðranna, sem þá geisuðu yfir. Töluverðu tjóni ollu þau víða. Hey fór í vatn, engjar eyðilögðust af vatni, einkum á Úthéraði. Einnig urðu töluverðar skemmdir á Jökuldalsveginum, tók 3 brýr af, svo vegurinn tepptist upp undir viku. Töluvert af heyjum er úti ennþá og jafnvel eitthvað af há á túnum. Þurrkar eru engir, alltaf stöðug úrfelli. Spretta í görðum í lakara lagi. Grunur á að kartöflusýkin hafi stungið sér niður á stöku stöðum. Slátrun byrjaði hjá K.H. Reyðarf. 24. september. Fé reynist misjafnlega.

Morgunblaðið segir 27.október frá tjóni í illviðri eystra:

Norðfirði í gær [26.]. Ofsarok af norðvestri gerði hér í nótt hefir það haldist í allan dag. Nokkrir vélbátar slitnuðu upp sem lágu hér á höfninni og einnig hafa tvær bryggjur skemmst nokkuð. ... Klukkan 5 í morgun strandaði breski togarinn Waldorf frá Grimsby innan við Dvergastein í Seyðisfiðri. Skipstjórinn, ásamt allri áhöfninni, björguðust á land og eru nú komnir til Seyðisfjarðar.

Morgunblaðið segir enn af sama veðri 29.október - og stórtjóni í Vöðlavík:

Eskifirði í gær. FÚ. Ofsaveður af norðri í fyrrinótt olli stórfeldum skemmdum í Vaðlavík í Múlasýslu. Íbúðarhúsið á Vöðlum hreyfðist til á grunninum um 10 cm, og munaði minnstu að það fyki alveg. Járnþök af 5 heyhlöðum, um 80 plötur, og fjárbús yfir eitt hundrað fjár, fauk allt í sjó út og sést ekki urmull eftir af neinu.

Veðráttan segir frá því að 28. október hafi maður orðið úti í smalamennsku á Jökuldalsheiði.

Nóvember var nokkuð mislægur, hlýindi um miðjan mánuð, en illviðri gerði seint í mánuðinum. 

Lambavatn: Til 25. var alltaf austan og norðaustanátt, kulda- og úrkomulítið. Allar skepnur úti umhirðulítið. 26. gerði hér um nóttina norðanbyl með verri byljum sem koma. Hrakti þá 48 kindur í Bæjarvaðalinn og drápust, voru þær allar frá Gröf á Rauðasandi. 29. fennti hér mjög mikið í logni og frost linaði svo um nóttina, svo storka er yfir allt og því ekki gott á jörð.

Kvígindisdalur: Aðfaranótt þess 26. skall á með norðvestan stórviðri, sjógangi og hríðarveðri, veðurhæð um 10-11 vindstig milli kl.2 og 4 um nóttina, snerist vindáttin svo til norðurs og smálægði. Í þessu ofveðri eyðilagðist með öllu byrjun að steinsteyptum grunni undir fiskimjölsverksmiðju sem Verzlun Ó. Jóhannnesson er að láta reisa á Vatneyri. 

Suðureyri: Illviðri er á leið. Hlýviðri um miðbik mánaðarins. Annars óstöðugt og fáar gæftir. Hagar til mikils léttis.

Víðidalstunga: Tíðarfarið var hagstætt og milt. Nokkrir slepptu fé í góðviðriskaflanum um og eftir miðjan mánuðinn, en tóku það aftur þegar umhleypingarnir byrjuðu. Svartþrösturinn sem sást þann 20. var kyrr í nokkra daga, en hvarf þegar tók að snjóa.

Sandur: Tíðarfar yfirleitt gott. Fyrstu 4 dagana var þó frost og snjókomur en gekk í rigningu að kvöldi þess 4. Var síðan mjög gott tíðarfar þar til 25. að gerði umhleypinga er héldust til mánaðarloka. Lengst af autt í lágsveitum og mun einnig hafa minnkað snjór í uppsveitum en mikill snjór hélst til fjalla. Norðangarðurinn 26. náði sér lítið hér.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin fremur góð. Hægviðri, þoku- og úrfellasamt, en þó ekki stórfelldar úrkomur. Snjókoma nokkur þrjá síðustu dagana.

Reykjanesviti: Veðurfarið má heita sæmilegt eftir árstíð. Bæði til lands og sjávar. Að vísu mjög úrkomusamt.

Morgunblaðið segir af mengun í Reykjavík - og skíðaferðum 5.nóvember:

Á sunnudaginn var [3.] besta veður, bjart og svo mikið logn, að reykurinn úr húsunum í Reykjavík komst rétt aðeins upp úr strompunum og dreifðist svo í dökka blæju yfir bæinn, hlóðst að mönnum á götunum og þrengdi andrúmsloftið. Og þegar kom suður úr þessum mökk, suður á Öskjuhlíð, var hið sama að sjá til Hafnarfjarðar, dökkan hattkúf yfir bænum, engu líkara en að öll hús í Hafnarfirði væri að brenna. En af þessu höfðu ekkert að segja þeir, sem fóru á skíði upp um fjöll, því þar var andrúmsloftið blátært og hreint. Og það var ótrúlegur fjöldi fólks sem fór á skíði þenna dag, bæði frá Hafnarfirði og Reykjavík. Farið var upp á Hellisheiði, í Jósefsdal, í Innstadal, á Skálafell, Bláfell og Kambabrún. Er óhætt að fullyrða að aldrei hefir sést svo margt fólk á skíðum á Íslandi eins og þá, karlar, konur og börn. Skíðafærið var ágætt og veðrið enn betra. Sól glitraði á snævi þaktar heiðarnar, brekkur, fjöll og hjalla; loftið var gegntært svo að þar sem sólargeislarnir mættu snjónum, mynduðust undra loftsýnir, sem heilluðu menn til að ganga lengra og lengra.

Morgunblaðið segir 7.nóvember frá hörmulegu slysi (frásögnin stytt talsvert hér):

Á mánudagsmorgun [4.] lögðu þrír ungir og röskir menn upp frá Úlfsdölum og Máná í Siglufjarðarhreppi og ætluðu að leita fjár á svokölluðum Almenning þar fyrir vestan. Voru þeir lítt búnir, því að þeir ætluðu að koma heim aftur undir kvöldið. Þeir félagar héldu fyrst inn að Hraunum í Fljótum og töfðu þar eitthvað. Síðan lögðu þeir á stað út á Almenning, og var þá kl.2 um daginn. Síðan spurðist ekki til þeirra. Um miðjan daginn gerði afspyrnurok, og hlýtur þá að hafa verið mjög vont veður á Almenningnum. Bátar, sem voru á sjó, fengu aftaka veður, en ekki var hríð mikil, bleytuslydda. Þegar á leið daginn, lægði veðrið og gerði þá talsvert frost. ... Þegar þeir komu ekki heim um kvöldið, fóru menn að óttast um þá, og á þriðjudagsmorgun lagði einn maður á stað úr Dölunum til þess að leita þeirra. Leitaði hann mestan hluta dagsins, en varð einskis vísari. Kom hann þá inn í Siglufjörð til þess að fá menn í leitina með sér. Söfnuðust í morgun saman 14 vaskir menn til leitarinnar á Almenningum, en auk þess voru bátar sendir til að leita meðfram ströndinni, því að allir óttuðust að mennirnir hefði hrapað í skriðunum og fallið niður í sjó. Leit bátanna bar engan árangur, enda var mikil þoka og illt að leita. En það er frá leitarmönnum á landi að segja, að þeir fundu í dag lík Haraldar heitins skammt frá Máná. Er talið að hann muni hafa hrapað á svellbunkunum í skriðunum, ásamt félögum sínum, en verið þó lifandi eftir fallið og dregist þetta heim á leið, uns kraftana þraut og hann varð að gefast upp. Það er talið óhugsandi að| mennirnir hafi villst, þótt veður væri ofstopalegt, því að ekki var dimmt og þeir vel kunnugir, enda hefir Haraldur verið á réttri leið.

Gott skautasvell var á Tjörninni í gærkvöldi, enda notuðu margir góða veðrið til að renna sér á skautum.

Morgunblaðið segir frá fannkomu norðaustanlands 14.nóvember:

Undanfarnar vikur hefir mikli fannkoma verið í Þingeyjarsýslu, sérstaklega í uppsveitum og er það sumstaðar svo mikið að um hávetur minnast menn vart svo mikillar fannfergju. Dag eftir dag, viku eftir viku, hefir meira og minna kyngt niður af fönn — og austan krapaslettingur hefir bætt einni storkuskelinni ofan á aðra — án þess þó að komið hafi mannfæri — og er því ekki fært bæja á milli nema á skíðum. — Snjóbelti þetta er talið að liggja yfir Fnjóskadal, sunnan Dalsmynnis og austur yfir Útkinnarfjöll, og síðan norðaustur yfir miðjan Aðaldal og sunnanvert Reykjahverfi. Í sveitum er nær liggja Skjálfanda og Axarfirði kvað snjór vera mun minni, en storkan hefir gert þar sömu skil, svo að víðast hvar er jarðlaust. Í innsveitum Þingeyjarsýslu hefir fé verið gefið inni undanfarnar þrjár vikur, og spáir það ekki góðu, eftir jafn óþurrkasama heyskapartíð og var í sumar.

Morgunblaðið segir frá miklu illviðri í pistli 27.nóvember, mjög djúp lægð fór austur með norðurströndinni:

Aftaka hríðarveður gekk yfir Vesturland og Húnaflóa í fyrrinótt [26.] og olli töluverðum skemmdum víða. Mestar urðu skemmdirnar í Bolungarvík, á Blönduósi og á Sandi.

Ísafirði í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Aftaka brim var í Bolungarvík í nótt og fram undir hádegi í dag. Brimið braut fremsta hluta skjólgarðsins á öldubrjótnum. Einnig brotnuðu tveir ljósastaurar. Búist er við að meiri skemmdir hafi orðið á öldubrjótnum. Vélbáturinn Haukur brotnaði dálítið og einnig smábátur. Stórhríð var í nótt og fyrri hluta dags í dag. Arngr.

Blönduósi í gær. FÚ. Síðastliðna nótt gerði norðvestan stórbrim og hríðarveður við austanverðan Húnaflóa. Gekk sjór yfir bryggjuna á Blönduósi og vörupall, sem varnargarður hlífir þó fyrir brimi. Uppskipunarbátar og smærri bátar fluttust til og 2 smábátar ónýttust. Skemmdir urðu og á sumum hinna stærri báta, en þó ekki verulegar. Búið var að flytja þangað kjöt og gærur frá Magnúsi Stefánssyni kaupmanni, og átti að senda með Lagarfossi. Skolaði burtu allmiklu af gærum og 5 tunnum af kjöti. Einar Thorsteinsson, kaupmaður átti þar einnig kjöt, en því var bjargað. Við björgun bátanna varð einn maður, Ólafur Jónsson, á milli þeirra, er þeir hentust saman og hlaut úf nokkur meiðsl, en ekki hættuleg. Við bryggjuendann hefir brimið skolað burtu nokkru af veginum á 2—4 metra vegalengd, svo að ófært er bílum. Á Skagaströnd var álíka sjógangur. Bátar hentust hver á annan, en skemmdust lítið. Einn maður, Haraldur Nikulásson, rifbrotnaði við björgun bátanna.

Sandi í gær. FÚ. Síðastliðna nótt gerði á vestanverðu Snæfellsnesi storm og óvenju mikið brim í lendingarstöðum og tók út marga árabáta. Tveir bátar brotnuðu í spón. Var annar eign bræðranna Pjeturs og Gísla Guðbjartssona, en hina áttu bræðurnir Jóhannes og Kristvin Guðbrandssynir. Aðrir bátar brotnuðu meira og minna og hefðu flestir árabátar frá Sandi farist, ef menn hefðu ekki komið í tæka tíð á vettvang.

Vísir segir frá veðrinu í pistli 28.nóvember:

Þingeyri 27. nóv. FÚ. Aðfaranótt síðastliðins þriðjudags gerði á Vestfjörðum norðvestan hvassviðri með talsverðri fannkomu upp úr blíðviðri, sem hefir verið undanfarið. — Línuveiðarinn Fróði, sem lá á Þingeyrarhöfn slitnaði frá akkeri og bar skipið undan veðrinu inn eftir firðinum og rak það á land í Hvammi, sem er sveitaþorp fyrir innan Þingeyri og stóð skipið þar í gærmorgun á réttum kili í fjörunni. Grunur lék þegar á því að togarar hefðu rekist á skipið og keðjan þess vegna slitnað, enda sáust merki þess á skipinu og keðjunni að svo hefði verið. — Fór því hreppstjóri í gærkveldi út í togara, sem viðurkenndi að hafa verið samflota 4 öðrum togurum, er rak á Þingeyrarhöfn þessa nótt, þó viðurkenning fengist ekki fyrir því að skip hefðu orðið línuveiðarans vör. — Talið er að skipið sé óskemmt og að það muni bráðlega nást út.

Enn fréttir af sama veðri. Morgunblaðið 3.desember:

Fé flæðir. Aðfaranótt 25. nóv. flæddi um 50 fjár á Gröf á Rauðasandi. Seinast þegar fréttist höfðu 46 kindur fundist dauðar, reknar af sjó, og er það um helming fjárstofnsins á bænum. FÚ.

Desember var almennt hægviðrasamur, en þó gerði mjög eftirminnilegt mannskaðaveður um miðjan mánuðinn.

Síðumúli: Í desembermánuði hefir veðrátta verið óvanalega góð og þurrviðrasöm. Mannskaðaveður þ.14. varð ekki svo ég viti að neinu slysi eða tjóni, sem teljandi er hér, eða í grenndinni. Jörðin er snjólítil og hagar góðir fyrir hross og fé.

Kvígindisdalur: Að morgni þess 14. skall á norðan rok með allhörðu frosti og hríðarbyl og stóð það allan daginn og langt fram eftir nótt. Tíðarfar er talið hér með besta móti fyrir landbændur. Nokkuð stormasamt þó. 

Sandur: Tíðarfar fremur slæmt, snjókomur, rigningar, hlákublotar og frost á víxl. Setti niður mikinn snjó um mánaðamótin nóvember/desember, strax þegar dró frá sjó. Um og eftir miðjan mánuðinn setti og niður mikinn snjó um allar sveitir hér í grennd, einkum þó á útsveitum.

Raufarhöfn: Mánuðurinn snjóléttur og mátti heita alautt um áramót. Þó gjörði mikið veður með mikilli snjókomu og sjógangi um miðjan mánuðinn, urðu skemmdir af sjógangi, á Rifi braut fjárhúsin og drap og limlesti um 50 fjár - skemmdi einnig túnið svo gjöreyðilagt má heita. Aðrar skemmdir urðu ekki teljandi af þessu veðri hér.

Nefbjarnarstaðir: Kuldar ekki miklir en afar úrkomusamt, einkum síðustu viku mánaðarins. Tíð fremur óhagstæð.

Fagurhólsmýri: Oftast hagstætt og auð jörð.

Reykjanesviti: Óstöðugt og umhleypingasamt fram yfir miðjan mánuðinn. Norðanrokið þann 14. var eitt hið snöggasta áhlaup sem menn muna hér. Engir teljandi skaðar urðu þó hér í grennd. Seinni hluti mánaðarins var eintakt góðviðri, þó dálítið kalt með köflum. Jörð nokkuð svelluð og áfreði og þar af leiðandi frekar slæmt á jörð hér úti á nesinu.

Morgunblaðið segir af illri færð í Skagafirði 6.desember:

Hellulandi 5. des. FÚ. Um 5000 rjúpur er búið að leggja inn í verslanir í Sauðárkróki. Sífelld snjókoma og illviðri hafa verið hér undanfarið. Óvenjumikill snjór er um allt héraðið, og mjólkurflutningar til samlagsins eru að stöðvast. Hagabeit fyrir hesta er mjög slæm og sauðfé er allstaðar komið á gjöf.

Þann 14. gerði óvenjulegt og óvænt illviðri upp úr hægu veðri. Kannski má ráða í hvað gerðist. 

Slide5

Kortið er úr safni bresku veðurstofunnar og sýnir sjávarmálsþrýsting og veður kringum norðanvert Atlantshaf að morgni föstudagsins 13.desember. Á Íslandi var þá hæg suðvestlæg átt. Lægðardrag á Grænlandshafi varð að smálægð sem Veðurstofan fylgist með og reiknaði með að færi austur fyrir. Þá myndi hæðin vestur af Grænlandi taka við og vindur snúast til norðurs. Ekki var búist við illviðri. Engar háloftaathuganir að hafa. Þær hefðu hins vegar sýnt ískyggilega stöðu, hlýja hæð við Bretland, en hæðin vestur undan náði ekki upp í háloftin - þar var nokkuð skarpt lægðardrag, barmafullt af köldu lofti. Þokaðist það austur um Grænland. Lægðin við Nýfundnaland var kyrrstæð, en austan við hana var ákveðin sunnanátt og þar var dálítil lægð á leið til norðausturs. Þessi lægð stefndi á Suðausturland og var þar skammt undan sólarhring síðar, að morgni laugardagsins 14.desember. Hún mætti þar háloftalægðardraginu kalda. 

Slide6

Kort Veðurstofunnar að morgni laugardags sýnir lægðina skammt undan Austurlandi. Vestan hennar er einskonar svikalogn, aðallega hæg norðanátt, en loftvog hríðfellur. Það nánast órækt merki um mikla dýpkun þegar loftþrýstingur fellur mikið vestan við lægðir - sem þó ekki stefna í þá átt. Nyrst á Vestfjörðum er skollin á norðanstormur sem síðan breiddist hratt suður yfir landið vestanvert, eins og fram kemur í lýsingum blaðanna hér að neðan. 

Slide7

Þrýstiriti af Veðurstofunni (í Landsímahúsinu) dagana 13. til 16. desember. Loftvog féll jafnt og þétt þann 13. Snemma morguns þann 14. virtist draga úr fallinu um tíma - lægðin að vestan var þá að fara hjá. Síðan hélt þrýstingur áfram að falla - vegna háloftalægðardragsins og féll til kl.14. Þá skall norðanveðrið á. Þrýstiritinn verður loðinn, stormurinn leikur um Landsímahúsið. Eftir miðnætti koma fram stórgerðar þrýstisveiflur tengdar fjallabylgjubroti (flotbylgjum) yfir Esjunni og þar í grennd. Alloft má sjá þetta á þrýstiritum í Reykjavík, sérstaklega í mjög slæmum norðanveðrum. Ekki er ólíklegt að talsvert tjón hefði orðið austan Elliðaáa, á Ártúnshöfða og sums staðar í Grafarvogi í þessu veðri - ef núverandi byggð hefði verið til staðar. 

Slide8

Hér giskar bandaríska endurgreiningin á hæð 500 hPa-flatarins að morgni 14.desember. Þá var lægðin við Suðausturland (Íslandskortið að ofan). Háloftalægðardragið sneri síðan upp á sig og myndaði sérstaka háloftalægð. 

Slide9

Endurgreiningin nær lægðinni furðuvel að því er virðist. Síðdegis þann 14.er kröpp lægð við Austfirði. Vindur er ekki mjög hvass nærri lægðarmiðjunni (rétt), en vestar eru jafnhæðarlínur gríðarþéttar og nokkuð nærri lagi. Veðrið gekk síðan fremur hratt niður og næstu viku var raunar óvenjulegt hægviðri. Í Reykjavík var stafalogn í flestum veðurathugunum dögum saman. 

Lægðir af þessu tagi voru nær óviðráðanlegar fyrr á tíð og eru enn erfiðar. Trúlega hefðu tölvuspár nútímans náð þessu veðri. Ættingja á það fjölmarga og illkynjaða. 

Í veðrinu fórust 25 eða 26 menn og þrjú hús brunnu. Fé fórst í hundraða tali og stórkostlegar skemmdir urðu á mannvirkjum (orðalag í fyrirsögn í Alþýðublaðinu 17.desember).

Vísir segir frá 15.desember

Eftir nónbil [kl.15] í gær skall á norðanhríð og stórviðri um allt Vesturland og Suðvesturland og mikinn hluta Norðanlands. Vindhraði var víðast 10 stig og var mestur í Reykjavík, 11 stig. Talsverðar skemmdir munu hafa orðið hér í bænum á húsum og girðingum og símalínum. Bárust símaeftirlitinu fjölda margar tilkynningar um bilanir á ofanjarðarlínum. Nokkur brögð munu hafa verið að því um tíma, að eigi náðist samband við miðstöð, þar sem jarðsímasamband er. Ljóslaust var í bænum um stund tví- eða þrívegis. Reykháfar fuku og sumstaðar af húsum hér í bænum. Vísir átti tal við Guðmund Hlíðdal póst- og símamálastjóra í gærkveldi og spurði hann hvort um miklar bilanir væri að ræða á símalínum. Kvað hann engar fregnir hafa borist enn um stórkostlegar skemmdir, en víða hefði símaþræðir flækst saman. Allvíðast væri þó samband. Hætt er þó við að fleiri bilanir hafi orðið, en kunnugt er um enn.

Morgunblaðið segir einnig frá 15.desember og líkir við Halaveðrið, en veðrið minnir þó frekar á desemberillviðrið mikla sama ár (1925):

Aftaka norðvestanveður gerði á Vestur- og Norðurlandi í gærdag. Skali ofveður þetta mjög snögglega á. Hafa menn líkt þessu veðri við mannskaðaveðrið mikla í febrúar 1925, þegar togararnir fórust á Halanum. Óttast er að mannskaðar hafi hlotist af veðrinu. Einna mestur var veðurhamurinn hér í Reykjavík og var veðurhæðin um og yfir 11 vindstig um tíma.  Stormurinn mun ekki hafa náð Austurlandi fyrr en í nótt. Hér í bænum truflaðist umferð á götunum og á þjóðvegunum hér nærlendis. Þó var umferðarsamband við Hafnarfjörð fram eftir kvöldi. Rafmagnsljós slokknuðu hér í bænum og olli því samsláttur á leiðslum, einnig biluðu ýmsar símalínur þær, sem eru ofanjarðar. Skip, sem lágu hér í höfninni komust ekki út úr höfninni. Vélbáturinn Kjartan Ólafsson frá Akranesi fór í róður í gærmorgun og var ekki kominn fram í gærkvöldi. Ekki mun þó ástæða til að óttast um hann að svo stöddu, því verið getur að hann hafi náð landi á Suðurnesjum, en þangað var ekkert símasamband í gær. Nokkra báta sleit upp frá festum hér í höfninni í gær. Vatnsbáturinn og tollbáturinn slitnuðu frá festum, en náðust áður en þeir skemmdust. Vélbátana Mars og Harald rak upp. Lenti Mars í krikanum milli steinbryggjunnar og Zimsensbryggju og stendur hann þar á réttum kili. Hvorugan bátinn sakaði að mun. Ekki var mannstætt hér á bryggjunum síðari hluta dags í gær. Brúarfoss átti að fara áleiðis til útlanda kl. 3 í gær, en skipið komst ekki út úr höfninni vegna veðurs. Tryggvi gamli var albúinn á veiðar. En hann komst ekki af stað og andæfði hér á ytri höfninni í gær. Ekki var kunnugt um neinar frekari skemmdir hér við höfnina í gærkvöldi.

Einn vörubíll, sem var með farangur verkamann úr atvinnubótavinnunni í Flóanum tepptist á Hellisheiði í gærdag. Í bílnum voru tveir menn. Bíllinn var ókominn af fjallinu þegar seinast fréttist í gærkvöldi. Verkamennirnir lögðu af stað á fjallið kl.um 3 í gærdag. Reyndist vegurinn ófær og urðu þeir að snúa aftur og komu þeir að Hveragerði kl. tæplega 7. Tveir bílar fóru að Ölvesá en þrír að Hveragerði.

Litlum léttbáti, sem í voru tveir menn, hvolfdi á Vestmannaeyjahöfn í gærdag um 6 leytið. Annar maðurinn drukknaði, en hinum var bjargað. Menn á bátnum voru Jón Einarsson og Guðmundur Guðmundsson, formaður á vélbátnum „Loka“. Voru þeir um borð í „Loka“ þegar óveðrið skall á. Ætluðu þeir síðan í land á smákænu, en á leiðinni til lands hvolfdi henni. Gat Jón bjargað sér á sundi og náði hann í akkerisfestar á báti. Hékk hann þar, þar til honum var bjargað. Guðmundur drukknaði. Líkið var ófundið í gærkvöldi, þegar blaðið átti tal við Vestmannaeyjar. Ofviðrið skall á í Eyjum mjög snögglega laust eftir miðjan dag. Aðeins einn bátur var á sjó og náði hann landi.

Óttast er um afdrif tveggja opinna vélbáta, sem reru í fyrrinótt frá Sauðárkróki. Reru þaðan 4 smábátar í fyrrinótt. Einn þeirra kom að áður en ofveðrið skall á. Annar komst við illan leik til hafnar, og varð að ryðja aflanum fyrir borð til þess að hann næði landi. Tveir bátar komu ekki að í gær og óttast menn um afdrif þeirra. Voru það bátarnir „Alda“ og „Njörður“. Annar með þriggja manna, en hinn með fjögra manna áhöfn. Slysavarnafélag Íslands lét lýsa eftir bátunum í útvarpinu og bað skip, sem kynnu að vera stödd á Skagafirði, að svipast eftir þeim. En ólíklegt er, að nokkur skip hafi komist til að leita, þar sem veðurhamurinn var svo mikill, að hver mun hafa haft nóg um að bjarga sér. Menn á Sauðárkróki telja ekki ólíklegt að bátarnir hafi komist undir Málmey eða bjargast á annan hátt, því formenn bátanna eru þaulkunnugir og vanir sjómenn.

Ísafirði í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Aftaka norðanstormur var hér í dag. Veðrið braut, það sem eftir var af skjólgarði öldubrjótsins í Bolungarvík, en hluti af honum brotnaði í ofveðri á dögunum. Ekki er enn kunnugt um frekari skemmdir af völdum veðursins. Fjórir opnir bátar reru héðan til fiskjar í morgun og náðu þeir allir landi aftur, en einn þeirra brotnaði í spón. Eigandi bátsins var Ásgeir Þórarinsson. Einnig brotnuðu tveir aðrir smábátar nokkuð. Arngr.

Siglufjörður ljóslaus. Siglufirði, laugardag. Þrír bátar voru á sjó héðan, þegar veðrið skall á, en komust allir heilu og höldnu. Sumir urðu þó að yfirgefa línurnar. Geysimikill sjávargangur var hér um háflæðina síðdegis í dag, en teljandi tjón varð ekki. Menn óttast þó um meira flóð með næturflóðinu og hætt við, að það geri hér einhvern usla. Hér er ljóslaus bær, og hefir verið myrkur í 2—3 stundir, vegna bilunar á leiðslukerfinu. Ekki viðlit, að gera við bilanirnar meðan veðrið helst. Siglufirði, í gær. Sú fregn kemur frá Ólafsfirði, að trillubát vanti þaðan og voru þrír menn á bátnum. Einasta vonin til þess að þessi bátur hafi náð landi, er sú, að hann hafi komist til Héðinsfjarðar, en þangað er enginn sími, svo fregn þaðan fæst ekki fyr en veðrinu slotar. Menn hér eru mjög hræddir um það, að þessi bátur hafi farist.

Morgunblaðið segir enn frá 17.desember - þar á meðal eru athyglisverðar upplýsingar frá Veðurstofunni:

Í ofviðrinu á laugardaginn búast menn við að 26 manns hafi farist, 7 bátar með 20 manna áhöfn, einn á Eyjafirði, tveir á Skagafirði, þrír á Breiðafirði og Akranesbáturinn Kjartan Ólafsson, sem talið er vonlítið að komi fram. Auk þess drukkaði einn maður á Vestmannaeyjahöfn, háseta tók út af togaranum Sviða, tveir menn urðu úti í Skagafirði, einn á Svalbarðsströnd og maður í Grænumýrartungu í Hrútafirði varð bráðkvaddur við að bjarga fé í hús. Norðanveðrið á laugardaginn var, náði yfir allan vesturhluta landsins, til Vestmannaeyja að sunnan og Eyjafjarðar að norðan. Veðrið stóð yfir frá nóni eða miðaftan á laugardag og fram til sunnudagsmorguns. Veðurhæð var hér í Reykjavík orðin snemma á laugardagskvöld 11 stig. Sami vindhraði eða meiri hefir verið um mestallt eða alt þetta svæði.

Blaðið hefur átt tal við Veðurstofuna og fengið veðurlýsingu á þessa leið: Eftir að hér hafði verið hægviðri í nokkra daga um land allt, bar á því á föstudag að veðurbreyting væri í vændum. Kom þá mjög grunn lægð upp að Suðvesturlandinu, er var á austurleið. Var sýnilegt á föstudagskvöld að vindur myndi snúast til norðurs. En lægðin var svo grunn að vegna hennar einnar var ekki hægt að búast við neinu stórviðri. Á laugardagskvöld var veður allhvasst af norðvestri á Suðvesturlandi, en norður á Hesteyri t.d. var komið rok af norðri um morguninn. Á Suðvesturlandi skall veðrið yfir kl.4 e.h. og náði veðurofsinn hámarki sínum kl.6-7 e.h. Að vindhraðinn varð svo mikill kom til af því að önnur lægð sem hafði áhrif á veðrið, hafði borist hratt suður yfir landið, án þess að hennar yrði var, fyrri en hún var skollin yfir. Á öllu ofviðrissvæðinu helst veðurhæðin nokkurn veginn slitalaust til sunnudagsmorguns.

Sauðárkróki í gær. Fullvíst er að báðir bátarnir Njörður" og „Aldan“ hafi farist í óveðrinu um helgina. Leitarmenn, sem fóru héðan frá Sauðárkróki, fundu lík mannanna fjögurra sem voru á „Öldunni“ og reka úr bátnum undan Óslandshólum og er álitið að mennirnir hafi ætlað að Kolkuósi. ... Á sunnudaginn leituðu menn meðfram firðinum og fundu þá palla og veiðarfæri úr Nirði rekið á Borgarsandi. Á þeim bát voru þrír menn, allir ungir og ókvæntir.

Tveir menn sem voru á ferð hér í Skagafirði þegar veðrið skall á hafa ekki komið fram. Þykja allar líkur benda til þess að þeir hafi orðið úti. Helgi bóndi Gunnarsson frá Fagranesi fór héðan frá Sauðárkróki skömmu áður en veðrið skall á. Átti hann stutt heim, um þrjár bæjarleiðir, en hann hefir ekki komið fram og bendir allt til þess að hann hafi orðið úti. Helgi var hér í fylgd með fleiri mönnum, en þeir vildu ekki leggja af stað með honum. Skildi hann hest sinn eftir hjá þeim á Sauðárkróki. ... Þá vantar mann frá Hvammkoti, Hannes Benediktsson. Lagði hann af stað frá Heiði í Gönguskörðum og ætlaði yfir Laxárdalsheiði, tveim tímum áður en versta hríðin dundi yfir. Næsti áfangi hans var Skíðastaðir, en þangað var hann ókominn í gær og hafði ekkert til hans spurst. Tveir menn komu að Heiði skömmu eftir að Hannes lagði á Laxárdalsheiði, en þeir urðu þar eftir. [Það kom svo fram í Morgunblaðinu 21. að Hannes hefði komist af]. Þá er frá því sagt hér á Sauðárkróki að Jóhann bóndi á Úlfstöðum hafi verið úti á sunnudagsnótt og legið í fönn. Er hann kominn fram og líður vel. Víða mun fé hafa legið úti í hríðinni, en ekki hafa enn borist fréttir um hvort fjárskaðar hafa orðið miklir.

Stykkishólmi, mánudag [16.]. Kunnugt er orðið um afdrif bátanna tveggja sem vantaði frá Ytra-Felli á Fellsströnd og Elliðaey. Hafa þeir báðir farist. Bátinn frá Ytra-Felli fann vélbáturinn Baldur frá Stykkishólmi á hvolfi innan við Röstina í Hvammsfirði, lá báturinn þar við akkeri. Er talið að bátinn i hafi rekið þar til akkerið tók niðri. Mennirnir sem voru á bátnum voru: Valgeir bóndi á Ytra-Felli, maður um sextugt. Lætur hann eftir sig ekkju, sem var ein heima, er slysið vildi til. Með honum voru tveir uppeldissynir hans: Ólafur Jónsson, unglingspiltur, og Guðmundur Magnússon frá Litla-Múla í Saurbæ, 28 ára gamall, ókvæntur. Ætluðu þeir að fara út í Dýpri-Seley til að sækja hrúta og er þangað um 25 mínútna róður í sæmilegu veðri. Vélarhús Elliðaeyjarbátsins fannst í Bjarnarhöfn í gær. Einnig fundust þar innviðir bátsins. Í eyjum þar undan fundust veiðarfæri lóðabelgir og tvö bjóð. Búast menn við því að báturinn hafi sokkið nærri strax eftir að óveðrið skall á. ... Fé lá víða úti hjá mönnum hér í nærsveitum og munu nokkrir fjárskaðar hafa orðið. ... Á föstudag fór bátur frá Arnórsstöðum á Barðaströnd að Hallsteinsnesi. Á laugardaginn sást til bátsins framundan Svínanesi og var hann þá á bakaleið. Tveir menn voru í bátnum, en ekki er kunnugt um nöfn þeirra. Skeyti um þetta barst Slysavarnafélagi Íslands í gær frá Brjánslæk. Bað Slysavarnafélagið menn í Flatey á Breiðafirði að manna báta til að leita að hinum horfna báti.

Akureyri, mánudag. Um miðaftansleytið á sunnudag [15.] fundu menn frá Miðvík á Látraströnd trillubát rekinn á svonefndu Knarrarnesi. Í bátnum var lík af öldruðum manni. Líkið var lagt til í bátnum er það fannst. Stórt sár var á höfði þess. Þeir, sem fundu bátinn, þekktu hvorki bát né lík. En seinna kom það í ljós, að báturinn var frá Látrum, en maðurinn, sem fannst andvana í bátnum, Steingrímur Hallgrímsson á Látrum. En þegar vitað var að báturinn var frá Látrum, var sent þangað út eftir. Kom þá í ljós, að tveir feðgar höfðu farið í bát þessum frá Látrum inn að Grímsnesi, þeir Steingrímur Hallgrímsson og sonur hans, Hallur. En þá var eftir að vita hver afdrif Halls hafa orðið. Var ekki vitað um það þegar síðast fréttist. En menn líta svo á að Hallur hafi komist lifandi til lands í Knarrarnesi. Hafa menn það til marks að fangalínan lá út úr bátnum. Giska menn á að Hallur hafi villst er á land kom í hríðinni og annað hvort orðið innkulsa áður en hann náði byggð eða hann hafi hrapað fyrir sjávarhamra.

Akureyri, sunnudag. Fárviðrið skall hér á um kl.3 síðdegis á laugardag [14]. Rétt áður en óveðrið skall á fóru Svalbarðsstrendingar á bíl áleiðis út á Svalbarðsströnd. Í bílnum voru Áki Kristjánsson bílstjóri, Eiður Árnason frá Svalbarðseyri og Þorsteinn Björnsson frá Fagrabæ. Bíllinn komst ekki lengra en að Ytri-Varðgjá. Því að þá var fannkoma orðin svo mikil. Bifreiðarstjórinn settist að á Ytri-Varðgjá, en þeir Eiður og Þorsteinn héldu áfram gangandi út ströndina, áleiðis til Svalbarðseyrar. Þá var kl. 6 1/2. Kl.1 um nóttina kom Þorsteinn að Grund, sem er skammt frá Svalbarðseyri. Hafði Eiður gefist upp skammt þaðan, þrotinn að kröftum, og var dáinn áður en Þorsteinn skildi við hann. Kn.

Nánar um slysið á Svalbarðsströnd. Þegar þeir félagar fóru frá Varðgjá, komust þeir brátt á Svalbarðsstrandarveginn. Reyndu þeir síðan að fylgja veginum, og tókst það lengi vel. Segir ekkert markvert af ferðum þeirra meðan þeir gátu ratað eftir veginum, nema hvað gekk ferðin seint, vegna þess hve hríðin var mikil og þeir höfðu veðrið í fangið. En er leið á kvöldið fór Eiður heitinn að dragast aftur úr, og kvartaði um þreytu og kulda fyrir brjósti og í herðum. Nokkru seinna misstu þeir af veginum. Nú fór Eiður að kvarta yfir að hann sæi eldglæringar og fleiri ofsjónir. Gafst hann þá alveg upp á göngunni. Þorsteinn reyndi nú að bera hann um stund. En nokkru síðar fékk Eiður krampakast og var brátt örendur. Þorsteinn lagði hann til, þar sem þeir voru komnir, og freistaði síðan að ná til bæja. Og skömmu síðar kom hann að Grund. Þaðan fóru menn með honum út í hríðina. Fundu þeir brátt lík Eiðs, enda var hann ekki nema um 200 metra frá bænum.

Ólafsfirði, sunnudag. Báturinn, sem menn voru farnir að óttast mjög um héðan er nú kominn fram og er áhöfn hans, þrír menn, komnir heilu og höldnu heim til sín. Náði báturinn Héðinsfirði í nótt og tókst að lenda þar. Mennirnir komu síðan gangandi hingað frá Héðinsfirði.

Akureyri, sunnudag. Björn Þórðarson í Grœnumýrartungu, bróðir bóndans þar, Gunnars, varð bráðkvaddur hjá fjárhúsunum, eftir að búið var að láta féð inn. Hafði hann ásamt fleiri heimilismönnum verið að smala fé heim undan veðrinu. Þegar menn voru búnir að láta féð inn hné hann niður og var þegar örendur. Björn heitinn var maður 56 ára. Hann var brjóstveill og mun ekki hafa þolað áreynsluna í veðrinu. Gamlir menn í Hrútafirði segja að annað eins fárviðri hafi ekki komið þar um slóðir s.l. 50 ár. Eitthvað hefir orðið úti af fé í Hrútafirðinum. Kn.

Akranesbáturinn Kjartan Ólafsson, sem sagt var frá í sunnudagsblaðinu, var ekki kominn fram þegar seinast fréttist í gærkvöldi. Á sunnudaginn og í gær voru bátar beðnir að skyggnast eftir honum, en ekki urðu þeir hans varir. Í gær fóru togararnir Otur og Tryggvi gamli að leita bátsins, einnig varðbáturinn Vífill og tveir aðrir bátar. Togararnir og varðbáturinn leita út og suður af Reykjanesi. Sendi skipstjórinn á Tryggva gamla Slysavarnafélaginu skeyti í gærkvöldi og sagði frá hvernig leitinni yrði hagað. Bátur þessi var stór og traustur og gera menn sér vonir um að hann hafi haft af veðrið, en hafi aðeins hrakið af leið. Á Kjartani Ólafssyni voru 4 menn.

Togarinn Sviði frá Hafnarfirði kom um miðnætti á sunnudagsnótt til Aðalvíkur. Hafði skipið verið að veiðum út af Vestfjörðum, og hleypti það undan veðrinu inn á Aðalvík. Á leiðinni inn gekk sjór yfir skipið og tók út einn skipverjann, Magnús Guðmundsson. Allar tilraunir til að ná manninum reyndust árangurslausar. Um nánari atvik, hvernig slysið vildi til, hefir blaðið ekki frétt. Magnús heitinn var maður um þrítugt. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn. Heimili hans var á Reykjavíkurveg 29 í Hafnarfirði. Sviði lá af sér veðrið á Aðalvík.

Fjárskaði í Þingeyjarsýslu. Húsavík, sunnudag. Í stórhríðinni á laugardaginn tapaðist fé á tveimur bæjum hér í sveitunum. Á Brún í Reykjadal töpuðust 28 kindur og um 20 á Laxamýri. Samkvæmt símtali, sem fréttaritari Morgunblaðsins átti við Breiðumýri, voru fundnar 16 kindur frá Brún og að sögn 4 kindur frá Laxamýri. Voru þær allar fenntar. Tvo uppskipunarbáta rak á land í sjóganginum sem hér var á sunnudagsnótt. Var hér ofsaveður af norðri með mikilli snjókomu. Annar uppskipunarbáturinn brotnaði mikið. Sjórinn gekk langt á land upp og braut hlið úr fiskgeymsluhúsi, sem stendur við höfnina. Húsið er eign hafnarsjóðs. Egill.

Bátur sekkur í Keflavík. Keflavík, sunnudag. Þegar óveðrið skall á var hér þýskur. togari að taka síld úr vélbátum. Ólag réð á einn bátinn, Geir goða, og tók út 50—60 tunnur af síld. Maður féll útbyrðis af Geir goða, en varð bjargað. Þá missti báturinn 5 net á leiðinni til lands. Einn bátur, „Sóley“, sökk á höfninni. Rétt fyrir myrkur tóku menn eftir því að „Sóley“ var slitnuð upp og stefndi á annan bát, „Örninn“. En allt í einu mun hafa komið leki að „Sóley“ og sökk hún skyndilega. „Sóley“ var um 20 tonn að stærð, vátryggð hjá Samábyrgðinni fyrir 25.000 kr. Eigendur bátsins voru Guðmundur og Gunnar Sigurðssynir.

Í Sandgerði slitnaði vélbáturinn Björgvin upp frá festum. Rak hann á sker, en náðist út aftur með flóðinu, lítið skemmdur.

Í Ölfusinu var veðurhamurinn mikill. Eins og getið var um í sunnudagsblaðinu tepptust verkamenn fyrir austan fjall. Komust þeir á sunnudagsmorgun hingað til bæjarins. Mennirnir tveir, sem voru á vörubílnum, skildu bílinn eftir og gengu niður í Skíðaskála. Þangað kom bíll frá Reykjavík og flutti þá í bæinn. Nokkrir verkamenn úr Soginu hættu við að fara til bæjarins um helgina og héldu aftur að Ljósafossi. Á Reykjum fauk þak af gamalli hlöðu og lentu járnplöturnar á vermihúsunum og brutu þau mikið. Einnig lentu járnplötur á vermihúsum Ingimars Sigurðssonar í Fagrahvammi. Á Kotströnd fauk einnig þak af gamalli hlöðu. Á Skíðaskálanum urðu nokkrar skemmdir. Þar fauk þakið af forskyggninu fyrir framan aðaldyrnar og nokkur hluti'af þakinu á „verandanum".

Morgunblaðið átti tal við Guðmund Hlíðdal póst- og símamálastjóra í gær og spurði hann hvort mikil brögð væri að símabilunum. Kvað hann talsvert hafa færst úr lagi í ofveðrinu, en flest væri nú komið í lag aftur. Sambandslaust var við Suðurnes á laugardaginn og fram á sunnudag. Brotnuðu staurar fyrir sunnan Hafnarfjörð. Mestar skemmdir urðu skammt fyrir austan Ölfusá. Brotnuðu þar 9 staurar, en sú bilun komst í lag í gærmorgun. Á stöku stað brotnuðu staurar, einn og einn, en það olli engri verulegri töf á símasambandinu. Nokkur brögð voru og að því að línur slægjust saman eða flæktust saman og truflaði það nokkuð sambandið. Ekkert samband var í gær frá Djúpavogi að Seljalandi, en búist er við að sú bilun komist fljótt í lag aftur.

Vísir 17.desember:

Hvammstanga 15. des. FÚ. Fé fennir í Húnavatnssýslum. Fréttaritari útvarpsins á Hvammstanga símar: Á laugardag um kl.14 brast á norðan stórhríð hér í sýslunni. Veður var gott um morguninn og var fénaður víðast hvar látinn á beit. Hríðin brast svo snögglega á og rok og fannkoma var svo mikil, að víðast náðist fé ekki í hús nema að litlu leyti og á nokkurum bæjum engin kind. Með morgninum fór veður batnandi og birti alveg er á daginn leið. Leituðu menn þá fjárins og fundu sumt en margt er enn ófundið. — Margt fé er fundist hefir er illa útleikið. Enn er ekki hægt að segja hve mikið hefir farist af fénaði. — Ekki er kunnugt um. aðra skaða í héraðinu. Víða urðu fjárskaðar af völdum hríðarinnar. Á einum bæ, Vesturhópshólum lá allt fé úti og hafði hrakið í Hólaá. Fundust 15 kindur dauðar í ánni, en 10 vantar enn. Féð í Tungukoti og Hlíð lá úti og voru fundnar 19 kindur af 105 frá Tungukoti í gærkvöldi. Í dag hefir verið leitað frá báðum bæjum og vantar nú 50 kindur frá Tungukoti. Tíu fundust meira og minna limlestar og varð að lóga þeim. Í Hlíð vantar ennþá 40 kindur, en þaðan fundust 12 kindur dauðar í dag. — Ekki hafa borist fregnir af frekari fjárskaða í héraðinu.

Morgunblaðið segir enn frá veðrinu 18.desember:

Ísafirði í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Bær Jóseps Hermannssonar á Atlastöðum í Fljótum brann til kaldra kola, síðastliðinn laugardag. Allir innanstokksmunir brunnu inni og voru þeir óvátryggðir. Með naumindum var bjargað öðrum bæjarhúsum og bæ Júlíusar Geirmundssonar, sambýlismanns Jóseps. Í norðangarðinum fauk þak af húsi Friðriks Finnbogasonar í Látrum. Arngr.

Húsavík í gær. Einkaskeyti til Morgunblaðsins. Strandferðaskipið Esja kom hingað í gærmorgun, hafði skipið tapað legufærum sínum í óveðrinu á laugardaginn. Esja fékk hér legugögn hjá hafnarsjóði og eru það legufæri þau, sem fylgdu steinnökkvanum, sem keyptur var til bryggjugerðarinnar.

Morgunblaðið segir fréttir frá Kópaskeri 20.desember:

Kópaskeri í gær. FÚ. 1 stórviðrinu aðfaranótt 15. þ.m. gekk sjór yfir túnið á Rifi á Melrakkasléttu og bar yfir það mikið af möl og grjóti. Braut brimið til grunna annan hliðarvegginn í fjárborg og féll þá niður þakið yfir margt fé og fórust þar 30 kindur, en margt fleira fé er meira og minna meitt og sennilega er ekki nema sumu af því lífvænt. Sömu nótt tók brimið geymsluskúr í Skinnalóni á Melrakkasléttu.

Milli jóla og nýárs versnaði veður aftur. Morgunblaðið segir frá 28.desember:

Siglufirði í gær. FÚ. Undanfarin þrjú dægur hefir geisað ofsastormur á Siglufirði, en þó dregið úr veðrinu annað veifið. Skemmdir hafa engar orðið, nema nokkrar bilanir á síma og ljósalínum, og í morgun fauk reykháfur af íbúðarhúsinu á Staðarhóli. Snjór hefir talsvert minnkað.

Þann 30. varð mannskæður bruni í Keflavík, þótt hann tengist ekki veðri látum við hans getið. Morgunblaðið 31.desember:

Samkomuhús U.M.F. Keflavíkur brann til kaldra kola í gærkvöldi 180 börn á aldrinum 6—14 ára og 20 fullorðnir voru á jólatrésskemmtun í samkomuhúsinu þegar eldurinn kviknaði. Sex menn eru taldir hafa brunnið inni og 20 eru hættulega særðir.

Morgunblaðið gerir upp árið 1935 í pistli 3.janúar 1936:

Brot úr grein um sjávarútveginn 1935: Þegar við lítum til baka yfir árið, sem nú er að líða, og tölum um veðrið, er ekki hægt annað að segja, en að veðráttan hafi verið frekar erfið og óhagstæð að undanteknum haustmánuðunum, en síðustu mánuðina hefir veðrátta yfirleitt verið mjög hagstæð, að undanteknu ofviðrinu, sem gekk yfir mestallt landið þann 14. des. og olli miklu tjóni og mannsköðum.

Lýkur hér upprifjun hungurdiska á veðri og veðurfari ársins 1935. Að vanda er talnasúpa - meðaltöl, úrkomumagn og fleira í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband