Fyrstu haustlægðirnar?

Svo virðist sem meginstraumar í háloftunum undurbúi nú syrpu lægðardraga úr norðvestri. Á yngri árum fannst ritstjóra hungurdiska það skemmtilegt veðurlag, jafnvel líka fyrstu árin sem hann fékkst við spár. Ástæður kannski þær helstar að lægðardrög sem koma yfir Grænland voru mjög erfið viðfangs - aldrei að vita hvað þau gerðu. Á síðari árum lifir einhver virðing gagnvart þessum villidýrum veðurlagsins í huga ritstjórans - en honum finnst þau sant best í minningunni. Það verður þó að horfast í augu við hin mögulegu leiðindi.

Í dag (föstudaginn 6.október) er mikil sunnanátt ríkjandi vestan Grænlands og þar rignir (og snjóar). Kuldaskil nálgast þar úr vestri og þeim fylgir mikil úrkoma. 

w-blogg061023c

Við sjáum hér klippur úr Grænlandsspá igb-líkansins sem reynir að reikna uppsafnaða úrkomu frá því á hádegi í dag fram á mánudagsmorgun á Grænlandi. Þar sjást tölur hærri en 200 mm, bæði á svæði ekki fjarri Nuuk - kannski er það ekki svo óskaplega óvenjulegt, en líka við norðvestur-Grænland - hlýtur að vera harla óvenjulegt þar um slóðir. Veldur umtalsverðri skriðu- og snjóflóðahættu - nema hvað að þarna er varla neitt sem getur skaddast (er þá einhver hætta?).

Lægðin sem þessu veldur grynnist og fer norður undir norðurskaut. Hún er hins vegar hluti af háloftakerfi sem heldur áfram til austurs - yfir jökulinn - eins og ekkert sé.

w-blogg061023a

Kortið sýnir stöðuna um hádegi á mánudag 9.október. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykkt sýnd með lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Lægðardragið er við austurströnd Grænlands á hraðri austurleið. Lægð myndast á Grænlandshafi, dýpkar talsvert og fer austur um Ísland á aðfaranótt þriðjudags - kannski með haugarigningu um landið vestanvert. Eins og spár eru nú mun hún valda snörpu norðankasti á þriðjudaginn. Við látum liggja milli hluta hversu hvasst verður. Það kólnar með norðanáttinni - og snjóar til fjalla. 

Þetta stendur þó ekki lengi því næsta lægðardrag kemur strax á eftir.

w-blogg061023b

Um það eru spár alls ekki sammála. hádegisruna reiknimiðstöðvarinnar gerir talvert meira úr heldur en sú næsta á undan - og sker sig nokkuð úr safnspánum 50 sem henni fylgja. Segir að norðanveðrið - á fimmtudag og föstudag, verði bæði hvasst og mjög kalt. Við getum ekkert gert nema fylgjast vel með þróuninni. En kannski eru þetta fyrstu alvöruhaustlægðirnar tvær sem hér eru á ferð - og það styttist víða í snjóinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband