Veðurstofusumarið 2023 - hiti

Nú er veðurstofusumrinu nærri lokið. Það tekur yfir mánuðina júní til september. Eins og venjulega lítum við nú á meðalhita þess á landsvísu í samanburði við fyrri ár. Sérlega hlýtt hefur verið í heiminum síðustu mánuðina, hvert metið rekið annað. Hér á landi er þó flest í hófi - að undanteknum methlýjum júnímánuði um landið norðaustanvert. Svo er að heyra að almannarómur sé fremur ánægður með tíðina.

w-blogg300923 

Meðalhiti sumarsins reiknast 9,5 stig. Það er +0,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Á landsvísu var sumarið 2014 það hlýjasta á þessari öld. Fáein enn hlýrri sumur komu á fyrra hlýskeiði, en munurinn samt sá að þá virðist breytileiki frá ári til árs hafa verið öllu meiri en að undanförnu. Við sjáum á myndinni að þá voru köldu sumrin fleiri en hefur verið upp á síðkastið. Annars verður að telja harla ólíklegt að köld sumur séu alveg úr sögunni - við bíðum bara róleg eftir því næsta.

Á kalda tímanum, sem að sumarlagi byrjaði reyndar fyrir 1965, var hiti almennt svipaður og var á árunum 1890 fram til 1920 (þá komu reyndar fáein enn kaldari sumur í röð). Eitt sumar, 1880, sker sig mjög úr á þeim tíma 19. aldar sem við höfum áreiðanlegar heimildir um. Það var sérlega hlýtt - en sagði ekki fyrir um hinn ofurkalda vetur sem í hönd fór, 1880 til 1881. Með sumrinu 1882 var töldu menn að fullhefnt væri fyrir blíðuna 1880.

Fyrri hluti myndarinnar, fyrir 1874, byggir á mælingum mjög fárra veðurstöðva og óstöðluðum aðstæðum sem við vitum lítið um. Við tökum því hóflegt mark á, en getum þó séð greinilegan mun ára og jafnvel lengri tímabila.

Fyrsta sumar núverandi hlýskeiðs virðist hafa verið 1996. Það var ekki síst sérlega hlýr september sem kom því í það sæti. Næstu tvö sumur á eftir, 1997 og 1998, féllu nær hinu venjulega ástandi kuldaskeiðsins, en síðan hlýnaði verulega, sérstaklega eftir 2001.

Veðurstofuhaustið er tveir mánuðir, október og nóvember. Þá tekur fjögurra mánaða vetur við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 59
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 2506
  • Frá upphafi: 2434616

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 2226
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband