Hugsað til ársins 1929

Ársins 1929 verður lengst minnst fyrir óvenjuleg vetrarhlýindi, þau mestu fram til þess tíma í mælisögunni. Ámóta hlýtt eða jafnvel aðeins hlýrra varð síðan 1964 og svipað 2003. Hlýjasti vetur 19. aldar, 1847, var líklega lítillega kaldari, en ekki mikið.

Tíð á árinu 1929 þótti almennt hagstæð til og með ágúst en síðan rysjóttari. Janúar var hægviðrasamur og hagstæður, úrkomusamt var á Vesturlandi. Í febrúar og mars var einmuna tíð um land allt. Mjög úrkomusamt var um landið sunnanvert og fádæma hlýtt og snjólétt. Apríl var lengst af hagstæður, sérstaklega framan af, mjög þurrt var um mestallt land. Maí var frekar óhagstæður og hretasamur framan af, en síðan var tíð hagstæð. Úrkomusamt var, nema á Vesturlandi. Í júní var hagstæð tíð og nokkuð þurr syðra, en síðri og úrkomusamari fyrir norðan. Mjög hagstæð tíð var um nær allt land í júlí. Ágúst var votviðrasamt nyrðra, en annars var tíð talin hagstæð og fremur þurrviðrasöm. September var rysjóttur, erfiður og óvenju illviðrasamur. Leitir voru með allra erfiðasta móti. Tíð var umhleypingasöm og óhagstæð í október, talsvert snjóaði norðanlands eftir miðjan mánuð. Nóvember var talinn hagstæður um landið sunnanvert síðari hlutann, en annars var tíð umhleypingasöm og óhagstæð. Úrkomusamt var á Norður og Austurlandi. Í desember var óstöðug og stormasöm tíð, slæm til sjávarins, en skárri til landsins. 

Við rifjum hér upp fréttir ársins tengdar veðri. Ýmislegt er þar minnisstætt og ástæða til að rifja upp. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð), villur í slíku eru ritstjórans. Að þessu sinni er mest um texta úr Morgunblaðinu, en einnig úr fleiri blöðum. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn og fleira úr gagnagrunni og safni Veðurstofunnar. Nokkuð er leitað til tíðarumsagna veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Margskonar slysfara er ekki getið í þessum pistli - eitthvað af því sem ekki er getið kann að hafa tengst veðri.

Athyglisvert er hversu oft tjón verður á Siglufirði, bæði vegna vinds og ágangs sjávar. Ljóst að tjónnæmi (eins og það nú er kallað) hefur þar verið óeðlilega mikið, lítið hugað að gæðum og endingu mannvirkja - en kannski var „best“ að hafa þetta svona. 

Fréttir um ljósagang voru viðloðandi um veturinn. Eitthvað af því tengdist fjarlægum eldingum. Hugsanlegt er að lítið eldgos hafi orðið í Dyngjufjöllum eða Vatnajökli en erfitt um slíkt að segja. Þann 23. júlí varð mikill jarðskjálfti á Reykjanesi, líklega sá öflugasti sem fannst í Reykjavík og nágrenni alla 20. öldina. Upptökin voru óljós í fyrstu. Þann 16.ágúst varð óvenjulegt og stórt hlaup í Tungufljóti í Biskupstungum þegar hluti Hagavatns braust fram.

Byrjum á fáeinum tíðarfarslýsingum úr janúar:  

Hvanneyri (Þorgils Guðmundsson): Tíðin framúrskarandi góð. Alauð jörð þar til fjóra síðustu dagana og varla teljandi frost fyrr en eftir 23. Dálítil úrkoma var fyrstu daga mánaðarins og stormur aðfaranótt þess 4. og þá fauk hér á Hvanneyri þak af fjósi sem var í smíðum.

Flatey (Stefán Egilsson). 16.janúar: Klakalaus jörð, tún talsvert græn yfir að líta.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Hún [tíðin] hefur verið óvenjulega hlý og stillt nema síðustu vikuna hefur verið kuldablástur. Eftir miðjan mánuðinn var allt farið að lifna, svo sóleyjar sáust blómstraðar, því hvergi var klaki í jörð eða svell á polli.

Húsavík (Benedikt Jónsson): Framúrskarandi mild veðrátta og að kalla alauð jörð í sveitum.

Fagridalur (Kristján N. Wiium): Einmuna góð tíð.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Frá 1. til 16. óvenjulega stillt tíð og mild - jafnvel svo furðu gegndi um þetta leyti árs. Aftur var síðari hluti mánaðarins miklum mun kaldari, en má þó góður hér þegar litið er til árstíðar.

Stórhöfði (Gunnar Þ. Jónathansson): Óvenjugóð tíð mestan hluta þennan mánuð.

Stórinúpur (Ólafur V. Briem): Mjög óvenjulega góð tíð.

Slide1

Hringrás var mjög afbrigðileg í janúar, febrúar og mars. Sunnanátt við Ísland mun meiri en í meðalári og kuldapollurinn í vestri sérlega slakur á sama tíma - en sú samsuða er óvenjuleg. Litirnir á kortinu sýna þykktarvikin, jákvæði vikin (hlýindin) eru mest vestan Grænlands, en austur í Evrópu var kalt. Mjög óvenjulegt má telja að fáeinir hafísjakar komu að ströndum Finnmerkur í Noregi. Sumir telja þó að um leifar borgarísjaka hafi verið að ræða - en óvenjulegt engu að síður. 

Morgunblaðið segir af sunnanroki þann 4. janúar í pistli þann 6.:

Akureyri í gær. Í gær var aftaka sunnanrok hér, en þó þurrt veður. Var veðrið svo mikið, að Leikfélagið treysti ekki fólki til að koma í leikhúsið og féll leiksýning því niður. Vélbátur, sem var á leið frá Siglufirði til Akureyrar, varð að hleypa inn á Dalvík og liggja þar af sér veðrið.

Morgunblaðið segir jarðskjálftafréttir 20.janúar. Við verðum að hafa í huga að jarðskjálftamælingar voru ekki sérlega nákvæmar á landinu á þessum árum og mjög erfitt var að staðsetja skjálfta, jafnvel þótt þeir væru stórir: 

Hingað hafa borist fregnir af jarðskjálftum úr nærsveitunum undanfarna daga. Frá Þjórsártúni var Morgunblaðinu sagt í gær, að vart hafi orðið við jarðskjálfta við og við undanfarna 10 daga. Sömu sögu sagði maður er nýlega var austur í Landsveit og Holtum. Um allan Borgarfjörð hefir orðið vart við jarðskjálfta þessa, þó meira í uppsveitunum en í lágsveitunum. Blaðið átti tal við símstöðina hjá Ölfusárbrú í gær og fékk þær fréttir, að þar hefði orðið vart við talsverðar hræringar að undanförnu, en þó mest um seinustu helgi. Bar þó öllu meira á kippunum á Selfossi en í Tryggvaskála. Um allan Flóann hefir jarðskjálftanna orðið vart og eins á Eyrarbakka og Stokkseyri. Í Þingvallasveit hafa jarðskjálftarnir líka gert vart við sig af og til, en mest upp úr helginni. Maður austan úr Grímsnesi kvað hafa verið talsverð brögð að jarðskjálftum þar og margir kippirnir svo snarpir, að hann kvaðst ekki hafa þorað að byrgja kindur í torfhúsi. Í Hveradölum hefir borið einna mest á jarðskjálftunum. Voru þar taldir rúmlega tuttugu kippir á mánudaginn og 11 á þriðjudaginn. Blaðið hefir átt tal við Þorkel Þorkelsson, veðurstofustjóra um þessa jarðskjálfta. Sagði hann að mælir hefði sýnt 10 hræringar hér í Reykjavík á mánudaginn og 4 á þriðjudag. Mælarnir væri ekki svo góðir, að hægt væri að sjá glögglega á þeim hvaða stefnu hræringarnar hefði, en þó mundu þær vera hér frá austri til vesturs, og upptök þeirra mundu oftast vera í 35—40 km. fjarlægð, eða einhversstaðar í grennd við Hengilinn eða í hönum sjálfum. Gæti þeir þá stafað af gufuumbrotum í jörðinni, því að það sést á því hvað hræringarnar berast skammt, að þær eiga upptök sín ofarlega. En vel á minnst: Hvenær fáum við sæmilegan jarðskjálftamæli hér eða jarðskjálftamæla? Það var ákveðið fyrir nokkru að fá jarðskjálftamæli hingað og átti að verja fé úr sáttmálasjóði til þess og auk þess mun „Dansk-islandsk Samfund“ hafa ætlað að leggja eitthvað af mörkum til kaupanna. En „ekki bólar á Barða“ og enn mun ekki hafa verið hugsað fyrir húsakynnum hér handa jarðskjálftarannsóknarstöð. En slík stöð þarf að komast upp hér hið fyrsta.

Morgunblaðið segir af góðri færð í pistli 29.janúar:

Bíll austan úr Mýrdal. Kl. um 12 á sunnudagskvöld [27.] kom hingað bíll alla leið austan úr Mýrdal. — Var það vörubíll Stefáns kennara Hannessonar í Litla-Hvammi, en bílnum stýrði Brandur sonur Stefáns. Lagði hann á stað frá Vík í Mýrdal »m hádegi á laugardag og voru farþegar 9, þar af 4 strandmenn af þýska togaranum „Hermann Löns“. — Héldu þeir að Hamragörðum (vestan við Seljalandsmúla) á laugardagskvöld. Annar bíll fylgdist með þessa leið og flutti hann þýska strandmenn. Á sunnudag hélt Brandur áfram og stefndi á Teig í Fljótshlíð. Vötnin voru auð, en vatnslítil og gekk vel að komast yfir þau. Komst Brandur á bílnum heilu höldnu vestur í Fljótshlíð og hélt síðan áfram hingað til Reykjavíkur. Er þetta í fyrsta skipti, sem bíl er ekið alla þessa leið.

Morgunblaðið segir af „furðuljósum“ 31.janúar:

Furðuljósin. Í blaðinu í gær var sagt frá furðuljósi, sem fólkið í Bergvík á Kjalanesi hefði séð. Morgunblaðið náði tali af sjónarvotti í gær og sagðist honum svo frá: — Það var á fimmtudagskvöldið [24.] um kl. 9. Veður var framúrskarandi fagurt, blæjalogn, skafheiðríkur himinn og glaða, tunglsljós. Um kl. 9 kemur inn drengur, sonur bóndans, og segir að ákaflega stór og einkennileg stjarna sé á lofti. Fóru þá allir út, hæði heimafólk og aðkomufólk, og sáu þá stórt ljósrautt ljós hátt á lofti, á að geta mitt á milli Presthúsa og Brautarholts. Þó var það ekki hærra en svo, að Fjósakonurnar bar yfir það. Stefndi ljósið til norðurs og fór hægt, breytti allt í einu um lit og varð dökkrautt, líkt og hliðarljós á skipi, svo varð það blátt og svo hvítt. Var því líkast sem þarna snerist, lýsandi hnöttur í himingeimnum og hefði mismunandi litbelti. Sáum við oftar en einu sinni hvern lit og horfðum á þetta í fullar 10 mínútur. Var eins og það lækkaði á lofti og hvarf loks sjónum á bak við
Brautárholtsborgina. Við biðum nokkra stund til þess að sjá hvort það kæmi ekki fram aftur, en svo var ekki. Það hélt beinni stefnu og var þó engin andvari er gæti borið það. Um skip gat ekki verið að ræða, og ekki heldur flugvél. Það var svo bjart og skammt á milli er við sáum ljósið fyrst, að við hefðum hlotið að sjá vængi og skrokk á flugvél, hefði hún verið þar á sveimi, enda hlotið að heyra til hennar.

Veðurathugunarmenn segja frá óvenjulegum febrúar: 

Lambavatn: Það hefur fremur líkst sumri en vetri. Vætusamt en hlýtt. Jörð oftast frostlaus, frosið á milli á nóttum, en þiðnað fljótt aftur. Hús með torfþökum þar sem skepnur eru í, eru mikils til græn.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Óvenju stilltur, hlýr og snjólaus febrúar. Mjög hagstætt til lands og sjávar.

Grænhóll á Gjögri (Níels Jónsson): Óminnilega góð tíð yfirleitt. Elstu menn mun ekki eftir jafn góðum vetri og þessum, sem af er.

Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Ágæt tíð allan mánuðinn, nema nokkra daga um 5. til 10. Frost voru mjög væg og stormar engir. Aðeins einn dag nokkuð hvasst.

Húsavík: Ómuna blíðviðri, jörð nær því alauð í lágsveitum. Bílar gengið fyrirstöðulaust uppí efstu sveitir. Síðan 1855 ekki komið slíkur vetur hér til þessa dags [sá tími sem Benedikt man].

Nefbjarnarstaðir: Hin hagstæðasta tíð allan mánuðinn. Óvenjuleg hlýindi og stillingar. Þess má geta að í dag (þ.24) sáust álftir koma fljúgandi af landi ofan. Er það óvanalegt að þær séu á ferð upp til lands um þetta leyti árs.

Papey (Gísli Þorvaldsson): Tíðin hefur verið hlý, en mjög mikið úrfelli (regn), tún slá á grænan lit sem og útjörð víða, sérstaklega úteyjar. Klaki ekki til á jörð. Oftast ógæftir til sjós hér í þessu byggðarlagi og brim á köflum.

Stórhöfði: Stormasamt, stirðar gæftir. [Þ.6. regnmælirinn var fokinn í morgun].

Stórinúpur: Svo gott að elstu menn segjast ekki muna slíkt. Varla sér votta fyrir fönnum í fjöllum þar sem vanar eru að vera stórar fannir sem venjulega ekki fara fyrr en í júnímánuði. Ísar sjást ekki, ár og tjarnir nálega alauðar.

Morgunblaðið segir af illviðri 7.febrúar:

Ofsaveður af útsuðri skall hér á um þrjúleytið í fyrradag [5.]. Voru allir bátar frá verstöðvunum hér syðra á sjó þegar veðrið skall á, en komust heilu og höldnu í höfn og misstu sama og ekkert af veiðarfærum.

Vísir segir af einmunatíð 7.febrúar:

Úr Steingrímsfirði 18.janúar FB. Um áramótin gerði þíðu og þá einmunatíð, að menn muna vart slíka, og hefir hún haldist síðan. Hiti hefir verið flesta daga og klaki að hverfa úr jörðu. Er það nýtt hjá okkur Strandamönnum, að geta herfað flög um miðjan janúar, eins og nú var hægt.

Veðráttan segir frá því að þann 8. hafi eystri hafnarbakkinn í Vestmannaeyjum skemmst af sjógangi. Ekki var alveg hálkulaust í blíðunni. Morgunblaðið 12.febrúar:

Mikil hálka var hér á götunum í gærmorgun [11.] og er hætt við, að slys hafi af hlotist; var Morgunblaðinu tjáð að stúlka hefði dottið á götuna neðst á Bergstaðastræti og lærbrotnað.´

Vísir segir frá 16.febrúar:

Frá Vestfjörðum í janúar FB/JD: Vetur sem þessi hefir ekki komið í elstu manna minnum. Varla fest snjó á jörðu fyrr en síðari hluta janúar. Gerði þá dálitla skussu vikutíma, en brá til hata og þíðu aftur um mánaðamótin. Frost voru dálítil í nóvember öndverðum, en væg þó, og var unnið að jarðabótum við og við fram til jóla og í miðjum janúar var rist ofan af og var þá jörð alþíð nema í stærstu þúfum. Mun slíkt einsdæmi á þessum hjara. Sauðfé og hross hafa gefið, sér með mesta móti úti í vetur, en heygjöf verið þó meiri en ætla mætti, vegna þess að jörðin var illa búin undir veturinn, vegna hinna afar miklu þurrka síðastliðið sumar og úthagar víða sólbrunnir, og svo sífellt berangur, það sem af er vetrinum. Hey voru og víða lítil vegna þurrkanna og úthey frekar létt til fóðurs. Veldur það nokkru þar um, að slegið var með meira móti á engjum s.l. sumar, því síðan bændur fóru að hugsa meira um túnræktina, er meir og meir af engjum í sinu árlega.

Morgunblaðið segir enn af ljósagangi 19.febrúar:

Á áttunda tímanum í fyrrakvöld [17.febrúar] urðu menn varir við ljósagang mikinn í vestri, og stóð þetta alllengi, blossaði upp með stuttu millibili og bar birtu af hingað til Reykjavíkur. Var stundum eins og sindraði eldneistar af aðalljósunum, og sögðu margir, að líkast hefði verið að sjá þetta eins og þegar Kötlugosið braust út fyrst hérna um árið. Gerðu því ýmsir ráð fyrir, að eldur mundi uppi á Reykjanesi, því að svo var þetta magnað, og stóð lengi, að menn gátu tæplega fengið aðra skýringu á því. Var þó ýmsum getum að því leitt, hvað þetta mundi vera, svo sem að skip væri hér vestur í flóa með kastljós, en það gat tæplega átt sér stað, vegna þess, hvernig ljósin höguðu sér, hve ljósmagnið var mikið, og svo vissu menn ekki vonir neinna herskipa á þeim slóðum. Í Hafnarfirði sáust ljós þessi jafn glögglega og hér og þóttu jafn furðuleg. Í gærmorgun átti Morgunblaðið tal við Reykjanes, Hafnir, Keflavík og Sandgerði, til þess að fregna, hvað menn vissu þar um fyrirburð þennan. Á Reykjanesi hafði hans ekki orðið vart, en sú ástæða var til þess, að allir sátu inni í húsi um þetta leyti og voru að hlusta á útvarp. En í útvarpinu voru óvenjulegar truflanir, allra líkast því sem er í skrugguveðri. Í Höfnum sáu menn eldinn til hafs í suðvestri, og virtist vera um skrugguveður að ræða. Komu eldingarnar afarþétt, og var stundum eins og hvíslaðist eldglæður út frá ljósunum í allar áttir, en menn skýra það svo, að þá hafi verið él í hafi og muni birtuna hafa borið þannig í élinu. Horfðu menn á þetta í fulla klukkustund og virtist sem ljósin færðust heldur til vesturs. Nokkrar þrumur heyrðust í fjarska. Einna mest bar á ljósunum í Sandgerði. Þar sáust þau fyrst á 8. tímanum og héldu áfram þangað til klukkan að ganga 11. Voru ljósin í suðvestri og blossarnir mjög bjartir. Það að sjá skyggði heldur ekkert á þá og var alveg heiðskírt allan tímann. Taldar voru þar um 30 skruggur. Það var álit manna þar syðra að hér hafi verið um þrumuveður að ræða og óvenjumiklar og stórar eldingar. En þess ber að geta að eldgosum fylgja jafnan skruggur og eldingar, svo að það er ekki útilokað að hér hafi verið um gos að ræða langt vestur af Reykjanesi.

Enn fréttir af ljósum eða eldi. Morgunblaðið 20.febrúar:

Þjórsártúni 19.febrúar. Á sunnudagskvöldið [17.febrúar] sáu menn í Holtum, á Landi og í Fljótshlíð eld í norðurátt. Segir bóndinn á Skammbeinsstöðum í Holtum að þaðan hafi eldinn borið norðan við Heklu og í sömu stefnu sást hann af bæjum á Landinu og eins á Stórólfshvoli. Þar sást eldinum bregða fyrir af og til á tímabilinu frá kl. 7-9 um kvöldið. Var þá glóbjart veður, heiðríkja og tunglsljós. Ólafur í Auðvarðsholti var einn af þeim sem sá eldinn. Lýsti hann sýninni svo að komið hefði blossandi gosleiftur, einna líkast og í seinasta Heklugosi. Giskaði hann á að eldur mundi vera uppi í Dyngjufjöllum.

Furðuljós sjást enn. Í fyrrinótt [19.] um kl.1 sáu tveir menn hér í bænum þrjú ljós á lofti í suðvesturátt. Voru þau á ferð og stefndu til norðausturs og nálguðust smám saman. Var svo að segja jafnt bil á milli þeirra alltaf og flugu þau afar hátt. Þau voru öll gulgræn að lit. Horfðu mennirnir á ljósin þangað til þau voru komin yfir bæinn og voru þá liðnar um 20 mínútur frá því þeir sáu þau fyrst. Þá fóru mennirnir heim til sín og vissu ekki framar hvað um ljósin varð. Fleiri urðu furðuljósa varir fyrr um kvöldið.

Þrumuveður en ekki eldgos var það, sem menn urðu varir við á sunnudagskvöldið [17.]. Kom hingað í gær belgískur togari, „Jeanne“, sem hafði verið að veiðum vestur af Reykjanesi þetta kvöld, og sáu skipverjar glöggt að þetta var þrumuveður og gengu eldingar ört.

Enn meiri eldfréttir. Morgunblaðið 21.febrúar:

Akureyri, 20. febr. FB. Fregn frá Breiðumýri hermir að undanfarið hafi sést, eldbjarmi þaðan úr sveitinni frammi í dölum. Talið er, að um gos sé að ræða, í Vatnajökli vestanverðum, en alls ekki í Dyngjufjöllum. Ekkert öskufall, en mistur og móða yfir hálendinu í suðri. Óvenjuleg hlýindi af suðri. Bjarminn lítið sést síðasta sólarhring.

Ljósamálið upplýst? Morgunblaðið 22. febrúar:

Í gærmorgun kom inn á skrifstofu Morgunblaðsins maður, sem Angantýr Hróbjartsson heitir og á heima vestur í bæ. Sagði hann þær fréttir, að hann hefði uppgötvað, hvernig á furðuljósunum stæði og lagði fram poka allmikinn úr bláum silkipappír. Í opi pokans var eirhringur er hélt opinu sundur, en í kross, þvert yfir opið, voru hárfínir vírar, og þar sem þeir skárust, var sérstakur útbúnaður fyrir vír og í honum voru ofurlitlar sviðnar bómullartætlur. Innan í belgnum var dálítið sót, sem sýndi það, að bruni hafði farið fram. Hefir sýnilega logað á bómullinni — hún verið vætt í einhverju eldfimu efni — en þegar hún var út brunnin og heita loftið fór úr belgnum, hefir hann fallið til jarðar. Angantýr sagði blaðinu svo frá því, hvernig hann komst yfir grip þennan: „Að kvöldi hins 19. þ. mán. kl. 9:30 var ég ásamt tveimur mönnum staddur úti fyrir heimili mínu á Holtsgötu 9. Allt í einu sjáum við í norðurátt ljós á lofti blika, á að geta 200 metra yfir sjávarmál. Virtist ljósið líða í áttina til okkar með talsverðum hraða, hvítt á lit og skært. Þóttumst við þegar vissir um, að hér væri eitt „furðuljósið" á ferð. Einn okkar hafði séð slíkt ljós áður, og virtist honum þetta ljós mjög svipað því. Óðum færðist undraljósið nær okkur og lækkaði á lofti smátt og smátt, uns það að lokum virtist falla til jarðar og hvarf þá með öllu skammt þaðan, sem við stóðum. Gengum við þá á staðinn, þar sem okkur virtist ljósið hafa fallið niður, og fundum brátt belg þennan.“ Belgurinn verður til sýnis í glugga Morgunblaðsins í kvöld.

En svo var ekki. Morgunblaðið 23.febrúar:

Í blaðinu í gær var sagt frá „furðuljósi“, sem „fannst“ vestur í og og var sá, sem hafði hleypt því á stað, beðinn að gefa sig fram. Það stóð ekki á því. Maðurinn kom til blaðsins þegar í gær, og skýrði því frá öllum málavöxtum. Hann kvaðst aðeins hafa sent þetta eina ljós frá sér, og gert það í þeim tilgangi að ganga úr skugga um hvort furðuljós þau, sem sést hafa í allan vetur víðsvegar um land, væri af mannavöldum. Til þess að hita og lýsa belginn hafði hann bómull vætta í bensíni. Sleppti hann belgnum á Ránargötu og segir að hann muni hafa farið svo sem 50 metra í loft upp og ekki verið lengur á flugi en svo sem 2—3 mínútur, enda er stutt leið þaðan sem belgnum var sleppt og vestur á Holtsgötu. Það sem Angantýr Hróbjartsson sagði um ljósið að sér hefði virst það vera 200 m yfir sjávarmál, þá er það ágiskun, en illt í myrkri að ákveða hæð og fjarlægð. Maður er því enn engu nær um það hvaðan „furðuljósin“ stafa, Sú gáta er óleyst. Að vísu hefir maður vestan af fjörðum sagt Morgunblaðinu að hann viti til þess, að útlendir togarar sendi lík ljósmerki og þetta upp í loftið. Kveðst hann hafa séð þýskan togara senda frá sér ljósmerki á Önundarfirði í vetur, seinni hluta nætur. Hefði hann haft taug við það. Eftir nokkurn tíma dó ljósið og skildi togarinn þá belginn eftir og festina við. Þegar birti af degi sást belgurinn svífa í lofti enn, þótt ljóslaus væri, en hvarf þegar fram á daginn kom. Sami maður sagist hafa séð nokkru seinna en þetta var — snemma í janúar — ljós koma svífandi utan af hafi. Var það marglitt, stundum eins og rauður kross, stundum rautt, blátt eða hvítt. — Horfði hann á það í 20 mínútur, en þá hvarf það. Segist hann hafa séð slík ljós á sveimi í lofti 3—4 sinnum og ávalt hafa ætlað að þau væri frá útlendum togurum.

Morgunblaðið birti 24.febrúar tilkynningu frá Veðurstofunni:

Veðurstofan hefir gert fyrirspurnir til ýmsra símastöðva um eldgosið, og er hér birtur útdráttur úr þeim svörum, sem hún hefir fengið: Í Mývatnssveit þóttust nokkrir sjá reykjarmökk yfir Dyngjufjöllum þ. 12. þ.m., og um kvöldið sáust mikil leiftur í suðri, og næstu kvöld sáust þau einnig. Stefnan er talin dálítið austan við Öskju. Frá Reykjahlíð báru leiftur við austurbrún Bláfjalls. Úr Laxárdal sáust mikil leiftur aðfaranótt, þ.15. Á Grímsstöðum á Fjöllum sást eldbjarmi fyrst þ. 14. og var stefna á Herðubreið. Jökulsá á Fjöllum hefir ekki vaxið, og ekkert orðið vart við öskufall, en mikil móða í Mývatnssveit og á Grímsstöðum þ. 15.-17. Síðan þ.l6. hefir ekkert orðið vart við eldsmerki, en oftast verið þykkt loft og mistur til landsins. Á Fagurhólsmýri fannst eldlykt þ. 13. og 20., og í Hornafirði urðu menn varir við drunur úr norðvestri þ. 19. og álíta, að stafaði af eldgosi. Í Fljótsdalshéraði hafa menn ekki orðið varir við nein merki eldsumbrota. Eftir þessum fregnum að dæma, kveður eigi mikið að þessum eldsumbrotum ennþá. Eldstöðvarnar virðast, helst vera norðan við Vatnajökul, í Kverkfjöllum, eða milli þeirra og Dyngjufjalla. Veðurstofan, Rvík, 23. febr. 1929. Þorkell Þorkelsson.

Veðráttan bætir smávegis við (febrúarhefti): Þann 15. heyrðust dynkir frá Teigarhorni, úr stefnu milli norðurs og norðvesturs. Þann 18. og 20. fannst eldlykt á Fagurhólsmýri og þann 19. fannst brennisteinslykt frá Stafafelli í Lóni og snarpur jarðskjálftakippur í Bakkafirði kl.04:30. Þann 26. heyrðust dynkir og sást eldbjarmi frá Teigarhorni í sömu átt og þann 15., að sjá milli Hálsfjalls og Búlandstinds, en öskufalls varð ekki vart. Í Axarfirði munu hafa fundist margir jarðskjálftakippir, en allir mjög vægir.

Mars varð óvenjulegastur allra hlýindamánaðanna. Meðalhiti í Reykjavík var 5,9 stig, og 5,7 á Akureyri. Þar var mars hlýrri en bæði apríl og maí. 

Slide2

Kortið sýnir háloftastöðuna í mars 1929. Afskaplega óvenjuleg. Þessi greining segir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs vera um 6 stigum ofan meðallags yfir norðaustanverðu Íslandi - ekki fjarri því sem var á veðurstöðvunum. 

Veðurathugunarmenn lýsa hinum óvenjulega marsmánuði:

Flatey: Tíðarfarið í þessum mánuði hefur verið mjög hlýtt og hagstætt yfirleitt, ekki stormasamt, en talsverð úrkoma, aðeins 10 dagar þurrir að mestu og sólfar lítið, þokur og mistur eða móða marga hina þurru daga.

Lambavatn: Það hefir verið svo hagstætt sem framast má kjósa. Sífelld sunnan- og suðvestanátt og hlýja svo gróður er kominn eins og vanalega um hálfan mánuð til 3 vikur af sumri.

Grænhóll: Óminnilega góð tíð. Tveir elstu búhöldar hér, á áttræðisaldri, muna engan vetur þessum líkan.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Yfirleitt mjög hagstæð tíð allan þennan mánuð. Alauð jörð, byrjað að gróa ... úr miðjum mánuði. [3. Eldbjarmi og reykjarstrókur; stefna austan Herðubreiðar].

Kelduneskot (Indriði Hannesson): Menn hér undrast mjög þetta fyrirtaks tíðarfar, muna aldrei þvílíkt.

Raufarhöfn (Árni Árnason): Skýrslan ber með sér óvanaleg veðurgæði allan mánuðinn. Vötn og tjarnir voru íslaus í góulok og jafnvel fyrr. En samt skilur hann við okkur með frosti og snjó. AÐ líkindum gerir frostið útaf við gróður þann sem kominn var þó nú sé aftur komin veðurblíða. Hér var vond frosthríð nóttina og fyrripart 1.apríl. Fé víða pössunarlítið og ekki verið að húsum. Eru mann því hræddir um að eitthvað hafi farist í hættur, sem komu í hríðinni.

Nefbjarnarstaðir: Öndvegistíð mestallan mánuðinn. Elstu menn muna ekki jafngóða tíð um þetta leyti árs. Sífelldar stillingar og blíðviðri. Úrkoma afarlítil. Aldrei komið snjókorn úr lofti síðan krapaslettur þ.1. Elds ekki orðið vart.

Stórhöfði: Ágæt tíð. 15. til 18. óvenju mikil móða, skyggni sést óglöggt 2000 m. Talið að stafi af eldi. Annað hef ég ekki getað greint að eldar væri uppi.

Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Jörð farin að grænka í byrjun mánaðar og víðast algræn seinni hlutann.

Norðlingur leitar 2.mars skýringa á blíðviðrinu:

Hvernig stendur á góða veðrinu hér í vetur? Viðtal við Pálma Hannesson náttúrufræðing. Í allan vetur, það sem af er, hefir verið svo að segja látlaust góðviðri hér á landi, svo að líkara hefir verið sumartíð en vetrarveðri. Veturinn í fyrra þótti afburðamildur, en þessi tekur honum fram um hlýindi, snjóleysi og hverskonar mildi og stillur. Túnblettir hafa grænkað á þorranum; vötn, sem jafnan hafa legið undir ís frá því á haustnóttum og til fardaga, hafa verið alauð; hestar hafa ekki fengið heytuggu í húsi í sumum sveitum, það sem af er, og í fjöllum, sem jafnan hafa staðið klædd fannafeldi, sést nú varla snjódíll. En utan úr heiminum, og það jafnvel nágrannalöndunum, berast fregnir um gífurlegt frost, snjókomur og stöðvun umferðar á landi og sjó, vegna vetrarríkis og harðviðra. Það er eðlilegt að menn furði sig á þessu og verði tíðspurult um orsakir að þessari veðurfarslegu byltingu En fæstir munu hafa svar á reiðum höndum við þeim. Helst mundu það þó vera náttúrufræðingarnir og veðurfræðingarnir. Norðlingur hefir því snúið sér til Pálma Hannessonar þeirra erinda að vita, hvort hann gæti nokkuð frætt lesendurna um orsakir veðurblíðunnar. - Því miður veit maður lítið um þær enn þá. Vísindin eða veðurfræðin eru ekki komin svo langt enn. Það eitt má telja nokkurn veginn víst, að hér á landi muni ekki vera komin varanleg veðrabreyting, þó að góðir vetur hafi farið saman nú nokkur ár, og þessi síðasti sé sá mildasti og besti. Hér hafa alltaf skipst á góðir kaflar og vondir, nokkuð hörð ár farið saman og síðan nokkur góð; og engin ástæða er til að ætla, að nú sé komin nokkur óhagganleg festa í veðráttufarið. — Hvað stjórnar í raun og veru veðurfarinu hér á landi? — Veðráttan byggist aðallega á því, hvernig loftþrýstingin hagar sér yfir Evrópu og Grænlandi. Í vetur hefir t.d. verið há loftþrýsting yfir Evrópu og náð út á Atlandshaf. Pað er ástæðan til hins langvarandi og mikla kulda þar suður frá. — En loftvægislægðirnar? — Þær ráða aftur á hinn bóginn svo að segja algerlega hita og kulda hér, eftir því hvoru megin þær fara við landið, sunnan megin eða norðan. Fari þær fyrir norðan land, þá streyma hlýir vindar að sunnan og veðrið verður milt og gott, en fari þær fyrir sunnan landið, koma kuldar og stórhríðar, og því meir, sem þær fara nær landinu. Í fyrravor voru suðursæknar lægðir. Þá fengum við kuldann og norðan stormana. En sólin var þá orðin svo hágöngul, að kuldans gætti minna. — En hvernig myndast lægðirnar, og hvaða lögmálum hlíta þær? — Það þekkir veðurfræðin ekki enn, hvorki hvar lægðirnar kvikna, né hvernig stendur á því, að þær fara í þessa átt en ekki hina. Ef vísindin væru komin svo langt á þessu sviði, þá væri hægt að segja fyrir um veðrið um lengri tíma í stað þess að nú er aðeins hægt að fylgja ferli hverrar einstakrar lægðar. — Menn hafa verið að tala um breytingu á Golfstraumnum í sambandi við tíðarfarið, og talið að hann hafi breytt stefnu. — Það er ekkert annað en getgáta gripin úr lausu lofti, og hefir ekki við neinar vísindalegar rannsóknir að styðjast. Að vísu hefir Golfstraumurinn verið óvenju norðursækinn nú upp á síðkastið og vatnsmikill. — Þér álítið þá, að hér sé ekki um varanlega veðurfarsbreytingu að ræða? — Það er ekki hægt að ráða það af neinu, sem menn þekkja eða geta fært rök fyrir. Skynsamlegast held ég að sé að safna í kornhlöðurnar meðan góðærið er, og búa sig undir hörðu og köldu árin — Því þau koma eftir reynslu undanfarinna alda.

Vísir birti 4.mars tilkynningu frá Veðurstofunni:

Frá Veðurstofunni. Eldbjarmi og reykjarstrókur sást í gærmorgun frá Grímsstöðum á Fjöllum. Gosstöðvarnar eru sennilega austarlega í Kverkfjöllum, því að stefnuna þangað frá Grímsstöðum ber austan við Herðubreið.

Morgunblaðið segir 7.mars af togarastrandi (í þoku) og tíðarfari í Mýrdal:
Enski togarinn Norse, eign Hellyers Bros, strandaði í þokunni í fyrrinótt við Hvalsnes, sunnan við Sandgerði. [Mannbjörg varð].

Úr Mýrdal. Ómuna góð vetrartíð, um jól gránaði dálítið, en tók upp aftur eftir tæpa viku. Aftur svo lítill snjór fyrstu vikuna af þorra, en síðan í miðþorra hefir verið alauð jörð og klakalaus og grænni en oft hefir verið um sumarmál, annars hefir verið nokkuð stormasamt og afar miklar úrkomur.

Vísir birti 9.mars bréf úr Húnaþingi - dagsett 25.febrúar:

Úr Húnaþingi. 25.febrúar FB Tíðarfar. Tíðin óminnilega góð til þessa, jörð oftast auð, þó fest snjó, en hann horfinn næstu daga. Hafa bifreiðaferðir haldist flesta tíma af Blönduósi í flesta hreppa sýslunnar, sömuleiðis til Hvammstanga og undir Holtavörðuheiði.

Lögrétta greinir 20.mars frá harðindum í Evrópu, en hlýindum á Grænlandi:

Harðindin í Evrópu. Hér á Íslandi hefur í vetur verið einmunatíð, í Reykjavik t.d. varla komið frost, en oftast verið nokkur hiti og oft blíðasta vorveðrátta. Í Grænlandi hafa verið frostlaus góðviðri. En þar bregður svo einkennilega við, að frostleysið er til hins mesta meins og vofði víða hungur yfir fólkinu þess vegna. Eskimóarnir geta sem sé víða ekki notað hundasleða sína til ferðalaga eða fanga þegar snjó og ísa vantar, og var því tilfinnanlegur vistaskortur vegna veiðileysis. En suður um alla Evrópu hafa á sama tíma verið  grimmdarhörkur, svo að til vandræða hefur horft um samgöngur og matvælaaðdrætti. Í dönsku sundunum hafa skipaferðir hvað eftir annað teppst eða tafist vegna ísalaga. Í Berlín var nú um mánaðamótin mikið frost, og barst lítið að af matvælum og fór verðlag hækkandi. Bærinn var fisklaus, brennilaus og kolalítill. Barnaskólum var lokað þar í viku, nema í nokkrum fátækustu hverfunum, þar voru skólarnir kyntir vegna heimilislausra barna. Í París var um sama leyti 15—16 stiga frost og yfir 20 stig sumstaðar þar í nágrenninu. Signu var farið að leggja og samgöngur töfðust um tíma bæði á ánni, á landi og í lofti. Flugmenn, sem flugu frá Frakklandi til Englands og Þýskalands sögðu, að mun heitara væri í 500—1000 m hæð en niðri á jörðunni. Í London var svo kalt að sagt er, að eins mikið frost hafi ekki komið þar í síðastliðin 40 ár. Hús í ýmsum bæjarhlutum urðu vatnslaus og sótti fólk sér vatn í brunahanana á götunum. Ýmsar enskar járnbrautarlestir sátu fastar í snjó. Í Agram í Júgóslavíu voru meterháir skaflar á götunum og hörkurnar náðu einnig langt suður í álfu, suður á Miðjarðarhafsströnd. Í Nissa var hætt við hin venjulegu föstuhátíðahöld vegna kuldans. Þar var hríð og snjóþaktir pálmarnir um alla þessa suðrænu sólskinsströnd. Víða hefur fólk farist í frostunum. Einn morguninn fundust 5 fátæklingar frosnir í hel í París. Í Rúmeníu fórust í einu þorpi um líkt leyti 2 karlar, 2 konur og 6 börn. Í Suðurrússlandi hafa margir helfrosið. Í Kischinev fraus heil bændafjölskylda í hel, 14 manns. Í Buzen helfrusu 12 bændur í miðjum febrúar. Í Tékkóslóvakíu varð helmingur allra járnbrautarmanna óverkfær af frostbólgu. Í Feneyjum var ekki hægt að koma dánu fólki í jörðina fyrir frostum, eyjan, sem kirkjugarðurinn er í, St. Michele, var gaddfrosin og umkringd ísalögum. Svipaðar harðindafregnir bárust víðar að, meðan menn böðuðu sig svo að segja í sól og sumarblíðu norður á Íslandinu á hala veraldar. Nú eru harðindin allstaðar í rénun eða um garð gengin.

Tíminn talar um tíðina 23.mars:

Árferðið. Tíðarfarið hefir i allan vetur verið miklu betra um allt land, en nokkur dæmi sé til í minnum elstu manna. Sífeldar þíður og blíðviðri hafa staðið viku eftir viku. Á þorra tók að votta fyrir gróðri og í miðgóu voru tún orðin græn hér sunnan lands og mun svo verið hafa víðar um land.

Morgunblaðið rekur líka blíðufregnir 24.mars:

Úr Þingeyjarsýslu. „Gott er blessað veðrið“ enn. Öðru hverju hefir rignt á þorranum og það sem liðið er af góu og hefir regnið komið jafnt að norðan sem sunnan að. Vel viðraði s.l. vetur, en þó enn betur nú. — Veturinn 1923—’24 var fágætlega góður, þá festi aldrei hélu á glugga hér í sveit á þorra. Nú festi þó hrímu á rúðu tvisvar—þrisvar á þorra.

Vísir segir 30.mars af sjóslysi þann 28.apríl og birtir tíðarfregnir:

Auðnum, Vatnsleysuströnd 28/3 FB. Landsynningsrok skall á hér í morgun, og voru allir bátar á sjó. Einum bát hvolfdi á heimsiglingu, var það opinn vélbátur, með þrem mönnum. Tveir mannanna komust á kjöl, og var bjargað, en einn mannanna drukknaði.

FB.30. mars. Af Langanesi. Tíðin hefir verið hér einmuna góð, eins og víðast hvar eða alstaðar á landinu. Alauð jörð síðan nokkru eftir jól, sífeldar stillur og góðviðri. Klaki er nú að mestu úr jörðu.

Veðráttan segir að þann 14. mars hafi flísast úr símastaur og eldingarvari hafi bilað á Efra-Hvoli. Þann 20. mars slitnaði skip upp og rak upp í fjöru í vestanveðri á Ísafjarðarhöfn, en náðist út síðar. Þann 24. olli elding skemmdum á Rafmagnsstöðinni í Reykjavík, öryggi bráðnuðu og önnur rafmagnsvélin skemmdist. 

Í blálok marsmánaðar fór kuldastrengur til suðurs rétt fyrir austan land [páskadagur þann 31.]. Gætti hans í fáeina daga við norðausturströndina og jafnvel á Austurlandi - aðrir urðu lítt við hann varir.  Nokkuð hret gerði upp úr miðjum apríl. Veðurathugunarmenn segja frá apríltíð. 

Hvanneyri: Veðráttan mjög góð, úrkomulítið og hægviðri.

Lambavatn: Fram í miðjan mánuðinn var sífelld hlýja og var allur gróður að lifna eins og komnir væru fardagar. Nú, seinni hluta mánaðarins hefir verið kuldi og næðingar svo allur gróður er að deyja.

Grænhóll. Blíðviðri fyrripart mánaðarins til 16. Snjókast 16. til hádegis og síðan talsvert 17. og 18. Eftir það góðviðri.

Fagridalur: Kuldakast fyrstu dagana, síðan góð veður aftur til þess 17. Þá gekk til kulda er varir út mánuðinn með éljaveðrum oftast. Nokkur snjór á köflum.

Fagurhólsmýri: Veðráttan hefur verið ágætis góð og jörð alveg klakalaus allan mánuðinn.

Stórinúpur: Morguninn þann 18. var regnmælir tómur þrátt fyrir mikla snjókomu daginn fyrir. Hafir víst öllu þyrlað upp jafnóðum af roki. Þar á móti var mælakassinn þá nærri fullur af snjó og töluverðar fannir, t.d. niðurgrafnir vegir óvagnfærir sumstaðar af snjó.

Morgunblaðið segir af veðurfarskenningum 4.apríl. Þess má geta að Sandström þessi er mjög þekktur í sinni grein: 

Sænskur veðurfræðingur, J. W. Sandström að nafni, sem kunnur er fyrir rannsóknir sínar á Golfstraumnum, hefir nýlega ritað grein, þar sem hann segir, að hægt sé að spá um veðurfar í Evrópu fyrir nokkra mánuði. — Hann skýrir þetta þannig: Áhrifum Golfstraumsins á veðráttu mætti líkja við skál; botninn er í Færeyjum, en barmarnir ná vestur á vesturströnd Grænlands og austur á Rússland. Þegar straumurinn eykst, dýpkar þessi skál, botninn lækkar en barmarnir hækka. En dragi úr straumnum verður skálin flatari. Við barmana í austri og vestri er veðurfar jafnan þveröfugt við það, sem er í miðri skálinni. Því hefir verið haldið fram, að Golfstraumurinn hafi ekki áhrif á veðráttu nema aðeins á hinu takmarkaða svæði, er hann fer um. Sú skoðun er byggð á ónógri þekkingu, því að fyrir löngu er það sannað, að áhrifa Golfstraumsins gætir alla leið suður við Svartahaf og lengst inn í Rússland. Að þetta sé rétt, hafa rannsóknir báðum megin við Golfstrauminn, leitt í ljós. Og af þessu sér maður aftur, að Golfstraumurinn ræður mestu um vetrarveðráttu allt frá vesturströnd Grænlands og austur í Evrópu. En þá er eftir að skýra það hvernig hlýr straumur orsakar kulda eins og þá, sem verið hafa á meginlandi Evrópu í vetur. Yfir Golfstraumnum hlýnar loftið og verður þrungið af gufum og verður þannig léttara en loftið þar um kring og leitar því beint upp í geiminn eins og reykur upp úr reykháf. Hátt uppi dreifist svo loft þetta til beggja handa og fellur niður yfir Evrópu og Grænland. En þetta loft er þá tært og skýjalaust og hleypir því hitageislum frá jörðunni í gegn um sig og út í alheimsrúmið. Nótt eftir nótt heldur þessi hitaútgufun áfram og á hverjum degi kólnar loftið niður við jörðina, vegna þess hvað sólarhitans gætir lítið á þessum árstíma. En þau árin, sem Golfstraumurinn er kaldur, kemur þessi hitaútgufun ekki fyrir og þá er tiltölulega hlýtt í Vestur-Grænlandi og á meginlandi Evrópu. En þegar Golfstraumurinn ræður nú svo miklu um veðurfar í álfunni, þá er það ljóst, að með því að rannsaka hann gaumgæfilega, geta menn sagt fyrir um veðráttu mánuðum saman. Því að hreytingar á Golfstrauminum eru afar hægfara og veðrátta sú, er hann veldur, er því nokkurn veginn stöðug, eins og reynslan hefir sýnt í vetur. Ef vér hefðum vitað það í haust, að sterkur og hlýr Golfstraumur veldur kulda á meginlandi Evrópu, og jafnframt vitað, að hann var óvenju hlýr í haust, þá hefði verið hægt að segja fyrir um vetrarharðindin. Í sumar fer Sandström norður í höf til þess að rannsaka Golfstrauminn og áhrif hans. Hefir verið leigt norskt skip til fararinnar og ætlar Sandström að vera þrjá mánuði í þessum leiðangri og koma hvergi við land á þeim tíma nema sem allra snöggvast á Svalbarða.

Tíminn segir 6.apríl frá óvenjulegum músagangi og fári í svartfugli:

Músagangur hefir verið óvenjulega mikill um allt land og eigi síst norðanlands nú í vetur. Hefir músum mjög fjölgað í góðærinu sem vonlegt er. Hefir kveðið mjög rammt að ófögnuði þessum sumstaðar í Þingeyjarsýslu, svo að til vandræða hefir horft á sumum bæjum.

Fár í svartfugli. Fregnir berast um það, að fár mikið sé í svartfugli um þessar mundir og rekur mjög mikið af dauðum fugli fyrir norðan land.

Morgunblaðið 9.apríl:

FB 3.apríl. Tíðarfar. Einmuna blíða á hverjum degi. Engin frostnótt komið síðan með marsbyrjun. Tún eru mikið farið að grænka. Sóleyjar sá ég í túni mínu þ. 19. mars. — Byrjað var að vinna áð jarðabótum hér í byrjun marsmánaðar. Víða er búið að sleppa fé, ...

En þ.16. gerði allhart hret. Morgunblaðið segir frá 18.apríl [Til er grein um þessi hret: Bjarni E. Guðleifsson, 1984. Kaupfélagshretin. Heimaslóð 3: 67-70.]:

Ægissíðu, miðvikudag. Bylur hefir verið hér í dag, ekki meiri fannkoma en svo, að aðeins hefir gránað, en veðurhæð mikil og talsvert frost, svo að komið er hrím á glugga. Enn hvassara var þó uppi á Landi og var þar mikið sandveður og eins niður um alla Rangárvöllu. — Bændur höfðu sleppt fé sinu fyrir löngu, en nú var því smalað í dag eins og við varð komið.

Akureyri, miðvikudag. Kaupfélagshret. Hefir verið norðanhríð dag með -4 stiga frosti og hvasst. Lítill hefir þó verið snjóburður hér, en hvítt er orðið ofan í sjó hinum megin fjarðarins og alhvítt fram í firði. Þetta kalla menn hér Kaupfélagshret. Á að halda aðalfund Kaupfélags Eyfirðinga á morgun, en það hefir verið segin saga undanfarin ár, að rétt á undan aðalfundum Kaupfélagsins hefir gert þau verstu hret, sem hér hafa komið.

Morgunblaðið segir enn hretafréttir 19. og 21. apríl:

[19.] Borgarnesi, FB. 18. apríl. Norðanrok og hvítt niður undir sjó. Skepnuhöld góð. Voru menn almennt búnir að sleppa fyrir löngu, en nú eru menn að taka fé á gjöf aftur, vegna, kuldans.

[21.] Vestmanaeyjum, FB 19. apríl. Fyrri hluta vikunnar dágóður afli, en fór minnkandi. Fimmtudagsnótt snjóaði hér, um morguninn alhvít jörð og norðanstormur. Bátar gátu lítið athafnað sig á sjónum þann dag og sneru fljótt heimleiðis. Í dag landlega. Norðanstormur og kuldi.

Maí var heldur hretasamur framan af - en batnaði síðan. Merkasta hretið gerði þann 4. og 5.. var mikil viðbrigði frá allri undangenginni blíðu. Veðurathugunarmenn segja frá maítíð:

Lambavatn. Það var kalt og þurrviðrasamt svo allur gróður var kyrkingslegur þar til síðustu dagana að stillti til og grænkaði.

Húsavík: Fyrstu viku maí var hart snjóáfelli og kuldar og stormar til hins 17. Stöðvaðist allur gróður og dó út nýgræðingur. Síðari hluta mánaðarins glærur og fremur kaldar hafgolur. Úthagi nú að mestu algrænn, og von um enn geti orðið gott grasár.

Fagridalur: Sífelld ótíð miklum snjó fyrri hluta mánaðarins, en þá fór að hlýna og í lok mánaðarins er allt lifnað aftur.

Stórinúpur: Fremur kaldrænt meiri hluta mánaðarins og grasvexti fór lítið fram. Gerði afskapabyl 4., fennti fé í heimahögum og afrétti. Ár stífluðust eða þurrkuðust upp af snjókomunni. Sumar smáár þornuðu alveg. Þjórsá varð svo lítil að enginn maður hefur séð hana slíka. Rann sumstaðar aðeins hér í hraungjám í botninum.

Það er harla óvenjulegt að mestu hríð vetrarins geri í maí - en svo virðist hafa orðið að þessu sinni.

Slide4

Atburðarásin var afskaplega hefðbundin. Vaxandi háloftalægðardrag kom úr norðvestri, yfir Grænland og olli vestlægum áttum í efri hluta veðrahvolfs. Hlýtt loft samfara djúpri lægð við Bretland sótti á móti - með vaxandi norðaustanátt. Þannig gat snjóað á Suðurlandi, þrátt fyrir að áttin væri norðaustlæg. Athugið að línur á þessu korti eru þéttar dregnar heldur en hefðbundið er. 

Morgunblaðið segir af hríðinni í pistli 5.maí:

Hríðin. Í gær mun hafa verið versta veður um land allt, ofsarok af norðri með stórbrimi á Norðurlandi og fannkomu um mikinn hluta landsins. Á Siglufirði hefir snjóað þrjá undanfarna daga, og er komin mikil fönn þar norður frá. Suður í Ölfusi var svo mikil fannkoma að bílar fóru þar útaf veginum og komust ekki leiðar sinnar, að því er Morgunblaðið frétti frá Ölfusárbrú. Frost var ekki mikið norðanlands í gærdag. Skipagöngur hafa ekki teppst til og frá Siglufirði, þrátt fyrir hríðina. Hér var frostlaust veður framan af í gær, en kólnaði með kvöldinu jafnframt því, sem veður harðnaði og gerði verra veður en kom nokkuru sinni á nýliðnum vetri.

Fimmtán bílar voru veðurtepptir að Ölfusárbrú í gær og um 50—60 manns næturgestir í Tryggvaskála í nótt. Í bylnum í gær spilltist færðin mjög á vegunum fyrir austan fjall; var veðrið svo vont seinnipartinn, að vegurinn sást ekki og óku margir út af hjá Ingólfsfjalli. Eins og nærri má geta, leið farþegum illa í hrakningum þessum, en slys varð ekkert. Unglingstelpa hafði verið í einum bílnum, sem festist og varð henni svo kalt af að standa úti í hríðinni, að hún féll í yfirlið og var borin austur að Tryggvaskála. Hresstist hún strax er þangað kom og hafði náð sér að fullu í gærkvöldi.

Morgunblaðið segir enn 7.maí:

Borgarnesi, 5. maí FB. Veðrið er allslæmt hér, en ekki frést um skaða af völdum þess enn. Ætla menn, að veður hafi ekki verið það slæmt, að fé hafi farist.

Eyrarbakka, 5. maí FB. Engan bát vantar. Allhvasst í gær og hlóð niður talsverðum snjó, en hann hefir tekið upp að mestu aftur. Gott veður í dag.

Þjórsá, 5. maí FB. Þreifandi norðanbylur skall á hér um miðnætti í fyrrinótt og hélst í þrjú dægur. Nú sæmilegt veður og byllaust, en allhvasst. — Veður var svo slæmt fyrsta daginn, að ógerningur var að finna fé, varla farandi milli bæja. — Muna menn ekki slíkt veður á þessum tíma árs og varla svo slæmt vetrarveður um langt skeið. Veðrið var vægara austur í Hvolhreppi og Fljótshlíð. Hér eru þriggja mannhæða skaflar sumstaðar, þar sem brúnir eru, og eru menn nú að ná fé úr fönn. Snjóinn leysir fljótt upp og menn moka upp skafla sem óðast, en menn óttast mjög, að talsvert af fé hafi farist, en þó verður ekki með vissu sagt um það enn. Veður mun hafa verið heldur vægara uppi í Hreppum, en sennilega hefir fé fennt þar líka.

Keflavík, 5. maí FB. Allir bátar komnir fram. — Í morgun voru níu komnir til Sandgerðis, tveir til Hafnarfjarðar í morgun, einn náði landi í Njarðvíkunum í gær og tveir hér, einn bátur lá undir Hafnarbjargi í nótt, mun nú kominn til Sandgerðis. Átta bátar héðan vora ekki í róðri, þar af tveir í Reykjavík. — Í Sandgerði mun engan bát vanta. — Töluverðum snjó hlóð hér niður, en er sem óðast að taka upp. Ekki frést, að fé hafi fennt. , Afli ágætur, alltaf komið að með fulla báta. Flestir bátanna hér hafa fengið upp undir sex hundruð skippund og sumir á sjöunda hundrað töluvert. Hefir aldrei verið annar eins afli hér og á þessari vertíð.

Akureyri, 5. maí FB. Stórhríð á tímabili í gær. Bjart yfir og hláka í dag. Þó alsnjóa enn, nema rétt hér í kring. — Ekki frést hingað enn um nokkra skaða af völdum ofsaveðursins. — Ágætis afli alveg inn á poll. Góð atvinna og vellíðan.

Seinustu fregnir. Fé og hesta hefir fennt til dauðs. Í gærkvöldi bárust Morgunblaðinu þær fregnir, að í gær og fyrradag hefði menn víðsvegar í uppsveitum Árnessýslu verið að draga fé úr fönn. Frá Skálholti fundust 14 kindur fenntar, þar af 2 dauðar. Frá Spóastöðum fundust 11 kindur í fönn, en allar lifandi. Frá Miklaholti fundust nokkrar kindur í fönn og voru þær allar lifandi, en þaðan fundust líka tveir hestar fenntir og voru báðir dauðir. Frá flestum bæjum í Grímsnesi hafa margar kindur fundist í fönn, sumar dauðar, en flestum hafa menn þó náð lifandi.

Bílaferðirnar austur yfir fjall. Á laugardaginn [4.maí], í veðrinu mikla, urðu fjöldamargir bílar hríðtepptir fyrir austan fjall og á fjallinu. Tveir bílar tepptust í Kömbum, og fóru mennirnir gangandi þaðan niður veginn, en urðu að hafa sig alla við að rata. Var veðurhæð afar mikil, blindhríð og kóf. Þegar þeir komu niður undir Kotströnd, sáu þeir glóra í kirkjuna og náðu henni. En þá var dimmviðrið svo mikið, að þeir sáu ekki bæinn, þótt hann sé rétt hjá, og voru um stund að bræða með sér, hvort þeir ættu heldur að leita að bænum, eða reyna að þræða veginn undan veðrinu niður að Ölfusárbrú. Þó varð það úr að þeir leituðu bæjarins og náðu honum. Á sunnudag lögðu 12 bílar í fylkingu að austan. Voru mokstrarmenn í fremsta bílnum og ýmsum fleiri voru fengnar rekur og var bílunum svo rudd braut í gegn um verstu snjóskaflana. Voru þeir á leiðinni mestan hluta dagsins, en strönduðu í snjó neðan við Hólm. Þar urðu allir að ganga af bílunum og niður að Baldurshaga, en bílar komu þangað upp eftir að sækja þá. — Í gærmorgun voru bílarnir orðnir 16, sem stöðvast höfðu hjá Hólmi og voru þá sendir menn upp eftir til þess að ryðja þeim braut í gegnum skaflana.

Morgunblaðið segir 9.maí af slysi í Fnjóskadal:

Á laugardagsmorguninn [4.] var fór bóndinn á Belgsá í Fnjóskadal, Karl Kristjánsson, að smala fé sínu. Var norðanhríðin þá skollin yfir með mikilli fannkomu. Kom hann heim aftur um nónbilið. Vantaði hann þá talsvert af fénu. Fór hann því brátt aftur að leita. Bærinn Belgsá stendur að austanverðu í dalnum. Er fjallshlíðin þar snarbrött með köflum. Þegar þannig viðrar eru snjóflóð þar nokkuð tíð. Er mælt að fyrir einum 100 árum hafi bóndinn á Belgsá farist í snjóflóði. Er Karl fór út í hríðina að afliðnu nóni á laugardaginn, hafði fóstri hans, aldraður maður, Indriði að nafni, orð á því við hann, að hann skyldi vara sig á snjóflóðahættunni. Segir nú ekki af ferðum Karls. Undir kvöldið fer heimilisfólki að lengja eftir honum. Veður fór heldur versnandi. Er komið var langt fram á kvöld réð húsfreyja það við sig að leggja út í hríðina til þess að leita af manni sínum. Í fylgd með henni var piltur um fermingu, sem var gestkomandi á bænum þann dag. Ákváðu þau að reyna að komast á beitarhús jarðarinnar, því þau vonuðust eftir, að bóndinn hefði komist þangað. Beitarhúsin eru á eyðijörð fram í dalnum og er löng bæjarleið á milli. Húsfreyjan er Jónasína Sigurðardóttir frá Veturliðastöðum. — Tókst henni og piltinum að ná beitarhúsunum; þar grípa þau í tómt. Halda þaðan heimleiðis móti hríðinni. Var það þrekraun að komast þá leið í blindbylnum. Er fram á nóttina kemur leggur Jónasína enn á stað og fer nú út að Þóroddsstöðum. Vekur hún þar upp og biður liðsinnis. Er hafin leit strax á sunnudagsmorguninn, og hefir henni verið haldið sleitulaust áfram síðan. Er stórhríðinni létti af urðu menn varir við snjóflóð mikið, er fallið hafði skammt frá Belgsá. — Fannst stafur Karls þar á sunnudag. Allt að tuttugu menn hafa starfað að því að grafa í snjóhrönnunum. Húfa Karls fannst á mánudag. En annan árangur hefir leitin ekki borið, er síðast fréttist. Karl var maður á fertugsaldri, giftur fyrir rúmlega ári. — Áttu þau hjón einn son.

Morgunblaðið segir enn af afleiðingum hretsins í pistli 11.maí:

Fjárskaðarnir fyrir austan. Ekki hafa enn komið neinar áreiðanlegar fregnir um, hve miklir hafa orðið fjárskaðar hér í austursýslunum í ofviðrinu mikla fyrir helgina. Fé var komið á afrétt og er því ekki gott að vita hve mikið mun finnast lifandi af því, sem enn vantar. Má vera að flest finnist, en víða eru enn miklar fannir, sem ekki hafa verið rannsakaðar, og þar getur fé leynist enn, bæði dautt og lifandi. — Af fjársköðum hefir blaðið frétt, að í Bolbolti hafi farist 8 kindur. Á ýmsum bæjum í Holtum hafa líka orðið vanhöld og vitað er um þó nokkrar kindur, sem hafa drepist í skurðum í Safamýri.

Tíminn segir líka hretfréttir 11.maí:

Stórkostlegar skemmdir hafa orðið á trjám, runnum og blómjurtum í görðum hér í borginni. Voru tré víða allaufguð áður enn kuldinn hófst, en standa nú blaðlaus og munu þurfa langan tíma til að rétta við aftur.

Morgunblaðið segir enn af hretinu í pistli 12.maí:

Fannkoma var mikil í Borgarfirði um síðustu helgi  [4. til 5.]. Fé vantar enn í Norðurárdal og hætt við, að það hafi fennt. Í Þverárhlíð fennti ekki fé. Í Helgavatnsskógi voru nokkrar kindur dregnar úr fönn og mun það ekki kafa komið fyrir áður. Hætt er við, að hross, sem komin voru á fjall. hafi fennt. — Hafa menn verið gerðir út til þess að grennslast eftir því, en eigi eru þeir komnir aftur. Frost á nóttum og svalviðri, svo gróður vill deyja jafnóðum.

En síðan sneri blíðan aftur. Morgunblaðið 16.maí:

Reykjavík og veðurblíðan. Það er gaman að sjá hve margir menn hér í borginni keppast við að laga í kringum hús sín þessa góðviðrisdaga. Þekja hlöðin, gróðursetja tré og blóm, flytja burt skran og taka til. Ef þessu heldur svona áfram, verður mörgu kippt í lag fyrir hvítasunnuhátíðina, sem jafnan er hin yndislegasta hátíð vorsins. Það væri gott að ýmislegt yrði gert, bænum til prýði og fegrunar einmitt á þessu vori, því margt verður að gera næsta vor, enda ætti það að vera yndi bæjarbúa og ánægja, ekki einungis 1930 heldur öll ár, að gera garðinn frægan með því að græða upp blettina við húsin og halda þar öllu í röð og reglu. Ef útlendir stórbæir hefðu það rými við húsin sem Reykjavíkurbúar almennt hafa, mundu þeir hrósa happi að hafa þar afdrep fyrir börn sín til leikja og gera sjálfum sér þar smágarða til yndis og ánægju. Það er furðulegt hvað gera má þótt úr litlu sé að spila, það sýna húsagarðarnir erlendis. Þar ættum við að taka okkur útlendingana til fyrirmyndar. Lögreglustjóri hefir fyrirskipað almenna vorhreinsun fyrir 20. maí. Vonandi verða allir búnir að laga til hjá sér fyrir þann tíma. Allt bendir, sem betur fer, í þá átt. H.

Af Langanesströnd. Hér er sama einmuna tíðin og verið hefir í allan vetur, svo góð, að elstu menn muna engan annan eins vetur og þennan að stöðugum veðurblíðum. Á annan í páskum snjóaði dálítið, en þann snjó tók að mestu leyti upp daginn eftir. Annar snjór hefir ekki komið hér síðan nokkru eftir hátíðar.Jörð er nú farin að gróa að miklum mun og einstöku sóleyjar farnar að springa út í túnum. Þ. 11. þ.m. var hér 15 stiga hiti í forsælu. Menn eru nú farnir að þekja flög þau, er þeir ristu ofan af í vetur. Nokkrir bændur eru farnir að taka upp mó. Farið er að láta út kýr á stöku stað. — Til lóunnar heyrðist hér fyrst á páskadagsmorgun. Hrognkelsaveiði hefir verið fremur lítil, en er nú heldur að aukast.

Morgunblaðið segir fréttir úr Húnaþingi 17.maí - dagsetningar ekki getið - en líklega er verið að tala um veðrið þann 4. eða 5.:

Úr Húnaþingi. Hið fágæta blíðuveður hélst fram yfir miðjan apríl — til 17. — gekk þá í norðaustan með kafaldi öðru hverju, hafa norðan áttirnar haldist síðan. Í dag norðan hríð, mikil fannkoma, frost tvö stig. Klukkan átta að kvöldi 4 stig. Víða var búið að sleppa fénaði, sumstaðar komið á fjöll. Hafa margir tekið hann aftur. Eftir fréttum að dæma hafa fénaðarhöldin verið fremur góð, en við búið að tíðarumskiptin verði fénaðinum varasöm, hvað heilsu snertir, einkum í þeim héruðum, þar sem veiklunar hefir orðið vart.

Morgunblaðið segir af veðurskeytum 29.maí:

Veðurskeytin verða frá 1. júní send á 1910,8 m bylgju, frá loftskeytastöðinni, en útvarpað á 1200 m bylgju. Á helgum dögum verða skeytin send kl. 11:20 f.h.

Morgunblaðið segir 30.maí frá tíð í Vestmannaeyjum:

Vestmannaeyjum, FB. 27. maí. Síðustu viku hálfgerð rosatíð. Einu sinni farið til fiskjar. Afli lítill sem enginn. Nú blíðviðri.

Veðráttan getur þess að í mánuðinum hafi orðið fjárskaðar í vatnagangi í leysingum norðaustanlands (dagsetning ónákvæm).

Veðurathugunarmenn segja af júnítíð: 

Suðureyri: Fremur hlýtt, mjög þurrt, nokkuð vindasamt.

Hraun í Fljótum: Tíðarfar fremur svalt, sérstaklega um nætur, þangað til síðustu daga mánaðarins. Þó tók út yfir um sólstöðurnar. Hretaði þá víða um Norðurland og gjörði hvítt af snjó í fjöllum og niður á láglendi í dölum, en tók fljótt aftur. Þurrviðri voru mikil fram yfir miðjan mánuð og fór grasvexti lítið fram, allt fram yfir hretið. Stormar voru litlir sem engir; aðeins þann fyrsta og svo aftur í hretinu þann 22, en oft voru kuldanæðingar.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin í meðallagi heit og úrkomulítil. Má því kallast fremur hagstæð. Í lok mánaðarins gott útlit. Grasspretta í túnum með betra móti.

Morgunblaðið segir af illviðri í pistli 8.júní:

Frá Ísafirði var símað í gær [7.], að þar væri vonskuveður, norðanstormur með mikilli úrkomu og svo illt í sjóinn, að handfæraskip voru að flýja þangað inn að leita sér skjóls.

Morgunblaðið segir af gróðri 13.júní:

Tún eru farin að spretta ágætlega hér í Reykjavík og víða búið að slá einu sinni, og á einum stað, — túni frú Katrínar Magnússon, — tvisvar. Í Gróðrarstöðinni er búið að slá alla blettina, eins í garðinum við Tjarnarendann. — Gömlum mönnum myndi þykja þetta snemma byrjað á slætti, en tíðin hefir líka verið aftaka góð.

Siglfirðingur segir 23.júní af hreti - þá gerði krapahríð víða á norðausturlandi, en festi ekki á láglendi:

Utanátt, bleytur og fremur kalt alla vikuna, Snjóað hefir á nóttum í fjöll og í gær var krapahríð. Sjóveður hafa verið slœm.

Morgunblaðið segir 27.júní af varpi í Grímsey:

Varpið í Grímsey. Norðanblöðin skýra frá því, að varpið í Grímsey hafi algerlega brugðist, að þessu sinni, og er ástæðan sú, að sögn Grímseyinga, að fuglinn hefir drepist í vetur í stórhópum. Hefir sáralítið verið af fugli við Grímsey í vor, og búast eyjarskeggjar við, að þetta lagist ekki fyrr en eftir nokkurra ára skeið.

Veðráttan segir að 2.júlí hafi verið snjókoma sums staðar norðaustanlands, en ekki fest ekki á láglendi. Hafís birtist á Húnaflóa og var allmikill um tíma, og fram í ágúst. Hafískoman var afleiðing af hinu afbrigðilega tíðarfari vetrar og vors, suðvestlægum áttum í Grænlandssundi og vestanáttum eða áttleysu yfir Austur-Grænlandsstraumnum norður í hafi. 

Veðurathugunarmenn segja af júlítíð:

Júlí: Hvanneyri: Mjög úrkomulítið og að öllu ákjósanlegasta heyskaparveður.

Lambavatn: Það hefir verið hagstætt fyrir landið, hlýtt og skipst á þurrkur og væta.

Grænhóll: Mánuðurinn hlýr og hægviðri yfirleitt. Hafíshroði allmikill oft hér í flóanum síðan 7.júlí.

Húsavík: Veðráttan yfirleitt stillt en fremur köld. Fyrstu dagana súldir. Oft kaldar hafrænur og þokuloft og skin á milli. Aldrei sést hafís hér úti fyrir.

Nefbjarnarstaðir. Tíðarfar mjög hagstætt.

Morgunblaðið segir 19.júlí fréttir að norðan:

Tíðarfarið. Loks kom að því, að tíðarfarið breyttist til hins verra hér norður frá. Var ekki við því að búast, að slík veðurgæði héldust til lengdar. Úr miðjum apríl gekk í þráláta norðaustanátt og kulda, sem héldust stöðugt, að heita mátti fram í miðjan maímánuð. Snjóaði þá mikið í sumum byggðarlögum hér, en í öðrum var að heita mátti auð jörð. Var kominn töluvert mikill gróður hér fyrir þessa kulda; t.d. var fjalldrapi víðast hvar útsprunginn og farið að grænka í túnum. En þessum gróðri fór aftur eða stóð í stað, því frost voru oft á nóttum. — Um miðjan maímánuð hlýnaði aftur og gerði sæmilega góða tíð, úrkomur töluverðar af og til, en hlýindi þó. Er útlit fyrir að spretta verði vel i meðallagi, ef ekki koma kuldar; stofn á túnum góður, en engjar lakari.

Morgunblaðið segir af hafís 20.júlí:

Hafís. Þegar Ari fór af veiðum í fyrradag, hitti hann talsverðan hafís á Húnaflóá. Kári Sölmundarson, sem fór þar um 10 tímum seinna, varð lítið var við ís. Aftur á móti símaði Skallagrímur í gærkvöldi, að ís væri í flóanum.

Þann 23.júlí varð harður jarðskjálfti á Reykjanesi. Upptökin nú talin í Brennisteinsfjöllum og giskað á styrk 6. Þetta er líklega sterkasti skjálfti aldarinnar í Reykjavík.

Morgunblaðið segir frá 24.júlí:

Stundarfjórðungi fyrir klukkan 6 í gær, kom hér í Reykjavík svo harður jarðskjálftakippur, að menn muna hér ekki annan eins. Hús hristust svo að brakaði í þeim, og fjölda fólks var nóg boðið, svo það þusti út á göturnar, sumpart til að bjarga sér, ef húsin skyldu hrynja, sumpart til þess, að verða sjónarvottar að atburðum þeim, er fyrir kæmi í grenndinni. Talið er, að kippurinn hafi staðið 35—40 sekúndur. Er það langur jarðskjálftakippur. Mest brögð virðast hafa orðið að skemmdum á húsum þeim, sem hlaðin eru úr grásteini, svo sem Alþingishúsinu og Landssímastöðinni. Í velflestum herbergjum þinghússins mun bera á  sprungum, einkum meðfram loftum og hrundi nokkuð niður af loftlistum — einkum í Neðri deild. Konungsmerkið með kórónunni á þakskegginu yfir innganginum, fékk þverbrest og datt lítill moli úr merkinu niður á gangstéttina. Landssímastöðvarhúsið skemmdist og talsvert, veggir sprungu, reykháfur hrundi og þess háttar. Reykháfar hrundu á allmörgum stöðum í bænum og hefir blaðið ekki tölu á þeim. Sprungur komu í veggi á nokkrum steinsteypuhúsum.

Svo mikil varð jarðhræringin, að þeir sem úti voru, nálægt háum húsum, sáu þau vingsast til. Hvein og brakaði í öllum húsum svo brakhljóðið og glumrugangurinn minnti á að komið var allt í einu ofsarok. En veður varið besta, blæjalogn og sólskin. Á Tjörnina kom allmikil bára, og við hristinginn gaus upp úr henni óþefur mikill. Sumstaðar sáust göturnar og gangstéttirnar ganga svo til að sást í raðir gangstéttaflísanna er þær sporðreistust augnablik úr stellingum sínu. Almennt mun það vera álít manna að jarðskjálftakippur þessi hafi ekki mátt verða mikið meiri til þess að hér hefðu hús hrunið og yfirskollið hið hörmulegasta slys sem fyrir þennan bæ getur komið.

Jarðskjálftinn náði austur að Skeiðarársandi, vestur á Snæfellsnes, norður á Borðeyri, að því er Morgunblaðið frétti í gær. Eins og eðlilegt er, verður mönnum tíðrætt um það, hvort, þessi jarðskjálfti, er náði yfir svo stórt svæði muni vera fyrirboði þess, að eldgos sé í vændum. Er eigi ólíklega tilgetið að svo sé. En hvar er eldsumbrota að vænta. Dr. Helgi Pjeturss mun hafa haldið því fram í vetur, að vænta mætti eldsumbrota í Henglinum. Aðrir spá að Hekla muni nú láta á sér bæra. En sé svo, að upptök jarðskjálftanna. séu austur við Heklu, mun munurinn á styrkleika. þeirra þar eystra og hér í gær tiltölulega lítill. Eftir jarðskjálftasvæðinu í gær að dæma, ættu upptökin að vera vestar en í Heklu.

Sprungur komu í eystri hafnargarðinn, „Batterísgarðinn“, einar þrjár, og garðhausinn við hafnarmynnið raskaðist eitthvað, óvíst hve mikið. Sprunga kom einnig í hafnarbakkann, þar sem kolahegrinn er.

Annar kippur, miklu vægari, kom klukkan rúmlega sjö og hinn þriðji, þeirra vægastur, klukkan átta.

Morgunblaðið segir frekari jarðskjálftafréttir 25.júlí:

Jarðskjálftinn fannst greinilega á Vestfjörðuna, var kippurinn t.d. allsnarpur á Ísafirði, svo snarpur að bollar brotnuðu t.d., eða annað brothætt i einstaka húsi. Er mjög óvanalegt, að svo snarpur jarðskjálfti komi þar vestra. Kippurinn sem mestur var hér fannst og greinilega á Siglufirði. Hann hefir því náð um meira en hálft landið. Í gær urðu menn varir við nokkrar sprungur í steinhúsum hér í bænum, sem eigi var veitt eftirtekt strax í fyrradag, en komið hafa í jarðskjálftunum.

Morgunblaðið segir af Skeiðará 26.júlí - og síðan heyskaparhorfum:

Undanfarin 50—60 ár hefir Skeiðará haft farveg fast. austur við Öræfi, við Skaftafell. Smákvíslar hafa við og við runnið vestur á Skeiðarársand, en aldrei hefir verulegt vatn verið þar, nema þegar hlaup hefir komið í Skeiðará. En nú hefir breyting orðið á þessu. Nú hefir Skeiðará rutt sér farveg fram af miðjum sandinum. Á laugardaginn var braust bún þarna fram með jakaferð og töluverðu vatnsflóði. Voru símamenn að vinnu á sandinum, þegar áin braust fram, 0g tók hún einn símastaur með sér. Á sama tíma og áin braust fram vestur á sandi, varð hún lítil í sínum venjulega farveg. Þessi umbrot í Skeiðará, hafa kunnugir menn eystra sett í samband við hlaup, er mundi vera í aðsigi. Öræfingar sjá venjulega fyrir, þegar Skeiðarárhlaup er í vændum; ráða þeir það af ýmsum breytingum á jöklinum, hann hækkar ört, þegar hlaup er í aðsigi. Skeiðarárhlaup koma venjulega á 5—11 ára fresti. Síðasta hlaup var í september 1922.

Þjórsárbrú, FB. 24. júlí. Grasvöxtur yfirleitt ágætur þar sem til spyrst, bæði á túnum og útengi. Sérstaklega góður grasvöxtur á áveituengjum, þar sem nægilegt vatn fékkst. Túnasláttur allstaðar vel á veg kominn, sumir um það bil búnir, aðrir vel hálfnaðir. Taðan hirt eftir hendinni hjá flestum.

Holti, FB. 24. júlí. Grasvöxtur í besta lagi hér um slóðir. Gras breiðir sig viðast hvar á túnum og góðengjum. Heyskapur gengur yfirleitt, ágætlega hjá mönnum.

Borgarnesi, FB. 25. júlí. Heyskapur gengur ágætlega héraðinu. Tún sprottin í allra besta lagi. Nýting ágæt. Menn eru ekki almennt búnir með tún ennþá; langt komnir þó niðri í héraðinu, í uppsveitunum um það bil hálfnaðir flestir. Sprettuútlit á engjum var ekki gott, en hefir batnað mikið upp á síðkastið.

Um það bil sem sterkasti jarðskjálftakippurinn reið yfir, sáu menn í Hafnarfirði að reykmökkur gaus upp úr hrauninu skammt frá Helgafelli. Og nokkru seinna uppgötvaðist það, að vatnið í vatnsæðum bæjarins var gruggugt og þóttust menn finna af því brennisteinskeim. Víða hrundu skriður úr fjöllum hér nærlendis, og grjót úr björgum. Sundlaugin hjá Reykjavík sprakk og hripaði allt vatnið úr henni, svo engin sundkennsla getur farið fram fyrst um sinn. En nú er þó þegar byrjað á því, að gera við skemmdirnar. Myndastytta af Jóni Sigurðssyni, sem geymd er í herbergi hans uppi á lofti í Alþingishúsinu, datt í jarðskjálftanum og brotnaði. Snarpari kippur hefir áreiðanlega ekki komið Borgarnesi seinustu 20 árin, segir í símfregn frá Borgarnesi.

Slide7

Þessi drungalega mynd birtist í Morgunblaðinu, hafís í þoku á Húnaflóa á einu hlýjasta ári allra tíma - segir okkur að þótt getið sé um hafís í fregn eða annál þarf það ekki að tákna að um kalt ár eða kuldatíð hafi verið að ræða. 

Skip rakst á ísjaka á Húnaflóa og laskaðist. Morgunblaðið segir frá 27.júlí:

Ísafirði FB 26. júlí. „Nóva“ rakst á hafísjaka í gærkvöldi á Húnaflóa og laskaðist svo mjög, að sjór féll inn í fremra lestarrúm. Bátar voru þegar settir lausir og allt var haft til reiðu, að yfirgefa mætti skipið, því talið var víst, að það mundi sökkva, ef lestarskilrúm biluðu. Nóva kom hingað í nótt og hafa vörur verið losaðar úr henni. Skipið verður lagt upp í fjöru í nótt. [Nánari frásögn farþega má finna í Mbl. 18.ágúst].

Jarðskjálftar í Grindavík. — Í fyrrinótt [26.] urðu afar mikil brögð að jarðskjálftum í Grindavík, eftir því, sem Morgunblaðinu var símað í gær. Taldir voru um tuttugu kippir og sumir mjög snarpir, svo að fólk gat tæpast sofið í húsum, eftir því sem tíðindamaður blaðsins skýrði frá. Fæstir af þessum kippum munu hafa fundist hér.

Þetta sumar birtu blöðin oft fréttir af ferðum flugvéla á landinu. Tímamót urðu. Hér kemur fram að Flugfélagið réði sérstakan veðurfræðing til að gera flugveðurspár - í samvinnu við Veðurstofuna. Morgunblaðið 28.júlí:

Dr. Soltau, er undanfarið hefir haft á hendi veðurathuganir fyrir Flugfélag Íslands á Veðurstofunni hér, er á förum héðan. Morgunblaðið náði tali af honum í gær og spurði hann m.a. um veðurathuganir í sambandi við innanlandsflugið. — Veðurathuganir þessar eru afarerfiðar að svo komnu. Veðri hér er þannig háttað, að flugferðir geta aðeins orðið að sumrinu. Á veturna hamla stormar fluginu. Að sumrinu má búast við hafís, svo sem nú er, þótt undantekning sé. Hafísinn flytur með sér þokur, sem gera flugið erfitt, ef ekki ómögulegt, vegna þess að aðeins önnur leiðin um landið er fær, sú nyrðri. Tvö þokusvæði eru hættulegust — fyrir vestanverðu Norðurlandi og sunnanverðu Austurlandi. — Veðráttan norðanlands og sunnan er ákaflega misjöfn. Það er staðreynd, að varla kemur fyrir, að líkt sé veður sunnanlands og norðan. Veðurfregnir þurfa því að verða miklu fullkomnari. Fjórar aðalstöðvar eru hér á landi, sem hafa loftskeytasamband við aðalstöðina — Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Akureyri og Seyðisfjörður. — Þaðan koma veðurfregnir þrisvar á dag. Þessar stöðvar eru auðvitað bestar. Sex stöðvar eru útbúnar með áhöldum til rannsókna, en standa ekki í loftskeytasambandi við stöðina hér. Nokkrar stöðvar eru og hér fleiri, en ófullkomnari. Loks eru sex stöðvar, sem bætt hefir verið við vegna flugferða. Þær eru ekki útbúnar áhöldum, en gefa skýrslu um vindátt, vindstyrk, veðurfar, skýjafar, skýjahæð, útsýni og sjógang. Þær eru að mínu áliti þýðingarmiklar, en geta orðið enn betri, ef þær fá tæki til athugana og skeytasendinga. Allt þarf að verða miklu fullkomnara, ef áreiðanlegt á að verða fyrir flugferðir, enda eru innlendar athuganir hér á byrjunarstigi. — Hvað álitið þér um lendingarstað á Íslandi á leið milli Evrópu og Ameríku? Á þeirri leið er ísland ákjósanlegasti og eini lendingarstaðurinn. Grænland getur alls ekki komið til mála, sökum þess, að veðurfar þar er svo óstillt og þokur tíðar. En til þess þurfa veðurfregnir og veðurathuganir hér að verða fullkomnari. Á Grænlandi þarf ekki að bæta mikið veðurstöðvarnar til þess að nægilegar séu, en á Labrador og þar fyrir norðan þyrfti ábyggilegar veðurstöðvar. — Og samvinna milli veðurstöðvanna í Evrópu og Ameríku? — Samvinnan er nauðsynleg og sjálfsögð. Að vísu verður hún erfið til að byrja með, sökum tímaskekkju, því að hún er 7 tímar milli Hamborgar og New York. En eins og ég sagði áður, þá er Ísland þýðingarmest. Á hafinu verður að sjálfsögðu að notast við veðurfregnir farþegaskipa, enda eru skeytasendingar slíkra skipa stöðugt að fara í vöxt. Þannig eru næstum öll þýsk farþegaskip útbúin með veðurathuganatækjum. Á Labrador og í Newfoundland eru góðar athuganastöðvar. — Hvað segið þér um hugmynd v. Gronau, um reglubundnar flugferðir milli Evrópu og Ameríku. — Hugmynd v. Gronau er auðvitað ágæt og byggð á langri þekking hans á langflugi, sem flugstjóra flugskólans þýska. - Hvað ætlist þér nú fyrir? — Hinn 7. ágúst fer ég héðan, og verð til 1. apríl 1930, kennari við Deutsche Verkehrsfliegerschule, sem v. Gronau stjórnar. Síðan tek ég aftur stöðu mína við Deutsche Seewarte. — Hver verður í yðar stað hérna? — Á næstunni kemur hingað þýskur veðurfræðingur dr. Kantzenbach, sem mun taka við starfi mínu hér. Hann er starfsmaður flugveðurstofnunar i Deutsche Seewarte og mjög fær maður í sinni grein.

Eitthvað gagn varð af hafísnum. Morgunblaðið 31.júlí - einnig segir af skriðufalli:

Hafísinn og íshúsin. Frá Skagaströnd frétti Morgunblaðið í gær, að menn hefðu farið þaðan allmargar ferðir út að hafísnum í Húnaflóa og tekið þar ís til að nota við frystingu síldar. Sjaldgæft að hafís komi að beinum notum. Veður var gott þar nyrðra, þó hafís væri svo nálægt að til hans sæist frá Skagaströnd.

Skriða hljóp úr Ingólfsfjalli í jarðskjálftanum á þriðjudaginn var. Hrundi hún niður undir beitarhúsin frá Leikskálum, sem eru skammt fyrir ofan þjóðveginn. Tveir stórir steinar liggja niðri við veginn, en aðrir við vegg húsanna. Húsin sakaði ekki, enda segir sagan að Guðmundur góði hafi vígt þau í fyrndinni.

Úr Fljótshlíð. Síðan snemma í vor hefir mjög lítið vatn verið í Þverá. — Hefir hún verið svo grunn, að bílar hafa að jafnaði komist hindrunarlaust yfir hana. Hefir þetta sumpart komið til af því, að lítill vöxtur hefir yfirleitt verið í ám, en meira af hinu, að Þveráin hefir lagst frá Hlíðinni, og tiltölulega verið meira vatn í Markárfljóti en venja hefir verið til undanfarin ár. En eftir síðustu fregnum að dæma, er allt að fara í hið fyrra horf, Þveráin að vaxa aftur.

Veðurathugunarmenn segja af tíð í ágúst:

Ágúst: Flatey (Stefán Egilsson). Það má með nýjungum teljast að engin kofna eða lundatekja verður á Breiðarfjarðareyjum í ár. Þegar farið var að aðgæta á venjulegum tíma er allur lundi farinn og kofan dauð í holunum. Orsök vita menn ekki. Sennilegast þykir að smokkfiskur sem kom óvenjusnemma hafi fælt burt sílið og linninn svo orðið að flýja af bjargarskorti.

Lambavatn: Það hefir verið sama blíðviðrið og hagstætt bæði á landi og sjó. Nú síðustu vikuna hefir verið stilla á sjó og landi svo ekki sést ský né fundist undiralda. En aðeins vottur af hélu svo frosið aðeins á mosa í mýrunum. Þ.15. Farnir skaflarnir í Stálfjallinu. Hafa þeir aldrei horfið til fulls í manna minni.

Grænhóll: Hafís úti fyrir meiri part mánaðarins. Snjór nýr á fjöllum alltaf eftir 23. ágúst og þá hvítt í sjó í fyrsta sinni.

Kollsá (Sigurjón Jónsson). Þ.15. Rak hafísjaka inn í Hrútafjörð.

Fagridalur: Góð og hagstæð tíð til 23. og 24., þá stórrigning og úr því óþurrkar út mánuðinn.

Vík í Mýrdal (Haraldur Jónsson): Tíð yfirleitt fremur góð. Nokkur óþurrkakafli um miðjan mánuðinn, en stórrigningar engar.

Morgunblaðið segir af næturfrosti 8.ágúst:

Túnasláttur er almennt að verða búinn i Borgarfirði og bændur komnir á engjar. Taðan er með langmesta móti og nýting ágæt. Frost hefir verið í Borgarfirði undanfarnar nætur; var hylmað yfir polla í Reykholtsdalnum aðfaranótt þriðjudags og miðvikudags.

Kartöfluuppskera byrjuð. Morgunblaðið skýrði frá því í vor, að kartöflum hefði verið sáð í garð hér í Reykjavík hinn 12. mars. Mun aldrei hafa verið sáð jafnsnemma á Íslandi. Og nú er uppskeran komin. Hinn 3. þ. mán. var byrjað að taka upp úr garðinum og varð uppskeran góð. Ein kartafla er til sýnis í glugga Morgunblaðsins í dag.

Þann 1.ágúst sló eldingu niður í gaddavírsgirðingu. Tíminn segir frá því 10.ágúst:

Úr Skaftártungum. Fyrir rúmri viku síðan laust niður eldingu í gaddavírsgirðingu hjá Syðri-Steinsmýri í Meðallandi. Girðingin eyðilagðist á 30 faðma svæði, vírþræðirnir suðust meira og minna saman og kubbuðust sundur að nokkru leyti í örsmáa búta, en staurarnir tvístruðust. Tveim dögum seinna kom önnur elding, sem laust niður svo nærri bænum á Steinsmýri að hann hristist mjög mikið. Grasspretta er með besta móti hér sunnanlands og nýting heyja ágæt.

Morgunblaðið 13.ágúst:

Veiðibjallan [ein af þremur vélum Flugfélags Íslands] kom hingað á laugardagskvöld frá Akureyri. — Ætlaði hún að fljúga til Ísafjarðar, en varð að snúa aftur á Húnaflóa vegna hafísþoku, sem lá þvert yfir fjörðinn eins og veggur. Sneri Veiðibjallan því af leið, fór til Stykkishólms og þaðan til Reykjavíkur. Sænskt flutningaskip sneri aftur á Húnaflóa aðfaranótt föstudags og Ísland sneri aftur í Siglufjarðarmynni á laugardagskvöld, vegna ótta við hafís og þoku. Var þó förinni heitið til Ísafjarðar, en nú sneri skipið við austur um land til Reykjavíkur. Farþegarnir, sem ætluðu til Ísafjarðar, 10—20 talsins, voru settir í land á Siglufirði og ætluðu að fá „Þór“ til að koma sér vestur. Djúpbáturinn á ísafirði var fenginn til þess að flytja hingað farþega, flutning og póst, sem þaðan átti að fara með Íslandi til Reykjavíkur. Þegar Nóva lenti í hafísnum um daginn og braut sig, náði hún fyrst sambandi við „Veiðibjölluna“. Var þá um talað að „Veiðibjallan“ reyndi að bjarga farþegum og skipverjum. Mundi hún hafa getað komið 4 mönnum í land í hverri ferð, en á því þurfti ekki að halda, eins og kunnugt er, því að „Nóva“ flaut og komst klaklaust leiðar sinnar. Þó fylgdi „Veiðibjallan“ henni til vonar og vara alla leið að Straumnesi. — Sést á þessu að flugvélar, sem hafa loftskeyti, geta, er svo ber undir, bjargað mörgum mannslífum.

Flugfélag Íslands tilkynnir í gærkvöldi: Á flugi „Veiðibjöllunnar" til Siglufjarðar sást ís út af Furufirði ca. 25—30 km. undan landi, og náði alla leið suður fyrir Gjögur, var þar næst landi ca. 15 km. Suðurendi spangarinnar nær yfir fyrir Reykjarfjörð, sem er ekki nema ca. 15 km. á breidd, til austurs, og beygir svo til norðausturs og sást ekki út yfir spöngina til norðurs. Ísinn yfirleitt sundurlaus. Siglingaleið vestur fyrir land verður að teljast hættulaus innanvert við ísspöngina.

Daginn eftir voru enn fréttir af hafís og tjóni sem hann olli. Morgunblaðið 14.ágúst - einnig fréttir af Skeiðará:

Seint í gærdag kom vélbáturinn Hakion til Siglufjarðar. Hafði hann lent í hafís á Húnaflóa, misst mestöll veiðarfæri sín og laskast svo mikið, að skipverjar komust með naumindum til Siglufjarðar, með því að dæla í sífellu. Skömmu eftir að báturinn kom þangað, sökk hann þar á höfninni.

PB. 13. ágúst. Landssímastjóri fékk þær fregnir í gær, að Skeiðará hefði tekið að vaxa í fyrradag í sínum gamla farveg, en ekki væri hægt að segja með vissu, hvort hún væri að flytjast eða vöxtur hennar væri undirbúningur undir hlaup. Frá Núpsstað fékk landssímastjóri þær fregnir, að jökullinn væri að verða æ ljótari og menn séu smeykir um að hlaup sé í vændum, þótt ekki verði með vissu um það sagt. Þora menn ekki að hætta sér út á sandinn.

Morgunblaðið segir frá 15.ágúst:

Laxveiði í Borgarfirði er fremur lítil í ár. Í Hvítá er veiðin talin tæplega í meðallagi, og í smáánum sem stangveiði er stunduð við, er veiði í minnsta lagi.

Hafísinn. „Óðinn“ kom í fyrrinótt til Ísafjarðar; hafði flutt farþega þá frá Siglufirði, er ætluðu með Íslandi síðast. Ísinn á Húnaflóa nær langt suður fyrir Reykjarfjörð; en þó er allbreið (10—12 sjómílna) rifa á ísnum norðaustur af Horni og fór Óðinn þar í gegn. Er þar örugg sigling í björtu, en ef þoka er eða dimmviðri, er ógerningur fyrir skip að fara þessa leið.

Þann 16. ágúst varð mikið hlaup í Tungufljóti. Ítarlegar frásagnir af uppruna þess og aðstæðum birtust í blöðum. Það sem hér fer á eftir er nokkuð stytt - en heildartextarnir eru á timarit.is. Guðmundur Kjartanson fjallar um hlaupið í Náttúrufræðingnum 1938 og Sigurður Þórarinsson gerir athugasemdir 1939. Mestar upplýsingar er þó að finna í grein Guttorms Sigbjarnarsonar í Jökli 1969 (að mestu á ensku). 

Morgunblaðið segir fyrst frá 18.ágúst:

Á föstudaginn var [16.ágúst] urðu menn þess varir í Biskupstungum, að Tungufljót óx skyndilega. Varð fljótið svo mikið, er á daginn leið, að gömlu brúna á veginum til Gullfoss tók alveg af, og er annar stöpullinn að mestu hruninn, að því er síðast fréttist. Á engjum meðfram ánni var talsvert af heyjum úti, svo skipt hefir mörg hundruð hestum, ef ekki þúsundum, svo sem á Almenningi, engjum Fellskots, Torfastaða og Bræðratunguhverfis. Tók flæðið allt heyið í gær, jafnt flatt sem sæti. Talið var, að á Torfastöðum hafi farið í flóðið um 100 hestar af heyi, á Króki um 200 hestar og mikið á Lambhúsakoti og Ásakoti, en nákvæmar fregnir eru ókomnar. Tveir menn úr Haukadalshverfinu fóru upp að Hagavatni á föstudag, til þess að athuga þar vegsummerki. Sáu þeir, að jökulstífla sú, sem teppt hefir rennslið úr Hagavatni, er sprungin, og beljar nú vatnið þar fram. Stífla þessi mun hafa haldið Hagavatni uppi undanfarin 20 ár, og hefir það verið mun stærra og dýpra en það áður var. Fyrir mörgum árum hafði svipað hlaup og þetta komið í Tungufljót, og olli þá feikna tjóni. Um miðjan dag í gær óx Hvítá mjög móts við Skálholt; sást þaðan feiknin öll af heyi, er flaut niður eftir ánni. Brúin sem fór í flóðinu var byggð fyrir konungskomuna 1907. Ekki varð vart við vöxt í Ölfusá fyrri en á laugardagsmorgun, og var hann ekki svo mikill að hann kæmi að sök.

Morgunblaðið heldur áfram að segja frá hlaupinu 20.ágúst:

Í gær náði Morgunblaðið samtali við Torfastaði, til þess að fá nánari upplýsingar um flóðið í Tungufljóti. Er flóðið nú mikið farið að fjara. Jafnóðum og fjarar sjást nýjar eyðileggingar, því mikið af engi í Bræðratunguhverfi verður ósláandi í sumar, vegna leðju, sem borist hefir fram í flóðinu. Verst er umhorfs á Pollengi, Fellskots- og Torfastaðaengjum. — Er óhugsandi að þessar engjar verði sláandi í sumar. Vöxtur varð mikill í Hvítá og Ölfusá þegar flóðið hljóp fram. Hjá Kiðjabergi tók það með sér þrjá laxakláfa og 2 net. Móts við Arnarbæli hafði yfirborð Ölfusár vaxið um eina alin, en fjaraði fljótt aftur. Um tjón í Flóa eða Ölfusi hefir ekki heyrst.

Morgunblaðið segir af Skeiðarárjökli 21.ágúst:

Skeiðarárjökull hefir hækkað nú undanfarið, og telja kunnugir það fyrirboða þess að hlaup sé í vændum. Símalínan verður ekki tengd saman að svo stöddu, meðal annars vegna þess, að talið er óráðlegt að hafast við að staðaldri á sandinum.

Í Morgunblaðinu 22.ágúst er alllangur pistill um Tungufljótshlaupið - við sleppum honum hér þar sem það sem þar kemur fram er síðan endurtekið - ítarlegar í síðari pistli Morgunblaðsins 28.ágúst:

Slide8

Eftri hluti myndarinnar er skýringarmynd sem birtist í Morgunblaðinu 22.ágúst, en neðar er kort landmælinga af svæðinu (gert 1937-38). Síðar hafa miklar breytingar orðir þarna og jökullinn rýrnað stórlega. 

[28,] Stórkostleg umbrot. — Gjá myndast í Fagradalsfjall. — Niður hana fellur 100 metra hár foss. — Hagavatn lækkar um 9 metra. — Vatnsflaumurinn myndar 6 metra djúpan farveg í grágrýtisklappir og þeytir björgum sem eru 8—10 tonn. Hér birtist skýrsla þeirra félaga, er Morgunblaðið fékk til þess að rannsaka vegsummerki við Hagavatn. Hefir Björn Ólafsson ritað eftirfarandi greinargerð um það, sem fyrir augu þeirra bar þar efra, en Tryggvi Magnússon tók myndirnar. Um Tungufljót og tjónið af hlaupinu og eldri hlaup ritar Þorsteinn Þórarinsson. Þessir þrír menn fóru sem kunnugt er í rannsóknarferðina.

Til þess að hægt sé betur að átta sig á þeirri frásögn, sem fer hér á eftir, ætla ég að lýsa stuttlega legu Hagavatns og umhverfi. Vatnið liggur upp að Fagradalsfjalli að austan og Langjökli að norðan. Að vestan og sunnan liggur að því Lambahraun. Austan við Fagradalsfjall er Fagridalur. Nær hann inn að Langjökli. Innst í dalnum upp við jökulinn rennur „Farið“ niður breiðar eyrar og í Sandvatn, sem er nokkuð fyrir austan. Farið kemur úr Hagavatni. Rennur það niður fjallshrygg sem liggur fast upp að jöklinum. — Fjallshryggur þessi er rúmlega 100 metra hár. Sést á því að Hagavatn er hundrað metrum hærra en botn Fagradals. Jarðrask það, sem orðið hefir við hlaupið, er mjög einkennilegt, og stórbrotið. Áður en hlaupið kom, var afrennsli Hagavatns lítið sem ekkert. Afrennsli þetta er kallað „Farið“, eins og áður er getið. Dregur það nafn af breiðum árfarvegi, sem venjulega var lítið vatn í nema í leysingum. Fyrir hlaupið rann það úr vatninu undir skriðjökulsröndinni og niður af fjallsbrúninni gegnum þröngt klif eða sprungu í fjallinu og var þar lítið gil. Fyrir neðan, fremst í gilinu, voru sléttar klappir sem vatnið rann eftir, á svo sem tuttugu metra breiðu og fimmtíu metra löngu svæði. Var vatnið jafnan svo lítið, að stikla mátti yfir klappirnar þurrum fótum. Eftir því hefir verið tekið, að Hagavatn hefir hækkað með ári hverju undanfarið, svo að sjá mátti greinilegan mun. Hafði jökullinn skriðið fyrir útrennsli vatnsins og var jökulrönd sú um 300 metra löng og 15-20 metra þykk sem lá fyrir vatninu, svo að ekkert komst út nema það sem seitlaði undir ísinn. Ekki er kunnugt að vatnið hafi annarsstaðar útrás. Er því skiljanlegt að vatnið hafi aukist mjög á hverju ári, þar sem jökull liggur nærri fram með endilöngu vatninu. Vatnið hefir ekki verið mælt, en áætlað er að það sé um fjórar rastir á breidd og fimm til sex á lengd. Af því, sem að framan er greint, get.a menn nokkuð markað hvernig umhorfs var fyrir hlaupið. Af vegsummerkjum þeim, sem sjá má, er ekki erfitt að hugsa sér hvernig umbrotin hafa farið fram. —

Maður verður forviða og orðlaus yfir þeim heljarkröftum, sem hér hafa verið að verki. Um miðnætti á föstudag 16.þ. m., heyrðu menn á bæjum við Geysi undirgang ógurlegan inn í óbyggðinni. — Ætluðu menn að þrumuveður hefðu skollið á yfir jöklunum. Heyrðist þetta langan tíma. Þegar klukkan var fimm um morguninn sáu menn Tungufljót ryðjast fram með gífurlegu vatnsmagni svo flaut yfir alla bakka og tók það með sér brúna, sem á því var skammt frá Geysi. Af brúnni sést nú ekkert eftir nema annar steinstöpullinn hálfur. Jökullinn var búinn að loka Hagavatn inni og hélt í skefjum vatnsþunga miklum. Að lokum hefir jökulbergið sprungið eins og gler fyrir hinum ógurlega vatnsþunga sem leitaði útgöngu. Um leið og vatnið leysist úr viðjum jökulsins geysast það fram í tryllingi í tvö hundruð metra breiðum straum og steypist fram yfir fjallsöxlina, niður í bergskorninginn og ofan í dalinn. Með hamslausu afli tekur það í ferð sinni ísbjörg, móberg og mela. En bergskorninginn í fjallinu rífur straumurinn sundur sem rifinn raft, kastar björgunum úr fjallinu og molar þau eins og brunnið kol á klöppunum fyrir neðan. Hinn ógurlegi vatnskraftur með ísbjörg og grjótbjörg þúsundir smálesta í fari sínu rífur upp klappirnar fyrir neðan, sker sundur bergið og myndar sér þar farveg. Björgin sem straumurinn hefir rifið upp úr klöppunum liggja eins og hráviði út um allar eyrar. Nú er eðlileg útrás frá Hagavatni og áin rennur fram róleg og lygn i þeim farvegi sem jötunumbrot vatnsins hafa myndað. Áin er lík að vatnsmagni og Elliðaárnar. Í gljúfri því, sem vatnið hefir rifið sundur gegnum fjallið, hefir myndast mikill og einkennilegur foss, um hundrað metra hár. Fellur hann fyrst niður 25 metra í víðri hvelfing ofan á bergpall mikinn og þaðan í 75 metra háum breiðum streng niður í botn gljúfursins. Fossinn er nærri inniluktur í gljúfrinu og sést ekki þegar að er komið sunnanmegin árinnar. En norðanmegin sést hann vel. Hann er mikilúðlegur, og tignarlegur. Vatnsúðinn þyrlast um alt gilið og þegar sólin skín á fossinn lýsist alt gljúfrið af rauðgylltum úðasveipum, en margir regnbogar stórir og hreinir speglast í úðanum. Við gáfum fossinum nafn og kölluðum Leynifoss. Eins og áður er skýrt frá, hefir vatnshlaupið rutt sér farveg gegnum klappirnar, fyrir neðan fossinn. Farvegur sá er 50 metra langur, 15 metra breiður og 7 metra djúpur. Er eins og klappirnar hafi verið skornar eftir línu, svo beint, og hreinlega er bergið molað sundur eftir hlaupið. Björg þau sem liggja nú fyrir framan á eyrunum og í farveginum, bera merki eins og þau hafi verið rifin sundur. Uppi á fjallinu þar sem vatnið hefir nú útrás sína, hefir jökullinn sprungið sundur og liggja eftir í farveginum nokkur stór jökulbjörg, sem vatnsstraumurinn hefir ekki getað tekið með sér, eða hafa brotnað úr jöklinum eftir að mesta flóðið var um garð gengið.

Þegar komið er upp á fjallið skín jökullinn við og lítur út eins og ógurlega mikill veggur af gömlum hvítasykri. Sést óviða jafnhvítur, ósprunginn og sléttur skriðjökull og við Hagavatn. — Þessi mikli jökulveggur lítur út eins og sneitt hafi verið framan af honum með hníf. Hagavatn hefir lækkað um níu til tíu metra eftir að hlaupið hófst. Mun ekki ofreiknað að áætla - vatnsmegnið, sem farið hefir í hlaupinu, um tvö hundrað miljónir smálesta. Er ekki að undra þótt eitthvað hafi orðið undan að láta, þegar slíkt heljarvatnsmegn brýst fram og niður af 100 metra hæð. Stórt landflæmi, sem legið hefir undir jökulvatninu í tugi ára, hefir nú þornað og gengur eins og nes út í vatnið. Suður- og vesturströnd vatnsins, sem veit að hrauninu hefir þornað upp, svo að eru 40—60 metrar frá gömlu vatnslínunni og þangað sem vatnið er nú. Stórir ísjakar, sem áður hafa verið á floti í vatninu standa nú á þurru og gráta síg til þurrðar í sólskininu. Afrennslið frá vatninu og þar til það steypist ofan í gljúfrið af fjallsöxlinni, er um 400—500 m langt og 50 metra breitt. — Yfir mest af þessum farvegi lá jökullinn fyrir hlaupið.

Fyrir 27 árum kom hlaup úr Hagavatni. Þeir sem eftir því hlaupi muna, segja að það hafi ekki verið nærri eins mikið og þetta síðasta. Vafalaust verða mörg ár þangað til jökullinn getur aftur farið að hefta útrás vatnsins. Leynifoss getur því enn í mörg ár látið gljúfrin titra á kringum sig og sveipað um sig regnbogunum. En að því kemur að jökullinn verður vatninu ofjarl og lokar það aftur inni. Og sagan endurtekur sig. Björn Ólafsson.

Um Tungufljót. Tungufljót hét áður Kaldakvísl og verður ekkert um sagt með vissu, hvenær þessi nafnbreyting varð. Upphaf fljótsins er í austanverðri Haukadalsheiði; uppsprettulindir þar í heiðarhjallanum, Fljótsbotnum. En skammt frá, er þessar lindir eru komnar í einn farveg, rennur Ásbrandsá í Tungufljót. Hún kemur úr Sandvatni, sem liggur á söndunum norður af Haukadalsheiði, en í Sandvatn rennur „Farið“ úr Hagavatni, eins og frá verður sagt. Eftir að Ásbrandsá er komin í Tungufljót, renna í það nokkrar smærri ár úr Haukadal norðanverðum, og þegar það er komið niður í Tungurnar er það vatnsmikið. Hefir það löngum verið slæmur farartálmi, þar sent það klýfur sundur stóra sveit, sem að öðru leyti, er líka innilokuð milli stórvatna. Vöðin á Tungufljóti hafa alla tíma verið breytileg, og raunar aðeins eitt vað, sem alltaf hefir haldist. Það var þó nokkur samgöngubót, þegar brúin var byggð yfir Tungufljót 1907, en til hagkvæmari og almennari nota verður þó brúin, sem væntanlega verður sett yfir það í haust. Meðfram Tungufljóti, neðanvert, eru hin miklu engjalönd Bræðratungu, Pollengi, en flæðihætt er þar, því landið liggur nær í jafnhæð við fljótið. Eru og beggja vegna víð það slægjulönd nokkurra jarða þar, sem mestar skemmdir urðu á í þessu flóði.

Skemmdir eftir flóðið. Þá er flóðið féll niður á sandana austur af Fagradalsfjalli og Einifelli, hækkaði svo í Sandvatni, að nokkur kvísl fljótsins rann austur sandana þaðan og í Sandá, en með henni í Hvítá. Var foráttuvöxtur í Hvítá fyrir það. En meginhluti fljótsins fór eftir „Farinu“ í Ásbrandsá og svo í Tungufljót. Varð það fljótt geysimikið, svo að um kl. 8 á föstudagsmorguninn tók brúna af, og var brúin þó um 3.50 m. yfir venjulegu vatnsborði. En um nóttina áður hefir jökulhaftið sprungið og flóðið runnið fram, því þá heyrðust dynkir í þeirri átt á efstu bæjum í Biskupstungum.

Tungufljót er nokkuð lægra en landið i sveitinni ofanverðri, þar flóði það því ekki víða upp, og ekki til skaða, nema á Almenning fyrir neðan Haukadal. Þar rann það inn í fjárhús og heyhlöðu, og skemmdist heyið. En þegar kom neðar flæddi það yfir allt láglendi, Pollengi hjá Bræðratungu og þau engjalönd öll, er þar eru samhliða. Varð geysimikið tjón af þessu. Tók í burtu allt hey er þar lá, en það var mikið, mest um 200 hesta frá bæ, en 11 bændur misstu þar hey sín. Þó var það tjón meir, að engjalandið gjörspilltist allt, svo ekki verður nytjað í sumar, og ekki um næstu ár. Sumt af því vegna sands og moldar, sem barst með fljótinu. Liggur 40 cm þykkt lag af þeim aur yfir stórum svæðum, en jökulleðja þar sem minna er. — Svo má áætla, eftir því, sem næst verður komist, að vatnsmagn fljótsins hafi tólffaldast í flóðinu þegar það var mest.

Fyrri flóð í Tungufljóti. Þó að þetta flóð sé miklu meira en sagnir eru um áður, þá hafa mikil vatnsflóð komið í Tungufljót fyrr. Í jarðabók Árna Magnússonar er getið um spjöll á engjum í Biskupstungum fyrir jökulflóð í fljótinu. (Sjá um Vatnsleysu). Og í minni eldri manna núlifandi hafa tvisvar komið flóð í Tungufljót fyrr. Hið fyrra var um 1884, og gerði þá nokkurn skaða, en síðar varð meira flóð 1902. En hvorttveggja var þá, að það flóð var að miklum mun minna en nú, og hitt, að þá var meir liðið á sumar, öndverður september, enda varð missir heyja og engjalanda miklu minni þá en nú. Að sjálfsögðu hafa öll þessi flóð komið fyrir þá sök, sem nú, að jökullinn hefir sigið fyrir farveginn við fjallið, en vatnið svo sprengt jökulhaftið sundur. Það má telja víst að svo verði enn, þó ekki verði um sagt, hve langan tíma það tekur. En eftir flóðið 1902 var jökullinn 10 ár að fylla farveginn og stífla frárennsli vatnsins, en 17 ár hefir vatnið haldist inni og hækkað, þar til nú, að þessi jökulstífla sprakk. Má því vel vera, að nú líði 30 ár til næsta flóðs, þó ekki verði vitanlega sagt um slíkt með neinni vissu. En því lengur, sem líður milli flóða, þess stærri verða þau. Þorsteinn Þórarinsson.

Morgunblaðið segir af borgarís 30.ágúst - á heldur óvenjulegum stað ef rétt er frá skýrt.

Borgarísjaki stór kvað vera um 3 sjóm. VNV af Lóndröngum. — (Fregn frá togaranum ,,Otur“)

Seint í ágúst urðu miklir vatnavextir norðanlands. Var úrkoma langmest 23. og 24. Mældist t.d. 73 mm á Hraunum í Fljótum að morgni 24. Morgunblaðið segir frá 31.ágúst:

Akureyri, FB. 31. ágúst. Vatnavextir og stórrigningar hafa valdið skaða á fjórum bæjum í Svarfaðardal fyrir síðustu helgi. Tún eyðilagðist í Sauðaneskoti og engjar spilltust mikið í Sauðanesi, vegna skriðuhlaups. Allmargar kindur urðu fyrir skriðunni, sem hljóp í sjó fram. Síðan hefir dauða skrokkana rekið á fjörur. Nýræktarspildur ónýttust á Dæli í framsveitinni, sömuleiðis hafa engjar spillst á Mársstöðum.

Einnig urðu heyskaðar af völdum hvassviðris í sama veðri. Morgunblaðið 1.september:

Heyskaðar. — Í norðanveðrinu fyrra laugardag [24.ágúst] fauk mikið af heyi frá ýmsum bæjum undir Eyjafjöllum. Er mælt, að Magnús bóndi á Steinum hafi misst um 200 hesta og Sigurður á Núpi um 70 hesta. Austur í Fljótshverfi hafði og tapast þetta 15—20 hestar frá flestum bæjum.

Tíminn segir einnig af rigningunni nyrðra í pistli 7.september:

Stórrigningar og vatnavextir miklir urðu norðanlands i lok síðasta mánaðar. Urðu heyskaðar nokkrir meðal annars í Eyjafirði. Í Svarfaðardal hljóp skriða á túnið á Sauðaneskoti, yfir engi á Sauðanesi og í sjó fram. Spilltust tún og engi mjög. Enn tók skriðan kindur margar í fallinu og hefir síðan dauða skrokkana rekið upp i fjörurnar.

Og enn segir Morgunblaðið frá sömu skriðuföllum í pistli 12.september:

Skriðuhlaup það, er varð í Svarfaðardal fyrir nokkru, olli meira tjóni en jarðspellum einum. Tók skriðan með sér kindur í sjó fram, og hafa fundist ræflar af 5 eða 6, en búast má við, að margar fleiri hafi farist.

Veðráttan bætir því við að í sama veðri hafi einnig orðið tjón af völdum flóða frammi í Eyjafirði, í Eyjafjarðará og sömuleiðis Þverá við Kaupang. Um svipað leyti (dagsetning þó óviss) féllu þrjár stórar skriður úr Fagraskógarfjalli í Kolbeinsstaðahreppi og spilltu túni við Ytri-Skóga. 

Þann 3. snjóaði sumstaðar norðanlands, en festi ekki, en í veðrinu þann 23. snjóaði í sjó á Ströndum og víðar á Vestfjörðum snjóaði.

September varð nokkuð umhleypingasamur. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Framan af blíðviðri og þurrkar. En svo gerði stórgerðar rigningar og seinni hluta mánaðarins hefur verið mjög óstöðug tíð og fremur köld. Snjóað af og til á fjöll og oft krapi í byggð þó það hafi þiðnað jafnóðum. Þ.17. Versta og mesta stórviðri sem hér kemur.

Hraun í Fljótum: September hefir verið hryðjusamur og óþægilegur að mestu leyti til heyskaparins, enda mikil hey út víða í lok mánaðarins.

Vík í Mýrdal: Að kveldi þess 5. endaði sólskinið og sumarblíðan. Eftir það kom aldrei þurr dagur og gerðist oft stórviðrasamt er á leið. Hvassast var aðfaranótt þess 26. Þá fauk sexæringur hér í Vík og brotnaði. Brimasamt mjög; aldrei fær sjór síðari hluta mánaðarins. Heyfengur með mesta og besta móti.

Stórinúpur: Fjallmenn gamlir telja versta fjallveður sem þeir hafi fengið í 1. safni.

Stöðugur lægðagangur var nærri landinu síðari hluta mánaðarins. Tvær lægðanna voru mjög krappar og djúpar. Ollu ekki verulegu tjóni þó, en komu mjög illa við haustverk öll.

Slide5

Lægðin krappa þann 17. september. Stormur var á þriðjungi veðurstöðva og veðrabreytingar snarpar. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins, 40 metrar jafngilda 4 hPa og 0-línan er 1000 hPa.

Slide6

Síðari lægðin var enn dýpri, kom að sunnan og fór hratt norður með Austurlandi þann 23. og langt norður í haf. Morguninn eftir kom önnur lægð að landinu úr vestri. Endurgreiningin nær dýpt lægðarinnar ekki alveg - en slíkt er algengt. Aðalatrið eru þó rétt og greiningin mjög gagnleg.

Morgunblaðið segir 20.september frá illviðri þann 17. Íslendingur segir þann 20. frá því að sjö bryggjur hafi brotnað í Hrísey í þessu veðri:

Akureyri, FB. 19. sept. Vonskugarður þ. 17. þ.m. Vélbáta vantaði úr Hrísey og frá Siglufirði. Enskir botnvörpungar voru fengnir til þess að leita og fundu Hríseyjarbátana, sem ekki hafði hlekkst á. Siglufjarðarbátur, sem menn voru hræddir um, kom í morgun, hafði hrakið austur Skjálfandaflóa. Allir bátar á Siglufirði töpuðu lóðum, mest 40. Afli sæmilegur.

Óveður mikið gerði austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal á þriðjudaginn var [17.]. Óx allmikið í vötnum, og mun hin nýja brú á Bakkakotsá hafa verið hætt komin. Er það álit kunnugra eystra, að brú þessi muni ekki geta staðið þegar mikill vöxtur kemur í ána. — Á Hafursá í Mýrdal var gerð bráðabirgðabrú í sumar, en í þessum síðasta vatnavexti braut áin spildu austan við brúna, svo að auka verður við hana, ef fær á að verða.

Morgunblaðið segir enn af illviðrum 25.september:

Versta veður hefir verið undanfarið á Akureyri. Hefir lengst af verið þar steypirigning og snjóaði undanfarnar vikur niður undir bæi.

Morgunblaðið segir af illviðri í pistli 26.september - við styttum frásögnina talsvert. :

Á mánudaginn var [23.] gerði aftakaveður yfir Suður- og Vesturland. Voru gagnamenn þá komnir á fjöll og hrepptu illviðrið og munu víða hafa verið hætt komnir. ... [Unglingspiltur varð úti í göngum á afrétti Eyfellinga norðan Eyjafjallajökuls]. Í Borgarfirði voru gangnamenn á fjalli þennan dag, og var þar sama illviðrið, dimmviðri og hríð. Týndist þá einn fjárleitarmaðurinn, Hjörleifur Vilhjálmsson frá Tungufelli í Lundareykjadal. ... En laust eftir miðjan dag kom Hjörleifur að Botni í Botnsdal. Í Dölum vestra var sama aftakaveður þennan dag, snjókoma mikil, en lítið frost. Þar villtust 8 menn í göngum, tveir á Miðdalaafrétt og 6 á Dönustaðafjalli, en komust allir til byggða um kvöldið. Þeir, sem á Miðdalaafrétt voru, komust i Haukadal, e» hinir hittu göngumenn úr Hrútafirði og gátu þá áttað sig og komust heim.

Í ritinu Fréttabréf úr Borgarfirði (s.102-103) lýsir Kristleifur Þorsteinsson þessu veðri, 23.september, í Fljótstungurétt á ógleymanlegan hátt. Þar segir m.a.: „Þegar komið var í réttina og dráttur hófst, var komið aftakaregn, svo að hver smálækjarspræna valt fram kolmórauð og hver hraundæld var barmafull af vatni. Því næst skall yfir norðanveður með hamslausum snjókrapa, svo að á skammri stundu varð jörð alhvít. Hestar hömuðu sig og skulfu á beinunum, en sauðfé, sem var allt í einni snjósteypu, var drifið í réttina, einn innrekstur eftir annan“

Morgunblaðið segir 28. og 29. september frá illviðrum á Siglufirði:

[28.] FB. 27. sept. Frá Siglufirði er símað: Í gær og nótt snjóaði. Er nú alhvítt niður að sjó.

[29.] Siglufirði, FB. 28. sept. Hér gerði í dag norðaustan bleytuhríð með roki og stórbrimi. Bátar flestir í fiskiróðri, en eru allir komnir nema tveir. Ægir fór út um miðjan dag, til að vera bátunum til aðstoðar. Annar þeirra, Stígandi, strandaði rálægt Haganesvík. Ægir bjargaði mönnum og er á leið með þá hingað, og hinn bátinn, Sleipni, sem lá á Haganesvík með bilaða vél, og hefði sennilega strandað, ef hjálp hefði ekki komið.

Október var heldur hryssingslegur. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið mjög óstöðugt og kalt. Af og til krapi og snjóhræringur. Kýr voru teknar inn fyrstu daga mánaðarins.

Hraun í Fljótum: Afleitlega umhleypingasamt og verstu veður tímunum saman. Talið er að um 2 þúsund hestar heys hafi orðið úti í Holtshreppi og auk þess talsvert í Haganesvík og víðar í Skagafjarðarsýslu. Þ.23. Miklavatn allt lagt.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin í þessum mánuði köld en ekki mjög úrkomusöm. Annars heldur óhagstæð.

Vík í Mýrdal: Mánuðurinn byrjaði með slæmu tíðarfari. Austan Mýrdalssands gerði þá svo mikinn snjó í sumum sveitum að fjárrekstrum varð til tafar. Töluvert umhleypingasamt. Kalt nokkuð í ofanverðum mánuðinum. Sjódeyður voru nægar til þess að hægt var að koma burt öllu kjöti er slátrun endaði.

Stórinúpur: Mjög umhleypingasamt. Hey urðu víða úti og sumstaðar var hirt frum um eða yfir veturnætur.

Morgunblaðið segir af skíðafæri í nágrenni Reykjavíkur 5.október:

Snjórinn er kominn, og er nú ágætt skíðafæri í kring um Kolviðarhól. Þetta er mjög óvenjulegt svona snemma hausts. En þeim, sem langar að reyna haustsnjó á skíðum, gefur Skíðafélagið kost á að komast uppeftir á sunnudaginn, ef veðrið og færðin helst. Þeir gefi sig fram við Müller, Austurstræti 17, sem fyrst í dag, laugardag.

Enn voru vandræði á Siglufirði. Morgunblaðið 10.október:

FB. 9. okt. Frá Siglufirði er símað: Ótíð. Norðangarður í gær með stórbrimi. Bátar voru ekki á sjó. Línugufuskipin Fjölnir, Fróði, og Alden voru einnig inni. Brimið braut alla bryggjuna á Bakka. E.s. Baltic, aukaskip Eimskipafélags Íslands, liggur hér, til þess að taka síld. Það rakst á hafnarbryggjuna og braut tvö skrúfublöðin og skemmdi bryggjuna talsvert. Sjópróf verður haldið í dag. Ráðgert er að draga Baltic til Akureyrar og skipa miklum hluta farmsins upp þar og freista að setja nýja skrúfu í skipið. Í nótt hlóð hér niður talsverðum snjó. Nokkrar kindur flæddi í briminu í gær, undir Strákum, rak þær dauðar.

Morgunblaðið birti 13.október fréttabréf að norðan:

Að norðan. Fréttabréf 29. sept. 1929. Tíðarfar. Sumarið má telja gott. Grasspretta var í meðallagi, þegar fram á sumarið kom, en kuldarnir í vor gerðu það að verkum að seint spratt. Heyskapur hefir gengið vel og nýting heyja víðast hvar góð. Að vísu voru þurrkar heldur stopulir seinnihluta sumarsins, en þó ekki svo, að hey hrektust til skaða. Nú munu allir vera búnir að hirða hey og heyfengur í góðu meðallagi. Þar að auki voru fyrningar miklar s.l. vor, svo að bændur eru vel birgir af heyjum, og er slíkt vel farið, því að góð og mikil hey eru hyrningarsteinninn undir velmegun okkar bændanna.

Morgunblaðið segir 16.nóvember frá fjárskaða í Kolbeinsstaðahreppi 21. október:

Fjárskaði varð á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu 21. okt. Fórust þaðan í sjóinn af næsta skeri við Kaldárós 41 ær og 15 lömb. ... Veður var gott um kveldið. logn og bjart af tunglsljósi, en nálægt fjöru gerði kolsvart myrkur og foráttuveður af landssuðri, óeðlilega fljótt aðfall og mikinn áhlaðanda. - Fyrir 30 árum fórust 40 ær í sjóinn frá Snorrastöðum á þessu sama skeri og var það á útmánuðum.

Morgunblaðið auglýsir „Þingvallatjöld“ 24.október - fyrir væntanlega Alþingishátíð sumarið eftir:

Í rigningunni miklu á mánudaginn, kom stór vatnspollur á gólfið í einni kennslustofu barnaskólans, lamdi rigninguna inn um gluggann. En Þingvallatjöldin á Austurvelli láku ekki deigum dropa. Þau hafa nú staðið þar í hálfan mánuð og oft verið mikil rigning, en aldrei hefir nein væta komið inn í þau. Eru þau því eins og bestu hús, og kemur það sér vel, ef stórrigning verður á þjóðhátíðinni að sumri.

Morgunblaðið segir 25.október frá símabilunum í illviðri:

Símslit hafa orðið mikil á Norðurlandi undanfarna daga, því að stórhríð hefir verið. Ekkert samband er við Siglufjörð, margar bilanir milli Akureyrar og Seyðisfjarðar; símslit eru einnig milli Ísafjarðar og Borðeyrar. Væri nú með öllu sambandslaust, milli Reykjavíkur og Austurlands, ef Suðurlandslínan væri ekki komin. Eru öll símskeyti send á þeirri línu nú, og þar hafa engar bilanir orðið.

Og Morgunblaðið segir enn 26.október frá illviðri á Siglufirði 24. og 25. - og leitum á Langanesströnd:

Fjárleitir hafa, gengið afarilla á Langanesströnd. Það er haft eftir gangnamönnum, að naumast hafi innheiðar hálfsmalast. Slæmt var veður í báðum eftirleitum, mikill snjór í heiðum og krapahríðarveður, sem tók af alla. útsýn og villti mönnum leið.

Flóð á Siglufirði. FB. 25.október. Frá Siglufirði er símað: Óstillt og illviðrasamt að undanförnu. Í dag er norðan stórhríð, mikil fannkoma, frost og stórbrim með sjávarflóði. Gengur sjór yfir varnargarðinn norðan á eyrinni og hefir flætt yfir allan norðurhluta hennar. Flætt hefir inn í mörg hús og flýði fólk úr nokkrum húsum í nótt. Flóðið er nú komið suður undir aðalgötuna. — Ofsarok var í nótt og sleit m.b. Valdimar og -Kristbjörgu frá bryggjum. Skemmdust þeir mikið og einnig bryggja, sem Valdimar lenti á. Stóran pramma, fullhlaðinn 380 tonn síldar, sem Einkasalan á, sleit einnig frá frambryggjunni, og rak inn á leiruna.

Skaðar urðu víðar í sama veðri. Morgunblaðið 27.október:

Þrír bátar sukku í norðanveðrinu á dögunum, tveir trillubátar á Húsavík og einn lítill vélbátur á Dalvík. Í þessu sama veðri slitnaði upp vélbátur við Hrísey og rak hann upp á Litlu-Árskógsströnd, en skemmdist lítið.

Stórhríð var á Akureyri á fimmtudag og föstudag [24. og 25.]. Voru sumstaðar mannháir snjóskaflar á Akureyri.

Morgunblaðið segir af slysi 6.nóvember:

Reynivöllum í gær. Á miðvikudaginn [30.október] var fór aldraður maður, Eyjólfur Eyjólfsson, frá Helgafelli í Mosfellssveit og ætlaði upp í Kjós að sækja þangað hesta fyrir Níels Guðmundsson bónda á Helgafelli. Var hann ríðandi á hesti, sem Níels átti, en hafði í taumi hest, sem hann átti sjálfur og ætlaði að koma í fóður upp í Kjós. Veður var slæmt um daginn, hvassviðri mikið og snjókoma á fjöllum. Þó voru menn ekkert hræddir um Eyjólf, því að hann var leiðinni gagnkunnugur, hafði alið allan aldur sinn i Kjósinni. En þegar hann var ekki kominn á laugardag, fór Níels bóndi að undrast um hann og símaði að Reynivöllum í Kjós, og bað, að grennslast væri eftir, hvað Eyjólfi liði. Var þá sent frá Reynivöllum á næstu bæi, en enginn vissi neitt til ferða hans. Var þá safnað saman mönnum og hafin leit. Fannst Eyjólfur liðið lík í gilinu í Svínaskarði norðanverðu á mánudaginn. Hafði hann sýnilega hrapað til bana. Ætla menn, að hann hafi ekki getað ráðið sér í ofviðrinu, og hafi það hrakið hann út af veginum og þar fram af í gilið.

Nóvember var einnig nokkuð skakviðrasamur: 

Lambavatn: Það hefir verið heldur stirt, vindasamt og snjókoma töluverð framan af. Svo víðast er farið að hýsa fé og tekin inn lömb á gjafajörðum. Nú síðustu vikuna hefir verið sífellt rok austan austnorðan en kuldalaust svo allt er autt í byggð.

Hraun í Fljótum: Tíðarfarið hefir verið mjög umhleypingasamt og ónotalegt fyrir skepnur. Óstillt til sjávarins. Um miðjan mánuðinn mátti heita jarðlaust, jafnvel við sjávarsíðuna en rættist vel úr síðari hluta mánaðarins.

Fagridalur: Dágóð tíð fyrri hluta mánaðarins, en úr því mikil ótíð, með hríðarveðrum og stórkostlegum úrfellum svo fátítt hér annað eins, en þó lítill snjór í byggð, en vatnagangur mikill.

Vík í Mýrdal. Snemma í mánuðinum gerði snjó svo hagar spilltust þar sem eigi brá til hláku fyrr en eftir hálfan mánuð. Varð að gefa fé nokkuð þó að veðrátta væri góð.

Morgunblaðið segir 9.nóvember frá færð á Hellisheiði:

Færðin á Hellisheiði má heita góð ennþá. Kom bíll að austan í gærkveldi, og kvað bílstjórinn góða færð mestan hluta leiðarinnar. Engir stórir skaflar eru ennþá komnir á veginn, með þvi að síðan fór að snjóa hefir verið nokkurn veginn lygnt.

Morgunblaðið segir enn fréttir af fugladauða 21.nóvember:

FB. í nóv. Fuglavarp í Látrabjargi var mjög lélegt. — Mun það ef til vill stafa af svartfugladauðanum síðastliðinn vetur. Voru mikil brögð að því á Vestfjörðum. Við Patreksfjörð rak t.d. mergð af dauðum fugli seinni hluta vetrar. Til skamms tíma var fuglaveiði mikið stunduð í bjarginu, en nú er sú veiði lögð niður, nema lítils háttar tekið af eggjum.

Morgunblaðið segir 22.nóvember frá tjóni í Vestmannaeyjum:

FB 20.nóv. Aðfaranótt þriðjudags [19.] var austan hvassviðri og sjávargangur mikill. Nokkrar skemmdir urðu á höfninni. Einn vélbátur sleit festar og rak upp. Báturinn mun óskemmdur, en braut nokkuð annan bát á höfninni. Margir smábátar skemmdust meira og minna,  eru sumir ónýttust. Flesta þessara báta tók út úr hrófum. — Engir sjóróðrar síðustu daga.

Eilíft vesen á Siglufirði. Morgunblaðið 28.nóvember:

FB. 27. nóv. Frá Siglufirði er símað: Austanhláka og stórfeldar rigningar hér að undanförnu. Ofsarok í gær, en hægara í dag. Í gærkvöldi rak upp á leiruna gufuskipið Urd, leiguskip Sambands íslenskra samvinnufélaga frá D/S Nornan, Gautaborg. Skipið var tómt, hafði sett hér á land leifar farms, tunnuefni. Skipið rakst á bryggjur austan fjarðar, áður en það rak upp, og skemmdust þær talsvert. Sjálft er skipið óskemmt. Liggur það líklegast kjölrétt á mararbakkanum á 3—4 feta dýpi. Skipshöfnin hefst enn við um borð. Litlar líkur eru til að það komist út hjálparlaust. Áslaug, fisktökuskip Kveldúlfs, liggur hér og lá við, að það ræki á land, en skipverjum tókst að færa skipið áður til þess kæmi. Bárujárnsgirðing Shellfélagsins við Hvanneyri laskaðist mikið í óveðrinu.

Morgunblaðið segir 1.desember af skautasvelli á Tjörninni:

Ágætt skautasvell hefir verið undanfarið á Tjörninni, og hafa margir notað sér það, því að veður hefir verið hið besta.

Veðráttan segir frá heysköðum í vatnagangi norðaustanlands, dagsetningar óvissar. Þ.22. braut stórsjór bát á Höfn í Bakkafirði. Þann 26. brotnaði bátur á Breiðafirði, einn maður drukknaði en tveir komust í land.

Þann 1. kom sérlega djúp lægð að landinu. Að morgni 2. fór sjávarmálsþrýstingur í Vestmannaeyjum niður fyrir 920 hPa og er enn sá lægsti sem mælst hefur hér á landi. Mikið austanveður var á undan lægðinni. Þess gætti mest um vesturhelming landsins, en einnig varð hvasst í öðrum landshlutum. Lesa má um þrýstimetið í pistli á vef Veðurstofunnar - þar eru einnig nokkur veðurkort. Nýrri endurgreiningar ná ekki heldur fullum styrk lægðarinnar. 

Veðurathugunarmenn segja frá desembertíðinni - og geta sumir illviðrisins þann 2. 

Lambavatn: Annan mánaðarins var hér aftakaveður svo menn þykjast ekki hafa vitað sterkari veður af þeirri átt [norðaustan]. Skemmdir urðu ekki sem teljandi eru, en reif torf af húsum og skemmdi báta. En ekki neitt stórkostlega. Annars hefir verið óslitinn blástur af austri og norðaustri allan mánuðinn en kulda- og úrkomulítið oftast. 19. og 20. gerði hálfgerðan blota svo slæmt var á jörð nokkra daga.

Grænhóll: Aftakaveðrið 1. og 2. desember. Í Naustavík brotnuðu mær til ónýtis tveir bátar, átti bóndinn þá báða. Stór útlend julla, þung, hvolfdi þar á skafli, fauk hún á annan bát bundinn í nausti, braut hann og fór á loftköstum í sjóinn og valt flakið inn í Reykjarfirði. Bóndinn, Guðmundur Árnason, hraustur og harðfenginn maður treysti sér ekki slysalaust að fara að jullunni til að kafmoka hana í snjó, enda hafði hann aðra áhyggju. Járnþak á fjárhúshlöðu hans gekk út og inn í byljunum, en það hékk. Stórflæði og öldurót tók bát bóndans í Ingólfsfirði og braut, var hann í venjulegum vetrarstað. Veðrið tók hann svo af briminu og feykti honum og braut hann í spón. Ingólfsfjarðareyrar voru þá langt fram eftir eitt sjávarflóð (grasi grænar grundir með síkjum) með lágöldu en stórbrot utar. Símastaurarnir sýndust þá standa upp úr firðinum, alllangt frá botni hans. [Um illviðrið þann 21. segir svo]: Trilla stór sem Einar Sigvaldason á Sundnesi á Selströnd við Steingrímsfjörð átti hvarf þá um nóttina af legu, sökk þar eða sleit upp og hefur þá sokkið á firðinum. Lauslegt rak úr henni hins vegar fjarðarins.

Vík í Mýrdal: Óstöðugt tíðarfar, stormasamt og úrkomusamt en fremur hlýtt. Í veðrinu þann 2. urðu allmiklar skemmdir á húsum víða í Mýrdalnum og símastaurar brotnuðu sumstaðar. T.d. fauk þakið af hálfu þakinu á barnaskólanum hér og af íbúðarhúsinu á Brekkum. Nokkrar kindur hrakti í sjó. 

Morgunblaðið segir fyrst af illviðrinu í pistli 3.desember:

Í fyrrinótt skall á mikið ofviðri af austri og hélst fram eftir deginum í gær. Náði veðrið yfir allt landið. Var loftvog óvenjulág yfir öllu landinu; í Vestmannaeyjum komst hún t.d. niður á ca. 690 mm (920 hPa) og í Rvík niður á 697,5 mm (930,3 hPa). Upp úr hádegi fór loftvogin ört stígandi. Á hafinu fyrir vestan land var norðan hvassviðri. Á Halanum var norðaustan ofviðri en togarar munu flestir eða allir hafa verið komnir upp að landi, því að Veðurstofan sendi stormfregn á laugardagskvöld [30.nóvember]. Hér í bænum urðu nokkrar skemmdir á húsum, en þó ekki stórvægilegar, losnuðu þakhellur af nokkrum húsum og einstaka reykháfar brotnuðu. Rafmagnsþráður féll niður á Grundarstíg og snerti konu sem þar var á gangi. Lenti í vafningum fyrir fólki er að kom að slíta þráðinn og losa konuna úr rafmagnssambandinu. Hún meiddist talsvert og var í öngviti er hún varð losuð frá þræðinum. Á Selfossi rauf þak af heyhlöðu. Frá Siglufirði var FB símað í gær, að þar hafi fisktökuskip Kveldúlfs, „Áslaug“, verið nærri strandað; varð með naumindum bjargað. Þök fuku af mörgum útihúsum og einnig skemmdust íbúðarhúsaþök í bænum. Eitt íbúðarhús skemmdist talsvert við það, að þak af öðru húsi fauk á það. Nokkrir hjallar fuku alveg. Símslit urðu víða á Norðurlandi; einnig varð sambandslaust við Vík í Mýrdal.

Morgunblaðið 4.desember:

Símslit urðu allvíða í stórviðrinu á mánudag, svo ekki var vitað um, hvort tjón hefði hlotist af veðrinu. Í gær komst síminn i lag aftur og fékk þá Morgunblaðið nánari fregnir frá ýmsum stöðum úti á landi. Í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu rauf þak af útihúsum víða, og einnig skemmdust íbúðarhúsin á Brekkum og Reynir. Á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu hafði fé hrakið í sjó og vötn. Vita menn um 70 fjár, sem þannig hefir farist. Var féð farið að reka austur á söndunum. Undir Eyjafjöllum hafði einnig orðið skaðar á útihúsum; ennfremur hafði þakið fokið af íbúðarhúsinu í Hlíð. Þrumur miklar og eldingar voru um allt Suðurland í gær. Frá Borgarnesi frétti blaðið í gær, að nokkrar skemmdir hefðu orðið af illviðrinu í Kolbeinsstaðahreppi og Miklaholtshreppi. — Á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppi fauk heyhlaða og týndist nokkuð af heyi, ennfremur urðu tjón á heyjum víðar í þessum hreppum.

Skemmdir af óveðrinu. Morgunblaðið átti tal við Jónas Eyvindsson símamann í gær og leitaði frétta um símslit hér í bænum. Sagði hann, að meir en 200 símar hefðu misst af sambandi vegna línuslita. Sumstaðar höfðu flaggstangir brotnað og fallið niður á línurnar og slitið þær, sumstaðar hafði hrunið úr skorsteinum, járnplötur höfðu fokið af þökum, kassar og annað lauslegt dót hafði lent á línunum og slitið þær. Bjóst hann við, að aðgerðunum mundi að mestu leyti verða lokið í dag; — Blaðið hafði tal af rafmagnsstjóra, og kvað hann skemmdir á rafmagnsleiðslum bæjarins ekki hafa verið miklar. Ljós höfðu slokknað í nokkrum götum í Austurbænum, en engar alvarlegar skemmdir hafa orðið. Veðmálaskúr hestamannafélagsins „Fáks“ á skeiðvellinum fauk í fyrradag. Fauk hann um 15 m burtu, út fyrir girðinguna, sem er kringum völlinn. Hann brotnaði og allt, sem í honum var, svo sem borð, stólar o.fl.

Morgunblaðið segir 8.desember enn af veðrinu mikla:

FB. 7. des. Frá Akureyri er símað: Austanveður á mánudaginn olli nokkrum skemmdum hér á höfninni. Lítill vélbátur brotnaði og sökk. Árabátur brotnaði, nokkur skip brotnuðu lítils háttar. Úr Húnavatnssýslu, Skagafirði, Fnjóskadal og Akureyri sást á mánudagskvöldið mikill bjarmi öðru hvoru suður yfir öræfin í stefnu á Vatnajökul, en ekki sést síðan. Tíðarfar gott nú, en áður óstöðugt. Snjólétt.

Veðráttan getur að auki tjóns í illviðrinu þann 2.: Leirsteypuhús eyðilagðist á Sámsstöðum. Þak fauk af hlöðu á Selfossi og hesthúsi í Ölfusi, skúr hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík eyðilagðist. Hlaða fauk á Arnarstapa í Álftaneshreppi. Í Miklaholtsseli tók járn af öllum húsum. Hlöður fuku í Dýrafirði.

Tíminn segir frá óvenjulegri „vindhviðu“ þann 5.desember í frásögn sem birtist 26.apríl 1930:

Einkennilegt veðurafbrigði. Bjarnfreður Ingimundarson A Efri Steinsmýri í Skaftafellssýslu ritar Tímanum á þessa leið: — „Aðfaranótt hins 5. des. [1929] var hér fremur hæg sunnanátt með skúrum, en nálægt kl.3 um nóttina skall á óvenjuleg vindhviða, svo með fádæmum má teljast hér um slóðir á sléttlendinu, þar sem venjulega er jafnvinda. — Vindhviðan varaði 2—3 mínútur, að því búnu, sama veður og áður, dálítil gola. Ofsaúrfelli var þessu samfara, en varaði litlu lengur og kom úr niðdimmum skýflóka, sem hafði þó ekki eins og venjulega festu við sjóndeildarhring, heldur sást í loft allt um kring. Hver maður hrökk úr fasta svefni, því hús hristust mjög af hinum ferlegu átökum. Af sumum húsum flettist grúið torfþak og á einu húsi brotnuðu þil, og munaði minnstu að húsið, sem var heyhlaða, fyki með öllu. Ýmsir lauslegir munir, svo sem spýtur og fleira, hófust í loft upp og fluttust langar leiðir. það sem einkenndi þetta veðurafbrigði var það, að það virðist ekki hafa komið fram nema á litlu svæði, hér á Efri Steinsmýrarbæjum og hjálendu frá Efri Fljótum, sem er hér í 2—300 m. fjarlægð. — Ennfremur virðist, eftir ýmsum merkjum, t. d. hvernig þak sviptist af húsum og fleira, sem vindurinn hafi snúist líkt og öfugstreymi. Mjög virtist vindhljóðið einkennilegt, svo sogkennt, og með sívaxandi rykkjum, þar til það á einu augnabliki féll niður eins og það kom. — það er alveg víst, að hefði vindhrina þessi staðið 5—15 mínútur, þá hefði hún gert hér mjög minnilegan skaða, og ég gæti trúað, að færri hús hefðu staðist”.

Norðlingur segir af eldbjarma í pistli þann 7.desember:

Eldsbjarmi nokkur er sagt, að sést hati suður yfir öræfum mjög víða héðan af Norðurlandi síðastliðið mánudagskvöld [2.desember] bæði frá Blönduósi, úr Skagafirði, héðan af Akureyri og úr Fnjósksdal. En sennilegt er, að þar sé um að ræða birtu og leiftur af eldingum þeim, sem geisuðu um Suðurland einmitt þetta mánudagskvöld.

Morgunblaðið segir enn fréttir af tjóni í illviðrinu mikla í pistli 12.desember:

Aftakaveður gerði aðfaranótt 2. þ.m. fyrir Suðausturlandi, og fylgdi krapahríð. Er það eitt hið mesta hvassviðri er menn muna og olli talsverðu tjóni i Mýrdalnum allvíða. Í Vik fauk hálft þakið af barnaskólanum, á Reyni fauk hey hlaða og nokkuð af heyi og fimm þakplötur af kirkjunni. Á Brekkum tók nokkuð af þakinu af íbúðarhúsinu og varð fólk að flýja húsið. Eins rauf veðrið þak á íbúðarhúsi á Litlu-Hólum og afar víða skemmdust útihús. Þrír símastaurar brotnuðu i túninu í Eyjarhólum og víða slitnaði símalínan. Einhverjir fjárskaðar munu og hafa orðið — hefir fé hrakið i sjó, því að kindur er farið að reka.

Morgunblaðið segir 15.desember frá ófærð og hagleysi í Skaftafellssýslu:

Mikinn snjó hefir sett niður í Skaftafellssýslu að undanförnu og er nú alveg haglaust á öllu svæðinu frá eystri hluta Mýrdals og austur í Öræfi. Bílar komast ekkert. Hafði Bjarni í Hólmi keypt hér í Reykjavík nýjan Ford-vörubíl og var kominn með hann austur að Mýrdalssandi, en varð að skilja bílinn þar eftir vegna ófærðar. — Fénaður var út um allt þegar byrjaði að snjóa og hefir ekki náðst í hús ennþá.

Húsbrunar eru sérlega hættulegir í illviðrum, Morgunblaðið 18.desember:

Fimm hús brenna á Bíldudal, þar á meðal stórt verslunarhús með miklum vörum og var póstur geymdur þar. Kl. um 8 1/2 á mánudagskvöld urðu menn á Bíldudal þess varir, að eldur var í verslun „Bjargráðafjelags Arnfirðinga“. Var það mikið hús, en áfast við það var stórt íbúðarhús og bjuggu þar Hannes B. Stephensen kaupmaður og séra Helgi Konráðsson. Voru húsin bæði til samans um 60 álnir á lengd og tvílyft. Eldurinn varð þegar svo magnaður að við ekkert varð ráðið. Var vonsku veður, suðvestan stormur og stórrigning.

Símabilanir hafa orðið nokkrar undanfarna daga. Í fyrradag bilaði línan (koparþráðslínan) á milli Borðeyrar og Akureyrar og austur náðist ekki samband lengra en til Kópaskers. — Að sunnanverðu náðist samband ekki lengra í gær en að Hólum í Hornafirði, en allt Austurland, þar á milli og Vopnafjarðar, var sambandslaust.

Morgunblaðið minnir okkur á það 20.desember að lítið var um malbik í Reykjavík á þessum árum:

Ófærðin á götunum var með verra móti í gær. Bíll festist í forinni á Bárugötu, vestanvert við Stýrimannastíg.

Slide10

Þann 21. og 22. gekk mikið austan- og norðaustanillviðri yfir landið og olli símslitum og samgönguerfiðleikum. Enn voru vandræði á Siglufirði (fastir liðir eins og venjulega þar - má segja). Kortið sýnir veðrið, lægðin kom úr suðri, dýpkaði ört og fór norður með austurströndinni - vindur var fyrst af austri, síðan norðaustri og loks norðri. Morgunblaðið segir fyrst frá 22.desember:

Símslit mikil urðu um alt land í ofveðrinu í gær. Á Suðurlandslínunni náðist samband aðeins í Holt undir Eyjafjöllum, á Norðurlandslínunni til Blönduóss og á Vesturlandslínunni til Hólmavíkur og Patreksfjarðar, lengra ekki. Frá Seyðisfirði náðist samband aðeins suður til Fáskrúðsfjarðar.

Frá Borgarnesi var blaðinu símað í gær, að nokkrir bílar hefðu farið út af þjóðveginum um Mýrarnar í fyrradag, en ekki komið að sök. Veður var afar hvasst þann dag, og áttu bílar erfitt með að komast leiðar sinnar. — Í gær var komið besta veður, jörð næstum auð og engin snjókoma, en hvasst nokkuð.

Veðráttan getur þess að í sama veðri hafi tvo vélbáta rekið á land á Dalvík. Nokkrar skemmdir urðu á Akureyri, bátur sökk á Steingrímsfirði. Kirkja fauk á Flugumýri í Skagafirði, snerist útaf grunninum og laskaðist mikið. Símastaurar brotnuðu milli Beruness og Djúpavogs. Hluti girðingar um Íþróttavöllinn í Reykjavík fauk. Ungur maður fórst í snjóflóði í Brekkudal í Strandasýslu (dagsetning þess óviss) og unglingur varð úti milli Grafnings og Ölfuss.

Morgunblaðið segir frá togarastrandi - og síðan frá tjóninu á Siglufirði í pistli 24.desember:

Um kl. 11 á laugardagskvöld [21.desember] strandaði þýskur togari, „Alteland“, frá Cranz við Elben, sunnan við Hafnarberg á svokölluðum Melum. Var dimmviðri og kafald þegar skipið strandaði, en brimlaust. Skipsmenn, 13 að tölu, komust allir í land óskaddaðir; var skipið svo nálægt landi, að þeir gátu vaðið til lands. Síðan kveiktu þeir bál á strandstaðnum og héldust þar við alla sunnudagsnótt, en á sunnudagsmorgun fóru þeir að leita bæja og stefndu á Reykjanesvitann. Bóndinn á Kalmanstjörn sá til ferða þeirra og fylgdi þeim til vitans. Fengu þeir þar hinar bestu viðtökur á heimili Ólafs Sveinssonar vitavarðar.

Tjón í Siglufirði. FB. 22. des. Frá Siglufirði er símað: Ofsarok á norðan með stórhríð og foráttubrimi skall á aðfaranótt laugardags og hélst laugardag til kvölds með stórflæði og sjávarólgu, sem gekk yfir mestalla eyrina og suður af henni ofan við kvikmyndahúsið og Goos Verksmiðju. Fólk neyddist til þess að flýja úr mörgum húsum og skepnum varð nauðulega bjargað, enda ófært mönnum yfir flóðtímann um norðureyrina sökum vatnsdýptarinnar, nema á bátum, sem einnig var áfært fyrir veðurofsanum á Lækjargötu og Aðalgötu. Þar var flóðið hnédjúpt og í sumum húsum meðfram Lækjargötu álíka. Hús og munir stórskemmt af vatninu, timbur og annað lauslegt flaut í hrönnum á götunum. Félagsbakaríið og margar sölubúðir urðu að hætta afgreiðslu. Vörur stórskemmdust, þar á meðal mikið af mjölvöru í Hertervigsbakaríi. Brimið braut allar bryggjur ríkisbræðslunnar, síldarbryggjur, eign bæjarins, bryggjur dr. Paul, söltunarstöð Halldórs Guðmundssonar, Ásgeirsbryggjur, Baldursbryggju og laskaði Henriksens og Thorarensensbryggjur. Mest er tjón ríkisverksmiðjunnar og Halldórs Guðmundssonar. Einnig tók sjór timbur frá ríkisverksmiðjunni og tunnur og salt á söltunarstöð Halldórs frá Einkasölunni. Brakið úr nyrstu bryggjunum rak á þær innri og braut þær. Tjónið mun sennilega nema yfir 100.000 kr. Tvo vélbáta rak á land í Dalvík, annar brotnaði og braut bryggju. Póstbáturinn lagði af stað héðan á föstudagskvöld, slapp í byrjun ofsans til Hríseyjar, lá þar á laugardaginn. Sæfarinn frá Eskifirði, lestaður beitusíld, lagði af stað héðan. í morgun en sneri aftur sökum brims.

FB, 22. des. Frá Stykkishólmi er símað: Ofviðrið skall á hér aðfaranótt laugardags. Kl. 4 að morgni var aftakaveður. Ekki frést um neinn skaða af völdum veðursins.

Tíminn fjallar um óveðrið rétt fyrir jólin í pistli 31.desember, m.a. vandræðum varðskipsins Þór:

Fyrir og um næstsíðustu helgi gerði ofsalegt stórviðri með fjúki og frosti um nálega allt land. Urðu skaðar á skipum og hafnarmannvirkjum. Eftir að síðasta blað Tímans var fullprentað, bárust hingað fregnir um það, að varðskipið Þór væri strandað á skeri nálægt ósum Laxár, milli Blönduóss og Skagastrandar. Þór lagði af stað frá Blönduósi, föstudagskvöldið 20. þ.m. í foraðsveðri. Hugðist skipstjórinn, Eiríkur Kristófersson, að leita hlés við Grímsey á Steingrímsfirði. En er út kom á flóann bilar stýrisumbúnaður skipsins. Tókst þó að koma við bráðabirgðaviðgerð. Eigi að síður reyndist skipinu um megn að halda gegn stórviðrinu sem á var. Var þá leitað lægis nærri Skagaströnd og legið þar fyrir akkerum allan laugardaginn. En er leið á daginn tók skipið að reka nær landi. Freistuðu þá skipverjar að létta akkerum og færa skipið á dýpri legumið. Slitnuðu þá akkerisfestar en skipið rak samstundis upp á sker. Fréttin barst hingað loftleiðis þegar um kvöldið. En eigi var unnt að ná í símstöðvar frá Blönduósi, eða Skagaströnd, eftir að fréttin barst hingað og eigi fyrr en kl.10 á sunnudagsmorgun. Brugðu bátar við af Skagaströnd og fóru á strandstaðinn. Tókst sex mönnum af Þór, að fara í stærri björgunarbát skipsins yfir í bát af Skagaströnd og voru þeir fluttir í land. Fóru þrír þeirra aftur á vettvang, ásamt Skagstrendingum, til þess að leitast við að bjarga félögum sínum og lentu í miklum hrakningum. Hvolfdi bátnum tvívegis undir þeim, en þeim tókst í bæði skiptin, að koma bátnum á réttan kjöl og tæma úr honum sjóinn. Þótti það vasklega gert. Mennirnir voru Stefán Björnsson 2. stýrimaður, Aðalsteinn Björnsson 1. vélstjóri og Guðmundur Egilsson loftskeytamaður. Eigi tókst björgunin að því sinni, en bátarnir héldust við nálægt skipinu alla næstu nótt til þess að leita færis. Kl. 2 á sunnudag sneri landstjórnin sér til framkvæmdastjóra Alliancefélagsins og óskaði eftir því, að togari félagsins, Hannes ráðherra, sem lá á Önundarfirði freistaði að bjarga mönnunum af Þór. Lagði togarinn af stað litlu síðar og var kominn á strandstaðinn kl. 9 næsta morgun. Trillu-bátarnir frá Skagaströnd aðstoðuðu við björgunina og gekk hún eftir það greiðlega. Er skemmst af því að segja, að mennirnir björguðust allir heilir á húfi og eftir vonum hressir, eftir svo langa vist í köldu skipinu meira og minna votir og hraktir. Þykir öllum hafa tekist giftusamlega, sem áttu hlut að því að afstýra svo hörmulegu slysi sem áhorfðist um skeið. Meðal þeirra manna, sem lentu í þessum hrakningi var séra Jón Guðnason. Var hann settur í land á Blönduósi en skipverjar á Þór fóru yfir í varðskipið Ægi, er einnig var komið á vettvang. Kom Ægir hingað klukkan 9 á aðfangadagskvöldið. — Þegar fréttist um að björgun hefði tekist var flaggað á sljómarráðshúsinu. En dómsmálaráðherra og skrifstofustjóri á dómsmálaskrifstofunni fóru út í skipið er það lagði að landi, til þess að bjóða strandmennina velkomna.

Níels veðurathugunarmaður á Grænhól segir í bréfi til Veðurstofunnar frá eldra veðri sem hann lenti í - og fleiru. Við leyfum því að fljóta með. Níels hóf athuganir á Grænhól 1921 og athugaði þar til hann lést 1934. 

Grænhóll - aukablað: Fyrsta og annan desember var hér aftakaveður rok úr landsteinum alda mikil og flóð. Var veðrið fyrst austnorðaustan og almest austan. Í rúm 20 ár hefur ekki komið hér jafnmikið veður og hlífði sköðum á ýmsu að allt var freðið. Ég man annað stórviðri um líkt leyti árs, en minna sjóflóð þá og sjórót; var þá mikil fönn og allt freðið. Það var austanveður og ekki stætt úti nema í sköflum og með staf. Ég fauk þá; var ég þá milli 30 og 40 ára, hafði stóran sterkan staf, var á heimleið lausgangandi, ætlaði að standa af mér eitthvað alharðast veður á Reykjanesrimanum, sneri baki í veðrið og pældi stafnum útundan mér og stífaði mig sem gat en ekki dugði það, ég hristist úr þessum skorðum, féll og fauk á flugrennsli yfir mel og fram á mýri um 20 faðma, taldi mig hólpinn að halda limum óbrotnum. - Ég man eftir miklu meira ölduróti fyrir rúmum 30 árum, um haust í norðanbyl og aftakaveðri norðnorðvestan. Þá öldu kalla ég 9 og gamalt fólk hér mundi annað stórbrim eins fyrir tugum ára þá. Aldan nú 2.desember var það, að ég taldi hana 7, mikil var hún hér og flóðið en fráleitt var hún meira en 7, móti hinni 9. Það var stórhrikaleg sjón að sjá þá hryggi koma, hefja sig hærra og hærra, mynda þykkan ægilega háan öldufald og steypa honum svo í dimmsvartri holskeflu niður, sem knúsaði lofti innan í sér í froðukúfa svo ógurlega og fyllti upp víkur og voga, og manni fannst titringurinn greinilegur inni í húsum og aldan átti hér beint í móti veðuraftökunum að sækja. Í veðrinu nú fyrsta og annan desember lágu tveir litlir mótorbátar 4 og 5 tonn á Reykjarfirði, Kúvíkum og varð ekkert að þeim. Eins lágu þeir þar í síðara austanveðrinu 21. desember og varð ekkert að þeim. 

[Níels segist nú vera farinn að slappast við veðurathuganir - en bætir við] Það lakasta við að hætta að athuga hér er, - að þessi ár sem ég hef athugað hér eru engin meðalár hér, - heldur þau albestu sem menn muna að flestu og mestu yfirleitt. 1. janúar 1930. Níels Jónsson

Lýkur hér yfirliti hungurdiska um veður og veðurfar ársins 1929. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 904
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3294
  • Frá upphafi: 2426326

Annað

  • Innlit í dag: 804
  • Innlit sl. viku: 2960
  • Gestir í dag: 786
  • IP-tölur í dag: 723

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband