Smálægðaveturinn?

Þegar ritstjórinn horfir út um gluggann á ritstjórnarskrifstofum hungurdiska er jörð orðin hvít. Nokkur viðbrigði frá óvenjulegum hlýindum undanfarinna vikna. Kerfið sem veldur þessari snjókomu er heldur smátt í sniðum - stærðin er sú sem þeir sem vilja flokka allt kalla miðkvarðakerfi (mesóskala). Afskaplega erfið fyrir veðurspámenn - en nákvæm veðurlíkön nútímans eru þó þrátt fyrir allt farin að ráða eitthvað við, eitthvað sem alls ekki var á veðurspárárum ritstjórans fyrir rúmum 40 árum. Það sýndi sig í vetur að smákerfi sem þessi geta haft veruleg áhrif í þjóðfélagi nútímans, jafnvel kostnaðarsamari heldur en á árum áður. Kerfið sem dengdi niður snjó á höfuðborgarsvæðinu skömmu fyrir jól var af þessu tagi (svo tók stærra kerfi við og bjó til hríð úr snjónum). Sömuleiðis má telja kerfið litla sem bjó til snjóinn sem varð aðalefni snjóflóðanna eystra fyrir um mánuði. 

Hvað verður úr því kerfi sem liggur við Suðvesturland einmitt núna er ekki vitað. Það er alla vega mun erfiðara að búa til skafrenning og hríð í apríllok heldur en um hávetur - sólin er orðin dugleg. En veðurlíkön eru samt að gera ráð fyrir mikilli úrkomu næsta sólarhring.

w-blogg260423a

Hér er sólarhringsúrkomuspá uwc-líkansins svonefnda. Sýnir úrkomu sem fellur í líkaninu frá því klukkan 18 í dag (miðvikudag 26. apríl) til kl.18 fimmtudag 27. apríl. Hæsta talan er 64 mm, nærri Garðskaga - það er mjög mikið - og væri feiknamikið ef allt félli sem snjór - sem það gerir varla. Önnur líkön setja hámarksúrkomuna ekki á sama stað - úti á sjó - og hæstu tölur eru ekki þær sömu. Þessar háupplausnarspár eru gerðar á 6 klukkustunda fresti og hvert rennsli flytur hámarkið frá einum stað til annars og sýnir misháar tölur. Ekkert samkomulag um það.

En reikningarnir sýna okkur samt að úrkomumætti loftsins er nokkuð mikið - fái það að lyftast. Mjög lítill vindur er í háloftunum, en svo virðist sem rakt og (til þess að gera) hlýtt loft (sem hefur fengið að malla yfir sjónum við Suður- og Suðvesturland) liggi undir þurru og (til þess að gera) köldu lofti norrænnar ættar.

Viðkvæm jafnvægisstaða - glórulítið fyrir ritstjóra hungurdiska að fabúlera meir um hana. Við sjáum hvað gerist - lýkur smálægðavetrinum mikla með þessu? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband