Tólfmánaðahitinn

Eftir þennan kalda vetur er rétt að líta á stöðu 12-mánaðahitans í Reykjavík og þróun hans á öldinni. Myndirnar eru kannski ekki í skýrara lagi, en látum það gott heita að sinni.

w-blogg050423a

Í kringum aldamótin síðustu hlýnaði verulega frá því sem verið hafði áratugina á undan og hafa nær öll ár síðan veri hlý. Hlýnunin kom eiginlega öll í einu þrepi á árunum 2002 til 2004. Síðan hefur ekkert hlýnað, en köld ár hafa þó ekki látið sjá sig og kaldir mánuðir hafa verið sárafáir. Grái ferillinn á myndinni sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á þessum tíma. Fyrsta gildið er sett við janúar 2001, það er hiti tímabilsins febrúar 2000 til janúar 2001. Síðan er haldið áfram. Síðasta gildið nær til apríl 2022 til mars 2023. 

Rauði ferillinn er settur inn til gamans (gerir myndina ólæsilegri að vísu). Þetta er samskonar ferill fyrir 22 ár rúm á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld. Hann byrjar á meðaltali mánaðanna febrúar 1925 til janúar 1926, en endar á febrúar 1947 til mars 1948. Síðara hlýja tímabilið er lítillega hlýrra en það fyrra - rauði ferillinn er oftast neðan við þann gráa. 

Á fyrra tímabilinu er hlýjast um 1929, 1939, 1941 og 1946, en á því síðara 2003, 2004, 2010, 2014, 2016 og 2019. Stærð sveiflna á milli ára er ekkert ósvipuð á tímabilunum tveimur - ræðast aðallega af tíðni vindátta og uppruna þess lofts sem um landið leikur á hverjum tíma. 

w-blogg050423b

Síðari myndin sýnir 30 ára keðjumeðaltal hitans eins og það blasir við í baksýnisspeglinum á hverjum tíma. Síðasta gildið á bláa ferlinum tekur til tímabilsins apríl 1993 til mars 2023, en það fyrsta á við febrúar 1971 til janúar 2001. Á rauða ferlinum á fyrsta gildið við febrúar 1896 til janúar 1926, en það síðasta frá apríl 1918 til mars 1948. Á báðum tímabilunum er 30-ára hitinn smám saman að hrista af sér kulda fortíðarinnar og hækkar eftir því sem á líður, heldur örar á því síðara heldur en því fyrra.

Við vitum auðvitað um framhald rauða ferilsins, hann toppaði í júnílok 1961 (frá júlí 1931) - eftir það fór hann niður á við og náði lágmarki í októberlok 1995, en hefur hækkað síðan. Hann fór framúr fyrra hæsta hámarki í ágúst 2016, og hefur verið ofan við það síðan. 

Við vitum ekkert um framhald bláa ferilsins. Við vitum þó að hin köldu ár 1993 til 1995 eru enn inni í honum. Það þarf ekkert sérstök hlýindi til að slá þau út - og þar með valda hækkun ferilsins. Eftir það fer að verða erfiðara að kreista út frekari hækkun, sérstaklega þá eftir 2031. Hæsta gildi rauða ferilsins kom 13 árum eftir endann sem er sýndur hér.

Hvernig eða hvort heimshlýnun (sem við skulum ekkert vera að efast sérstaklega um) skilar sér hér (umfram það sem þegar er orðið) vitum við ekki. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir fjölbreytta úrvinnslu þinni á ýmsum veðurþáttum á bloggpistlum þínum. Segja má að viðfangsefnið varðandi orkuskiptin séu tvíþætt. 

Annars vegar hlýnun andrúmsloftsins og hins vegar þverrandi orkulindir fyrir jarðefnaeldsneyti. 

Ef miðað er við lokaorð þessarar skýrslu þinnar er munurinn á þessu tvennu sá, að þverrandi orkulindir jarðefnaeldsneytis eru staðreynd en um áframhaldandi heimshlýnun "vitum við ekki." 

Á 20. öld fórum við í orkuskipti í upphitun húsa af gildum ástæðum varðandi jarðefnaeldsneytið og ekki er eftast um réttmæti þess. 

Eða vill nokkur byrja aftur að hita hús upp með kolum og oliu? 

Hei, það blasir við að hvort sem heimshlýnun er af mannavöldum eða ekki, nægir sama ástæðan nú og á 20. öldinni til þess að réttlæta orkuskiptin.  

Ómar Ragnarsson, 6.4.2023 kl. 23:09

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir fjölbreytta úrvinnslu þína á ýmsum veðurþáttum  í bloggpistlum þínum.

Segja má að viðfangsefnið varðandi orkuskiptin séu tvíþætt. 

Annars vegar hlýnun andrúmsloftsins og hins vegar þverrandi orkulindir fyrir jarðefnaeldsneyti. 

Ef miðað er við lokaorð þessarar skýrslu þinnar er munurinn á þessu tvennu sá, að þverrandi orkulindir jarðefnaeldsneytis eru staðreynd en um áframhaldandi heimshlýnun "vitum við ekki." 

Á 20. öld fórum við í orkuskipti í upphitun húsa af gildum ástæðum varðandi jarðefnaeldsneytið og ekki er eftast um réttmæti þess. 

Eða vill nokkur byrja aftur að hita hús upp með kolum og oliu? 

Hei, það blasir við að hvort sem heimshlýnun er af mannavöldum eða ekki, nægir sama ástæðan nú og á 20. öldinni til þess að réttlæta orkuskiptin.  

Ómar Ragnarsson, 6.4.2023 kl. 23:14

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka góðar kveðjur Ómar. Hlýnunin í heiminum er af mannavöldum - engin ástæða til að efast um það. Hér á landi hefur hlýnað um hátt í 2 stig á 200 árum, gróflega má segja að rúmur helmingur af því sé heimshlýnun - en afgangurinn staðbundinn/tímabundinn. Notkun á jarðefnaeldsneyti mun væntanlega minnka mikið - og flest gott um það að segja. En mér líst samt illa á þá hugumynd að selja alla orku Íslands til að fresta gróðurhúsaáhrifunum um 78 daga. Ef við hlustum á þá hugmynd mun salan eiga sér stað  - en frestunin alls ekki. Því miður er hlustað (við heyrum það á stjórmálamönnum allra flokka) og deilurnar í dag standa aðallega um það hvernig staðið skuli að fjármögnun, hvort erlent fjármagn eigi að taka strax yfir - eða hvort stela eigi þjóðareignum fyrst. Hvor ógæfan verður ofan á veit ég ekki - náttúru Íslands mun umturnað. 

Trausti Jónsson, 7.4.2023 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 243
  • Sl. sólarhring: 603
  • Sl. viku: 3998
  • Frá upphafi: 2429420

Annað

  • Innlit í dag: 159
  • Innlit sl. viku: 3438
  • Gestir í dag: 155
  • IP-tölur í dag: 149

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband