Og hvað næst?

Staða veðrakerfa hefur verið nokkuð læst upp á síðkastið. Norðan- eða norðvestanátt ríkjandi í háloftum, og norðan- og norðaustanátt í mannheimum. Bjartviðri og þurrkur hefur verið ríkjandi um stóran hluta landsins, nema hvað á Norðaustur- og Austurlandi hefur snjóað nokkuð. Óvenjukalt hefur verið í veðri - en í sjálfu sér illviðralaust. Vindur hefur ekki verið teljandi nema dag og dag austan- og suðaustanlands. 

Nú er komið að ákveðinni breytingu (að sögn reiknimiðstöðva). Vindur snýst á morgun (fimmtudag 16.mars) til vesturs og síðar suðvesturs í háloftum - með þeim afleiðingum að veðrið breytist. Frostið minnkar heldur og úrkomulíkur aukast verulega um landið suðvestanvert. Síðdegis á föstudag verður sunnanáttin í háloftunum orðin ákveðin. 

w-blogg150323a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á föstudagskvöld (17.mars). Þá er háloftalægðardrag skammt vestan við land. Vestan við það er hvass norðvestanstrengur (sjá vindörvar), en ákveðin sunnan átt yfir Íslandi. Í neðri lögum læðist loft úr austri í átt að lægðardraginu, meðfram suðurströnd landsins. 

w-blogg150323b

Næsta mynd sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) - hann sjáum við betur á síðustu myndinni. Hér einbeitum við okkur að litunum. Þeir gefa til kynna uppstreymi (bláir litir) og niðurstreymi (brúnir litir) í um 3 km hæð (700 hPa) - í þeirri hæð er úrkomumyndun gjarnan áköfust. Því dekkri sem blái liturinn er því ákafara er uppstreymið. Einingin er einkennileg, Pa/s, þeir sem stækka myndina geta greint töluna -4,3 í miðju bláu klessunnar suður af Reykjanesi. Þar lyftist loftið um 4,3 Pascal á sekúndu - ritstjóranum sýnist það í fljótu bragði samsvara um 40 cm á sekúndu lyftingu (ekki nákvæmlega reiknað) - afskaplega ákveðin hreyfing. Við þetta kólnar loftið auðvitað og raki fellur út - sem snjór. 

w-blogg150323c

Hér eru upplýsingarnar komnar inn á hefðbundnara veðurkort. Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Þær eru heldur gisnar, enda er vindur ekki mikill. En við sjáum mjög greinilegt lægðardrag sem teygir stig úr suðsuðaustri inn yfir Reykjanes og þaðan norður um Dali og Húnaflóa, allt til Jan Mayen. Grænu og bláu litirnir sýna úrkomumagn síðustu 3 klukkustundir. Á dökkbláa svæðinu er það á bilinu 10-15 mm. Það er auðvitað mikið, samsvarar lauslega 10-15 cm snjó. 

Þegar þetta er skrifað - á miðvikudagskvöldi - eru enn tveir sólarhringar í þann tíma sem kortin vísa á. Ekki alveg víst að allt fari eins og reiknilíkön sýna. Bæði staðsetning úrkomunnar, ákefð hennar og svo heildarmagn er ekki neglt niður. Við vitum heldur ekki fyrir víst hvort þetta er allt snjór - eitthvað gæti verið blautara. Höfum þetta allt í huga.

En í fortíðinni þekkjum við fjölmörg ámóta dæmi. Mikið snjóar á fremur takmörkuðu svæði - minna (en samt eitthvað) á stærra. Mestu öfgarnar gera annars vegar ráð fyrir 50-60 cm snjó, en hins vegar engum. Ritstjóri hungurdiska tekur enga afstöðu til þess (frekar en venjulega). Fyrir utan þessa milliþáttahugleiðingu veðurlagsins er síðan gert ráð fyrir óbreyttri tónskipan - norðanátt og frosti svo langt og séð verður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband