Af Stóra-Bola

Kuldapollur kanadísku heimskautasvæðanna - sá sem við höfum til hægðarauka nefnt Stóra-Bola hér á hungurdiskum - hefur verið fremur litið áberandi fram undir þetta í vetur. Þegar hann hefur náð sér á strik hefur hann oftast ráðist í vesturvíking - fjarri okkur - en við höfum sí staðinn setið í straumum úr Norðuríshafi - ekki eins illkynjuðum hvað harðviðri snertir - að þessu sinni. 

Nú er hins vegar sú staða uppi að Stóri-Boli hefur náð fullum vetrarstyrk. Á kortinu hér að neðan eru fjórir fjólubláir litir - en litir tákna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Dekksti liturinn sýnir svæði þar sem hún er minni en 4740 metrar. Ritstjórinn talar gjarnan um ísaldarþykkt þegar minnst er á svo lágar tölur (það er reyndar bara orðaleppur - til hægðarauka og hryllings). 

w-blogg300123a

Kortið er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl.18 á morgun, þriðjudaginn 31. janúar 2023. Rauða örin bendir á lægðina sem veldur illviðrinu á landinu í dag (mánudag). Henni er eiginlega sparkað út af borðinu - gengur suðaustur til Póllands og grynnist. 

Í vestri sjáum við Stóra-Bola. Hann er hér á hefðbundnum slóðum og við megum segja í stórum dráttum venjulega útlítandi miðað við árstíma. Þykktin nærri miðju er 4680 metrar - um 200 metrum minni en við höfum nokkru sinni séð hér við land - og 300 metrum minni en lægst hefur orðið í vetur. En þessi kuldi allur - og háloftavindar í kringum hann eru mikill lægða- og illviðramatur - lítið má út af bregða. Í þessari stöðu höfum við oft sloppið við öll meiriháttar vandræði - en á slíkt er aldrei treystandi.

Nú virðast reiknimiðstöðvar nokkuð sammála um að Boli taki á rás suður á bóginn, ráðist á suðausturhéruð Kanada og jafnvel Nýja-England - með ísaldarkulda. Það er kannski ekki alveg einstakt, en ekki algengt. Þetta kuldakast á að vísu ekki að standa lengi - og kuldinn í miðju Bola mildast. Spárnar eru hins vegar ekki sammála um það hvað gerist svo - nema að þær kasta fjölmörgum illkynja lægðum í átt til Íslands - ýmist þá í formi úrhellissunnanveðra - eða vestansnjókomuofsa - sumar bjóða einnig upp á hríðarveður fyrir norðan og austan. 

En allt er þetta enn aðeins eitthvað í „huga“ líkana - þau vita vart sitt rjúkandi ráð - við vonum bara að vel fari. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin Þangbrandur

Ótrúlegt!

Hvað þýðir þetta?

Björgvin Þangbrandur "Birkirmár" Gíslasson, 1.2.2023 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 2486
  • Frá upphafi: 2434596

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 2208
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband