Illviðrið mikla rétt fyrir jólin 1972

Rétt fyrir jólin 1972 gerði eftirminnilega illviðrasyrpu. Verst varð veðrið að kvöldi þess 21. desember og nóttina þar á eftir. Féll þá mastur í Búrfellslínu og mikið rafmagnsleysi herjaði á landið sunnan- og vestanvert. Erfiðast varð ástandið í álverinu í Straumsvík, þar gaf sig einnig túrbína sem sjá átti verinu fyrir varafli. Við rifjum þetta nú upp. Veðrátta í desember var mjög umhleypingasöm - við segjum frá upphafi mánaðarins í almennum pistli um árið 1972 sem birtist vonandi fljótlega. 

Undir kvöld sunnudaginn 17. leit ritstjóri hungurdiska inn á spádeild Veðurstofunnar. Hún var þar enn á fyrstu hæð flugturnsins á Reykjavíkurflugvelli. Þar var Jónas Jakobsson á vakt. Við horfðum saman á veðurkort dagsins. Virtist ritstjóra hungurdiska hann helst vera að leggjast í langvinnar austlægar áttir. Jónas gaf lítið fyrir það og benti á mikla lægð við Nýfundnaland sem vel gæti brotið stöðuna upp - þrátt fyrir að önnur lægð væri fyrir á fleti fyrir sunnan land - og þrýstingur nokkuð hár austur undan. Auðvitað var engar langtímatölvuspár að hafa, en Jónas reyndist samt hafa rétt fyrir sér. 

Slide1

Kortið sýnir þessa stöðu. Lægðin fyrir sunnan land olli stífri austsuðaustanátt og farið var að rigna þegar ritstjórinn lauk heimsókninni. Lægðin vestan við Nýfundnaland færðist í aukana.

w-blogg231122-1972-12-p-sponn-a

Línuritið sýnir annars vegar lægsta loftþrýsting á landinu (rauður ferill) en hins vegar mun á hæsta og lægsta þrýstingi (þrýstispönn) dagana 17. til 27. desember 1972 (bláleitar súlur). Síðdegis þann 17. tók þrýstingur að falla og þrýstispönn óx. Sæmilegt samband er á milli þrýstispannar og vindhraða. Seint að kvöldi sunnudagsins var spönnin komin yfir 20 hPa, það er stormstaða og rúmlega það. Kannski hefði verið gefin út gul veðurviðvörun fyrir spásvæði á Suður- og Vesturlandi, enda sagði Jónas í spánni kl.22: „Gert er ráð fyrir stormi víða á miðunum í nótt“.

Nýfundnalandslægðin náði síðan undirtökunum og fóru fleiri en eitt úrkomusvæði yfir landið, tengd lægðunum báðum, með strekkingsvindi. Úrkoma varð víða mikil, en ekki fréttist þó af tjóni nema á Akureyri aðfaranótt þriðjudagsins 19. Tíminn segir frá því í frétt þann 20.:

Tvær aurskriður féllu á Akureyri i fyrrinótt, önnur úr brekkunni ofan Aðalstrætis, en hin úr stöllunum norðan við kirkjuna. Hvorki var klaki né grjót i skriðunum og ollu þær því ekki miklum skemmdum. Brekkan ofan Aðalstrætis er snarbrött og standa húsin i brekkurótunum. Skriðan, sem þar féll, rann norðan hússins númer 28 og yfir götuna. Tók hún með sér fólksbifreið og flutti yfir strætið. Bifreiðin skemmdist ekkert, en þarfnaðist gagngerðrar hreingerningar. Aðalstrætið varð ófært, og enn um hádegið i gær, var verið að moka leðjunni á vörubila og hreinsa til. Hin skriðan féll úr brún efsta stallsins norðan við kirkjuna, nokkrum metrum vestan við jólatréð stóra, sem þar stendur. Þar undir brekkunni er smjörlíkisgerð KEA og braut skriðan þar glugga og fór inn á gólf i umbúðageymslunni. Talið er að meira kunni að hrynja þarna úr stallinum, því stórt stykki til viðbótar hefur sigið allmikið. Enginn klaki er nú í jörð á Akureyri og i fyrrinótt var þar suðvestan hvassviðri og tíu stiga hiti. Skriðuföll sem þessi eru ekki óalgeng á Akureyri, þar sem mikið er af bröttum brekkum i bænum. 

Það sem helst kemur hér á óvart er síðasta setningin um að skriðuföll séu ekki óalgeng á Akureyri. Oft hefur maður þó heyrt lítið gert úr því. 

Lægðirnar tvær og næstu eftirhreytur þeirra höfðu nú hreinsað til á svæðinu. Kalt heimskautaloft frá Kanada átti nú greiða leið sunnan Grænlands til stefnumóts við hlýrra loft langt sunnan úr höfum, sígildar aðstæður til myndunar krappra lægða með stefnu á Ísland. Síðdegis þann 19. var vindur orðinn hægur á landinu, þrýstispönnin komin niður fyrir 10 hPa. En ný lægð var komin fram á kortunum. Ekkert var á hana minnst í spánni sem lesin var kl.16:15, en kl.22:15 var hennar getið og Knútur Knudsen ákvað að spá stormi: „Gert er ráð fyrir stormi á miðum vestanlands“. Fram kemur að þetta er strax „í fyrramálið“. Ekki þætti það langur frestur nú til dags. 

Lægðin varð mjög snörp og má sjá af línuritinu að þrýstispönn var meiri en 20 hPa í meir en 12 klst og fór í meir en 25 hPa. Miðja lægðarinnar fór nokkuð fyrir vestan land. Talsverðir skaðar urðu. Tíminn segir frá 21.desember:

Í gær gerði ofsaveður við suðurströndina og var hvassviðri um allt sunnan- og vestanvert landið. Fylgdu þessu veðri þrumur og eldingar á Suðurlandi, og laust eldingu tvívegis niður í raflínuna frá Búrfellsvirkjun, í fyrra skipti rétt upp úr hádeginu og í síðara skiptið að áliðnum degi. Rétt um hádegið snerist vindur í suður og útsuður og fylgdu þeim veðrabrigðum miklar þrumur. Í Reykjavik heyrðist þó ekki [svo] ein þruma, sem að kvað, en hún var svo öflug, að allt ætlaði um koll að keyra og var því líkast sem ógurleg sprenging hefði orðið rétt við húsveggina. Litlu siðar var það, að eldingunni laust niður í raflínuna að austan, og varð rafmagnslaust á öllu orkuveitusvæðinu nema á litlum bletti í Reykjavík, er fékk rafmagn frá Elliðaárstöðinni. Var viða á svæðinu rafmagnslaust i klukkustund, en þó mun skemur í Reykjavik. Síðari hluta dagsins laust enn niður eldingum í línuna, eins og áður er sagt, en þá svo austarlega að rafmagn frá orkuverunum við Sogið barst ótruflað vestur yfir. Var enn rafmagnslaust austan fjalls á sumum stöðum í gærkvöldi. Sums staðar á Suðurlandi rofnaði símasamband einnig í þessum látum, og viða mjög erfitt að ná símasambandi, þótt ekki væri sambandið með öllu rofið. Þetta ólátaveður fylgdi í kjölfar lægðar, er var að fara hjá i gær.

Þjóðviljinn segir einnig frá eldingum og fleira tjóni í pistli þann 21.: 

Rétt fyrir hádegi í gær sló niður eldingu yfir austurbænum í Reykjavik. Glampinn af eldingunni var skær og heyrðist í þrumunni svo til samtímis. Var eldingin lágt á lofti og leiddi meðal annars i útvarpsloftnet á húsi við Lindargötu og sprengdi útvarpstæki i húsinu, sem ekki var jarðtengt. Rafmagnið leiddi áfram i rafkerfi i tveimur húsum við götuna og sprengdi ljósaperur í báðum húsunum áður en það leiddi i jörð.

Framan af degi í gær var kröpp lægð rétt vestur af borginni og bárust köld kuldaskil yfir borgina hratt til norðurs um hádegisbilið í gær. Fylgdi þessu éljagangur og elding eins og oft vill verða i útsynningi á vetrum. Rétt á eftir stytti upp og glitti i heiðríkjubletti á himni. Mikið hvassviðri var í Reykjavik í gær og komst vindhraðinn upp i 10 vindstig i verstu hryðjunum. Annars var ólátaveður um allt land i gær. Var vakthafandi veðurfræðingur búinn að spá éljagangi næsta sólarhring. Þá er hægt að gera ráð fyrir gránaðri jörð á jólum. Ekki var þetta einhlítt í gær af því að önnur lægð er að berast að landinu er framkallar ef til vill úrhellisrigningu. Rétt fyrir kl. 14 i gær bárust hin skörpu kuldaskil yfir Búrfell og sló þar niður eldingu í rafmagnsvíra og orsakaði skammhlaup svo að öll Reykjavik varð rafmagnslaus utan partur af Vogunum er nutu Elliðaárstöðvar. Gerðist þetta kl.13:14 og fékk borgin smátt og smátt rafmagn á næstu fimmtán mínútum á nýjan leik. Síðdegis í gær var mikið eldingaveður yfir uppsveitum Árnessýslu og orsakaði tíðum rafmagnstruflun þar i sveitum. Aftur sló niður eldingu í rafmagnsvíra í gær við Búrfell og orsakaði skammhlaup er olli rafmagnsleysi i mörgum borgarhverfum frá kl.16;50 til 17:05 hér í Reykjavik. Sogsvirkjun létti hins vegar álagið að þessu sinni og varð rafmagnsleysið ekki eins algjört eins og hið fyrra sinni. Í gær var hægt að búast við rafmagnstruflunum af fjórum ástæðum; Eldingaveður i uppsveitum Árnessýslu, slydda öðru hverju á Holtavörðuheiði, hvassviðri og selta. Heldur herti veðrið hér á höfuðborgarsvæðinu í gær og fuku þök af húsum i Kópavogi og Hafnarfirði og Grindavik og grindverk lögðust niður i verstu vindhviðunum. g.m

Og Vísir greinir frá foktjóni af völdum þessarar lægðar í pistli þann 21.:

Í öllu óveðrinu, sem gekk yfir í gærdag, og þrumum og eldingum, sem því fylgdi, varð nokkuð tjón af viða vegar. Mikið var um fok, og járnplötur flugu um á við og dreif. Í Árbæ fauk til dæmis járnplata í Vökuportinu svonefnda, og lenti hún á bil, sem beyglaðist talsvert. Í húsi við Vesturberg í Breiðholtinu fauk timburfleki inn um stofuglugga, brotnaði glugginn og flekinn lenti á gólfinu. Ekki hlaust slys eða meira tjón af þrátt fyrir fjúkandi plötur og annað slíkt. Í Hafnarfirði fauk járn af þaki húss við Vesturgötu síðla dags í gær, en olli engu slysi. Var gengið frá því í gær að koma járninu fyrir aftur og halda því niðri með grjóti. Alls staðar á landinu var allhvasst og leiðindaveður á flestum stöðum. Í Keflavík losnaði járn af tveimur íbúðarhúsum. Fór hluti járnplötu í bíl, sem stóð þar í grennd, en ekki urðu miklar skemmdir á bifreiðinni. Á Akranesi fauk járn af þaki bakhúss hraðfrystihússins, þar sem er fiskmóttaka og olli því að loka varð Hafnarbrautinni í þrjá tíma, á meðan gatan var hreinsuð. Járnplötur lentu á tveimur bílum, sem voru þar við húsið, og skemmdust bílarnir talsvert. Í Vestmannaeyjum var ofsarok, 12 vindstig á Stórhöfða, og lentu nokkrir bátar í erfiðleikum á sjó, þó ekki miklum. Voru það einna helst veiðarfæri og annað slíkt, sem erfiðlega gekk að ráða við. Ofsarokið, sem var í gær, þykir þó hvorki óvenjulegt né tiltakanlegt í Eyjum. EA 

Miðvikudagslægðin [þ.20.] fór fyrir vestan land. Tjón af hennar völdum varð einnig norður í Svarfaðardal. Tíminn segir af því þann 22.:

SB—Reykjavík. Ofsaveður gerði í Svarfaðardal fyrrakvöld [20.] og um kvöldmatarleytið tók þakið af íbúðarhúsi á Þorsteinsstöðum sem er næstfremsti bærinn að vestan. Allir viðir fylgdu þakinu, sem var risþak og eru Svarfdælingar að safna saman timbri sem nota mætti í bráðabirgðaþak á húsið, því að allt byggingarefni er uppselt í verslunum fyrir norðan. Rokið var á suðvestan og mun vindhraðinn i verstu hryðjunum hafa verið yfir tólf stig. Niðri á Dalvik urðu engar skemmdir svo vitað sé, en þar fauk jólatré, sem Lionsmenn höfðu nýkomið fyrir við kirkjuna. Brýna nauðsyn ber til að koma þaki yfir höfuð fjölskyldunnar á Þorsteinsstöðum, áður en frekari skemmdir verða, því að ekki er steypt plata á milli hæða i húsinu. Tjónið er tilfinnanlegt þar sem húsið var ekki tryggt fyrir slíkum áföllum. Er farið var að huga að timburkaupum i gær, kom i ljós að ekkert timbur var að fá í verslunum og hafa sveitungar verið að safna saman efni. Smiðir frá Dalvík verða fegnir að koma þakinu á. Lán i óláni er, að allir vegir í dalnum eru nú orðnir vel færir, en fyrir ekki löngu hefði verið nær ógerningur að flytja byggingarefni þarna fram í dalinn.

Fyrir hádegi fimmtudaginn 21. gerði annað þrumuveður, í þetta sinn í Rangárvallasýslu. Tíminn segir frá því þann 22.:

Enn gekk yfir mikið þrumuveður í Rangárvallasýslu fyrir hádegi í gær, og gerði usla á þrem bæjum að minnsta kosti — að Geldingalæk og báðum bæjum á Heiði á Rangárvöllum. Klofnuðu og brotnuðu símastaurar á milli bæjanna, og símatækin eyðilögðust á þeim öllum. Ólafur Magnússon, símaverkstjóri á Selfossi, brá fljótt við, er hann hafði fregnir af því, hvað gerst hafði, og síðdegis í gær var komið á símasamband við þessa bæi á ný. Náði Tíminn tali af Þorsteini bónda Oddssyni á Heiði og spurði hann um þessa atburði. — Við búum hér í tvíbýli, ég og Hjalti bróðir minn, sagði Þorsteinn, en á Geldingalæk býr Ingvar Magnússon. Hér er sunnan og suðvestanátt, og það voru él framan af degi með skruggum og ljósagangi. Laust fyrir hádegið hljóp elding í símalínuna hérna fyrir neðan túnið, klauf og braut sex staura og eyðilagði símatækin á Geldingalæk og í húsum okkar bræðra beggja. Það varð vist ógurlegur glumrugangur — ég var ekki sjálfur inni, þegar þetta gerðist - og það gaus eldur og reykur út úr tækjunum. Ekki kviknaði samt í, en ég sé, að það hefur sótast talsvert í kringum þau. Hér á Heiði sprakk líka stykki úr múruðum vegg, og hjá mér eyðilögðust miðstöðvartæki. Á Geldingalæk brunnu vist allar símaleiðslur. Það er svo sem ekki i fyrsta skipti, að eitthvað, viðvika ber til, bætti Þorsteinn við. Fyrir tveimur eða þremur árum brann síminn hjá Hjalta í þrumuveðri, og hjá mér sjálfum fyrir allmörgum árum.

Slide2

Myndin sýnir fyrri lægðina nálgast landið. Á þessum árum voru gervihnattamyndir ein helsta lífsbjörg veðurfræðinga í órótatíð. Þær komu þó ekki alla daga og voru ekki alltaf í lagi þegar þær bárust. Voru þær prentaðar á ljósmyndapappír í til þess gerðu framköllunartæki á Veðurstofunni. Tækið (sem var býsna stórt) var tengt móttökustöð á Keflavíkurflugvelli - út úr því komu myndir, nokkru minni en A4-blað. Á blaðinu voru tvær mjóar myndræmur, hitamynd á annarri, en ljósmynd á hinni. Um jólaleytið sást lítið á ljósmyndinni, en hitamyndin var oft nokkuð skýr (eða svo þótti manni). Eftir að myndin hafði verið framkölluð þurftu veðurfræðingar að draga á þær lengdar- og breiddarbauga - eftir að hafa lesið úr skeytum sem gáfu upplýsingar um brautir gervihnattarins. Hér er notast við samsetta útgáfu (nokkurra myndræma) úr þýskri ritröð. Frummyndirnar sem hingað komu fölnuðu á nokkrum árum og hlupu í brúna þoku. 

Síðari lægðin var enn krappari og vindur samfara henni enn meiri. Hún var fljótari í förum en gert hafði verið ráð fyrir. Spáin fyrir Suðvesturland hljóðaði þannig kl.10:10: „ ... vaxandi suðaustanátt í nótt, stormur og rigning í fyrramálið“. Reyndin varð sú að úrkoma byrjaði rúmum 6 tímum síðar í Reykjavík (um kl.17) og kl.19 var komið suðaustanhvassviðri. Suðaustanáttin náði þar hámarki kl.22, síðan dúraði aðeins, en kl.23:10 skall skyndilega á suðvestanstormur 22 m/s með hviðum upp í 35 m/s, og á miðnætti var vindur kominn í 29 m/s og hviður í um 44 m/s. Allt mun verra og sneggra en ráð hafði verið gert fyrir. 

Slide3

Ritstjóra hungurdiska minnir að hafa séð hitamynd sem tekin var upp úr hádegi þann 21. - en hún er horfin (í brúnu þokuna) og þjóðverjar endurprentuðu hana ekki - en í hennar stað var í safninu birt ljósmynd tekin þennan dag. Myndin er ekki úr sama hnetti og hin - og hefur trúlega ekki borist Veðurstofunni. Hér má sjá mjög ógnandi blikuhaus síðari lægðarinnar, en á þessum fyrstu árum gervihnattamynda var merking slíkra blikuhausa ekki orðin mönnum fullljós. 

Slide4

Á háloftakorti japönsku endurgreiningarinnar og gildir kl.18 fimmtudaginn 21. desember má sjá stöðuna. Vel hefur verið hreinsað til í braut lægðarinnar. Heimskautaröstin í skotstöðu og inn í hana hefur gengið bylgja af hlýrra lofti (græni liturinn) sem fer hratt til norðausturs yfir landið. 

Slide6

Sjávarmálskortið á miðnætti sýnir lægðina. Hún er ekki fjarri réttum stað, en þegar farið er í smáatriði kemur í ljós að endurgreiningin vanmetur dýpt hennar verulega, eða um 14 hPa - og munar aldeilis um minna. Hér sést enn og aftur hversu varasamt er að trúa smáatriðum endurgreininga, ekki síst í öfgaveðurlagi. En á móti kemur að eðli veðursins er alveg rétt greint (og það er mjög mikils virði). Bandaríska endurgreiningin er með sama miðjuþrýsting, 979 hPa. Vonandi koma betri greiningar síðar.

Slide7

Íslandskortið sýnir veðurskeyti frá miðnætti að kvöldi fimmtudagsins 21. desember 1972. Lægðin er þá yfir Dölum, um 965 hPa í miðju (endurgreiningin sagði 979 hPa). Það var um þetta leyti sem veðrið skall á Borgarnesi. Afskaplega eftirminnileg klukkustund fylgdi í kjölfarið, húsið á Miðnesinu nötraði og veðrið öskraði allt um kring. En það versta stóð ekki mjög lengi. 

Á kortinu má sjá að loftvog hefur fallið um 17 hPa á 3 klukkustundum í Stykkishólmi - og þar er norðanátt. Sérlega óhuggulegt. Lægðin hélt síðan áfram norðaustur um Húnaflóa. Vestfirðir sluppu með skrekkinn, og sömuleiðis virðist hafa verið tjónlítið á Suðausturlandi og Austfjörðum. Annars staðar varð víða mikið tjón. 

Slide8

Á þessari mynd er lægðin komin norðaustur í haf og veður orðið skaplegt á landinu. Nokkuð dimmur éljagangur var þó á Vestur- og Suðurlandi. Blöðin voru flest farin í prentun þegar veðrið varð sem mest - og birtu því litlar fréttir af tjóni fyrr en á Þorláksmessu. Þá kom þessi mynd á baksíðu Tímans. Mastrið sem myndin sýnir var úti á Seltjarnarnesi.  

Slide9

Dagblaðið Tíminn var með einna ítarlegastar fréttir af tjóni í veðrinu. Alvarlegast var fall masturs í Búrfellslínu, sem enn var aðeins einföld um þessar mundir. Olli þetta alvarlegum rafmagnsskorti í álverinu í Straumsvík og á mestöllu Suðvesturlandi - meira að segja uppi í Borgarnesi. 

Slide10

Margskonar fréttir voru af veðrinu í Tímanum á Þorláksmessu og við leyfum okkur að hræra í röð þeirra og uppsetningu - frumritið má auðvitað sjá á timarit.is.

Mikið hvassviðri gekk yfir landið í fyrrakvöld [að kvöldi 21. desember] og nótt. Var áttin á suðsuðvestan og náði veðurhæðin viða 10-11 vindstigum. Stafaði þetta af djúpri og krappri lægð sem gekk yfir og var hún yfir Hvammsfirði á miðnætti. Á Stórhöfða mældust 89 hnútar, sem samsvarar 14 vindstigum eftir gömlu mælingunni. Meðalvindur i Reykjavik var 11 vindstig og svipað var á Raufarhöfn, Akureyri og Sauðárkróki. Víða um land urðu skemmdir af völdum veðursins.

Verstu afleiðingar fárviðrisins, sem gekk yfir landið i fyrrakvöld og fyrrinótt, eru skemmdir þær, sem urðu á raflínunni frá Búrfellsvirkjun, og sá slóði, er rafmagnsskorturinn dregur á eftir sér. Getur svo farið, að tugmilljónatjón verði í álverinu í Straumsvik, þar sem ekki hefur fengist nóg rafmagn til þess að halda bræðslukerjum heitum. Fyrirsjáanlegt er, að rafmagnsskortur verður á orkuveitusvæðinu sunnan lands og suðvestan næstu daga. Undanfarna daga hafa hvað eftir annað orðið rafmagnstruflanir af völdum illveðurs og eldinga, svo sem kunnugt er. Þó syrti fyrst i álinn á milli klukkan tíu og ellefu i fyrrakvöld, er stálvirki á vestri bakka Hvítár í Árnessýslu brast og lagðist út af. Við það rofnaði rafstraumurinn að austan með öllu, þar sem hin fyrirhugða varalina er ekki komin í gagnið.

Raflínan lá yfir Hvítá rétt hjá Hömrum í Grímsnesi, og var þar sjö hundruð og þrjátíu metra haf stálvirkja á milli. Þegar stálvirkið á vestri bakkanum lagðist út af, slitnuðu þrír rafstrengir og féllu niður i ána. — Ég brá mér upp eftir, sagði fréttaritari Tímans i Ölfusi, Páll Þorláksson á Sandhóli. Stálvirkið, sem var sextíu metra hátt, liggur alveg á hliðinni, beyglað og brotið, og næsta virki við það er einnig laskað, stoðir svignaðar og fleira gengið úr skorðum. Viðgerðamenn eru komnir austur með efni og tæki til viðgerða, sagði Halldór Jónatansson, aðstoðarframkvæmdastjóri Landsvirkjunar, þegar blaðið átti tal við hann i gær. En bráðabirgðaviðgerð tekur áreiðanlega nokkra daga, svo að draga verður mjög úr rafmagnsnotkun. Það er níu hundruð metra haf, er tengja verður, og það verður ekki neinn leikur, síst ef veðrið verður rysjótt næstu daga eins og viðbúið er. Reyna átti að fara með grannan streng yfir ána á gúmbát með utanborðsvél og draga síðan gildari strengi yfir. En allsendis óvist var, að það tækist. Einnig var talað um að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðstoðar, sem og þyrlu af Keflavikurflugvelli, ef veður leyfði.

Ef rafmagn verður ekki komið að fullu innan tveggja sólarhringa, verður tugmilljónatjón hér í Straumsvik, sagði Ragnar Halldórsson, forstjóri Íslenzka álfélagsins, er við spurðum hann um horfurnar i álverinu. Hins vegar held ég, að tjónið verði varla meira en nokkrar milljónir króna, ef við fáum nóg rafmagn áður en tveir sólarhringar eru liðnir. Rafmagnslaust varð i álverinu um klukkan tíu í fyrrakvöld, og síðan hafa aðeins 108 ker af 192 verið i gangi. — Það eru þýi áttatíu og fjögur ker úr leik, sagði Ragnar enn fremur, og i hverju þeirra eru sex smálestir af áli, samtals fimm hundruð lestir, 25 milljón króna verðmæti. Ef við fáum ekki rafmagn, storknar álið i kerjunum. Við það geta kerin eyðilagst með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ragnar sagði, að álverið þyrfti 140 megavatta orku að meðaltali, þegar öll ker væru i gangi, en í gær var orkan, sem álverið fékk, ekki nema fimmtíu til áttatíu megavött. Í Straumsvik er varaaflstöð, og i henni eru tvær túrbínur, sem framleiða 75 megavött. Þessi varaaflstöð var tekin í notkun strax og Búrfellslinan bilaði. En í gærmorgun bilaði önnur túrbína í varastöðinni, svo að hún skilaði ekki nema þrjátíu megavöttum. Þetta er raunar varastöð fyrir allt Suðurland. Í gærkvöldi hafði þó tekist að gera við túrbínuna, sem bilaði, og við það rofaði ofurlitið til. Við spurðum Ragnar, hver talinn yrði bera ábyrgð á þessari bilun og þeim afleiðingum, er hún hefði. Hann svaraði því til, að það væru líklega einna helst æðri máttarvöld. Halldór Jónatansson, aðstoðarframkvæmdastjóri Landsvirkjunar, sagðist ekki vita, hver yrði til ábyrgðar kallaður. Hann sagði einnig, að hann gæti engu um það spáð, hvenær álverið fengi fulla raforku. Það byggi við skömmtun eins og aðrir.

Austur i Biskupstungum varð allmikið tjón á gróðurhúsum, auk þess sem járn fauk af húsum hér og þar, til dæmis á Skálholtsskólanum nýja og á bænum Litla-Fljóti. Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi í Hveratúni, sagði að hjá sér hefðu brotnað á annað hundrað rúður í gróðurhúsum. Þetta væri eitt allra versta veður, sem þarna hefði komið um árabil. Garðyrkjubændur hefðu flestir vakað í nótt yfir húsum sinum og lokað götunum jafnóðum. Ekki gat Skúli sagt um tjón á gróðri í húsunum, en varla væri það mikið, því ræktunin væri langt komin hjá flestum. Þá fuku upp tvö plastgróðurhús og hurfu út i buskann. Eiríkur Sæland á Espiflöt sagði að veðrið hefði verið verst milli 23 og 23.30 i fyrrakvöld. Þá hefði rifnað mikið úr plastgróðurhúsi hjá sér, sem hann var nýbúinn að planta i 10 þúsund krysantmeum. Húsið var opið fyrir veðrinu i alla nótt og líklegt, að plönturnar hafi skemmst. Þetta magn mun kosta 50-60 þúsund krónur. Þess má geta, að ekki er hægt að veðurtryggja gróðurhús hérlendis, eins og í nágrannalöndunum og verða því eigendur að bera tjón sitt sjálfir.

Þak fauk af íbúðarhúsinu í Kirkjubæ á Rangárvöllum. Þá auk fjárhús i Háfi í Djúpárhreppi og mannlaus gamall bær i Götu i Hvolhreppi. Víða um Suðurland fuku þök af útihúsum, plötur af íbúðarhúsum og ýmislegt lauslegt úti við brá sér á flakk. Að sögn Eysteins Einarssonar á Brú, sem búið hefur við Markarfljót á þriðja áratug, er þetta eitt alversta veður, sem þar hefur komið.

Fárviðri var í neðanverðri Árnessýslu í fyrrakvöld og í fyrrinótt, í uppsveitum Arnessýslu mun veðrið aftur á móti hafa verið heldur skárra. Þegar veðurofsinn var sem mestur, má segja að allt hafi farið á stað, sem gat fokið. Tvær heyhlöður á Vorsabæjarhól og á Langstöðum fuku út í veðrið. Þessar hlöður voru frekar litlar, og var búið að taka þær úr notkun. Þá fauk geymsluhús á einum bæ í Flóanum. Í Gaulverjabæjarhreppi fuku fjórir heyvagnar, þar af voru þrír nýir áhleðsluvagnar. Vagnarnir munu allir hafa skemmst meira og minna og er mikið tjón af þeim. Á einum bæ fauk færiband, sem lá upp í votheysturn. Uppborin hey hafa fokið unnvörpum, og sést ekki urmull eftir af þeim. Á Selfossi fauk mikið af járnplötum af húsum og kyrrstæðir bílar færðust úr stað. Ekki hlaust þó mikið tjón af þeim sökum. Raflínustaurar hafa gengið til og sumir lagst á hliðina, en línur slitnuðu þó ekki.

Mikið tjón varð á Eyrarbakka í óveðrinu. Þök fuku af húsum, rafmagnsstaurar brotnuðu og lentu sumir hverjir á húsum og brutu þök og skorsteina og skúr við frystihúsið fauk yfir næstu hús og braut skorsteina á fluginu og lenti um 150 metra frá sinum upprunalega stað. Skúrinn var um 40 fermetrar og allhár. Eitthvað fauk af minni skúrum. Fólk hætti sér ekki út fyrir dyr og ekki mun mörgum hafa orðið svefnsamt um nóttina. Það er mál manna á Eyrarbakka að verra veður hafi ekki komið þar i manna minnum. Rafmagnslaust var alla nóttina og í gær en reiknað var með að það kæmist í samt lag í gærkvöldi.

Á Þorlákshöfn er líka sögu að segja. Þar fuku þök af húsum og varð af mikið tjón. Talið er að upp undir tíu hús hafi orðið fyrir skemmdum og sum ný. Rauðamöl sem nýlega var borin á götur Þorlákshafnar fauk um eins og lausamjöll og loftnet á húsaþökum kengbognuðu. Svo giftusamlega tókst til, að ekki urðu skaðar á fólki og má það teljast mildi því margir voru úti við í óveðrinu að reyna að bjarga því sem bjargað varð. Slíkt var þó nánast vonlaust því veðrið var naumast stætt og auk þess fór rafmagn af. ... Fréttaritari Tímans á Þorlákshöfn sagði, að fólk þar um slóðir væri vant tíu til ellefu vindstiga veðri, en ósköpum á borð við það sem gekk á í fyrrinótt myndi enginn eftir þar.

Á Sauðárkróki var ofsaveður milli kl. 24 og 3 og að sögn Guttorms Óskarssonar kemur slíkt veður aðeins örsjaldan þar. Plötur fuku af mörgum húsum og lítil trilla sökk í höfninni. Lögregla og hjálparsveitir voru úti við fram undir morgun við að aðstoða fólk í vandræðum. Má geta þess, að lögreglumenn fóru upp á þak sýslumannsbústaðarins, þegar plötur tóku að losna þar og festu þær niður. Í sveitum í nágrenninu fuku þök af útihúsum og plötur og sleit úr heyjum.

Á Akureyri fuku plötur af mörgum húsum og á einum stað lenti plata í stórum glugga á búðarhúsi og braut hann að sjálfsögðu. Í öðru íbúðarhúsi kom gat á þakið og viðarklæðning í stofu skemmdist mikið. Á elliheimilinu fuku hurðir upp trekk í trekk og var lögreglan send á staðinn til að gera ráðstafanir. Lögreglan var úti við fram eftir nóttu til að aðstoða fólk. Þá fauk jólatréð á Ráðhústorgi um koll. Plötur fuku af flugstöðinni á Akureyrarflugvelli og lentu á jarðýtu, sem Fokker Friendship flugvél var bundin við, en ekki hafði verið unnt að koma henni inn í flugskýlið vegna veðurs.

Flugvél frá Flugfélagi Íslands, sem kom frá Egilsstöðum i fyrrakvöld, gat ekki lent á Reykjavikurflugvelli vegna veðurs, og hélt hún þess vegna áfram til Keflavikur. Þar tókst lending. En björninn var ekki unninn. Stórviðrið var slíkt að ekki var þorandi að hreyfa flugvélina eftir að hún hafði staðnæmst á brautinni. Voru hreyflar hafðir i gangi og vélinni beitt upp i vindinn. Urðu farþegar að dúsa i henni í hálfan fjórða klukkutíma, uns loks var hægt að hleypa þeim út.

Á Keflavikurflugvelli var ofsaveður i fyrrinótt eins og mjög viða annars staðar, og virðast skemmdir hafa orðið á vél þotunnar Sólfaxa. Fyrir mótornum er hringlaga hlíf, sem fór frá í veðrinu, og mun aðskotahlutur hafa komist í hann. Þetta kom í ljós í gær, þegar setja átti vélina i gang, og var verið að kanna í gærkvöldi, hvað skemmst hefði.

Í Reykjavik varð mikið tjón af völdum ofsans. Þakplötur fuku víða af húsum og ollu skemmdum á öðrum húsum. Rúður brotnuðu í húsum víðsvegar um borgina, því að alls konar rusl var á ferð og flugi, og urðu margir að negla fyrir glugga sina til bráðabirgða. Aðstoðarbeiðnir til lögreglunnar komu frá 58 stöðum i Reykjavik, en langt er frá því að allir þeir, sem þurftu á aðstoð að halda eða urðu fyrir tjóni vegna veðursins, hafi hringt í lögregluna, því að flestir reyndu að bjargast eftir, bestu getu og byrgja brotna glugga og negla niður þakplötur, sem voru að losna. Kvartanir undan veðrinu hófust upp úr miðnætti. Margir ökumenn urðu að ganga frá bílum sinum, þar sem þeir stöðvuðust vegna vatnsagans. Niðurföll stífluðust af krapinu og stöðuvötn mynduðust. Sjór gekk yfir syðsta hluta Suðurgötu, við vesturenda flugvallarins. Þar stöðvaðist bíll í sjávarlöðrinu og varð að bjarga bílstjóranum úr bílnum yfir í stóran lögreglubil og var honum svo ekið á öruggan stað. Engar slysfarir urðu samt vegna veðursins. Lögreglan beindi því til Reykvíkinga gegnum útvarpið, að öruggast væri að halda sig innan dyra meðan ofsinn gekk yfir og voru því fáir á ferli. Fátt manna var á veitingahúsunum og því ekki teljandi umferð þegar þau lokuðu um miðnættið. Vinnuflokkar frá borginni voru kvaddir út til að tina saman járnplötur og aðstoða við að halda húsaþökum á sinum stað. Einna mest varð tjónið á Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Þar fuku járnplötur af þaki einnar álmu hússins. Var enginn vegur fyrir nokkurn mann að athafna sig uppi á þakinu þegar veðurhæðin var sem mest, en reynt var að ná plötunum, eftir að þær fuku niður, til að þær yllu ekki frekari spjöllum. Meiri hluti þakplatna fauk einnig af sambýlishúsi við Kleppsveg. Heil þök á mörgum gömlum húsum voru í mikilli hættu og sums staðar voru þau farin að losna þegar veðrið gekk niður. Á timburhúsi nokkru við Óðinsgötu var þakið farið að vinka, og var óttast að það tæki af í heilu lagi i einhverri kviðunni, en þá lægði ofsann og íbúar hússins eiga enn þak yfir höfuðið. Átta lögreglubílar voru í stanslausum akstri með fólk, sem ekki komst leiðar sinnar með öðrum hætti. Varla var stætt á götunum, enga leigubila var að fá og héldu flestir kyrru fyrir. Nokkrir árekstrar urðu. Ökumennirnir réðu i sumum tilfellum ekkert við bila sina og fuku þeir hvorir á aðra og slyddan settist á rúðurnar og erfitt var að sjá til að aka. Í myrkrinu og ofsarokinu varð vart við grunsamlegar mannaferðir á nokkrum stöðum. Voru gerðar tilraunir til að brjótast inn í hús en ekki var tilkynnt um neina stórþjófnaði.

Þakplötur losnuðu af nokkrum húsum og skúrum í Hafnarfirði og fuku á bila og skemmdu, en ekki mikið. Að Dysjum 2 i Garðahreppi fauk þak af útihúsi og skemmdi þrjá bila. Dysjar eru skammt frá Garðakirkju. Bílarnir stóðu allir á hlaðinu á Dysjum hjá Guðmanni Magnússyni, hreppstjóra. Þakið fauk af í heilu lagi og lenti á bílunum, sem skemmdust allir mikið. Á Álftanesi brotnuðu nokkrir rafmagnsstaurar og inntök i hús slitnuðu, en gert var við þær skemmdir í gærmorgun og gærdag. Bíll, sem var á leið yfir Kópavogsbrú fauk út af akbrautinni og lenti á brúarstöpli og skemmdist mikið. Tvær konur sem voru í bílnum meiddust, en ekki alvarlega. Í Kópavogi fauk kranabíll á hliðina. Að öðru leyti er ekki kunnugt um skemmdir þar. Talsvert var um þakplötufok af húsum og skúrum á Seltjarnarnesi, en stórvægilegar skemmdir urðu þar ekki. Biðskýlið, sem stóð gegn barnasólanum fauk um koll, en skemmdist ekki verulega. Í morgun þegar Seltirningar komu á fætur fundu fæstir þeirra sorptunnur sinar, sem varla var von, því yfirleitt mun illa gengið frá þessum þarfagripum vestur þar og fuku tunnurnar út um allar trissur.

Daginn eftir, aðfangadag jóla, 24. desember voru áframhaldandi fréttir af tjóni í Tímanum:

Veðrið var svo afskaplegt, að það kom engum dúr á auga, sagði Arnþrúður Halldórsdóttir í Gilhaga i Öxarfirði, er við hringdum þangað til þess að spyrjast fyrir um fjárskaða, sem þar varð í fárviðrinu á föstudagsnóttina. Það var alveg óstætt á bersvæði, þegar rokið var mest, en bjart af tunglsljósi, svo að við sáum, hvað gerðist. Í Gilhaga hrundu steinsteypt fjárhús, eitthvað fimmtán ára gömul, og varð allt féð, sem í þeim var, undir rústunum. Það var eign feðganna, Halldórs Sigvaldasonar og Brynjars Halldórssonar. Við fjárhúsin var hlaða, og af henni tók þakið í einu lagi, sagði Arnþrúður. Um fjögurleytið um nóttina, þegar veðrið var hvað harðast, lögðust þau saman undan veðurþunganum. Hliðarveggur og stafn hrundu inn í húsin og þakið lagðist yfir rústirnar, og undir þessu varð allt féð — eitthvað um hundrað og fimmtíu kindur. Eftir þetta fór heldur að lægja, og menn komu af öðrum bæjum — frá Hafrafellstungu, Vestara-Landi, Sandfellshaga og viðar til þess að hjálpa okkur að rjúfa rústirnar. Það reyndust þrjátíu kindur dauðar eða svo stórslasaðar,að þeim var sýnilega ekki litvænt, en fleira kann að vera stórmeitt, þótt það komi fram fyrr en seinna. Ekkert af fénu komst út úr rústunum af sjálfdáðum, sagði Arnþrúður.

Skemmdir af veðrinu urðu viða i sveitum vestan Öxarfjarðarheiðar Á Vestra-Landi fauk hluti af þaki íbúðarhússins, hey fuku viða, þök á útihúsum rofnuðu og hurðir í vélageymslum og skemmum féllu inn. Á Víkingavatni i Kelduhverfi slöngvuðust steinar, er notaðir voru sem sig á hey, langar leiðir í burt. Fréttaritari Tímans á Kópaskeri, Barði Þórhallsson, kunni þó ekki segja af neinu stórtjóni í útsveitunum. Austan Öxarfjarðarheiðar varð sums staðar mikið tjón, sagði annar fréttaritari blaðsins, Óli Halldórsson á Gunnarsstöðum. Hann kvað þetta hafa verið mesta verður, er komið hefði þar um slóðir síðan haustið 1962. Í Tunguseli í Sauðaneshreppi, þar sem er félagsbú 3ja feðga, fauk 5 hundruð hestburða hey út í veður og vind, og á öðrum bæ, Hallgilsstöðum, fauk hlöðuþak og stafn og hey, sem borið hafði verið upp úti. Á Þórshöfn fuku fimmtíu járnplötur af þaki frystihússins og hlið úr gamalli mjölskemmu. Svo til öll sjónvarpsloftnet á þessum slóðum lögðust út af eða sópuðust hreinlega burt. Á Bjarmalandi i Bakkafirði fauk hluti fjárhúss, ásamt heyi og á Hölkná fauk hey og sleit járn af húsum.

Í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu var afspyrnuveður og fuku járnplötur af þaki Laugaskóla. Slíkt hið sama gerðist á Laugabergi, sem er skammt frá skólanum, og á Brún i Reykjadal. Í Aðaldal gerði veðrið einnig usla, og fuku heyvagnar og heygaltar, sem stóðu úti, svo sem viðar annars staðar.

Mjög víða á Suðurlandi gerði veðrið óskunda — miklu viðar en frá verður sagt, og hafa menn ekki enn fengið fullt yfirlit um það. Svo var að minnsta kosti um Ölfus, Grímsnes og Flóa, að útihey fuku, þótt vandlega væri frá þeim gengið, járn fór af húsum og margt lauslegt, sem úti var, fauk til og frá. Jafnvel þung tæki ultu um eða bárust til. Svo mun hafa verið miklu víðar, bæði á Suðurlandi og annars staðar.

Rafmagnsleysi þetta og skömmtun er mjög eftirminnilegt (þótt vandræðin gengju furðufljótt yfir). Hér er fyrirsögn úr Vísi 22. desember. Þetta var á upphafsárum rafknúinna búðarkassa (þeim fylgdu reyndar sumum sérstök rafmagnsleysishandföng) og urðu af því ákveðin vandræði. Kaupmenn ekki mjög áhugasamir um að loka verslunum rétt fyrir jólin. Auk kassavandræða var einnig lýsingarvandi. Ritstjóri hungurdiska vann á þessum tíma fáeina daga við afgreiðslustörf í byggingavörudeild Kaupfélags Borgfirðinga - þar var notast við „nýmóðins“ olíulampa - furðubjarta og vasaljós. 

Slide11

Enn héldu fréttir áfram að berast. Tíminn segir frá þann 28. desember:

Tíminn náði í gær stuttu símtali við Tryggva Sigurbjarnarson, stöðvarstjóra Írafossvirkjunar, og spurði hann tíðinda af þeim atburðum, sem eystra urðu fyrir jólin og ekki létu sig án vitnisburðar. Tryggva sagðist svo frá: Klukkan tvö aðfaranótt föstudags varð ljóst, að línubilun hafði orðið. Ég kom á staðinn klukkan þrjú, en gat auðvitað ekkert annað aðhafst, en að lita á verksummerki. Aðkoman var satt að segja ekki glæsileg: Sextíu metra hátt mastur lá flatt og allir þrír strengirnir, sem lágu yfir Hvítá, voru slitnir. Þess má geta, að hver strengur þolir ellefu tonna átak, svo að ekki hefur það nú verið litið, sem á gekk. Hvað unnu margir að viðgerðunum að staðaldri? — Þeir voru rétt um þrjátíu, en auk þess. voru margir viðbúnir, ef á þyrfti að halda og réttu hjálparhönd, þegar með þurfti. Það leit ekki sem best út hjá okkur á aðfangadaginn. Þá bað ég um meiri hjálp, og fékk þegar í stað tuttugu menn. — Hvenær voru starfsmennirnir komnir heim til sin til þess að halda þar jólin? — Það hefur verið á milli klukkan átta og níu á aðfangadagskvöldið. — Verður notaður sami staðall við nýja linu? — Nei. Hún verður gerð sterkari gagnvart vindi. Þegar slíkar linur eru lagðar, eru það einkum þrjú atriði, sem höfð eru i huga: Styrkur gagnvart vindi, styrkur gagnvart ísingu og svo vindur og ísing samanlagt, það er að segja samverkandi áhrif þeirra. — Eru til einhver varamöstur, sem grípa má til, þegar svona fer? — Við treystum aðallega á langa og mjög sterka tréstaura, sem hægt er að byggja saman á ýmsa vegu. — Hvernig gekk ykkur að nota þyrlurnar við að flytja vírana yfir ána? — Því er fljótsvarað: Það reyndist alls ekki hægt að nota þær til þess.

Ég held, að það sé fljótlegra að telja þá bæi, þar sem engar skemmdir urðu í ofviðrinu fyrir jólin, heldur en þá þar sem eitthvað fór úrskeiðis, sagði Páll Lýðsson i Litlu-Sandvik. Viðlíka svör gætu menn víða gefið á þeim slóðum, bæði sunnan lands og norðan, þar sem veðrið varð óskaplegast. — Ég get nefnt, hvernig þetta var hér og á næstu bæjum, hélt Páll áfram. Hér i Litlu-Sandvik fauk þriðjungur þaks af fjörutíu kúa fjósi og hesthús brotnaði; í Stóru-Sandvik fór þak af húsi, þar sem stunduð er vikuriðja, í Eyði-Sandvik fauk fjárhús, í Kaldaðarnesi þak af skemmu, þar sem meðal annars voru raftöflurnar og mjaltavélamótor, á Dísarstöðum heygalti. — Á Villingavatni i Grafningi fauk þak af beitarhúsahlöðu, sagði Páll Þorláksson á Sandhóli í Ölfusi, og fylgdi þakinu um níutíu sentímetra breið brún ofan af steinsteypuveggjum. Munu þar hafa verið steypuskil, er veggirnir brotnuðu. Lítið var af heyi í hlöðu, því að illa varð að henni komist í sumar vegna bleytu. Aftur á móti voru i henni nokkrir fóðurbætispokar og rifnuðu þeir í tætlur. Viða annars staðar í Grafningi fuku járnplötur af þökum. Hér í Ölfusinu urðu sums staðar miklir skaðar, hélt Páll áfram. Í Arnarbæli fuku plötur af fjósi og hlaða brotnaði til grunna. Í Króki fauk helmingur af annarri hlið á hlöðuþaki, á Egilsstöðum allt járn af fjósi, og á Ingólfshvoli fór nokkuð af þaki íbúðarhúss; á Sandhóli fuku plötur af þaki gamals íbúðarhúss, sem þá var tjóðrað við dráttarvél. Á Mæri fauk heyhlaða, plötur af íbúðarhúsi i Gljúfurholti, fjósi í Krossi og fjárhúsi á Völlum, fjárhús fauk á Vötnum og á Litla-Landi fór helmingur af annarri hlið fjárhúsþaks. Auk þessa skemmdist fjöldi heyvagna og annað fleira. Þessi upptalning gefur nokkra hugmynd um, hvílíkt veðrið var i Ölfusi. Í Vogsósum i Selvogi fauk hluti af þaki á sambyggðu fjósi og fjárhúsi, og tveir heyvagnar ónýttust, báðir stórir og þungir. Það er til marks um veðurhæð, að annar þeirra þeyttist yfir girðingu og fauk sextíu metra vegalengd.  J.H

JI—Mývatnssveit Aðfaranótt síðastliðins föstudags urðu talsverðir skaðar af völdum óveðursins, sem gekk yfir landið, í Mývatnssveit. Þakplötur fuku af húsum á nokkrum stöðum í sveitinni, og einnig urðu nokkrir heyskaðar. Þá kom það fyrir, að tveir bílar, sem voru á ferð þegar hvassast var,fuku út af veginum. Annar bíllinn var á ferð i Mývatnsheiði, þegar hann tókst á loft með einum stormsveipnum, og fauk bíllinn um það bil 10 metra. Bíllinn lenti á hliðinni á hjarnskafli og skemmdist hann litið við það. Ekki hafði bíllinn fyrr stöðvast en að önnur vindhviða kom og feykti hún bílnum 20 metra eftir skaflinum. Bilstjórinn, Ásmundur Jónsson á Hofsstöðum, var einn i bílnum og meiddist hann ekkert við flugferðirnar. Þegar bíllinn stöðvaðist loksins, fór Ásmundur út úr honum,og tók hann þegar til við að moka undan hjólum bilsins og með því tókst Ásmundi að koma bílnum á réttan kjöl. Síðan ók Ásmundur bílnum heim til sin eins og ekkert hefði i skorist. Símalínur í Mývatnssveit slitnuðu í veðrinu.og var símasambandslaust í sveitinni daginn eftir. Á jólanótt var fegursta veður í Mývatnssveit, logn og blíða, og auð jörð. Í gær, þriðjudag, snjóaði aftur á móti nokkuð, og er nú jörð orðin alhvít.

Og Dagur á Akureyri segir frá 4. janúar 1973:

Í hinu mikla ofviðri, sem gekk yfir landið fyrir jólin, einkum á föstudagsnóttina, urðu miklir skaðar. Kunnast tjón og stórfelldast varð á línu Búrfellsvirkjunar hjá Hvítá, þar sem eitt stálmastranna brotnaði, línur slitnuðu og rafmagnsskömmtun varð að taka upp í höfuðborginni. En rafmagn vantaði þá einnig til að halda heitum álkerjunum í Straumsvík, með þeim kostnaðarsömu afleiðingum, sem það hafði í för með sér. En ef við lítum okkur nær, bar það við þessa óveðursnótt, að Möðruvallakirkja í Eyjafirði færðist til um hálfa breidd sína á grunninum. Sóknarpresturinn, séra Bjartmar Kristjánsson, sagðist hafa komið að Möðruvöllum rétt á eftir og séð vegsummerkin. Kirkjan færðist til um hálfa breidd sína til norðurs, sagði hann. En tvö af þremur björgum, sem kirkjan er við fest, héldu og vörnuðu því, að kirkjuhúsið sópaðist alveg í burtu. Predikunarstóll losnaði en mun ekki hafa skemmst mikið, altarið brotnaði og milligerð, ennfremur ljósakrónur. Allt var þetta ömurlegt og kirkjan er skæld og skökk og illa á sig komin. En til allrar lukku skemmdist altaristaflan ekki, en hún er merkasti dýrgripur norðlenskra kirkna þegar frá er talin Hóladómkirkja ... sagði sóknarpresturinn að lokum. Sjálf er kirkja þessi, sem er timburkirkja, tæpra fimm aldarfjórðunga gömul. Eiríkur Sigfússon á Sílastöðum í Glæsibæjarhreppi, sagði, að þessa sömu óveðursnótt hefði mestallt járn fokið af gamla íbúðarhúsinu á Einarsstöðum, en þar býr Stefán Björnsson. Ein járnplatan hafnaði að hálfu leyti inni í mínu húsi, er hún lenti á glugga. Hey hjá okkur standa hérna norðan við hlöðuna. Endarnir, er náðu vestur fyrir, fuku af tveim heyjum, klippti veðrið þau í sundur og fóru þeir partar út í veður og vind. Þetta var ofsaveður, sunnan eða suðvestan. Ólafur Ólafsson í Garðshorni sagði, að tjón hefði ekki orðið mjög mikið. Þó hefði um helmingur af fjárhúsþaki fokið, þ.e. járnið. Einnig fauk af tveim heyjum. Veðrið var alveg brjálað af vestri. Ólafur í Garðshorni bætti því við, að miklar skemmdir hefðu orðið í þessu óveðri á Fremri-Kotum í Norðurárdal, samkvæmt símtali þangað. Um 200 hestar af heyi fuku, ennfremur bogaskemma og.þakið að mestu leyti af stóru fjárhúsi.

Fleira mætti tína til - einkum um ástandið í Straumsvík. Fyrr um haustið hafði gert verulegt ísingarveður á Norður- og Austurlandi (um það verður vonandi lítillega fjallað síðar hér á hungurdiskum). Umræður um öryggi raforkukerfisins voru svosem ekki nýjar af nálinni og sitthvað hafði verið rætt og áætlað áður en þessi veður gengu yfir. En þau (ásamt Ellenarveðrinu í september næsta haust) færðu þessar umræður á nýtt stig og ollu ákveðnum straumhvörfum í kerfismálum - þar á meðal lagningu svonefndrar byggðalínu. 

Hér lýkur að sinni umfjöllun hungurdiska um þessa eftirminnilegu desemberdaga fyrir réttri hálfri öld. Rétt hugsanlegt er að lítillega verði bætt inn í textann fljótlega.  

Svo var stutt í að eldgos hæfist á Heimaey í Vestmannaeyjum - nóg um að vera. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 40
  • Sl. sólarhring: 431
  • Sl. viku: 2402
  • Frá upphafi: 2410704

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 2115
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband