Sviptingar á norðurslóðum

Þessa dagana eru töluverðar sviptingar í veðri, ekki síst á norðurslóðum. Við verðum ekki mikið vör við þetta hér á landi - alla vega ekki í bili.

Sérlega hlýtt loft hefur eða er að komast norður á 70. breiddarstig norðan Kanada.

w-blogg140722a

Hér má sjá klippu úr spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á miðnætti í kvöld (fimmtudag 14.júlí). Þar sem þykktin er mest er hún meiri en 5640 metrar (skipt er um lit á 60 metra bili). Undanfarna daga hafa hitamet verið að falla nyrst á meginlandinu sjálfu, hiti farið vel yfir 30 stig. Ritstjórinn hefur enn ekki séð staðfestar tölur frá eyjunum. Veðurstöðvar eru þar fáar - og flestar nærri ströndinni þar sem hafís bráðnar - og heldur hita niðri. Í reiknuðum spám fyrir svæðið sést vel yfir 20 stiga hiti á bæði Devon- og Ellesmereeyju - slíkt er harla óvenjulegt. 

Við norðurskautið er hins vegar ógurlegur kuldapollur. Þar er nærri því vetrarástand. Ruðningur hlýja loftsins sækir að pollinum og virðist ætla að stugga honum til Alaska eða austasta hluta Síberíu.

w-blogg140722b

En hlýtt loft leitar líka til norðurs yfir Svalbarða. Þessi spá hér að ofan gildir að vísu ekki fyrr en á sunnudag. Þar má sjá þykkt meiri en 5640 metra ná alveg norður á 80. breiddarstig - en fjöll og vind þarf til að ná hlýindunum til jarðar. Verði aðstæður þannig hagstæðar gæti hiti farið yfir 20 stig á Svalbarða. Ekki er þetta algengt. Svona mikil þykkt er heldur sjaldséð hér við land - þó við séum miklu sunnar á jarðkringlunni. 

w-blogg140722c

Hér má hins vegar sjá kuldapollinn - með augum evrópureiknimiðstöðvarinnar - á mánudaginn kemur. Ekki víst að hann líti svona út þá, en þykktin í miðju hans er ekki nema 5170 metrar. Svo neðarlega fer hún aldrei í júlí hér á landi, 5250 væri hugsanlegt. Til allrar hamingju þurfum við ekki að hafa áhyggjur af þessu kerfi um sinn. Spár eru þó ekki sammála um hver framtíð þess verður.

Svo er óvenjulegur hiti líka í Frakklandi og Englandi - gangi spár eftir.

w-blogg140722d

Spáin gildir á mánudag og sýnir meir en 5760 metra þykkt yfir Suður-Englandi. Þetta er með því allra mesta sem sést á þeim slóðum. Ritstjórann minnir að Englandsmetið sé um 5760 metrar - en fyrirgefst vonandi misminni. En enn eru fjórir dagar í þennan tíma og ýmislegt getur farið úrskeiðis í spánum.

Á meðan sitjum við í til þess að gera meinlítilli stöðu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 1957
  • Frá upphafi: 2412621

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1710
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband