Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolar (taka 3)

Fyrir fimm árum (og fyrir 9 árum) rifjaði ritstjóri hungurdiska upp nokkra fróðleiksmola um sumardaginn fyrsta - þetta er að mestu endurtekning á því með lítilsháttar uppfærslum, leiðréttingum og viðbótum þó. Sérlega hlýtt var á sumardaginn fyrsta 2019 og tengjast flestar breytingar þeim degi. Aðallega er miðað við tímabilið 1949 til 2021.

Þetta er vægast sagt þurr upptalning en sumum veðurnördum finnst einmitt best að naga þurrkað gagnaroð.

Aðrir hafa helst gaman af þessu með því að fletta samhliða í kortasafni Veðurstofunnar en þar má finna einfölduð hádegiskort sumardagsins fyrsta aftur til 1949 á sérstökum síðum (fletta þarf milli áratuga).

Meðalvindhraði var minnstur 1955, 1,9 m/s. Langhvassast varð 1992, 15,1 m/s. Næsthvassast var 1960.

Þurrast var 1996 og 1978. Að morgni þessara daga mældist úrkoma á landinu hvergi meiri en 0,5 mm og varð aðeins vart á um þriðjungi stöðva. Úrkomusamast var hins vegar 1979 en þá mældist úrkoma á 98 prósentum veðurstöðva á landinu. Ámótaúrkomusamt var 2009 en þá mældist úrkoma meira en 0,5 mm á 96 prósentum veðurstöðva.

Kaldasti dagurinn í hópnum var 1949 (meðalhiti -7,3 stig). Landsmeðalhitinn var hæstur 2019 (9,0 stig). Meðalhámark var einnig hæst 2019 (14,2 stig). Lægst varð meðalhámarkið dagana köldu 1949 (-4,5 stig) og 1967 (-3,1 stig). Landsmeðallágmarkið var lægst sömu ár, 1949 (-9,7 stig) og 1967 (-7,8 stig). Hæst var landsmeðallágmarkið (hlýjasta aðfaranóttin) 1974 (5,8 stig).

Lægsti lágmarkshiti á mannaðri veðurstöð á sumardaginn fyrsta á tímabilinu 1949 til 2016 mældist 1988, -18,2 stig (Barkarstaðir í Miðfirði). Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta er -23,4 stig á Brúarjökli 2007, en hæsti hámarkshiti þessa góða dags mældist 1976, 19,8 stig (Akureyri). Hiti fór reyndar í 20,5 stig á Fagurhólsmýri á sumardaginn fyrsta 1933, en það er óstaðfest í bili. Á sumardaginn fyrsta 1949 fór hiti hvergi á landinu yfir frostmark, hæsta hámark dagsins var -0,2 stig. Þetta er með ólíkindum. Sumardagurinn fyrsti 1951 var litlu skárri því þá var hæsti hámarkshitinn nákvæmlega í frostmarki.

Í Reykjavík er kaldasti sumardagurinn fyrsti sem vitað er um 1876, þá var meðalhitinn -6,9 stig (ekki nákvæmir reikningar), lágmarkshiti ekki mældur. Þann dag segir blaðið „Norðanfari“ að -18 stiga frost hafi verið á Akureyri (en opinberar mælingar voru engar á Akureyri um þær mundir). Lægsti lágmarshiti mældist í Reykjavík 1949, -8.9 stig. Það hefur sjö sinnum gerst svo vitað sé að ekkert hafi hlánað í Reykjavík á sumardaginn fyrsta, síðast 1983 þegar hámarkshiti dagsins var í frostmarki, 0,0 stig. Sjö sinnum hefur mælst frost aðfaranótt sumardagsins fyrsta á þessari öld í Reykjavík, síðast 2017, en aðeins -0,1 stig. Dagsmeðalhiti sumardagsins fyrsta í Reykjavík var hæstur 2019, 10,8 stig (25. apríl) og þann sama dag mældist hæsti hámarkshiti sem vitað er um á sumardaginn fyrsta í Reykjavík 14,7 stig.

Sumardagurinn fyrsti var sólríkastur í Reykjavík árið 2000, þá mældust sólskinsstundirnar 14,6, þær voru litlu færri 1981, eða 14,4. Síðustu 100 árin rúm hefur 22 sinnum verið alveg sólarlaust í Reykjavík á sumardaginn fyrsta, síðast í fyrra. Sólríkast var á Akureyri á sumardaginn fyrsta 1988, þá mældust 13,5 klst. Síðast var sólarlaust á Akureyri á sumardaginn fyrsta 2012.

Á Akureyri var hitinn hæstur 19,8 stig 1976 - eins og nefnt var hér að ofan, en mesta frost sem mælst hefur á sumardaginn fyrsta á Akureyri er -10,5 stig. Það var 1949.

Meðalskýjahula á landinu var minnst 1981 (aðeins 1,8 áttunduhlutar). Það var bjartur dagur - en býsnakaldur. Skýjahulan var mest 1959 (7,9 áttunduhlutar) - mörg önnur ár fylgja skammt á eftir.

Loftþrýstingur var hæstur 1989 (1041,6 hPa) en lægstur 1958 og 2006 (980,6 hPa).

Algengast er að vindur sé af norðaustri á sumardaginn fyrsta (miðað við 8 vindáttir). Norðvestanátt er sjaldgæfust.

Ameríska endurgreiningin segir að þrýstisviðið yfir landinu hafi verið flatast 1958 (vindur hægastur), en langbrattast 1992 (hvassast). Sama dag var hvassast á veðurstöðvunum (eins og áður sagði) og þrýstimunur á milli veðurstöðva landsins mestur og hittir endurgreiningin hér vel í. Þrýstivindur var af austsuðaustri, en á veðurstöðvunum var meðalvindátt rétt norðan við austur. Það er núningur sem er meginástæða áttamunarins. Þrýstisviðið var flatast á sumardaginn fyrsta 2014.

Sé litið á 500 hPa-flötinn segir endurgreiningin hæðarbrattann hafa verið mestan 1960, af vestnorðvestri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Merry

Ég hélt að ég væri að keyra í Afríku í dag. Sólin hefur örugglega brennt marga í bæjinn

Merry, 19.4.2022 kl. 18:31

2 identicon

Merkilegur þessi dagur í huga okkar og kannski meira fyrrum. Þó þú Trausti teljir að efnið sé nokkuð þungt undir tönn þá tel ég svo alls ekki. Rennur lipurlega niður með morgunkaffinu.

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 20.4.2022 kl. 08:54

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hef reynt að muna hvar ég var á hinum ýmsu árum þegar sumardagurinn fyrsti rann upp.- oft sprenghlægilegt í minningunni. Góð dægradvöl Trausti, takk fyrir.

Helga Kristjánsdóttir, 20.4.2022 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1014
  • Sl. sólarhring: 1112
  • Sl. viku: 3404
  • Frá upphafi: 2426436

Annað

  • Innlit í dag: 903
  • Innlit sl. viku: 3059
  • Gestir í dag: 879
  • IP-tölur í dag: 813

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband