17.4.2022 | 15:16
Hugsað til ársins 1951
Þá rifjum við lauslega upp veður og veðurlag ársins 1951. Um 1950 virtist eitthvað meiriháttar hik vera í hlýskeiðinu sem staðið hafði frá því á þriðja áratugnum. Vorið 1949 var sérlega hart um land allt og veturinn 1950 til 1951 var frekar í gömlum stíl heldur en nýjum. Austanlands gerði gríðarlegar rigningar sumarið 1950 með mannskæðum skriðuföllum á Seyðisfirði og seint á árinu gerði eftirminnileg norðanveður, bæði 30.nóvember og 10.desember. Í síðara veðrinu hlóð niður snjó á Norður- og Austurlandi. Við getum vonandi fjallað um þau veður síðar hér á hungurdiskum.
Þjóðviljinn segir í frétt þann 22.febrúar 1951:
Síðastliðin 20 ár hefur verið hlýindatímabil hér á Íslandi, en ýmislegt bendir til þess að því sé að ljúka. Á 49. stöðum voru jöklamælingar framkvæmdar s.l. sumar. Á 37 stöðum hafði jökullinn minnkað gengið til baka, á 4 stöðum staðið í stað, en gengið fram stækkað á 8 stöðum, en undanfarið má segja að þeir hafi allstaðar minnkað.
Veturinn (desember til mars) 1950 til 1951 var kaldur, á landsvísu sá kaldasti frá 1920 og kaldari vetur kom ekki aftur fyrr en 1965 til 1966. Séu nóvember og apríl einnig taldir til vetrarins kemur í ljós að ekki hafa nema tveir vetur síðan verið kaldari síðan, 1967 til 1968 og 1978 til 1979.
Snjóhuluathuganir hafa nú verið gerðar á landinu í nærri hundrað ár. Á Norður- og Austurlandi er þessi vetur sá snjóþyngsti frá upphafi, sá 14. snjóþyngsti á Suður- og Vesturlandi og sá næstsnjóþyngsti á landsvísu, ásamt vetrinum 1982 til 1983. Snjóþyngstur var á landinu öllu var veturinn 1994 til 1995.
Alhvítir dagar voru 166 á Akureyri veturinn 1950 til 1951 og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi snjóathugana 1924. Alhvítt var allan desember, janúar, mars og apríl, og 24 daga í febrúar. Í Reykjavík var fjöldi alhvítra daga 58, örlítið færri heldur en í meðalári. Þar var aðeins einn alhvítur dagur í desember, 7 í janúar, en 27 í febrúar og 20 í mars.
Eftir áramót 1950 til 1951 linnti vart fregnum af snjó og hríðum. Þann 18.janúar féll snjóflóð á beitarhús á bænum Hjarðarhaga á Jökuldal og drap 48 kindur, snjóflóð féllu víða í Eyjafirði þann 13. og dagana þar á eftir. Ófærðar gætti meira að segja suðvestanlands og lenti fólk í miklum hrakningum á vegum í nágrenni Reykjavíkur þann 29.janúar. Tveimur dögum síðar, þann 31.janúar fórst flugvélin Glitfaxi í éli út af Vatnsleysuströnd og með henni 20 manns. Þann 21. og 22. féllu snjóflóð á mannvirki hitaveitu Ólafsfjarðar.
Mestallan veturinn eru dagblöð full af fréttum af miklum snjó, ófærð og vandræðum af þeim sökum. Mjólkurflutningar gengu illa, líka á Suðurlandi, þó mun meiri snjór væri fyrir norðan og austan. Við veljum hér nokkuð tilviljanakennt úr fréttum.
Tíminn segir frá 12. janúar:
Frá fréttaritara Tímans í Búðardal. Hvammsfjörð lagði um áramót, og var hann kominn á ís alla leið út að eyjunum fyrir mynni hans. En í fyrradag og fyrrinótt stormaði og brotnaði þá ísinn í mynni hans, svo að nú er fært báti inn undir Staðarfell. Landleiðin er bílfær vestur í Dali, en lokist hún og haldist lengi ís á firðinum, er héraðið illa sett um samgöngur. Veður hefir verið mjög kalt, en stillt. Er haglítið orðið og klammi á jörðu, en gott yfirferðar.
Og daginn eftir, 13. janúar:
Samfelld hríð í 4 dægur nyrðra. Sér hvergi í dökkan díl. Á Akureyri var kominn mikill snjór í gær, svo að þar í nágrenninu sá hvergi á öökkan díl að kalla. Umferð um götur bæjarins var mjög erfið öllum farartækjum og ófært víða með bíla, svo sem um brekkuna. Mjólkurbílar komust seint til bæjarins í fyrradag, en í gær urðu sumar leiðir ófærar með öllu.
Og fyrirsögn í Tímanum 21. janúar: Meiri harðindi í N-Þingeyjasýslu en þekkst hafa um áratugi.
Klakastíflur í ám ollu vandræðum. Tíminn segir frá 25. janúar:
Allur Þykkvibær undir vatni: Klakastífla, sem myndaðist í Ytri-Rangá. sprakk og stórflóð féll yfir byggðina Þegar fólk kom á fætur í gærmorgun í Þykkvabænum var heldur einkennilegt um að litast í byggðinni. Vatn var yfir öllu landi, en hús og bæir sem klettar upp úr lygnum haffleti. Flóðið átti rót sína að rekja til leysinganna að undanförnu og þess að stíflur hafa komið í Ytri-Rangá vegna jakaburðar. Síðdegis í gær var flóðið heldur farið að sjatna.
Ekki varð mikill skaði af flóði þessu. Sömu daga greina blöðin frá stórkostlegum snjóflóðum í Sviss, Austurríki og á Norður-Ítalíu og að 285 séu þá taldir af.
Að kvöldi 28. janúar gerði eftirminnilegt hríðarveður í Reykjavík og nágrenni. Tíminn segir frá þann 30. (nokkrum millifyrirsögnum sleppt hér):
Upp úr hádeginu á sunnudaginn byrjaði að hvessa og nokkru siðar gerði hríð, sem hélst svo til sleitulaust til miðnættis. Umferðatafir urðu ekki á götunum fyrst í stað, en þegar á kvöldið leið fór færðin að þyngjast fyrir smærri bíla. Margir stöðvarbílar hættu þá akstri vegna erfiðleika við að komast áfram en strætisvagnar héldu áfram fram eftir kvöldi. En veðrið herti með kvöldinu og um 10 leytið var kominn um 12 vindstiga stormur í Reykjavík er hélst svo til fram undir miðnætti. Jafnframt var mikil og stöðug snjókoma. Bílar urðu þá unnvörpum fastir á götunum þar sem þeir voru komnir en fólk var ýmist að láta fyrirberast í þeim, að leita gangandi út í illviðrið og brjótast heim til sín upp á gamla mátann. Strætisvagnar urðu margir fastir einkum i úthverfunum og brátt varð að hætta ferðum um þau. Þegar fólk kom úr leikhúsum og kvikmyndahúsum á tólfta tímanum var ömurlegt um að litast í bænum. Í hríð og hvassviðri var fólk að brjótast heim til sín í gegnum snjóskaflana á götunum. Var hríðin svo svört að varla sá út úr augum og algengt var að sjá fólk rekast á bíla sem sátu fastir á götunum, eða jafnvel upp um gagnstéttir. Kvenfólk í nylonsokkum kafaði skaflana eins og karlmennirnir. Varð mörgum þeirra að orði að nú dyggðu nylonsokkarnir ekki vel. En ekki gat fólk sem fór í leikhús og kvikmyndahús búist við þeim ósköpum að ófærðin væri svo algjör sem raun varð á að sýningu lokinni. Algjörlega varð ófært milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og sat fjöldi bíla fastur á Hafnarfjarðarveginum lengi nætur í fyrrinótt. Ýtur komu til hjálpar fyrst frá Hafnarfjarðarbæ og síðan úr Reykjavík og losnuðu flestir bílanna milli klukkan 3 og 4. Fjöldi fólks sem ætlaði lengra lét fyrir berast i Hafnarfirði og var góðtemplarahúsið fengið til afnota fyrir húsnæðislaust ferðafólk.
Snjókoman í fyrrakvöld virtist hafa verið langmest í Reykjavík og nágrenni. Til dæmis snjóaði ekki nema lítið eitt í Borgarfirði ofan Skarðsheiðar. Færð var að vísu talsvert þung á akvegum í Borgarfirði í gær en mest vegna þess, að snjóinn hafði skafið saman í skafla 1 hvassviðrinu í fyrrakvöld. Olli þetta nokkrum umferðatöfum, en viðast hvar voru skaflarnir mokaðir af veginum strax í gær, svo nú er orðið greiðfært aftur.
Við skulum líta á veðurkort sem sýnir aðstæður í þessum hríðarbyl.
Ástæður hans sjást vel. Mikil úrkoma í köldu landsynningsveðri. Djúp lægð kom úr suðvestri inn á Grænlandshaf og settist þar að. Skil lægðarinnar fóru svo yfir laust eftir miðnætti.
Miðnæturkortið (klukka landsmanna var þó ekki nema 23 þegar þetta kort gildir) sýnir hvassa suðaustanátt, fárviðri er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Handan skilanna var kalt loft frá Kanada með éljum og minni lægðakerfum.
Mikið var um slys af ýmsu tagi á árinu 1951. Sjóslys mörg, en þó sker árið sig ekki úr á þeim vettvangi, banaslys urðu fjölmörg í umferð og landbúnaði og mjög alvarleg slys á börnum tíð. Brunar voru sérlega tíðir, fréttir af húsbrunum nærri daglegt brauð. Nútímalesendur hrökkva við lestur allra þessara frétta, svo margt hefur færst til betri vegar - þrátt fyrir allt. Eftirminnilegasta slys ársins er þó það sem er kennt við flugvélina Glitfaxa, eða Vestmanneyjaflugvélina. Um það var rætt árum saman - svo lengi að ritstjóri hungurdiska man vel þær umræður sem barn og unglingur. Ekki voru mörg ár frá síðasta stóra flugslysi, því sem kennt er við Héðinsfjörð.
Slysið varð á Faxaflóa síðdegis þann 31. janúar, í varasömum en þó ekki alvondum veðurskilyrðum. Hér er ekki rúm eða ástæða til að fara út í nákvæma lýsingu atvika, en hér er þó frásögn Morgunblaðsins af þeim daginn eftir, 1. febrúar (textinn er lítillega styttur hér):
Morgunblaðið 1. febrúar:
Um klukkan [15:30] í gærdag [31.janúar] fóru tvær flugvélar héðan frá Reykjavík til Vestmannaeyja, báðar fullskipaðar. Í Vestmannaeyjum var höfð skömm viðdvöl, en þaðan lagði Glitfaxi" upp um klukkan [16:35]. ... Ferð Glitfaxa" frá Vestmannaeyjum gekk eðlilega. Flugvélin kemur yfir stefnuvitann á Álftanesi um kl. [16:58] og átti þá eftir um 1015 mín flug til Reykjavíkurflugvallar. Flugstjórinn fær þá leyfi flugumferðarstjórnarinnar til að lækka flugið, samkvæmt hinum venjulegu reglum. Litlu síðar tilkynnir flugstjóri, að truflanir séu í móttökutækinu en þær áttu rót sína að rekja til hríðarbyls, er þá gekk yfir. Flugstjóranum er nú tilkynnt, að vegna hríðarinnar sé flugvellinum lokað um stundarsakir og honum sagt að fljúga upp í 4000 feta hæð út yfir Faxaflóa. Skömmu síðar rofar til yfir Reykjavíkurflugvelli. Var þá ákveðið að gera aðra tilraun til aðflugs. Flugvélin var þá komin í 2000 feta hæð. Klukkan var nú [17:14], og í skeyti frá flugstjóranum, sem er hið síðasta sem frá flugvélinni bast, segir hann sig vera á leið að stefnuvitanum á Álftanesi og fljúgi hann flugvélinni í 700 feta hæð. Þetta er sem sé það síðasta, sem frá Glitfaxa" heyrist. Strax og sambandið við flugvélina rofnar, voru gerðar allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að ná sambindi við hana á ný, en án árangurs.
Þess skal þó geta hér, að flugvélin, sem fór ásamt Glitfaxa" til Vestmannaeyja, lagði upp frá Eyjum 20 mínútum síðar eða klukkan [16:55]. Hún fékk ekki lendingarleyfi hér í Reykjavík fyrr en klukkan rúmlega 18 vegna þess að með radartækjum á Keflavíkurflugvelli var þá verið að leita yfir Faxaflóa að Glitfaxa". Umrædd flugvél flaug í 5000 feta hæð yfir Reykjavík og næsta nágrenni meðan á leitinni stóð. Þessi flugvél flutti enga farþega, því farþegar frá Eyjum munu hafa kosið að fara með þeirri vélinni, sem fyrr fór.
Hér má sjá veðurkort (bandaríska endurgreiningin) síðdegis þann 31. janúar, um það leyti sem Glitfaxi fórst. Aðalatriðin eru áreiðanlega rétt, en lítil von er til þess að smáatriði komi fram. Við vitum t.d. ekki glöggt hvort lægðin suðvestur í hafi er á réttum stað - eða réttum styrk, né hvort lægðardragið við landið suðvestanvert er rétt greint.
Íslandskortið á sama tíma sýnir éljabakka við Suðvesturland. Ákveðin austsuðaustanátt er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 40 hnútar, haglél og hiti 0,7 stig. Á Reykjanesvita er vindur hægur, snjókoma og ekki nema 100 metra skyggni. Við sjáum eðli veðurlagsins m.a. á því að heiðskírt er að kalla norðaustanlands - enginn stórfelldur blikubakki fylgir úrkomusvæðinu við Suðvesturland.
Flugvallarathuganir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis þann 31. sýna éljagang, en ekki mikinn vind, mest 18 hnúta. Hér gefa tímasetningar tilefni til ruglings. Klukkurnar eiga að sýna alþjóðatíma (zulu), en ekki íslenskan miðtíma, sem var klukkustund á eftir. Ekki er ljóst af blaðafregnum hvor tíminn er sá sem tilgreindur var í blaðafregnum (við gerum þó ráð fyrir því að það hafi verið hinn íslenski). Hér má sjá í hnotskurn hvers vegna langflestir veðurfræðingar eru á móti öllu hringli með klukkuna - og þann mikla kost að vera á alþjóðatíma árið um kring.
Myndin hér að ofan sýnir þrýstirita dagana kringum Glitfaxaslysið. Lægðardrag fór yfir daginn áður, þann 30. janúar, síðan var loftvog stígandi fram undir slystímann. Um kvöldið kemur síðan inn snarpur éljagarður eða smálægð. Seint um kvöldið var vindur allhvass, fyrst af suðaustri, en síðan suðvestri með blindhríð, skyggni fór niður í 300 metra á flugvellinum.
Snemma í febrúar losnaði lagnaðarís á Skutulsfirði, Tíminn segir frá þann 4. febrúar.
Allmikið ísrek er nú út Skutulsfjörð og norður í Ísafjarðardjúp. Hafnarstjórinn á ísafirði hefur af þessum sökum aðvarað sjófarendur, þar eð skipaleið er talin hættuleg af völdum ísreksins, ef ekki er fullrar varúðar gætt.
Í febrúar voru enn stöðugar fréttir af ófærð og samgönguvandræðum. Við grípum niður í nokkrar fréttir í Tímanum:
[22.] Í aftaka hvassviðri og hríðarbyl, urðu í fyrrinótt skemmdir á hitaveitunni í Ólafsfirði, svo að hún er nú óstarfhæf. Féll snjóskriða sunnanvert í Garðsdal einmitt þar sem upptök hitaveitunnar eru. Lenti skriðan á mannvirkinu, svo að hitaveitan kemur ekki að notum. Hvassviði og snjókoma hélst enn í allan gærdag svo ekki reyndist unnt að aðgæta skemmdirnar
[23.] Gífurlegt fannfergi komið á Norðurlandi Látlaus stórhríð í þrjá sólarhringa. Á Norðurlandi hefir nú verið látlaus stórhríð í þrjá sólarhringa. og er fannfergi ofan á gamla hjarninu orðið gífurlegt, svo að víða verður vart farið á milli bæja nema á skíðum í Suður-Þingeyjarsýslu er fannkyngið orðið mjög mikið, en þó var brotist til Húsavíkur með mjólk í gær á sleðum aftan í ýtum. Hafði bærinn þá verið mjólkurlaus um skeið. Allar samgöngur milli byggðarlaga i héraði eru að öðru leyti tepptar. Heldur var þó að rofa til í gærkveldi.
Á Akureyri er vetrarlegt um að lítast. Mannhæðarháir skaflar eru víða á götunum. Í gær voru stórar ýtur að vinna að því að ryðja braut fyrir bíla um miðbæinn.
[24.] Bílar allan daginn í gær að brjótast til mjólkurbús [Flóamanna]. Mjólkurbílar 10 klst frá Reykjavík til Selfoss. Margt fólk varð að gista í Krísuvík í fyrrinótt. Mjólkurbílar komust við illan leik úr flestum eða öllum sveitum Suðurlandsundirlendisins til Mjólkurbús Flóamanna í gær og eins þaðan til Reykjavíkur. Snjóýtur unnu á Krísuvíkurleiðinni og vegum í nánd við Selfoss í gær og er búist við sæmilegu færi í dag, ef ekki tekur að snjóa á ný
Um mánaðamótin hlánaði um stund syðra, flæddi allvíða yfir vegi og í hús:
Tíminn 1. mars:
Vatn hefir runnið inn í mörg hús í Keflavík og YtriNjarðvík og sums staðar valdið skemmdum á innanstokksmunum. Úr einni íbúð í kjallara húss við Kirkjuveg í Keflavík hefir fólkið orðið að flytja brott. Skemmdir hafa orðið á einni götu.
Tíminn 2. mars:
Síðdegis í fyrradag [28. febrúar] féll snjó- og aurskriða á 2030 metra löngum kafla yfir veginn norðan í Reynivallaháls. Bifreiðar, sem komu þar að um kl. 7 um kvöldið, komust ekki lengra og urðu frá að hverfa. Var vegurinn því tepptur í fyrrinótt. Flóir yfir veginn hjá Kleifarvatni Flæðir yfir Keflavíkurveginn.
Mikla hríð gerði norðanlands þann 4. og fauk þá m.a. járn af þökum fjögurra íbúðarhúsa á Húsavík.
Við látum veðurathuganamenn Veðurstofunnar lýsa tíðarfari marsmánaðar í almennum orðum.
Gunnhildargerði á Úthéraði [Anna Ólafsdóttir]:
Marsmánuður hefir verið með afbrigðum erfiður, svo að slíkt mun einsdæmi. Svo mikil óveður dag eftir dag að vart hefir verið hægt að sinna skepnuhirðingu því víðast hvar er fé á beitarhúsum hér um slóðir og ekkert til að styðjast við þegar að hvergi sér á dökkvan díl, og svo mikill snjór að elstu menn hér um slóðir segja að slíkt hefi ekki verið á þessari öld nema ef ske kynni 1910. Hér í nánd eru skaflar víða um 20 metra djúpir. Nú hefir gengið svo á heyfeng bænda að margir eru á þrotum, og þó nokkur heimili sem eru alveg bjargarlaus og hafa aðrir reynt ofurlítið að miðla þeim því allstaðar er af mjög litlu að taka.
Anna segir þann 6.mars:
Ótrúlega mikill snjókoma hefir verið nú í 3 dægur, víða á sléttu eru 3 m djúpir skaflar og alveg vandræði að komast hús milli vegna ófærðar.
Þann 25.segir hún:
Svo ótrúlega mikill snjór er nú að þess þekkjast ekki dæmi, hvergi sér á girðingarstaura nema aðeins á hliðarstólpa sem eru meira en 3 metrar upp frá jörðu.
Á Seyðisfirði segir athugunarmaður, Sigurður Sigurðsson, frá því að úrkomumælir hafi hvað eftir annað farið á kaf í snjó.
Hof í Vopnafirði [Jakob Einarsson]:
Harðindi. Stórhríðar 5.-6. og 21. með fannburði og stórviðrum, einkum 5. og 21. Vonskuhríðir og éljaveður oft þar fyrir utan. Var komin talsverð jörð í mánaðarbyrjun eftir blotann um mánaðamótin, en hvarf að mestu hér og víðast alveg. Þó var hér á Hofi til snöp á parti af Kofaborgartungu og enda Þormundarstaðaháls er upprof var, ef ekki var mulla sem byrgði. Í mánaðarlok kominn einhver sá mesti snjór sem ég hef séð, bæði á sléttlendi, en einkum þó í sköflum í og yfir brekkum og í giljum. Öll gil full sem nokkurn tíma geta fyllst og fleiri og öðruvísi en ég hef áður séð.
Sandur í Aðaldal [Friðjón Guðmundsson]:
Harðindatíð var allan mánuðinn með frostum, fannkomum og jarðbönnum. Snjóþungt var með afbrigðum og vegir allir ófærir bílum.
Reykjahlíð við Mývatn [Pétur Jónsson]
Versta veðurátta. Meiri snjór kominn en ég hefi séð síðan ég fór að hafa veðurathuganir [1936]. Símalínur komnar undir snjó sumstaðar og hús á kafi.
Teigarhorn [Jón Kr. Lúðvíksson]
Mars fremur kaldur og vindasamur. Góðir hagar hér og í nálægum sveitum. Fé beitt alla daga, aðeins einn innistöðudagur. Sjósókn stopul, tregur afli þegar gaf á sjó.
Tilraunastöðin á Sámsstöðum [Bogi Nikulásson]
Svipar til fyrri mánaða, en samfelldari frostaveðurátta. Sól flesta daga þegar upp birt, en fannkoma meiri og oft það mikil að Krísuvíkurleið varð ekki bílfær án snjómoksturs. Úrkomulítið eins og fyrri mánuði og talsverður hluti úrkomunnar bræddur snjór. Áttin var tíðast norðaustan en aldrei mjög hörð. Samgöngur urðu allar mjög erfiðar og gefa varð öllum fénaðinum, því beit var nær engin.
Síðumúli í Borgarfirði [Ingibjörg Guðmundsdóttir]
Marsmánuður hefir verið óvanalega þurrviðrasamur. Öll úrkoma mánaðarins var ekki meiri en oft kemur fyrir á einu dægri. Vatnsskortur er víða tilfinnanlegur og þarf á sumum bæjum að sækja vatn langar leiðir. Jörð er nú frosin og að mestu hulin snjó og ísum.
Stykkishólmur [Valgerður Kristjánsdóttir]
Í mánuðinum hefur verið regluleg vetrartíð.
Lambavatn á Rauðasandi [Ólafur Sveinsson]
Það hefir mátt heita óslitin austan- og norðaustanátt allan mánuðinn. Oft töluvert hvassviðri en úrkomulítið. Snjór alltaf lítill. Þótt eitthvað hafi snjóað hefur það fokið af straks. Svell hafa verið töluverð og hagi því lítill. Eins og fyrr í vetur hefur mátt heita hér algerð innistaða fyrir allar skepnur.
Fagurhólsmýri [Helgi Arason]
Í lok mánaðarins var hér í sveit allmikill snjór á jörðu. Hann þó fokinn í fannir og jörð víða auð. Ég býst við að hér í sveit hafi ekki verið svo miklar fannir síðan veturinn 1929-1930.
Eins og sjá má voru sjóþyngsli óvenjuleg austanlands, á Suðurlandi var kvartað undan ófærð, en vestanlands var sérlega þurrt.
Við veljum hér úr einn hríðardaginn, þann 21. mars. Hann var að ýmsu leyti óvenjulegur. Suðvestlæg átt var ríkjandi í háloftum yfir landinu, en í neðri lögum var áttin norðaustlæg. Lægð fór til norðausturs skammt fyrir suðaustan og austan land.
Hér má sjá að háloftalægðardrag er yfir landinu og vindátt í 500 hPa úr vestsuðvestri. Þessarar vestanáttar gætti þó alls ekki við jörð, þar var lægðin alveg fyrir suðaustan land. Þegar svona háttar til snjóar oft býsna mikið á Suður- og Vesturlandi þrátt fyrir norðaustanáttina. Vesturland slapp þó alveg að þessu sinni, en mikil snjókoma var víða á Suðurlandi og fór snjódýpt í 30 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, mikla en skammvinna hríð gerði í uppsveitum Árnessýslu, en festi ekki mikið. Talsvert snjóaði sums staðar suðaustanlands. Faxaflói og Breiðafjörður sluppu að mestu við fannkomuna, en mikið snjóaði á landinu norðan- og austanverðu. Eystra var linnulítil hríð allan daginn. Vindur var allhvass eða hvass um land allt. Satt best að segja kemur á óvart að ekki skuli vera fréttir af snjóflóðum þau hafa ábyggilega orðið víða eystra, þó ekki hafi valdið tjóni.
Kortið sýnir veðrið á landinu kl.18 miðvikudaginn 21. mars 1951. Mikil hríð er um landið norðan- og austanvert, sérstaklega frá Húnavatnssýslum austur og suður um og allt vestur í Öræfi. Á þessu svæði var skyggni víðast aðeins nokkur hundruð metrar, á Daltanga 400 metrar og innan við 100 metrar í Fagradal í Vopnafirði. Suðvestanlands hefur létt til en þar var þó lágur skafrenningur. Skyggni á Hæl í Hreppum 5 km og 2,5 á Síðumúla í Borgarfirði. Best var skyggnið í Reykjavík, 65 km.
Tíminn 30.mars:
Frá fréttaritara Tímans í Jökulsárhlið: Nú er svo komið, að ýmsir menn hér um slóðir eru þrotnir að heyjum, en fjölmargir eru á nástrái. Fannkyngi er meiri en elstu menn muna. Gripahús víða gersamlega í kafi og sums staðar sést aðeins á mæninn á íbúðarhúsunum, og margra metra snjógöng úr bæjardyrunum upp á hjarnbreiðuna, sem hylur allt. Að Grófarseli í Jökulsárhlíð er tveggja hæða íbúðarhús og sést nú aðeins á mæninn á því og um þrjá glugga á efri hæð má enn sjá niður til miðs. Þar eru sjö metra göng úr bæjardyrunum upp á hjarnið. Viðlíka sjón mætir mönnum víða á Fljótsdalshéraði. Víða sést alls ekki á fjárhús, fjós og önnur útihús og er þykk fannbreiða yfir, en gengið í þau um löng snjógöng, sem grafin hafa verið og minna á myndir úr ferðabókum vetursetumanna í heimskautalöndunum. ... Að Litla-Steinsvaði í Hróarstungu brotnaði fjósið hjá Jóni Guðmundssyni bónda þar niður í fyrradag.
Svipuð tíð hélst fram eftir apríl, Tíminn segir snjóafréttir, m.a. snjóaði óvenjumikið syðst á landinu:
[13. apríl] Frá fréttaritara Tímans í Haganesvík. Við Ketilás í Austur-Fljótum er símalínan komin alveg í kaf, svo að ekki sér einu sinni á símastaurana, og af íbúðarhúsinu að Stóru-Brekku í Austur-Fljótum sést ekki annað upp úr fönn inni en reykháfurinn og eitt horn hússins. Fjós er þar sambyggt íbúðarhúsinu, og er skaflinn á þaki þess orðinn hálfur annar metri að þykkt.
[17.] Undanfarna tvo daga hefir verið hörkuveður með fannkomu á Norður- og Norðausturlandi. Frostharkan hefir verið mikli einhver hin mesta á vetrinum, komist upp í 1718 stig í Eyjafirði og víðar. Á Húsavík var norðvestan stórhríð með mikilli veðurhæð og frosthörku, sagði Fréttaritari blaðsins þar. Í Eyjafirði eru allir vegir orðnir ófærir á ný. Voru þeir ruddir litlu fyrir helgina en nú er skeflt í allar slóðir. Mjólk barst þó til Akureyrar i gær og fyrradag bæði sjóleiðis frá Dalvík og á sleðum úr næstu sveitum.
[19.] Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Hér hefir snjóað látlaust meira og minna hvern einasta dag í rúma viku og er kominn meiri snjór hér um slóðir en nokkur maður man dæmi til. Algerlega er orðið ófært um alla vegi og ekki vonir til að bílaumferð hefjist fyrr en verulega breytir um tíðarfar. Nokkrir fjárskaðar urðu í Mýrdalnum ofviðri á dögunum. Bílar tepptust á Sólheimasandi. Þegar snjóinn tók að setja niður fyrir alvöru, tepptust þrír bílar, sem voru á austurleið með vörur, á Sólheimasandi og sitja vörurnar þar enn. Eina ýtan, sem hér er, brotnaði einnig, svo að hún er nú ekki nothæf, en verið er að reyna að gera við hana.
Hár í Mýrdalnum urðu nokkrir skaðar í ofviðri á dögunum. Nokkrir símastaurar hafa brotnað og símalínur víða i ólagi. En tilfinnanlegri varð þó fjárskaði í Mýrdalnum. Á Ytri-Sólheimum hrakti 40 ær, sem Ísleifur Erlingsson bóndi átti, frá fjárhúsum út í veðrið. Fundust þær flestar aftur, en þó vantar fjórar enn. Sex þeirra sem fundust, drápust þó og ellefu eru enn veikar eftir hrakninginn og ekki séð, hvernig þeim reiðir af. Einnig missti Einar Einarsson bóndi á næsta bæ tíu ær út í veðrið, átta þeirra náðust aftur lifandi, en tvær eru dauðar. Segja má, sagði fréttaritarinn að lokum, að ástandið sé hið ískyggilegasta, því að ekki er nú langt þangað til sauðburður hefst og haldist svipað tíðarfar, sem er algerlega einsdæmi hér um slóðir á þessum tíma, eru miklir og ófyrirsjáanlegir erfiðleikar fyrir dyrum.
Þessir dagar, um og upp úr miðjum apríl voru sérlega kaldir. Þann 20. apríl fór frostið í -23,1 stig í Reykjahlíð við Mývatn og í Möðrudal. Það er mesta frost sem mælst hefur í byggðum landsins svo seint í apríl og reyndar mesta frost sem mælst hefur í byggð á íslenska sumarmisserinu. Sumardaginn fyrsta 1951 bar upp á 19.apríl.
Undir lok mars bárust fregnir af rýrum jökulvötnum undir Vatnajökli, Tíminn segir frá 29. mars:
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Bændur í Svínafelli og Skaptafelli í Öræfum fóru í vetur í fyrsta skipti á bifreiðum til þess að sækja rekatré á fjörur fyrir Skeiðarársandi, 2030 kílómetra leið. Ísalög hafa verið með mesta móti í vetur, enda hafa verið frost lengst af síðan um miðjan nóvembermánuð, en slíkt tíðarfar er óvenjulegt í Öræfunum. Snjór er nú óvenjulega mikill, litlir hagar og vegir ófærir. Hin miklu ísalög hafa hins vegar gert kleift að fara á rekafjörurnar fyrir Skeiðarársandi á bifreiðum, og voru tvær slíkar aðdráttarferðir farnar frá Svínafelli og ein frá Skaftafelli.
Og aftur eru svipaðar fréttir í Tímanum þann 21. apríl:
Stórvötnin skaftfellsku þorrin: Jökulsá á Breiðamerkursandi nær ekki lengur að falla til sjávar, Skeiðará eins og lítill bæjarlækur. Oft litlar, en aldrei sem nú. Það er að vísu ekki óvenjulegt, að Skeiðará og Jökulsá verði vatnslitlar um þetta leyti árs, en ekki vita menn dæmi þess, að Jökulsá hafi ekki ævinlega náð að renna í sjó fram, þar til nú. Orsök þessa vatnsleysis eru hinir langvarandi kuldar.
Eftir þetta batnaði tíð talsvert. Veðráttan, tímarit Veðurstofu Íslands segir um maímánuð:
Tíðarfarið var hagstætt, hlýindi og stillur lengst af. Hvergi varð tjón af vatnavöxtum vegna þess hve leysingin varð jöfn. Þó að geysimikla snjóa leysti í mánuðinum á Norður- og Norðausturlandi, voru þar enn skaflar í lautum í mánaðarlok. Tún grænkuðu þar jafnótt og þau komu upp, en um sunnan- og vestanvert landið greri seint vegna klaka í jörðu, og víða urðu þar verulegar kalskemmdir.
Eftir góða og hlýja daga í júníbyrjun kólnaði og mikið hret gerði. Þá snjóaði m.a. niður í Borgarfjörð.
Kortið sýnir þennan kuldalega morgunn, 12. júní 1951. Hríðarveður er í Síðumúla, hiti 1,0 stig og skyggni 400 metrar. Í grein Lauslegt rabb um veðurfar sem birtist í tímaritinu Veðrinu 1959 (s.49) birtir Þórður Kristleifsson þá kennari á Laugarvatni vísu orta þennan dag - eða um hann. Sennilega er vísan eftir föður hans Kristleif Þorsteinsson:
Tólfta júní faldi fönn
fjöllin, dalinn grundir,
gátu' ei fest á grasi tönn
gripir átján stundir.
Sumarið varð annars frægt fyrir íþróttasigra Íslendinga erlendis og hérlendis. Laxveiði þótti óvenjumikil í Borgarfirði.
Sunnudaginn 8. júlí varð mannskætt slys þegar grjóthrun lenti á fólksflutningabifreið í Óshlíð milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Tveir týndu lífi og fleiri slösuðust.
Eftir laklega byrjun gekk heyskapur allvel syðra, en síður á Norðaustur- og Austurlandi. Næturfrost voru til ama snemma í ágúst og þaðan af. Þannig sá á kartöflugrasi í Mosfellsdal þann 8. ágúst og um svipað leyti féll kartöflugras í Skagafirði.
Síðan voru fréttir af þurrkum á Suður- og Vesturlandi:
Tíminn segir þann
Tíminn 9. ágúst:
Í fyrrinótt var frost á sléttlendinu í Mosfellsdal, svo að kartöflugrös héngu slöpp og dauðaleg um morguninn, þar sem ekki er velgja í jörðu. Mosfellsdal mun vera nokkuð hætt við næturfrostum, því að dalurinn lokast að framan, svo að kalda loftið safnast fyrir og nær ekki að streyma fram. Mun frostsins því ekki hafa gætt i brekkum eða þar sem hærra bar, heldur aðeins niðri á jafnlendinu.
Tíminn 17. ágúst:
Það hefir áreiðanlega mikið af fornum jarðvegi fokið af öræfum landsins og sandsvæðum í gær. Mistrið, sem lagði hér vestur yfir var óvenjulega mikið, svo að aðeins grillti í fellin í Mosfellssveit, séð úr Reykjavík, og kembdi mökkinn langt út á Faxaflóa. Norður undan var einnig mikil móða í lofti, en þó ekki eins dimm. Það er ekki smáræði af lífefnum, sem sópast brott og berst á haf út.
Tíminn 24. ágúst:
Esjan flytur vatn til Vestmannaeyja frá Eskifirði og Reykjavík. Vatnsgeymar við fjórða hvert hús þrotnir. En nú hafa úrkomur í Eyjum verið óvenjulega litlar í hálft annað ár, og muna elstu menn ekki svo langvarandi þurrviðri sem þessi misseri.
Tíminn 9. september:
Nú síðustu vikur hefir eldur verið í hálfunnum flagspildum við þjóðveginn á Kjalarnesi. Hefir reyk lagt upp hér og þar um flögin, og í fyrrakvöld, er allhvasst var á Kjalarnesi, kembdi eimyrjuna undan vindinum í myrkrinu, og við og við gusu logar upp úr. Þessi flagbruni er neðan við þjóðveginn i tungunni, þar sem braut liggur niður að Saltvík. Þarna hafa verið grafnir skurðir til þess að þurrka landið og er mikill mór í uppmokstrinum. Eldurinn mun fyrst hafa kviknað i mónum úr uppmokstrinum á skurðbakkanum, en hefir breitt sig út, svo að nú er eimyrja í stórum spildum, þar sem búið var að tæta landið að nokkru leyti. Jörð öll er nú óvenjulega þurr eftir hina langvinnu þurrka, að læsa sig um svörðinn og grafa um sig í mó og reiðingstorfi, sem er undir efsta jarðlaginu.
Tíminn 9. október:
Útlendingar. sem komu á Þingvöll síðari hluta sumars, og ætluðu að skoða Öxarárfoss, þóttust illa sviknir. Öxará var þá orðin nauðalítil vegna langvarandi þurrka, og fossinn, sem þeir höfðu séð svo bústinn og virðulegan á myndum, var ekki annað en seytla, sem hripaði niður svart bergið.
Annað var eystra - þar héldu úrkomur áfram að valda vandræðum:
Tíminn 7.september:
Undanfarnar þrjár til fjórar vikur má heita, að verið hafi stanslausir óþurrkar og oftast illviðri og stórrigningar á Norður- og Austurlandi, en þó einna verst á norðausturhorni landsins. Er nú svo komið, að hin miklu hey, sem úti eru, mestur hluti engjaheyskapar þessara héraða eru orðin stórskemmd, og bregði ekki til þurrka næstu daga eru líkur til, að heyfengurinn verði rýr og sums staðar verði að koma til bústofnsminnkunar.
Tíminn 8. september:
Í gærmorgun var svell á tjörnum Austanlands. Á Reyðarfirði var frostið eftir nóttina, það mikið að rúðuglersþykkt svell var á lygnum tjörnum. en á Grímsstöðum á Fjöllum var svellið 5 millimetra þykkt.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarfirði eystra. Í fyrradag var hér geysileg úrkoma fyrst með slyddu og jafnvel snjókomu. Er hvítt niður undir byggð og frost var i gærmorgun. Geysilegur vöxtur hefir hlaupið í Fjarðará eins og önnur vatnsföll hér um slóðir. Í gær hafði áin grafið brott þriggja metra háa uppfyllingu við syðri brúarstöpulinn og undan honum, svo að hann er siginn nokkuð og sprungur komnar í þilju brúarinnar. Beljar áin nú á stöplinum og sunnan við hann og er talin hætta á að hann fari alveg. Umferð er að sjálfsögðu alveg teppt.
Tíminn 9. september:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Nú upp á síðkastið hafa verið hér miklar rigningar og vatnavextir, svo að skemmdir hafa orðið á heyjum. Síðustu þrjár vikur hefir ekki verið hægt að ná heyi á Fljótsdalshéraði, svo að mikið var orðið úti, og í vatnavöxtunum sem gerði, flaut upp mikið hey á engjum í Hjaltastaðarþinghá.
Þann 10. október varð talsvert tjón í illviðri víða um land. En annars var í október lengst af hagstæð tíð á Norður- og Austurlandi og hirtust þá loks hey, en umhleypingasamt var og gæftir stirðar á Suður- og Vesturlandi.
Tíð var hagstæð um land allt í nóvember, en heldur stirt og illviðrasamt var í desember. Þá voru bæði samgönguerfiðleikar og gæftir tregar. Ekki varð þó um stórfellt tjón að ræða.
Tíminn 6.desember:
Þann 4. desember var ofsarok og hríð af norðri um sunnanvert Snæfellsness, eins og víðar. 26 manna áætlunarbifreið var á leið úr Reykjavik til Stykkishólms, og var veðrið svo mikið, að hún tókst á loft og kastaðist út af veginum.(Tíminn 6. desember) Í sama veðri hrakti 28 kindur í Laxá á Ásum og fórust þær þar (Tíminn 12. desember).
Í Tímanum þann 12. desember segir af illviðri í Borgarnesi. Ritstjóri hungurdiska man úr æsku eftir þjóðsagnakenndum frásögnum af samkomu þeirri sem minnst er á í fréttinni.
Einkafrétt Tímans frá Borgarnesi. f fyrrakvöld gerði hér um Borgarfjörð aftakaveður af suðaustri, og var veðurhæðin mest milli krukkan sjö og tíu um kvöldið. Reif hluta af þaki tveggja húsa í Borgarnesi Templarahúsinu, sem áður var barnaskóli, og sláturhúsi verzlunarfélagsins Borg. Templarar höfðu samkomu í húsi sínu þetta kvöld, og var verið að spila þar framsóknarvist, er járnið byrjaði að fjúka af þakinu. Litlu síðar slokknuðu ljósin, því að járnplöturnar slitu loftlínur rafmagnsveitunnar. Fólki var bannað að fara úr samkomuhúsinu, meðan á þessu stóð, sökum hættu, sem stafaði af járnplötunum. Járnplöturnar af húsunum tveimur fuku eins og skæðadrífa um bæinn, og urðu allmörg hús ljóslaus sökum slita á rafmagnslinunum. Í nokkrum húsum brotnuðu einnig rúður, því að bæði skóf á glugga steina af götunum og járnplötur og annað lauslegt fauk á þá. Var veður þetta með þeim hörðustu, er koma í Borgarfirði, og rigning mikil.
Önnur frétt af vandræðum í Borgarnesi birtist í Tímanum 21. desember:
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í fyrradag munaði minnstu að flutningaskip strandaði við Brákarey við Borgarnes. Var það að koma þangað með timbur og ætlaði að leggjast að bryggju snemma morguns, en landtaugin slitnaði og skipið rak að klettum Brákareyjar hinnar minni.
Vandræði urðu í Hvalfirði daginn eftir Tíminn segir frá 22. desember:
Í fyrrakvöld og fyrrinótt var ofsarok af austri í Hvalfirði, og slitnaði þá upp annar af tveimur hvalveiðibátum sem voru í vetrarlægi undan Miðsandi á Hvalfjarðarströnd. Var þetta Hvalur II. Rak bátinn á grunn við Lækjarós hjá Kalastöðum. Undir áramót voru enn og aftur samgöngutruflanir sunnanlands vegna snjóa.
Í viðhenginu eru ýmsar tölur og fleiri upplýsingar. Í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands má finna ítarlegar veðurlýsingar 1951.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 933
- Sl. sólarhring: 949
- Sl. viku: 2728
- Frá upphafi: 2413748
Annað
- Innlit í dag: 876
- Innlit sl. viku: 2476
- Gestir í dag: 850
- IP-tölur í dag: 828
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir þessa góðu upprifjun af dögum, sem eru enn í fersku minni. Flakið af Glitfaxa er talið liggja skammt fyrir utan Flekkuvík á Vatnsleysuströnd og hefur síðan slysið varð verið skilgreindur sem votur grafreitur, og mun því grafarhelgi hvíla yfir flakinu að minnsta kosti til janúarloka 2026.
Flugstjóri frá þessum tíma, sem enn er á lífi, hefur bent mér á, að á fyrstu árum innanlagsflugsins eftir stríðið urðu mörg flugslys og tvö afar stór, en þá lauk þessari miklu slysahrinu.
Flugstjórinn bendir á eftirfarandi atriði: 1. Alveg ný starfsemi á alla lund. 2. Sár vöntun á flugleiðsögutækjum til flugs í landi með mjög erfiðum flugskilyrðum. 3. Ungir flugmenn með mjög fáa flugtíma.
Ómar Ragnarsson, 17.4.2022 kl. 22:49
Þakka þér fyrir Ómar. Það var óskaplega mikið af slysum af ýmsu tagi á þessum árum - og aldrei liðu margir dagar á milli húsbruna. Ég er aðeins of ungur til að muna sjálfur atburði ársins 1951, en í minni æsku var mikið um Glitfaxaslysið talað - reyndar alltaf talað um Vestmanneyjaflugvélina - nafn hennar síður nefnt, Geysisslysið haustið áður var að sjálfsögðu mikið í umræðu (og ég hef skrifað um veðrið þá, sjá hungurdiska 21.september 2010). Héðinsfjarðarslysið var líka mikið rætt. Ég hef litið nokkuð á veðrið við Héðinsfjarðarslysið - og skrifa kannski einhverjar línur um það síðar á þessum vettvangi.
Trausti Jónsson, 18.4.2022 kl. 14:25
Takk fyrir þessa fróðlegu yfirferð um þetta erfiða ár. Heyleysi og erfiðleikar voru gríðarlegir á Norðaustur hluta landsins. Vilhjálmur Hjálmarsson lýsir erfiðleikunum vel í bókinni Þeir breyttu Íslandssögunni.
Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 20.4.2022 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.