Óvenjuleg hlýindaspá (rétt einu sinni)

Enn er spáð óvenjulegum hlýindum í háloftunum yfir landinu, í byggðum norðan- og austanlands sem og á hálendinu austanverðu. Skýjafar, úrkoma og vindur af hafi heldur hita hins vegar niðri víðast hvar um landið sunnan- og vestanvert - sé að marka spár. Svonefnd þykkt - eða fjarlægð milli þrýstiflata - mælir hita milli flatanna og gefur góðar vísbendingar um hversu óvenjuleg hlýindi (eða kuldar) eru. Algengast er að nota þykktina á milli 1000 hPa og 500 hPa þrýstiflatanna í þessu skyni. Það er ekki algengt hér á landi að þykktin milli þessara flata sé meiri en 5600 metrar - og er aðeins vitað um fáein slík tilvik síðasta þriðjung ágústmánaðar frá upphafi háloftaathugana fyrir um 70 árum. 

Mesta þykkt yfir Keflavíkurflugvelli í síðasta þriðjungi ágústmánaðar mældist þann 26. árið 2003, 5660 metrar. Þá reiknaði bandaríska endurgreiningin 5613 metra þykkt yfir miðju landi (65°N, 20°V). Hiti fór þá í 25,0 stig í Básum í Þórsmörk. Í þessu tilviki var hlýjast fyrir vestan land og áttin norðvestlæg í háloftunum - og þar með ekki alveg jafnvænleg til hlýinda á norðausturlandi eins og þegar þetta gerist í suðlægum áttum. Vindur var hægur - og háloftahlýindum erfitt um vik að ná til jarðar. Meðalhámarkshiti á landinu þessa daga 2003 var hæstur þann 25. 17,7 stig, sá næsthæsti sem við vitum um í síðasta þriðjungi ágústmánaðar. Meðallágmarkshiti á landinu var 11,9 stig - sá hæsti sem við vitum um í síðasta þriðjungi ágústmánaðar. 

Endurgreiningar eru oft gagnlegar þegar leitað er að óvenjulegu veðri. Þykktin 2003 er sú næstmesta í síðasta þriðjungi ágústmánaðar á því tímabili sem þær endurgreiningar sem ritstjóri hungurdiska hefur við höndina ná til. Hæsta tilvikið er frá 1976. Þá segir bandaríska endurgreiningin þykktina yfir miðju landi hafa farið í 5618 metra þann 27. Elstu veðurnörd muna vel þetta tilvik, þá fór hiti í 27,7 stig á Akureyri (þann 28.), 27,0 stig á Seyðisfirði og í meir en 25 stig á fáeinum stöðvum öðrum um landið norðaustan- og austanvert. Þetta er það tilvik sem keppt verður við nú - sé að marka veðurspár.

Við skulum líta á háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á morgun (þriðjudag 24.ágúst).

w-blogg230821a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og af þeim má ráða vindstefnu og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litirnir gefa þykktina til kynna. Hún er rétt rúmlega 5640 metrar yfir miðju landi og eins og þegar er fram komið gerist hún ekki öllu meiri hér við land. Áttin er suðvestlæg yfir landinu - en loft langt að sunnan streymir í átt til landsins. 

w-blogg230821b

Hér að ofan er endurgreining japönsku veðurstofunnar frá hádegi 27.ágúst 1976. Þar má sjá dálítinn blett þar sem þykktin er meiri en 5640 metrar við Norðausturland. Kortin eru að mörgu leyti svipuð - hlýindin nú virðast þó meiri, en á móti kemur að jafnhæðarlínur yfir landinu eru nokkru þéttari 1976 heldur en nú, þar með meiri von til þess að háloftahlýindin berist niður til jarðar heldur en nú. Hvort hefur betur - meiri háloftahlýindi nú eða þá meiri vindur 1976 vitum við ekki enn. Við vitum ekki hvort hlýindin nú ná einhverjum meti á landsvísu. Hámarksdægurmet munu þó falla á fjölmörgum stöðvum. Kannski landsdægurmet hámarkshita.

Gríðarleg hlýindi voru einnig í ágúst 1947. Hiti fór þá í 27,2 stig á Sandi í Aðaldal þann 22., og sama dag mældust 25,0 stig á Hallormsstað. Mjög hlýtt varð víðar þessa daga. Bandaríska endurgreiningin nefnir þykktina 5592 metra yfir miðju landi þennan dag í eindreginni suðvestanátt. Endurgreiningin nefnir einnig 23.ágúst 1932 sem óvenjuhlýjan dag í háloftum. Þá mældist hiti mestur á landinu á Eiðum 23,8 stig. Sömuleiðis er minnst á háloftahlýindi 27.ágúst 1960. Hiti fór þann 26. í 22,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Trúlega hefði athugunarkerfi nútímans veitt hærri tölur í báðum þessum tilvikum. 

Þann 22. og 23. ágúst 1999 er getið um 27,3 stig í Miðfjarðarnesi, en þær tölur eru mjög vafasamar - líklega á þetta að vera 22,3 stig.

Veðrið í ágúst 1976 var mjög eftirminnilegt. Óvenjuleg hlýindi ríktu um landið norðan- og austanvert. Suðvestanlands voru hins vegar óminnilegar rigningar, ár flæddu um engjar og jafnvel upp á tún og heyskapur var erfiður. Vegarskemmdir urðu víða, sérstaklega á Snæfellsnesi. Hvassviðri voru tíð. Norrænt veðurfræðingaþing var haldið í Reykjavík þessa daga - og síðan einnig vatnafræðiþing. Þetta sumar voru veðurfarsbreytingar talsvert í umræðum manna á meðal, óvenjulegir þurrkar og hitar voru t.d. á Bretlandseyjum. Sýndist sitt hverjum um ástæður. Á veðurfræðiþinginu var t.d. haldinn fyrirlestur um ískjarnarannsóknir á Grænlandi, ljóst þótti að veðurfar myndi lítillega kólna næstu 5 þúsund árin ef áhrif af athöfnum manna kæmu ekki í veg fyrir það. Morgunblaðið vitnar í norræna veðurfræðinga sem þeir ræddu við í tilefni þingsins [28.ágúst, s.31]: „Þeim hafði komið saman um að ekki væri ástæða til að óttast róttækar breytingar i veðurfari. Aðspurðir um rigninguna í Reykjavik og áhyggjur Sunnlendinga vöfðu þeir aðeins regnkápunum fastar að sér, áður en þeir héldu út i bílinn, sem beið þeirra. Óþarfa svartsýni að búast við sömu sögu næsta ár“. Enda rann höfuðdagurinn upp - og það stytti rækilega upp. Einhver mest afgerandi veðurbreyting sem ritstjóri hungurdiska man nokkru sinni eftir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Spennandi landskeppni háloftanna; Alltaf leggst manni eitthvað til.

Helga Kristjánsdóttir, 23.8.2021 kl. 22:20

2 identicon

Skuggalegar tölur sem eru að mælast nú fyrir hádegi, og dagurinn á morgun á víst að vera ívið hlýrri. Fáum við loksins aftur að sjá 30°C á íslenskri veðurstöð, spennandi 30 tímar framundan. 

Sigurður Arason (IP-tala skráð) 24.8.2021 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband