Óvenjuhár sjávarhiti

Sjávarhiti við Norðurland er í fréttum þessa dagana. Því miður er sjávarhitamælir Veðurstofunnar í Grímsey ekki í lagi um þessar mundir og við verðum aðallega að reiða okkur á fjarkönnunargögn - en þó eru fáein dufl á reki norðan við land og frá þeim koma einhverjar upplýsingar. Sjávarhitamælingar úr gervihnöttum hafa þann ókost að sjá ekki nema hita yfirborðsins - sá hiti getur verið töluvert annar heldur en hiti rétt neðan yfirborðs - sérstaklega hafi vindar verið mjög hægir í nokkra daga. Slíkur sjór getur á örskotsstund blandast kaldari, hreyfi vind að ráði. 

w-blogg110821a

Hér má sjá sjávarhita gærdagsins eins og hann var í líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það sem er sérlega óvenjulegt er hinn hái hiti í Austur-Grænlandsstraumnum, en á árum áður voru oft talsverðar ísleifar í honum á þessum tíma árs, stundum miklar. Í miklum ísárum fyrri tíma náði sá ís jafnvel til Íslands í ágúst, vestur fyrir Horn og suður fyrir Berufjörð á Austfjörðum. Nær aldrei var greið leið til austurstrandar Grænlands. En nú er það ekki aðeins ísleysi, heldur er hiti ekkert nærri frostmarki heldur. Annað atriði er sérlega hár hiti undan austanverðu Norðurlandi, allt að 13 stigum. Árin 2003 og 2004 fór meðalsjávarhiti í júlí og ágúst yfir 10 stig við Grímsey. Sama gerðist í ágúst 1955, 1939, 1933 og 1931. Á þessu korti er hitinn við Grímsey nærri 12 stig. Höfum í huga að þetta er í dag - líklega fellur hitinn síðar í mánuðinum þannig að spurning er enn hvort mánaðarmeðalhitinn verði þar hærri en áður hefur borið við - alls ekki er það víst. 

Evrópureiknimiðstöðin sýnir okkur einnig vikakort.

w-blogg110821b

Ef við trúum því er vikið hér við land mest við Melrakkasléttu, meira en 6 stig. Enn meiri vik eru síðan á ísaslóðum við Grænland. Svipað má svo reyndar sjá líka á allstórum svæðum við norðurstrendur Síberíu. Hiti undan Suðurlandi er einnig meir en 2 stigum ofan meðallags á stóru svæði. Dálítið neikvætt vik er undan Suðausturlandi - ekki fjarri straumamótunum. Ritstjóra hungurdiska þykja tvær skýringar koma til greina - sú fyrri er að ríkjandi suðvestanáttir hafi dregið upp sjó að neðan - nokkuð sem gerist alloft blási vindur af sömu átt mjög lengi. Hin skýringin er að hlýrri og saltari sjór berist í einhverjum sveipum inn á svæðið - yfir kaldari og seltuminni - við það verður blöndun ákafari við straumamótin - alla vega eru líkur á blöndun meiri við straumamót heldur en annars. 

Gervihnattamælingar sjávarhita eru sérlega ónákvæmar við strendur - þannig að ekki er gott að segja hvort hin neikvæðu vik (síðara kortið) og lági hiti (fyrra kortið) sem við getum greint inni á fjörðum Norðaustur-Grænlands eru raunveruleg. Á þeim slóðum hafa óvenjuleg hlýindi verið ríkjandi upp á síðkastið, svipað og á Norðaustur- og Austurlandi, bráðnun snævar og jökla er þar sjálfsagt með mesta móti, það skilar sér út á firðina þar sem hiti er því nærri frostmarki - þrátt fyrir „hitabylgju“ á snjólausum svæðum. 

Fáein flotdufl eru á reki fyrir norðan land, þau taka dýfur reglulega - mislangt niður - mæla seltu- og hitasnið, og senda síðan mælingarnar til gervihnatta þegar þau koma úr kafi. Í fyrradag fengust upplýsingar frá dufli sem statt var á 68,9°N og 14,8°V. Þar var yfirborðshiti um 8,5 stig, um 4 stig á 50 metra dýpi og 0,5 stig á 100 metra dýpi. Yfirborðið var tiltölulega ferskt (og því gat það vatn flotið) - en ferskasta lagið var örþunnt - aðeins um 10 metrar ef trúa má mælingunni. Gangi mikil hvassviðri yfir þetta svæði á næstunni mun hiti þar geta fallið um mörg stig á stuttum tíma. Svipað mun eiga við um stóra hluta þess svæðis þar sem hitavikin eru hvað mest. 

Nú er spurning hvernig fer með haustið - undir venjulegum kringumstæðum fer mikill hluti sumarorkunnar í að bræða ís við Austur-Grænland - því er venjulega ekki lokið í lok sumars. Nú er hins vegar engan ís þar að finna - fyrr en norðan við 80. breiddargráðu. Varmi getur því safnast fyrir í yfirborðslögum sjávar. Kannski blandast varminn niður í hauststormum - en þá geymist hann þar til lengri tíma - getur e.t.v. nýst til að éta ís síðar og annars staðar - kannski fer varminn í aukna haustuppgufun - austanvindar á Austur-Grænlandi og norðanvindar hér á landi þá e.t.v. orðið blautari en vandi er til. Til þess að við verðum fyrir slíku þarf vindur auðvitað að blása af norðri - en hlýr sjór ræður harla litlu um vindáttir - (jú, einhverju - en vart afgerandi í þessu tilviki). 

Hluti „vandans“ á norðurslóðum fellst svo í því að útflutningur ferskvatns út úr Norður-Íshafi og með Austur-Grænlandsstraumnum gengur greiðar fyrir sig sé ferskvatnið í formi íss en ekki vökva, vindur nær mun betri tökum á ís heldur en sjávaryfirborði. Hugsanlega geta þannig safnast fyrir umframferskvatnsbirgðir í norðurhöfum. Enginn veit með vissu hvernig fer með slíkt eða hvaða afleiðingar slík birgðasöfnun hefur til lengri tíma. Það eitt er víst að mjög miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu fyrir norðan okkur. Óþægilegt er að vita af því að enn meira kunni að „vera í pípunum“ - og að vita ekki hvers eðlis það verður - „gott“ eða „slæmt“ - við vitum ekki einu sinni hvort það sem sýnist „gott“ er í raun slæmt (þá án gæsalappa). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á mbl.is má sjá aðrar og nákvæmari upplýsingar um sjávarhita í hafinu fyrir norðan okkur. Þar kemur fram að sjórinn er óvenjukaldur þetta sumarið en ekki óvenjuheitur eins og lesa má úr þessari úttekt þinni. Reyndar kemur þetta sama einnig fram á kortinu í grein þinni, þ.e. "vika"kortinu.
Í norsku rannsókninni kemur fram að yfirborðshiti sjávar var nokkuð kaldari í vestur- og norðvesturhluta "Noregs"hafs en í fyrra. Hitinn hafi farið niður í 4,5-5,5 stig. Gæti þýtt að næsti vetur verði kaldur hjá okkur:
https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/08/13/makrillinn_einnig_dreifdur_hja_nordmonnum/

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 16.8.2021 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 111
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 1537
  • Frá upphafi: 2407542

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 1363
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband