Örlítið söguslef - hitafar

Ritstjóri hungurdiska er um þessar mundir í starfslokatiltekt, flettir og hendir gömlum blöðum og skýrslum. Rifjast þá sitthvað upp. Á dögunum rakst hann á aldarfjórðungsgamla  norska ráðstefnugrein. Fjallar hún um tilraun til mats á hitafari á hellaslóðum við Mo í Rana í Noregi. Mo i Rana er í Nordland-fylki í Noregi, á svipuðu breiddarstigi og Ísland. Ársmeðalhiti 1961-1990 var eiginlega sá sami og í Stykkishólmi, eða 3,5 stig. Staðurinn er þó ekki alveg við ströndina og eru vetur heldur kaldari og sumur hlýrri heldur en í Hólminum. 

Hér að neðan lítum við á mynd (línurit) þar sem reynt er að giska á ársmeðalhitann á þessum slóðum síðustu 9 þúsund ár eða svo. Notast er við samsætumælingar í dropasteinum hellisins. Ritstjórinn minnist þess að línurit þetta fór allvíða á sínum tíma og beið hann lengi eftir því að greinin birtist í því sem kallað er ritrýnt tímarit - eða alla vega einhverju ítarlegra en ráðstefnuriti. Svo virðist sem úr því hafi ekki orðið, kannski vegna þess að eitthvað ábótavant hefur fundist, t.d. í aðferðafræðinni. Aftur á móti birtist grein um niðurstöður mælinga úr sama helli nokkrum árum síðar - en þar var fjallað um hitafar í hellinum á hlýskeiði ísaldar - frá því fyrir um 130 þúsund árum að 70 þúsund árum fyrir okkar daga. Ritstjóri hungurdiska hefur ekkert vit á dropasteinum - né þeim aðferðum sem menn nota til að galdra út úr þeim upplýsingar um hita og/eða úrkomu. En hitaferill myndarinnar er forvitnilegur.

mo-i-rana_dropsteinar-Lauritzen-1996

Í haus myndarinnar segir að þar fari ársmeðalhiti í Mo i Rana. Lárétti ás myndarinnar sýnir tíma, frá okkar tíð aftur til 8500 ára fortíðar. Eins og gengur má búast við einhverjum villum í tímasetningum. Lóðrétti ásinn sýnir hita - efri strikalínan merkir meðalhita á okkar tímum (hvað þeir eru er ekki skilgreint - en hér virðist þó átt við meðaltalið 1961 til 1990). Neðri strikalínan vísar á meðalhita á 18.öld - „litla ísöld“ er þar nefnd til sögu. Rétt er að benda á að ferillinn endar þar - fyrir um 250 árum (um 1750) - en nær ekki til 19. og 20. aldar. Höfundurinn ákveður nú að hiti um 1750 hafi verið um 1,5 stigum lægri heldur en „nú“. Um það eru svosem engar alveg áreiðanlegar heimildir - sem og að sú tala gæti jafnvel átt við annað „nú“ heldur en höfundurinn virðist vísa til - t.d. til tímabilsins 1931 til 1960, sem var heldur hlýrra en það síðara, í Noregi eins og hérlendis. Sé munurinn á „hita nú“ og hita „litlu ísaldar“ minni en 1,5 stig hefur það þær afleiðingar að hitakvarðinn breytist lítillega - en lögun hans ætti samt ekki að gera það. 

Nú er það svo að töluverður munur getur verið á hitafari í Noregi og á Íslandi, mjög mikill í einstökum árum, en minni eftir því sem þau tímabil sem til athugunar eru eru lengri. Allmiklar líkur eru því á að megindrættir þessa línurits eigi einnig við Ísland - sé vit í því á annað borð. 

Höfundurinn (Lauritzen) tekur fram að hver punktur á línuritinu sé eins konar meðaltal 25 til 30 ára og útjafnaða línan svari gróflega til 5 til 6 punkta keðjumeðaltals - og eigi því við 100 til 200 ár. Sé farið meir en 5 þúsund ár aftur í tímann gisna sýnatökurnar og lengri tími líður milli punkta - sveiflur svipaðar þeim og síðar verða gætu því leynst betur. 

En hvað segir þá þetta línurit? Ekki þarf mjög fjörugt ímyndunarafl til að falla í þá freistni að segja að hér sé líka kominn hitaferill fyrir Ísland á sama tíma.

Samkvæmt þessu hlýnaði mjög fyrir um 8 þúsund árum og var hitinn þá um og yfir 6°C. Almennt samkomulag virðist ríkja um að mikið kuldakast hafi þá verið nýgengið yfir við norðanvert Atlantshaf.

Meðalhiti í Stykkishólmi er rúm 3,5°C síðustu 200 árin, hlýjustu 10 árin eru nærri 1°C hlýrri og á hlýjustu árunum fór hiti í rúm 5,5 stig. Getur verið að meðalhiti þar hafi verið 5 til 6°C í rúm 2000 ár? Sú er reyndar hugmyndin - jöklar landsins áttu mjög bágt og virðast í raun og veru hafa hopað upp undir hæstu tinda. Ástæður þessara miklu hlýinda eru allvel þekktar - við höfum nokkrum sinnum slefað um þær hér á hungurdiskum og áherslu verður að leggja á að þær eru allt aðrar heldur en ástæður hlýnunar nú á dögum. 

Höldum áfram að taka myndina bókstaflega. Frá hitahámarkinu fyrir hátt í 8 þúsund árum tók við mjög hægfara kólnun, niður í hita sem er um gráðu yfir langtímameðallagi okkar tíma.  Síðan kemur mjög stór og athyglisverð sveifla. Toppur skömmu fyrir um 5000 árum nær rúmum 5 stigum, en dæld skömmu síðar, færir hitann niður í um 1°C, það lægsta á öllu tímabilinu sem línuritið nær yfir fyrir um 4500 árum, eða 2500 árum fyrir Krist. Þessar tölur báðar eru nærri útmörkum á því sem orðið hefur í einstökum árum síðustu 170 árin. En þær eiga, eins og áður er bent á, væntanlega við marga áratugi. Ýmsar aðrar heimildir benda til verulegrar kólnunar á okkar slóðum fyrir rúmum 4000 árum. Þessi umskipti voru á sínum tíma nefnd sem upphaf „litlu ísaldar“ - en því heiti var síðar stolið á grófan hátt - síðari tíma fræðimenn hafa stundum nefnt þessa uppbreytingu upphaf „nýísaldar” (Neoglaciation á ensku).

Á þessum tíma hafa jöklar landsins snaraukist og náð að festa sig í sessi að mestu leyti. Jökulár hafa þá farið að flengjast aftur um stækkandi sanda með tilheyrandi leirburði og sandfoki, gróðureyðing virðist hafa orðið á hálendinu um það leyti. Ef við trúum myndinni stóð þetta kuldaskeið í 700 til 800 ár - nægilega lengi til að tryggja tilveru jöklanna, jafnvel þó þeir hafi búið við sveiflukennt og stundum nokkuð hlýtt veðurlag síðan. 

Línuritið sýnir allmikið kuldakast fyrir um 2500 árum síðan (500 árum fyrir Krists burð). Þá hrakaði gróðri e.t.v. aftur hér á landi. Það hitafar sem línuritið sýnir milli Kristburðar og ársins 1000 greinir nokkuð á við önnur ámóta línurit sem sýna hitafar á þeim tíma. Ef við tökum tölurnar alveg bókstaflega ætti þannig að hafa verið hlýjast um 500 árum eftir Krist, en aðrir segja að einmitt þá (eða skömmu síðar öllu heldur) hafi orðið sérlega kalt. En línuritið segir aftur á móti frá kólnun eftir 1000. 

Það eru almenn sannindi að þó að e.t.v. sé samkomulag að nást um allra stærstu drætti veðurlags á nútíma gætir gríðarlegs misræmis í öllu tali um smáatriði - hvort sem er á heimsvísu eða staðbundið. Frá því að þessi grein birtist hefur mikið áunnist í rannsóknum á veðurfarssögu Íslands á nútíma, en samt er enn margt verulega óljóst í þeim efnum.

Línurit sem þessi geta á góðum degi hjálpað okkur í umræðunni - en við skulum samt ekki taka smáatriðin allt of bókstaflega. 

Rétt er að nefna greinina sem myndin er fengin úr (tökum eftir spurningamerkinu í titlinum):

Stein-Eirk Lauritzen (1996) Calibration of speleothem stable isotopes against historical records: a Holocene temperature curve for north Norway?, Climate Change: The Karst Record, Karst Waters Institute Special Publications 3, p.78-80.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Þarf að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 6.8.2021 kl. 21:24

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Hélt að þú væri of ungur til að vera sparkað út núna vegna þessarar fáranlegu lagagreinar um að fólk á yfir vissum aldri sé ekki hæft um að vinna hjá ríki og sveitarfélögum

EN sýnir þessi athugun ekki að það eru náttúrlegar sveiflur í átt að hitaaukningu 
Þó svo að við eigum að huga að minnkun mengunar þá er þessi hamfaraspár orðum of auknar 

Grímur Kjartansson, 7.8.2021 kl. 15:12

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gaman hjá lærðum að gramsa og sjá gömul rit skilgreind i minum huga sem vísindi eða hvað? Get ekki skrifað "Like" þá er ég komin í Facbook og þar festist maður oft til sólarupprásar.Þessi stækkun kom óvart og óvænt,þú kastar því bara;takk fyrir og góðar stundir. 

Helga Kristjánsdóttir, 8.8.2021 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1015
  • Sl. sólarhring: 1110
  • Sl. viku: 3405
  • Frá upphafi: 2426437

Annað

  • Innlit í dag: 904
  • Innlit sl. viku: 3060
  • Gestir í dag: 880
  • IP-tölur í dag: 814

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband