Stríð vestanátt

Veðrahringrás norðurhvels er nú komin í sumarskap (sem vera ber) þó enn megi greina síðustu leifar vetrar og vors í norðurhöfum. 

w-blogg240621a

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á morgun (föstudag 25.júní). Af hæðinni ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar við Ísland - óvenjuþéttar miðað við árstíma, þó ekki sé um nein met að ræða. Þykktin segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mjög hlýtt loft leikur um landið, þykkt yfir landinu austanverðu meiri en 5640 metrar sem er með því mesta sem sést. Eins og venjulega er þó alltaf nokkur óvissa um hversu vel hlýindin skila sér niður í mannheima. Um landið vestanvert blæs vindur af hafi og varla nokkur möguleiki á að koma hlýja loftinu að ofan niður - eitthvað af því blandast þó inn í svalann og hiti verður heldur hærri en að undanförnu. Austanlands er mun meiri von um hlýindi. Mættishiti í 850 hPa verður þar um 28 til 29 stig og brjótist sól í gegnum ský gæti hiti á Héraði og Austfjörðum um stund náð 23 til 27 stigum - en það er sýnd veiði en ekki gefin. 

Þessi sterka vestanátt á að haldast í nokkra daga - þá með miklum hlýindum austan- og jafnvel suðaustanlands líka (þó varla alveg samfelldum). Um frekara framhald eru spár ekki sammála - hvað gerist þegar slaknar á vestanáttinni og hvoru megin garðs við þá lendum - í almennum hlýindum að austan og sunnan eða þá svala að vestan eða norðan. 

Illur kuldapollur er yfir Norðuríshafi - hótar okkur ekki í bili, en samt er vissara að gefa honum gaum. Gríðarleg hlýindi gengu fyrr í vikunni yfir austanverða Evrópu, júníhitamet féllu þar víða - sömuleiðis í Kákasuslöndum. Á þessu korti er leiðindakuldapollur yfir Bretlandseyjum - hann gefur sig smám saman, en veldur samt skúrum og svala þar um slóðir næstu daga. 

Á dögunum voru einnig óvenjuleg hlýindi um vestanverð Bandaríkin, hiti nærri metum. Aðeins hefur slaknað á, en svo virðist sem hitarnir muni taka sig upp, og verða hugsanlega óvenjulegir í norðvesturríkjunum og vestanvert í Kanada upp úr helginni. Þar sést þykktinni spáð upp í 5880 metra - sem hlýtur að vers nærri meti - en er jafnlíklegt að sé rangt í spánni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ef eg man rétt rigndi höglum í Tékklandi eða var skotið svo kröftugur var vindurinn. 

Helga Kristjánsdóttir, 26.6.2021 kl. 02:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband