17.3.2021 | 19:57
Af árinu 1829
Tíð var mjög hagstæð á árinu 1829 að öðru leyti en því að slæm vorhret gerði nyrðra og þar kom talsverður hafís. Kulda gætti þar einnig framan af sumri. Árið var hlýtt, meðalhiti í Reykjavík 5,0 stig og er áætlaður 4,1 stig í Stykkishólmi. Hafa verður í huga að nokkur óvissa er í þessum tölum. Um mitt ár var veðurstöðin í Nesi (við Reykjavík) uppfærð, mælingar auknar og urðu að því er virðist nákvæmari. Mánaðarmeðalhiti í Reykjavík í júlí og ágúst er þó með nokkrum ólíkindum (13,6 stig). Kann það að stafa af mæliaðstæðum - lágmarkshiti var sérlega hár marga daga í júlí. Við höfum þó vitnisburð Ingibjargar Jónsdóttur (móður Gríms Thomsen) sem vitnað er í hér neðar: ... fyrripart júlímánaðar var hér ofboðslega heitt, svo ég, sem þó hvorki er í blóð eða mergur, ætlaði að bráðna í sundur.
Við byrjum ekki talningu kaldra og hlýrra daga í Reykjavík (Nesi) fyrr en 1.júlí. Eftir það voru köldu dagarnir aðeins þrír, 5. til 7. október. Nítján dagar voru mjög hlýir, 6 í júlí og 13 í ágúst. Í júlí var það lágmarkshiti næturinnar sem skar sig úr, nánast jafnhlýtt var dag og nótt, lágmarkshiti fór ekki niður fyrir 15 stig þessa 6 hlýju daga. Hæsti hámarkshiti sumarsins var 22,5 stig, 17. júlí og 14. og 15. ágúst.
Úrkomumælingar hófust í Nesi þann 1.júlí. Júlí var mjög þurr, heildarúrkoma ekki nema 3 mm. Einnig var þurrt í september, en aftur á móti var úrkoma mjög mikil í nóvember og desember.
Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þ.19. október, 970,3 hPa, en hæstur þann 31.október, 1032,2 hPa. Lægsti þrýstingur ársins hefur aldrei verið jafnhár - en höfum í huga að aðeins var mælt á einum stað einu sinni á sólarhring. Lægri tölur hefðu örugglega komið fram ef víðar og tíðar hefði verið mælt. Munur á hæsta og lægsta þrýstingi ársins hefur heldur aldrei verið jafnlítill og 1829. Þrýstiórói var með meira móti í maí og október - bendir það til umhleypingatíðar, en aftur á móti var óróinn með minna móti í mars.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar getur fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Svo er að skilja að Jóni á Möðrufelli hafi þótt árferði gott, apríl og maí þó í lakara lagi og andkalt framan af sumri. Heyskapartíð mjög hagstæð í ágúst.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Hláka eftir þrettánda, annars frostalitið, óstöðugt, blotasamt og svellaði jörð i janúar. 3. febr. storka og jarðleysi til 11., þá hláka, svo stillt og gott. Gaf þá vermönnum mikið vel. Með mars þíður og góðviðri, með 4. viku góu [15.mars] hríð og fannlög af norðri, eftir það stillt veður, stundum frostmikið. 6.-7. apríl innistaða, en ei tók upp á heiðum.
Espólín: CLVIII. Kap. [vetur]
Veturinn var svo góður, að aldrei kom eitt öðru hærra til góuloka, og varla dóu grös, var hákarlsafli hinn mesti á útsveitum nyrðra, og róið var þá frá Reynistað, og allstaðar var hið mesta bjargræði af sjó, hvar sem til spurðist, var enginn svo gamall að myndi svo góða tíð jafnlanga; sumir höfðu fengið á 17da hundrað fiska syðra fyrir vertíð, og hlaðafli var vestra, en geðveiki gekk víða yfir, helst á konum. (s 166).
Skýrsluár Jóns Þorsteinssonar landlæknis endar ætíð í lok febrúar - skýrslan komst þá með fyrstu skipum til Hafnar. Hann sendir þá stundum athugasemdir með. Þann 28.febrúar 1829 segir hann [lausleg þýðing neðar]:
Denne Aargang er i den Henseende den Mærkeligste, at denne Vinter hidintil er en af de mildeste noget Menneske kand erindre heri Landet; den sidste Sommer var ligeledes, i alle henseender udmærket god. Overhoved have vi i de sidste 12 Maaneder havt et Clima, som ofte ikke er mildere i det nordlige Tyskland. I denne Tid ere de fleste Fjelde af mindre end middelmaadig Höjde fra 2 til 3 Tusinde Fod höje næsten uden Snee, i det mindste her paa den sydlige kant af Landet.
Den 21de Febr om Aftenen kl: 9 ¾ mærkedes tvende Jordskjælv, som gik fra Ost til Vest, Stödene var ikke stærke, men dog fuldkommen fölelige, og det varede vis ikke over 1 Minut i mellem dem. Den samme Nat kl: 5 skal og have været et noget stærkere Jordstöd, men som undertegnede ikke mærkede da jeg sov. Ingen af disse Stöd var saa stærke at de kunde giöre nogen Skade.
Í lauslegri þýðingu: Þetta ár er að því leyti hið merkilegasta að veturinn hefur hingað til verið einn hinn mildasti sem nokkur maður hér á landi man, síðasta sumar var sömuleiðis á allan hátt sérlega gott. Yfirhöfuð hefur tíðin hér síðustu 12 mánuði verið ámóta og oft er í norðanverðu Þýskalandi. Nú (þ.e. í febrúarlok) eru flest meðalhá fjöll, 700 til 1000 metra há, nærri snjólaus, að minnsta kosti hér um suðurhluta landsins.
Um kl. 9:34 að kvöldi 21.febrúar fundust tveir jarðskjálftar, sem gengu frá austri til vesturs. Höggin voru ekki sterk, en fundust vel og ekki leið meir en 1 mínúta milli þeirra. Sömu nótt, um kl.5 mun hafa orðið nokkru sterkari skjálfti, en undirritaður var sofandi og fann hann ekki. Enginn þessara skjálfta var svo sterkur að skaði hlytist af.
Magnús Stephensen ritar úr Viðeyjarklaustri 4.mars. Frændi hans og alnafni (sonur Stefáns Stephensen) var eystra í jarðskjálftunum og stökk ber út um glugga að sögn Magnúsar eldri, hann var þá sýslumaður Skaftfellinga:
(s80) Við höfum í vetur haft einungis sumar, aldrei að kalla frost, varla 3°, eða nokkurntíma hesthjarn, aldrei snjó í skóvörp, en þíður, logn, sólskin og allstaðar góðan afla ... (s81) En þessi sífellda blíða í sumar, í fyrra og nú, næstum dæmalaus, óttumst vér boði megn eldsumbrot í vændum, því vissar, eftir álíkum tíðum á undan oft fyrri, sem nú þann 21. febr. um nóttina kl. 10-11 gengu megnustu jarðskjálftar eystra, helst undan Heklu nágrenni, á Rangárvöllum, hvar við margir bæir hrundu niður og löskuðust. Sýslumaður Magnús Stephensen var þá (sem nú constitúeraður [settur] til dóma í Rangárvallasýslu) á embættisferð gestur í Odda, hjá mági sínum prófasti Sr. Helga Thordarsen, hrökk upp úr fasta svefni, þá bærinn eða stofan ætlaði ofan að hrynja, og stökk ber, sem hann lá í rúminu, út um glugga á henni. Allstaðar hér syðra fundust þeir jarðskjálftar og, en vægt, og ei síðan né enn önnur elds umbrota merki.
Bjarni Thorarensen ritar í Gufunesi 9.mars. Hann óttast að blíðan boði Heklugos í kjölfar jarðskjálftanna:
Fiskeriet er fortræffeligt, Vinteren Neapolitansk men et frygteligt Jordskielv Natten imellem den 21de og 22de Febr. især i Nærheden af Hekla hvor to Böndergaarde ere ganske nedstyrtede, men utallige beskadigede og en Mængde enkelte Hytter nedfaldne. Man frygter for Hekla og Veiret har ved tyk Luft og uagtet stærke Aspecter til Blæst, været unaturlig stille, thi i disse Dage har det dog været en Smule koldt.
Í lauslegri þýðingu: Afli er með ágætum. Veturinn napólíanskur [þess tíma orð yfir það sem við nú köllum mæjorkaveður eða bongó], en hræðilegur jarðskjálfti nóttina milli 21. og 22.febrúar, sérstaklega í nágrenni Heklu, þar sem tveir bæir hrundu alveg og ótal fjöldi skemmdist og fjöldi stakra kofa féll. Menn óttast Heklu og veðrið hefur, þrátt fyrir þykkvíðri og hvassviðraútlit, haldist ónáttúrulega kyrrt, því þessa dagana hefur það þó verið nokkuð kalt.
Ingibjörg Jónsdóttir ritar frá Bessastöðum 12.mars 1829. Hún óttast að hann hefni fyrir blíðuna.
(s120) Héðan er að frétta árgæsku þá mestu, sem ég man, bæði til lands og sjávar, sumir eru ekki án ótta, að þetta muni betalast síðar. Þeir bæir, sem næstir voru Heklu, hafa hrunið af jarðskjálfta og fleiri hafa laskast. Lítið varð hér vart við þessa hræring. Þó þóttust nokkrir finna hana um kvöldið 21. febrúar.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Fimmtudag 30. apríl gjörði mestu norðanhríð 3 daga í sífellu, svo enginn mundi þá slíka á þeim tíma og fannkyngju. Þó lifði fé úti, er ei náðist heim á nokkrum heiðarjörðum, en fjártjón varð í Víðidalstungu, Fitjunum og Húki og víðar fennti það og fraus niður við Kvíslarnar. Sumstaðar króknaði nokkuð. Eftir það sólbráð og góðviðri. 10.-12. maí var leysing mikil, 13.-19. norðanharka og snjóhret. Eftir það var unnið á túnum. Var þá rosasamt með vestanátt og kalsarigningum. Hélst lengi vatnsgangur og hættur til hálsa og heiða.
Espólín [vor]
Með imbruviku skipti um, og var hríðasamt til páska [imbrudagar hófust 11.mars 1829], var þá ís kominn, en páskadagur var þá seinasti sunnudagur í vetri [19.apríl]. Síðan fyllti allt með ísi, og gjörði hríð svo mikla hinn seinasta dag apríl og 1. maí, að menn mundi ei slíka á þeim tíma, urðu stórfannir og hinir mestu fjárskaðar víða, týndist 70 frá í Valdarási í Húnavatnsþingi og 100 samtalið frá fleiri bæjum í Víðidalstungu, svo að dó, eða var dauðvona; spilltust þá öll andvirki, og varð óhagnaður mikill af bleytum, og fannaleysingum, en kalt syðra. Margir urðu þá heylausir, þó ólíklegt þætti, því jörð og hey höfðu verið harla létt, en hvalkoma var nokkur sumstaðar, og nádust marsvín í ísnum;
Lýsing Ólafs Eyjólfssonar á Uppsölum í Öngulstaðahreppi á hretinu í apríllok:
27. apríl: Fyrst sunnan kul, mikið frost og heiðríkt, þá loftgrár, kyrrt, stundum fjúk, norðan áleið.
28. apríl: Ýmist sunnan eða norðan. Kuldi og frost, oftar sólskin, stundum hríðarél.
29. apríl: Sunnan þykkur. Morguninn frost, þá fjúk, svo regn, ... stundum regnlaust.
30. apríl: Norðvestan, mikið frost og kuldi, hríðarkólga, dimmur áliðið, stundum sólskin fyrst.
1. maí: Sama veður fyrst, þá kyrrt og drífa, svo norðanhríð mikil og snjókoma.
2. maí: Sama norðan hríð og frost nokkuð bjartari.
Í dagbók Ólafs kemur fram að oft var kalsamt þar um slóðir fram eftir júlímánuði og þegar leið á ágúst voru næturfrost alltíð.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní allgott, en þó 13.-20. kuldakafli, 17. mikið hret og varð bjarglaust af fönn, þaðan gott veður, seint fært frá, í júnílok og með júlí byrjuðu suðurferðir. Um lestatíma þokur miklar, fór grasvexti seint fram. Sláttur byrjaði 23. júlí. Gekk seint á tún, því breiskjur voru miklar. Hélst þurrviðri lengst um allan sláttinn um allt land. Varð heyfengur góður og mikill, helst á votengi, (s99) er nú varð allt þurrt.
Espólín [sumar og haust]
þó varð enn árgott, nema helst fyrir norðan, þar batnaði og með miðju sumri og urðu nýtingar góðar. (s 166). CLIX. Kap. Batnaði þá fyrst undir mitt sumar, og varð kálvöxtur nær enginn, en grasvöxtur lítill á túnum, sæmilegur á engjum, og nýtingar góðar. (s 167). Haustið var hið besta, og fiskafli hvarvetna, og inni í sundum syðra. Hval rak í Þorlákshöfn, sá er sagt at væri 90 álnir milli sporðs og höfuðs. (s 168).
Bessastöðum 2-8 1829 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s118) Hér hefur vorið verið þurrt og mikið kalt á nóttunni, en fyrripart júlímánaðar var hér ofboðslega heitt, svo ég, sem þó hvorki er í blóð eða mergur, ætlaði að bráðna í sundur. Grasbrestur er hér víða, þó helst á útengi.
Gufunesi 12-8 1829 (Bjarni Thorarensen): Þar [fyrir norðan] hefir grasvöxtur verið rýr sökum hafíss, en hér fyrir sunnan í betra lagi og nýting á heyi það sem af er hin besta líka var bágur grasvöxtur á Vesturlandi. Vetur einhver hinn allrabesti, vorið um stund nokkuð kalt. Fiskiafli sérlega góður, svo þú sérð að árið má kallast gylliniár. (s184)
Gufunesi 11-9 1829 (Bjarni Thorarensen): Norðanveðrið kom hér syðra líka og var ógurlegt á Kjalarnesi, þó hafa menn ekki frétt um mikla heyskaða þar, enda vara Kjalnesingar sig öðrum betur á slíkum veðrum. (s201)
13. september 1829 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls. 183)
Næstliðið haust og vetur var hér góðviðrasamt, og í annarri viku góu fór að sjást gróður í kringum bæi, en með mið-góu, eða þó helst með 15. mars, tók að kólna, og síðan hefir hér norðanlands vorið og sumarið verið mikið kalt, nema um sjálfa hundadagana voru miklir hitar og þurrkar á daginn, en næturfrost tíð, grasvöxtur því yfir höfuð í minna lagi, en nýting heyja góð allt til skamms tíma. Fiskirí gott víðast, heilbrigði manna góð, og allir nafnkenndir lifa, það ég til veit.
Saurbæ Eyjafirði 26-9 1829 [Einar Thorlacius] (s35) Vorið var kalt með hafísum, sem aldrei hafa algjörlega landinu horfið, sumarið gróðurlítið, en þó frá miðju sumri hagstætt og þurrkasamt.
Laufási 26-9 1829 [Gunnar Gunnarsson] (s37) ... þar seinni partur næstliðins vetrar var mikið frosta- og snjóasamur, í hverju hafís var mikil skuld, þar hann var að flækjast hér langt fram á sumar. Sláttarbyrjun varð því almennt mikið sein og þarhjá stór grasbrestur á túnum ...
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haust allgott, í október norðanátt og frostasamt, með litlum snjó til þess 13., síðan út mánuðinn þítt og frostalítið, snjólaust. 4.-6. nóv. kom mikill snjór, er lá á til 15., þaðan góð tíð og autt orðið 25., að lognfönn gerði, en hún fór fljótt við hláku mikla og rigningu. Eftir það óstöðugt, blotar og éljagangur, snjólítið utan 5 daga fyrir jólin, á þeim þíða og góðviðri og auð jörð. Hélst nú ársæld og peningsfjölgun með góðum notum og kýr í bestu nyt, heyjagnægtir og mikið sett á af ungfénaði. (s100).
Bessastöðum 18-11 1829 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s122) Veðrátta er hér góð, en oftast sunnanvindur og rigning, fiskirí þegar að veður leyfir.
Gufunesi 21-11 1829 (Bjarni Thorarensen): Póstskipið tilheyrir Jacob Holm og Clausen á að koma suður í þeirri Anledning [vegna þess að], það missti báða báta sína í ofveðri hér á Faxafirði á sunnudaginn var.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1829:
Vetur góðan þjóðin þáði
þann til hlítar veitti arð
hauðurs gróða hjörðin náði
haga lítið sjaldan varð.
Lifðu jórar lands á reitum,
líða réðu hors ei blak
þó kom snjór í sumum sveitum
sem þar féð að húsum rak.
Vorið sparði varmann jörðu,
veiktist ylur gróandans
hafís varði vog og fjörðu
vestan til og norðanlands.
Kast óhent um krossmessuna
kunni hlaða niður snjá
hrakti og fennti fé til muna
fengu skaða margir þá.
Gott var sumar, garpar fengu
góða nýting heyjum á
Örir gumar oft því gengu
útí flýtir til að slá.
Heyföng þjóða heita máttu
hér þau bestu forn og ný
fyrning góða af því áttu
ítar flestu görðum í.
Haust með órum veður vakti,
vindamengið hart um sló.
fönnum stórum frónið þakti,
feikna regn var stundum þó.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1829. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.