11.3.2021 | 15:52
Af árinu 1845
Árið 1845 þótti hagstætt lengst af. Meðalhiti í Reykjavík var 4,4 stig, 0,5 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Reiknaður meðalhiti í Stykkishólmi var 3,6 stig. Mælingar hófust þar svo í nóvember. Vorið var óvenjuhlýtt suðvestanlands, maí í hópi þeirra hlýjustu og einnig var hlýtt í mars, apríl og júlí. Fremur kalt var aftur á móti í janúar, nóvember og desember. Enn hefur ekki verið unnið úr hitamælingum að norðan og austan.
Níu dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, að tiltölu var kaldast þann 28.janúar. Tíu dagar voru óvenjuhlýir, þar af 6 í maí og fjórir í júlí. Hiti náði 20 stigum níu sinnum, mest 23,8 þann 12.júlí. Listi yfir hlýja og kalda daga er í viðhenginu.
Ársúrkoman var nærri meðallagi í Reykjavík, fremur þurrt var í ágúst og október, en úrkoma vel ofan meðallags í maí.
Þrýstingur var nokkuð hár í júlí og ágúst, en lágur í júní og nóvember. Þrýstiórói var með mesta móti í maí. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 10.janúar, 952,5 hPa, en hæstur mældist þrýstingurinn 1038.7 hPa, þann 7.apríl.
Mjög stórt Heklugos hófst 2.september. Megingjóskugeirinn lá til austurs, yfir sunnanvert hálendið og sveitir Skaftafellssýslu. Öskufall varð einnig á Suðurlandi síðar. Gosið stóð í tæpt ár, en var lítið úr því er kom fram á vorið 1846.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur - og þá í mjög stuttu máli. Við getum því vel áttað okkur á veðri frá degi til dags þetta ár, en menn virðast ekki hafa haft mjög mikið um það að segja. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Gestur Vestfirðingur segir frá tíð um landið vestanvert á árinu 1845 í 1.árg 1847:
Ár 1845 er talið með mestu árgæskuárum landsins. Átta mánuðir þess voru blíðir og góðviðrasamir. Frostrigningar tóku fyrir haga í 6 vikur um og eftir miðjan vetur. Fjórir síðustu mánuðirnir voru vætumiklir og veðurharðir með köflum en aldrei frost að kalla til ársloka. Svo var vorgott vestra, að fuglar fundust orpnir eggjun á sumarmálum. Þegar í apríl tók að gróa vestanlands, og öndvert í maí var bæði sprungin út sóley, fífill og fífa. Grasár hefði orðið í besta lagi, ef sífelldir þurrkar hefðu ei valdið því, að gras brann sumstaðar af túnum og harðvelli, því varð ei nema gott meðal-grasár, en nýting hin besta þangað til í september, þá rýrnuðu óhirt hey af vætum. Sjávarafli góður undir Jökli. Steinbítsafli allgóður vestra.
Í janúar týndust 6 menn í fiskiróðri af skipi undir Jökli, en þremur varð bjargað; um sumarið drukknuðu við Ísafjarðardjúp menn allir af einni fiskiskútu; sökk skútan, en náðist upp aftur; þá fórst og skip á Hrútafirði með 6 mönnum; maður datt út úr bát og drukknaði á leið frá Stykkishólmi til Bjarneyja; fiskiskúta, nýfarin út af Ísafirði, fórst á heimleið til Hafnar í október við Straumnes hjá Patreksfirði, og týndust þar menn allir.
[Neðanmálsgrein: Sama daginn og Hekla tók að gjósa, heyrðust á Vesturlandi dynkir miklir. Voru þeir áþekkir skothríðardunum en þrumuskellum, þótti og sumum þeir líkir því, þá mjög tekur undir í klettum af járnrekstri. Þess urðu menn og varir, að jörðin var ókyrr undir fótum þeirra. Þó fannst glöggvar skjálfti heima, ef menn lögðu sig niður.
Brot úr dagbók Jóns Jónssonar í Dunhaga í Hörgárdal (mjög erfitt er að lesa bókina)
Janúar 1845 - mikið harður(?), ákafur snjór og jarðlaust, febrúar meðalgóður að veðráttu, mars - í heild góður og stilltur, apríl góður og stilltur, gróður orðinn í besta lagi í lok mánaðar. Maí ágætur, júní (mjög í kaldara lagi), júlí í meðallagi(ei óstilltur né óhægur) - grasvöxtur yfrið misjafn, ágúst ... loftkaldur og náttfrost síðari part. September heldur í stirðara lagi veðrátta óstöðug, október má kallast í betra lagi að veðráttu, nóvember fyrri partur góður en síðari hluti stirður með snjókomum.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Sama góðviðri á auðri jörð hélst til þorra. Á honum var snjór og frost og 8. febr. var sumstaðar jarðlaust vikutíma; alla góu stillt og gott veður, oftar sólhlýindi, en aldrei snjór né óveður. Komu þá þrotnu bæjarlækirnir niður. Á einmánuði stöðug vorgæði, svo tún grænkaði í miðjum apríl.
Eremittassen (Möðruvöllum) 5-2 1845 [Grímur Jónsson] (s153) Langt fram yfir nýár og nærri því að þorrakomu var hér hinn mesti gyllinivetur er ég man, sífelld þíð- og linviðri, með kyrrð, staðviðri (oftast) og hægum frostum milli, svo varla sást héla á glugga. Á jólum lukum við upp öllum gluggum með 5 gráða varma. Merkilegt hefur það þótt, og sjaldgæft, að veðurstaðan að minnsta kosti allt fram að þessu (máski fyrir viku síðan) hefur verið svo þrá norðaustan, austan og suðaustan (landsunnan), og mér hefði ekki komið óvart, þó vetrarfar í Danmörku hefði í haust verið úfnara en vant er, ... - Síðan [um miðjan janúar] hefur veturinn lagst hér að með æði svæsnum hríðum og frostum og vita jarðlaust mun nú hér um pláss.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Var nógur sauðgróður á sumarmálum og mátti þá vera búið að vinna á túnum. Oft var í apríl hiti á daginn og frostlaust á nætur. Í maí þurrksasamt til 15., að vel rigndi jörð til vökvunar, eftir það góðviðri.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní 8. daga frost og kuldi, síðan gott og þurrkasamt. Eftir sólstöður stundum kalsaúrfelli, 5.-13. júlí breiskjur miklar. Byrjaðist þá sláttur, helst í úthaga. Þurrkar héldust lengi, svo brann af hörðum (s151) túnum, keldur og flóar þornuðu upp, svo vatnslaust var utan í uppsprettum. Leið fénaður víða nauð af því. Jökulár voru bláar í júní, en um sláttinn stöðugt afarmiklar. 31. ágúst mikið vestan-skaðaveður. Sláttur gekk seint. Þó varð heyafli góður. Gras dofnaði með september. Þann 2. sept. varð Heklugosið.
(s152) Þann 2. sept. heyrðu menn með undrun skelli mikla og drunur, er heyrðust í næstu klettum, fjöllum eða giljum í suðri, austar eða vestar eftir stefnu til klettanna. Var hljóðið því ógnarlegra sem klettar voru nær eða meiri. Höfðu menn ei fyrr heyrt eldsumbrot og aðeins lítið af skruggum og hugðu því, að yfirtaksskruggur mundu vera, en þeir reyndari fundu það ei geta verið. Þetta gekk frá hádegi til kvölds, en ei heyrðist það oftar. (s153)
Frost var við sólarupprás á Hvammi í Dölum dagana 10. til 13.júlí, mest -2°C þann 11. og 12. Þann 24.ágúst sást frá Hvammi eldhnöttur fara skáhalt frá austri til vesturs kl. 11 e.m. að stærð miklu minna en fullt tungl Þann 3.september segir Þorleifur í Hvammi: Ákaflegur bulningur í fjöllum og hálsum sem fallbyssuskot væri, öðru hvoru frá kl. 10 f.m. til kl. 1-2 e.m.. Aftur heyrði hann dunur þann 22.september. Þann 1.nóvember og 10.desember fann hann brennisteinsþef.
Hiti mældist 26°C á Valþjófsstað þann 21.júlí og þann 1.september segir athugunarmaður af jökladynkjum. Spurning hvort dagsetningin hefur skolast til - því Heklugosið hófst þann 2. og víða heyrðist í því. - En einnig er hugsanlegt að dynkir hafi komið úr einhverjum skriðjökla Vatnajökuls.
Laufási 9. september 1845 [Gunnar Gunnarsson] (s165) Mjög svo hefur misfallið með grasvöxt hér í sumar, því bæði hafa hólatún og þurrlendar engjar brunnið víða til stórs skaða bæði af sólarhita og þyrkingum ...
Bessastöðum 10. nóvember 1845 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s222) Hekla byrjaði að gjósa annan september. Kom fyrsta gosið austur í Skaftafellssýslu og skemmdi þar mikið. Gekk þá veður upp í norður. Skemmdi þá aska og sandur flestar sveitir í Rangárvallasýslu. Um alla Árnessýslu er aska komin. Lítið eitt hefur hér orðið vart við sandfall, en ekki til skaða. ... Sumar var hér það besta, hvað (s223) nýting snerti, en hér er þó heldur sjaldgæft, en sumarið kvaddi okkur með þeim ofsastormi, að stórskemmdir urðu bæði hér og annars staðar. [Sennilega er hér átt við veðrið 22. eða 23.október.]
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
17.-20. sept. kom hret með miklu frosti og aftur sunnudaginn 28. Gjörði ógnarfönn á þeim tíma, er frestaði seinni göngum. Kaupafólk úr Stafnsrétt hreppti nauð mikla. Eftir þann snjó haustblíða mikil um 3 vikur. Fimmtudag síðasta í sumri [23.október] sunnanhríð og svo bloti með ofsaveðri, svo víða reif hús og hey. ... Eftir það snjór, 1.-3. nóv. hláka, síðan stillt frostveður til 14., þá sunnan-stórrigning og vikuhríð á eftir með allra mestu fannkyngju, einkum á útsveitum og 25. varð þar jarðlaust. Aftur 29. fannkomuhríð um 4 daga. Sást þá ei í lágsveitum á mel eða stein. Hafði enginn séð áður slíka fönn á þeim tíma, en minni var hún til framdalanna. 18. des. hleypti bloti snjó í gadd og voru þá hross öll á gjöf komin. Leit þá út fyrir harðan vetur ofan á Heklugosið.
Frost [-2°] var í athugunum á Ofanleiti í Vestmannaeyjum dagana 18. til 20. september og þann 22. október segir séra Jón Austmann: Nóttina til þessa dags var hið mesta óveður í meir 18 ár hér á pláss.
Páll Melsteð skrifar Jóni Sigurðssyni um upphaf Heklugossins:
Hjálmholti 8.september 1845. ... Margt hefi ég séð stórkostlegt, en ekkert Heklu líkt, þegar hún er í almætti sínum. ... við Sigurður bróðir minn brugðum okkur austur á Rangárvelli til að komast sem næst henni og skoða hana augliti til auglitis. Um dagmálabil 2.september heyrðu menn þyt mikinn, og héldu margir að það væri reiðarþruma, en urðu þess skjótt varir að það voru eldsumbrot; hver dynkurinn fylgdi á eftir öðrum og tvisvar fundu menn, sem næstir búa Heklu, að jörðin skalf, en ekkert féll, hvorki hús né annað, menn sáu ekki til fjallsins, því þokumökkur var yfir því. Vindur var hægur á útsunnan. Rétt í þessu kom ógna þytur og það var fyrsta og mesta gosið, sem menn ætla að úr henni hafi komið. Það héldu menn hafa staðið allt að hálfri stundu; sortanum sló langt á loft upp móti golunni, og það sögðu menn mér að orðið hefði hálfrokkið á bæjum hér í uppsveitum. En ekki féll aska eða viku niður í byggðina, heldur feykti golan því austur á loftið aftur, og hefur það vafalaust lent allt austur í óbyggðir; þykir mér ekki ólíklegt að nokkuð hafi lent af því í Skaftafellssýslu og máski í Múlasýslum. Nú voru dunur og brestir allan þriðjudaginn [2.september] og þegar dimma tók, sáu menn logana (en á degi sjást þeir aldrei, nema ef vera kann rétt við fjallið). Upp úr fjallinu stóð loginn langt í loft upp, en svo var það allt í ljósum loga að sjá norðan og vestan, niður að rótum, og svona var það þegar ég komst næst því, en það var á fimmtudagskvöldið [4.september]; ég get til að ég hafi átt 2 mílur vegar [um 15 km] upp að logunum. ... Strax fyrsta kvöldið fylltist Ytri-Rangá af vikri og vatnið í henni óx meir en um helfing; varð vikurinn svo þykkur ofan á henni, að bátur ætlaði ekki að ganga í hann, en áin varð logandi niðri en volg ofan á; dó silungur sem í henni var og fannst dauður í lónum þegar vatnið fjaraði, og soðinn, því roðið var laust á honum. Á fimmtudaginn var áin orðin köld. Sagt er að vikur hafi komið í Eystri-Rangá og Markarfljót. Þjórsá var og full af vikrinum, en allur var hann smærri en sá í Ytri-Rangá. ... Mann hafa nú aldrei séð til fjallsins fyrir þokum og svækjum, og sést það, að það er ekki satt sem sagt er að aldrei rigni þegar eldfjöll gjósa. Tveir menn fóru á föstudaginn [5.september] inn á afrétt til að grennslast fyrir um hvað gosið hefði gjört að verkum, og sögðu þeir þær fréttir, að þegar þeir komu inn yfir Fossá, þá kom á þá öskubylur úr fjallinu, víðlíka eins og sterkt útsynningsél á vetrardegi, féð varð svart og jörðin dökk, rann féð um afréttina jarmandi og tók ekki niður.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1845. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:16 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.1.): 64
- Sl. sólarhring: 519
- Sl. viku: 3187
- Frá upphafi: 2429715
Annað
- Innlit í dag: 58
- Innlit sl. viku: 2651
- Gestir í dag: 56
- IP-tölur í dag: 55
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.