Kaldur janúar (eða?)

Nú líður að lokum janúar - við bíðum eftir uppgjöri Veðurstofunnar en getum þó sagt að hann stefni í að verða sá kaldasti á öldinni á landsvísu og sá kaldasti frá 1995 að telja. Líklega verður hann þriðjikaldasti mánuður aldarinnar á eftir febrúar 2002 og desember 2011 - en þeir voru báðir talsvert kaldari. Í Reykjavík verður hann líklega sá næstkaldasti eða þriðjikaldasti, á eftir janúar 2007 (alla vega) og kannski 2005 líka (en ómarktækt munar). Sömuleiðis hefur verið þurrt, líklega er þetta næstþurrasti janúar í Reykjavík á öldinni - þurrara var 2003 - en sú niðurstaða er ekki endanleg. Það hefur verið óvenjusnjólétt í borginni - en uppgjör liggur ekki fyrir þegar þetta er ritað (síðasta dag mánaðarins). 

Við sitjum hins vegar uppi með ákveðinn viðmiðunarvafa - janúarmánuðir þessarar aldar hafa nefnilega verið óvenjuhlýir. Þeir sem ekki viðurkenna að hlýnað hafi í veðri hljóta að sitja uppi með að mánuðurinn hafi alls ekki verið kaldur - en þeir sem hallast að því að hlýnun sé raunveruleg eru kannski að sjá einn af venjulegum köldum janúarmánuðum næstu áratuga. En lítum á mynd. Það þarf aðeins að hugsa til að ná því sem hún er að miðla. Hér er byggðahitinn tekinn fyrir (hægt væri að afgreiða Reykjavík á sama hátt). 

w-blogg310121a

Það er algengt í veðurfarsfræðum (og langtímaspám) að telja þriðjunga (eða fimmtunga) til að ákveða hvort kalt sé eða hlýtt. Við búum til lista yfir meðalhita (daga, mánaða eða ára) yfir ákveðið tímabil, röðum frá því kaldasta til þess hlýjasta, skiptum síðan listanum í þrennt (þriðjunga) og segjum að þeir (mánuðir) sem í kaldasta (lægsta) þriðjungi séu kaldir, þeir sem lenda í þeim hlýjasta (efsta) séu hlýir - afgangurinn er í meðallagi hlýr. 

Hér miðum við við hálfa öld hverju sinni. Byrjum á árunum 1871 til 1920, hnikum okkur síðan áfram, áratug í senn og endum á 1971 til 2020. Á myndinni má sjá þriðjungamörk fyrir hálfraraldartímabilin. Á fyrsta tímabilinu, sem var kalt, þurfti meðalhiti janúar að vera fyrir neðan -2,7 stig á landsvísu til að mánuðurinn gæti talist kaldur, en ofan við -1,2 stig til þess að hann teldist hlýr. 

Á myndinni má sjá að mörk kaldra og hlýrra mánaða hækka mjög fram til 1911 til 1960, veður hlýnaði mjög á þeim tíma. Eftir það breytast hlýju mörkin ekki mikið - á því tímabili eru allir mánuðir þegar meðalhiti er ofan frostmarks hlýir. Mörk kalda flokksins breytast hins vegar töluvert. Á tímabilunum frá 1931 til 1980 og fram til 1950 til 2001 þarf hiti í janúar að fara niður í -2,7 stig til að sá mánuður fái að teljast kaldur. Þá breytir um. Síðustu 50 árin, 1971 til 2020 þarf meðalhiti í janúar ekki að fara nema niður í -1,3 stig til að teljast kaldur. 

Nýliðinn janúar er því kaldur [meðalhiti um -1,6 stig] - sé miðað við síðustu 50 ár, en í meðallagi sé miðað við öll önnur 50-ára tímabil myndarinnar (gráa beina línan). - En mánuðurinn hefði þó aldrei talist hlýr - heldur í meðallagi lengst af. 

Ef vel er að gáð má sjá fáeina viðmiðunarpunkta til viðbótar á myndinni - þeir sýna að sé miðað við síðustu 40 ár þarf mánuður aðeins að ná -1,0 stigi til að teljast kaldur, sé miðað við síðustu 30 ár er viðmiðið -0.8 stig, en sé miðað við þessa öld er það aðeins -0,6 stig. Hlýju mörkin eru líka á hraðri uppleið (ekki sýnd), sé miðað við 50 ár eru þau við 0,0, 40-ára viðmiðið er líka 0,0, síðustu 30 ár er það hins vegar +0,4 stig - og +0,6 síðustu 20 ár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver er niðurstaðan hjá þér Trausti, kaldur eða ekki kaldur? Ég sé ekki betur en að þú segir fyrst að mánuðurinn hafi alls ekki verið kaldur en samt kemstu að þeirri niðurstöðu að hann hafi þrátt fyrir allt verið kaldur - eða kannski í mesta lagi í meðallagi en aldrei hlýr, þrátt fyrir samanburðinn við hitafar á "litlu ísöldinni" á 19. öld.
Og er hann ekki í reynd mjög kaldur ef hnattræna hlýnunin á síðustu 100 árum er tekin með í reikninginn - miðað við hana? 

Svo held ég að það sé smá skekkja í þessu hjá þér hvað Reykjavík varðar. Það stendur að næstkaldasti janúar hafi verið árið 2005 en á eflaust að vera 2015, því það ár var janúar kaldari en 2005 (þó litlu muni).

Torfi Ttefánsson (IP-tala skráð) 1.2.2021 kl. 07:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband