20.1.2021 | 23:01
Af stöðunni
Við lítum á nokkur veðurkort og mösum dálítið um þau og veðurstöðuna. Fyrsta kortið er hefðbundið sjávarmálskort frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir á hádegi á morgun, fimmtudag 21.janúar.
Myndarleg hæð er yfir Grænlandi og djúp og nokkuð kröpp lægði á Norðursjó. Á milli kerfanna tveggja er eindregin norðaustanátt. Veðurviðvaranir eru víða í gildi um Evrópu, sérstaklega við strendur. Hæðin yfir Grænlandi gefur lítið eftir á næstunni en lægðakerfið veikist og styrkist á víxl. Hvað okkur varðar er því búist við svipaðri stöðu næstu daga, alla vega hvað aðalatriði varðar. Þó veðrið sé harla vetrarlegt er það samt ekki mjög illkynja - að öðru leyti en því að drjúg - og viðvarandi - úrkoma norðanlands veldur snjósöfnun þar um slóðir og þar með snjóflóðahættu.
Sé litið til háloftanna sést betur hvað veldur þessari frekar læstu stöðu. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð, meðalþykkt og þykktarvik næstu tíu daga - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt er sýnd með daufum strikalínum, en þykktarvik eru í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Jákvæð þykktarvik sýna hvar hlýrra er heldur en venjulega (gult og rautt) - en á bláu svæðunum, sem sýna neikvæð vik, er kaldara heldur en venjulega á þessum tíma árs. Mjög mikið af hlýju lofti hefur lokast inni vestan Grænlands, kemst hvorki lönd né strönd nema einhver önnur kerfi stuggi við því - og það þarf talsvert til. Austan við þetta hlýja loft er ákveðin norðanátt - hún kemur alveg norðan úr Íshafi og ber með sér kulda þaðan. En satt best að segja kemur samt á óvart að kuldinn skuli þó ekki vera meiri en raun ber vitni miðað við upprunann. Stafar það væntanlega af því að ís er minni austan Grænlands en venjulegt er - það þýðir aftur að aðgengi að raka er gott - og hluti hans skilar sér þegar norðanáttin rekst á fjöll Norðurlands - og það snjóar drjúgt þó engin hefðbundin lægðaskilakerfi séu nærri (svona í bili að minnsta kosti).
Hlýju vikin vestan Grænlands eru óvenjuleg, enda hafa hlýindi á Baffinslandi verið í fréttum að undanförnu - þar var líka mjög hlýtt í desember. Þetta eru heimaslóðir annars af tveimur stóru kuldapollum norðurhvels, þess sem við hér á hungurdiskum höfum oft (óformlega) kallað Stóra-Bola, hann hefur varla borið sitt barr í vetur - afskaplega ólíkt því sem var á sama tíma í fyrra. Á þessu korti sem nær til meðaltals næstu tíu daga sprengja hlýindin litakvarðann - hvít skella er þar sem þau eru mest. Þar er hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 14 stigum ofan meðallags.
Svona mikil hlýindi haldast illa við á norðurslóðum - meðalkólnun veðrahvolfs vegna útgeislunar er um 1 stig á sólarhring. Þannig að það tæki á bilinu 10 til 20 daga að útrýma hitavikunum - ef ekki kæmi annað til. Ef við ímyndum okkur framhaldið einhvern veginn þannig - (friður sé fyrir kryppum heimskautarastarinnar) linnir norðanáttinni í háloftunum smám saman og að lokum tæki hin hefðbundna vestsuðvestanháloftaátt við hér á landi.
Það er dálítið spennandi fyrir veðurnörd að fylgjast með þróuninni - það tekur að vísu nokkuð á því hlutirnir gerast mun hægar heldur en algengast er hér um slóðir. Upp úr stöðu sem þessari geta skapast allskonar leiðindi. En menn leggja víst mismunandi merkingu í leiðindi í veðri. Á yngri árum ritstjórans fólust leiðindi stöðu sem þessarar aðallega í þeim möguleika að sleppa út úr henni án þess að nokkuð yrði að veðri sem heitið gæti. Nú er svo komið að hann vonar svo sannarlega að þannig fari nú þegar allt annað veðurlag er á bakvið leiðindi.
En lítum líka á stöðuna á mestöllu norðurhveli. Myndin sýnir 500 hPa-hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á föstudag, 22.janúar.
Við sjáum vel hæðarhrygginn hlýja vestan Grænlands, við sjáum líka að kuldinn sem streymir til okkar úr norðri er ættaður úr Íshafinu. Langt er í heimskautaröstina og fyrir utan hæðarhrygginn áðurnefnda eru hlykkir og sveigar ekki mjög miklir á henni. Við getum séð Stóra-Bola vestarlega í Kanada - en hann er vesæll að sjá - alla vega miðað við bróðurinn, Síberíu-Blesa, sem er mest áberandi kerfið á öllu kortinu. Breytingar eru hægar - jú, hæðarhryggurinn kólnar hægt og bítandi - og það er svosem hugsanlegt að Blesi skipti sér eitthvað og annað hvort styrki Bola - eða sendi meiri kulda í átt til okkar úr norðri - en slíkar breytingar taka óhjákvæmilega nokkra daga eða jafnvel meira en viku.
Á meðan heldur norðan- og norðaustanáttin bara áfram og mjatlar niður snjó norðanlands. Ameríkumenn myndu sennilega fella þessa snjókomu undir það sem á ensku heitir lake-effect - (vatnahrif væri hrá þýðing - en reynum einhvern tíma að finna betri - þær eru svo leiðinlegar þessar ensku nafnorðahráþýðingar).
En hversu algeng er staða sem þessi? Nokkuð algeng, standi hún aðeins í fáeina daga, en það er ekki mjög oft sem hún nær að standa mánuðinn út. Sé leitað að janúarmánuðum þar sem þessi staða hefur einkennt veðurlagið (það er þó aldrei eins) þarf að fara aftur til janúar 1979 til að finna náinn ættingja - enn skyldari eru þó janúar 1977, 1959 og 1955 - sé farið enn lengra aftur má nefna 1945, 1941 og 1936 - sá síðastnefndi skyldastur af þeim þremur.
Við getum gengið að þykktarvikakortum allra þessara mánaða - og síðasta myndin sýnir fjögur þau sem líkust eru vikakortinu að ofan. Höfum þó í huga að um heila mánuði er að ræða en ekki aðeins mánaðarþriðjung eins og fyrsta myndin sýndi. Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð.
Á öllum kortunum sjáum við mikil jákvæð þykktarvik vestan Grænlands. Óvissa varðandi útlit kortsins 1936 er meiri en í hinum tilvikunum - langflestar háloftaathuganir þess mánaðar eru algjör skáldskapur. Ritstjórinn man auðvitað vel eftir janúar 1977 - hinni þrálátu norðanátt og þeim óvenjugóðviðrasama febrúar sem fylgdi í kjölfarið. Sömuleiðis man hann að einhverju leyti eftir janúar 1959 og kuldanum þá - og auðvitað vel eftir skakviðrunum miklu í febrúar það ár. Ólíkt höfðust þessir tveir febrúarmánuðir að, 1977 og 1959 - þrátt fyrir sviplíkindi janúarmánaðanna.
Janúar 1955 er rétt utan minnis ritstjórans - en sögur heyrði hann um þann mánuð - frost og mikið vatnsleysi á heimaslóðum - og síðan urðu fræg sjóslys seint í mánuðinum í norðaustanáhlaupi á Vestfjörðum. Janúar 1936 er hins vegar einhver hinn þurrasti sem vitað er um á Suður- og Vesturlandi - en snjóþungt var nyrðra.
Á sínum tíma þótti ritstjóranum veðurlag vetrarins 1977 minna dálítið á veðurlagið 1966 og þá 1955 líka. Kannski var einhver 11-ára sveifla á ferðinni? En - því miður, það þurfti að teygja sig nokkuð langt til að finna svipuð líkindi 1988 og enn erfiðara 1999 - en svo gerðist það 2010 að ekki ósvipuð vetrarstaða kom upp - og kannski gerir hún það líka nú 11 árum síðar? En 1944, 1933 og 1922? Nei. Allir draumar um reglubundnar veðurlagssveiflur eru bara það - draumar. Ekki er skortur á slíkum hugmyndum - mannskepnan finnur mynstur þar sem hún leitar þess. Ritstjórinn hefur líka séð 10-ára sveiflur, og 2, 3, 4-ára sveiflur, 13 til 14-mánaða sveiflu og 40-daga sveiflu. Þær hafa hins vegar allar runnið úr greipum hans eins og hver annar draumur. En draumar geta líka verið indælir og hughreystandi - gleymum því ekki.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:26 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 30
- Sl. sólarhring: 129
- Sl. viku: 2477
- Frá upphafi: 2434587
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2201
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.