17.1.2021 | 20:51
Af árinu 1835
Mikið hallærisár. Harður vetur, erfitt vor með miklum hafís - rigningar miklar syðra á slætti. Meðalhiti í Reykjavík var 3,5 stig og er áætlaður 2,7 stig í Stykkishólmi. Sérlega kalt var í janúar og sömuleiðis kalt í febrúar, mars og apríl. Hlýtt var í ágúst, en hlýindunum fylgdu rigningar sunnanlands. Júlí var einnig fremur hlýr sem og nóvember og desember.
Sextán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, flestir í janúar, en 6.mars var kaldasti dagur ársins að tiltölu. Þann 23.júní fór lágmarkshiti niður í frostmark í Reykjavík. Frost fór þrisvar í -20 stig í Reykjavík, þann 18.janúar og 6. og 7.mars. Sveinn Pálsson mældi -18 stiga frost í Vík í Mýrdal þann 18.janúar.
Árið var þurrt í Reykjavík, úrkoma mældist 560 mm - en nærri fjórðungur hennar (137 mm) féll í ágústmánuði. Má segja að hún hafi komið á versta tíma. Þurrt var flesta aðra mánuði, apríl og desember þó ekki fjarri meðallagi.
Loftþrýstingur var óvenjulágur í september og einnig lágur febrúar, mars, maí, júní og ágúst, en fremur hár í janúar, apríl, nóvember og desember. Þrýstiórói var lítill í maí og óvenjulítill í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 20.mars, 963,6 hPa, en hæstur þann 26.apríl, 1042,8 hPa.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Árið þótti slysaminna en títt var. Sumum skrifurum finnst greinilega að umskipti hafi orðið eftir langvinna góða tíð.
Fjölnir [II 1836] fer með eftirmæli ársins 1835 eins og það var á Íslandi:
Ár þetta má hjá oss telja meðal hinna bágu áranna. Velmegun landsins, sem i mörg undanfarin velti-ár tók heldur að fara vaxandi, hefir nú á einu ári drjúgum horfið, og væri ráð að búast svo við í tíma, sem það væri upphaf meiri tíðinda, en ennþá eru framkomin. Hin löngu tímabilin fara að nokkru leyti eftir sama lögmáli sem hin styttri: hvert ár er áþekkt svo sem einum degi eður stund í þeirri ævinni og áratölunni, sem hnöttunum er sett, og eins og veðráttufarinu bregður oft til þess sem gagnstætt er, þegar nokkra daga eða vikur hefir gengið á blíðu eða stríðu, staðviðrum eða umhleypingum, svo eru og eftir náttúrunnar eðli líkindi til, ef nokkur ár í senn hafa verið staklega góð, að önnur ómild leysi þau úr garði. Um nýárið 1834 tók aftur að óhægjast veðráttan hér á landi; en þó varð þetta síðasta ár, 1835, stórum mun erfiðara um allt land. Frá því um veturnáttaskeíð til árslokanna 1834 hafði á sunnanverðu landinu verið hretviðrasamt, en snjóa-lítið og frosta, af því oftast gekk á hafviðrum. Þá var landátt fyrir norðan, og stundum stormasöm, en löngum hreinviðri, og svo var þar blítt skammdegið, að margoft frysti ekki á nóttunni, og var jörð að mestu auð; mátti kalla að sá hluti vetrarins væri þar hinu ákjósanlegasti. Eftir nýárið 1835 féllu á harðindin jafnt yfir allt land; fór svo fram í 10 vikur, að kalla mátti tekið væri fyrir alla jörð syðra, mest vegna áfreða, en nyrðra var ásamt snjófergju í meira lagi, svo varla mátti komast bæja á milli; og á fjórum prestssetrum norður í Reykjadal varð ekki messað 9 sunnudaga samfleytt. Vindur var oftar við norðurátt eður útsuður; hríðir gjörði sjaldan feykilegar, en frostið varð syðra 16 eður 20 mælistig, þar sem það var mælt, og fyrir norðan, t.a.m. á Grenjaðarstað, 24 mælistig, og meira, þegar hæst komst. Þótti því öllum mál á þegar batinn kom í miðjum marsmánuði, 5 eða 6 vikum fyrir sumar; enda naut hans líka við allstaðar, og var hann víðast hægur og hagfeldur. Útigangspeningur náði upp frá því jafnaðarlega til jarðar; þó var vorið hart og kuldasamt og olli því hafísinn. Þessi gestur er og hefir jafnan verið önnur aðal-orsökin, af þeim orsökum er utan að koma, til óáranna og hallæra hér á landi; hin eru eldgosin. Er það reynt, að þó Ísland liggi utarlega á jarðarhvelinu, getur það þó með skynsamlegri fyrirhyggju bjargast af sjálfs síns rammleik meðan þetta tvennt verður ekki að meini, spillir loftinu og fyrirfer framkvæmdum vorum bæði á sjó og landi; hefir þetta bakað landi voru þær hörmungar, að við mættum nú loksins, þegar annaðhvort þeirra gjörir vart við sig, vera orðnir svo hyggnir, að hafa, áður en það verður um seinan, forsjálega búist við, að taka því, sem vant er af því að leiða. Ísinn staðnæmdist í þetta sinn þegar um miðjan vetur fyrir öllu Norðurlandi, síðan fyrir Hornströndum, og á Austfjörðum, og losnaði ekki með vorstraumunum, sem þó oft er vandi hans þegar hann kemur svo snemma. Af því leiddi, eins og jafnan, að vetrarhörkurnar héldust svo lengi, og veðráttan var hin harðasta og óviðfelldnasta meðan hann lá fyrir landi, svo jörð og fénaður náðu sér ekki, þó komið væri fram á sumar; sjávaraflinn tálmaðist; aðflutningum seinkaði til landsins, og bjargræðis-stofninn fór með þessu móti allur aflaga. Eftir sumarmál flæktist ísinn austan með landinu sunnanverðu vestur undir Reykjanes, og lá frá vertíðarlokum til fardaga í sundinu milli Vestmanneyja og meginlands, sem sjaldan að ber; þannig var landið allt ísi horfið, nema tveir flóarnir, Faxaflói og Breiðafjarðar, þar hann vegna straumanna aldrei hefir náð að staðnæmast og ekki var hann algjörlega horfinn frá Norðurlandi fyrr en eftir miðsumar. [...]
En svo litlum framförum er búskapurinn ennþá búinn að taka hjá oss, að oftar sem best á að vera, skortir mikið á, að svo sé, eins og sýndi sig á Norðurlandi í þetta sinn; því þegar góubatann gjörði, voru þar á mörgum stöðum heilar sveitir komnar í standandi þrot, og mundu hafa kolfellt, ef batinn hefði lengur undandregist, en urðu ekki fyrir stórmissi af því svo heppilega réðist; þó munu heyfyrningar víða hafa orðið þar nauða-litlar um það úti var. Verri urðu afdrifin annarstaðar, einkanlega sunnanlands. Fá héruð fóru þar varhluta af fellinum, og létti honum ekki, vegna kuldans og umhleypinganna, fyrr enn komið var langt fram á sumar; misstist mikið af hrossum og sauðfénaði til og frá í Borgarfjarðarsýslu og eins í Rangárvallasýslu; t.a.m. í Eyjafjallasveit voru þar, samkvæmt tíundar-skýrslunum, kýr orðnar 200-um færri eftir þetta vor, en vorinu áður; en sauðfénaði hafði fækkað um 1000. Enn þó tók yfir í Suðurmúlasýslu og báðum Skaftafellsýslum; ...
[40] Sögunni var komið fram á miðsumar 1835; mátti kalla, að grasbresturinn væri dæmalaus um allt land, því næturfrostin héldust við annað veifið fram undir slátt, og nyrðra kvað svo rammt að, að í upphafi júlímánaðar gjörði kafaldshríð svo dægrum skipti, snjóinn rak i skafla og sumstaðar fennti fé; naut því sumarsins mjög skamma stund og allt penings-gagn varð með langminnsta móti. Þó tók yfir, hversu báglega slátturinn féll; því undir eins í sláttarbyrjun brá til rigninga, og varð að því mikið mein víðast um landið nema ef til vill í eystri hluta norðlendinga-fjórðungs og austanlands enn mest í sunnlendinga-fjórðungi, svo varla mátti kalla, að þar blési af steini frá því sláttur var almennt byrjaður til þess 20 vikur voru af sumri (10. september); höfðu þá sumir ekki náð bagga í garð, en enginn þurru strái eða óhröktu, nema þeir sem fyrstir fóru að slá; og það, sem hafði verið hirt, brann eða fúnaði í görðum manna, og þótti því litlu betur komið, en hitt sem hjaðnaði um túnin 5 vikna gamalt og eldra. Verða má samt, að forsjónin láti þetta allt betur ráðast, en mannleg fyrirhyggja hafði tilstofnað; því þar sem heyskemmdirnar urðu mestar um allt Suðurland var haustið og veturinn fram til árslokanna frábærlega blíður; oftar hafátt og þíður, og það þurrviðri, sem sjaldan er vant að fara saman. Varð því í Rangárvalla-sýslu sumum að liði, allt fram undir jóla-föstu, að láta geldkýr sækja sér gjöf í annað mál; en allur útigangspeningur var við árslokin í haustholdum. Aftur fékk sýsla þessi töluvert áfall á jólaföstunni í norðanveðri, sem stóð nokkra daga, og fóru þar nokkur býli í tveimur efstu sveitunum, sem Heklu eru næstar, af sandfoki og vikurs, sem áður hafa þar um kring gjört mikinn skaða, þar sem landið var hvað fegurst og kostabest. Að norðan er haustið sagt harðara, og kom þar veturinn með fyrra móti. Sjávar-aflinn varð einnig í minna lagi þetta ár. Veturvertíðar-hlutir voru ámóta í flestum veiðistöðum.
[42] Í hausti var tókst svo illa til, að einn af þessum þiljubátum fórst í djúpinu suður af Vestmannaeyjum í ofsa-stormi. Annar bátur, er honum var samferða, komst klaklaust af, og gat það seinast frásagt, að ljósin á hinum hefðu horfið mjög skyndilega; síðan hefir ekki til hans spurst, og hafa menn fyrir satt, að stýris-lykkjan hafi bilað því hún hafði verið ótraust, þá hann fór úr landi og hafi þetta honum að meini orðið. Þar fórust 6 menn: 2 útlendir stýrimenn, beykir og trésmiður, og var að þeim öllum mikill söknuður. Að þessu frátöldu hafa fáir skiptapar orðið þetta ár. Um sláttarlokin og fram eftir haustinu var fyrir gnægð fiskjar með öllu Suðurlandi; en úr því haustvertíð byrjaði eftir veturnæturnar, bar minna á honum, svo haustvertíðar-hlutir urðu heldur litlir. Norðanlands tók ísinn fyrir alla selveiði og annan vorafla.
Sunnanpósturinn 1836-8 segir af árferði frá nýári til 20.júlí á bls.116:
Í fyrstu örk þessa tímarits var getið árferðis þess með fáum orðum, sem hafði verið á Íslandi nokkur undanfarin ár, og af því þau næstliðnu ár, þóttu hafa verið einka góð, svo var náttúrlegt, að þenkjandi menn gerðu ráð fyrir að umbreyting kynni verða, því það er hið venjulega. Þessi spá átti ekki langan aldur, því strax með byrjun ársins spilltist veðráttufar, og því meir sem lengra fram liðu tímar, þar til seint á góu. Snjókoma var töluverð; þó spilltu áfreðar einnig heldur jörðu, svo jarðbönn urðu mikil. Frostið varð óvenjulega mikið með köflum; það mældist syðra, þegar nokkuð dró frá sjó, yfir 20° en í Norður Sýslu [Þingeyjarsýslu] yfir 25°. Hafís kom nyrðra og vestra fyrir miðjan vetur og beygði sig austur fyrir land, hann komst í maímánuði suður með landi og út í Grindavík, fyllti hann sund það sem er á milli Eyjafjalla og Vestmanneyja svo, á fjórðu viku, að hvergi sá í auðan sjó. Ís þessi var 5. júlí ekki algjörlega farin frá Norðurlandi, þó svo lónaði frá um stund í júní og jafnvel í maí að kaupskip höfðu komist í höfn á Skagaströnd og í Hofsós. Sú gamla meining að ekki yrði mein að þeim ís sem kæmi fyrir miðjan vetur, ætlar því nú að veiklast. Vetrarfar varð hið sama um allt land meðan harðindin stóðu, nema hvað ætíð viðrar verr á sínum stöðum, eftir ýmislegu landslagi og afstöðu. Mesti fellir hefði orðið, ef bata hefði ei gjört seint á góu, en nokkur er hann þó orðin allvíða bæði af sauðfé og hrossum. Sumstaðar í Borgarfirði er mælt að fallið hafi sauðfé allt að helmingi; getur og verið að nokkuð af sauðfé hafi dáið úr þeirri bráðasótt eða sýkingu, sem nokkur undanfarin á hefur stungið sér niður hingað og þangað í Suðuramtinu helst í Rangárvalla- og Árnessýslum. Mest er gert samt af fellir í Suður-Múla-, Skaftafells- og Rangárvallasýslum; en í Norðurlandi og vestra er minnst af orðið. Þó bati kæmi á góunni, sem áður er getið, varð hann ei svo haganlegur sem þörf var á; veðráttufar gjörðist hretasamt. Kuldaköst komu aftur og aftur og seinast um Jónsmessu. Syðra snjóaði á fjöll, en sumstaðar nyrðra ogsvo í byggð um það leyti. Vorið varð því mjög gróðurlítið og lömb hrundu niður allvíða. Grasvöxtur þótti lítill í fyrra þó er hann enn minni nú og heyrist sú harmaklögun allstaðar að.
Þar sem ísar lágu við land var ei von til að afli gæfist af sjó töluverður, 6. maí er sagt að ís hafi legið á Ísafjarðardjúpi. Nokkrir hvalir, sem fundust í ís hingað og þangað, urðu til bjargar næstu sveitum. Á ís þessum er þess getið að nokkrir hvítabirnir hafi komið á land og að einn þeirra hafi hér nyrðra verið unninn. Syðra, hvar ís ekki hindraði fiskiveiðar, urðu þó hlutir á vetrar vertíðinni í minna lagi; fáir fengu yfir 2ja hundraða hlut, nokkrir náðu ei hundraðs hlut. Var nærri um hlutar upphæð í hverri veiðistöðu sunnanlands, þó mundu hlutir hafa orðið hvað mestir undir Vogastapa, nokkuð á fimmta hundrað. Vorhlutir urðu enn minni, helst vegna ógæfta. Varla mun hafa verið róið til fiskiveiða á Innnesjum oftar enn 6 sinnum á þeirri vertíð; þar á mót hafi bæði gæftir og nokkur afli gefist síðan á Jónsmessu hér sunnanlands.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Skipti um tíð og byrjaðist harðæri. Eftir nýár hláka mikil. 9. jan. skipti um með landnyrðingshríð og hörkum á eftir. 17. jan. áhlaupsbylur og rak þá ís fast að landi. Kom þá allt fé á gjöf og hross allvíða. Í febrúar frostaminna og óstöðugt með vestanátt. Á hríslendishálsum brutu hross lengi niður mót vestri. Þrjá fyrstu góudaga milt og stillt. Fyrri part góu hörkur miklar, hríðar, en síðari ásamt blotar og köföld.
Úr bréfum sem rituð eru veturinn 1835:
Frederiksgave [Möðruvöllum í Hörgárdal] 15-2 1835 (Bjarni Thorarensen):
Í október mánaðar seinni parti [1834] komu frost og snjóar miklir, aftur voru nóvember og desember að öllu leyti italienskir, en síðan nýár mestu snjóar og frost, og þetta stundum yfir 20 grader. Hvítabirnir tveir hafa komið í land í Þingeyjarsýslu og urðu unnir. Fiskiafli allt til jóla hinn allrabesti hér norðanlands en selafli enginn því menn segja að selir haldi sér oftast útá ytri hafísbrún. (s220)
Frederiksgave 15-2 1835 (Bjarni Thorarensen):
Nyheder ikke andre end at den Grönlandske Driviis indslutter begge vore Amter i sine ikke varme Broderarme, og at to Polarbiorne have kommet i land i Norder-Sysslerne men bleven begge to dræbte. Siden Nyaar Vinteren meget stræng med Snee og Frost, dette undertiden over 20 Grader. (s118) -
Í lauslegri þýðingu: Fréttir ekki aðrar en að grænlenski rekísinn lokar af bæði ömt vor í sínum ekki hlýju bróðurörmum og að tveir hvítabirnir hafa gengið á land í Þingeyjarsýslu, báðir felldir. Frá nýári hefur veturinn verið mjög harður með snjóum og frosti, jafnvel yfir 20 stigum
Bessastöðum 5-3 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s153) Vetur er hinn strangasti, sem ég man.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Í góulok kom upp snöp og þó í apríl kæmu blotar og rigningar, lét illa að þíðu fyrir kalsa í veðri og hörkum á milli vegna hafíss, sem var nú mikill og lá fram yfir fardaga. Með sumri bati góður vikutíma, en fyrri part maí sífellt hörkur og þurrviðri. 23. maí kom fyrst heiðarleysing og gróður.
Sveinn Pálsson getur þess 12.maí að grænlandsís hafi þá komið að austan að Vík í Mýrdal um nóttina. Í dagbókinni er minnst á ís út mánuðinn og hans líka getið fyrstu daga júnímánaðar. Færslurnar eru ekki auðlesnar - en einhver hreyfing var á ísnum. Einnig er getið ísþoku og kulda sem honum fylgdi.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní kalsamt, frost á hverri nótt, svo kýrgróður kom fyrst um sólstöður. Fráfærur urðu í júlí og lömb almennt rekin þann 10. vegna gróðurleysis á heiðum, svo aldrei spratt þar á víðir um hálendi eða hæðir. Um Jónsmessu hret og snjór í byggð 4 nætur. Grasvöxtur varð sá minnsti síðan 1802. Lestaferðir í miðjum júlí, gaf illa fyrir ófærð og hagleysi á heiðum. Í júlílok byrjaði sláttur. Skipti þá um til stórrigninga og gjörði það versta sumar, er menn höfðu lifað. Töður voru almennt hirtar um höfuðdag við hvassviðri. Sumir áttu þá ei til þurran blett á túni eða engi og jafnvel ei í landareign sinni til að þurrka á hey sitt. Þó náði ég og stöku menn töðu og útheyi óskemmdu, svo lítið lá úti viku lengur og varð taða hin besta og eins á Brandsstaðapartinum. Má hér af sjá, hvað haganleg þurrkun á heyi gjörir gagn, mót almennings vanafesti og íhugunarleysi, því aldrei er sú votviðratíð á Norðurlandi, að hey þurfi að ónýtast, þar mannafli og eftirvinna er til hlítar og engin flæðistund (eða stormur) er forsómuð. Rigningar voru svo stórfelldar, að melar og vegir voru blautir, sem þá aurar eru á vordag. Ei fór klaki úr jörð á þessu sumri. Allt hey varð að flytja á hóla og bala, þá nýslegið var og víða slegið og dregið upp úr vatni, sem allt var tafsamt, en eftirtekjan sú minnsta, svo hægara var lítið að hirða. Einsýnn þerridagur kom enginn utan sunnudag 6. sept. um nóttina til náttmála, að þá rigndi. Stórrigningar mátti kalla í águst 2., 5., 9., 11., 12., 13., 16., 18., 22., 23.; í september 2., 4., 13. Var það síðasta rigningin.
Úr veðrabók Ólafs Eyjólfssonar á Uppsölum í Öngulstaðahreppi 1835:
21.júní: Norðan stormur og hríðarkrapi, birti áliðið með frosti og heljarkulda.
22.júní: Norðan hvass, einkum áliðið, með frosti miklum kulda og hríðaréljum, þykkur.
23.júní: Sami stormur, frostið og kuldinn meiri.
24.júní: Sama veður fram eftir, þá oftar sólskin ... kyrrari áliðið.
25.júní: Sólskin og hafgola, mjög köld, mikið frost um nóttina áður.
26.júní: Sunnan svalur, sólskin, næturfrost.
Úr bréfum sem fjalla um sumrið 1835:
Saurbæ [Eyjafirði] 13-7 1835 [Einar Thorlacius] (s66) ... mikið vetrarríki, kalt vor, næstum gróðurlaust sumar ... Hafís nálega í kringum allt land.
Frederiksgave 17-7 1835 (Bjarni Thorarensen):
Jeg fryser! der er Snee midt ned i Fieldene, Foraaret har været paa det allerværste, ved St. Hansdag Frost og Snee lige ned til Söen, kun et eneste Skib ... (s119)
Í lauslegri þýðingu: Mér er kalt! Snjór niður í mið fjöll. Vorið hefur verið með allraversta móti, frost og snjór alveg niður að sjó á Jónsmessu, aðeins eitt skip ... .
Frederiksgave 30-8 1835 (Bjarni Thorarensen):
Sumarveður hefir ekki komið hér fyrri en fyrir tveim dögum. Grasvöxtur í allraversta máta, og nýting þareftir í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Völlur var búinn hjá mér að slætti til þann 7da [ágúst] og þó er ég ekki (s124) enn búinn að fá fyrir fjósið. Frá Suðurlandi er sagt enn verra. (s125)
Bessastöðum 8-8 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s156)
Hart er nú í ári, mesta grasleysi, vorið það versta sem ég man, fiskilítið í vor, því aldrei gaf veður til að róa. Þann 23. júlí var ekki hafísinn laus við Norðurland ...
Bessastöðum 23-8 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s159)
... náttúran eftir sem nú sýnist ætlar að gjöra út af við oss. Það sáralitla gras er nú að hrekjast og fúna ofan í jörðina, og hallæri sýnist óumflýjanlegt. Rigningar rétt makalausar hafa gengið síðan sláttur byrjaði.
Bessastöðum 18-9 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s161)
... náttúran orðin okkur vinsamlegri, því þann 10. þ.m. kom þó loksins þerrir, og þar við lagfærist nokkuð til sveitanna. En hjá oss er allt hey fordjarfað sem von er. ... Það má varla kalla að kál sjáist og því síður kartöflur eða rófur. ... Úr öllum landsfjórðungum eru nú harðindi að frétta. Hafísinn skildi við Norðurland þegar rigningar byrjuðu, því og svo þar voru óþurrkar.
24. ágúst 1835 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls 191)
Nú er neyðartíð hér í landi. Veturinn var einhver hinn harðari eða harðasti, með fádæma snjókyngjum og brunahörkum hér í sveit mest -24°. Þó tóku yfir vorharðindin með sífellum þyrrkingskuldastormum og frosthörkum á hverri nóttu, og jafnvel um hádaga allt að sláttarbyrjun, en síðan hafa gengið hér nyrðra og eins vestra þar ég hefi til frétt sífelldar úrkomur og stórrigningar með iðulegum snjókomum í fjöllum allt ofanundir bæi, að víðast er ekkert strá enn nú fullþurrkað eða innkomið af töðu, því síður af útheyi. Annars er grasvöxtur yfir höfuð í sárbágasta lagi, svo flest er nú samfara hvað landbúskapnum viðvíkur til mestu örðugleika og vandræða útlits. Máski úrkomur þessar miklu séu afleiðingar þeirrar væntanlega sjáanlegu halastjörnu? [halastjarna Halley, Sveinn Pálsson fylgdist nokkuð með henni]. Fiskafli er hér í sýslu einhver hinn besti, þó fáir geti því sætt um þetta tímabil ársins.
Frederiksgave 30-8 1835 (Bjarni Thorarensen): ... og ei hefir hér sumarveður komið svo kalla megi fyrri en fyrir tveim dögum síðan. (s222)
Breiðabólstað 6-9 1835 (Tómas Sæmundsson):
Árferðið í sumar er dæmalaust um allt land. Hafísinn fram að slætti, rosinn, síðan farið var að slá, svoddan fádæmi, að í 5-6 vikur varla hefir blásið af steini, svo að núna, hér um bil 20 vikur af sumri, varla nokkur hefur náð af túnum, og það, sem hirt hefir verið, fúnar eða brennur! Þar að auki var grasbresturinn frábær, svo allt lítur út fyrir, að guð ætli nú að fara að straffa okkur með hallærum, fyrst við í góðu árunum höfum farið að eins og gikkir. Það er verst, að svona hefir verið yfir allt land nema kannski á landnorðurströndinni.
Frederiksgave 14-9 1835 (Bjarni Thorarensen):
... det ser ilde ut deroppe, thi vi have havt en endnu uslere Græsvæxt end i forrige Aar, og det som er endnu værre, Sommeren har paa hele Sönder og Vesterlandet været saa regnfuld at man lige til 1te dennes (saavidt naae mine Efterretninger) ikke engang havde faaet Höet bierget af Hiemmemarkene, og næsten ligesaa dog ikke fuldt saa galt har det vært i Hunevands og Skagefiords Sysslene með Höibiergningen, taaleligt her, og ret got i Norder Syssel, men Græsvæxten har allevegne været saa ussel, af Folk over hele landet maa nedslagte det meste af sine Creature for ikke ved mueligen og sandsynligvis streng vinter at tabe dem alle. (s223)
Í lauslegri þýðingu: ... það lítur illa út þar um slóðir því grasvöxtur hefur verið enn rýrari en í fyrra og það sem verra er, sumarið hefur verið svo úrfellasamt á Suður- og Vesturlandi að menn höfðu, alveg til þess 1. þessa mánaðar (svo langt ná upplýsingar mínar) höfðu menn ekki einu sinni náð heyi af túnum - og nærri því - en ekki alveg svo slæmt hefur það verið með heyskapinn í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, þolanlegt hér og allgott í Þingeyjarsýslu, en graspretta hefur allstaðar verð svo rýr að almenningur hefur um land allt mátt slátra flestu fé sínu þannig að það tapist ekki allt líklega í hörðum vetri.
Frederiksgave 30-9 1835 (Bjarni Thorarensen):
Nýting hefir verið bærileg hér og í Þingeyjarsýslu en í Húnavatnssýslu svo aum að gamli Björn á Þingeyrum var ekki búinn að hirða af túni sínu fyrri en þann 20ta september. (s126)
Laufási 24-9 1835 [Gunnar Gunnarsson] (s68)
Frá árferði hér eður veðráttufari í sumar er nú ekkert fagurt að skrifa, því það hefur komið eitt hríðarhretið eftir það annað, hvaraf leitt hefur víðast hvar stakt grasleysi, og ofan í kaupið hafa í mörgum plássum verið mestu óþurrkar, og nú þá allra minnst varði kom enn hér um sveitir mikið hríðar íhlaup, bæði í gær og í dag, svo varla verður áfram komist með hesta um alfara vegi. Heimflutt hey og votaband liggur þó víða úti, hey óþakin og óbúið um þau ...
Saurbæ 4-10 1835 [Einar Thorlacius] (s69)
Sumarið var hér sára kalt og gróðurlítið, svo varla muna elstu menn að svo iðulega hafi alsnjóað í byggð. Þó er betur heyjað í firðinum hérna heldur en í fyrra, og góð verkun á heysöfnum. Má heyskapur heita í Eyjafirði í góðu meðallagi. En í flestum öðrum sveitum norðanlands er það mikið miður ...
Brandsstaðaannáll [haust og vetur út árið]:
Eftir það [13.september] stöðug þurrviðri með næturfrostum, svo slá mátti á klaka fram í október, en ei var annað til en svartur sinuhroði, er sumir urðu að nýta, er það land höfðu, en ekki þiðnaði torf í flagi eftir 13. sept. Heyskapur varð sá minnsti og versti, en nú varð viðtekin gangnafærsla sú, að þær skyldi byrja á sunnudag i 22. viku sumars, en áður 21. viku. Varð almenning að því oftast góður hagnaður. Seinni part október lagði snjó á fjöll og varð mjög frostasamt. Í nóvember góðviðri og þíðusamt, svo fé þá haustbata. 25. sept. [nóvember] ofsaveður á landnorðan, lengst af um viku. Urðu víða skipskaðar, þar þeim var ei tryggilega fest. Jólafastan mikið góð til nýárs, snjólítið og þíðusamt.
Sunnanpósturinn 1836 segir af síðari hluta árs 1835 (1, bls.1):
Hann [Sunnanpósturinn] gat þess seinast, árferði viðvíkjandi, (bls.116 og 117) hversu hart vorið var næstliðið ár, og hvílíkur grasbrestur þar af orsakaðist yfir mestan hluta landsins; nú minnist hann þess, að ofaná þennan grasbrest bættist dæmafár óþerrir, sem og svo náði allt land að kalla. Töður lágu víða á túnum fram yfir höfuðdag og skemmdust sem nærri má geta. En þeir voru ei öllu betur farnir sem hirt höfðu nokkuð eða mest af túnum sínum fyrra part sláttar: því rigningarnar voru svo gífurlegar á sínum stöðum, að hey varð ei varið skemmdum í heygörðum. Í Norður Sýslu [Þingeyjarsýslu] einni er mælt að sumar væri allgott hvað þerrir áhrærir, en þar var þá líka grasbresturinn mestur. Í Eyjafirði var ei heldur mjög kvartað um óþerri; en allstaðar annarstaðar var hann hér um bil hinn sami. Í september aflétti þessum óþerri, nokkru fyrri norðan- en sunnanlands; varð veðráttu batinn að sönnu öllum til nokkurs gagns, en einkanlegast þeim sem áttu nokkuð land óslegið á þurru, því nú gátu þeir aflað fóðurs fyrir fullorðið sauðfé og hross. Kýr hafa fækkað að menn ætla um allan þriðjung á landinu og væri vel ef þær sem á hafa verið settar, kæmust nú vel af, en þess er trauðlega að vænta þegar fóður er óvíða óskemmt. Lömbum var lógað nær því allstaðar. Sú góða veðrátta sem byrjaði í september mánuði hefir haldist til þessa; oftar hefir verið stormasamt, en hvorki hefir komið snjór til muna, né frost, það af er vetri, nema um nokkurn tíma nyrðra og á Vestfjörðum hvar einatt er hörð veðrátta þegar Stranda- og Haffjarðarsýslur taka við. Af sjó hefur víða gefist góður afli á þessu hausti; og það á sumum stöðum hvar ei hefur áður fiskast, t.d. á Hrútafirði og Steingrímsfirði. Undir Eyjafjöllum skal einn bátur hafa fengið hundrað til hlutar í haust, er það mun vera sjaldgæft. Þannig sýnist forsjónin vilja bæta með björg af sjónum, það sem ábrestur til atvinnu af landinu. [...]
Sunnanpósturinn birti 1836 fréttir af skaðaveðrum á árinu 1835 (12 bls.190):
Skaðaveður mikið, af landnorðri, kom 24. nóvember 1835 austur í Rangárvallasýslu. Það stóð heila 7 daga með sama ofsa. Á Landinu og Rangárvöllum gjörði það mikinn skaða; eyðilagði haga, tún og skóga meir eða minna á 32 býlum; og er haldið að 12 jarðir á Landinu nái sér aldrei aftur; þar fækkaði og í næstu fardögum, 8 búendum. Þetta sama veður kom og fyrir norðan; og feykti nýju timburhúsi í Siglufirði sem var í byggingu, en skekkti annað. Vestur í Dalasýslu feykti sama veður nokkrum skipum og heyjum, og skemmdi hús. Veðrið varð skaðlegast á Landinu og Rangárvöllum vegna sandfoksins, sem víða svarf af alla grasrót og þak á húsum og lamdist svo inn í útifénað, að sauðfé gat varla borið sig fyrr en sandurinn var mulin úr ullinni. Malarsteinar sem veðrið feykti með sandinum vógu 6 lóð, og þar yfir. Annað skaðaveður kom vestra á Breiðafirði í júní [1835] af útsuðri með sjávargengd, sem skemmdi láglendar eyjar og sópaði af þeim hreiðrum æðarfuglsins til ekki lítils skaða eigendum. Þannig er mér skrifað af Síra Gamlíel á Myrká, Stúdenti B. Benedictsen á Staðarfelli og hreppstjóra Guðmundi á Bræðratungu.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1835. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 34
- Sl. sólarhring: 150
- Sl. viku: 1955
- Frá upphafi: 2412619
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 1708
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.