Skriðuföll á Seyðisfirði

Nú flettum við upp í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska og leitum þar að skriðuföllum á Seyðisfirði. Atburðaskráin nær aftur til ársins 1874 og fram til 2011. Nýrri atburðir eru þar ekki. Auðvitað er skráin ófullkomin og fjölmarga atburði vantar - eða þeir hafa hugsanlega verið rangt flokkaðir. 

seydisfj_615_1959-07

Gamla veðurstöðin á Seyðisfirði 25. júlí 1959 (ljósmynd: Þórir Sigurðsson, úr safni Veðurstofunnar). 

Allmikið er um skriðuföll á Seyðisfirði, enda brött fjallshlíð ofan við bæinn. Lítum nú á listann - hver færsla byrjar á dagsetningu: ár - mánuður - dagur, fyrsti atburðurinn er merktur 1882 10 20 -> 20.október árið 1882:


1882 10 20 sk Rigning og krapahríð á Austfjörðum olli skriðum, m.a. úr Bjólfinum á Seyðisfirði, féll þar á hús, en braut ekki.

1892 7 3 sk Skriða úr Strandartindi á Seyðisfirði olli tjóni. Skriðan rann á og í gegnum hús Pöntunarfélags Héraðsmanna, braut húsið og skemmdi vörur.

1897 8 14 sk Mikil skriðuföll á norðanverðum Austfjörðum, tjón á Seyðisfirði, Mesta skriðan féll á Búðareyri og olli miklu tjóni, litlu minni skriða, en skaðalítil, féll úr Strandartindi. Fjölmargar fleiri skriður féllu í firðinum og gerðu sumar þeirra tjón. Skriða skemmdi tún á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði og skriður ollu skaða í Mjóafirði.

1903 1 14 sk Skriða féll úr Strandartindi á Seyðisfirði niður á Búðareyri

1905 8 5 sk Stórrigning á Austfjörðum. Mikil skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði eyðilagði bræðsluhús.

1912 9 1 sk Skriður gerðu landspjöll á Seyðisfirði.

1921 8 1 sk Mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum, sennilega 1. til 3., en engar úrkomumælingar voru á því svæði. Bæjarhús hrundu á Hrjót í Hjaltastaðaþinghá og tún stórspilltist í Skógum í Mjóafirði. Búðaá á Seyðisfirði flæddi yfir bakka sína og skemmdi tún, vegi og garða.

1935 9 14 sk Skriðuföll úr Strandartindi við Seyðisfjörð ollu miklu tjóni, einnig urðu skaðaskriður í Norðfirði (Skorrastað, Skálateigsbæjum og Miðbæ) og Eskifirði.

1950 8 19 sk Mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum og ollu verulegu tjóni á Seyðisfirði, Eskifirði og Reyðarfirði, fjárskaðar urðu í Hjaltastaðaþinghá þegar vatn gekk á tún og engjar. Geysileg skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði, fimm manns, þar af fjögur börn, fórust og mikið tjón varð á húsum. Á Eskifirði hljóp vatn á hús, en skemmdir urðu ekki miklar. Víðar féllu skriður sama dag, m.a. við utanverðan Eyjafjörð og í Ólafsfirði og tepptu vegi.

1958 9 30 sk Skriða féll úr Strandartindi á Seyðisfirði og skemmdi húsin Hörmung og Skuld og þriðja húsið skemmdist talsvert. Einnig eyðilögðust fjárhús, hlaða og geymsluskúr auk minni háttar spjalla. Innan bæjarmarka féllu 5 skriður, en 16 í nágrenninu.

1960 7 30 sk Minniháttar skriðuföll á Seyðisfirði, vatn rann í hús og vatnsleiðslur fylltust af aur.

1974 8 25 sk Skriðuföll austanlands, við Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og í Mjóafirði. Margar skriður féllu úr Strandartindi á Seyðisfirði og eyðilagðu fjárhús og spilltu lóðum, gróðri og girðingum. Vegaskemmdir í Vopnafirði.

1981 9 25 sk Aurskriður féllu á Seyðisfirði og Eskifirði. Á Eskifirði varð tjón á lóðum og kjallari fylltist. Skriður féllu bæði úr Bjólfi og Strandartindi á Seyðisfirði, en tjón varð lítið.

1989 8 11 sk Allmikil skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði, m.a. braut skriða enda á geymsluhúsi.

2001 10 1 sk Allmikil skriðuföll austanlands, aurskriður féllu á Seyðisfirði þ.1., tjón varð lítið.

2002 11 12 sk Aurflóð féll úr Botnum á Seyðisfirði og lenti á hús við Austurveg. Mjög stór skriða féll við Brimnes í Fáskrúðsfirði.

Í annarri skrá (bandaríska endurgreiningin) getum við flett upp meðalvindátt á svæðinu kringum Ísland - og líka í háloftunum þessa daga. Þá kemur í ljós að flest tilvikin eru svipuð - áttin er oftast af austnorðaustri (sitt hvoru megin við 60 gráður á áttavita) - en í fáeinum frekar nær norðaustri. Stefnan í háloftunum er svipuð - þó oftar ívið suðlægari í háloftum (þá hlýtt aðstreymi lofts) - en ekki munar miklu. Vindur er meiri niðri heldur en uppi - og þykktarbratti lítill. [Stöku maður myndi tala um efri hlýjan geira - tengdan samskilum - en við förum ekki út í slíkt].  

Það er þó ekki þannig að allir dagar sem eiga svipað vindamynstur séu skriðudagar - langt í frá. Fleira þarf til - langvinnt rakaaðstreymi verður að vera til staðar. Auk þess er viðbúið að máli skipti hvernig aðstæður eru í jarðvegi. Mikil og áköf úrkoma veldur ekki alltaf skriðuföllum. 

Gömul þumalfingurregla (erlendis að) segir að fari sólarhringsúrkoma yfir 6 prósent af meðalársúrkomu sé rétt að fara að hugsa um möguleg skriðuföll. Þau mörk eru í kringum 100 mm á Seyðisfirði. Úrkoma mældist nokkrum sinnum meiri en það meðan mannaðar athuganir áttu sér stað í bænum, 23 sinnum á 68 árum tæpum. Við getum sagt þriðja hvert ár. Fimm sinnum mældist hún meiri en 130 mm, gróflega einu sinni á áratug. Mest 140,6 mm þann 12. febrúar 1974 - þá var meiri snjóflóða- heldur en skriðuhætta. 

Úrkoma hefur einnig verið mæld á Hánefsstöðum, utar í firðinum. þar hafa séet enn hærri tölur, 20 sinnum á 18 árum yfir 100 mm, sú hæsta 201,1 mm þann 4.júlí 2005. 

Sjálfvirkur mælir var fyrst settur upp á Vestdalseyri, hæsta sólarhringtalan sem við höfum enn séð úr honum er 159,7 mm, mæld 11.nóvember 2002 - þetta er atburður á skriðulistanum hér að ofan. Næsthæsta talan er 153,6 mm, mæld 1.október 2001 - líka atburður á skriðulistanum. Sjálfvirka stöðin í bænum á Seyðisfirði hefur aðeins verið starfrækt í nokkur ár. Hæsta tala sem þar hefur enn sést (fram að atburðunum nú) er  er 170,2 mm á sólarhring, þann 23.júní 2017 - ritstjóri hungurdiska veit reyndar ekki hvort sú tala hefur hlotið heilbrigðisvottorð.

Nokkurn tíma tekur að gera upp úrkomuna þessa dagana - bæði sólarhringsúrkomu og úrkomu nokkra daga í röð. Svo vill til að vinna er í gangi á tveimur vígstöðvum varðandi aftakaúrkomu á Íslandi almennt - og úrkomu á Seyðisfirði sérstaklega. Ritstjóri hungurdiska er ekki flæktur í þessi verkefni og því alls ekki nægilega fróður um útkomuna. Skýrslur verða væntanlega ritaðar um atburðina nú. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 30
  • Sl. sólarhring: 419
  • Sl. viku: 1233
  • Frá upphafi: 2421525

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1106
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband