Svellkalt heimskautaloft

Ekki er annað að sjá en að kalt loft úr norðri muni nú flæða suður yfir landið næstu daga - og það með nokkrum látum. Einhverjir hríðarsinnaðir kunna að gleðjast - en við hin erum hin fúlustu. 

w-blogg011220a

Þetta er alvöru vetrarloft - eins og venjulega á korti sem þessu eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

Við sjáum af kvarðanum (sem verður skýrari sé kortið stækkað) - eða með því að telja litina - að það er 5040 metra jafnþykktarlínan sem liggur um Vestfirði - alvöruvetrarstaða, hiti er  um tíu stigum neðan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs - þó langt frá metum. Spár hafa undanfarna daga heldur linast á kuldanum - eins og oft er. 

Þar sem hvassviðri (eða þaðan af meir) fylgir er hætt við álagi á upphitun í óþéttum húsum (og jafnvel þéttum líka). Fyrir mannfólkið eru þó aðrir kælingarþættir hættulegri heldur en svokölluð vindkæling - en látum vera að þusa um það hér - förum að öllu með gát. 

Af legu hæðarlínanna ráðum við að vindur er líka norðlægur í miðju veðrahvolfi - en ekki sérlega hvass þar (talsvert bil er á milli hæðarlína yfir landinu). Jafnþykktarlínurnar eru hins vegar mjög þéttar (stutt er á milli lita) - þykktarbrattinn er mikill. Hann eykur hér við norðanáttina - sem er mun öflugri neðar. Eftirtektarsömustu lesendur taka eftir því að vestan við þykktardragið (jú, það eru til þykktardrög líkt og lægðardrög) er þessu öfugt farið. Þykktarbratti upphafur háloftavindinn að mestu. Þess vegna lægir væntanlega þegar þykktardragið fer austur af - hæðarhryggurinn (og þykktarhryggurinn sem honum fylgir ýtir ás mesta kuldans austur fyrir land). Að sögn reiknimiðstöðva á það að gerast á föstudaginn - þá fer að lægja - þó ekkert hlýni í mannabyggðum þar til síðar. 

Sem stendur eru reiknimiðstöðvar svo helst á því í framhaldinu taki við fremur rólegur kafli - ekki hlýr - en ekki svo kaldur heldur og það sem meira máli skiptir er að helst er gert ráð fyrir tiltölulega rólegu veðri - hvað sem svo rætist úr því - þó spár séu orðnar ótrúlega góðar eru þær stundum líka alveg ótrúlega vitlausar. En það er samt (langoftast) skynsamlegri vitleysa heldur en sú sem maður býr til sjálfur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 310
  • Sl. viku: 2440
  • Frá upphafi: 2434882

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 2167
  • Gestir í dag: 55
  • IP-tölur í dag: 53

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband