Leiðindi í kortunum

Nú nálgast lægð landið, verður óvenjudjúp miðað við árstíma ef trúa skal spám - þó ekki metdjúp. Henni virðist ætla að fylgja þó nokkuð illviðri miðað við árstíma - það gefa öfgavísar evrópureiknimiðstöðvarinnar alla vega til kynna.

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.

En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega. Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn.

Nú ber svo við að vísar þriggja veðurþátta, hita, úrkomu og vindhraða, veifa allir fánum í spám sem gilda á föstudaginn kemur, 17.júlí.

w-blogg140720a

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af árstíðasveiflu úrkomunnar - sömuleiðis veit það að úrkoma á vestanverðu Norðurlandi er að jafnaði mun minni heldur en sunnanlands.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn (litirnir sýna hann) fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér rýfur hann þau mörk á allstóru svæði (heildregnu línurnar) og fer alveg upp í 3,8 við utanvert Ísafjarðardjúp. Útgildavísirinn er stærri en 0,9 á allstóru svæði líka - dekksti brúni liturinn.

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar.

Útgildavísar evrópureiknimiðstöðvarinnar auðvelda mjög mat því hversu óvenjulegir veðuratburðir sem koma fram í spám eru. Vísarnir byggja á reynslu - „vita“ hversu algengt það veður er sem verið er að spá. Það er hins vegar með þessa vísa eins og annað, rétt er að trúa þeim ekki í blindni og greinilegt að talsverða reynslu þarf til að meta þær upplýsingar sem þeir vísa á. Fullvíst er að vaktveðurfræðingar Veðurstofunnar eru frekar með fingur á púlsinum hvað þetta varðar heldur en ritstjóri hungurdiska (hann er alinn upp í öðrum heimi).

w-blogg140720b

En hitavísar eru líka óvenjulegir. Á dökkfjólubláa svæðinu er verið að spá metkulda (miðað við árstíma - síðustu 20 ár eða svo). Rætist þetta mun snjóa á fjallvegum á Vestfjörðum - og Drangajökull fá gott fóður. 

w-blogg140720c

Vindavísar eru líka háir - ekki alveg jafnískyggilegir og hinir - svo ber að hafa í huga að líkanið veit af því að vindur er að jafnaði minni í júlí heldur en að vetrarlagi - sá vindur sem spáð er kæmi varla eins sterkt fram á vísum í janúar.

Sé litið á mælitölur eins og þykkt, sjávarmálsþrýsting, hæð 500 hPa-flatarins og hita í 850 hPa-fletinum virðist ritstjóra hungurdiska að það sé ekki verið að spá metum - en hann tekur þessa vísa þó alvarlega þannig séð. Ámóta veður gerði kannski síðast snemma í júlí 2014 - ef einhver skyldi muna það. Þá var talsvert um skriðuföll - bæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austfjörðum - auk þess sem hvassviðri olli ferðafólki vandræðum og setti strik í reikninginn við mótshald.

En eins og venjulega tekur ritstjóri hungurdiska fram að hann stundar ekki veðurspár lengur. Það gerir Veðurstofan hins vegar (og fleiri til þess bærir aðilar). Eru þeir sem eitthvað eiga undir veðri hvattir til þess að fylgjast vel með spám og hugsanlegum aðvörunum og láti hugleiðingar hungurdiska ekki trufla sig. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i
  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 303
  • Sl. sólarhring: 324
  • Sl. viku: 2565
  • Frá upphafi: 2410554

Annað

  • Innlit í dag: 237
  • Innlit sl. viku: 2268
  • Gestir í dag: 216
  • IP-tölur í dag: 205

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband