Illviðrið 9. til 10.júlí 1970

Mjög kalt var í júlímánuði fyrir 50 árum. Vorið hafði verið umhleypingasamt, miklar rigningar syðra í maí og tíð talin óhagstæð, en skárri norðaustan- og austanlands. Ritstjóra hungurdiska er það minnisstætt að þessum maímánuði fylgdi annað bragð en öðrum almanaksbræðrum hans um þessar mundir. Svo var auðvitað hið óvænta Heklugos sem hófst í maí - alveg utan dagskrár. Júní var almennt talinn hagstæður - þó voru þurrkar taldir til ama norðaustanlands og víða var kal í túnum. Oft var kalt við sjávarsíðuna um vestanvert Norðurland eftir hafís vetrarins. 

Ágúst þótti nokkuð hagstæður víðast hvar - en þarna inn á milli skaust hinn kaldi og illviðrasami júlímánuður. Á fjölmörgum veðurstöðvum varð hann hinn kaldasti sem menn þekktu og situr enn í því sæti. [Í viðhenginu er listi sem sýnir í hvaða kuldasæti mánuðurinn er á þeim stöðvum þar sem mælingar voru gerðar]. 

Nokkur hríðarveður gerði á heiðum og það snjóaði jafnvel líka í byggð. Umferð á hálendinu var þó mun minni en gerist nú á síðari árum, en hrakninga ferðamanna var getið í fréttum í öllum þessum veðrum og ófærðar á fjallvegum bæði norðaustanlands og á Vestfjörðum. 

w-blogg130720a

Myndin sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á þriggja klukkustunda fresti allan mánuðinn (rauður ferill). Við sjáum að fáein myndarleg lægðakerfi gengu yfir, það öflugasta þann 16. og 17. Grái ferillinn sýnir mun á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á hverjum tíma. Þarna má sjá þrjú veruleg illviðri. Það er hið fyrsta af þessum þremur sem er til lauslegrar umfjöllunar hér, norðanillviðrið 9. til 10. Þá varð bruninn hörmulegi á Þingvöllum sem minnst var nú á dögunum. Lægðin sem kom um miðjan mánuð - og var sú dýpsta olli aðallega útsunnanhvassviðri - nokkuð sem er óvenjulegt á þessum árstíma, óvenjulegra en norðanveðrin. Síðasta illviðrið gerði þann 22. og 23. - af norðri og norðaustri. Í norðanveðrunum báðum snjóaði langt niður í hlíðar - og jafnvel niður í byggð eins og áður sagði - og í lok útsynningsveðursins líka. 

w-blogg130720b

Gervihnattamyndir þessara ára voru öllu óskýrari en þær sem við nú eigum að venjast. Hér má sjá ljósmynd sem tekin er um hádegi 9.júlí. Þá var lægðarsveipur á leið til norðvesturs og síðar norðurs fyrir suðaustan land. Sennilega eru þarna fleiri en ein lægðarmiðja. Landið rýfur þunnan blikubakka í vesturjaðri lægðakerfisins - og má með góðum vilja sjá til jarðar á Suður- og Vesturlandi. Þéttari bakki er síðan þar fyrir austan og var hann á ákveðinni leið til vesturs síðdegis og að kvöldi þessa dags.

w-blogg130720c

Endurgreining japönsku veðurstofunnar sýnir stöðuna nokkurn veginn eins og hún var um miðnætti - að kvöldi fimmtudagsins 9. Greiningin nær úrkomunni á landinu norðaustanverðu mjög vel [hún mældist mest 43,7 mm á Húsavík] - en missir hins vegar alveg af úrkomubandinu sem teygði sig til suðvesturs um vestanvert hálendið allt til Suðvesturland - en það var hið óvenjulega við þetta veður. 

w-blogg130720d

Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins kl.18 þann 9 - þykktin er að vanda sýnd með litum. Djúp háloftalægð er fyrir suðaustan land og virðist beina mjög hlýju lofti úr austri í átt til landsins. Efri hluti þessa hlýja loftstraums hefur náð yfir landið og valdið úrkomunni suðvestanlands - neðar var mjög kaldur straumur lofts úr norðri, sem ekki sést vel á þessari mynd - og endurgreiningin vanmetur. 

w-blogg130720e

Kortið (skýrist heldur sé það stækkað) sýnir veðurathuganir á miðnætti að kvöldi þess 9. Úrkoma [grænmerkt] nær þá allt suður að Eyrarbakka og sömuleiðis er úrkoma í Reykjavík (talin skúr þar). Rokhvasst er á Stórhöfða (55 hnútar - um 28 m/s) og úrkoma í grennd. Hríð er á Hveravöllum og hiti aðeins um frostmark. Á Akureyri er hitinn aðeins 5 stig og 3 stig á norðanverðum Vestfjörðum. 

Þegar úrkomumælingar lágu fyrir um morguninn kom í ljós að hún var 36,1 mm á Þingvöllum eftir nóttina. Á Mógilsá í Kollafirði var hún enn meiri, 41,5 mm. Á Reykjavíkurflugvelli mældist hún aðeins 2,3 mm, en 16,2 mm í Elliðaárstöðinni - skammt undan, 29,6 mm á Mosfelli og 16,3 í Stardal. Slydda var um nóttina á þeim stöðvum sem úrkoma var mest - í þann mund sem hún var áköfust. Í Stardal var ekki snjór á túninu um morguninn, en alhvítt niður í fjallsrætur segir athugunarmaður. Ekki festi á Þingvöllum, en svo vildi til að landsmót hestamanna var að hefjast í Skógarhólum. Þar urðu verulegir erfiðleikar um nóttina og gránaði jörð - alhvítt varð að sögn í Bolabás undir Ármannsfelli. Það fréttist af hrossum sem drepist höfðu í vosbúð, og ekki nema fjórðungur tjalda uppistandandi eftir nóttina. Tjaldið hafði fokið ofan af hollendingunum sem komu að brennandi húsinu og gerðu síðan viðvart. 

w-blogg130720f

Klippan hér að ofan er bakhlið dagblaðsins Tímans og fengin af timarit.is. Þar er fjallað um ástandið við Skógarhóla þá um morguninn. 

Fréttin af brunanum er ritstjóra hungurdiska minnisstæð - og í röð þeirra óvæntustu sem hann man. En honum er líka minnisstæð loftsýn sem hann varð vitni að kvöldið áður. 

Hafði verið við kvikmyndasýningu í Borgarnesbíói - en man ekki hvaða mynd var þar sýnd. Sýningu lauk ekki fjarri kl.23 um kvöldið. Þegar komið var út var einkennileg birta - og fólk stóð og horfði í norðvesturátt til sólarlagsins. Þar blasti við sýn sem ritstjórinn hafði aldrei séð áður og hefur aldrei aftur séð síðan - ljósgræn sól - í nokkru mistri - skein frá skýlítilli himinræmu við Ljósufjöll á Snæfellsnesi undir blikubakkann áðurnefnda. Þegar komið var á holtið heima - ekki langt frá samkomuhúsinu - blasti önnur sýn við, í þetta sinn í gagnstæðri átt - reyndar í átt til Þingvalla - sýndist sem þar væri gríðarhá kirkjuhvelfing ljósboga prýdd - ógleymanlegt.

Löngu síðar áttaði ritsjórinn sig á því hvað hér var á ferðinni. Blikubakkinn var nokkuð vindskafinn - en úr honum féll úrkoma sem gufaði strax upp skammt neðan hans - þó nægilega langt neðan við til að regnbogi myndaðist - en það var erfitt að gera sér grein fyrir því - aðeins hæsti hluti bogans var sýnilegur - að auki gerði hin grænleita birta sólar bogann torkennilegan. 

Bogabrot af þessu tagi hefur ritstjórinn séð síðar - og þar með hvelfinguna miklu - en í þó í öllu „eðlilegra“ sólsetri - líka eftirminnilegt að sjá regnboga þar sem er eiginlega enginn annar litur en rauður. Þetta er ekki algengt - en ekki þó sárasjaldgæft eins og sólin græna. Ekki er gott að segja hvers vegna sólin tók sér þennan lit - hélt lengi vel að þetta væri ryk eftir hálendisvinda og uppblástur dagsins - en er þó ekki alveg viss. Þetta gæti t.d. verið reykur - annað hvort eftir skógarelda einhvers staðar í annarri heimsálfu - nú eða þá einhverjar loftkenndar afleiðingar Heklugossins sem nýlokið var - ekki gott að segja.

w-blogg130720g

Rifja má upp að þessi jökulkaldi júlímánuður ýtti undir hugmyndir um kólnandi veðurfar. Til gamans birtum við hér klippu úr grein sem birtist í Tímanum þann 25.júlí þetta ár og framhald hennar kom í sama blaði daginn eftir. Áhugasamir geta lesið á timarit.is. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i
  • w-blogg121124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 397
  • Sl. sólarhring: 403
  • Sl. viku: 2659
  • Frá upphafi: 2410648

Annað

  • Innlit í dag: 313
  • Innlit sl. viku: 2344
  • Gestir í dag: 283
  • IP-tölur í dag: 268

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband