Hiti 2019 - miðað við síðustu tíu ár

Við skulum nú bera saman hita ársins 2019 og meðalhita síðustu tíu ára (2009 til 2018). Á landinu í heild má segja að árið hafi verið nákvæmlega í því meðallagi, rétt eins og árið í fyrra (2018). Vikamynstur þessara tveggja ára er þó ólíkt. Bæði árin var hiti rétt neðan tíuárameðallagsins á vestanverðu Norðurlandi, en á þessu ári var hiti líka neðan meðallags um Norðurland austanvert og á flestum stöðvum á Austurlandi. Þó var hiti í meðallagi á nokkrum útkjálkastöðvum við Austfirði. Hiti var ofan meðallags um landið vestanvert. Að tiltölu var kaldast á Sauðárkróksflugvelli og á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, hiti -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Að tiltölu varð hlýjast á nokkrum stöðvum þar sem mæliaðstæður eru e.t.v. ekki alveg staðlaðar (vegna snjóa), á fjallvegum á Vestfjörðum (vik 0,6°C eða meira á Mikladal, Gemlufallsheiði, Hálfdán, Þröskuldum og Kleifaheiði - og einnig á Fróðárheiði og í Tindfjöllum). Betur þarf að líta á mælingar á þessum stöðvum.

w-blogg281219a

Bláar tölur sýna neikvæð vik, en rauðar jákvæð. Svo verður að hafa í huga í huga að tölur á einstaka stöð gætu hrokkið til um 0,1 stig á síðustu 4 dögum ársins - og þar með jafnvel færst til milli lita á kortinu. Við verðum að hafa í huga að meðalhiti síðustu tíu ára er 1,0 stigi ofan við meðalhita síðustu aldar. Öll ár það sem af er 21.öld hafa verið hlý í þessu samhengi. Sé talið allt aftur til 1874 lendir landsmeðalhiti ársins 2019 í 15. til 18. hæsta sæti. Hlýjast var 2014, 2003 og 2016.

Hiti hefur síðustu tíu árin verið nokkuð í „jafnvægi“ eftir gríðarlega hlýnun áratuginn á undan - en samt langt ofan þess sem áður var.

w-blogg281219b

Hér má sjá 10-ára (120-mánaða) keðjumeðalhita á landinu. Ártalið er merkt í lok hvers tíu ára tímabils - fyrsta talan á þannig við áratuginn 1991 til 2000 (120-mánuði) og er merkt sem 2000. Meðalhiti síðustu tíu ára er nú 4,42 stig, 0,9 stigum hærri en árið 2001. Hlýnunin síðan þá samsvarar um 4,9 stigum á öld. Hraði hlýnunarinnar var mestur á árunum 2002 til 2010, þá samsvaraði hraðinn hlýnun um 10 stig á öld. Það sjá vonandi flestir að heimsendir er í nánd haldist slíkt áratugum saman. Gróflega má segja að við höfum þegar tekið út nærri helming þeirrar hlýnunar sem nú er helst gert ráð fyrir til næstu aldamóta. Ólíklegt er þó að það sem eftir er (komi það) eigi sér stað jafnt og þétt. Miklu líklegra er að allstór og skyndileg stökk verði fram og til baka - bæði til kólnunar og hlýnunar á víxl. Það er ótvírætt merki um alvarlega stöðu í heiminum gangi hlýnunin mikla sem við sjáum á myndinni hér að ofan ekki til baka að öllu eða einhverju leyti. Komi annað ámóta stökk á næstunni erum við komin í gjörólíkt tíðarfar.

Tíu ára lágmarkshita kuldaskeiðsins 1965 til 1995 var náð síðla árs 1986 (desember 1976 til nóvember 1986), hann var 3,0 stig. Árið 2001 hafði því þegar hlýnað um 0,5 stig frá því sem kaldast var.

w-blogg281219c

Það er fróðlegt að bera þessi miklu hlýindi saman við þau sem urðu fyrir nærri 100 árum. Þá varð hraði hlýnunarinnar [sem hækkun á 120-mánaða meðaltölum] mestur á árunum 1916/1925 til 1925/1934 og samsvaraði 13 stigum á öld þegar mest var (sjá myndina). Síðan sló á (svipað og eftir 2010) og áratugahiti hélst svipaður fram um 1960, en þá fór að kólna. Við skulum taka eftir því að hiti síðustu 20 ára er vel ofan við það sem var fyrir 80 árum, um 0,4 stigum. Kuldaskeið 20.aldar var þrátt fyrir allt hlýrra en það sem ríkti síðari hluta 19.aldarinnar. Sagan segir okkur að lítil regla sé í hitasveiflum á áratugakvarða - þær spár eru bestar í lengdina sem gera alltaf ráð fyrir svipuðum hita og verið hefur (við tökum þá aðeins á okkur arfavitlausar spár á meðan á stökkunum stóru stendur - en erum í sæmilegum málum þess á milli). Jú - svo geta þeir sem vilja gert ráð fyrir hnattrænni hlýnun til viðbótar - hvert hún er að leiða okkur vitum við auðvitað ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband