Af árinu 1861

Eins og fram kemur í samtímafréttapistlum hér að neðan þótti árið 1861 hagstætt. Aprílmánuður er meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um frá upphafi mælinga, en nóvember var aftur á móti meðal þeirra allraköldustu. Hiti var ofan meðallags í janúar, apríl, júní og desember, en undir því í mars, júlí og ágúst. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi reiknast 3,6 stig eða rétt við meðallag áranna 1961 til 1990. Giskað er á 4,3 stiga ársmeðalhita í Reykjavík og 3,1 stig á Akureyri. 

ar_1861t

Myndin sýnir meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Enginn dagur telst mjög hlýr, en sex mjög kaldir, allir í síðari hluta nóvembermánaðar. 

ar_1861p

Af myndinni hér að ofan má sjá að þrýstingur var lágur í mars, en aftur á móti var hann hár í hinu rómaða blíðviðri í apríl. Í júlí var þrýstingurinn hins vegar óvenjulágur, en í september virðist hafa verið rólegt veðurlag - þrýstibreytingar frá degi til dags litlar.

Ársúrkoma mældist 651 mm í Stykkishólmi, tæplega 10 prósent neðan meðallags áranna 1961 til 1990. Að tiltölu var úrkomusamast í júní og desember, en þurrast í ágúst, september og nóvember. 

Hér að neðan er tíðarfarið rifjað upp með orðum samtímaheimilda. Stafsetning er þó víðast færð til nútímahorfs og texti stöku sinnum styttur. 

Annáll 19.aldar segir:

Veðrátta mun víðast um land hafa mátt kallast góð frá nýári til góu, er var nokkuð rysjótt með jarðleysum, en breyttist til batnaðar með einmánuði og í apríl var hitinn 10° í skugganum nokkra daga á Akureyri. „Norðri“ segir að vetrar- og vorvertíðin hafi, allstaðar að frétta, verið hin besta; þótt einstök kuldaköst hafi komið nyrðra, er stafað hafi af ís er var að flækjast úti fyrir, þó aldrei yrði hann landfastur. Með sláttarbyrjun breyttist tíð nyrðra í rigningar og óþurrka er gengu yfir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur langt fram í ágúst. Minni voru óþurrkar um Skagafjörð og Húnavatnssýslu, en æskilegasta veðurátt syðra. Síðari hluta ágúst og fyrri hluta september var hins vegar hagfelldasta tíð nyrðra. Heyfengur var víða í betra lagi og veður hagfelld fram undir miðjan október. Þá segir „Norðri“ að vetur hafi alvarlega gengið í garð, Eyjafjarðará lagt ísi og Pollinn út á miðja höfn, og póstur sagt fullt eins harða tíð syðra, og ritað var að frost væru þar þá 16°. Framan af árinu fiskileysi fyrir sunnan og vestan svo til vandræða horfði, og nyrðra fékkst enginn afli úr sjó 31.maí, um sumarið lítill afli syðra, en allgóður á Eyjafirði. En um haustið var töluverður afli syðra, en smár, og eftir áfellið í nóvember væn ýsa og lítið eitt af þorski. 

Janúar. Tíð talin hagstæð og hiti var ofan langtímameðaltala. Þó er nefnt að óhagstætt hafi verið fram eftir mánuði norðaustanlands. 

Íslendingur segir frá 1.febrúar:

Veðráttin hefur allt til þessa verið afbragðsgóð. Fiskiafli enginn hér sunnanlands; hákarlsafli nokkur í lagvað suður í Garði hjá þeim fáu mönnum, er þá veiði stunda. Austan úr Múlasýslum eru sögð harðindi og veikindi. Vestan af Snæfellsnesi góð tíð á landi, en mjög mikið fiskileysi, að minnsta kosti allt fram að þrettánda, og Breiðvíkingar farnir að drepa hross sér til lífsbjargar.

Þjóðólfur segir þann 9.febrúar:

Lengi mun minnisstæð hin einkar hagstæða veðrátta og má segja veðurblíða, er hefir haldist stöðugt yfir gjörvallt Suður- og Vesturland að kalla má síðan um veturnætur og fram á þenna dag; því íhlaupið er gjörði um jólaleytið (hér með nálega 11°R frosti), varð eigi nema fáa daga; og íhlaupið er nú hefir staðið hér á aðra viku, mundi vera kallað blíðuveður um vetur í harðara lagi. Sama vetrar góðveður er sagt að norðan, allt norður til Öxnadalsheiðar, en að stríð vetrarharðindi hafi lagst að og haldist fram í fyrra mánuð um Eyjafjörð en einkanlega um Þingeyjarsýslu og báðar Múlasýslur; þar gekk og taugaveikin fram til nýárs og allmannskæð í sumum héruðum, en hér syðra og vestra mun hún víðast í rénun.

Milli jóla og nýárs varð úti milli bæja hér á Kjalarnesi miðaldra maður ókvæntur Eyjólfur Þórðarson frá Blikastöðum, ... Aðfaranóttina 18. [janúar] lagði inn í Búðarós vestra, skip er kom úr hákarlalegu, og hafði aflað nokkuð. Jón Pálsson hafnsögumaður þar við Búðir var formaðu, en þegar dró innundir óskjaftinn, kvaðst hann vilja fara undir ár til að hita sér, en beiddi einn háseta sinn, Jón Vigfússon að nafni, duglegan mann, að fara undir stýri, og gjörði hann svo; var svo lagt inn í óskjaftinn, en þar kvað einatt vera krappur og vondur sjór, en dimmt yfir, kom þá rið á skipið, og sló því undan, svo að sjór kom á það flatt, er tók útbyrðis manninn frá stýrinu og stýrið frá skipinu, drukknaði Jón Vigfússon þar, og rak þó upp litlu síðar; lentist og skipinu heldur illa, og 2 mennirnir meiddust nokkuð, en eigi til langframa að haldið var, og eitthvað lítið eitt tók útbyrðis. — 28. [janúar] var unglingspiltur, ... sendur frá Hraðastöðum í Mosfellssveit austur yfir heiðina, til Þingvallasveitar; veður var þá gott og eins hina næstu 2 dagana, en pilturinn hefir hvergi komið fram né fundist, og hefir hans þó verið leitað af mannsöfnuði.

Febrúar: Æskileg tíð lengst af. Hiti ekki fjarri langtímameðaltölum. 

Þjóðólfur segir 25.febrúar:

Sjóróðramenn koma nú að úr öllum áttum, sunnanpósturinn nýkominn austan af Síðu með bréf úr Múlasýslum um jólaleytið, og sendiboði Þjóðólfs norðan af Akureyri, en austanpóstur var enn ókominn úr Múlasýslum er hann lagði þaðan. Úr öllum áttum staðfestist hið æskilegasta vetrarfar, og hörkurnar um Eyjafjarðarsýslu og Suðurmúlasýslu eigi eins miklar eins og fyrr fregnaðist; um Þingeyjarsýslu og Norðurmúlasýslu lagðist veturinn að um jólaföstukomu, með byljum og frostum, en er vonandi að þar hafi nú snúist til bata um miðsvetrarleytið, eins og annarsstaðar um land.

Íslendingur segir af tíð og gæftum þann 8.mars:

Þorri er á enda og komið fram í aðra viku góu, og alltaf hefur mátt heita blessuð veðurblíða, að minnsta kosti yfir öllum Sunnlendingafjórðungi, og enda svo langt vestur og norður, sem vér höfum til spurt. Um þessar mundir streyma menn að úr öllum áttum suður hingað til sjóróðra. Vertíð er byrjuð; suður í Höfnum er sagður góður fiskiafli, og fiskigangan komin alla leið inn undir Garðskaga. En þar fyrir innan er fiskilaust til þessa. Að vestan höfum vér nýfrétt gott vetrarfar; fiskafla við Ísafjarðardjúp síðan miðþorra; hákarlsafla nokkurn úr Vestureyjum á Breiðafirði og umhverfis Jökul; fiskiafla norðan undir Jökli síðan með þorra, en um hlutarupphæð vitum vér eigi; skepnuhöld allstaðar heldur góð. Norðanpóstur kom hingað 3. þ.m. Með honum fréttist góð tíð af Norðurlandi allt austur undir Múlasýslur, og vér ætlum einnig — því annars er ekki getið — að þar eystra hafi tíðin verið góð, síðan harðindaskorpunni framan af vetrinum létti þar af.

Norðri segir frá þann 12.mars:

Með póstunum og öðrum ferðamönnum hafa jafnaðarlega borist fréttir, sem víðast hvar koma saman að því leyti að vetrartíðin hefir verið einstaklega góð einkum syðra og hér í vestursýslunum [Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum]. Nokkru harðara er oss sagt að austan, og skrifað er oss rétt eftir nýárið, að út líti fyrir allharðan vetur í Hróarstungu og Jökulsárhlíð ; þar höfðu verið æði langar jarðleysur og innigjafir á fénaði. Því má ætla, að hinn góði bati, sem kom eftir nýárið og hið fagra veður með nægum jörðum, sem hélst hér allan þorrann hafi einnig komið þar að góðum notum. Vér ætlum því óhætt að fullyrða, að veturinn sé enn sem komið er einhver hinn besti, og það mun þykja fáheyrt, er stendur í einu af sunnanblöðunum, að sumir á Landinu í Rangárvallasýslu hafi ekki gefið kúm nema í annað málið lengst fram í desember í vetur. Afli af sjó hefir allvíða verið lítill og svo er skrifað að sunnan og vestan. Hér við Eyjafjörð var allgóður afli framan af vetri úti í Hrísey og víðar, en nú hér enga björg að fá úr sjó um langan tíma. Selveiði hefir verið hér með minnsta móti í vetur; enda er hún einlægt að minnka á öllum stöðum hér nyrðra þar sem hún hefir tíðkast og vér höfum haft afspurn af.

Mars. Öllu kaldari og órólegri tíð en mánuðina á undan. 

Norðri birtir þann 24.apríl úr bréfi að austan, það er dagsett 18.mars. 

Tíð hefir hér verið spaklát í vetur, en nú yfrið hvikul; víðast hafa verið jarðir nærri alltaf og varla gránað í suðursveitunum t.a.m., Breiðdal og þar suður frá. Í sumum sveitum hafa þó verið stöðug jarðbönn nú 19 vikur eða 20, því snjóhríðinni sem kom háfum mánuði fyrir jólaföstu hleypti í svellgadd, sem aldrei hefir tekið síðan svo nokkur jörð kæmi; þessar sveitir eru það ég veit Lofmundarfjörður og Borgarfjörður inn frá sjó — norðurhluti Hróarstungu og nokkuð af Hlíðinni [Jökulsárhlíð] — Selárdalur í Vopnafirði og einstöku sveitapartar víðar þar sem hlákur hafa náð verst til. Í þessum sveitum eru því margir þegar uppnæmir að heyjum, því naut hafa tekið upp svo mikið frá sauðfénu; eru sumir farnir að leita sér bjargar í jarðasveitunum ... 

Íslendingur segir 23.mars:

Um þessar mundir er því nær fiskilaust fyrir öllum Sunnlendingafjórðungi. Tíðarfar á landi má alltaf heita gott; þó stundum þjóti upp norðanveður, dettur það jafnskjótt aftur niður; snjór er lítill og færðin góð. Í gær (22. mars) fóru 4 skip í hákarlalegu á Akranesi; eitt þeirra var lent i morgun með 13 hákarla. Í dag er heiðríkt veður og allmikill hiti. — Þann 19. þ.m. barst skipi á í lendingu austur í Selvogi; þar voru á 14 manns og drukknuðu allir. Formaður var Bjarni bóndi í Nesi þar í sveit. Öll önnur skip, milli 20—30 af Eyrarbakka og Selvogi, sneru frá fyrir brimi, og náðu landi í Þorlákshöfn.

Þjóðólfur birti þann 16.júlí bréf dagsett á Eyrarbakka 10.apríl þar sem fjallað er um marsbrimin þar um slóðir:

Föstudaginn þann 15. [mars] reru flest skip á Stokkseyri, en í vetfangi brimaði svo mikið, að 4 skipin, sem seinast komu að sundinu, hlutu að hverfa frá og hleypa út í Þorlákshöfn, hvar þau náðu klaklaust landi, fyrir tilstyrk þeirra mörgu góðu manna, sem þar voru fyrir í lendingunni, og veittu skipverjum alla mögulega hjálp og bestu viðtökur. Af þessum skipum voru 2 sett landveg úr Þorlákshöfn austur að Stokkseyri, mánudaginn 18. s.m., en hin 2 skipin komust þann sama dag sjóleiðis, annað hingað á Eyrarbakka, en hitt alla leið að Stokkseyri. Morguninn eftir leit út fyrir bærilegt sjóveður. Reru þá flest skip á Stokkseyri, og sömuleiðis þau 3 skip, sem nú ganga hér á Eyrarbakka. Þegar skipin voru nýkomin í sátur, hleypti svo snögglega í þvílíku ofsabrimi, að aðeins 2 skipin frá Stokkseyri náðu þar lendingu, en hin öll, og þau héðan af Eyrarbakka — samtals 15 skip — máttu til að hleypa út í Þorlákshöfn í lítt færum sjó og náðu þar happasælli lendingu, því aðeins ein ár brotnaði, og einstakir menn þjökuðust eitthvað lítið.

Þjóðólfur segir þann 25.mars:

Aflaleysi má telja hið einstakasta til þessa í öllum ytri og innri veiðistöðvum allt austan frá Jökulsá á Sólheimasandi og vestur að Látrabjargi; hér um Innnesin varð almenningur eigi var góðviðrisdagana fyrir helgina, en var þó góður hákarlaafli ... á Akranesi.

Apríl: Óvenjuhlý og hagstæð tíð lengst af. 

Norðri segir þann 16.apríl:

Með sunnanpóstinum fréttist um tíðarfarið að sunnan og vestan og er allstaðar nú hið sama að frétta, að tíðin, sem var nokkuð hörð og sumstaðar með jarðleysum á góunni, hafi aftur breyst til batnaðar með einmánaðarbyrjuninni, og hefir síðan verið hin æskilegasta veðrátta og hitinn hér á Eyjafirði 10 gráður í skugganum þessa daga. Að sunnan er þar á móti bágt að frétta með fiskileysi, og er oss skrifað að aflabrögð hafi verið þar einstaklega lítil, nema hákarlaafli var þar dálítill, þar sem farið var að gjöra tilraunir til hans.

Íslendingur segir þann 27.apríl (dagsetur pistilinn á sumardaginn fyrsta 25.apríl):

Gleðilegt sumar, góðir landar! „Nú er vetur úr bæ“, einhver hinn blíðasti og besti vetur, sem liðið hefur yfir meiri hluta lands vors um mörg ár. Litur er farinn að koma í jörðina; fénaðurinn eirir ekki við húsin; sumarfuglarnir eru komnir hópum saman, og fleiri kvað vera von með fyrstu ferðum. En blessaður fiskurinn kemur eigi. Það má kalla næstum fiskilaust fyrir almenning í öllum veiðistöðum við Faxaflóa, og eru það daprar fréttir, þar sem líf og atvinna margra þúsunda er undir komin, einkum eins og nú er ástatt í landinu.

Austan úr Mýrdal er oss ritað þannig 6. þ.m.: Hér kom ákaflega mikill snjór í byrjun mars, sér í lagi 2. til 5. þó eyddi bloti nokkru aftur; tók þá algjörlega fyrir haga, og í Kerlingardal fennti fé; er um 20 ófundið enn. Síðan viðraði sífelldum útsynningum og hafhörkum fram í páskaviku; rétt fyrir eða um páska [31.mars] hætti ég að gefa útigangsfénaði. Síðan 28. mars hefur verið mesta blíða og stöðugar sjógæftir; féllu þá úr 4 helgidagar; hina alla hefur verið róið; og síðast í dag, en nú orðið fiskilaust um stund.

Harðindi mikil í Skaftártungu og á Síðu. Vestan undan Jökli segir í bréfi, sem ritað er fyrst í þessum mánuði [apríl]: „Veðurátt er hér hin besta, en fiskiafli lítill til þessa.

Þjóðólfur segir þann 27.apríl:

Veturinn reyndist til enda einhver hinn besti og blíðasti sem menn muna, og það yfir allt land, eftir því sem sannast hefir spurst, og þó öllu meira blíðviðri vestan- og norðvestanlands heldren hér syðra; íhlaupið á góunni tók t.d. mjög óvíða fyrir haga í Húnavatnssýslu, en þá varð haglaust austur á Síðu og víðar hér syðra; sjaldgæft mun það og að 2—3 mælistiga hiti gefist að meðaltali gjörvallan janúarmánuð, eins og nú var víð Ísafjarðardjúp.

Þann 4.maí segir veðurathugunarmaður á Hvanneyri við Siglufjörð að hafíshrafl hafi komið upp að landi. 

Þann 5.maí segir séra Björn Halldórsson í Laufási í dagbók sinni: „Hafíshroði úti á firði“. [Úr samantekt um hafís í dagbókum Björns sem birtist í Tímariti hins íslenzka bókmenntafélags 23., 1902, s.169] 

Maí. Fremur hagstæð tíð. Hiti nærri langtímameðaltölum. 

Íslendingur segir af tíð þann 10.maí:

Tíðarfarið er alltaf hið besta, og svo er að heyra allstaðar þaðan, er vér höfum til spurt. Úr Múlasýslu segir í bréfi frá 25. mars, að þar hafi tíðin verið góð til byrjunar marsmánaðar, en síðan hart. 

Íslendingur segir af eldsumbrotum í stuttri frétt þann 19.júní:

Frést hefur að vart hafi orðið við eldsumbrot 24.[maí] í Öræfajökli.

Þjóðólfur segir þann 29.maí:

Hin einstakasta vorveðurblíða viðhelst, skepnuhöld allstaðar hin bestu og gróandi og grasvöxtur horfir vel við. 

Norðri talar um góða tíð en áframhaldandi aflaleysi þann 31.maí:

Vetrar- og vortíðin er allstaðar að frétta hin besta og þó einstaka kuldaskot hafi verið hér nyrðra, sem einkum stafar af ísnum, er hefir verið hér nógur og spillt töluvert fyrir hákarlaveiðum, þá hafa engi brögð verið að því, og hinir sterkustu hitar með köflum. Hið einstakasta aflaleysi er að frétta víðast hvar að sunnan, svo að til mestu vandræða horfir. Bjargarþröng hefir einnig verið töluverð hér nyrðra og eystra og enginn fiskur fæst úr sjó svo vér höfum til frétt hér í nánd. Ísinn hefir mjög tálmað hákarlsaflanum, svo lítið hefir aflast nema í fyrstu ferðinni, en þá veiddu flestir vel, um hundrað kúta í hlut þeir sem bestir voru.

Þann 12.ágúst birti Íslendingur bréfkafla dagsettan 9.júní í Suður-Múlasýslu:

Fréttir eru héðan fáar. Veturinn var hér einkum sunnan til í Múlasýslum, einhver hinn besti, er menn muna eftir, snjóaléttur og veðurhægur, en af og til nokkuð frostharður. Vorið hefur einnig verið mjög blítt, og er gróður orðinn góður bæði á túnum og útengi, og hér um bil eins góður eins og í 12. viku sumars í fyrra. Hér um svæði aflaðist nokkuð af útsæ í vor, og kom það öllum í góðar þarfir, því kaupstaðir urðu á þrotum í góulok, svo það leit hér út fyrir mestu vandræði og bjargarskort, hefði ekki fiskast.

Júní. Úrkomusöm og óróleg tíð um landið sunnanvert, sérstaklega fyrri hluta mánaðarins, en samt nokkuð hlý tíð og almennt ekki talin óhagstæð í heildina. 

Þjóðólfur segir af Skeiðarárhlaupi og fleiru í frétt þann 26.júní:

[Þann] 24. [maí] fannst her syðra megn jökul- og brennisteinsfýla og stóð vindur hér af austri, en miklu megnari var þó fýlan austur um Síðu og Meðalland, og var þar tekið eftir því, að silfur allt tók kolsvartan lit, hversu vel sem það var vafið og geymt í traföskjum og kistum. Sáust þá, um Meðalland og Álftaver, reykjarmekkir upp úr Hnappafells- eða Öræfajökli, og þó eigi marga daga þar eftir. Þennan dag hljóp Skeiðará, og hefir hún nú eigi hlaupið um næstliðin 10 ár, en er þó tíðast, að hún láti eigi nema 6 ár milli hlaupa og stundum eigi nema 5, ræðst því að líkindum að hlaup þetta hafi orðið afarmikið; enda sjást og nú meiri merki þess heldur en vant er, því víða vestur með sjó er rekinn birkiviður hrönnum saman, og er það sjálfsagt eftir hlaupið og virðist hafa farið yfir Skaftafellsskóga neðanverða. Þá eru og hrannir með sjó af hvítum vikur, en þess hafa aldrei sést merki fyrr eftir hlaup úr Skeiðará, en aftur eru þykk lög af þeim vikur víða í Öræfasveit, eftir hin fyrri stórhlaup úr Hnappafellsjökli er þar hafa svo mjög byggðum eytt og graslendi; því ræður að líkindum, að hlaup hafi nú einnig komið úr jöklinum sjálfum, en áreiðanlegar fregnir skortir um allt þetta þar sem engar ferðir hafa getað orðið austan yfir Skeiðarársand til þessa, og tvísýnt, að hann verði fær fram eftir sumri.

Árferði. — Vorblíðan hefir verið stöðug og einstaklega góð yfir allt land allan maí og júnímánuð; framan af þessum mánuði [júní] var samt víða hér syðra i fjallasveitum bæði kalsasamt og fjarska rigningasamt, svo að mold i görðum hljóp sumstaðar í harðar hellur, og talið víst að það spilli kálvexti og jarðepla. En fénaðarhöld eru allstaðar einstaklega góð, voru kvíær alrúnar 7 vikur af sumri víða í Skaftafellssýslu, og þykir það dæmafátt. Grasvöxtur horfir allstaðar ágætlega við, einkum á túnum og öllu valllendi.

Íslendingur segir af tíð og afla þann 1.júlí:

Tíðarfar var um hríð heldur stirt og stormasamt, oft með krapaéljum af útsuðri, líkast því, sem ís mundi á hrakningi skammt undan landi í útnorðurhafinu; var þá því fremur gæftalítið á sjóinn og gróðurlítið til sveita. Nú hinn síðasta hálfan mánuð hefur veður verið allblítt. Svo má kalla, að sæmilega hafi fiskast hér á Innnesjum í vor, en mestallt er það ýsa og heldur smá, og þar eð þorskaflinn brást svo algjörlega á vertíðinni, eins og nú varð reyndin á, þá vita allir, sem til þekkja, að þar með var máttarstoðinni kippt undan bjargræði manna hér umhverfis Faxaflóa, enda hefur verið og er mikið harðrétti og horfir til hallæris hér við sjóinn, nema hjálp, og hún talsverð, komi úr einhverri átt. Syðra hefur voraflinn verið miklu minni en hér inn frá. Skepnuhöld til sveita eru sögð góð, en fjárfæðin gjörir samt mörgum ærið þröngt í búi. 

Júlí. Hagstæð tíð syðra, en nyrðra var kvartað um rigningar og erfiðleika. 

Íslendingur segir þann 12.ágúst:

Allan síðari hluta júlímánaðar og allt til þessa dags hefur veðurátt hér syðra verið með besta móti, og hagstæð að því, er heyskapinn snertir, sem allstaðar byrjaði með fyrsta móti, því grasvöxtur var í góðu lagi. Margir eru hér búnir að alhirða tún sín og hafa fengið töður óhraktar. Fyrir vestan höfum vér og frétt að heyannir gengju vel, og sumstaðar væru þar alhirt tún. Því er miður, að votviðrasamt mun hafa verið það sem af er slættinum nyrðra, og ef til vill í Strandasýslu, og heyrt höfum vér að hafís liggi fyrir landi, norður af Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, en víst var ekki ís fyrir Húsavík eður Langanesi fyrir skemmstu, því skip hafði fyrir ekki löngu komið af Húsavík til Vopnafjarðar, og ekki orðið vart við ísinn; höfum vér það eftir skipi Fischers kaupmanns, sem er nýkomið austan um land af Vopnafirði, en um vætur og óþerri mikinn getur það úr Múlasýslum, og líku hefur viðrað allar götur vestur eftir Skaftafellssýslum.

Ágúst. Kalt var í ágúst og kom það einkum niður á norðlendingum. Smám saman horfði þó til betri vegar þar um slóðir. Syðra var þurrviðrasamt. 

Norðri ræðir slaka sumartíð á Norðurlandi í pistli 31.ágúst:

[T]íðarfarið, sem var hið ákjósanlegasta allt vorið, breyttist með sláttarbyrjun til rigninga og óþurrka, er gengu hér um norðursveitir, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur, langt fram í ágúst. Töður hröktust því allvíða til stórra muna, og að líkindum meira norður um og eystra, en hér í Eyjafirði, þó hér væri einnig mikil brögð að því. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum hafa þessir óþurrkar verið miklum mun minni, og víðast hvar engar verulegar skemmdir orðið á töðum. Allt annað er að segja um Vesturland og Suðurland, að því er vér höfum frétt. Fyrir sunnan vitum vér það af eigin raun, að þar var hið yndislegasta veður svo að kalla dag út og dag inn allt sumarið, og hey hirtust þar rétt að segja af ljánum. Að vestan höfum vér líka úr öllum sveitum frétt viðlíka ársæld og af Suðurlandi, og vér ætlum, að nýting á útheyjum hafi bæði vestra og syðra orðið með besta móti. Það hefir nú bætt nokkuð úr að ætlun vorri hér á Norðurlandi, að seinni hluti ágústmánaðar og fyrri hluti september hafa verið svo góðir, að úthey hafa eflaust sumstaðar fengist með góðri hirðingu að miklum hluta. Aflabrögðin hafa nú verið eins misjöfn, fyrir sunnan hefir afli verið fremur lítill, þó að vorýsuaflinn væri allgóður, þá mun þó æði þröngt í búi hjá sjómönnum þar syðra. Hér hefir verið allmikill afli á Eyjafirði lengst af í sumar og hákarlsaflinn eins góður og út leit fyrir.

Íslendingur segir þann 10.september:

Tíðarfar hefur verið ágætt allt fram á þenna dag og heyannir gengið að óskum, heyin hér syðra eru allstaðar afbragðs góð og sumstaðar, einkum fyrir austan fjall, í mesta lagi. Fiskiafli er við og við nokkur, og hefur nú um stund helst aflast nokkuð af háfi og stútungi.

September þótti hagstæður, og hiti var ekki fjarri langtímameðaltölum. Mjög þurrt var vestanlands. 

Þjóðólfur segir af árferði og aflabrögðum þann 27.september:

Úr öllum héruðum landsins eru nú ferðir hingað um þetta leyti, og berast áreiðanlegar fregnir, og eru þær allar hinar bestu af einstakri og stöðugri veðurblíðu, góðum heyafla, góðum fjárhöldum og almennri vellíðan manna. Um Þingeyjar- og Múlasýslur var að vísu eigi jafnþerrissamt um miðbik sláttarins, eins og hér syðra, og töður rýrnuðu þar nokkuð sumstaðar, en urðu þó óskemmdar; en allstaðar annarstaðar hefir verið hin einstakasta heyaflatíð gjörvallt þetta sumar, og nýting; tún voru allstaðar í góðu meðalangi að grasvexti, og sumstaðar í besta lagi, t.d. víðast vestanlands; velli og vallendi einnig í betra lagi, og eins votlendar mýrar og neðarlega í byggðum; aftur hafa mýrar á hálendi og til fjalla reynst næsta snöggar, en þó að svo sé, og velli hafi verið mjög harðslægt og seinunnið, þá hefir heyskapurinn allstaðar um land orðið hinn besti þó að hann sé ekki sumstaðar meir en í meðallagi að vöxtum. — Fiskiafli og háfsafli hefir verið allgóður hér í sumar um Innnes og á Vatnsleysuströnd, og besti afli nú um sláttinn á Skagaströnd og beggja megin Skaga fyrir norðan.

Íslendingur birti þann 30.september alllangan pistil um tíð og slysfarir:

Nú vill svo til, að allstaðar má kalla að sé gott að frétta. Tíðin hefur því nær um allt land verið góð í sumar. Það var aðeins framan af slætti nokkuð votviðrasamt norður í Eyjafirði og þar fyrir austan, svo töður höfðu hrakist, helst fyrir þeim, sem fyrstir byrjuðu að slá, en seinni hluti sláttar vitum vér eigi betur en allstaðar hafi verið góður, og þegar yfir allt land er litið, má fullyrða, að sumarið hafi verið gott, og einkum má segja að um allt Suður- og Vesturland hafi heyafli orðið góður, og einkum nýting afbragðsgóð; en margir geta þess, að heldur hafi grasbrestur á útjörð verið tilfinnanlegur. En hvað um það, hitt er fyrir mestu, að heyin séu góð, minna er í hitt varið, að þau séu mikil að vöxtum, en lítil að gæðum. Það er annars eftirtektavert, svo blítt og gott sem sumarið hefur verið að minnsta kosti hér syðra, hvað lítið grasið hefur verið á allri útjörð, engjum og búfjárhögum, síðan snemma í sumar, og hve snemma gras fór að falla, og það enda á vallendi og til fjalla, að því er skilvísir menn hafa sagt oss. Sjávarafli hefur verið, eins og áður er sagt í blaði voru, heldur lítill hér syðra, en þeir fáu, sem stundað hafa hákarlaveiði, hafa heldur vel aflað, og í hinum öðrum landsfjórðungum er sagt að hákarlsaflinn hafi vel heppnast; þannig segir sagan, að þiljubátar Eyfirðinga hafi til samans fengið yfir 2000 tunnur lifrar; þilskip Ísfirðinga sum um og yfir 200 tunnur, og þilskip á Djúpavogi um 300 tunnur. Verslun hefur allstaðar í sumar verið hagfelld landsmönnum.

Skipskaðar stórir og smáir. Vestur á Bíldudal við Arnarfjörð slitnaði upp kaupskip í fyrra mánuði [ágúst], rak á land og brotnaði svo, að allt varð að selja, bæði skip og vöru, en menn komust allir af. Kaupmaðurinn heitir Ólsen, er skipið átti. Annað kaupskip rak á land í Skeljavík við Steingrímsfjörð í Strandasýslu og brotnaði lítið eitt; þó er sagt, að það megi verða sjófært aftur, en annað skip tók vöruna og flytur utan. Knudtzon stórkaupmaður átti þau skip bæði. Hið þriðja skipið rak í land á Akureyri nyrðra; það kvað lítið eða ekkert hafa skemmst; það flutti vöru fyrir Henderson kaupmann. Bátur fórst í sumar á Breiðafirði, á leiðinni ofan af Barðaströnd fram í Sauðeyjar, og drukknuðu allir, er á voru, 4 að tölu. Norður við Blönduós í Húnavatnssýslu drukknuðu og 3 menn í fiskiróðri, og rak alla dauða til lands.

Október. Tíð var almennt talin hagstæð, þrátt fyrir nokkur skakviðri. 

Norðri segir þann 15.október:

Með austanpósti bárust góðar fréttir að austan um veðráttufar, eins og allstaðar hefir verið hér um seinni part sumarsins. Skrifar bréfskiptavinur vor einn af Héraði, að sumarið hafi orðið þegar á allt er litið notalegt og þó votviðrakaflinn framan af slætti gjörði mönnum heyskapinn erfiðan, þá hafi engir stórskaðar af því orðið, heldur hafi miklu heldur harðvelli batnað við það, sem annars hefði orðið í lakara lagi vaxið, svo engjar hafi að öllu samantöldu orðið í besta meðallagi, enda hafi þar allvel heyjast hjá flestum. Eftir því sem vér höfum síðar fengið fregnir úr Þingeyjarsýslu ætlum vér og að víðast hvar hafi orðið betra úr með hirðingu á heyjum en vér höfum áður frá skýrt, svo að skemmdir og hrakningar á töðum hafi þó hvergi orðið meiri en sumstaðar hér í Eyjafjarðarsýslu.

Íslendingur segir þann 19.október:

Í ofsaveðri af útsuðri 2.[október], sleit upp kaupskip á ytri legunni á Eyrarbakka, nýkomið þangað með kornfarm. Mátti þó kalla lán með óláni, að allt kornið, sem þangað átti að fara, var komið á land, en í skipinu fórust hátt á annað hundrað tunnur korns, sem ætlaðar voru Levinsens verslun í Hafnarfirði, og auk þess frek 70 skpd. af saltfiski, sem búið var að flytja út í skipið. Brotnaði það stórkostlega þar á skerjunum, og allt var selt á uppboðsþingi, skipskrokkurinn og vörur þær, sem í því voru; er mælt, að fengist hafi um 2000 rd. fyrir hvorttveggja. Menn komust allir af. Er þetta víst hið [fjórða] skip, sem farist hefur þar nú á hinum síðustu 15 árum. — Tíðarfar má heita gott, fremur þó umhleypingasamt og úrfelli nokkurt. Fiskiafli allgóður á Seltjarnarnesi 18. og 19. þ.m., en tregt til þess.

Nóvember var óvenjukaldur og tíð óhagstæð. 

Íslendingur segir þann 12.nóvember:

Nýkomnir eru hingað bæði norðan- og vestanpóstur, og segja góða haustveðráttu allstaðar að, og að öðru leyti engin sérleg tíðindi. Austan úr Skaftafellssýslu höfum vér einnig nýfrétt allt hið sama, og má með sanni segja, að sumarið, sem nú er úr garði gengið, hafi eigi orðið endasleppt, heldur verið eitthvert hið besta og blíðasta, sem lengi hefur komið yfir þetta land. Veðurátt er um þessar mundir ærið stormasöm, oftar við norður, og er mikið mein að því, þar sem menn mundi að öðrum kosti fiska vel í flestum eða öllum veiðistöðum hér við Faxaflóa, því sjómenn vorir segja talsverðan fisk fyrir landi. Hafa menn brotist á sjóinn með mesta harðfylgi undanfarna daga, sumir aflað allvel, sumir miður, en legið við hrakningum og tjóni.

Norðri segir frá þann 15.nóvember:

Veturinn er nú hér um svæði alvarlega genginn í garð fyrir miðju þessa mánaðar, og æði mikill snjór kominn, svo færð er ill hér kringum kaupstaðinn bæði fyrir utan og sunnan, en minni snjór eins og vant er fram um fjörð. Eyjafjarðará er þegar lögð og sjórinn út á miðja höfn. Riggskipið William, sem var albúið héðan snemma í mánuðinum, hefir legið hér innifrosið nokkra daga og er nú verið að ísa það út. Engar fréttir höfum vér nýlega fengið lengra að, enda koma hér engir langferðamenn um þetta leyti.

Norðri segir þann 30.nóvember:

Pósturinn er ekki kominn og allir geta nærri, hve miklar fréttir vér getum skrifað núna í 18 mælistiga frosti (26. nóvember), ...

Íslendingur segir þann 4.desember:

[Hér] hafa gengið einlægir norðanvindar, þangað til í fyrrinótt (2.desember), að veður breyttist við tunglkomuna, og gekk til landsuðurs með fjúki og síðan rigningu og stormi. Frostharkan hefur verið mikil, og það svo, að eigi vita menn dæmi til, undir 50 ár, að Skerjafjörður hafi verið genginn frá Skildinganesi yfir í Bessastaðanes í nóvembermánuði, enda er sagt, að frostið hafi nú náð 15°C., en eigi vitum vér, hvort satt er. 

Þjóðólfur segir þann 11.desember:

Norðanveðursíhlaupið í seinni hluta [nóvember] varð eitthvert hið harðasta, sem komið hefir hér um mörg ár um þennan tíma árs; frostið varð hér í Reykjavík 13°R [-16,3°C], mest; — hagar héldust samt allstaðar hér sunnanfjalls. — Afli hefir hér engi verið af sjó neinstaðar síðan um miðjan fyrri mánuð, gæftalaust oftast síðan, en fiskilaust hér um öll nesin fyrir næstliðna helgi.

Þjóðólfur segir frekari fréttir af frostum þann 21.desember:

Íhlaupið í fyrra mánuði [nóvember] hefir orðið næsta hart víðast um land, og sumstaðar með talsverðri fannkomu, — en þó hvergi tekið fyrir haga, — t.d. ofantil í Borgarfirði, í Þingeyjarsýslu og Snæfellsnessýslu; þar féll snjóflóð í bæinn að Fagrahlíð (hjáleigu frá Mávahlíð í Neshrepp innri), urðu 3 menn undir flóðinu, bóndinn og 2 menn aðrir, annar þeirra gat grafið sig úr fönninni og leitað hinum bjargar, og náðust þeir báðir og lítt skaðaðir; þar varð og undir meiri hluti fjárins, og var búið að grafa upp 10—20 kindur með lífi, er síðast spurðist; en allur þessi viðburður þarf nákvæmari skýringar, en hann var nýafgenginn, þá er ferðin féll, og eigi skrifað um hana þar úr sveit, heldur fjær. Frostið varð eitt hið harðasta hér víðsvegar um Suðurland, um þann tíma árs: 15° á Rangárvöllum ofarlega, 13° neðantil í Hvolhrepp, 21° á Gilsbakka í Hvítársíðu. Norðri skýrir eigi frá frosthæð þar nyrðra, en getur þess, að höfnina á Akureyri hafi lagt út til miðs, og haft orðið að ísa út kaupskip, er þá var þar ferðbúið (um miðjan f.mán.). — 21. [nóvember] varð ungur maður úti í byl á leið til Grindavík inn í Garð; ... Fyrir og um næstliðna helgi var besti afli suður í Garði mest af þyrsklingi og stútungi; fjöldi af Innnesjamönnum hafa sókt þangað mikla og góða björg.

Desember: Hlýrra var í veðri, en úrkomusamt var um landið vestanvert. 

Þann 15.nóvember 1860 (árið áður en hér er til umfjöllunar) birti Jón Hjaltalín ritstjóri spurningalista um hafís í blaði sínu Íslendingi. Nokkur svör bárust og eru þau prentuð í blaðinu. Við birtum spurningarnar sjálfar þegar fjallað verður um árið 1860, en tvö svör voru birt á árinu 1861 og fara þau hér á eftir, annað úr Strandasýslu, en hitt úr Höfðahverfi við Eyjafjörð. 

Íslendingur 10.5. 1861 

Svar við hafísspurningum Jóns Hjaltalín: Frá séra Sv. Eyjólfssyni á Árnesi í Strandasýslu til jústisráðs Jóns Hjaltalíns, dagsett 21. janúar 1861.

Af því ég ímynda mér, að fáir, eða máske enginn, verði til þess hér á Ströndunum, að svara yður upp á þær spurningar, er þér hafið látið prenta í 17. blaði Íslendings, álít ég mér skylt, að reyna til að svara spurningum þessum að því leyti, sem ég get. Ég hef nú borið mig saman við gamla menn hér í sókninni um hafísinn og verkanir hans, og kemur það að mestu leyti saman við það, sem ég hef sjálfur tekið eftir í þau 12 ár, sem ég þegar hef verið hér á Ströndunum; að öðru leyti skal ég aðeins skýra frá því um hafísinn og verkanir hans, sem ég veit með vissu, en sleppa þá heldur hinu, sem ég er í nokkrum efa um. Ég tek þá
spurningarnar í röð, eftir því sem þær eru prentaðar.

1. Spurningu þessari get ég ekki svarað með neinni vissu, en eftir því, sem gamla menn rekur hér frekast minni til, þá mun mega fullyrða, að hafís hafi rekið hér að landi 42 sinnum á þeim 60 árum, sem liðin eru af þessari öld, eða að hafís reki hér inn að jöfnuði 7 ár af hverjum 10 árum, og síðan ég kom hingað, vorið 1849, hefur hafís rekið hér að landi í 10 árin, stundum meir, en stundum minna.

2. Áður en hafísrekið byrjar, er veðurátta hér ætíð mjög óstöðug og umhleypingasöm; ýmist eru þá útsynningsbleytur og blotar eða norðankafaldshríðir, en af hverri átt sem vindurinn er, stendur það sjaldan nema eitt dægur í senn; slettir þá oft mjög fljótt í logn, en hvessir aftur eins fljótt af annarri átt.

3. Hafísinn rekur jafnaðarlega fljótt hér inn, með norðanstormum og miklum kafaldshríðum, en þó ber það stundum við, að straumar bera ísinn hér að landi i logni, þó ekki hafi sést til hans áður, og hefur þetta tvisvar viljað til, síðan ég kom hingað; annars er enginn efi á því, að straumar ráða ferð íssins, og flýta henni, en vindar alls ekki, því ég hef oft séð ísinn berast með allmiklum hraða móti vindi, og það þó stormur hafi verið, sem sýnast hefði mátt seinka ferð hans; eins er því varið, þegar ísinn fer, að þá eru það straumar, sem flýta ferð hans í burtu, og fer hann stundum svo fljótt í burtu, að ótrúlegt þykir; stundum ber það við, að þó ísinn sé orðinn samfrosta, og nái 4 til 5 vikur sjávar [4 til 5 stunda siglingu, gætum giskað á 30 til 40 km] út frá landinu, og hver vík og fjörður fullur af ís, þá sprengja straumar ísinn hastarlega allan í sundur, og hverfur svo ísinn með þvílíkum hraða, að eftir 1 eða mest 2 dægur sést ekki jaki, svo langt sem augað eygir; þetta skeður þá annaðhvort í logni og þoku, eða þá með sunnanblota; þegar hafísinn hverfur svona fljótt, segja gamlir menn hér, að hann sökkvi allur, en reyndar eru það ekki annað en straumar, sem þannig flýta ferð hans, enda hef ég séð stóra hafísjaka berast hér inn í Húnaflóa i logni, með þvílíkum hraða, sem þá kaupskip sigla í allgóðum byr.

Framhald í Íslending 28.5. 1861
4. Hafísinn kemur hér oftast nær úr norðvestri, þó ber það við, að hann kemur hér að Ströndunum úr austnorðri, og segja menn þá, að ísinn komi austan fyrir; þegar ís kemur þannig hér að landi, eru það ætíð hafþök, svo ekki sér út yfir, og mun standa þannig á því, eftir því sem menn halda hér, að ísinn reki lengra frá landi frá vestri til austurs, en svo komi straumbreytingar, sem hjálpi stormum til að reka hann að landi.

5. Flatur ís og borgarís eru, að öllum jafnaði, ekki samfara, heldur oftast nær hvor fyrir sig, það er að segja: sum árin kemur borgarís því nær eingöngu, en aftur sum árin flatur ís, þó er það alltítt, að borgarisjakar miklir eru innan um hinn flata ís, einkum þá mikil ísalög eru, og ekki minnist ég þess, að ég hafi séð hér svo flatan is, að ekki hafi verið innan um hann mjög stórir borgarísjakar hingað og þangað; borgarís kemur hér yfir höfuð oftar en flatur ís.

6. Þegar ísinn kemur að landi seint á vetrum, þá koma ætíð hvalir á undan honum inn á firði og víkur; en komi hann þar á móti að landi á gói og þorra, og fyrr á vetrinum, þá mun það vera mjög sjaldgæft, að hvalir komi á undan ísnum; af þessu eru líka komin hin gömlu máltæki hér á Ströndum: „Oft eru æti í einmánaðarís“, og „sjaldan er gagn að góuís“; því þá eru ekki hvalir eða þess kyns æti með ísnum, en miklu heldur með þeim ís, sem kemur að landi á einmánuði og seinna; það mun reynast svo, að meira sé hér af hvölum fyrir landi í ísaárum, heldur en þá ekki hafa komið ísar vetrinum áður; þegar íshroði rekur hér inn seint á vetrum eða á vorin, þá kemur einatt mikið af hvölum með honum, en þeir fara þá aftur með ísnum, þegar hann fer, um stund, en koma þá aftur upp að landi undir og um mitt sumarið; annars hef ég séð hér merki til þess, að hvölum mun vera mjög gjarnt að halda sér við ísinn, þegar hann er ekki mjög mikill, því ég hef tekið eftir því, að þegar landfastur hafís fyllir vikur allar og flóa út fyrir ystu nes, þá er einatt mikið af hvölum með ísnum að framanverðu, og það lengi, þegar íslaust er þá fyrir framan.

7. Það fer ekki nærri því ætíð eftir vöxtum íssins, hvað lengi hann liggur við landið, því oft ber það við, að hafíshroði liggur mjög lengi, einkum þegar hann rekur inn seint á vetrum eða á vorin; þó er það almenn trú manna hér, að þegar mikill ís rekur að landi, og liggi hann þá landfastur í 3 nætur, þá muni hann að minnsta kosti liggja í 3 vikur, og liggi hann í 3 vikur, þá muni hann liggja mjög lengi, ef straumar ekki fara að hreyfa honum, þegar 3 vikur eru liðnar; þetta segja menn hér að reynslan sanni; það eru allajafna vissir straumar, sem færa ísinn í burtu, eins og ég að nokkru leyti hef getið um, undir nr.3. þá vil ég einnig geta þess hér, að þegar hafís rekur hér inn til muna, þá gjörir hann ætíð 3 rek á ísinn, áður hann er að fullu landfastur; þetta staðfestir reynslan fullkomlega; ég hef getið þess áður, að hafís reki hér jafnaðarlega að landi með norðanstormum og kafaldshríðum, en fyrst kemur aðeins íshroði að öllum jafnaði, og eftir fáa daga kemur aftur norðanstormur, sem rekur meiri ís að landi, en er þá oft hægur útsynningur eða logn þess á millum, og eftir þriðja norðanstorminn er ísinn fullrekinn, og koma þá oft langvinnar kyrrur og logn og heiðbjart veður á eftir, sem einatt vara í 14 til 20 daga.

8. Hafísinn rekur hér oftast fyrr að landi við Hornbjarg; þó mun það bera til, að hann reki fyrst upp að Aðalvík, þegar mikill ís er í vesturhafinu.

9. Hafísinn kemur oft og einatt austur fyrir Horn og inn í Húnaflóa, þó ekki sjáist hafþök af honum fyrir vestan, en vel getur það skeð, og er enda mjög líklegt, að mikill ís sé þá að öllum jafnaði í norðvesturhafinu, því sjáist mikill ís i vestur-útnorður undan Aðalvík, bregst það sjaldan eða ef til vill aldrei, að hann komi þá talsverður hingað austur fyrir Horn og inn á Húnaflóa með Ströndunum.

13. (10., 11., 12. kemur mér ekki við að svara). [Þessum spurningum var sérstaklega beint til íbúa Austurlands] Hvorki ég né aðrir hér hafa tekið eftir breytingum á norðurljósum, meðan hafísinn er landfastur, en ég mun nú fara að gjöra það, ef ég lifi hér; þó skal ég leyfa mér að geta þess, að eftir því, sem mig frekast rekur minni til, þá munu norðurljós yfirhöfuð vera miklum mun óskýrari, daufari og daprari, þegar ísar liggja hér við land að nokkrum mun, en ég þori þó ekki að fullyrða þetta sem öldungis áreiðanlegt.

14. Það er alls enginn efl á því, að miklu meiri kuldi merkist í sjónum, þegar hafísinn er við land, en ella, og taka menn hér almennt mark á því, að þegar mikill sjóarkuldi er, þá sé talsverður hafís mjög nálægt; þetta virðist reynslan að staðfesta; ég hef tekið eftir því, að þegar hafís liggur talsverður á hafinu hér norður og útnorður undan, máske 1 viku [7 til 9 km] undan Horni, en 3—4 vikur héðan, þá er eftir því meiri móður á fjörum, sem norðar er, eða nær Horni, eða eftir því kaldara í sjónum, sem nær er hafísnum.

15. Sudda- og vætusumur standa efalaust af hafísnum, þegar hann er á hafinu, og ekki mjög nálægt landi; en sé hann hér mjög nálægt landi á sumrum, sem mjög sjaldan vill til, þá standa fremur af honum kuldar, næðingar og gróðurleysi, en miklir suddar og vætur.

16. Menn hafa hér enn almennt trú á því, að „sjaldan sé mein að miðsvetrarís“, og kemur máltæki þetta af því, að þegar hafís rekur að landi um miðjan vetur, þá fer hann allajafna aftur svo snemma í burt að vorinu, að hann gjörir þá ekkert mein, enda er þá oft hlý veðurátta og góð, þegar hann fer snemma í burtu; en því seinna að vetrinum sem hafísinn rekur hér að landi, því meira mein gjörir hann oftast, því þá liggur hann einatt fram á sumar, og vita menn þá lítið að segja af vori eða hlýindum. Það er mjög óyndislegt að búa hér, þegar hafís rekur hér að landi um og eftir sumarmál, eins og tvisvar hefur viljað til, síðan ég kom hingað; þá liggur hann einatt landfastur fram yfir fardaga (á næstliðnu vori lá hafísinn hér landfastur til þess í 8.viku sumars [seint í júní]), og er þá jafnast með öllu haglaust fyrir skepnur, og snjór og klaki yfir allt, og miklir kuldar með næturfrostum, en allgott veður á daginn.

17. Þessari spurningu get ég ekki svarað með neinni vissu, og fer því sem fæstum orðum um hana; einungis skal ég geta þess, að þegar hafís liggur hér við land á vorin, ber oft mikið á hafíslús svo kallaðri í unglömbum, og óþrifakláða venju fremur í fullorðnu fé, og stundum hafíslús, en þó er þetta ekki svo mjög, að bagi hljótist af því, enda baða menn þá unglömbin, þegar hafíslús sést í þeim.

18. Þegar tré rekur í hafís, þá eru það einungis sívöl tré; það ber mjög sjaldan við, að köntuð tré finnist í hafís, þó þess hafi gefist einstök dæmi, og ekki veit ég til, að hér nálægt hafi rekið kantað tré í hafís, síðan ég kom hingað, nema alls eitt tré.

19. Þau sumur munu jafnaðarlegast vera hér góð, og að minnsta kosti miklu hlýjari, þegar enginn hafís hefur komið eða sést veturinn eða vorið áður.

20. Eftir því, sem gamlir menn segja hér, mun það vera nokkurn veginn almennt reynsla hér, að eftir mörg ísaár í samfellu komi gott árferði.

Þannig hef ég þá stuttlega svarað spurningum yðar, og vil ég nú því næst minnast litið eitt á straumana hér fyrir Ströndunum; þeir skiptast ekki með aðfalli og útfalli sjávar, eins og þar sem réttstreymt er, sem menn svo kalla, og ekki skiptast hér straumar með aðfalli og útfalli, fyrr en kemur norðvestur fyrir Horn, heldur liggur hér straumurinn allajafna í suður með Ströndunum inn í Húnaflóa, og hér skiptir aldrei föllum; svo segja sjómenn, að 6 vikur í austnorður undan Geirhólmi liggi straumurinn ávallt til suðurs inn í Húnaflóa, og eins liggur hann hér inn með öllum Ströndunum, vissulega 2 til 3 vikur sjóar frá landi út; þar á móti liggur straumurinn ávallt í norður út með Skagaströndinni, þess vegna rekur hafís sjaldan þar að landi, nema mestu hafþök séu af honum, en aftur á móti rekur hann svo hæglega hér að Ströndunum, því straumurinn ber hann, og vissulega eru það allajafna vissar straumbreytingar, sem flýta ferð íssins héðan í burtu, þegar hann hefur um stund legið við land; ég hef líka tekið eftir því, að nokkru áður en ísinn fer burtu, þegar ekki eru mjög mikil hafþök, þá reiða straumar hann með hægð hér norður með Ströndunum í einn eður tvo daga, rétt áður en hann fer algjörlega; en strax og auður sjór verður hér, liggur þó straumurinn allajafna til suðurs. Þegar mikill hafís er kominn nálægt, er oft straumhægra með köflum en ella; svo segja sjómenn hér, að þegar viti á langvinna vestanátt, þá liggi straumurinn meira til suðausturs, en þegar hann viti á norðan, þá liggi straumurinn aftur meira til suðvesturs, en vanalegt sé, eða að hann liggi þá fremur að landinu; breyting þessi er oftast ekki mikil, en er þó til þess, að flýta ferð hafíssins hér að Ströndunum, þegar norðanstormar reka hann að landi. Ég gat þess, að hér væri ekki réttstreymt; ég hafði vanist því fyrir sunnan, að um stærstan straum, eða með nýju tungli og fyllingu, væri ávallt flóð kl.6, og fjara kl.12, en þessu er hér ekki þannig háttað, heldur er hér með stærstum straum fjara kl.3 til 4, og flóð kl. 9 til 10; ég ímynda mér, að þetta komi af straumunum, því eins er þessu varið á sumrin, þegar enginn hafís sést. Það er almenn sögn manna hér, að um höfuðdag á sumrin liggi straumur meira frá landinu, sem reki ísinn langt í burtu, sé hann ekki kominn það áður; og svo segja menn, að hér sé lökust veðuráttan, þegar hafís sé fyrir austurlandinu, og mun það vera almenn reynsla, að svo sé.

Ég fer þá ekki hér um fleiri orðum í þetta sinn, en bið yður að virða mér á betri veg tilraun mína með að svara spurningum þeim, er þér létuð prenta í Íslendingi; ég veit, að margir eru færari til að svara þeim en ég, en ég hélt, að hér mundu fáir eða enginn verða til þess; blaðið barst mér líka svo seint, að ég gat ekki borið mig saman við alla þá hér í sókn minni, sem ég vildi kosið hafa; ef þér vilduð láta svo lítið, að spyrja mig um eitthvað, sem veðuráttu snertir eða hafís, mundi ég fúslega svara því, eftir því sem ég hefði vit á. Nú í dag er hér allmikið frost, rúmar 9° eftir Reaumurs mæli.

Þann 28.desember birti Íslendingur var Einars Ásmundssonar í Nesi í Höfðahverfi við spurningum Jóns Hjaltalín. Svarið er dagsett 7.október 1861:

Vilji menn fá skýra og nokkurn veginn yfirgripsmikla hugmynd um það, hvernig ísinn almennt rekur að og frá landi, þá verða menn fyrst að þekkja hér um bil aðalstefnu hafstraumanna kring um það. Ég er nú því miður of ófróður um þetta, og veit einungis, að hér fyrir Norðurlandi er töluverður straumur vestan fyrir Hornstrandir, og svo með flötu landi austur fyrir Langanes, en beygist þar suður með Austurlandinu og verður þar enn þá stríðari, heldur en hér er fyrir norðan, (en ef til vill mjórri). Fyrir sunnan og vestan veit ég ekki hvernig straumum hagar til, en ég ímynda mér, að einhver grein af flóastraumnum (the gulfstream) liggi vestanhallt sunnan að Íslandi og kljúfi sig um það, svo að fyrir Vesturlandi liggi straumurinn norður með landinu, og framhald af honum sé straumur sá, sem ég nefndi fyrir norðan og austan. Aftur gjöri ég ráð fyrir, að meginhluti flóastraumsins slái sér austur með landinu að sunnan og komi til vegar sunnanstraumi í hafinu milli Íslands og Noregs, en að af þessu leiði austanstraum norður í íshafinu, og norðurstraum suður með austurströnd Grænlands. Í stuttu máli: Ég ímynda mér, að kring um strendur íslands liggi fremur mjór hafstraumur eða hringsvif sólarsinnis, en að aftur sé í höfunum fjær landinu meginstraumur í öfuga stefnu, eða rangsælis. En hvort sem nú nokkuð er hæft í þessari getgátu minni eða ekki, þá mun það ætíð reynast mjög merkilegt atriði í veðurfræði Íslands, að þekkja nákvæmlega hafstraumana, því auk þess, sem þeir hafa yfirgnæfandi áhrif á hafísinn, sem öllum er kunnugt hversu mikið gjörir að verkum, til að spilla veðuráttufari á landi voru, þá hafa þeir líka í sjálfu sér beinlínis áhrif á loftslagið; þannig vita menn t.a.m. að einhver hin helsta orsök til þess, að loftslagið í Noregi er svo milt, í samanburði við önnur lönd á sömu breidd, er einmitt flóastraumurinn, sem liggur að landinu, og um straum þennan segir A. v. Humboldt, að menn verði að leita eftir upptökum hans og undirrót fyrir sunnan Góðrarvonarhöfða, þó hann fái ekki nafn sitt fyrri en hann kemur út úr Mexíkóflóanum (the gulf of Mexico) um Bahamasundið. Ég get þessa sem dæmis upp á það, að menn mega ekki vera of nærsýnir, þegar leita skal upp orsakir til veðuráttufarsins. Ég skal nú leitast við að svara með fám orðum því, sem ég get svarað af spurningunum í Íslendingi:

1. Hvað oft hafís hafi komið að Norðurlandi á þessari öld, get ég ekki í fljótu bragði komist eftir, en þetta má víst auðveldlega finna í ýmsum ritum, t.a.m. fyrir hin fyrstu 15 ár af öldinni í Tíðavísum séra Þórarins í Múla, síðan um nokkur ár í Klausturpóstinum, o.s.frv. Ég veit annars, að hér eru til gamlir menn, sem hafa haldið dagbækur í fjölda mörg ár, og mætti finna mikið í þeim um þetta efni, ef tíminn leyfði, en mörgum þykir líklegt, að ísaárin muni hafa verið nær tvöfalt fleiri en hin íslausu hér norðanlands.

2. Mikil reynsla þykir hér vera fyrir því, að ísinn reki trautt að Norðurlandi, svo miklu nemi, án þess vestan eða norðvestan átt hafi áður gengið um hríð á
þeim vetri.

3. Sannreynt er það, að bæði stormar og straumar ráða ferð íssins, og veitir ýmsum betur, eftir því hver öflugri er, en að jafnaði ráða straumarnir meiru, því bæði er miklu meiri hluti ísjakanna niðri í sjónum, og svo eru líka straumarnir stöðugri en vindarnir; það er því ýmist, að ísinn rekur fyrir straumi móti vindi, eða undan hvössum stormi móti straumnum, ef hann er ekki mikill, en í báðum þessum tilfellum rekur ísinn dræmt; leggist aftur stormur og straumur á eitt að reka ísinn, þá miðar honum furðanlega fljótt áfram. Það segir sig sjálft, að sé straumurinn vestan, en stormurinn norðan, þá rekur ísinn til norðausturs, meira eða minna skáhallt eftir því, hvort aflið er sterkara.

4. Og með því svona stendur oftast á, þegar ísinn rekur hér að á vetrum, þá er algengast, að hann komi úr norðvestri.

5. Ís sá, sem hér rekur að Norðurlandi, er ýmist flatur ís eða borgarís, og kemur mönnum ekki saman um, hvor muni algengari, en sjaldan koma hér ákaflega stórir jakar í samanburði við þá, sem stundum sjást við Grænland; þannig þykja það fádæmi, að fyrir 33 árum stóðu tveir jakar grunn á sjötugu djúpi norður og vestur af Siglunesi; urðu þeir þar eftir, þegar annar hafís fór um vorið, og sátu kyrrir fram yfir Mikjálsmessu [29.september]; var um sumarið dreginn mikill fiskur kring um jaka þessa, sem allur var blindur á öðru auganu. Jakar þeir, sem djúpt rista, eru líka furðu háir, og mun ekki fjærri sanni, að hæð þeirra upp úr sjónum sé viðlíka mörg fet, eins og þeir rista margra faðma djúpt, eða með öðrum orðum: að 1/7 af allri hæð jakanna sé ofansjávar; en engu að síður er þó sá hluti, sem í kafi er, miklu meiri en 6/7 að rúmmáli, því eðlilega snýr niður sá hlutinn, sem þyngstur er og mestur fyrirferðar, en rýrasti hlutinn upp.

6. Ekki virðist hvalagangan að landinu fara eftir því, hvort ís er nærri eða fjærri, heldur fer hún eingöngu eftir síldargöngunni, því hvalirnir fylgja síldinni eftir jafnt og stöðugt, eins og eðlilegt er. Það hefur reyndar oft borið við, að síld hefur hlaupið inn á firði, skömmu áður en hafís hefir rekið að, en ekki virðist þó síldargangan og ísrekið standa í neinu sambandi.

7. Það sýnist bæði fara eftir vöxtum hafíssins og stefnu straumanna, hvað lengi hann liggur við landið. Þegar ísinn er mjög mikill, fylgir honum meiri kuldi og frost, og frýs hann því fljótar saman, einkum inni á löngum og mjóum fjörðum; þá eiga líka vindarnir örðugra með að róta honum til. Sé aftur einungis lítið af ís, þá er hann á sífelldu reiki fyrir vindum og straumum, getur því ekki frosið saman, svo landvindarnir eiga hægra með að færa hann á burtu. Straumarnir gjöra annars, eins og áður er sagt, mest til að reka ísinn; en þess ber að gæta, að standi vindar lengi af sömu átt, þá hafa þeir mikil áhrif á straumana.

8. Af því reynsla þykir vera fyrir því, að ísinn komi varla, nema vestanátt hafi gengið áður til hafsins þann vetur, þá álíta menn, að ísinn komi frá Grænlandsóbyggðum; en eftir því sem vindar og straumar eru misstríðir, rekur ísinn fyrr eða seinna á vetrinum og fjær eða nær landinu austur eftir hafinu. Reki hann nærri landinu vegna norðanáttar eða annarra orsaka, kemur hann fyrst við Hornstrandir, en gangi landvindar, svo ísinn reki djúpt fyrir, verður hans oft fyrst vart við Langanes og Sléttu, og snúist þá í millibilinu veðurstaðan til norðausturs, getur í fljótu áliti virst, að ísinn komi úr þeirri átt.

9. Það má ráða af því, sem sagt er í næstu grein, að íslaust getur verið fyrir Norðurlandi, svo langt sem augað eygir, þó hafís sé kominn við Langanes og reki þaðan fyrir straumum suður með landinu, því fyrir Múlasýslunum er harður norðanstraumur, eins og ég gat um áður, og miklar straumrastir út af hverju nesi.

10. Það mun fara að mestu eftir vindstöðunni, hvort ísinn rekur nærri eða fjærri landi fyrir austan Langanes, en séu veður hæg og straumarnir einir ráði ferðum hans, ætla ég hann muni reka utarlega.

11. Það mun vera sjaldgæfara, en hér við Norðurland, að svo mikil hafþök verði af ís fyrir Múlasýslunum, að ekki sjái út fyrir hann af hæstu fjöllum,þó ber þetta við, en venjulega er ísinn minni fyrir sunnan Gerpi.

12. Bæði Norðurland og eins Múlasýslurnar losast fljótast við ísinn, þegar veður stendur skáhallt af landi, og um leið móti hafstraumnum, því þá rekur ísinn beint til hafs. Á Norðurlandi er því best suðaustanhvassviðri til að færa ísinn burt, en í Múlasýslunum sunnan- eða suðvestanveður.

13. Enginn þykist hafa tekið eftir nokkrum breytingum á norðurljósum, meðan hafísinn er landfastur.

14. Meðan ísinn er við landið, er sjórinn miklu kaldari en ella.

15. Ekki þykjast menn hafa tekið eftir því, að meira rigndi að sumarlaginu fyrir það, þó hafísinn væri skammt undan landi, heldur þykir þetta fara mest eftir veðurstöðunni, því þegar lengi gengur austan eða norðaustanátt á sumrin, þá er hér venjulega vætusamt; en meðan hafísinn er mjög nærri á vorin, þá eru oftast kuldanæðingar og næturfrost, en úrkoma lítil, svo jörðin getur ekki gróið.

16. Hið gamla máltæki, „að sjaldan sé mein að miðsvetrarís, né gagn að góuís“, á að vera komið af því, að reynsla þykir vera fyrir því, að komi ísinn mjög snemma á vetrinum, þá fari hann snemma burt, en síður ef hann komi ekki fyrr en seint á útmánuðum; þó bregst þessi reynsla oft. Gamall maður, sem man móðuhallærið, segir, að hafísinn hafi þá verið búinn að fylla alla firði á jólum, en hafi ekki rekið burt aftur fyrr en um hvítasunnu.

17. Almennt þykir vera kvillasamara á mönnum og skepnum, þegar hafís liggur við, og eru það á skepnunum einkum óþrif og lús, sem þeim er þá hættara við; þá þykir og hættara við, að kýr og ær láti fangi, og á ísavorum deyr jafnan fjöldi unglamba.

18. Tré þau, sem rekur í hafís, eru því nær undantekningar laust sívöl.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíð á árinu 1861. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband