Hlýinda- og kuldaskot

Eins og minnst var á hér á hungurdiskum fyrir fáeinum dögum hlýnaði snögglega í veðri hér á landi rétt eftir aldamótin - langt fram úr væntingum vegna hnattrænnar hlýnunar. Meðalhiti í Stykkishólmi 12-mánuðina frá september 2002 til ágúst 2003 var 2,07 stigum hærri en ársmeðalhiti næstu tíu ára á undan. 

Sú spurning kemur upp hvort við finnum eitthvað ámóta í mæligögnum. Við þekkjum meðalhita í Stykkishólmi allvel aftur til 1820 eða þar um bil, og vitum nokkuð um hann enn lengra aftur, en leitin nú hefst 1830 og við búum til lista tilvika þar sem meðalhiti 12-mánaða er 1,7 stigum (eða meira) hærri heldur en meðalhiti næstu tíu ára á undan. Tilvikin reynast aðeins fimm. Hið fyrsta 1847, þá fór 12-mánaða meðaltalið 1,92 stig yfir meðalhita áranna tíu á undan, árið 1880 þegar hitinn fór 2,05 stig framúr, 1890 er hiti fór 1,78 stig framúr og árið 1929, en þá var hiti í apríl 1928 til mars 1929 2,16 stigum hærri en meðalhiti næstu tíu ára á undan. 

Tilvikin 1880 og 1890 voru öðru vísi en hin að því leyti að þeim fylgdu ámóta stórar niðursveiflur (kuldaskot), 1881 var það -3,13 stig, en -1,71 stig árið 1892. Önnur ámóta kuldaskot komu 1836 þegar 12-mánaða meðalhiti var -1,79 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan, 1859 var hitinn -2,46 stig neðan 10-ára meðalhitans, 1866 var vikið -1,93 og 1918 var það -2,21 stig. Ekkert ámóta kuldaskot hefur komið síðan - mest finnum við -1,57 stig árið 1968 og -1,39 stig 1949. 

Meðalhiti síðustu 10 ára í Stykkishólmi er 4,83 stig. Kæmi stórt hlýindaskot [+1,7 stig eða meira] ofan í hann færi ársmeðalhitinn í 6,5 stig. Það er um 0,6 stigum hærra heldur en hæsti 12-mánaða meðalhiti í Hólminum til þessa [5,93 stig, í mars 2016 til febrúar 2017] - hversu líklegt er slíkt? Stórt kuldakast drægi 12-mánaða hitann niður í 3,1 stig - svo kalt var síðast árið 1995. Snöggt kuldakast eins og 1881 myndi draga hitann niður í 1,7 stig. Svo kalt var síðast árið 1918 [12-mánuðirnir nóvember 1917 til október 1918]. Það er þó 1,6 stigum hærra heldur en lægstu 12-mánuðirnir 1881 [september 1880 til ágúst 1881]. - Munurinn er rífleg sú hnattræna hlýnun sem átt hefur sér stað. 

Hlýindasveiflurnar 1929 og 2003 reyndust að nokkru leyti „varanlegar“ - næstu tíu ár í kjölfar þeirra voru mun hlýrri en tíu árin á undan (munaði 1,0 stigi 2003, en 0,8 stigum 1929). Nítjándualdarhlýindaskotin voru það ekki - þau komu og fóru. Stærstu kuldaskotin voru ekki „varanleg“ heldur - svakaleg á skelfilega köldum tímum. 

Ekkert mælir því mót að skyndilegar sveiflur eins og þær sem hér hafa verið gerðar að umfjöllunarefni geti átt sér stað hvenær sem er - þær eru bara ólíklegar. Sömuleiðis er næsta víst að þær geta orðið ennþá stærri - ólíklegt er að þær allra stærstu sem hafa átt sér stað séu inni á mælitímabilinu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 51
  • Sl. sólarhring: 225
  • Sl. viku: 1016
  • Frá upphafi: 2420900

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 893
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband