Hlýir dagar

Mjög hlýtt hefur verið víða um land undanfarna daga, hiti langt ofan meðallags árstímans. Á landsvísu var laugardagurinn 13. sá hlýjasti, en í Reykjavík t.d. var meðalhiti föstudagsins 12. hærri. Langtímameðalhiti hækkar mjög í aprílmánuði, vorhlýnun komin í fullan gang - enda er það svo að hlýjustu apríldagar sem við þekkjum eru langflestir seint í mánuðinum. Efstir á flestum listum eru 18.apríl 2003, og 29. og 28. apríl 2007. 

En við gætum líka raðað hitanum á annan hátt og leitað að hlýjustu dögunum - miðað við vik eða staðalvik frá langtímameðalhita viðkomandi dags. Miðum við við vikin lendir 18.apríl 2003 í toppsætinu á landsvísu, en 1.apríl 1956 í því næstefsta (ekki man ritstjórinn þann dag - og vill ekki gefa honum vottorð nema að frekar athuguðu máli). Sé litið á staðalvikin eru 28. og 29. apríl 2007 á toppnum. Hlýindin nú standa þessum eldri hlýindum talsvert að baki.

Athugum nú stöðuna í Reykjavík sérstaklega - hlýindin þar hafa verið tiltölulega meiri en víða annars staðar. Föstudagurinn 12. er þannig 19. hlýjasti apríldagur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík. Aðeins er vitað um þrjá hlýrri daga í Reykjavík svo snemma árs - athugum þó að meðalhiti einstakra daga fortíðar er ekki þekktur jafn nákvæmlega og nú. - En við látum sem ekkert sé. Meðalhiti föstudagsins 12. var 9,5 stig. Jafnhlýtt var sama almanaksdag árið 1929 - og enn hlýrra 30.mars 1893 og svo 27.mars 1948. Síðarnefndi dagurinn er vel þekktur meðal veðurnörda, en sá fyrri er óvottaður. 

Látum við vik frá meðalhita áranna 1931 til 2010 ráða röð lendir föstudagurinn 12. í áttundahlýjasta sæti - hiti hans var 6,8 stigum ofan meðallags. Efstur á þeim vikalista er 1.apríl 1965, hiti +8,0 stig ofan meðallags, en síðan kemur 29.apríl 2007 og 16.apríl í fyrra (2018). Á staðalvikalistanum er 29.apríl 2007 efstur, og síðan 7.apríl 1926 og 4.apríl 1963 (í vikunni á undan páskahretinu fræga). Eitthvað rámar veðurnörd í mikið vonbrigðakuldakast í maí 2007 - í kjölfar hitabylgjunnar í apríllok það ár (þó ekkert væri það á við slæm hret). - Stundum þarf að borga fyrir hlýindin. 

Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta aprílmánaðar er +5,0 stig, +3,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990 og +1,4 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 15 voru jafnhlýir árið 2014, en árið 2003 var meðalhitinn +5,1 stig, það er hlýjasti aprílfyrrihluti aldarinnar. Sá kaldasti kom hins vegar 2006, en þá var meðalhiti +0,4 stig. Á langa listanum (145 ár) er hiti fyrri hluta apríl í Reykjavík í 9. til 10.hlýjasta sæti. Hlýjast var 1929, meðalhiti +6,6 stig, en kaldastur var fyrri hluti apríl 1876, meðalhiti -4,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta aprílmánaðar +4,3 stig, +3,7 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +2,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum nema þremur, neikvæða vikið er -0,2 stig í Veiðivatnahrauni og Laufbala og -0,1 við Hágöngur. Jákvæða vikið er mest +2,5 stig á Patreksfirði.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 38,7 mm, í rúmu meðallagi, en aðeins 3,8 mm á Akureyri. Það er um fjórðungur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 67,3 í Reykjavík - nærri meðallagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband