1.7.2018 | 22:44
Af árinu 1897
Okkur þætti tíðarfarið sem ríkti hér á landi árið 1897 heldur kalt, en það var þó ekki kaldara en svo að þeir sem eldri eru muna fjölmörg ámóta. Meðalhiti í Reykjavík var 3,9 stig - sá sami og árið áður og nærri meðallagi þessa síðasta áratugar 19.aldar. Það er nokkur munur á viðhorfi manna til ársins eftir landshlutum, verstir eru dómarnir af Vestfjörðum en bestir að austan.
Gríðarmikil sjóslys urðu á árinu og eru ekki nærri öll talin í pistlinum hér að neðan. Verstu óhöppin urðu í maíbyrjun, þá fórust 60 sjómenn - flestir sama daginn og snemma í nóvember - þá fórust að minnsta kosti 26, flestir fyrir vestan eins og í maíveðrinu.
Aðeins tveir mánuðir ársins teljast hlýir, október og desember, en kalt var í febrúar, maí, júní og september. Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 19.júlí, 27,8 stig. Reyndar er ástæða til að vantreysta þessari tölu - gæti vel verið 2 til 3 stigum of há. Mesta frost ársins mældist líka í Möðrudal 2.febrúar, -29,2 stig. Við skulum trúa því (svona nokkurn veginn).
Ritstjóri hungurdiska telur 12 daga hafa verið mjög kalda í Reykjavík, en svo ber við að þrír dagar ársins voru mjög hlýir þar á bæ. Þrír dagar í maí voru kaldir, þar á meðal 3. og 4. Komst hiti ekki upp fyrir frostmark þessa daga. Mjög kalt var líka í Reykjavík um miðjan júní eftir hlýindi í upphafi mánaðarins. Mikil viðsnúningur í hita varð líka um mánaðamótin ágúst/september. Hinn 28. ágúst á enn dægurhámarkshitamet í Reykjavík, [19,2 stig], en nokkrum dögum síðar kom næturfrost. Nánar má sjá um ýmsa daga í talnasúpunni í viðhengi þessa pistils.
Loftþrýstingur var hár í janúar og sérlega hár í júní. Sérlega lágur var hann í apríl. Lægsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni 7.desember 955,2 hPa, en hæstur mældist hann 1039,8 hPa þann 23.nóvember, líka á Teigarhorni.
Austanáttir voru óvenjutíðar júní og ágúst og norðanáttir í maí og júní.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði hleypur yfir veðurlag ársins 1897 í pistli þann 12.janúar 1898:
Árið 1897, sem nú hefir nýlega kvatt oss, mátti hér á landi að öllu samanlögðu teljast til mögru áranna. Hvað veðurfar snerti var árið yfirhöfuð mjög rosa- og stormasamt, byrjaði með rosum, eftir nýárið í fyrra, og þegar vora tók urðu rosarnir og stormarnir enn tíðari og ákafari, einkum hér vestanlands, og mátti heita, að sumarið allt væru hér sífelldir rosar, eða þá kuldanepjur, enda lá hafísinn þá jafnan skammt undan Hornbjargi, og öllum vesturkjálka landsins, þótt eigi yrði hann siglingum að baga. Við sama rosa- og óveðurtóninn kvað svo haustið, og framan af vetrinum, uns stillur og hagstæða tíð gerði rétt fyrir jólin, og héldust þau stillviðri til ársloka, rétt eins og gamla árið vildi þó kveðja menn vel, og draga þannig ögn úr þeim óþægilegu endurminningum, sem óblíða veðurfarsins hefði fest í hugum manna. Vegna ótíðarinnar, og hins afaróþurrka- og rigningasama sumars, nýttust hey manna víða mjög illa, og reynast því mjög léttgjöful, og ónýt til mjólkur, í vetur.
Janúar: Umhleypingatíð. Hiti í meðallagi.
Í upphafi ársins var tíð óróleg syðra og vestra. Ísafold (Reykjavík) og Þjóðviljinn ungi (Ísafirði) segja frá:
Ísafold 8.janúar: Veðurátta hefur verið mjög óstöðug og hrakviðrasöm hér syðra langa hríð, og snjókoma allmikil, svo að alger jarðbönn hafa verið í sveitum.
Þjóðviljinn ungi 11.janúar: Hér hefir haldist sífelld ótíð, suðvestan hvassviðri, og umhleypingar, síðan á nýári.
Árið byrjaði hins vegar vel eystra að sögn Austra 19.janúar:
Tíðarfarið hefir verið hið besta hér það sem af er þessu ári, með blíðviðrum og þíðum oftast nær.
Þjóðviljinn ungi segir frá sjóslysi á Álftafirði í pistli þann 18.:
Tíðarfar fremur óstöðugt síðustu vikuna suðvestan rosar og rigningar öðru hvoru, en veðrátta mild. Drukknun: 14. þ. m., um hádegisbilið, fórst bátur á siglingu á Álftafirði, á heimleið úr fiskiróðri. Veður var rokhvasst, og lagði snarpar hviður ofan úr hlíðunum, eins og oft er þar á firðinum, og hafði ein hviðan komið í seglið, og sett bátinn um, áður lækkað yrði, sem þurfti. Formaður á bát þessum var Sigurður bóndi Jónsson í Súðavik, og drukknaði. hann, ásamt einum hásetanna, Páli Guðmundssyni, tvítugum unglings- og efnis-pilti frá Hlíð í Álftafirði; en með því að svo happalega vildi til, að annar bátur (formaður Guðmundur Hjaltason í Tröð) var og á uppsiglingu þar á firðinum, og brá þegar við, er ófaranna varð vart, tókst að ná hinum tveim hásetunum með lífi.
Ísafold birti 10.mars bréf úr Vopnafirði dagsett 15.janúar:
Tíðarfar má heita hreint dæmalaust, oftast að heita þíður og þerrir og heiðríkja og alauð jörð, og i dag voru + 8°R, með sterkum sunnanvindi, sem endaði með hlýrri vorskúr. Allar okkar hlákur hér eru sem sé með suðvestanvindi og besta þerri, og við þá veðurátt bregður okkur sunnlendingum mikið, sem erum vanir sunnlensku skúrunum.
Austri segir frá öllu óstilltara veðri og slysi í pistli þann 30.:
Tíðarfarið hefir verið nokkuð óstilltara síðustu vikuna, og sunnudag [24.] og mánudag var hér töluverð hríð með 9° frosti. En lítil hefir snjókoma verið, því veður hefir verið í hvassara lagi og rifið snjóinn. Stúlka, Margrét Guðmundsdóttir að nafni, fór héðan á fyrra laugardag rétt fyrir hríðina og ætlaði Fjarðarheiði upp í Hérað, en þreyttist á leiðinni, og varð eftir af samfylgd sinni, og hefir eigi fundist, þó leitað hafi verið að henni.
Febrúar: Umhleypingatíð og fremur kalt.
Vestra byrjaði mánuðurinn vel. Þjóðviljinn segir frá þann 9.:
Hér hefir haldist öndvegistíð, síðan síðasta blað vort kom út.
Austri greinir frá tíð í pistli 18.febrúar:
Tíðarfar hefir verið nokkuð óstillt, en oftast þó blíðviðri, og þ. 15. þ.m. var hér 11° hiti á R. Snjór er því lítill í Fjörðunum, en nokkru meiri uppá Héraði, en þó jarðir góðar.
Bréf úr Reykjavík dagsett 19.febrúar birtist í Austra þann 1.apríl:
Veðrátta hefur verið mjög rosa- og stormasöm, allt fram á þorrakomu. Þá gjörði stillukafla og blíðu í hálfan mánuð, en nú aftur er komið i sama horf og áður, og nú í dag er öskurok á vestan með frosti og éljagangi. Hér átti að fara að taka út skútur og láta þær fari í hákallatúr, en þegar svona breyttist veður, þá verður líklega ekkert úr því.
Mikið snjóaði vestra megi trúa frásögn Þjóðviljans unga 27.febrúar:
Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefir dyngt niður kynstrum af snjó, og hvívetna gert ófærð mestu; menn, sem fyrir fáum dögum komu yfir Breiðadalsheiði, voru t.d. 9 tíma á milli bæja, sem annars er aðeins 1-2 tíma leið.
Mars: Fremur hagstæð og lengst af úrkomulítil tíð. Hiti í meðallagi.
Ísafold segir þann 7.apríl frá tíð í Strandasýslu (eftir bréfi 24.mars):
Hagur manna allbærilegur og afkoman undan vetrinum lítur út fyrir að verða góð, enda hefir vetrarfarið verið eitt hið stilltasta og blíðasta, er menn muna og hagar hér í þessu harðindaplássi lengst af nægir og góðir.
Austri segir frá tíð þann 1.apríl:
Tíðarfarið hefir síðasta hálfsmánaðartímann verið mjög stirt, og hlaðið hér niður miklum snjó, svo víðast mun nú jarðlaust hér í Fjörðunum, og víða skarpt á jörð uppá Héraði, þar sem menn munu eigi vera færir um að standa af sér nokkur harðindi til muna, með því hey hafa víða reynst ill.
Apríl: Úrkomusamt syðra, en annars góð tíð. Hiti nærri meðallagi.
Framan af var heldur kalsamt vestanlands, Ísafold segir frá þann 10.:
Snjókoma nokkur til sveita nú um hríð og kalsamikið, þótt laust sé við frosthörkur. Fyrir því hagskarpt, og kemur sér illa, því heytæpir eru menn nú í meira lagi hér um nærsveitirnar; mun liggja við felli á bæ og bæ.
Vel fór með tíð eystra í mánuðinum segir Austri í nokkrum pistlum:
[8.] Tíðarfarið það sem af er þessari viku hefir verið þíðviðri, svo snjór hefir töluvert sigið.
[17.] Tíðarfar er nú orðið mjög vorlegt, blíðviðri og sólskin nær því á hverjum degi; væri æskilegt, að þessi góða tíð mætti haldast, því útvegsbændur þurfa hennar nú mjög með til þess að þurrka hinn mikla fisk sinn frá því í fyrra, og svo þó nokkurn vetrarafla.
[30.] Tíðarfar hefir alltaf verið hið blíðasta, og stundum svo heitt, að hitinn hefir stigið yfir 30° á R. móti sólu.
Þjóðólfur birti þann 4.júní bréf úr Steingrímsfirði dagsett 28.apríl:
Ástandið hér í kringum fjörðinn var fyrir rúmri viku mjög ískyggilegt af hinu allt of almenna heyleysi, og fyrirsjáanlegur stórfellir á búpeningi, ef harðindi nokkur að mun hefðu gengið í garð. Nú hefur verið besta leysing í viku og kominn nógur hagi við sjóinn, svo maður vonar, að allt farnist vel. Hinn nýafstaðni vetur hefur orðið okkur
Steingrímsfjarðarbúum mjög seiglulegur og sérstaklegur að því leyti, að frá fyrsta degi hans, til hins síðasta, mátti heita alveg haglaust og þar af leiðandi missiris innistaða næstum því á sauðfénaði, en veturinn var frosta- og byljalítill allt fyrir það.
Maí: Óhagstæð tíð. Úrkomusamt, einkum vestra. Fremur kalt.
Tíð versnaði mjög í maí og gerði óvenjulegt norðanhret með miklum mannsköðum. Austri segir frá þann 8.:
Tíðarfar hefir alla síðustu vikuna verið mjög stirt og meiri og minni hríð næstum því á hverjum degi, en stórhríð á sunnudaginn 2. þ.m., og er hætt við að á ýmsum stöðum hafi þá orðið fjárskaðar, því öllu geldfé var búið að sleppa. Í Breiðuvík, milli Loðmundar- og Borgarfjarðar, hafði snjóflóð tekið milli 20-30 kinda, og sópað þeim út á sjó. Í hríðinni hafði brimið brotið nótabát kaupmanns Þorsteins Jónssonar í Borgarfirði. Í Vopnafirði hafði fé fennt og rekið í sjó á þó nokkrum stöðum. Annars mátti vel sjá þessa hríð fyrir á loftþyngdarmælinum, sem strax á laugardagsmorguninn [1.] féll ofan á storm". En því miður gefa menn mælinum allt of lítinn gaum.
Þann 20. rekur Austri svo fleiri óhöpp og slysfarir í veðrinu:
Þann 2. maí rak frakkneska skipið St. Paul i land á Reykjavíkurhöfn og hafðist ekki út aftur þó að bæði Heimdallur" og franska herskipið La Manche" reyndu að ná því út. Skipið var mjög stórt og hið prýðilegasta. Það hafði innanborðs spítalapláss fyrir sjúka frakkneska, sjómenn er það átti að taka úr fiskiskipum Frakka hér við land. Frakkneskt fiskiskip strandaði á Reykjavíkurhöfn. í sama veðrinu.
Í norðangarðinum í byrjun þessa mánaðar. strönduðu sex íslensk fiskiskip á Hornströndum, voru flest þeirra af Vesturlandi úr útvegsflota stórkaupmanns Á. Ásgeirssonar, og hákarlaskipið Draupnir". eign kaupstjóra Chr. Havsteen, er strandaði á Barðsvík, og fórust allir 12 menn af skipinu. Þar á Hornvik strönduðu og hin eyfirsku hákarlaskip, Elliði" og Hermes", en menn komust af. Hið eyfirska ábyrgðarfélag hefir sent skipasmiði vestur til þess að reyna að gjöra að minnsta kosti við Elliða", og fá það út aftur. Hákarlaskipin Vonin" og Siglnesingur" og fiskiskipin, Akureyri" og Skjöldur", voru enn ókomin, en vonandi er, að þau hafi eigi farist; því ef svo ógæfusamlega hefði að borið, þá er þilskipaábyrgðarsjóður Eyfirðinga víst í voða staddur. Hvalveiðabátur er strandaður á Þórshöfn, og hefst líklega ekki út aftur.
Af Bíldudal er sagt að vanti 3 af skipum kaupmanns Thorsteinson. Hvalveiðaskip Amlies, Jarlen", eru menn hræddir um að hafi farist milli Færeyja og íslands og engin mannbjörg orðið. Amlie var þar sjálfur á skipinu og 32 menn með honum. Amlie var elstur hvalaveiðamaður við Ísland, og líklega þeirra auðugastur. Hann hafði hvalveiðastöð á Langeyri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp.
Sagt er að þetta síðastnefnda slys hafi átt sér stað 6.apríl.
Ísafold segir frá slysunum þann 12.:
Tíu daga vorhret, svo stórkostlegt að veðurhæð, kulda og snjókomu um meiri hluta lands, sem um hávetur væri, það eru raunatíðindi þau, er nú höfum vér að flytja. Hret þetta, sem hófst hér 1. þ. mán. og létti eigi fyrr en í fyrrinótt, þótti ærið illt hér á Suðurlandi. og var þó fjúklítið í byggð. En eftir því sem frést hefir bæði af Austfjörðum og Vestfjörðum, þá hefir heldur en eigi tekið steininn úr þar, og má ganga að því vísu, að eigi hafi verið betra á Norðurlandi. Á Ísafirði byrjaði hretið raunar þriðjudag í fyrri viku, 27. f.m., en versta hríðin, norðankafaldshríð, laugardagsmorguninn 1. þ.m., en var hægur fram yfir nón; þá gekk hann upp með ofsaroki, og stóð sá bylur 3 dægur samfleytt, stórviðri og fjúk með hörkufrosti, fram á aðfaranótt sunnudagsins. Knésnjór á götum á Ísafirði. Þá var fjúklaust að mestu á mánudaginn, og gekk garðinn niður að mestu dagana á eftir; hægviðri og logn síðari part vikunnar vestra, þótt stórviðrið héldist hér áfram. Eystra var kafaldsbylur nokkur í Fjörðum fyrstu dagana af hretinu, en hefir sjálfsagt kveðið miklu meira að úrkomunni uppi á Héraði.
Slys hafa orðið af veðri þessu á sjó býsnamikil, sem síðar greinir, og þó varla fullfrétt enn En skepnutjón eflaust mikið á landi, með því að víða voru menn komnir í heyþrot fyrir hretið og skepnur magrar. Vestra látið verst af sumum sveitum við Djúpið, í Dýrafirði, og Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Þar, í Eyrarsveit, segir sagan að hafi verið farið að beita kúm fyrir hretið, og mokað ofan af fyrir þær úti í bylnum, með því að ekkert strá var til að gefa þeim inni. Nærri kaupstöðum bjarga menn skepnum töluvert á korngjöf; en á Dýrafirði (Þingeyri) fékkst enginn rúgur og kom ekki með Laura. Eystra hafði skepnufellir verið orðinn til muna í Fellum og nokkur á Héraði fyrir hretið, og má nú búast við slæmum fréttum þaðan.
Skipströnd - Fimm fiskiskútur, sem lágu í Hornshöfn á Ströndum í laugardagsveðrinu [1.], rak þar á land, fjórar um flóð, og voru allar óskemmdar eða því sem næst, en ein, eign Ásgeirssonsverslunarinnar á Ísafirði, um fjöru og mölbrotnaði. Manntjón varð ekkert. Á öðrum stað á Hornströndum, í Barðsvík, fannst og rekið flak af eyfirsku hákarlaskipi, »Draupni«, með 3 mönnum dauðum, einum bundnum við stýrið. Giskað á, að skipshöfnin hafi verið 10 manns, er allir hafa drukknað. Margt þilskipa vestra hafði auk þess komið inn í garðinum vegna bilunar, meiri og minni; eitt, ísfirskt, þar að auki misst af sér 1 mann, og annað frá Þingeyri sömuleiðis. En nokkrar fiskiskútur þar vestra, sem ekki hafði til spurst. Það var laugardagakveldið 1. maí og þá um nóttina, sem tjónið varð mest; veðrið skall svo sviplega á, með mikilli dimmu.
Þá fréttist og með Vestu að austan, að hvalabátur einn norskur af Vestfjörðum hefði rekið á land í Þórshöfn á Langanesi, í laugardagsveðrinu, og brotnað allur, en menn bjargast. Skömmu áður strandaði við Héraðssand eystra vöruskip til kaupm. Sigurðar Johansen á Seyðisfirði. Uppboð á því 26. f. mán. og komst allt í hátt verð.
Bátur fórst á Patreksfirði þá um kveldið, 1. maí, frá Hænuvík, í fiskiróðri, með 7 mönnum, er einum varð bjargað, en 6 drukknuðu; aðrir segja 5.
Ísafold birti þann 22.maí bréf úr Húnavatnssýslu vestanverðri dagsett þann 10.:
Eftir mjög hagstæða tíð í allt vor (oftast logn og þurrviðri) brá til norðanáttar með frosti laugardag 1. maí. Daginn eftir var norðanstórhríð með mikilli fannkomu og frosti. Síðan hefir norðanátt haldist, oft hvöss og jafnan frost og snjógangur. Áður en tíðarfar breyttist, var allvíðast búið að sleppa fé. Þó hafa engir skaðar til muna orðið í þessu byggðarlagi; vantar á sumum bæjum 23 kindur.
Þjóðviljinn ungi segir frá tíð og fjársköðum í pistli þann 21.maí:
Norðanhretið, sem skall á 1. þ.m., stóð að kalla hlélaust alla fyrstu vikuna af þ.m., og síðan snjóaði öðru hvoru fram yfir miðjan þ.m. Mun hret þetta verið hafa eitthvert hið versta, sem elstu menn muna um þenna tíma árs. Síðustu dagana hefir verið suðvestan átt. og rigning nokkur öðru hvoru, svo að snjóa hefir nú viðast leyst að mestu i byggðum.
Fjárskaði. Í hretinu 1. þ.m. týndust 60 fjár í Selá á Langadalsströnd, og var það flest eign Ásgeirs bónda Ólafssonar á Skjaldfönn, sem fyrir nokkrum árum varð fyrir svipuðum fjármissi.
Blaðið fjallar síðan um sjóslysin og bætir við það sem áður er nefnt hér að ofan:
Þilskip, sem Helgi Andrésson er skipstjóri á, hleypti inn í Ólafsvík, varð að höggva þar möstur, missti einn mann útbyrðis, er drukknaði, og annar viðbeinsbrotnaði. Enn er og eitt skip, Þráinn", skipstjóri Bjarni Bjarnason frá Laugabóli í Arnarfirði, sem ekkert hefir til spurst, eftir hretið, og má því að líkindum telja, að það hafi farist. Flest önnur fiskiskip héðan að vestan voru og meira eður minna hætt komin.
Þann 30.júní bætir Þjóðviljinn ungi enn við fréttum af slysförum í veðrinu:
Bátur fórst frá Hjörtsey á Mýrum 1. maí, og drukknaði þar Sigurður hreppstjóri Guðmundsson, og 4 menn aðrir. Annar bátstapi varð og frá Hjörtsey litlu siðar.
Auk slysfara þeirra, sem áður er um getið, að orðið hafi í norðanhretinu í öndverðum maí, fórst þá og þiljubáturinn Vigga", eign Markúsar kaupmanns Snæbjörnssonar á Geirseyri, og drukknuðu þar 12 menn, þar af 11 kvongaðir, er kvað láta eftir sig um 30 börn. Þiljubátur, er Otto Tulinius á Eskifirði átti, fórst um síðustu páska, á leiðinni milli Eskifjarðar og Papóss, og týndust menn allir. [Páskadagur var 18.apríl] Stúlka nokkur, Ingibjörg að nafni, til heimilis á Þrasastöðum í Stíflu varð úti í öndverðum maímán.
Jónas Jónassen lýsir kuldavikunum tveimur og segir:
[8.] Hinn 1. útsunnan með byljum og gekk til norðurs síðari part dags; varð svo norðanbál til hins 5. er hann lygndi; snjóaði jafnframt. Hinn 7. krapaslettingur ef austri að morgni, svo jörð varð alhvít og í dag 8. aftur rokhvass á norðan með blindbyl í Esju.
[15.] Hinn 8. útnorðan hvass fyrri part dags; lygndi svo. Var hér alhvítt af snjó að morgni h. 9., hægur á vestan-útsunnan; svo a norðan hvass h. 10. Hægur á austan hinn 11. og 12. með regni og þó nokkuð hvass; h. 13. hægur á sunnan með regnskúrum; 14. austan, hægur þar til að kveldi, er hann gekk til norðurs með regni. Í morgun (15.) hvass á útsunnan, óhemju-rigning í nótt er leið.
Júní: Óhagstæð, þurr og köld tíð.
Mánuðurinn byrjaði þó vel. Jónas segir þann 5.:
Umliðna viku hefir verið stilling á veðri oftast logn og fagurt sólskin með miklum hita síðustu dagana. Í morgun sumarblíða, logn og hiti.
Einnig var gott eystra að sögn Austra þann 10.:
Tíðarfar er nú hið besta, sólskinshiti á hverjum degi, en svalt á nóttum.
En svo brá til verri vegar - Ísafold segir frá í pistlum þann 16. og 23.:
[16.] Norðan-grimmdarkast þessa daga. Snjór ofan í miðjar hlíðar. Hafís sagður við Horn og jafnvel inni á Húnaflóa.
[23.] Nú er loks létt norðangarðinum, en lítið um hlýindi samt. Hafís hefir enginn sýnt sig inn á Húnaflóa, að ný frétt segir að norðan, enda kastið orðið heldur vægara þar en hér sunnanlands. Hann hefir legið fyrir Vestfjörðum. Fennt hefir ákaflega á fjöll. Á Holtamannaafrétt t. d., fyrir norðan Tungnaá, var i vikunni sem leið slétt yfir allt eins og á hjarni á vetrardag.
Þjóðviljinn ungi segir frá þann 30.júní:
11. þ.m. sneri til kulda-og norðanáttar, og héldust norðansveljandar, og snjóhret öðru hvoru fram yfir 20. þ.m., svo að fjöllin voru alþakin snævi, rétt ofan á láglendi. Góðviðri hefir haldist síðustu dagana.
Júlí: Mjög stopulir þurrkar. Hiti nærri meðallagi á Suður- og Vesturlandi, en hlýtt fyrir norðan.
Stefnir á Akureyri segir frá þann 20.júlí:
Vatnavextir urðu ákaflega miklir 12.þ.m. og næstu daga á eftir, engjar munu víða hafa skemmst í Eyjafirði og Hörgárdal af leirburði. 25 dagsláttur af túni skemmdi Glerá á Oddeyri meira og minna með leirburði.
Þann 20.júlí kvartar Austri undan hitum:
Tíðarfar er nú á degi hverjum hið indælasta, nema hitarnir í mesta lagi, svo allar ár hafa nú lengi verið í mikilli foráttu, en snjó tekið nú loks mikið til fjalla. En hitarnir hafa verið svo sterkir, að varasamt hefir verið að breiða blautan fisk, svo eigi skemmdist af sólarhitanum.
Enn segir Stefnir frá bleytu þann 30.júlí:
Hér nærlendís eru horfurnar hvergi verri en á Staðarbyggð. Í miðjum júlí í vatnavöxtunum, hljóp Eyjafjarðará upp í Staðarbyggðarmýrar og fyllti þær með vatni, og hafa þær lítið þornað síðan, meðfram fyrir stórrigningar snemma í þessum mánuði, eru því engin ráð til að ná heyi úr mýrunum enn sem komið er, því þær eru ófærar hestum. Verður þetta stórtjón fyrir 10 jarðir, er eiga því nær allt engi sitt í mýrunum.
Syðra var nokkuð blönduð tíð - nokkrir bjartir og þurrir dagar komu þó í röð, en þurrklítið var á milli, jafnvel töluverð rigning. Við skulum bera saman lýsingar Jónasar Jónassen og svo Þjóðviljans unga (en ritstjórinn sat á Alþingi um þær mundir og lýsir veðri syðra eins og Jónas).
Jónas [3.] Veðurhægð undanfarna viku, oftast við landsuður og nokkur væta um tíma.
Jónas [10.] Bjart og fagurt veður til hins 7. er hann fór að dimma af austri og rigndi mikið aðfaranótt h. 8. og þann dag mikið eftir miðjan dag; h. 9. útsunnan, hægur með regnúða fyrri part dags logn að kveldi. Í morgun (10.) landsynningur, hvass, hefir rignt í nótt.
Þjóðviljinn ungi [12. - dagsett þann 10.] Hér hafa haldist þurrviðri, og norðanveðrátta, nema rigningar síðustu dagana; en þó að oft hafi verið indælt veður, hafa þó fáir verulegir hitadagar komið.
Jónas [17.] Sunnanátt með mikilli úrkomu til h. 14., síðan bjart og fagurt veður, Í morgun (17.) blæjalogn, bjartur.
Þjóðviljinn ungi [19.] Tíðarfar blítt og hagstætt hér syðra nokkra undanfarna daga.
Jónas [24.] Svo að kalla logn alla vikuna með þoku. Í morgun (24.) logn og ýrir regn úr lofti.
Þjóðviljinn ungi [27.] Tíðarfar einkar hlýtt og gott undanfarna daga.
Jónas [31.] Fyrri part vikunnar oftast logn og bjart veður, en þó með regnskúrum; síðari partinn regn á degi hverjum af landsuðri.
Ágúst: Votviðrasamt í flestum landshlutum. Hiti í meðallagi. Skriðuföllin eystra eru mestu tíðindi mánaðarins.
Þjóðviljinn ungi (staddur í Reykjavík) segir af tíð þann 9.ágúst:
Tíðarfar rigningasamt, og fremur hráslagalegt, síðan síðasta númer blaðsins kom út.
Austri segir frá þann 17.:
Voðalega rigningu gjörði hér þann 14. þ.m., er hélst fram á morgun daginn eftir. Kom þá svo mikill vöxtur í ár, sem mestur í leysingum á vordag. Snemma morguns þ. 15. féllu voðalegar grjót- og aurskriður úr Strandatindi með dunum og dynkjum allmiklum, ofan á svokallaða Strönd, en gjörðu þó lítinn skaða, því þær féllu flestar þar fyrir utan byggðina. En á Búðareyri féll ákaflega mikil skriða, ofan um veitingahúsið Steinholt, braut inn grjótvegg í pakkhúsi og fylltist það af leðju og grjóti, síðan lenti skriðan á sjálfu veitingahúsinu, sem skriðan færði nokkuð til á grunninum, hljóp svo þaðan í nýbyggðan kjallara opinn fyrir ofan Pöntunarhúsin, braut og sópaði töluverðu af við útá sjó, gróf undir sér nokkurn farangur ferðamanna og flutti sumt útá sjó. Nokkuð af skriðunni fór suður um Mandalitahúsin", sem nú eru eign O. W. og ofan á bryggju. Á meðan skriðan féll, stóð pöntunarstjóri Snorri Wiium á ofurlítilli hæð fyrir neðan götuna, mitt í skriðunni, og sakaði eigi. Úr Bjólfi féll skriða á milli túnanna í Bræðraborg og alveg ofaní sjó, og víða hafa hér annarsstaðar hlaupið skriður í firðinum, og líklega meiri og minni á flestum Austfjörðum. Vestdalseyri sakaði eigi, enda er hún nálega sá eini hluti bæjarins, sem er alveg óhultur fyrir snjóflóðum og skriðuhlaupum.
Þjóðólfur segir þann 27. frá sömu atburðum eftir bréfi að austan þann 18.:
Skriðuhlaup urðu allmikil á Seyðisfirði aðfaranótt 15. þ.m. Hafði rignt mjög nokkra undanfarna daga, einkum hinn 14. og nóttina eftir, og óvanalega mikill vöxtur hlaupið í ár og læki. Mestan skaða gerði skriða, er hljóp á Búðareyri utarlega; klofnaði hún, er niður kom, í tvennt, og rann önnur kvíslin niður á land Otto Wathne, innan við tvö pakkhús (Mandalshúsin), sem hann á þar, og niður á pall og bryggju fram með húsunum, braut þar og bramlaði allt, sem fyrir varð; hin kvíslin beygði út á við að veitingahúsinu (Steinholti), kom fyrst á stórt hesthús og fjós fyrir ofan veitingahúsið, braut það að mun og drap þar um 20 hænsn (en kýr, sem var í fjósinu, náðist síðar ómeidd út), féll svo á veitingahúsið, þokaði því örlítið til á grunninum og skemmdi nokkuð efri hlið þess, féll síðan niður í sjó utan við hús pöntunarfélagsins, skemmdi þar nýbyggðan húsgrunn og fyllti kjallarann með aur og leðju; þar varð og undir skriðunni allmikið af timbri, er norskur timburkaupmaður (Sörensen frá Mandal) átti þar í landi, ennfremur nokkuð af reiðtygjum og farangri Héraðsmanna, sem voru þar í kaupstaðarferð, og ýmislegt fleira.
Það var á 5. stundu um nóttina, er skriðan féll, og flestir þá í fasta svefni, en vöknuðu við hinar ógurlegu drunur í fjallinu, og jörðin skalf þar eins og jarðskjálfti væri á ferðum enda hafði stór klettur í fjallinu sprungið fram og steypst niður með skriðunni, og heljarstór björg liggja nú víðsvegar, þar sem skriðan fór yfir, innan um aurleðjuna, en mikið fór þó alla leið niður i sjó. Önnur skriða, miklu stærri, féll og um sama leyti úr Strandatindi niður í sjó, utarlega á ströndinni, nokkru utar en ystu húsin þar, og gerði því lítinn skaða. Hestar nokkrir, er Héraðsmenn áttu, voru þar á beit í fjallshliðinni, er skriðan féll en þeir tóku til fótanna, er þeir heyrðu gauraganginn í fjallinu, og komust allir undan henni.
Mörg minni skriðuhlaup féllu þessa sömu nótt, bæði sunnan og norðanmegin fjarðarins, og gerðu flest meiri og minni skaða. Í Loðmundarfirði féllu og allmargar skriður, og gerðu þær mestan skaða á Úlfsstöðum, skemmdu þar til muna bæði tún og engi, tóku með sér um 40 hestburði af þurru heyi, og talið líklegt, að eitthvað af sauðfé hafi einnig orðið undir hlaupunum. Í Mjóafirði féllu og skriður víða báðum megin fjarðarins, og gerðu flestar nokkurn skaða, en óvíða þar mjög mikinn.
Tíðarfar hafði um alllangan tíma verið kalt og mjög votviðrasamt á Austfjörðum, er Bremnæs fór þar um. Beitingsafli af síld í flestum fjörðunum, en hvergi aflast þar neitt að mun af henni. Fiskafli er og yfirleitt fremur rýr eystra, enda gæftir eigi góðar. Á Norðurlandi hafa verið óvenjulega mikil votviðri í sumar, og nýting heyja því mjög ill.
Bjarki á Seyðisfirði birti 10.september bréf úr Meðallandi ritað 15.ágúst:
Fréttir litlar nema svo mikil óþerritíð að slíks er um fjölda mörg ár ekki dæmi. Litlu búið að ná af heyi og þessu litla haugað inn blautu og bleiku, hér liggur enn hey ofan í mýrunum flatt mánaðar gamalt, samt er almennt búið að dríla því upp í sæti, grasvöxtur er nú orðinn í meðallagi og enn er jörð að spretta, svo merkjanlegt er, og er það sjaldgæft svona áliðið sumars á mýrlendi. Nú hefði verið hánauðsynlegt að menn hefðu verið viðbúnir að útbúa súrhey, en til þess hefur aldrei verið gerð tilraun áður og menn því öldungis óviðbúnir, líka mun þurfa að verða vatnslaust hey til að leggja í tótt.
Bjarki á Seyðisfirði segir frá tíð þann 3.september:
Hér hefur nú gengið í hálfan mánuð norðaustan rosi með krapa og kulda og seinustu dagana hefur snjóað niður undir sjó, svo fjöll öll eru hvítgrá. Síldar vart um helgina, en nú má kalla bæði síldar og fiskilaust. Sólskin í dag og gott veður.
September: Þurrt eystra, en annars nokkuð óþurrkasamt. Fremur kalt.
Ísafold greinir frá tíð sunnanlands í pistli þann 11.:
Fyrri viku, frá höfuðdegi til 4. þ.m., var ágæt heyskaparveðrátta, líklega um land allt, besti þerrir, en kalt í meira lagi, jafnvel margra stiga (45 á C) frost eina nóttina, aðfaranótt hins 3., er olli miklum skemmdum á kálgörðum, tók fyrir vöxt í þeim. Hefði sú tíð haldist, þ.e. þurrviðrin, fram til haustleita, mundi útheyskapur hér sunnanlands hafa orðið nær meðallagi. með því að gras á útengi spratt víðast sæmilega að lokum. En nú tók fyrir þerri aftur snemma í þessari viku, og hefir rignt til muna síðustu dægrin. Töður víðast bæði rýrar, og stórhröktust þar á ofan.
Þjóðviljinn ungi segir frá því 23.október að þann 15.september hafi skip strandað á Akranesi og hafi síðan verið selt á uppboði. Í sama mánuði strandaði gufuskipið Alpha í Hornafjarðarósi.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði hrakmælir sumrinu þann 23.september:
Tíðarfar hefir í sumar yfirleitt verið hráslagalegra, rigninga- og stormasamara, en elstu menn þykjast muna, að dæmi séu til; um mánaðarmótin síðustu komu þó nokkrir þerrirdagar í röð, en síðan hafa öðru hvoru verið votviðri. Nýting heyja hefir víða orðið allbág hér vestra, vegna ótíðarinnar, svo að hætt er við, að heyin reynist víða mjög kraftlítil til gjafar. Fiskþurrkur hefir í sumar gengið mjög seint hjá almenningi hér við Djúp, og kaupmenn á Ísafirði verða að geyma næsta ári miklu meiri fisk óþurrkaðan, en nokkru sinni fyr.
Austri segir þann 30.september að tíð þar sé köld og óstöðug.
Október: Mjög úrkomusamt og fremur hlýtt. Tíð var yfirleitt hrósað eystra, en hún talin síðri um landið vestanvert.
Þjóðviljinn ungi segir t.d. í stuttum pistlum: [4.] Tíðarfar hefir í haust verið fremur óstöðugt og kalsasamt. [13.9] Tíðarfar fremur haustlegt í þessum mánuði. Norðaustangarður og snjóhret um síðustu helgi, en síðan norðan stillviðri og frost nokkur. [23.] ... hafa gengið hér stillviðri og hæg frost, uns 20.þ.m. sneri til suðvestanáttar og rigninga [28.] Sífelldir suðvestanrosar og rigningar.
Austri er aftur á móti heldur jákvæðari: [9.] Tíðarfar hefir verið um tíma hið blíðasta þangað til í fyrrinótt að hann kom á norðan með bleytuslettingi og hvassviðri, sem nú er þó að lægja aftur. [19.] Tíðarfarið hefir verið mjög stirt undanfarandi viku og einlægar bleytuhríðar. En í dag er veður gott. [30.] Tíðafar er nú alltaf hið blíðasta, næstum því sumarhitar, en nokkuð hvasst á stundum.
Stefnir segir þann 25.: Kartöfluuppskera varð víðast mjög rýr í haust.
Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 6.nóvember að bátur hafi farist á Arnarfirði þann 6.október í nokkru hvassviðri. Tveir menn drukknuðu.
Nóvember: Umhleypingasamt og hiti nærri meðallagi.
Þann 3.nóvember segir Þjóðviljinn ungi frá tíð:
Tíðarfar mjög storma- og rigningasamt að undanförnu en þó talsverð hlýindi í veðrinu og meiri en hér voru alloftast í sumar.
Þann 6.greinir sama blað frá illum tíðindum:
Þann 4.þ.m. dyngdi niður allmiklum snjó og hefir tíð verið umhleypingasöm.
Áhlaupið, er gerði 4. þ.m., hefir vafalaust verið eitthvert snöggasta og versta áhlaup, sem hér kemur. Það var snjófall mikið, en þó fremur lygnt veður, að morgni, en útlit mjög ljótt, og reru þó ýmsir úr flestum verstöðum hér við Djúpið, nema úr Bolungarvíkinni. En litlu fyrir, eða um hádegisbilið, skall allt í einu á ofsanorðvestan rok, með aftaka sjógangi, og kafaldsmold mjög þykkri. Er enn óvíst, hvaða slys kunna að hafa hlotist af þessu voðaáhlaupi, en sannfrétt er þó orðið, að farist hafi fyrir Arnarnesi bátur frá svo nefndum Naustum hér í firðinum, og drukknað þar þeir tveir menn, er á voru: húsmaður Jón Jónsson á Naustum, sonur Jóns bónda Sigurðssonar í Fremri-Húsum i Arnardal, og unglingspiltur Magnús Sveinsson, Ólafssonar bónda í Engidal, mesti efnispiltur og mannsefni. ... Enn vantar og bát, með 3 mönnum á, frá Sandeyri á Snæfjallaströnd, er Guðm. Jósepsson var formaður á, sexæring úr Hnífsdal, er Elías Halldórsson úr Fremri-Hnífsdal var formaður á, og fjögramannafar úr Höfnum, með 5 mönnum á, formaður Salómon Jónsson frá Kirkjubóli i Önundarfirði, og er því miður mjög hætt við. Þar sem fregnir bárust hingað i gær alla leið innan úr Æðey, og innan úr Seyðisfirði, að einhverjum af skipum þessum hafi að minnsta kosti hlekkst á, þó að ekki sé enn frétt, að neitt hafi fundist, eða rekið, nema sexærings ár ein, er Jón Jónsson yngri í Tröð i Álftafirði hafði fundið úti i Djúpinu i gær. Svo vantar og bát úr Vigur, sem Kr. Daðason frá Borg var formaður á.
Síðustu mannskaðafréttirnar segja, að bát hafi rekið á Bæjarhlíð í Snæfjallahreppi, og brot úr öðrum, og talið, að þetta séu skip þeirra Kr. Daðasonar og Salómons Jónssonar; en báturinn frá Sandeyri kvað hafa komist af, og lent á Melgraseyri.
Þann 10. birtir sama blað áreiðanlegri fréttir:
Mannskaðaáhlaupið 18 menn drukknaðir. Það er nú því miður fengin full vissa fyrir því, að skip þau þrjú, sem vantaði, þegar síðasta nr. blaðsins kom út hafa öll farist, og hefir því mannskaðaáhlaupið 4.þ.m. valdið 7 skipsköðum, og orðið alls 18 mönnum, flestum ungum og röskum, að bana.
Þá segir blaðið af tíðinni:
Hefir veðráttan verið lygn og hlý, nema suðvestanrosar og rigningar í gær og dag.
Í pistlum síðar í mánuðinum segir sama blað: [20.] Tíðarfar mjög umhleypinga- og stormasamt. [27.] 20.22. þ.m. var hér norðanhríðarbylur, lygn og frostmild norðan veðrátta 23., frostlaus og hlý sunnanátt 24., hellirigning og suðvestanstormur 25.26., og norðanhríð aftur í dag.
Þann 20. desember segir blaðið frá sjóslysi eystra þann 4.nóvember:
4. [nóvember] fórst bátur frá Skálanesi á Austfjörðum, og drukknuðu þar 3 menn.
Og í blaðinu 26.janúar 1898 er sagt frá því að í sama veðri hafi þrír menn drukkað af báti frá Húsavík.
Þjóðólfur segir frá kirkjufoki í frétt 21.janúar 1898:
Kirkjan í Haga á Barðaströnd fauk í ofsaveðri 20.nóvember f.á. Hún var nýlega byggð og eitthvert hið fegursta og vandaðasta guðshús á Vesturlandi. Hafði frú Jófríður heitin ekkja Jóns kaupmanns Guðmundssonar í Flatey látið reisa hana, og kostaði hún um 7000 krónur.
Desember: Lengst af hægviðrasamt og fremur hlýtt.
Austanlands fór vel með - eitthvað leist mönnum þó illa á í pistli í Austra þann 10., en tíu dögum síðar var allt í góðu gengi: [10.] Veðrátta hefir þangað til fyrir skemmstu verið hin blíðasta. og að mestu snjólaust, bæði í Fjörðum og í Héraði svo snemma í þ.m., var víða ekki einu sinni farið að kenna lömbum átið. Og sömu tíð sagði póstur úr Vopnafirði og þar norður undan. En nú síðustu dagana hefir verið hér töluverð bleytuhríð, og er útlitið nú fremur illviðrislegt, og mundi víða gjöra jarðlaust, ef uppúr þessu frysti. [20.] Veðrátta er nú hin blíðasta á degi hverjum og útbeit góð. [30.] Veðráttan er nú hin blíðasta á degi hverjum og aðeins lítið frost þessa síðustu dagana.
Bjarki segir frá tíð eystra þann 8.janúar 1898:
Veður hefur verið hér ágætt allan síðasta mánuð, svo að varla hefur mátt heita vetur. Kannske ætlar hann sér ekkí að koma í þetta sinn fyrri en svo að hann geti séð um að endast fram eftir júní eins og í fyrra.
Fréttir af veðri voru mun síðri að vestan. Þjóðviljinn ungi segir. [4.] Tíðarfar einkar óstöðugt og veðrasamt, ýmist norðangarður eða suðvestan ofsaveður. [11.] Sífelld ótíð, ýmist norðankafaldsbyljir, eða aftaka suðvestanstormar og rigningar, enda þykjast elstu menn eigi muna aðra eins ótíð, jafn langvarandi, eins og hér hefir verið, síðan í haust, og jafnvel allt síðasta sumar.
Síðan stillti fyrir vestan. Þjóðviljinn ungi segir þann 20.: Stillviðri og frostvæg norðanveðrátta síðustu dagana. Og þann 31.: Síðan fyrir jól hafa hér vestra haldist sífelld logn og veðrátta verið mjög frostlin.
Þann 20.desember segir Þjóðviljinn ungi frá því að þann 3. desember hafi bóndi á Fjarðarhorni í Gufudalssveit orðið úti á Kollafjarðarheiði. Í sama blaði segir frá því að öskufalls hafi orðið vart í Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessýslum svo snjór hafi orðið mótleitur.
Lýkur hér að sinni frásögn um tíðarfar og veður ársins 1897. Athugið að ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 42
- Sl. sólarhring: 146
- Sl. viku: 1963
- Frá upphafi: 2412627
Annað
- Innlit í dag: 42
- Innlit sl. viku: 1716
- Gestir í dag: 41
- IP-tölur í dag: 40
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.