Af árinu 1806

Að mestu horfið í gleymskunnar dá, en lítum samt á helstu atburði. Látum Pétur Guðmundsson í Grímsey lýsa árinu stuttlega - úr annál 19. aldar.

Vetur frá nýári var harður og frostasamur til góuloka, vorið bærilegt, þó vinda- og kuldasamt. Sumarið hagstætt, grasvöxtur góður og nýting góð syðra, lakari nyrðra og eystra. Haustið hreta- og stormasamt fram undir jólaföstu, úr því hörkur og hríðar til ársloka.

ar_1806_svp_hiti

Við þekkjum engar mælingar frá þessu ári nema þær sem Sveinn Pálsson gerði í Kotmúla í Fljótshlíð. Myndin hér að ofan sýnir hitamælingar hans, nokkuð þéttar fram á sumar en síðan gisnari. Ráðast af fjarveru hans sem alltaf var meiri sumar og haust heldur en vetur og vor. Annállinn segir vetur hafa verið harðan og frostasaman til góuloka. Mælingar Sveins sýna ótvírætt að þá hlýnaði mjög - alla vega sunnanlands. Frost var hart hjá Sveini um hálfs mánaðar skeið rétt áður en hlýnaði - en þar á undan var hitafar breytilegra. 

Nokkuð kuldakast má sjá rétt fyrir miðjan apríl og annað meira - alla vega langvinnara síðar í mánuðinum og framan af maí. Erfiðara er að ráða í afgang ársins - þó má greina að ekki er neitt sérlega kalt um mánaðamótin október-nóvember og síðan sést að kalt hefur verið í lok ársins.

ar_1806_svp_ps

Smávegis má líka ráða af þrýstingnum. Loftvog Sveins var að vísu ekki vel kvörðuð - en sýndi þó breytingar frá degi til dags býsna vel. Nokkuð hár þrýstingur fylgdi kuldakastinu á góunni - og lækkaði ekki mikið aftur eftir það. Við getum alveg ímyndað okkur að mikil fyrirstöðuhæð hafi skyndilega myndast á þessum tíma - fyrst valdið norðlægum áttum og kulda, en síðan suðlægum eða austlægum vindum. Síðsumarþrýstingurinn er frekar lágur - en mjög breytilegur um haustið og alveg út árið. 

Brandstaðaannáll er nokkuð ítarlegur eins og vant er og smávegis kemur einnig fram um tíðina hjá Espólín og í knöppum bréfum Geirs Vídalín. Gytha Thorlacíus sýslumannsfrúin danska minnist einnig stundum á tíðina í minningum sínum. Hún hefur ætíð mikinn áhuga á grænmetisræktinni. Tíðavísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín hjálpa einnig til við að ráða í veðurlag ársins. 

Heildarsvipur sumarsins er að tíð hafi verið misskipt. Norðaustanlands hafi verið óhagstæð úrkomutíð þegar á sumarið leið, en mun hagstæðari veðrátta hafi ríkt syðra á þeim tíma. 

Brandstaðaannáll (bókstafurinn s með tölu á eftir vísar í blaðsíðutöl):

Eftir nýár fannlög mikil 2. jan. og 7.-8., svo fé komst lítið frá húsdyrum. Þó síðar rifi nokkuð og grynnti á hæðum, var óvíða jörð að mun. 22. jan gerði mikið austanveður og þar sem á móti því horfði og mest hvessti að gagni, við jarðsæld, gengu hross lengst úti til þorraloka, en annars voru öll hross inn komin á fulla gjöf fyrir miðþorra. Var þangað til oftar stillt veður og meðalfrost, en eftir það vestanblotar og hríðar. Varð gaddur allmikill. Þetta jókst til þess 5. mars, að jörð kom (s51) upp, en eftir það landnyrðingur með kafaldi og sterkum frostum 10 daga. Hross voru á gjöf 6-10 vikur án jarðar.

Með jafndægrum linaði með sólbráð og stilltu veðri, en hláka kom á pálmasunnudag, 30. mars, svo alleysti vötn og ár. Héldust þá góðviðri og gróður kominn með maí. Þann 6. gerði fönn, er lá þar til 16. að góðan bata gerði og gróðurgnægð á fráfærum. Í júlí þurrkatíð mikil og spratt þá lítið. Með 13. viku tekið til sláttar; gekk seint, því lengi rigndi ekki og vatn þraut allvíða. Með 16. viku skipti um til votviðra og fylgdi því hret. Með 19. viku landnorðan stormar. Náðust þá víða síðslegnar töður og mjög svo hraktar, en ei þurftu úthey að hrekjast lengi, þar laglega var að farið.

Eftir það góð heyskapartíð fram yfir göngur; síðan góð hausttíð með þíðum og stilltu veðri til veturnátta; þá snjór, er vaxandi fór og meðaltíð að veðri og jarðlagi til 27.-29. nóv. að lagði á mikla fönn; eftir það staðviðri. 16.-18. des. hlóð niður lognfönn, svo fjárjörð tók af. Voru hörkur miklar um jólin. Þá náðu hross niðri til sveitanna þennan snjóskorputíma. Út á Ásum og Þinginu reif, svo jörð var þar, þá út gaf. Ársæld fór nú vaxandi; málnyta allgóð .. (s52)

Espólín:

VI. Kap. Veturinn eftir var allharður og gekk peningur víða illa undan, gjörði þá og mikil harðindi austanlands; fiskafli var og lítill í veiðistöðum, því hann kom seint, en fyrir norðan varð hann allgóður um sumarið, og hákarls fengur allmikill í Fljótum og Siglufirði. (s 4). VIII. Kap. Þá var gott sumar fyrir sunnan, en kalt og votsamt nyrðra, og nýttust illa hey, hafði aldrei allskostar gott ár verið síðan um aldamót. (s 6).    

Geir Vídalín á Lambastöðum 2. páskadag [7.apríl]:

... til jafndægra var vetur með harðara slag, skakviðri stöðug og oft jarðleysur, svo hrossapeningur er hér víða að falli kominn og jafnvel nokkrir hestar fallnir á Kjalarnesi ...

Og 23. ágúst hélt Geir áfram:

Um vetrarfarið skrifaði eg þér með póstskipinu [vitnar í fyrra bréf], var það hart og í harðara lagi allt frá sólstöðum til jafndægra, vorið íhlaupa- og stormasamt, en gott á millum. Þetta gjörði að útigangspeningur gekk víða magur undan ... Grasvöxtur hér um pláss í betra meðallagi og nýting sú besta það sem af er, því þurrkar og vætur hafa fylgst að á víxl. Nú hefur um hríð verið votsamt, svo fólk á mikið hey úti. (s60) Í Þingeyjar- og Múlasýslum skal vera grasbrestur stór, er það kannski að kenna hafísnum, sem lá þar lengi við í vor ...

Vorið (17. apríl) eftir skrifar Geir (úr Reykjavík) um afgang ársins 1806:

Sumarið var hið ágætasta og heybjörg bæði góð og mikil á öllu Suðurlandi, þar hjá stórar fyrningar frá fyrra ári. Veturinn kom snemma á og var harður allt fram um nýjár, svo peningur var víðast á gjöf, þó voru hér alltaf hagar nokkrir. ... Í norður parti Strandasýslu, Þingeyjar- og Múlasýslum var mesta vætusumar, svo í Krossvík voru ekki alhirt tún um Mikjálsmessu. ... En Múlasýslumenn hafa flestir oftraust á guði, þegar þeir eru búnir að koma fé upp. Vetur var þar harður, allt fram yfir jól ...

Frú Gytha á Reyðarfirði segir: „Vinteren [1806] var Meget streng, og Havisen kom tidlig“. Og nokkru síðar: „Den følgende Sommer [1806] var mild, og Haven ved Gythaborg gav en rigelig Afgrode“. (s41)

Jón á Möðrufelli er torlesinn (ritstjóra hungurdiska að segja) en þó má greina að janúar telur hann í harðara lagi vegna snjóþyngsla, febrúar óstöðugan með blotum, fyrri part mars bitran og harðan, en síðari hlutann blíðan. Apríl yfir höfuð dágóðan, maí hægan og góðan, en júní var að sögn hans andkaldur. Október allsæmilegur og sömuleiðis fyrri hluti nóvember, en síðari hlutinn harður með allmiklum snjó þar um pláss. Desember segir hann í harðara lagi vegna ákaflegra snjóþyngsla. 

Eins og venjulega var talsvert um drukknanir og allmargir urðu úti að vanda - en dagsetninga er ekki getið í því sambandi - lista má finna í annál 19.aldar.

Tíðavísur þeirra Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla segja sitthvað um tíðina árið 1806.   

Þórarinn segir meðal annars: 

Ár næst liðið örðugt varð,
áttin veðra þung og hörð;
bú við lá að skeði skarð,
skorti féð og hesta jörð.

Þótti tíðin þrauta löng,
(þau eru kvæði forn og ung)
Vetrar hríða veðrin ströng
voru´ og æði frosta þung.

Norður bólum Íslands á
(undir póli köldum þó)
Skorpuna jólaföstu frá
fram á sólir páska dró.

Harka blandin hafrenning
og hríð á dundi kvíða löng
yfir landið allt um kring;
að því fundu margir þröng.

...

Sól apríls þá suðra fald
sinni strjálar geisla fylgd,
fanna skýlu felldi tjald,
fræva sálum hita mild.

Happareistum hag að brá,
hita-gustur víða fló,
ísar leystust allmjög þá,
elfur brustu fram í sjó.

Kættist bæði loft og láð,
lék við blíðan hýra þjóð,
þessi gæða fögur fráð,
og fagnaðar tíð ei lengi stóð.

Vors þá bistist veðurlag,
vært og hvesst´ að lýðnum mjög,
sumars fyrsta sunnudag,
syrtu að vestan hríðar-drög.

Harkan reis, um lög og láð,
lagnaðar-ísum saman hlóð,
hríðin geysi hörð og bráð,
hryggðar vísir okkri þjóð.

Norðanvindar blésu, blár
beljaði´ undir kletta sjór;
vor-harðindin vikur þrjár
vera mundu þrauta stór.

Tilhlökkun jók tíðin hin,
tók að hlýna´ og bætast mein.
Sólar-bruna-sífellt skin
sást, en fína dögg ei nein.

Gróðrar kosta almennt ár,
aumlegasta víða hvar,
næturfrostin næsta sár,
norðan hvasst á daginn var.

Fram að slætti loks svo leið,
lítt þó sprotti væri´ um síð;
þá ei bættist þessi neyð,
því að vott gekk alla tíð.

Hér á túnum heyi laust,
heilan mánuð volkaðist,
lá og fúnað langt á haust,
loks ei skánað heimfluttist

Regnin mikil, þoka, þeyr,
þá og klaka-él að bar:
Í sex vikur, eða meir
úthey hrakið líka var.

Enn nú víðar innt er frá
út á jöðrum sveita þó,
fólk að síðast flytti þá
fúnar töður út í sjó.

Bjargar höllun mest til meins
með gjörvallan skepnu fans;
barst í öllum bréfum eins,
betur fallið sunnanlands.

Anna tíðum öldin fast
undir trauðum fram svo braust;
þegar stríðið þetta brast,
þá kom nauða stirfið haust

Alltaf hretin efldu tjón,
(Auðnu lítil spádóms rún),
þótti vetur þegna sjón
þegar hvítur undir brún.

Dreif þá niður dag og nótt
dimmu með og frosti þrátt,
hríða kliður heyrðist skjótt,
og hörkuveðra norðanátt.

Eftir þessa almennu tíðarlýsingu fjallar Þórarinn um krapastíflu í Skjálfandafljóti seint um veturinn eða snemma vors.  

Hólar, vellir, hálsar, fjöll,
hitt eins millum, driftar full,
storðin svelli storknuð öll
stóð og illum krapa sull.

...
Fljót-Skjálfanda stíflað stóð
í stórum vindi´ um páska tíð,
yfir landið fleygðust flóð;
flutu undir norður hlíð.

Fljóts-yfir-bakka flóðið dreif,
fé þar stökk með húsum af,
skal heystakka sköðuð leif,
skjótt nær sökk því allt á kaf.

...
Inn til saka ei gekk flóð,
eins og líkur drógust að,
við bæinn jaka-stífla stóð,
stemmdi slík að nokkru það.

Tjón umkveðna tún af stakk,
torfa þiðnuð ei né klökk,
storðið freðna´ í stykki sprakk,
straumi gliðnuð undan hrökk,

Jaka-burður jörð upp hjó,
jafnótt hörð í flettum lá,
þar af urðu þegar hróf
þétt sambörðu, stór og smá.

Erindið sem hér fer á eftir er talið lýsa snjóflóði á Grýtubakka - e.t.v. hefur mikill skafl sprungið fram - frekar en að stórt snjóflóð hafi komið langt ofan úr fjalli.

Á Grýtubakka féð allt fór,
fast í dokk er hríðin bar;
skafl fram sprakk með skyndi stór,
skall á flokkinn undir þar.

Tíðarvísur Jóns Hjaltalín eru fáorðari - en efnislega svipaðar þó úr öðrum landshluta séu runnar. Vinsenítusarmessa er 22.janúar - austanveður Brandsstaðaannáls: 

Liðinn harður vetur var,
varla síst hún góa,
norðan barði blíðuspar
bylur þrátt um móa.

Vincentíus dagur dró
drjúgan byl að storðum,
hrakti féð en húna sló
hross úr sínum skorðum.

Einmánuður yfir jörð
ársæl leiddi veður,
bylgjaköstin bætti hörð
blíðu sinni meður.

...

Vorið gaf oft veður góð,
vindur hvass þó stundum,
bannaði rás um báru flóð,
bikuðum sigluhundum

Arðarlítill víða var
vertíðanna róður,
varð mjög fáum víða þar
veittur afli góður.

Jörð velgróin gaf oss hér,
góðan heyja forðann,
lakari nýting innt þó er
austanlands og norðan.

Hlýtt var sumar, haustið æst,
hreyfði bylja-rokum
fold var víða fönnum læst
fram að ársins lokum

Látum hér staðar numið að sinni - fáeinar stakar tölur má finna í viðhenginu. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar).  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 151
  • Sl. sólarhring: 199
  • Sl. viku: 2072
  • Frá upphafi: 2412736

Annað

  • Innlit í dag: 143
  • Innlit sl. viku: 1817
  • Gestir í dag: 132
  • IP-tölur í dag: 125

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband