Hundadagakvíði

Hefjum umræðu dagsins á beinni tilvitnun í fornan pistil hungurdiska [17. júlí 2012]: 

„Hundadagar nefnist tímabil á miðju sumri, hér á landi talið frá og með 13. júlí til 23. ágúst. Þetta er að meðaltali hlýjasti tími ársins. Sömuleiðis er úrkomulágmark vorsins liðið hjá og þar með aukast almennar líkur á rigningatíð.

Þegar sunnanvert landið var hvað mest plagað af rigningasumrum, einkum á tímabilinu frá 1969 og fram yfir 1990 litu íbúar þess landshluta með nokkrum kvíða til hundadaga. Sagt var að ef rigndi fyrstu þrjá dagana myndi rigna þá alla. Út af fyrir sig var nokkuð til í þessu því oft rigndi allt sumarið og alveg eins þessa þrjá daga eins og aðra.“

Eftir að þetta var ritað lagði ritstjórinn í þá vinnu að búa til mikinn lista yfir úrkomutíðni - eða -hlutfall einstakra daga á landinu allt aftur til 1924 - bæði fyrir landið í heild sem og hluta landsins. Talinn var fjöldi stöðva sem athugaði á hverjum degi og athugað á hversu mörgum þeirra úrkoma mældist. Varð þá til hlutfall - þúsundustuhlutar eru þægilegir. Ef úrkoma mælist hvergi fær dagurinn hlutfallið núll, ef úrkoma mælist á öllum stöðvum er hlutfall dagsins talið þúsund. 

Um þessa skrá hefur verið fjallað áður á þessum vettvangi. Landinu var líka skipt í þriðjunga. Suðurland telst frá Reykjanesi í vestri austur í Breiðdal, Vesturland frá Reykjanesi norður í Húnavatnssýslur austanverðar, en Norðurland þar austan við. 

EFtir að þessi skrá hafði verið gerð var mjög auðvelt að reikna úrkomuhlutfall þetta fyrir þrjá fyrstu hundadaga hvers árs (meðaltal) og bera saman við hlutfall þeirra allra sama ár. 

Við skulum líta á niðurstöðurnar á myndum:

hundadagar_r-sudurland

Sambandið er best á Suðurlandi. - Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð - mun skýrara afrit er í pdf-skrá í viðhengi. Úrkomuhlutfall fyrstu þrjá hundadagana „skýrir“ um fjórðung breytileika þeirra allra - það er furðumikið. Lárétti ásinn sýnir meðalúrkomuhlutfall stöðva á Suðurlandi 13. til 15. júlí ár hvert - en sá lóðrétti meðaltal hundadaga allra. Við sjáum að fáein ár hefur rignt nær allstaðar dagana þrjá (við hægri jaðar myndarinnar) og sömuleiðis hafa komið ár þegar dagarnir þrír eru þurrir að mestu (við vinstri jaðar hennar).

Mestu rigningahundadagarnir eru efst í áraskýinu - þar er 1969 á toppnum, en 1937 og fleiri rigningasumur skammt undan. Ofarlega - en fremur langt til vinstri má sjá 1926, það ár hafa fyrstu þrír hundadagarnir ekki verið sérlega úrkomusamir - en heildin mjög rigningasöm. Öfugt var það 1927, þá rigndi víðast hvar dagana þrjá - en tímabilið í heild var ekki sérlega rigningasamt. 

hundadagar_r-vesturland

Úrkomuhlutföll á Suður- og Vesturlandi fylgjast nokkuð að en landshlutamyndirnar eru samt ekki eins. Hundadagar 1955 eru efstir - þá rigndi oftast og víðast þessa daga - og líka rigndi fyrstu dagana þrjá. Fyrstu þrír hundadagar voru nærri því alveg þurrir vestanlands 1975 (lengst til vinstri) - en samt eru hundadagar í heild fremur ofarlega það ár. Úrkomuhlutfallið fyrstu þrjá dagana „skýrir“ um sjöttahluta breytileika hundadaga allra. Það skýrir auðvitað svosem ekki neitt í raun og veru - en tölfræðilega heitir það svo. 

hundadagar_r-nordurland

Norðanlands er sambandið nánast alveg horfið. Þar var úrkomuhlutfallið hæst á hundadögum 1985 - og 2015. 

Er einhver niðurstaða? Ritstjóri hungurdiska sér lítið samband á milli úrkomuhlutfalla þessara - en hann sér líka illa. Kom honum þó heldur á óvart hversu há fylgnin reiknast á Suðurlandi. Hvað skyldi búa þar að baki? Er gagnaröðin í lagi? 

Nördin leggjast auðvitað yfir skýrari myndir fylgiskjalsins - en aðrir hafa þegar snúið sér að öðru. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

fróðleg lesníng fyrir mér eru hundadagar ekki veri en aðrir dagar bara von um breitíngar þegar jörðinn fer að snúa aftur inní veturinn.hafi verið væta áður var von um þurkatíð hafi verið þurt ætti að blotna nú eru að koma lægðir að landinu sem ættu að taka skúrirna með sérsvo við vonum að við sleppum við eldíngar óstöðugt loft er sjaldan þurt loft en gétur verið góðviðri fyrir því en ekki þurkar maður mikið í góðviðri hér um lóðir 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 13.7.2017 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 1127
  • Sl. viku: 2695
  • Frá upphafi: 2426552

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 2399
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband