2.4.2017 | 20:35
Hefur ekki umturnast
Af umræðum um veðurfar má stundum skilja að veðurfar hafi á einhvern hátt umturnast að undanförnu. Jú, hiti hefur farið hækkandi bæði á heimsvísu og hér á landi og er það - hvað heiminn varðar - áhyggjuefni sem síst skal dregið úr vegna þeirra varasömu afleiðinga sem slík hækkun hefur til lengri tíma litið.
Þótt nýliðinn vetur hafi verið sérlega hlýr hér á landi sló hann þó ekki met - og að auki eru hitavikin að mestu leyti skýranleg. Um þann skýranleika hefur verið fjallað nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum áður og verður ekki endurtekið nú. Sömuleiðis hefur líka verið fjallað um þátt hnattrænnar hlýnunar í hlýindum undanfarinna ára hér á landi.
Á síðasta ári var hér á hungurdiskum nokkrum sinnum fjallað um að vestanátt háloftanna hefur verið í linara lagi að sumarlagi nú um nokkurt skeið - gæti verið áhyggjuefni, en jafnlíklegt samt að ástandið sé tilviljanakennt og að sumarvestanáttin muni ná sér aftur á strik.
Að vetrarlagi ber minna á eftirgjöf vestanáttarinnar - mjög lítið reyndar.
Lárétti ásinn sýnir ár háloftamælitímabilsins (frá 1949) en sá lóðrétti styrk vestanáttarinnar yfir Íslandi. Einingin er torkennileg - en með því að deila með 5 nálgumst við meðalvigurvind í m/s. Vestanáttin var sérlega slök veturna 2013 og 2014 - og einnig slök 2016, en í ríflegu meðallagi nú í vetur. Sé línuleg leitni reiknuð virðist heldur hafa dregið úr vestanáttinni á tímabilinu - en breytileikinn er svo mikill frá ári til árs að fráleitt er að tala um að eitthvað hafi umturnast - eða að merki séu um slíkt.
Næsta mynd sýnir sunnanvigurinn. Hér breytum við í m/s með því að deila með fjórum (það er alveg óþarft að gera það). Aðeins virðist hafa bæst í sunnanáttina - en alls ekkert marktækt. Veturnir 1979 og 2010 skera sig úr með sunnanáttaleysi - sá fyrri sérlega kaldur, en sá síðari sérlega hlýr. Skýringar á þessu hafa birst á hungurdiskum (oftar en einu sinni). - Sunnanáttarbrestur vetranna 1965 til 1970 vekur athygli - þetta eru hafísárin svonefndu.
Mikil sunnanátt var ríkjandi lengst af í vetur - dró þó svo úr í mars að ekki varð um met að ræða. Hér er engin umturnun á ferð - varla þróun heldur. Það eru hins vegar töluverðar áratugasveiflur auk breytileika frá ári til árs.
Þriðji háloftaþátturinn sem við lítum á er hæð 500 hPa-flatarins, hún var í rétt rúmu meðallagi í vetur. Áratugasveiflur eru hér nokkuð áberandi - og flöturinn hefur fallið lítillega á tímabilinu í heild - en marktækni þeirrar leitni er engin. Með aukinni hnattrænni hlýnun ætti hæð 500 hPa-flatarins að aukast lítillega, en það hefur ekki gerst hér á landi - alla vega ekki enn.
Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Veturinn í vetur (2016 til 2017) var sá næsthlýjasti á öllu tímabilinu - aðeins var hlýrra 1963 til 1964. Í aðalatriðum fylgjast hiti á landinu og þykktin vel að (sjá fyrri pistla á hungurdiskum þar um) - en samt eru athyglisverðar undantekningar. Leitni þykktarinnar er aðeins minni en leitni hitans á sama tíma - enda kemur vel fram í háloftaathugunum frá Keflavíkurflugvelli að hlýnun undanfarinna áratuga er því meiri eftir því sem neðar dregur. (Sjá þar um í gömlum hungurdiskapistli).
Þykktin er meðaltal hita alveg upp í 500 hPa - minna hefur hlýnað þar uppi heldur en neðst og meðalhlýnun á bilinu niður í 1000 hPa því minni en neðst.
Breytingar á þykkt frá vetri til vetrar eru að miklu leyti skýranlegar með ríkjandi vindáttum og hæð 500 hPa-flatarins. Því hærri sem 500 hPa-flöturinn er því meiri er þykktin - því meiri sem sunnanáttin er því meiri en þykktin. Vestanáttin slær svo lítillega á - mikil vestanátt lækkar þykktina heldur.
Þetta sést vel á myndinni hér að ofan. Reiknað er samband þessara þriggja hringrásarþátta við þykktina (giskað á hana) - síðan er borið saman við rétta útkomu. Fylgnistuðull er 0,85 - þykktarbreytingar skýrast að mestu af hringrásarbreytileika. Leifin (munur á raunveruleika og giski) hefur þó farið vaxandi á síðari árum - (að meðaltali) - trúlega vegna hinnar áðurnefndu mishlýnunar neðri og efri laga veðrahvolfsins.
En - þótt við reynum hvað við getum og þótt við vitum af hlýnandi veðri sjást engin merki um að veðurlag hér á landi hafi að einhverju leyti umturnast á undanförnum árum. Þegar það gerist (ritstjórinn útilokar auðvitað ekkert slíkt í framtíðinni) - mun það koma fram á línuritum sem þessum. Líklegast er þó að það taki þá nokkur ár að verða augljóst að breytingar hafi átt sér stað.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:48 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.1.): 4
- Sl. sólarhring: 691
- Sl. viku: 3753
- Frá upphafi: 2428584
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 3353
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Trausti Jónsson hittir hér naglann á höfuðið :) Loftslag hefur verið óvenju stöðugt síðustu 150 ár, hitabreytingar litlar sem engar og veðuröfgar í lágmarki. Boðaðar ógn- og skelfingar katastrófur eru langt inni í framtíðinni, á hverjum tíma, og allar forspár sem tíminn nær að elta uppi gufa upp í ekki neitt!
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 21:33
gott hjá trausta. vandin við borkjarna jökla er sá að þettað er mjög staðbundin mælíng. en géfur vísbendíngar um fortíðina og foryíðinn á það til að endurtaka sig. síðan færast jarðflekar til eldgos í sjó sem breitir streimir sjávarstrauma. en það veldur áhyggjum að súrnun sjávar virðist vera staðreind hvað veldur veit ég ekki. en sjórin ræður veðurfari jarðar að mínu mati. svo súrnun veldur mér áhyggjum. en það hefur víst gerst áður svo menn ættu að vita afleiðíngarnar af því.
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 3.4.2017 kl. 07:00
Sæll Trausti og hafðu þakkir fyrir þessa fróðlegu og skemmtilegu pistla.Það er fastur liður í netrútínunni minni að kíkja hingað inn.
Gætiru frætt okkur um hvernig staðan á sjávarkuldapollinum suðvestur af landinu er og hvernig þróun hans hefur verið. Miðað við þær upplýsingar sem ég fæ út úr kortum er hann heldur að gefa eftir en nú er ég bara leikmaður.
Mbk,
Jóhann
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 3.4.2017 kl. 08:21
Garðyrkjumaður nokkur og trjáspekúlant sagði mér fyrir um 10 árum að meðalhiti á Íslandi væri nálægt mörkum þess að margar trjátegundir gætu myndað frjó fræ að hausti. Hann spáði því að ýmiss garðagróður sem til þessa hefur lítið getað dreift sér væri með slík mörk rétt neðan við hefðbundinn meðalhita, og með tiltölulega lítilli hlýnun gætu þessar tegundir farið að dreifa hratt úr sér. Hvort það sé eitthvert "stórslys" vil ég nú ekkert fullyrða um.
Hlýnun er enda ekki hættuleg á Íslandi, hin raunverulega hætta felst í landbúnaði úti í hinum stóra heimi. Vonandi verða breytingarnar ekki það hraðar að matvælaframleiðsla skerðist verulega með alvarlegum afleiðingum fyrir líf og afkomu jarðarbúa.
Brynjólfur Þorvarðsson, 3.4.2017 kl. 11:19
Jóhann, Trausti getur örugglega svarað þessu vel og skilmerkilega og verður gaman að sjá hvort hann hafi tíma til þess.
Fyrir okkur venjulegri nörd er gaman að skoða stöðuna á vefsíðu Nullschool.Þarna er hægt að kíkja afturábak einn dag í einu, litirnir sýna frávik sjávarhita frá meðalhita. Með því að ýta á j á lyklaborði má bakka einn dag í einu.
Það er gaman að skoða þetta, hvernig kuldapollurinn liggur þarna blár og illúðlegur sunnan lands - en hlýindi allt í kring.
Brynjólfur Þorvarðsson, 3.4.2017 kl. 11:26
„Blái bletturinn“ er enn til staðar suðvestur í hafi - útbreiddur en ekki mjög öflugur. Næsti möguleiki til að draga úr honum birtist í sumar þegar sólarylur gæti útrýmt honum eða rýrt hann. Slíkt er þó sýnd veiði en ekki gefin. - Hef skrifað nokkuð um þennan blett og ástæður þess að hann er þarna. Má finna það í eldri pistlum. Um ein áhrif „blettsins“ hér á landi má lesa í nýrri ársskýrslu Veðurstofunnar á bls. 4 og 5.
http://www.vedur.is/media/vedurstofan-utgafa-2017/VI_Arsskyrsla_2016_vef.pdf
Trausti Jónsson, 3.4.2017 kl. 11:47
Það er ekki dónalegt. Nærri tveir milljarðar í tekjur á árinu. Svo eru veðurfræðignar alltaf að kvara yfir fjárskorti stofnunarinnar!
Torfi Kristján Stefánsson, 3.4.2017 kl. 18:20
Bíðum við - hvar var hér minnst á 2 milljarða? Hungurdiskum algjörlega óviðkomandi alla vega.
Trausti Jónsson, 3.4.2017 kl. 18:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.