Vindáttir og hitafar, norðanáttir áberandi hlýrri en áður

Flestum mun ljóst að vindáttir þær sem leika um landið eru miskaldar (eða hlýjar). Norðanátt er að jafnaði kaldari en sunnanátt - hvort sem vetur er eða sumar. Það er því jafnaugljóst að séu suðlægar áttir ríkjandi er að jafnaði hlýtt í veðri, en aftur á móti kalt standi vindur sífellt af norðri. 

En þegar málið er athugað betur kemur í ljós að norðanáttin er misköld - auðvitað frá degi til dags - en líka frá einu tímabili til annars. Talsverðu getur munað. Ástæður eru ýmsar - oftast þó þær að uppruni loftsins er ekki endilega sá sami í hvert sinn sem vindur blæs af ákveðinni átt. - Svo er ástand yfirborðs á leið loftsins misjafnt - það skiptir t.d. máli fyrir hita norðanáttarinnar hér á landi hvort hún hefur blásið lengi yfir ísi þakið haf - eða autt. 

Ekki má taka það sem hér fer á eftir of bókstaflega - allskonar tölfræðilegur subbuskapur hefur verið viðhafður svo varla er til eftirbreytni.  

w-blogg051216a

Lítum fyrst á meðalhita (byggðir landsins) á ársgrundvelli í hverri höfuðvindáttanna átta. Tölurnar ná til tímabilsins 1949 til 2015. Athugið að meðalhiti landsins á þessum tíma er ekki beint meðaltal meðalatala vindáttanna, þær eru mistíðar og vega því ekki jafnt í heildarmeðalhita. 

Norðan- og norðaustanáttirnar eru langkaldastar, en sunnan- og suðaustanáttin hlýjastar. 

w-blogg051216aa

Hér má sjá vik áranna 2001 til 2015 miðað við allt tímabilið. Við sjáum að flestar áttanna hafa hlýnað, ekki þó suðvestanáttin og sunnanáttin hefur ekki hlýnað að ráði. - Þessar tölur eiga við allt árið. Norðan- og norðaustanáttirnar hafa hlýnað mest, um meir en 1 stig - miðað við tímabilið allt.

Það er þó ekki þannig að um jafna hlýnun sé að ræða. Þessi óformlega úttekt nær nefnilega aftur fyrir kuldaskeiðið sem plagaði okkur svo mjög á árunum 1965 til 1995.

Lítum nú á árstíðirnar á þessu tímabili - 7-ára keðjur og þrjár áttir saman í kippum - til að smala saman nægilega mörgum tilvikum öll árin.

w-blogg051216b

Veturinn fyrst, til hans teljast mánuðirnir desember til mars. Hér er áttum skipt í fjögur horn, norðaustanáttin og norðvestanáttin teljast til norðlægu áttanna auk norðanáttarinnar sjálfrar. Sama á við um aðrar áttir. „Milliáttirnar“ eru því hver um sig með í tveimur kippum. Norðaustanáttin er bæði norðlag og austlæg. 

Hiti norðlægu áttanna er neðst á myndinni. Hún var köldust á hafísárnunum - en hefur síðan hlýnað um meir en 3 stig (að vetrarlagi) - gríðarleg hlýnun, en verður þó ekki eins sláandi í samanburði við fyrstu ár tímabilsins en þá voru norðlægu áttirnar líka hlýjar miðað við það sem síðar varð. 

Austlægu áttirnar hafa líka hlýnað - en þær suðlægu og vestlægu eru nú á svipuðum slóðum og þær voru fyrir 60 árum. Suðlægu áttirnar voru hvað kaldastar um 1980, en þær vestlægu rúmum áratug síðar. Hér má (ef við viljum) sjá þrískiptingu kuldakastsins langa. 

w-blogg051216c

Sumarið lítur ekki ósvipað út (athugið þó að spönn sumarhitakvarðans er sjö stig á myndinni, en er tíu stig á vetrarmyndinni). Norðlægu áttirnar hafa hlýnað áberandi mest, voru um 7 stig að meðaltali á hafísárunum og reyndar mestallt kuldakastið, en hafa nú hækkað í nærri 9 stig. Austlægu áttirnar hafa líka hlýnað umtalsvert - þær suðlægu svo í einu þrepi á síðari hluta 10. áratugarins - en eitthvað virðist hafa slegið á hlýnun vestlægu áttanna á sumrin (þær hafa líka verið sjaldséðar). 

Sams konar æfingu mætti einnig gera fyrir háloftavindáttir, nú eða úrkomu eða aðra veðurþætti - hafa fleiri breytingar átt sér stað? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan verulega fróðlega pistil. Gott að fá það staðfest með tölum það sem manni hefur fundist. Norðanáttin tiltölulega hlý á síðustu árum hvort sem er sumar eða vetur. Eins og einhverntímann hefur komið fram hér á síðunni þá rignir í norðan eða norðaustanátt oftar og oftar yfir vetrarmánuðina. Ég þori næstum því að fullyrða að norðanhlákur að vetrarlagi voru ekki til á Norðurlandi fyrir 30-40 árum. Eða a.m.k. mjög sjaldgæfar. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 5.12.2016 kl. 15:38

2 identicon

ágæt grein.skil aldrei þessa veðurumræðu má varla koma smá hitabreitíng þá er komin harmageton. jörðin hefur geingið í gegnum margar veðurbreitíngar gegnum tíðina án hamfara. þó aðens séu liðnir nokkrir áratugir án freons er ósonlagið að þéttast. svo ekki tók það langan tíma til að gróa í freon fríju umhverfi. borkjarnar í jöklum hafa sint miklar sveiplur í umverfi jarðar án mansin. hugsa að flekaherifíngar hafi meiri áhrif á " hlínun jarðar " en það er gott að hugsa um umhverfið.nú verður gaman að skoða borkjarnana sem farið verður að boraá suðurskautinu aldrei að vita ofan á hitastig á jörðu milljónir ára aftur í timann, komi nokrir nýir steingerfíngar sem lifðu þar forðum daga,

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 5.12.2016 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010225b
  • w-blogg010225a
  • w-blogg290125d
  • w-blogg290125c
  • w-blogg290125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 38
  • Sl. sólarhring: 702
  • Sl. viku: 1940
  • Frá upphafi: 2438751

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 1780
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband