Af mannskaðaveðrinu 25. febrúar 1980

Í beinu framhaldi af umfjöllun um illviðrið mikla í september 1936 má rifja upp mannskaðaveður sem gerði 25. febrúar 1980. Veðrin tvö eru nefnilega ættingjar. Braut lægðanna og þróun þeirra var auðvitað ekki sú sama - en stærð kerfanna svipuð og veðurharkan svipuð. - Trúlega er þó einhver munur á orkubúskap - hlutur rakaþéttingar meiri í septemberveðrinu - en hlutur kalda loftsins snarpari í því síðara. Septemberveðrið var af suðrænni uppruna - stöðugleiki loftsins meiri og áhrif háloftarastar á vindhraða í neðstu lögum meiri - en stungan yfir Vestfjörðum - nærri lægðarmiðjunum mjög áþekk.

Þetta veður er ritstjóra hungurdiska sérlega minnisstætt því hann skrifaði hluta þeirra vitlausu spáa sem gerðar voru á undan veðrinu og vitleysan reyndi mjög á hann. Til fróðleiks eru spár þessa dags fyrir Vestfirði og Vestfjarðamið lagðar í viðhengið.

Slide1

Hér má sjá fréttasíðu úr Morgunblaðinu daginn eftir að veðrið gekk yfir - öll síðan aðgengileg á timarit.is. 

Lítum á lista yfir helsta tjón. Hann er úr veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska, unninn upp úr blaðafregnum og gögnum Veðurstofunnar.

Þrír rækjubátar fórust og með þeim 6 menn. Mörg skip og bátar áttu í erfiðleikum vegna brotsjóa og beið einn maður bana í slíku tilviki og fleiri slösuðust. Maður beið einnig bana er bíll fauk út af veginum yfir Hálfdán, bílar fuku víðar út af vegum, án teljandi slysa á fólki. Þak fauk af nýrri steypustöð í Ólafsvík. Víða á Vestfjörðum fuku þök og járnplötur af húsum.

Talsvert tjón varð í Breiðavík, þar sködduðust bæði íbúðarhús og kirkja, heyvagn fauk og fleiri skemmdir urðu, tjón varð einnig á Hvallátrum og mundu menn þar ekki verra veður, grjót fauk úr Látrabjargi upp á vitastæðið. Mikið fok og rúðubrot urðu á Þingeyri, þak fauk af nýbyggðu fjárhúsi og þak á íbúðarhúsi skaddaðist á Ketilseyri, nokkuð tjón varð einnig á Sveinseyri. Húsþak fauk í heilu lagi á Suðureyri og þar fauk fiskhjallur með fullhertum fiski, margir hjallar féllu, járnplötur fuku af 12 til 15 húsum á Suðureyri, þar hristist vatnsleiðsla í húsi í sundur. Tvær hlöður fuku á Galtarvita og hesthús í heilu lagi í Bæ.

Tveir gámar fuku í höfnina á Bíldudal og skemmdu trillu. Plötur fuku af nokkrum húsum á Ísafirði og á Siglufirði. Fjarskiptamastur fauk og eyðilagðist á Seltjarnarnesi. Flutningabifreið fauk út af veginum við Hafnarfjall, tveir bílar fuku á Sandskeiði og menn meiddust og fólksbíll fauk hring við Engihjalla í Kópavogi. Miklar rafmagns- og símatruflanir urðu og aurskriður og snjóflóð féllu á vegi.

Aðdragandi veðra af þessu tagi er svipauður - stór og mikil lægð kemur að Suður-Grænlandi - veldur landsynningsveðri hér á landi, útsynningurinn á eftir missterkur. Lægðin beinir mjög köldu lofti frá heimskautalöndum Kanada út yfir Atlantshaf þar sem það svo mætir miklu hlýrra lofti úr suðri eða suðvestri. 

Slide2a

Hér má sjá landsynningslægðina. Kortið gildir á miðnætti á föstudagskvöld 22. febrúar. Ekki varð mikið tjón í þessu veðri - en þó fauk þak af húsinu í Borgarnesi þar sem ritstjóri hungurdiska fæddist. - Það er reyndar þannig að mörg fárviðri eiga sér þetta sameiginlegt - einum til þremur dögum áður fýkur eitthvað í landsynningi í Borgarnesi, við Akrafjall eða vestur í Ólafsvík. 

Kvöldið fyrir fárviðrið var heldur lítið að hafa af upplýsingum um nýja lægð austur af Nýfundnalandi - og tölvuspár gerðu lítið úr henni - varla að markaði fyrir í sólarhringsspám. Þær miklu framfarir höfðu þó orðið frá 1936 að flesta daga var hægt að sjá gervihnattamyndir af svæðinu. 

Slide3

En reynsla í túlkun mynda af þessu tagi var rétt að verða til. Það sem sést á myndinni hringir bjöllum. Fjögur megineinkenni hratt dýpkandi lægða eru hér greinilega til staðar. Örvarnar benda á þau - oft getið í pistlum hungurdiska. Það er hins vegar erfitt að segja til um stefnu þessarar lægðar. Af hinum röngu tölvuspám mátti helst ráða að hún „straujaðist út“ - tættist í sundur og lenti að mestu fyrir austan land. Lát yrði á útsynningnum meðan hún færi hjá - en síðan bætti í hann aftur -  og yrðu jafnvel 7 til 8 vindstig að kvöldi mánudags eða aðfaranótt þriðjudags (sjá viðhengi).

Slide4

ERA-interim endurgreiningin (fyrsta tölvuafurðin sem náði veðrinu vel) sýnir stöðuna um miðnætti á sunnudagskvöld - um 4 klst. eftir að myndin var tekin. Ekki gott að segja nákvæmlega um stefnu lægðarinnar - fer hún fyrir vestan land eða yfir það? Dýpkar hún - eða ekki?

Slide5

Háloftakortið frá miðnætti sýnir lægðarbylgjuna allvel - þar sem græni liturinn stingur sér í átt til kuldapollsins mikla við Vestur-Grænland. (Þeir sem lásu síðari PP?-pistilinn taka líka eftir litlum kuldapolli yfir Frakklandi - og kannast við hlutverk hans). Hér sést sérlega vel að fárviðrislægðin tilvonandi er ekki stórt eða mikið kerfi um sig. Svipað átti við PP?-lægðina. 

Slide6

Klukkan 6 hafði lægin dýpkað um 13 hPa frá því á miðnætti - það vissi hins vegar enginn með vissu - og staðsetning var mjög óviss. En um þetta leyti fór loftvog að hríðfalla á Veðurstofunni og vaktveðurfræðingi (ritstjóranum) fór ekki að lítast á blikuna -  

Vaktir voru mjög stífar um þessar mundir. Sunnudagsvakt ritstjórans stóð frá kl.8 til 14 - hann mætti síðan aftur sama kvöld kl. 23 og var til kl. 7 - og kom síðan aftur kl.15 og var til kl. 23 - og svo aftur kl.7 morguninn þar á eftir kl. 7 og var til kl. 15 - tók þá sjónvarpsvakt til kl. 20:30 - kannski mætti segja frá þessari vaktatörn allri í ævisögu (sem ekki stendur til að skrifa). - En hann fór alla vega heim að sofa á mánudagsmorgni. 

Slide7

Um hádegi hafði lægðin dýpkað um 16 hPa til viðbótar (að sögn ERA-interim endurgreiningarinnar) og illt í efni. Allir komnir út í veðrið og það versta rétt að skella á. 

Slide8

Kl. 15 var þrýstingur í lægðarmiðju kominn niður í 956 hPa (hér að sögn japönsku endurgreiningarinnar - en hún nær veðrinu vel eins og era-interim). Japanir segja lægðina hafa verið 964 hPa á hádegi og dýpkun milli kl. 12 og 15 því 8 hPa. - Á Sólarhring dýpkaði lægðin um meir en 35 hPa - kannski nær 40 hPa. 

Slide9

Hér er Íslandskortið kl. 15 - veðrið er farið að ganga niður suðvestanlands en er í hámarki á Vestfjörðum og Norðurlandi. Fárviðri er á Galtarvita og Hornbjargsvita. 

Slide10

Myndin sýnir stöðuna um klukkan hálffjögur síðdegis. Lægðin búin að hringa sig í snúð og mynda eins konar auga. Hefði mynd verið tekin af PP?-lægðinni síðla nætur 16. september 1936 hefði hún líklega litið svipað út (skúraklakkarnir þó e.t.v. ekki jafnáberandi og hér). - Stærðin er alla vega mjög svipuð. 

Slide11

Nú - eitthvað varð að segja. En aðalafsökunin er munurinn á gæðum tölvuspánna - miðað við það sem nú er. Tölvuspár réðu alls ekki við lægðir af þessu tagi á þessum tíma - ekki einu sinni 12 til 24 stundir fram í tímann. - Vonandi gera þær það nú. 

Áður en evrópureiknimiðstöðin endurgreindi undir fyrirsögninni „era-interim“ hafði hún gert tilraun áður (2002) - fyrir sama tímabil (era40). Sú tilraun náði þessari lægð ekki - eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Slide12

Kortið gildir á hádegi. Þá segir interim-greiningin að lægðin hafi verið 966 hPa í miðju, og sú japanska að hún hafi verið 964 hPa. Hér má sjá töluna 982 hPa í miðju og munar að minnsta kosti 16 hPa frá líklega réttu gildi. Spár voru auk þess mun slakari 1980 heldur en líkönin 2002. - Ameríska endurgreiningin (2008) er mun betri í þessu veðri. Lægðin er ekki alveg í fullri dýpt - og er flatari í botninn. En vindhraði er gríðarlegur - hittir þó ekki alveg á Vestfirði. 

Kortið hér að ofan (era40-greiningin) minnir nokkuð á bandarísku endurgreininguna á PP?-veðrinu. Þó eru upplýsingarnar sem era40 hafði í 1980-veðrinu mun meiri en sú ameríska hafði í veðrinu 1936. 

Í þessum tilvikum báðum virðist upplausn líkananna skipta höfuðmáli - eitthvað mikilvægt rennur milli grófra möskva - en ekki þéttra. 

Slide13

Hér má sjá stein sem fauk úr Látrabjargi - langt upp í skafl í brekku þar fyrir ofan. - Ásgeir Erlendsson vitavörður á Látrum sendi ritstjóranum hann strax að loknu veðrinu og hefur hann setið á skrifstofunni síðan (hér ofan á 2. útgáfu Skriðufalla og snjóflóða Ólafs Jónssonar). 

Fleiri ættingjar þessara veðra bíða okkar - og veðurspámanna - í framtíðinni. Vonandi gengur betur við að eiga en 1936 og 1980. 

Áhugasamir geta rifjað upp textaspárnar sem lesnar voru í útvarp - þær eru í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 841
  • Sl. sólarhring: 897
  • Sl. viku: 2636
  • Frá upphafi: 2413656

Annað

  • Innlit í dag: 787
  • Innlit sl. viku: 2387
  • Gestir í dag: 764
  • IP-tölur í dag: 747

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband