Ættarsvipur með júlí nú og í fyrra (2016 og 2015)

Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í júlí - eins og í fyrra, en hún var þó vægari nú en þá og mun hlýrri. Byggðarhitinn nú reiknaðist 10,45 stig, en 8,64 stig í júlí 2015, Meðalhiti júlímánaðar frá 1931 til 2010, er 10,02 stig. 

Norðaustanátt var einnig ríkjandi í háloftunum í báðum mánuðum. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. 

w-blogg040816a

Hæðarhryggur er hér yfir Grænlandi en lægð austurundan. Litirnir sýna vik, bleikir jákvæð, en bláir neikvæð. Þetta er alveg sami svipur og í fyrra - en þá var allt samt öflugra - eins og sjá má á næstu mynd.

w-blogg040816b

Mikill ættarsvipur er með þessum kortum. - Að meðaltali er væg vestanátt ríkjandi í háloftunum í júlímánuði. Staða sem þessi hefur þó komið upp fyrr á tímum - en hin sterka staða í fyrra verður þó að teljast óvenjuleg. 

Næst lítum við á vestanþátt vindsins í háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli í júlímánuði allt aftur til 1952 - fyrst í sömu hæð og á kortunum hér að ofan, 500 hPa. Flöturinn sá er í um 5,5 km hæð yfir jörð að sumarlagi. 

w-blogg040816c

Lóðrétti ásinn sýnir styrk vestanáttarinnar í m/s, austanátt kemur fram sem neikvæð tala. Við sjáum að júlí 2015 hefur skorið sig mjög úr - en við tökum líka eftir því hversu austanáttir hafa verið miklu algengari síðasta áratuginn eða svo heldur en áratugina þar á undan - þetta atriði hefur reyndar verið til umræðu á hungurdiskum áður. Í pistli í vor kom fram að ritstjórinn er orðinn nokkuð langeygur eftir vestanáttarsumri - jú júlí 2013 var eitthvað í áttina - en frekar einstakur samt miðað við ástandið að undanförnu. 

Næsta mynd sýnir keðjumeðaltöl vestanþáttar í júlí - en fyrir fleiri hæðir, 850 hPa-flöturinn er í um 1500 metra hæð, 700 hPa í um 3 km, 300 hPa rúmlega 9 km, 100 hPa í rúmum 16 km og 30 hPa í um 24 km hæð.

w-blogg040816d

Það er bleika línan sem sýnir keðju gagnanna sem notuð voru á fyrri myndinni. Við sjáum strax að þessi vestanáttarrýrnun kemur fram í öllum hæðum - meira að segja í 30 hPa, talsvert uppi í heiðhvolfinu, þar sem bætt hefur lítillega í austanáttina (gögnin ná þar aðeins aftur til 1973). 

Í 850 hPa-fletinum (gráa strikalínan) valt meðaltalið í kringum núllið fram yfir 1990, en þá tóku austlægu áttirnar völdin - dálítill afturbati varð um aldamót. Myndin sýnir að síðustu 7 júlímánuði hefur eindregin vestanátt að meðaltali nær horfið úr öllu veðrahvolfinu - rétt að 300 hPa meðaltalið (græn lína) hangi vestanáttarmegin - langt neðan við „venjulegt“ ástand fyrri ára. 

En þessu ástandi hlýtur að linna - langtímauppgjöf háloftavestanáttarinnar í júlímánuði er varla á dagskrá. 

Í árstíðasveiflunni er háloftavestanáttin í lágmarki fyrstu 10 daga ágústmánaðar - eftir það fer að halla til hausts. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.3.): 12
  • Sl. sólarhring: 91
  • Sl. viku: 1217
  • Frá upphafi: 2455761

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1107
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband