Hlýrra hljóð í spánum (en ekki eindregið mynstur)

Fyrri hluti júlímánaðar hefur verið heldur svalur víðast hvar á landinu - sé miðað við síðustu tíu ár. Sé miðað við lengri tíma reynist kalda svæðið mun rýrara. - Hiti hefur verið rétt ofan meðallags síðustu tíu ára á strandsvæði frá Vattarnesi í austri og vestur um til Reykjaness - en inn til landsins á þessu svæði hefur hiti verið neðan meðallags, sem og annars staðar á landinu. 

Jákvæða hitavikið hefur verið mest á Ingólfshöfða +0,7 stig, og +0,6 við Skarðsfjöruvita, í Kvískerjum og í Vestmannaeyjabæ. Neikvæða vikið er aftur á móti mest við Upptyppinga og Siglufjarðarveg, -2,6 stig og telst það býsna mikið. 

Hin almenni kuldi kemur ágætlega fram á þykktarvikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar síðustu tíu daga og sjá má hér að neðan.

w-blogg150716b

Litirnir sýna þykktarvikið. Við Ísland er það mest -62 metrar, það jafngildir um -3 stiga hitaviki í neðri hluta veðrahvolfs. Enn kaldara hefur verið við Nýfundnaland og Suður-Grænland. Sömuleiðis hefur kuldinn teygt sig austur um Evrópu - en hlýtt hefur verið í Norður-Noregi og suður á Pýreneaskaga (sem allt í einu er orðin lenska að kalla Íberíuskaga - ritstjóranum er svosem sama). 

En nú ber svo við að breytingum er spáð. Spákort næstu tíu daga er mjög ólíkt hinu fyrra.

w-blogg150716a

Hér ríkja hlýindi um mestallt svæðið sem kortið sýnir. Vikið við Ísland er allt upp í 50 metra, þess er vænst að neðri hluti veðrahvolfs verði 2,5 stigum hlýrri en að meðaltali á þessu tímabili. - Þetta eru allmikil umskipti, meir en 5 stiga hlýnun. 

En hvort og hvernig þessi hlýindi skila sér í garða og á leikvelli landsmanna er svo óvíst. Trúlega verður hlýrra á nóttum en verið hefur - en minni munur á síðdegishitanum - alla vega á þeim svæðum landsins sem hafa upp á síðkastið notið óvenjumargra sólarstunda. - Sé eitthvað að marka þessa spá á annað borð er þó ábyggilega hægt að gera ráð fyrir því að umtalsvert hlýrra verði á hálendinu en verið hefur. 

Svo er annað mál að vikamynstrið er ekkert sérstaklega eindregið - það bendir heldur til þess að fjölbreytt veðurlag leynist á bakvið meðaltalið og lítt á vísan að róa. Úrkomuspáin sem fylgir gerir ráð fyrir að úrkoman verði undir meðallagi um mestallt land - lítið undir því vestanlands - en meira fyrir norðan. Spáð er að úrkoma verði samtals yfir meðallagi suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum þessa tíu daga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Að venju er lítið um haldbærar tölur í þessum "veðurfréttum"! Hvert er t.d. hitastig þessa mánaðar það sem af er að meðaltali: í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum? 10, 11 eða 12 gráður? Og hversu frábrugðið er það meðaltali síðustu 10 ára?.

Svo væri auðvitað fróðlegt að vita um úrkomumagnið. Hvað hefur rignt marga mm það sem af er mánuðinum og hver er yfirleitt meðalúrkoman á sama tíma? 

Með fyrirfram þökk!!

Torfi Kristján Stefánsson, 14.7.2016 kl. 22:38

2 identicon

Þetta líst mér á, þótt aldrei sé á vísan að róa með veður á Íslandi, sbr síkvika helgarveðurspá veðurstofunnar.

Guðrún (IP-tala skráð) 14.7.2016 kl. 23:01

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Meðalhiti í Reykjavík það sem af er mánuði er 11,6 stig, 9,7 á Akureyri og 9,2 stig á Egilsstaðaflugvelli. Vikin eru -0,1 stig, -1,1 og -1,1 stig á stöðvunum - miðað við síðustu 10 ár. Úrkoman í Reykjavík er 3,5 mm í mánuðinum, rún 10 prósent af meðallagi og með því minnsta á sama tíma, er 6,9 mm á Akureyri sem er um 46 prósnt meðalúrkomu á sama tíma. Úrkoma hefur mælst minni áður á sama tíma - þar á meðal 1938 þegar hún var engin orðin eftir 14 fyrstu júlídagana.

Trausti Jónsson, 15.7.2016 kl. 02:11

4 identicon

Takk fyrir þetta Trausti. Þegar maður heldur að hafi verið óvenjuhlýtt hér syðra þá er hitinn undir meðallagi! Svona getur sólin blekkt mann! Ef maður vill sjá hitamet þá er um að gera að biðja um skýjað veður og helst rigningu alla daga!

Nokkuð skondið svo að þú skulir segja að úrkoman það sem af er júlí á höfuðborgarsvæðinu hafi mælst minni árið 1938 en nú. Það er dálítið langt síðan ...

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 15.7.2016 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 52
  • Sl. sólarhring: 224
  • Sl. viku: 1017
  • Frá upphafi: 2420901

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 894
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband