Hringrás í júlí - (og veðurfarsbreytingar?)

„Spár“ um breytingar á veðurfari af völdum vaxandi gróðurhúsaáhrifa eru á margan hátt varasamar viðfangs - margt í þeim sem getur farið úrskeiðis. Þess vegna hafa menn fremur kosið að tala um framtíðarsviðsmyndir - bæði þá um losun gróðurhúsalofttegunda og annarra efna sem kunna að hafa áhrif á geislunareiginleika lofthjúpsins - sem og veðurfarslegar afleiðingar hverrar losunarsviðsmyndar. Við erum því - oft í einum graut - að tala um, losunarsviðsmyndir (losunarróf) og líklegt veðurlagsróf hverrar sviðsmyndar. 

Fjölmargar losunarsviðsmyndir hafa komið við sögu - miklu fleiri en svo að veðurfarsróf verði reiknuð að viti fyrir þær allar. Í reynd hefur verið valið úr og má lesa um það val í skýrslum milliríkjanefndar sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Til eru enn öfgafyllri sviðsmyndir en þar er minnst á. 

Í þessum sviðsmyndasjó og afleiðingarófi er í sjálfu sér enginn jaðar hugsanlegra framtíðarbreytinga - en þar er þó að finna umræður um 6 stiga hlýnun - bæði 6 stiga almenna hlýnun um mestallan heim, sem og 6 stiga hlýnun á norðurslóðum - en um tvö stig annars staðar. Hvort tveggja telst ekki ólíklegt - haldi losun áfram svipað og verið hefur. 

Við skulum hér líta á almennt ástand í neðri hluta veðrahvolfs í júlímánuði. Til að ræða það þurfum við að líta náið á myndina hér að neðan. Hún sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og 500/1000 hPa þykkt yfir norðurhveli í mánuðinum á árunum 1981 til 2010.

w-blogg260516a

Grunngerð myndarinnar er sú sama og lesendur hungurdiska hafa oft séð - nema hvað jafnhæðarlínur eru dregnar á hverja 3 dekametra í stað 6 sem venjulegast er, eru sum sé tvöfalt þéttari. Þykktin er sýnd í hefðbundnum litum (skipt um lit á 6 dam bili) en auk þess eru jafnþykktarlínur dregnar - líka á 3 hPa bili. - Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð. 

Mörkin á milli grænu og gulu litanna er að vanda við 546 dekametra, sú er meðalþykkt á Íslandi í júlí. Við megum taka eftir því að hér fylkir Ísland sér að nokkru leyti með heimskautaslóðum - víðast hvar er hlýrra í júlí á sama breiddarstigi heldur en hér - mjög ólíkt vetrarstöðunni. - Að sumu leyti er þetta heldur dapurlegt. 

En gerum nú nánari athugun - hér að neðan er sama kortið aftur - en bætt hefur verið við texta sem við skulum lesa saman. 

w-blogg260516b

Yfir norðurskautinu er meðalhæðin 5430 metrar, meðalþykkt er 5360 metrar. Þykktartalan ein og sér gefur til kynna að meðalhiti júlímánaðar við skautið sé 6 stig. Það er auðvitað ekki rétt, meðalhitinn er nærri núlli. Öflug hitahvörf sitja yfir Norðuríshafinu - ekki veit ritstjórinn hversu hátt þau ná að meðaltali - en ísinn kælir loftið sem liggur neðst um 5 til 6 stig. - Íshafið er svo stórt umfangs að blöndun að ofan skiptir ekki mjög miklu máli á þessum árstíma - .

Suður til Íslands vex meðalþykktin úr 5360 metrum upp í 5460 - það munar 5 stigum. Júlíhiti hér á landi „ætti“ að vera um 11 stig. Hann er ekki fjarri því inni í sveitum, en lægri við sjóinn þar sem einhver kæling á sér stað. 

Ísland er um 25 breiddarstig frá norðurskautinu - við skulum fara jafnlangan veg til suðurs, til Asóreyja sem eru nærri 40. breiddarstigi. Þar er meðalþykkt júlímánaðar komin upp í 5660 metra - einfalda þykktarsambandið reiknar meðalhita 21 stig. Á eyjunum er það ekki fjarri raunverulegum meðalhita í júlí. 

Lítum líka á flatarhæðina. Hún er sem fyrr segir 5430 metrar yfir norðurskautinu, er 5540 metrar yfir Íslandi og 5870 metrar yfir Asóreyjum. Um 110 metra munur er því á Íslandi og norðurskauti, en 330 metra munur er frá Íslandi suður til Asórseyja. Háloftavestanáttin er miklu stríðari sunnan Íslands heldur en norðan. - Jafnhæðarlínurnar eru mun þéttari. Belti með tiltölulega þéttum jafnhæðarlínum liggur reyndar í kringum norðurhvel allt á um 40 til 50 gráðum norðurbreiddar. 

Þykktar- og hæðarmunur norðan Íslands er nánast hinn sami (munar aðeins 10 m), en hæðarmunurinn er um 130 metrum meiri en þykktarmunurinn suður til Asóreyja. - Norðan Íslands er meðalþrýstisviðið mjög flatt í júlí, en um 16 hPa munar á meðalþrýstingi á Íslandi og Asóreyjum. 

Það er alsiða að framtíðarsviðsmyndir sýni hitabreytingar - og svo er að skilja að átt sé við hitabreytingar í 2 m hæð. En öll veðurlíkön - bæði stór og smá eiga við allskonar illkynjaðan vanda að etja í hitaspám fyrir þá hæð. Spár um þykkt eða annan háloftahita ættu að ganga mun betur. - En samt eru slíkar spár nær aldrei sýndar í ritgerðum um framtíðarsviðsmyndir. 

Um leið og farið er að leggja yfirborðshlýnunarmynstur undir myndir eins og þá hér að ofan fara að birtast óþægilegar spurningar. Er verið að sýna röskun á sambandi þykktar og hita á einstökum stöðum (en það er mjög misjafnt í reynd)? Eða getum við gengið út frá því að fullt samræmi verði á milli hita- og þykktarbreytinga í framtíðinni? 

Hvað eiga menn við með 6 stiga hitahækkun á norðurslóðum en 2 stigum annars staðar (talin heldur hófleg sviðsmynd)? Er átt við að hitahvörfunum sé svipt af norðurskautinu? Er átt við að hiti í neðri hluta veðrahvolfs (sem þykktin mælir) hækki um 6 stig? - Eða kannski einhverja samsuðu?

Það skiptir máli fyrir alla hringrás á norðurhveli hvor valkostanna á við - (valkostir eru líka fleiri). Sex stiga hitahækkun á Íslandi er nánast ómöguleg að sumarlagi nema meðalþykktin aukist til samræmis, þá um 120 metra. 

Fari þykktarbreytingar að verða mjög ójafnar raskast bylgjumynstrið um leið - og vestanvindabeltið breytir um svip - jafnvel mjög mikið. 

Ekki er talið útilokað að vestanvindabeltið hafi nánast horfið stuttan tíma að sumarlagi á allra hlýjustu jarðsöguskeiðum fortíðarinnar - .


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

nú virðist náttúran hafa læknað ósonlagið yfir suðurskautinu á nokkrum áratugum. mér virðist þetta nokkuð skjótur bati til þess aðþað sé eina skíringin sé minnkun á freoni í andrúmslofti ef ósonið þykkar verður þá stöðugra veður eða stöðugra varlakomnar nógu góðar rannsóknir til að fullyrða um það en etti samt að flæða færi rafsegulbylgjur ( held það heiti það) frá sólinni  gegnum  pólana.

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 18.7.2016 kl. 06:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband