Heimshiti - hiti hér á landi - fleiri hugleiðingar

Þessi pistill er enn meiri þrautaganga en sá fyrri - meira að segja þrekmenn hljóta að mæðast. - En veðurfarsnörd ættu að reyna lestur - aðrir bíða bragðbetri afla. 

En endurtökum fyrst síðustu mynd fyrra pistils - til upprifjunar.

w-blogg290416d

Hér hefur hitavikum í Stykkishólmi (grænir krossar) og heimshitavikum (bláir hringir) verið troðið á sömu mynd - auk þess má sjá 10-ára keðjumeðalöl sömu vika - Stykkishólmur bleikur, en heimurinn rauður. Troðslan fellst í því að heimshitakvarðinn (til vinstri) er aðeins þriðjungur stærðar Stykkishólmskvarðans (til hægri) - breytileikinn á bæði ára- og áratugakvarða er miklu meiri í Stykkishólmi heldur en á heimsvísu - á slíkt sjálfsagt við flesta staði heimsins - en mismikið þó.

Næsta mynd sýnir sömu 10-ára keðjur - nema hvað nú eru kvarðarnir þeir sömu fyrir báða ferlana.

w-blogg010516ba

Stykkishólmsferillinn er hér grár, en heimshitavikin rauð. Þegar við horfum á myndina skulum við hafa í huga að vikin eru stillt á tímabilið 1961 til 1990 - við hefðum getað miðað við eitthvað annað tímabil - t.d. annað hvort allan tímann frá 1850 - eða hlýskeiðið mikla 1931 til 1960. Samanburðarsýn okkar ræðst mjög af því hvaða tímabil er valið. Á þessari mynd skera hlýskeiðin sig úr - þau virðast mun afbrigðilegri heldur en kuldaskeiðin - og krefjast þar með sérstakra skýringa - en við sjáum þó vel að hlýnunin milli kuldaskeiða í Stykkishólmi fylgir um það bil hnatthlýnun. 

Við skulum líta á það sama - en einblína á hlýnun milli hlýskeiða.

w-blogg010516bb

Nú - hlýnun í Stykkishólmi milli tuttugustualdarhlýskeiðsins og þess núverandi virðist fylgja hnatthlýnun - rétt eins og hlýnunin milli kuldaskeiða - en hér æpa kuldaskeiðin á okkur - er það landsins forni fjandi sem heldur hitanum hér svona niðri? Eða er þetta bara sjónarhornið?

Við megum (helst) ekki reikna línulegt samband á milli keðjumeðaltala - en við megum taka stök 10-ára meðaltöl tímabilsins, velja tíundahvert meðaltal og bera saman raðirnar tvær. Útkomunni er ekki alveg sama hvaða áratugi við veljum - og gallinn er sá að sjálfstæðir samanburðaráratugir eru aðeins 16 - það er fulllítið. Hér veljum við áratuginn 1855 til 1864 sem þann fyrsta og 2005 til 2014 sem þann síðasta og búum til mynd.

w-blogg010516b

Fylgnin er býsna góð - hlýir áratugir ofan og til vinstri við línuna - en þeir köldu hinum megin. Eins stigs hækkun á áratugarhita á heimsvísu þýðir hér tæplega 1,9 stiga hitahækkun í Stykkishólmi. Annað val á áratugaröð gefur svipaða útkomu. 

Ekki allt búið enn. Á næstu mynd eru sýndar fjórar keðjur, 10-ára keðjan (sama mynd og að ofan), en einnig 30-, 50- og 100-ára keðjur. Myndin skýrist mjög sé hún stækkuð. 

w-blogg010516

Áratugasveiflurnar stóru í Stykkishólmi jafnast smám saman út, 10-ára keðjurnar eru í efra vinstra horni, 30-ára keðjurnar til hægri, 50-ára keðjurnar í neðra vinstra horni, og loks eru 100-ára keðjurnar neðst til hægri. 

Á 100-ára myndinni má sjá að bratti Stykkishólmslínunnar (hún er grá) er nokkru meiri en bratti heimshitans (rauð). Aldarheimshitinn hækkaði um 0,3 stig á meðan hitinn í Stykkishólmi hækkaði um 0,6 stig á sama tíma. 

En er nokkur glóra í að halda að þessi hallamunur haldi sér? - Á næstu 30 árum koma mjög hlý ár inn í hinn enda aldarhitans í Stykkishólmi - eigi aldarhitaferillinn ekki að beygja af (í átt til heimshitans) verða næstu 30 ár (í framtíðinni) að verða mjög hlý (alveg sama hvað heimshitinn gerir) - hlýindin verða eiginlega að verða með ólíkindum eigi hallinn 1,9 að haldast. 

Nú veit ritstjóri hungurdiska auðvitað nákvæmlega ekkert um framtíðina (frekar en aðrir) - en samt læðist sú skoðun að honum að 1,9 sé líklega of há tala þegar til lengdar lætur - myndirnar að ofan sem sýndu hlýnun milli kuldaskeiða annars vegar - og hlýskeiða hins vegar benda til lægri margföldunartölu - kannski hún sé 1,3 eða eitthvað svoleiðis?

En heimshitaraðir hadleymiðstöðvarinnar eru fleiri - hlutfall milli norðurhvelshlýnunar og Stykkishólmshita er ívið lægra en heimshitahlutfallið - og þurrlendishitavikahlutfallið (gott orð) enn lægra.

Tilefni er til enn frekari vangaveltna - mishitun í austri, vestri, norðri, suðri, og þurrlendis og sjávar getur skipt miklu máli fyrir hitaþróun hér á landi - eigum við að taka það mál síðar eða þegja?   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég þykist ekki vera veðurnörd en er greinilega samt sem áður með eitthvað blæti í þá átt.

Það er eitt atriði sem væri úrlausnarefni fyrir einhvern sem myndi vilja sökkva sér alveg á bólakaf í hitafræðin og það er að fara ofan í hitastigsskráningar á fiskiskipum. Öll skip halda afladagbók og þar er ekki einungis skráður afli, heldur veður, sjólag og hitastig sjávar ofl. Nú í seinni tíð  þá er botnhita einnig haldið til haga, amk. á sumum skipum.

Skora á einhvern að kafa í kjölinn á þessum gögnum, þarna gæti kistill geymt eitthvað sem vert er að opna.

Sindri Karl Sigurðsson, 1.5.2016 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 88
  • Sl. sólarhring: 234
  • Sl. viku: 1053
  • Frá upphafi: 2420937

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 930
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband