Sumar á suðurhveli

Nú er hásumar á suðurhveli jarðar. Kuldinn á Suðurskautslandinu gefur sig þó aldrei. Kortið hér að neðan sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina í greiningu bandarísku veðurstofunnar síðdegis í dag (föstudaginn 22. janúar).

w-blogg230116a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar en litir sýna þykktina. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Hér þarf auðvitað að gæta þess að vindur blæs í stefnu með lægri flöt á hægri veg - öfugt við það sem er hér á norðurhveli. Þess vegna er alltaf dálítið ruglandi að horfa á suðurhvelskort - jafnvel fyrir veðurkortavana. - En stefna snúningsáss (mönduls) jarðar ræður þessu og hún er auðvitað sú sama á báðum hvelum - úr geimnum séð þótt á norðurskauti heiti sú stefna upp, en niður á suðurskautinu - en er samt hin sama. 

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu litanna og þess gula (sumarmörkin) eru við 5460 metra (kvarðinn batnar sé kortið stækkað). Sjá má að mjög hlýtt er yfir meginlöndunum - helst að kuldi skjóti sér í bylgjum í átt til Eldlandsins, syðst í Suður-Amaríku, nærri hinum illræmda Hornhöfða þar sem veður eru hvað verst á siglingaleiðum heimsins. Þar verður stormur á mánudaginn - sé að marka spár. 

Örin bendir á fellibyl á suður Indlandshafi. Hann ógnar hvergi landi, en gæti verið varasamur skipum á leið á milli Suður-Afríku og Ástralíu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þetta er athyglisvert kort. Sá er þetta ritar er einmitt staddur um borð í skipi úti fyrir Eldlandinu ( Tierra del Fuego) og erum að vinna alveg suður að Hornhöfða( Capo de Hornos).

Þó nú eigi að heita hásumar á þessum slóðum hafa veður verið mjög slæm og hér hafa dunið á hver stormurinn af öðrum, með slyddu og snjóéljum, auk mikils vindstyrks. Í þarsíðustu viku lágum við í vari, ásamt fleiri skipum, þar á meðal einu skemmtiferðaskipi, í einum versta hvellinum sem gert hefur í sumar. SV 58-62 hnúta meðalvindur og rauk í 75 í hviðum. Skítkalt að sjálfsögðu, enda góður og stór kælir suður af okkur, sem á engan sinn líkann á jörðinni. Það er ekki laust við að maður leyfi sér að efast um alla þessa hnattrænu hlýnun, siglandi hér um hásumar í snjó og hríðarbyljum. Erum þessa stundina að sigla nær landi, til að vera í skjóli þegar mánudagsskotið kemur. Veðurspár eru yfirleitt mjög góðar og nákvæmar fyrir þetta hafsvæði, en eiga það flestallar sameiginlegt að spá nær undantekningalaust tíu og stundum allt að tuttugu hnútum minni vindi en raunin er síðan. Þetta venst að sjálfsögðu, en er samt það eina sem mætti taka til skoðunar hjá þeim sem spá.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 23.1.2016 kl. 20:10

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka fréttirnar að sunnan Halldór. Ísöldin er orðin ansi löng á Suðurskautslandinu - og varla lát á á næstunni. 

Trausti Jónsson, 23.1.2016 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 91
  • Sl. sólarhring: 237
  • Sl. viku: 1056
  • Frá upphafi: 2420940

Annað

  • Innlit í dag: 83
  • Innlit sl. viku: 932
  • Gestir í dag: 82
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband